Tindastóll (995 m)

Hvar skal byrja? Hvar skal standa?
Hátt til fjalla? Lágt til stranda?
Bragi leysir brátt úr vanda,
bendir mér á Tindastól! (Matthías Jochumsson)

Ég skildi aldrei af hverju helsta kennileiti Skagafjarðar, fjallið Tindastóll héti Tindastóll því það hafði ekki tignarlegan skaftfellskan tind. En þegar siglt er undir Stólnum, þá sjást tindaraðir á fjallinu, m.a. I Tröllagreiðu. Þá skilur maður nafnið og mér finnst það mjög fallegt og viðeigandi. Hins vegar er Tindastóll skrítið nafn á íþróttafélagi.

Tindastóll er 995 metra þar sem hann er hæstur og 18 kílómetra langt og 8 km á breidd, efnismesta fjall Skagafjarðar.

Fjallið er hömrótt mjög að austan og þar víða torsótt uppgöngu, en að sunnan og vestan er lítið um kletta og víða ágætar uppgönguleiðir.

Hægt er að ganga á Tindastól frá nokkrum stöðum. Algengast er að ganga stikuðu leiðina frá upplýsingaskilti norðan við malarnámur norðaustan við Hraksíðuá og stefna á fjallsbrún við Einhyrning syðri. Önnur leið er að ganga frá eyðibýlinu Skíðastöðum og stefna á hinn Einhyrninginn.  Einnig er hægt að fara frá skíðasvæðinu og ganga þaðan upp á topp eða niður á Reykjaströnd austan við Stólinn og jafnvel baða sig í Grettislaug. 

Villiendurnar völdu öruggustu leiðina, þá stikuðu. Við stefndum á Einhyrning sem sést allan tímann.  Til að byrja með er gengið upp með Hraksíðuá að norðanverðu, upp aflíðandi brekkur. Liggur leiðin fjarri hættulegum brúnum og giljum og ætti því að vera öllum fær mestan hluta ársins. Þegar ofar kemur er hæstu ásum fylgt þar til upp á brúnina er komið.

Þegar upp er komið er varða með gestabók, glæsilegu útsýni yfir stóran hluta Skagafjarðar og einnig er myndarleg endurvarpsstöð.

Þjóðsaga er um óskastein á Tindastól en vorum ekki hjá Óskatjörn og misstum af öllum óskum þrátt fyrir að vera daginn eftir Jónsmessunótt.

Tindastóll er rofleif í jaðri fornrar megineldstöðvar sem var virk fyrir 8-9 milljón ára. Ísaldarjöklar grófu svo skörð og dali í berggrunninn í 3 ármilljónir en oft hefur fjallið staðið uppúr þeim jöklum. Því nokkuð traust til uppgöngu þegar jarðskjálftahrina er í gangi.

Útsýni var ágætt til suðurs en veðurguðir buðu upp á skýjað veður. Þar er næstur Molduxi, annað einkennisfjall Sauðkrækinga og í fjarska er  konungur Skagafjarðarfjalla, Mælifellshnjúkur, hæsta fjall Skagafjarðar utan jökla en fyrr í vikunni höfðum við gengið á hann og rifjuðum upp ferðina.  Einnig yfir Gönguskörð og Sauðárkrók.  Í austri blasa við fjöllin á Tröllaskaga ásamt eyjunum í Skagafirði í norðaustri. Til vestur sást til fjalla á Skaga.

Einhyrningur

Göngufólk við vörðu á Einhyrning syðri í 795 m hæð. Sauðarárkrókur fyrir neðan.

Dagsetning: 25. júní 2020
Göngubyrjun: Malarnámur norðaustan við Hraksíðuá, 175 m (N: 65.45.453 – W:19.42.138)
Fjallsbrún við Einhyrning - varða: 795 m  (N: 65.46.894 – W: 19.42.820)
Hækkun göngufólks: 620 metrar
Uppgöngutími: 165 mínútur (10:00 – 12:45)
Heildargöngutími: 255 mínútur (10:00 – 14:15)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 12,8 km
Veður - Sauðárkrókur kl. 12.00: Skýjað, S 5 m/s, 16,2 °C, rakastig 57%.
Þátttakendur: Villiendur. 10 göngumenn.
GSM samband: Já, 4G
Gestabók: Já
Gönguleiðalýsing: Fjallið er auðgengt við flestar aðstæður árið um kring eftir þessari leið. Vel stikuð leik upp gróna mela.

Eldra nafn: Eilífsfjall eða Eilífsfell, kennt við landnámsmanninn Eilíf örn Atlason.

Facebook-status: Takk!    Enn einn dýrðardagurinn TAKK

Heimildir
Ferðafélag Íslands árbók 2012, Skagafjörður vestan vatna.
Íslensk fjöll - Gönguleiðir á 151 tind

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sauðkrækingar ekki Sauðkræklingar;)

Sigríður M. Ingimarsdóttir (IP-tala skráð) 30.7.2020 kl. 11:56

2 Smámynd: Sigurpáll Ingibergsson

Takk Sigríður! Búði að laga.

Sigurpáll Ingibergsson, 30.7.2020 kl. 14:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 22
  • Sl. sólarhring: 28
  • Sl. viku: 99
  • Frá upphafi: 226359

Annað

  • Innlit í dag: 22
  • Innlit sl. viku: 86
  • Gestir í dag: 22
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband