Færsluflokkur: Íþróttir

Afrekssund gæðingsins Laufa

Þegar ég las fréttina um að hestur hafi slitið sig lausan í flugvél Air Atlanta þá rifjaðist upp fyrir mér svipað atvik um lausan hest en það gerðist ekki í háloftunum. Páll Imsland jarðfræðingur ritaði grein í tímaritið Skaftfelling um Ævintýraferð í Lónsöræfin 1990 á hestum. 

"Afrek Laufa fólst í því að hann sleit sig lausan á skipsdekki utan við Hornafjarðarós fyrir einum sextíu árum og stökk fyrir borð og synt af hafi upp á Þinganessker, þaðan upp á Austurfjörur og þaðan upp í Lambhelli og svo þaðan upp í Ósland og loks upp í Hafnarvíkina án þess að hafa  óþarfar viðstöður á þurrlendinu. Alls mun hann hafa synt um 1700 til 1800 metra og alla sprettina í sjó, öldum og straumi. Laufi átti þá heima á Fiskhól á Höfn en var ættaður frá Uppsölum í Suðursveit frá Gísla Bjarnasyni. Laufi var ekki bara sundkappi heldur líka viljugur alhliða gæðingur. Það var ekki til einskis að Gísli kenndi Laufa sundið, en það gerði hann með því að ríða út á Hestgerðislónð með móður Laufa í taumi þegar hann gekk undir henni folald og fylgdi hann móður sinn vel eftir."

Kjartan Kristinn Halldórsson (1896-1956) átti hestinn Laufa og bjó á Sólstöðum, Fiskhól 5. Þetta sundafrek hefur átt sé stað um 1930 eða fyrir tæpri öld. 


mbl.is Flugvél Air Atlanta snúið við eftir að hestur losnaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ásfjall (127 m) í Hafnarfirði

Sumir kalla Ásfjall lægsta fjall landsins en útsýnið leynir á sér. Ásfjall fyrir ofan Hafnarfjörð og er í raun vel gróin grágrýtishæð. Ástjörn er fyrir neðan og kemur nafnið af bænum Ási sem stóð undir fjallinu. Efst á fjallinu er vel hlaðin varða, Dagmálavarðan og var leiðarmerki á fiskimið. Útsýnisskífa er stutt frá vörðunni. Menjar eftir hersetu eru einnig á fjallinu.

Gangan hófst hjá Íþróttamiðstöð Hauka eftir göngustíg í kringum Ástjörn. Gengið var í norður. Síðan var stefnan tekin á mitt fjallið, varðan og hringsjáin heimsótt og stefnt  suður Ásfjallsöxlina í Hádegisskarð og niður að Ástjörn. Léttari ganga er að stefna á norðuröxlina og ganga yfir fjallið lágvaxna. Nýtt hverfi er að rísa sunnan við fjallið og eina sem vantar er trjágróður.

Útsýni er gott yfir höfuðborgarsvæðið og ný hverfi sem eru að byggjast upp við fjallsræturnar, Skarðshlíð kallast það og dregur eflaust nafn af Hádegisskaði.  Helgafell er áberandi í suðri sem og Húsfell. Einnig Bláfjöll. Fjöllin á Reykjanesi sjást og Keilir tignarlegur. Akrafjall og Esjan í norðri.   Á góðum degi sést Snæfellsjökull.

Einföld og góð ganga sem býður upp á skemmtileg sjónarhorn yfir höfuðborgina.

Ásfjall

Grágrýtishæðin Ásfjall í Hafnarfirði og ósar Ástjarnar við Íþróttamiðstöðvar Hauka.

Dagsetning: 28. nóvember 2020
Göngubyrjun: Íþróttamiðstöð Hauka
Ásfjall – Hringskífa: 127 metrar (N: 64.03,1 – V: 21.56,5)
Hækkun göngumanns: 120 metrar
Heildargöngutími: 60 mínútur (13:40 – 14:40)
Erfiðleikastig: 1 skór
Vegalengd: 3,8 km
Þátttakendur: Undirritaður
GSM samband: Já, 4G
Gestabók: Nei
Gönguleiðalýsing: Gengið eftir malbikuðum göngustíg kringum Ástjörn og farið af honum og stefnt á mitt fjallið og gengi í lyngi og  mosa. Komið niður á göngustíginn á bakaleið.

 

Gönguslóðin

Gönguslóð

Gönguslóðin á Ásfjall. Dagmálavaraðan til norðurs og hverfið Skarðshlíð neðst á myndinni.


Þórsgata í Þórsmörk

Þórsgata er ný falleg gönguleið í kringum Þórsmörk.  Í gönguleiðarlýsingu er hún sögð 22 km en gönguhópurinn taldi sig hafa farið eftir öllum slóðum og fékk rúma 18 km á mæla  sína.

Leiðin liggur upp frá Húsadal, í gegnum Hamraskóg að Slyppugilshrygg og þaðan framhjá glæsilegri Tröllakirkju upp á Tindfjallasléttu, niður Stangarháls og meðfram Krossá að Langadal, upp á Valahnúk, niður eftir endilöngum Merkurrana, út á Markafljótsaura og enda aftur í Húsadal.

Hægt er að búta leiðina niður í smærri áfanga eða lengja. En nokkrar gönguslóðir eru á svæðinu og tengir Þórsgata þær saman.

Lagt var í ferðina frá Húsadal og keyptum við þjónustu hjá Volcano Huts yfir Krossá en hún er oft mikill farartálmi á leiðinni inn í Þórsmörk.

Leiðin er mjög falleg, stórbrotin fjallasýn með jöklum fylgir manni  alla leið. Einn skemmtilegasti hluti leiðarinnar er leiðin framhjá Tröllakirkju en þá er gengið eftir stíg í vel gróinni brattri hlíð. Rjúpnafell (814 m) er glæsilegt úti á sléttunni og fangar augað. Síðan kemur Tindfjallaslétta og haldið var á útsýnisstað en þar er útsýnið  ægifagurt. Maður komst í snertingu við eitthvað stórt og æðra manni sjálfum og sýnin hafði umbreytandi áhrif.

Í fjöllin sækjum við áskoranir jafnt sem innblástur. Við útsýnisskífu á Tindfjallasléttu gagntekur þessi tilfinning mann þegar Eyjafjallajökull og Mýrdalsjökull blasa við með skriðjöklana skríðandi niður á láglendið.

Þegar við voru búin að upplifa hrikafegurðina sáum við hlaupara sem tóku þátt í Þórsgata Volcano Trail Run, 12 km fjallahlaup með um 200 hlaupurum. Það var einstök upplifun að hitta fjallahlauparana og hvetja þá áfram í þessu stórbrotna landslagi á Tindfjallasléttu og niður Stangarháls.

Ein áskorun var eftir þegar Langadal var komið en það er Valahnúkur (454 m) og hugsaði maður til fjallahlauparanna. Það var fallegt að sjá yfir Krossá og Goðaland þegar upp var komið.

Það voru hamingjusamir göngumenn sem komu í Húsadal síðdegis og mælum við með þessari nýju gönguleið um Þórsgötu til að fá að upplifa einstaka náttúru Þórsmerkur.

 

Þórsgata

Göngumenn staddir í Hamraskógi með Eyjafjallajökul í baksýn

Dagsetning: 12. september 2020
Göngubyrjun: Húsadalur, 208 m (N: 63.41.463 – W:12.32.443)
Hækkun göngufólks: 812 metrar
Heildargöngutími: 480 mínútur (09:40 – 17:40)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 18 km
Þátttakendur: Villiendur. 10 göngumenn.
GSM samband: Já, 4G
Gestabók: Nei
Gönguleiðalýsing: Ný fjölbreytt gönguleið sem tengir saman fimm gönguleiðir í Þórsmörk. Getur tekið á fyrir lofthrædda á köflum.

Facebook-status: Þið sem ekki komust með í dag í Þórsmörk, komið með næst! Ólýsanlegur dagur


Akademía Norwich City

Norwich City vann hina erfiðu EFL Championship-deild eftir glæsilegan endasprett og tryggði sér sæti í Úrvalsdeildinni á næsta keppnistímabili

Norwich hefur ekki úr miklum peningum úr að spila og treystir mikið á unglingastarfið. Liðið er eitt af 24 liðum sem uppfyllir kröfur Englendinga og eru í Category One flokknum á knattspurnuakademíum. En til að vera í efsta flokki þarf að bjóða upp á fimm hluti: árangur í framleiðni leikmanna í aðallið, góða æfingaaðstöðu, góða þjálfun, menntun og velferð leikmanna. Nýlega var hópfjármögnun hjá stuðningsmönnum Norwich til að fjármagna nýtt hús fyrir æfingaaðstöðuna.

Æfingaaðstaða Norwich, Colney Training Ground, er í úthverfi borgarinnar og þar er akademía liðsins einnig til húsa. Skógur liggur að hluta að svæðinu.

Unglingalið Norwich komu á Rey Cup og höfðu tengingu við Ísland og buðu efnilegum leikmönnum á reynslu. Tveir Íslendingar eru á mála hjá Norwich, Ísak Snær Þorvaldsson og Atli Barkarson. Áður hafði Ágúst Hlynsson verið með samning við liðið. Með komu Farke, þá hafa áherslur breyst og horfa þeir meira til Þýskalands. Þjálfarateymið breyttist einnig og þekktir men eins og Darren Huckerby hurfu á braut.

Ísak Þorvaldsson

Ísak Snær Þorvaldsson

Nokkrir leikmenn Kanarífuglanna hafa komið úr akademíunni og orðnir lykilleikmenn má þar nefna Max Aarons, Ben Godfrey, Jamal Lewis og Todd Cantwell

Helstu afrek unglingaliðs Norwich eru sigur í FA Youth Cup 2013 en þá báru Murphy bræður upp leik liðsins. Áður hafði liðið unnið bikarinn 1983 og helsta nafnið sem men þekkja úr því liðið er Danny Mills.

Fyrsti milljón punda maðurinn sem þeir ólu upp og seldu var Justin Fashanu til Nottingham Forest árið 1981.

Norwich er lítið félag þar sem allir skipta máli. Leikmenn, unglingalið, þjálfarateymi, stjórn og stuðningsmenn.

Það verður gaman að fylgjast með Norwich í Úrvalsdeildinni á næsta leiktímabili og sjá hvernig drengirnir úr akademíunni standa sig. Kannski fáum við að sjá ísak og Atla í úrvalsdeildinni á næstu árum í gulu treyjunum og grænu buxunum.

On The Ball City


Hornafjarðarmanni - Íslandsmót

Íslandsmót í Hornafjarðarmanna verður haldið síðasta vetrardag í Breiðfirðingabúð. Keppt hefur verið um titilinn frá árinu 1998 og hefur Albert Eymundsson verið guðfaðir keppninnar. Nú tekur Skaftfellingafélagið í Reykjavík við keflinu.

HumarManniÞað er mikill félagsauður í Hornafjarðarmanna. Hann tengir saman kynslóðir en Hornafjarðarmanninn hefur lengi verið spilaður eystra og breiðst þaðan út um landið, meðal annars með sjómönnum og því hefur nafnið fest við spilið.

Talið er að séra Eiríkur Helgason í Bjarnanesi (1892-1954) hafi verið höfundur þess afbrigðis af manna sem nefnt hefur verið Hornafjarðarmanni.

Til eru nokkur afbrigði af Manna, hefðbundinn manni, Trjámanni, Laugarvatnsmanni og Hornafjarðarmanni og sker sá síðastnefndi sig úr þegar dregið er um hvað spilað verður. En mögulegir samningar eru sex talsins:  nóló, grand, hjarta, spaði, tígull og lauf.

Spilareglurnar eru einfaldar og lærist spilið mjög fljótt. Það er hentugt keppnisform fyrir mismunandi fjölda spilara. Fyrst er forkeppni og eftir hana er útsláttarkeppni.  Eftir stendur einn sigurvegari, sá sem fær flest prik. Hornafjarðarmanni er samt sem áður meira leikur en keppni.

Albert Eymundsson endurvakti Hornarfjarðarmanna til vegs og virðingar þegar Hornafjörður hélt upp á 100 ára afmæli bæjarins 1997 og hefur síðan verið keppt um Hornafjarðarmeistara-, Íslandsmeistara- og Heimsmeistaratitil árlega.  

Síðasta vetrardag, 18. apríl, verður haldið Íslandsmeistaramót í Hornafjarðarmanna og eru allir velkomnir. Spilað verður í Breiðfirðingabúð, Faxafeni 14 og hefst keppnin kl. 20.00. Góðir vinningar. Aðgangseyrir kr. 1.000, innifalið kaffi og kruðerí, þar á meðal flatkökur með reyktum Hornafjarðarsilungi.

Sigurvegarinn fær sértakan farandverðlaunagrip sem Kristbjörg Guðmundsdóttir hannaði og hýsir í ár.


Tékkland - Ísland og gullni pilsner-bjórinn

Tékkland og Ísland leika forkeppni EM 2016 í dag í Pilsen. Það er því góð tenging að fjalla um Tékkland og bjór í dag þegar jólabjórinn tekur völdin.

Tékkland er mesta bjórþjóð veraldar og er bjórneysla á mann 149 lítrar á ári. Slá þeir út Austurríki með 108 og Þjóðverja með 106 lítra. Ísland er í 37. sæti með 45 lítra og lægra en á FIFA-listanum en Ísland er þar í 28. sæti.

Fyrst Tékkland,land lagersins er í beinni í kvöld, þá verður maður að rifja upp og upplifa bjórsöguna og láta hugann leita til Pilsen.  Þar er merkilegt brugghús, musteri brugglistarinnar, Pilsner Urquell Brewery.  Þar var fyrsti gullni bjórinn með botngerjun eða kaldri gerjun bruggaður árið 1842. Tími pilsnersins  var þá runninn upp og markaði upphaf lagerbjórsins. Tærleiki hans er í glasið kom var aðlaðandi og samsetning ilms og bragðs, sem var maltkennd en með indælum humla og bitterkeim, heillaði alla er á honum smökkuðu.  Svo vel hefur gullni bjórinn frá Bæheimi (Bohemia) lagst í Íslendinga að 97% af seldum bjór í Vínbúðunum er lagerbjór.

Bjór má skipta gróft upp í tvo flokka, öl (ale) og lager.   Öl er bruggað með gertegund sem vinnur mest við yfirborðið en í lager er notaður ger sem vinnur mest við botninn við kaldara hitastig. Síðan tekur við langt geymsluferli, „lagering“.

Það er gaman að fara í skoðunarferð um bruggverksmiðjuna sem framleiðir Pilsner Urquell  og anda að sér bjórsögunni. Nokkrir stuðningsmenn Íslands heimsóttu hana fyrir leikinn. En eikartunnur frá frystu lögn, fyrir 172 árum, eru til sýnis fyrir ferðamenn. Einnig er gengið um kaldan kjallarann og hápunkturinn er sopi af  ósíuðum og ógerilsneyddum pilsner bruggaður í eikartunnu. Þreföld humlun er lykilinn. Bjórinn er gjöf náttúrunnar til mannsins.

En hvernig fer svo landsleikurinn:  Spái Tékkum 1-0 sigri á Struncovy Sady Stadion í Pilzen. Klókt hjá Tékkum að spila leikinn í vaxandi Pilsen-borg, þaðan koma flestir landsliðsmennirnir, fimm frá Viktoria Plzeň og þjálfarinn. En völlurinn er lítill, tekur 11.700 manns, litlu meira enn Laugardalsvöllur.

Pilsner Urquell

Inngangurinn í elsta Pilsner-brugghúsið (Burgher's brugghúsið) minnir meira á sigurboga en hlið. Vatnsturninn, 46 metra hár sést í gegnum hliðið og minnir á mínarettu á mosku. Háir reykháfar standa upp úr brugghúsinu, musteri brugglistarinnar og smekklegar vöruskemmur sjást. Á bakvið strætóinn sem keyrir gesti um bruggþorpið er Pilsen bjórlestin sem flutti vörur á hverjum morgni til Vínar. Brugghúsið er mjög stutt frá leikvellinum.

 

Heimild:

Wikipedia:  http://en.wikipedia.org/wiki/List_of_countries_by_beer_consumption_per_capita


HM og vítaspyrnukeppni

Velheppnað heimsmeistaramót stendur nú yfir í Brasilíu.

Þegar HM í knattspyrnu er annars vegar er þetta ekki bara íþróttaviðburður heldur alþjóðlegur menningarviðburður. Fótbolti er hluti af menningu flestra þjóða, HM er einn alstærsti viðburðurinn (ásamt ÓL) þar sem ólíkar þjóðir úr öllum heimsálfum koma saman í friði og reyna með sér í heilbrigðum leik. 
 
Trúarbrögð, hörundslitur, menning og efnahagur skipta ekki máli. Þetta er eitt af því góða sem samfélag þjóðanna hefur alið af sér. Þetta er keppni sem nær til allra - líka þeirra ríku og fátæku.
 
þegar þetta er skrifað eru 16-liða úrslitin hálfnuð.  Grípa hefur tvisvar til vítaspyrnukeppni.  Brasilía vann Chile 3-2  og Costa Ríka vann Grikkland 5-3 en í bæði skiptin sigraði liðið sem hóf vítaspyrnurnar.  
 
Það hefur verið sannað að liðið sem hefur leik í vítaspyrnukeppni á meiri sigurmöguleika. Því hefur verið stungið upp á nýju kerfi.  ABBAABBAAB-kerfinu.
 
ABBAABBAAB-kerfið er ekki galin útfærsla. Það þarf að prófa það. Eini gallinn er að þetta virðist flókið, bæði fyrir leikmenn og áhorfendur en eflaust sanngjarnara.
 
Í dag leika Frakkar við Nígeríu og Þjóðverjar við Alsír. Evrópsku liðin eru svo sterk að þau ættu að komast áfram án vítaspyrnukeppni en Nígería og Alsír njóta sín betur í  hitanum og rakanum. Það er þeirra tromp. 
 
Það verður stórleikur í 8-liða úrslitum ef Frakkar og Þjóðverjar komast áfram 

Arsenal : Hull City - Enska bikarkeppnin á Wembley

Hull og Grimsby voru þekkt nöfn á Íslandi á Þorskastríðsárunum. Þaðan voru gerðir út togararnir sem veiddu fiskinn okkar. Við unnum stríðið um þorskinn og seldum Englendingum fisk í staðinn. Hnignun blasti við í gömlu útgerðarbæjunum.

Nú eru þeirMorgunblaðið 5. nóvember 1985 að rétta úr kútnum.  Ég fór í mína einu siglingu með togaranum Þórhalli Daníelssyni í nóvember 1985 og seldum við í Hull. 

Hull var drungaleg borg og sóðaleg með sína 266 þúsund íbúa. Við höfnina voru byggingar sem mosi eða sjávargróður var farinn að nema land á.  Veðrið var drungalegt og fegraði ekki borgina á Humbersvæðinu. Við sigldum inn River Hull og opna þurfti dokkir til að halda réttri vatnsstöðu í ánni. Þegar við lögðum festar við bryggju þá voru margir voldugir togarar bundnir við landfestar. Þeir máttu muna fífil sinn fegurri.

En um kvöldið fórum við á þekkta krá, "Camio" hét hún og eru menn enn að segja sögur af þeirri merku krá. Svo subbuleg var hún.  Bjórinn var ekki leyfður á Íslandi og því varð að kíkja á pöbb. Ég missti af kráarferðinni en trúi öllum sögunum, svo vel voru þær sagðar.

En ég rifja þetta upp út af því að í dag er úrslitaleikur í Enska bikarnum. Þar leiða saman hesta sína mínir menn, Arsenal frá London og Hull City í fyrsta skipti. 

Það hefur því margt breyst í Hull, borgin rétt úr kútnum og endurspeglast það í gengi knattspyrnuliðsins, fyrsta skipti í úrslitum elstu og virtustu knattspyrnukeppni heims. Spurningin er hvernig lítur Camio út í dag?

Hull er á Humberside í norðausturhluta Englands og rakt sjávarloftið frá Ermasundi blæs í austanáttum. Vígi rugbý íþróttarinnar er á svæðinu og á sama tíma og úrslitaleikurinn á Wembley fer fram þá verður úrslitaleikur milli Hull KR og Hull FC í Super League.

Ég er bjartsýnn fyrir hönd míns liðs, Arsenal og spái öruggum 2-0 sigri.  Ramsey og Podolsky gera mörkin og enda bikarleysið.  Þetta verður góður dagur.

Arsenal : Hull


Hrakvirði

Mikið var gaman á landsleiknum í gær. Íslendingar voru vel klæddir í fánalitunum og studdu íslensku leikmennina á vellinum vel.  Annað eins hefur ekki sést í Laugardalnum. Svo mikil var stemmingin í Austur-stúkunnu að fólk stóð allan leikinn.

Við inngang að vellinum var boðið upp á húfur og trefla. Sérstakur trefill var hannaður út af leiknum mikilvæga. Íslensku litirnir voru á öðrum helmingnum og rauðir og hvítir, köflóttir litir Króatíu meginn. Dagsetning leiksins kom einnig fyrir. Svona til að minna eigandann á leikinn og vekja nostalgíu síðar meir.

Trefillinn kostaði kr. 3.000 á leikvellinum og var það heldur hátt verðlag. Við feðgar féllum ekki fyrir freistingunni.  En dauðlangaði í enn einn trefilinn.

 Stuðningstrefill

Þegar leiknum lauk sneri fólk heim á leið. Tæplega tíu þúsund manns í einni röð. Á fjölförnum leiðum voru sölumenn, erlendir, líklega Króatar og buðu trefla til kaups. Nú var verðið komið niður í tvö þúsund og við 98 metrum frá Laugardalsvelli.  Okkur dauðlangaði í enn einn trefilinn.

Við héldum áfram með straumnum. Fólk spjallaði um leikinn. Fannst dómarinn slakur.  Modric lítill en snöggur, rauða spjaldið harður dómur og Kristján í markinu góður.  Þegar við nálguðumst Suðurlandsbrautina var einn einn útlendingurinn hlaðinn treflum. En nú var verðið komið niður í eitt þúsund og við 313 metrum frá Laugardalsvellinum.  Eftirspurnin var ekki mikil.  En á rúmum 200 metrum hafði verðið lækkað mikið. Við feðgar vorum loks orðnir sáttir við verðið og keyptum einn trefil til minningar.

Þarna lærði Ari um hrakvirði.  Treflarnir verða verðlausir eftir leikinn.

Ekki voru fleiri erlendir sölumenn en trúlega hafa treflarnir verið framleiddir í Kína og klókir sölumenn tekið áhættuna.

En allt í einu kom upp í hugann Ragnheiður Elín Árnadóttir, af öllum mönum eftir þetta óvænta hrakvirðisnámskeið. Nú vill iðnaðar- og viðskiptaráðherra selja dýrmæta orku okkar á hrakvirði rétt eins og fyrri Ríkisstjórnir. Bara til að koma af stað einhverri bólu í kjördæminu og tryggja mögulegt endurkjör.  Til að selja fleiri eignir landsmanna á hrakvirði og láta flokksfélagana mata krókinn.

Vilhjálmur Þorsteinsson, skrifaði ágætis grein um raforkusamninga og sá ég hann þegar heim var komið.  Dýrasti samningur Íslandssögunnar nefnist hún og er um raforkusamning við Alcoa.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, fv. Aðstoðarmaður Geirs H. Haarde er ekki að standa sig. Snurpar vel rekna Landsvirkjun.

Við þurfum góða ráðherra. Kjósendur bera ábyrgð.


Pollamótið í Vestmannaeyjum hjá leikmönnum HK

Þrítugasta Shellmóti í Vestmannaeyjum var haldið síðustu helgina í júní. Frábært mót, vel skipulagt og flottasta mót frá upphafi að sögn móthaldara. Ekta íslenskt veður var mótsdagana. Ferðadaginn var bræla, fyrsta keppnisdaginn var úrkoma, síðan stytti upp með vind úr vestri en lokadagurinn var stórgóður.

HK sendi 4 lið til keppni, 34 leikmenn og allir af eldra ári eða pollar fæddir árið 2003.

Liðin fjögur stóðu sig mjög vel.  Öll spiluðu þau 10 leiki (2 x 15 mín) á þrem dögum og gekk öllum liðum vel og voru HK til mikils sóma.


Elliðaeyjarbikarinn og Heimaklettsbikarinn í Fagralund
Skipulag Eyjamanna er til mikillar fyrirmyndar. Þeir hafa þróað flott kerfi fyrir 104 lið sem tóku þátt og er keppt um 13 bikara. En 32 félög víðs vegar af landinu sendu lið til keppni. Helsti bikarinn er Shellmótsbikarinn en hann unnu HK í fyrra.  Ekki tókst að verja hann en uppskeran var engu að síður stórgóð.  Því tveir bikarar bættust í bikarskápinn í Fagralundi.

HK-1 vann Elliðaeyjarbikarinn eftir öruggan sigur á ÍR.

HK-3 vann Heimaklettsbikarinn eftir dramatískan leik við Skallagrím frá Borgarnesi. En sá leikur er sá lengsti í sögu mótsins og náðu engar reglur um hann.

Eftir venjulegan leiktíma var staðan jöfn 0-0 og hver taug þanin hjá leikmönnum og stuðningsmönnum. Eftir framlengingu var enn markalaust.  Þá var gripið til vítaspyrnukeppni og þegar umferðinni var lokið var enn jafnt, 3-3.  Þá var gripið til þess ráðs að kasta upp hlutkesti og féll gullið HK í skaut en silfrið bættist í safn  Egils Skallagrímsmanna.

HK-2 stóð sig einnig vel, þó enginn dolla hafi fylgt þeim heim. Þeir enduðu með 60% vinningshlutfall.

HK-4 stóð sig mjög vel, ósigrað eftir tvo fyrstu dagana, og endaði með 75% vinningshlutfall.

Eyjamenn bjóða upp á ýmsar uppákomur meðan mótið stendur yfir. Fastur liður undanfarin ár er leikur Landsliðs Shellmótsins við Pressulið. Ívar Orri Gissurarson fór fyrir hönd HK og stóð sig mjög vel í hjarta varnarinnar. Stoppuðu margar sóknir Pressuliðsins á jaxlinum með rauðu HK-húfuna á kollinum.

Þjálfarar, Ómar Ingi Guðmundsson og Ragnar Mar Sigrúnarson stóðu sig frábærlega og náðu öllu því besta út úr strákunum.  

Fjöldi sjálfboðaliða hjálpaði til við að gera mótið að stórkostlegri minningu fyrir drengina. Það er það sem upp úr stendur eftir ævintýraferð sem þessa.
 
HK-ÍR
 
Ari leiðir HK-inga út á völlin í úrslitaleik gegn ÍR um Elliðaeyjarbikarinn. Eliot, Felix, Ólafur Örn, Ívar Orri, Baldur Logi, Konráð Elí, Vilbert Árni og Reynir Örn fylgja á eftir og lögðu sadda ÍR-inga að velli 5-0.
 
Tenglar:


Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.9.): 110
  • Sl. sólarhring: 248
  • Sl. viku: 361
  • Frá upphafi: 232707

Annað

  • Innlit í dag: 97
  • Innlit sl. viku: 321
  • Gestir í dag: 97
  • IP-tölur í dag: 94

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband