Færsluflokkur: Lífstíll

Mælifellshnjúkur (1.147 m)

Hvítan hest í Hnjúkinn ber,
Hálsinn reyrir klakaband.
Þegar bógur þíður er,
Þá er fært um Stórasand.

(Gamall húsgangur úr Skagafirði, höfundur ókunnur)

Þegar komið er í Skagafjörð og ekið frá Varmahlíð í suðurátt sker eitt fjall sig vel frá öðrum fjöllum og gnæfir yfir, það er Mælifellshnjúkur. Einskonar konungur Skagafjarðafjalla. Því var því auðvelt að velja Mælifellshnúk hjá Villiöndunum, göngu og sælkeraklúbb en hann dvaldi í fimm daga gönguferðalagi í Skagafirði. Nafn fjallsins vísar til þess að í öllu norðurhéraði Skagafjarðar er Mælifellshnjúkur ríkjandi kennileiti í suðri og frá mörgum bæjum markaði hann hádegi hinna gömlu eykta.

Mælifellshnjúkur breytir mjög um svip eftir því hvaðan á hann er horft, minnir á píramída úr norðri séð og ekki síður  sunnan af öræfum en aflangur. Minnir mig á Súlur við Akureyri í byggingu og er einstakt útsýnisfjalla af því að það stendur stakt, stutt frá hálendinu, svipað og Bláfell á Kili.

Á hnjúkinn má ganga eftir fleiri en einni leið, t.d.  upp eftir röðlinum að norðan og eins með að fara upp í Tröllaskarðið milli hnjúksins og Járnhryggjar og þaðan á hnjúkinn. Villiendurnar ákváðu að fara öruggustu leiðina, ofurstikuð gönguleið en gengið er frá bílastæði við Moshól í Mælifellsdal. Sama leið var farin til baka. Skagfirðingar hafa sett upplýsingaskilti við helstu göngufjöll í sýslunni og er það þeim til mikils sóma.  

Á uppgöngunni var boðið upp á ýmsa afþreyingu, m.a. var þagnarbindindi yfir 20 stikur og átti menn að hugsa til þess hvernig þeir ætluðu að fagna á toppnum. Þegar á toppinn var komið tóku göngumenn út fögn sín í gjólu. Útsýni var frábært, þó var skýjabakki í austri og ekki sá í Kerlingu í Eyjafirði og Vatnajökul en farinn var örnefnahringur og komu flest upp og útsýni yfir tíu sýslur stórbrotið.   Á niðurleiðinni var hraða farið en gert stopp fyrir jógaæfingar og hnjúkurinn tekinn inn í nokkrum æfingum.

Mælifellsdalur fylgdi okkur alla leið og liggur Skagfirðingaleið um hann um Stórasand. Þar riðu hetjur um héruð áður fyrr.

Á toppi hnjúksins er stæðilega landmælingavarða og VHF-endurvarpi björgunarsveitanna. Einu vonbrigðin voru þau að engin gestabók var í kassa við vörðuna en alltaf er gaman að kvitta fyrir að toppa.

Það er gaman að þessu viðmiði með sýslunar tíu en núna eru sýslumenn aðeins níu talsins. Áður fyrr voru sýslur og sýslumenn upphaf og endir alls en þegar mest lét voru  sýslur 24. Tímarnir eru breyttir.

Jarðskjálftahringa hafði staðið yfir og höfðu ekki hróflað við hnjúknum en berggrunnur Mælifells er 8 til 9 milljón ára gamall og hnjúkurinn sjálfur um milljón ára gamall en efri hlutinn er úr Móbergi. Fjallið hefur staðist jarðskjálfta lengi og í góðu jafnvægi en í lok síðustu ísaldar hefur orðið berghlaup úr fjallinu og gengum við upp úr því í Mælifellsdal.

Í norðri sá Hnúkstagl röðullinn sem gengur norður af hnjúknum og út fjörðinn en þar fanga Drangey, Málmey og Þórðarhöfði augað. Austan héraðs rísa Blönduhlíðarfjöllin með Glóðafeyki stakan. Ágætlega sást inn Norðurárdal, Austurdal og hrikaleg gljúfrin. Hofsjökull og Kerlingarfjöll komu næst en nær og vestar fjöll á Kili, Kjalfell, Rjúpnafell og Hrútfell sem rís austan Langjökuls.  Eiríksjökull var áberandi og nær Blöndulón og er þar að líta sem haf. Lengra í burtu sást til Baulu, Snjófjalla og Tröllakirkju en við keyrðum framhjá þeim og heilsuðum daginn áður.

Í næsta nágrenni sást í Nónfjall, Reykjafjall og Kirkjuburst en norðar Hellufell, Grísafell og Kaldbakur og Molduxi.  Yst við fjarðaminnið að vestan sást svo efnismesta fjall sýslunnar Tindastóll en við áttum eftir að heilsa upp á hann síðar í ferðinni. Við heilsuðum honum.

Mælifellshnjúkur

Konungur Skagafjarðar, Mælifellshnjúkur með Járnhrygg, Tröllaskarð og Hnúkstagl, röðullinn sem gengur norður af hnjúknum. 

Dagsetning: 23. júní 2020
Göngubyrjun: Bílastæði við Moshól í Mælifellsdal,  500 m   (N: 65.23.193 – W:19.24.063)
Mælifellshnjúkur - varða: 1.147 m  (N: 65.23.325 – W: 19.21.094)
Hækkun göngufólks: 640 metrar
Uppgöngutími: 230 mínútur (10:10 – 14:00)
Heildargöngutími: 350 mínútur (10:10 – 16:00)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 12,6 km
Veður – Stafá kl. 13.00: Léttskýjað, NA 4 m/s, 10,7 °C, rakastig 73%.
Þátttakendur: Villiendur. 16 göngumenn.
GSM samband: Já, 4G
Gestabók: Nei, tómur kassi.
Gönguleiðalýsing: Greiðfær og gróin í fyrstu, síðan traustur melur. Skemmtileg og drjúg fjallganga á frábæran útsýnisstað.

Eldra eða annað nafn: Mælifell.

Facebook-status: Þriðjudagur til þrautar og sælu. Löguðum í hann snemma að Mælifellshnjúk. Gengum hann á frábæru tempói. Magnað útsýni, frábær félagsskapur sem við hjónin erum svo heppin að vera með í. 

 

Heimildir
Ferðafélag Íslands árbók 2012, Skagafjörður vestan vatna.
Íslensk fjöll - Gönguleiðir á 151 tind


Þyrill (393 m)

Fjallið Þyrill í Hvalfirði setur mjög mikinn svip á umhverfi fjarðarins. Það rís þverbratt og hömrum girt upp norðaustur og upp af Þyrilsnesi.Þyrill er fjallsröðull myndaður við rof skriðjökla sem brotist hafa meðfram fjallinu, báðum megin.

Leiðin upp á fjallið liggur upp Síldarmannabrekkur það eru gamlir götuslóðar um Botnsheiði yfir í Skorradal. Þegar á sléttun er komið skilja að leiðir og stefnt á topp Þyrils. Margir fara sömu leið til baka en við fórum umhverfis Þyril og komum niður hjá hvalstöðinni.

Það sem er áhugavert við þessa leið sem er auðveld norðaustur af fjallinu niður Litlasandsdal, með Bláskeggsá niður á þjóðveg. Einnig má hefja gönguna frá þessum stað við  olíutanka NATO en fara þar yfir á á leiðinni.

Yfir Bláskeggsá var byggð fyrsta steinbrú á landinu árið 1907 og upplagt að líta á hana í leiðinni. 

Mikið útsýni er af Þyrli yfir Hvalfjörð og ber Þyrilsnes með Geirshólma af. Það er skemmtilegt að rifja upp söguna af Helgusundi þegar Geirshólmi sést.

"Helga er nú í hólminum og þykist vita nú allar vælar og svik landsmanna; hún hugsar nú sitt mál. Það verður nú hennar ráð, að hún kastar sér til sunds og leggst til lands úr Hólminum um nóttina og flutti með sér Björn, son sinn, fjögra vetra gamlan, til Bláskeggsár, og þá fór hún móti Grímkatli, syni sínum, átta vetra gömlum, því að honum dapraðist sundið þá, og flutti hann til lands. Það heitir nú Helgusund."

Þá kunnu Íslendingar að synda svo tapaðist kunnáttan niður eftir þjóðveldisöld en kom aftur á 19. öld.

Á fastalandinu í botni fjarðarins gnæfir Hvalfell með Botnsúlur til hægri. Múlafjall og Reynivallaháls og yfir honum sér í eftir hluta Esjunnar. Akrafjall er eins og eyja og Hafnarfjall og Skarðsheiðin á hægri hönd. Brekkukambur gnæfir yfir hvalstöðinni. Í norðri fjær sér í snæviþakið Ok og Fanntófell. Næst í hömrum Þyrils sér í Helguskarð en þar kleif Helga upp fjallið með syni sína tvo er hún hélt austur yfir Botnsheiði til Skorradals.

Þegar komið var niður Litlasandsdal sáum við merkilega brú. Brúna yfir Bláskeggsá sem byggð var árið 1907 og var hún fyrsta steinsteypta brúin á Íslandi utan Reykjavíkur.

Þyrill

Útsýni af vörðu á Þyrli. Glæsilegt Þyrilsnes skagar út í Hvalfjörðinn og Geirshólmi einstakur með Reynivallaháls og Esjuna í öllu sínu veldi á bakvið.

 

Dagsetning: 16. maí 2020
Hæð í göngubyrjun: 27 metrar, við upphaf Síldarmannagötu (N: 64.23.247 – W:21.21.587)
Þyrill - varða: 392 m (N: 64.23.576 – W: 21.24.582)
Hækkun göngufólks: 365 metrar
Uppgöngutími: 120 mínútur (09:00 – 11:00)
Heildargöngutími: 255 mínútur (09:00 – 13:15)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 10 km
Veður - Botnsheiði kl. 11.00: Léttskýjað, NNA 5 m/s, 2,3 °C
Þátttakendur: Fjallkonur. 10 göngumenn og einn hundur.
GSM samband: Já, 4G
Gestabók: Nei
Gönguleiðalýsing: Greiðfærar skriður og melar, grónir að hluta. Spordrjúg leið umhverfis svipmikið fjall. Ekki komið niður á upphafsstað. Upphaf við Síldarmannabrekku og endað við hvalstöðina.

Facebook-status: Takk fyrir daginn elskur. Það má segja að við höfum sloppið við að þyrla upp miklu ryki á Þyrli í dag. Frábær ganga í enn betri félagsskap! 

Heimildir
Brúin yfir Bláskeggsá - RUV.is, 25.4.2010
Íslensk fjöll - Gönguleiðir á 151 tind
Helgusund - Morgunblaðið, 11. ágúst 2003

 

 


Bláfell hjá Kili (1.204 m)

Stór er Íslands eilíf mynd
   - Enn er tjaldið dregið frá:
Bláfell upp í ljómans lind
Lyftist hreint úr daggarsjá
Móðir guðs hinn tigna tind
Tásu hvíta breiðir á.
       (Jóhannes úr Kötlum (Leiksvið)

 

Það eru fjögur Bláfell á landinu bláa. í fjallgöngunni var gengið á góða veðurspá með Ferðfélagi Ísland og markmiðið að bæta bláu felli í litasafnið ásamt 60 öðrum söfnurum. Fyrir valinu var Bláfell hjá Kili (1.204 m) En fjöll með litanöfnum eru eftirfarandi:

Rauðafell, Grænafell, Bláfell, Svartafell/Svartfell, Hvítafell/Hvítfell og Gráfell.

Mörg örnefni á Íslandi tengjast litum, t.d. Rauðhólar, Rauðisandur og Rauðifoss, og eru rauðir litir í örnefnum oftast skýrðir með lit berggrunns eða jarðefna. Hins vegar tengist blár litur í örnefni oftast fjarlægð og skýrist af áhrifum andrúmsloftsins á ljós. Grænn litur tengist yfirleitt gróðri.

Annars þarf maður að herða sig, aðeins kominn með Svartfell í safnið. Einnig Grænudyngju en spurning hvort hún teljist með.

Bláfell er raunar fyrir sunnan Hvítárvatn og engan veginn á Kili, en þetta er mikið fjall og fagurt og girnilegt til fróðleiks. Það er ílangt nokkuð í stefnu NA-SV, og hátindurinn, 1204 m., lítill um sig, en allbrattur, er framan til við miðju og skilinn af skarði frá norðurbungu fjallsins, sem er nokkru lægri, 1160 m. Bláfell er úr móbergi og bólstrabergi upp undir brúnir, en grágrýtislögum þar fyrir ofan. Að þessu leyti má það teljast til þeirrar fjallgerðar, sem nefnd hefur verið stapi. Fellið hefur orðið til á hinu grimma, næstsíðasta jökulskeiði ísaldarinnar. Þegar aftur kólnaði á síðasta skeiði ísaldarinnar, lagðist jökullinn yfir Bláfell á nýjan leik og mýkti ásýnd þess og gerði óreglulegt. Minnir mig á Úlfarsfell.

Bláfell sést víða að og þjóðsögur um bergrisann Bergþór sem þar hefur búsetu eru vel þekktar. Ekki fundum við Bergþórshelli og ketilinn stóra með rjúpnalaufum.

Þrátt fyrir að þjóðvegurinn yfir Kjöl liggi við rætur fjallsins og tiltölulega auðvelt sé að ganga á fjallið, fara sárafáir þangað upp.

Geysivítt útsýni er af Bláfelli. Einbeitum okkur fyrsta af jöklunum en þeir verða ekki í boði eftir 200 ár ef ekki næst að að koma böndum á hamfarahlýnun af mannavöldum. Ef horft er á jöklaseríuna sem er í boði þá er er fyrst að nefna Langjökul með tignarfaldinn hvíta og Jarlhettur í forgrunni. Í vestri eru Þórisjökull og Geitlandsjökull og yfir Langjökli sést Eiríksjökull. Hrútfell, annar stæðilegur stapi, með jökulhettu á kolli. Til hægri sést Hofsjökull breiða úr sér en síða taka við Kerlingarfjöll með sínar fannir. Í miklum fjarska yfir Kerlingarfjöll, sést til Tungnafellsjökuls og Vatnajökuls frá Bárðarbungu til Öræfajökuls.

Í suðri sér til Eyjafjallajökuls, einnig hluta af Mýrdalsjökli. Í vestri sér í jökullaust Ok og þá er jöklahringnum lokað. Ég saknaði þó Tindfjallajökuls en Hekla skyggir á hann.

Örnefni utan jökla eru Jarlhettur tignarleg 15 km röð mishárra tinda og fylgdu okkur alla leið. Geldingafell er næst Bláfelli og handan er Skálpanesdyngjan og móbergsstapinn Skriðufell sem gengur út í Hvítárvatn. Norðan vatnsins er Leggjabrjótur, mikil dyngja  með sinn stóra gíg, Sólkötlu á kolli og Kjalfell sem Kjalvegur dregur nafn af.

Í ríki Vatnajökuls sést Hamarinn og Kerlingar, Tungnárfjöll og Fögrufjöll með dökkan Sveinstind við Langasjó. Í suðri ber mikið á Heklu og Vestmannaeyjar sjást. Vörðufell á Skeiðum, Hestfjall, Hestvatn og Mosfell sem við keyrðum framhjá. Ingólfsfjall, Apavatn, Bjarnarfell og Sandfell. Útfjöllin: Rauðafell, Högnhöfði og Kálfstindur. Síðan Hlöðufell og Skjaldbreiður. Á milli þeirra er Ármannsfell. Í forgrunni er Klakkur umvafinn tignarfaldinum hvíta.

Bláfell

Gangan hófst við bílastæði á móts við Illagil við Bláfellsháls og var gengið um mela að fjallsrótum.. Þegar á háfjallið er komið er afar víðsýnt til allra átta.

Dagsetning: 27. október 2019
Hæð í göngubyrjun: 570 metrar, Bláfellsháls (N: 64.29.814 – W:19.55.416)
Bláfell - hnjúkur: 1.204 m (N: 64.29.287 – W: 19.51.525)
Hækkun göngufólks: 634 metrar
Uppgöngutími: 170 mínútur (10:30 – 13:20)
Heildargöngutími: 300 mínútur (10:30 – 15:30)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 8 km
Veður - Hjarðarland kl. 12.00: Heiðskýrt, NA 2 m/s, -0,4 °C, raki 53%
Þátttakendur: FÍ, gengið á góða spá. 60 göngumenn 2 hundar og 22 bílar.
GSM samband: Já, 4G
Gestabók: Nei
Gönguleiðalýsing: Greiðfærir melar að fellsrótum. Síðan tekur við móbergshella með lausamöl, skriður og snjór í efri hluta. Stórgrýtt efst. Gengið á allt of sjaldan.

Facebook-status: Takk fyrir frábæran dag á einhverju besta útsýnisfjalli landsins!

 

Heimildir
Fjallajarðir og Framafréttur Biskupstungna – FÍ 1998
Íslensk fjöll - Gönguleiðir á 151 tind
Íslenskar þjóðsögur og ævintýri – Jón Árnason


Ármannsfell (766 m)

og kjarrið græna inn í Bolabás
og Ármannsfellið fagurblátt
og fannir Skjaldbreiðar
og hraunið fyrir sunnan Eyktarás.
         (Einu sinni ágústkvöldi eftir Jónas Árnason)

Það var stórbrotið veður og haustlitir skörtuðu sínu fegursta þegar gengið var á Ármannsfell sem er norðan við Þingvallaþjóðgarðinn og setur mikinn svið á allt umhverfið. Fellið hefur setið fyrir á ófáum málverkum og ljósmyndum í gegnum tíðina. Það er mjög gaman að ganga á það og virða fyrir sér Þingvallasvæðið frá skemmtilegu sjónarhorni.

Ármannsfell, 766 m mosavaxið móbergsfjall. Sunnan undir því er Bolabás, þar voru kappreiðar haldnar áður fyrr í Skógarhólum en nú er þar góð aðstaða fyrir hesta og hestamenn.

Gangan hófst vestan við Sleðaás, sunnan undir fjallinu. Byrjuðum að ganga í kjarri þangað til komið var upp á Sleðaás. Þaðan er greið leið eftir hrygg  á fjallið þar sem fyrst er komið uppá  mosavaxna suðurbrúnina. Síðan tekur við alllöng ganga norður á hæsta hnjúkinn. Dalir eru austan megin og þegar komið er vel upp á brúnina sjást tveir kollar. Hæsti hnúkurinn með vörðu er á milli þeirra.

Ármannsfell dregur nafn sitt af hálftröllinu Ármanni. Hann hafði víst haft þann starfa að standa fyrir kappglímum milli trölla og hálftrölla á Hoffmannaflöt undir Meyjarsæti, sem er austan við fjallið, en mun hafa gengið í fjallið að leiðarlokum.

Ármannsfell bauð upp á rándýrt útsýni, milljarða krónu viðri. Hefjum augnveisluna á jökullausu Oki með Fanntófell í forgrunn. Síðan tekur Þórisjökull við og Kaldidalur á milli. Í brekkunni fram unda Þórisjökli eru Hrúðurkarlar og síðan Litla- og Stóra-Björnsfell. Það bjarmaði fyrir Langjökli. Horfun okkur nær: Langafell, snjólaus Skjaldbreiður sem ber af öðrum fjöllum, síðan Hlöðufell, Bláfell fjær, fönguleg Skriða, Lágafell liggur næst Ármannsfelli, Tindaskagi, Klukkutindar, Kálfstindar, Hrafnabjörg, Miðdalsfjall og Fagradalsfjall. Arnarfell, Miðfell við Þingvallavatn. Horfum fjær: Sjáum topp Heklu, Eyjafjallajökull, Vestmanneyjar, Búrfell, Ingólfsfjall, Hellisheiði, Skálafell, Hengill, Lambafell, Sauðdalahnúkar, Blákollur, Vífilsfell og Bláfjöll.  Síðan tökum við Reykjanesfjöllin: Trölladyngja, Keilir og Fagradalsfjall sjást greinilega.  Komum okkur aftur á Þingvallavatn og horfum í suður og sjáum Grafningsfjöll og síðan Hrómundartind. Þá sér yfir Mosfellsheiði, Grímmannsfell, Úlfarsfell og Esjuna með Móskarðsnúka, Skálafell, Búrfell, Kjölur og tignarlegar Botnsslúlur með Gagnheiði á milli og Kvígindisfell og Þverfell fjær. Akrafjall með Geirmundartind og Skarðsheiði lengra í vestri.

Við söknuðum að sjá ekki Hvalfell en það er á bakvið Botnssúlur og Baulu í Borgarfirði.

Einfaldast og öruggast er að fara sömu leið til baka en við ákváðum að fara beint niður, styttri leið en brattari og giljum og uppþornuðum árfarvegi fylgt. Mögulega tekið lengri tíma eftir allt saman. En vara þarf sig á að laus möl getur legið yfir móbergshellunni.

Aðrar leiðir eru að beygja við eyðibýlið Svartagil og ganga upp samnefnt gil.

Hin er að keyra aðeins lengra áfram eftir veg 52 Uxahryggir og hefja gönguna austan við Sleðaás í Krika.

Varða á Ármannsfelli

Varða á toppi Ármannsfells í 766 m hæð. Dýrt útsýni og ægifegurð. Skjaldbreiður og Hlöðufell í beinni línu. 

Dagsetning: 28. september 2019
Hæð í göngubyrjun: 143 metrar, Bolabás (N: 64.17.705 – W:21.03.580)
Ármannsfell - varða: 766 m (N: 64.19.600 – W: 21.01.956)
Hækkun göngufólks: 623 metrar
Uppgöngutími: 180 mínútur (10:00 – 13:00)
Heildargöngutími: 330 mínútur (10:00 – 15:30)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 10 km
Veður Þingvellir kl. 12.00: Léttskýjað, SV 2 m/s, 10,6 °C, raki 63%
Þátttakendur: Villiendurnar, 3 göngumenn.
GSM samband: Já, 3G
Gestabók: Já, Fella- og fjallgönguverkefnið Sveitin mín
Gönguleiðalýsing: Greiðfær en nokkuð um mosa og lausagrjót, og grýtt uppi á fellinu. Létt og gefandi fjallganga. Fellið er við alfaraleið en gengið allt of sjaldan.

Facebook-status: Guðdómlegt gönguveður í dag og fjöllin skörtuðu sínu fegursta hvert sem litið var. Alveg frá jökullausu Oki til Mariannelund!

Heimildir
Íslensk fjöll – gönguleiðir á 151 tind: Ari Trausti Guðmundsson, Pétur Þorleifsson
Ferðafélag Árnesinga: Ármannsfell 26. júní 2010 og Ármannsfell 9. september 2017

 


Siglufjarðarskarð (630 m)

Það eru tveir möguleikar á að hefja göngu um Siglufjarðarskarð úr Fljótum. Sá fyrri er að hefja göngu eftir vegaslóðanum sem gerður var 1946 og er vel fær. Hinn er að hefja gönguna vestan frá Heljartröð skammt norðan Hrauna í Fljótum.

Gönguhópurinn lagði í ferðina frá Heljartröð í glæsilegu veðri, heiðskýrt og fallegu veðri. Gönguslóðin er augljós allan tímann upp grasi grónar brekkur í suðurhlíð Hraundals og aflíðandi brekkur vestan í Breiðafjalli. Þegar Skarðið nálgast þá er komið inn á Skarðsveginn sem er jeppafær.

Illviðrishnjúkur (895 m) er tignarlegur skammt norðan Skarðsins og þrjú rafmagnsmöstur minna á sköpunarkraft mannsins sem getur bæði gefið líf eða drepið.

Fagurt útsýni er úr skarðinu til beggja átta, Siglufjarðar og Skagafjarðar. Upplýsingaskilti með gestabók er í Skarðinu en ljóst er að fjallvegurinn er ekki á fjárlögum hjá Vegagerðinni því mikið hrun hefur komið úr hömrunum. Nokkrum dögum fyrir gönguna voru jarðskjálftar fyrir norðan Siglufjörð upp á 4,6 og mögulega hafa þeir bætt á hrunið.

Ekki urðum við vör við óværu nokkra en hennar er getið á upplýsingaskiltinu en vondir andar sem voru í skarðinu var stefnt í Afglapaskarð 1735 af Þorleifi prest. Eru þeir væntanlega þar enn.

Siglufjörður blasti fagur við þegar gengið var um Skarðið. Skarðsvegurinn hlykkjaðist niður fjörðinn og framkvæmdir voru við skíðasvæðið í Skarðsdal. Endað var  við skógrækt Siglfirðinga, nyrsta skóg á Íslandi. Gróskumikill og fallegur skógur sem bindur kolefni og einnig mikið notaður til útivistar. 

Upphaflega var fjallseggin í skarðinu svo mjó að þar mátti sitja klofvega með annan fótinn í Skagafjarðarsýslu en hinn í Eyjafjarðarsýslu. Í þessa egg hafði þó til forna verið höggvið skarð, nægilega breitt til að unnt væri að koma klyfjahesti þar í gegn. Skarðið var svo sprengt niður um fjórtán metra árið 1940 og í framhaldi af því var lagður akfær vegur um skarðið árið 1946. Fram að því höfðu allir meiriháttar flutningar á fólki og varningi farið um sjóveg til og frá Siglufirði. Mikil samgöngubót var að Skarðsveginum þótt fær væri aðeins fáa mánuði á ári. Óhöpp eða slys á hinum nýja vegi eru ekki í frásögur færandi. Strákagöng voru opnuð 1967 og þá fór sjarminn af Siglufjarðarskarði.

Hlaupið í Skarðið er en þá hefst það á sama stað og við hófum okkar göngu en einnig er haldin skíðaganga sem hefst á sama stað.

Skarðið

Göngukona í Siglufjarðarskarði. Ófært fyrir jeppa en torfæruhjól fara þarna léttilega í gegn.

Dagsetning: 28. júlí 2019
Hæð í göngubyrjun: 81 metrar Heljartröð í Fljótum (N: 66.05.879 – W:19.04.001)
Siglufjarðarskarð: 631 m (N: 66.00.381– W: 18.10.842)

Skógrækt Siglfirðinga:  71 m (N: 66.07.717 – W:18.56.542)
Hækkun göngufólks: 550 metrar
Uppgöngutími: 160 mínútur (11:00 – 13:40)
Heildargöngutími: 240 mínútur (11:00 – 15:00)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 11 km
Veður Siglufjörður kl. 12.00: Léttskýjað, NA 3 m/s, 10,6 °C, raki 89%
Þátttakendur: Villiendurnar, 11 göngumenn.
GSM samband: Já
Gestabók: Já
Gönguleiðalýsing: Auðrötuð leið eftir þéttri tröð. Komið inn á fjallveg í efri hæðum.

Facebook-status: Enn einn dásamlegur dagur ðŸ˜

Heimildir:
Fjallabyggð.is - Siglufjarðarskarð
Jónas Kristjánsson - Siglufjarðarskarð
Siglufjarðarskarð - Jónas Kristjánsson 
Stefán Gíslason - Fjallvegahlaup
Wikipedia - Siglufjarðarskarð

 


Kaldbakur í Eyjafirði (1.173 m)

„ramlegt fjall með reknar herðar reisir gafl við hánorðrið," -MJ

Kaldbakur gnæfir yfir landslaginu austan Eyjafjarðar, norður af Grenivík og er hluti af fjallakeðju sem einu nafni nefnist Látrafjöll. Fjallið er 1.173 m hátt og gengur nálega í sjó fram og speglaðist í sænum, hrikalegt og tilkomumikið.  Á tindi Kaldbaks er varða sem hlaðin var af landmælingamönnum danska herforingjaráðsins árið 1914.

Hefðbundin leið á Kaldbak hefst við Grenjárbrúnna við Árbakka skammt norðan Grenivíkur. Við fórum aðra leið. Keyrt var á jeppum upp fjallveg sem liggur í Grenivíkurfjalli en þar er aðstaða sem Kaldbaksferðir hafa gert fyrir vélsleðaferðir. Við keyrðum upp að þriðja palli og stoppuðum í 356 metra hæð.

Þegar lagt var af stað var þoka en spáin lofaði góðu fyrir daginn og vonuðumst við að sólin næði að eyða skýjunum. 

Strax var farið niður í gil sem Grenjá hefur grafið og þegar komið var upp úr gilinu minnkaði þokan og skömmu síðar gengum við upp úr henni. Eyjafjörðurinn var þakinn skýjum og glæsilegur að sjá en vel sást í efstu fjallstinda fjarðarins. Þjóðskáldið Matthías Jochumsson orðaði þetta snilldarlega: undan sólu silfurþoka svífur létt um Eyjafjörð.

Gengið var eftir mel alla leið upp snjólausa suðuröxlina á topp en snjóskafl liggur í jökulskál vestan megin axlarinnar og mættum við honum í 650 metra hæð en snjór og er ís í skálinni allt árið um kring. 

Eftir tveggja tíma göngu var tekið matarstopp í tæplega 900 metra hæð og horft yfir bómullarlagðan Eyjafjörðinn. Þar sáum við fjórar rjúpur og sauðfé. En ýmislegt sást t.d. lambagras, grasvíðir, dýragras og músaeyra. Einnig sáum við lóur og mikið var um köngulær.

Eftir rúmlega þriggja tíma göngu var toppnum náð en hann er á grýttri sléttu og er varðan glæsilega. Það var mikil stemming við vörðuna og rifjaðist upp vísa sem Látra-Björg kvað um svikul og tvíráð veðrateikn á tindi Kaldbaks: 

   Vestanblika
   kúfnum kalda
   Kaldbak hleður;
   sunnan kvika,
   utanalda,
   austan veður.

Kaldbakur er mikið útsýnisfjall og sér langt inn á hálendið en fjöllin á Gjögraskaga vöktu mesta athygli, keilulaga og snævi þakin. Í gamalli ferðalýsingu Sig. Júl. Jóhannessonar segir um útsýni af Kaldbak: „þaðan sést yfir allan Skjálfanda, og afar langt á sæ út; Herðubreið, sem er suður undir Vatnajökli, öll Mývatnsfjöll, Eyjafjörður allur, Fnjóskadalur, Bárðardalur, Hörgárdalur og Svarfaðardalur o.s.frv. þaðan sést austur á Sléttu og vestur undir Horn.“ 

Ekki sáum við alla dýrðina og söknuðum helst Herðubreiðar en skýjabólstrar voru yfir hálendinu.

Kaldbakur hefur verið skáldum og rithöfundum hugleikinn og líkt honum við hvítabjörn og ort um fegurð og kraft fjallsins.

Árið 2002 var alþjóðlegt ár fjalla. Þá var Herðubreið kosin þjóðarfjall Íslendinga og Kaldbakur sigraði í keppninni um fjall Eyjafjarðar eftir harða samkeppni við Kerlingu og Súlur. Á landinu eru sex fjöll sem bera nafnið Kaldbakur.

Á toppi Kaldbaks

Gönguhópurinn við glæsilegu landmælingavörðuna frá 1914Útburðarskálarhnjúkur handan og hafa sést þar svipir manna.

Dagsetning: 27. júlí 2019
Hæð í göngubyrjun: 356 metrar Grenivíkurfjall 3. pallur (N: 65.58.092 – W: 18.10.289)
Kaldbakur - varða: 1.173 m (N: 66.00.381– W: 18.10.842)
Hækkun göngufólks: 817 metrar
Uppgöngutími: 195 mínútur (09:15 – 12:30)
Heildargöngutími: 330 mínútur (09:15 – 14:45)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 10 km
Veður Akureyri kl. 12.00: Skýjað, SA 1 m/s, 13,2 °C
Þátttakendur: Villiendurnar, 11 göngumenn.
GSM samband: Já
Gestabók: Já
Gönguleiðalýsing: Stikuð leið eftir hrygg sem er gróin neðarlega en breytist í mel er ofar dregur.

Facebook-status: Kaldbakur minnir mig frekar á mammút eða loðfíl heldur en hvítabjörn eftir þessa fræknu gönguferð.

Heimildir:
Fjöllin í Grýtubakkahreppi – Hermann Gunnar Jónsson, 2016
Huldulandið – Vigfús Björnsson, 1997
Kaldbaksferdir.com - Kaldbakur
Sig. Júl. Jóhannesson. (Ferðapistlar VIII. Dagskrá 26. nóv. 1898.)


Sköflungsvegur

Mosfellsheiði hefur gegnt merkilegu hlutverki í sögu samgangna milli Innnesja og Árnessýslu frá upphafi og lumar á ótal skemmtilegum gönguleiðum. Mosfellsheiði er víðlent heiðarflæmi sem rís hæst 410 metra yfir sjávarmál í Borgarhólum en þeir eru kulnuð eldstöð.

Sköflungsvegur er ein af gönguleiðunum og liggur frá Draugatjörn við Húsmúla norður með hlíðum Hengils og Sköflungs og endar í Vilborgarkeldu, skammt frá Þingvallavegi.

Rúta keyrði göngumenn að Draugatjörn en vegurinn er lokaður skammt frá henni. Gengið var að réttinni, hlaðna garða frá tímum búskapar á Kolviðarhóli og þaðan að rústum sæluhússins og lesnar sögur úr nýprentaðri Árbókinni. Leiðsögumenn voru höfundar Árbókar FÍ, þau Margrét Sveinbjörnsdóttir, Bjarki Bjarnason og Jón Svanþórsson. Miðluðu þau fróðleik til göngufólks af mikilli þekkingu og innlifun.

Síðan var gengið undir Húsmúla en örnefnið kemur af sæluhúsinu sem var þarna. Lítið fell er í suðvestur og heitir Lyklafell. Maður tekur varla eftir því þegar Hellisheiðin er ekin en þegar maður fer öld aftur í tímann  þá skilur maður af hverju nafnið er dregið. Það er lykill í samgöngum yfir Hellisheiði og yfir Mosfellsheiði. Í raun stór varða. Fóelluvötn eru skammt frá fellinu og skiptir vatn öllu máli í hestaferðum.

Í grænum Engidal var tekið kaffi. Skeggi í Henglinum dró að sér mikla athygli en undir honum voru kynjamyndir úr sorfnu móbergi. Má þar nefna dularfullt gil nefnt Kolsgil en vatnið hefur sorfið móbergið í tímanna rás.  Þjófahlaup en sögur voru um útilegumenn undir Henglinum.  Marardalur er stutt frá gönguleiðinni en þangað fóru ungir menn í helgarreisur. Einn af þeim var Matthías Jochumsson, og mögulega hafa þessar ferðir vakið hugmyndir að leikritinu Útilegumennirnir eða Skugga-Sveini árið 1861.

Farið vestan megin við Sköflung en horft yfir glæsilegan Grafning og Þingvallavatn frá Sköflungshálsi en Grafningsvegur liggur þar um. Gönguferðin endaði við Vilborgarkeldu en þar komust hestar og menn í vatn. Það er áhugavert að konur eru kenndar við keldur en karlar við fjöll.

Á leiðinni mættum við hestamönnum, motocross-hjólum, reiðhjólafólki og öðru göngufólki. Farastjórar hafa unnið við undirbúning bókanna í 7 ár og hafa tekið eftir að gróður hefur tekið við sér, bæði vegna minni beitar og hlýrra loftslags. Áður fyrr voru naut á beit og hreindýr á þessum slóðum. Kolviður áformar að kolefnisjafna útblástur með því að planta trjám á heiðinni. En taka verður tillit til náttúruminja.

Þjóðleiðir eru auðlind sem við verðum að varðveita. Besta leiðin er að koma þeim í notkun á ný.

Eftir að hafa gengið Sköflungsveg og skilið vegakerfið eftir frábæra leiðsögn frá Bjarka, Margréti og Jóni þá verður að koma upplýsingum á framfæri á leiðinni. En heiðin var orðin heillandi víðátta. Gera þarf góð upplýsingaspjöld á lykilstöðum og koma fyrir upplýsingum og vegprestum á leiðinni.  Mosfellingar eiga að kunna þetta en fellin sjö eru vel merkt hjá þeim. Einnig hefur Ferðamálahópur Borgarfjarðar gert góða hluti með Víknaslóðir.

Gönguleiðir yfir Mosfellsheiði er góð viðbót fyrir göngufólk við fótskör höfuðborgarsvæðisins. Nú þarf ekki að leita langt yfir skammt en merkilegast er að skilja betur lífsstíl forfeðra okkar.

Á leiðinni var lesið úr árbókinni og komu þá hlutir í samhengi. Áhugavert var að heyra ferðalýsingar en ferðamenn fyrr á tímum áttu leið yfir heiðina. Margir þeirra lýstu heiðinni sem endalausu flæmi af grjóti og þótti hún heldur tilbreytingalaus – en aðrir nutu kyrrðarinnar og þótti víðáttan heillandi.

Jón Svanþórsson farastjóri vann merkilegt verk en hann hnitsetti allar vörður á Mosfellsheiðinni og eru þær um 800 talsins og um 100 fylgja Þingvallaveginum gamla.

Í kjölfar árbókarinnar kemur síðan út göngu- og reiðleiðabókin Mosfellsheiðarleiðir eftir sömu höfunda, þar sem 23 leiðir á heiðinni eru kortlagðar og þeim lýst í máli og myndum.

Sköflungsvegur

Nú fara ekki lengur þreyttir baggahestar um Mosfellsheiði, heldur fer þar orka í raflínum austan úr sveitum. Hér er göngufólk að nálgast Vilborgarkeldu og Sköflungur er handan.

Dagsetning: 6. júlí 2019
Hæð í göngubyrjun: 271 metrar við Draugatjörn (N: 64.03.058 – W: 21.24.969)
Engidalur: 253 m (N: 64.04.821 – W: 21.22.598)
Kolsgil: 313 m (N: 64.06.419 – W:21.19.731)
Frakkastígur – varða (Jónsvarða) staur 198: 324 m (N: 64.07.711. – W: 21.20.197)
Sköflungsháls: 315 m (N: 64.09.366 – W: 21.18.271)
Hæð í göngulok: 221 metrar við Vilborgarkeldu (N: 64.11.996 – W: 21.16.415)
Lækkun göngufólks: 50 metrar
Heildargöngutími: 540 mínútur (09:15 – 18:15)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 23 km
Veður: Heiðskýrt, N 4 m/s, 14,1 °C
Þátttakendur: Ferðafélag Íslands, 20 þátttakendur í einni rútu.
GSM samband: Já
Gestabók: Nei
Gönguleiðalýsing: Gengið eftir gamalli þjóðleið. Vel grafin á köflum og sýnileg.

Facebook-status: Stórfróðleg Árbókarferð um Sköflungsveg. Það er magnað hvað forfeður okkar hafa byggt öflugt vegakerfi um Mosfellsheiðina.

Heimild:
Árbók F.Í. 2019 – Mosfellsheiði - landslag, leiðir og saga

Sköflungsvegur - kort

Kort úr Árbók FÍ á bls. 103 sem sýnir Sköflungsveg og Draugatjörn sem lykilstað.

 


Kvígindisfell (783 m) á Uxahryggjaleið

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, þjóðfræðingur hefur leitt kvöldgöngur á föstudagaskvöldum sem kallast sumarnætur og eru í samvinnu við Ferðafélag Íslands. Í þeim eru þekktir staðir heimsóttir og sagnir og þjóðlegur fróðleikur dreginn fram.

Ég skellti mér í ferða á Kvígindisfell á Uxahryggjaleið en þar erum við komin á slóðir „Skúlaskeiðs“ sem Grímur Thomsen orti svo fagurlega um.

Haldið er af stað í gönguna frá Biskupsbrekku, norðan Víðikera og austan Hvannadala á Uxahryggjaleið og gengin auðveld leið upp á Kvígindisfellið.

Þegar vel viðrar er geysivíðsýnt til allra átta, bæði jöklasýn og til fjalla, allt norður í Húnavatnssýslu þegar best lætur. Þarna fengum við að upplifa landslag eins og inni á reginöræfum, samhliða mikilli fjallasýn.  

Kvígindisfell er fornt móbergsfjall, frá síðkvarter, skorið giljum, 783 m hátt. Mikið útsýni er af fellinu. Nafnið vafðist fyrir mönnum og eru til frá síðustu öldum „skýringarheitin“ Kvigyndisfell, Kvikfénaðaryndisfell, Kvikféyndisfell, Kvíindisfell ofl. „Kvígindi“ eru ungir nautgripir eða geldneyti, sem þarna munu hafa verið á afrétti.  (bls. 262)

Nokkur örnefni og bæjanöfn á landinu hafa kvígindi að forlið, Kvígindisá, Kvígindisdalur, Kvígindisfell og Kvígindisfjöll. Þessi nöfn er að finna í öllum landshlutum.

Smalaland Lunddæla suður fyrir Kvígindisfell er kallað „Suðurfjall“  (afrétturinn norðan Grímsár er „Norðurfjall“)   (bls. 260)

Snjólaus Skjalabreiður, ógnarskjöldur bungubreiður fylgdi göngufólki alla leið. Snjóleysið má skrifa á hamfarahlýnun af mannavöldum. Þoka lág yfir Þórisjökli og Ok en hin þekktu fjöll í kringum Þingvallavatn skörtuðu sínu fegursta. Þegar toppur Kvígindisfells nálgaðist skall á þoka og því ekki farið alla leið.

Á heimleiðinni las Ólína hestavísuna Skúlaskeið eftir Grím Thomsen og var gaman að heyra hrynjandann og tengja við örnefnin á leiðinni, Tröllaháls, Víðiker og Ok. Skúlaskeið er torfær og stórgrýttur kafli á Kaldadalsvegi.  Skúli nokkur var dæmdur til lífláts á Alþingi, en komst undan vegna afbragðshests, Sörla, sem hann reið. Aldrei hefur enn í manna minni meira riðið nokkur Íslendingur.

Þeir eltu hann á átta hófahreinum
og aðra tvenna höfðu þeir til reiðar
en Skúli gamli sat á Sörla einum
svo að heldur þótti gott til veiðar.

 

Kvígindisfell

Kvígindisfell séð frá Biskupsbrekku

Dagsetning: 19. júlí 2019
Hæð Kvígindisfells: 783 metrar
Hæð í göngubyrjun: 330 metrar við Biskupsbrekku (N:64.25.252 - W:20.59.086)
Kvígindisfell – næsti efsti pallur (724 m): (N:64.24.441 – W: 21.02.983)
Hækkun göngufólks: 394 metrar
Uppgöngutími: 150 mínútur (19:15 - 21:45)
Heildargöngutími: 225 mínútur (19:15 – 23:00)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 10 km
Veður kl. 21.00 - Þingvellir: Skýjað, N 4 m/s, 14,1 °C, raki 67%
Þátttakendur: Ferðafélag Íslands, 50 þátttakendur í einni rútu.
GSM samband: Nei
Gestabók: Líklega ekki
Gönguleiðalýsing: Gengið eftir gömlum veg, síðan stefnt á norðaustur hluta fellsins og stikum fylgt. Leiðin er gróin fyrst og greiðfær. Fremur auðveld leið á ágætis útsýnisfell.

Facebook-status: Fínasta ganga i kvöld með Ferðafélagi Íslands á Kvígindisfell à Uxahryggjaleið

Heimildir:
Árbók F.Í. 2004 - Borgarfjarðarhérað
Vísindavefurinn - Hvað merkir nafnið Kvígindisfjörður

 


Loftslagsbreytingar: Þróun lausna og bætt nýting auðlinda

Mál nr. S-103/2019

Hagrænir hvatar

Lífsferilsgreiningar sýna að byggingar eiga um þriðjung af heildar kolefnisspori jarðarinnar.

Stjórnarráðið á að setja stefnu um að allar stofnanir verði í vistvæntu vottuðum byggingum fyrir árið 2030. Einnig eiga fyrirtæki og einstaklingar að geta fengið skattaafslátt hafi þau vistvænar vottanir. Hagrænir hvatar eru lykilinn í að breyta  hegðun.  Sveitarfélög geta gefið afslátt af fasteignagjöldum. Hús Náttúrufræðistofnunar í Urriðaholti er ágætis fyrirmynd en hún er í BREEAM vottunarferli. New York með metnaðarfull verkefni. Einnig hefur Kaliforníuríki útfært vistvænar lausnir í byggingum.

Stjórnvöld eiga að nota hagræna hvata á öllum þeim stöðum sem hægt er að koma þeim á til að stuðla að sjálfbærni og hækka álög á alla sóun og mengun.  Stuðla að því að fara inn í hringrásarhagkerfi, úr línulega hagkerfinu með allri sinni sóun.

Kolefnisskattar

Kolefnisspor flugs er 12% af samgöngum og er fyrir utan  mörg losunarkerfi. Íslensk stjórnvöld eiga að vera í fararbroddi og setja kolefnisskatt á allt flug til og frá landinu og nýta fjármagnið í kolefnisjöfnun með gróðursetningu, endurheimt votlendis, landgræðslu og í nýsköpun.  Alls ekki niðurgreiða flug, það er í mótsögn við umhverfisáhrifin.

Vistvænir bílar verði með lágmarks álögur en jarðefnabílar skattaðir í botn. Brennsla á jarðefnaeldsneyti er ekkert annað en glæpur gegn mannkyni.

Kolefnisspor á umbúðir vöru

Fæða á um þriðjung af heildar kolefnissporinu. Matarsóun er mikil í hinum vestræna heimi og einn liður í að sporna við henni er að kolefnisspor matvöru sé reiknuð og gefið upp á umbúðum. Einnig á vörulýsingu og verðmiðum.  Styðja við nýsköpun á framsetningu kolefnisspors.

Kolefnisspor

Einingin er kg CO2/kg.   https://www.oatly.com/se/products/havredryck-deluxe

Fólksfækkun

SkólaverkfallHver einstaklingur skilur eftir sig kolefnisspor og því fleiri einstaklingar því meira álag verður á jörðina. Fæðingarhlutfall íslenskra kvenna er þó jákvætt, 1,7 barn á hverja konu. Yfirleitt er miðað við að frjósemi þurfi að vera um 2,1 barn til þess að viðhalda mannfjöldanum til lengri tíma litið. Tryggja þarf að úrelt hagfræðilíkön sem ganga út á endalausa fólksfjölgun fái ekki að ráða ferðinni.  Fólksfækkun skapar vandamál en fólksfjölgun skapar enn stærra vandamál. Stjórnvöld eiga ekki að hvetja til barneigna með ívilnunum. Taka þarf tillit til umhverfisþátta í hagvexti.

Neyðarástand

Ísland á að lýsa yfir neyðarástandi vegna loftslagsmála tafarlaust.

Ísland á um 0,02% af heildarlosun CO2 og er lítill leikari á sviðinu þó kolefnissporið á einstakling sé með því stærsta í heimi. En takist Íslandi að innleiða djarfar og áhrifaríkar sjálfbærar lausnir sem virka og verði kolefnishlutlaust fyrir 2040 þá verður landið góð fyrirmynd fyrir heimsbyggðina.

Á meðan hiti á jörðinni eykst, jöklar bráðna, höfin súrna og loðnan hverfur þá er þessi umsögn skrifuð.

 

Heimildir:

https://architecture2030.org/buildings_problem_why/

https://www.theguardian.com/us-news/2019/apr/18/new-york-city-buildings-greenhouse-gas-emissions?fbclid=IwAR2VC2VlfeAYfj2l5CFdup9FaiTJtwSrcyuE4izH9aY-JzOtTFlM5VSag28

https://www.nature.com/news/one-third-of-our-greenhouse-gas-emissions-come-from-agriculture-1.11708

https://www.hagstofa.is/utgafur/frettasafn/mannfjoldi/faedingar-2017/


Litli-Meitill (467 m) og Stóri-Meitill (521 m)

Meitillinn var stórt fiskvinnslufyrirtæki í Þorlákshöfn en endaði í hagræðingu kvótakerfisins. Fyrirtækið átti tvo togara, kennda við biskupana Þorlák og Jón Vídalín. Til er veitingastaður í bænum sem heitir Meitillinn veitingahús. Meitlarnir tveir, Stóri og Litli hafa því mikil ítök í sjálfsmynd sveitarfélagsins Ölfus.

Það var fallegur haustdagur þegar gengið var á Meitlana við Þrengslaveg. Valin var skemmtileg leið sem hófst sunnan við Meitilstagl og þaðan gengið á Litla-Meitil. Á leiðinni upp taglið sáum við í Eldborgarhrauni fólk sem var við myndatöku.  Eftir áreynslulausa göngu, 2 km á rúmum klukkutíma, var komið á topp Litla-Meitils og sá þá vel yfir Ölfusið. Næst okkur í norðri var stóri bróðir og sást í gíginn fallega. Í vestri voru Krossfjöll, Geitafell, Litla-Sandfell, Heiðin há, Bláfjöll með sínum fjallgarði. Skálafell í Hellisheiði bar af í austri. Nær sáust Stóra-Sandfell og Eldborgir tvær sem hraunið er kennt við sem rann fyrir 2.000 árum.

Meitlarnir eru úr móbergi og hefur smá minni ekki náð upp úr jökulskildinum en sá stærri hefur náð í gegn enda skilur hann eftir sig fallegan gíg, leyndarmál sem er um 500 metrar á lengd og 350 metrar á breidd.

Næst var að ganga á Stóra-Meitil og þá tapaðist hæð en farið var um Stórahvamm, landið milli Meitla, eftir mosavöxnu hrauni. Það er skylda göngumanna að ganga kringum gíginn og best að halda áfram réttsælis.  Tilvalið að taka nestisstopp í miðjum gígnum.  Af gígbarminum  sér vel í sundurtætt Lambafell og Hveradali með sín fjöll og virkjun. Stakihnúkur sést vel úr gígopinu en margir sem ganga bara á Stóra-Meitil fara á hann í leiðinni. En hann mun vera erfiður viðureignar.

Þegar könnun á gígnum var lokið var haldið til baka og farið niður gróið gil til austur í Stórahvammi og gengið milli Eldborgarhrauns og fjallsins. Þegar við nálguðumst upphafsstað, þá sáum við kvikmyndafólkið í hrauninu og fyrirsætur. Það er krefjandi vinna að vera í þessum bransa. Líklega var verð að taka upp auglýsingu fyrir útivistarframleiðandann 66° Norður. Ekki fékk ég boð um hlutverk en skelin sem ég var í ber þeirra merki.

Á leiðinni er trjálundur sem Einar Ólafsson fjallamaður ræktaði og vekja grenitrén eftirtekt út af því að ekki sést í nein tré á löngu svæði, hér er ríki mosans.

Fari fólk vestan megin Litla-Meitils í Meitlistaglinu er áhugaverður bergfláki, Votaberg en þar seytlar vant niður bergveggina.  Hrafnaklettur er norðar.

Litli-Meitill   tindur

Toppur Litla-Meitils

Dagsetning: 30. september 2018
Hæð: 521 metrar
Hæð í göngubyrjun: 211 metrar við Meitlistagl (N:63.57.730  - W:21.26.963)

Litli Meitill (467 m): (N:63.58.544 – W:21.26.261)
Stóri Meitill (521 m): (N:64.00.024 - W:21.25.940)
Hækkun: 310 metrar
Uppgöngutími Stóri Meitill: 100 mín (09:00 - 12:00) 5,0 km
Heildargöngutími: 300 mínútur (09:00 - 14:00)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 11,1 km
Veður kl. 11.00 - Hellisheiði: Skýjað, SV 2 m/s, 2,0 °C, raki 82%   næturfrost
Þátttakendur: Fjallkonur 7 þátttakendur 
GSM samband: Já
Gestabók: Nei
Gönguleiðalýsing: Ganga í mosavöxnu landslagi.  Greiðfærir melar og gróði land neðantil. Auðvelt uppgöngu og áhugaverð náttúrusmíð.

Facebook-status: Endalaust þakklát fyrir að geta þetta, takk fyrir Meitla-gönguna elsku fjallafélagar ðŸ˜˜Báðir toppaðir í yndislegu veðri og haustlitum

 

Heimild:

Íslensk fjöll. Gönguleiðir á 151 tind.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 36
  • Sl. sólarhring: 36
  • Sl. viku: 113
  • Frá upphafi: 226373

Annað

  • Innlit í dag: 35
  • Innlit sl. viku: 99
  • Gestir í dag: 33
  • IP-tölur í dag: 20

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband