Færsluflokkur: Kvikmyndir

#Ófærð

Á sunnudagskvöld verður uppgjörið í #Ófærð. Tveir síðustu þættirnir sýndir í beit. Þetta verður gott sjónvarpskvöld.

Ég er með kenningu um skúrkinn.  Læt hana flakka svona rétt fyrir opnun. Einnig mögulegar fléttur.

Geirmundur er ekki dauður. Hann er skúrkurinn, hann kveikti elda. Líkið er af óheppnum Litháa. Niðurstöður DNA eiga eftir að leiða það í ljós. Einnig að blóðið á vélsöginni sé af hreindýri ekki líkinu sem Siggi hurðaskellir flutti á haf út.

Eiríkur sem Þorsteinn Gunnarsson leikur er arkitektinn á bakvið brunann í frystihúsinu, hann og Geirmundur tendruðu elda til að svíkja út tryggingabætur. Dóttir Eiríks var óvænt inni.

Hótelstjórinn, Guðni hefur tekjur af mannsali rétt eins og fatasaumarinn í Vík. Frystihúsastjórinn Leifur er óheppin að tengjast því sem og  Dvalinn, sá færeyski sem er ekki góður pappír.

Kolbrún kona Hrafns er arkitektinn á bakvið nýhafnarspillinguna ásamt fermingarsystkinum.

Trausti SAS-rannsóknarlögreglumaður á þátt í hvarfi Önnu í málinu sem Andri átti að hafa klúðrað.

Bárður hasshaus á eftir að áreita eldri stúlkuna.

Sigvaldi nýi kærastinn og Ásgeir lögga hafa of mikla fjarvistarsönnun að mínu mati. Ásgeir á eitt lekamál á samviskunni en þarf ekki að segja af sér.

Friðrik alþingismaður, leikinn af Magga glæp, er bara spilltur alþingismaður.

Maggi litli gæti verið Hrafnsson.

Ég trúi engu vondu upp á Steinunni Ólínu (Aldís) þó hún hafi haldið aðeins tekið hliðarspor með Hjálmari og hinn meinlausa Rögnvald sjóræningja.

Gaman að erlendar stöðvar taka spennuþáttaröðinni vel. Íslenskur vetur er alveg ný upplifun fyrir þá. Merkilegt að útlendingar skuli geta munað nöfnin, ég er enn að læra nöfn sögupersóna. Kuldinn selur. Snjallt hjá Baltasar og Sigurjóni Kjartanssyni og félögum að nota íslenskan vetur í krimma í anda Agötu Christie.

Það eru svo margir boltar á lofti. En í könnun á ruv.is eru 3% með Geirmund grunaðann.

Sé þetta allt kolvitlaust, þá er hér kominn hugmynd að fléttu í næstu þáttaröð af #Ófærð II

Guð blessi Ófærð.

Könnun RUV


Chauvet hellarnir á Íslandi

Sá mjög áhugaverða heimildarmynd um Chauvet hellana í Suður-Frakklandi. Myndin var gerð af Werner Herzog árði 2010.  Hellirinn fannst árið 1994 af Jean-Marie Chauvet og tveim félögum og geymir ómetanlegar dýramyndir sem gerðar voru fyrir 32.000 árum.

ChauvethorsesÞað sem mér fannst áhugavert var að sjá hversu föstum tökum frönsk stjórnvöld hafa tekið á aðgengi að kalkhellinum. En hellarnir eru lokaðir allri umferð í verndunarskyni. Rammgerð hurð er fyrir hellisopinu og mjög strangar reglur um takmarkaða umgengni vísindamanna og tímalengd og tíðni heimsókna. Skófatnaður er sótthreinsaður og búið að gera palla á viðkvæmum stöðum.

Ég fór því að velta því fyrir mér hvernig íslensk stjórnvöld myndu taka á málum ef ég fyndi sambærilegan helli.

Það fyrsta sem núverandi stjórnvöld myndu gera er að stofna nefnd og væntanlega yrði Eyþór Arnalds fengin til að skálda hana. KOM myndi sjá um almannatengsl. Á meðan nefndin væri að störfum myndi vera athugða hvort Engeyingar gætu eignast hellinn eða landið sem hann væri í. Væntanlega myndi menntamálaráðherra fá verkefnið í sínar hendur og hann myndi strax athuga hvort Orka Energy myndi hafa hag af hellinum. 

Ragnheiður Elín atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra myndi fá aðgengismál og þá yrði pælt í náttúrupassa, hvort það myndi virka eða ekki. Á meðan gætu ferða menn gengið um hann að vild.  Notað hellinn sem salerni og gert þarfir sínar þar. Ekki væri splæst í kamar fyrir utan. 

Andri Snær og Björk væru fyrir utan með vikulega blaðamannafundi og segðu þjóðinni og heiminum hversu merkilegt þetta væri og takmarka þyrfti aðgengi. Gætum hellana fyrir komandi kynslóðir.

Loksins þegar Engeyingar væru búnir að eignast hellinn og náttúrupassi kominn, þá myndi koma í ljós að mygla frá andadrætti manna hefði fært ómetanleg listaverk forfeðra okkar í kaf. Svona erum við langt á eftir.  Ósjálfbær stjórnsýsla og spillt.  32 þúsund ára saga hyrfi á altari frjálshyggjunar.

Það var heppilegt að hellarnir fundust á Frakklandi en ekki Íslandi.


Everest ****

Fyrir nokkrum árum fór ég á bókamarkað í Perlunni. Um tíuþúsund titlar voru í boð en aðeins ein bók náði að heilla mig en það var bókin Á fjalli lífs og dauða (Into Thin Air) eftir Jon Krakauer.  Kostaði hún aðeins 500 kall. Voru það góð kaup.

a_fjalli_lifs_og_daudaÉg var stórhrifinn af bókinni og vakti hún margar spurningar um háfjallamennsku. Krakauer veltir upp mörgum steinum og sér litla dýrð í háfjallaklifri nútímans. En margir fjallgöngumenn hafa ekkert þangað að gera. Það er ávísun á slys. Einnig upplifði ég bókina betur því íslensku fjallamennirnir þrír sem náðu toppi Everest í maí 1997 fléttuðu sögusvið myndarinnar inn í söguna. 

Auk þess hafa fjallamennirnir Peter Habeler, Ed Viesturs og David Breashears komið hingað til lands á vegum FÍFL og haldið góða fyrirlestra.

Því var ég spenntur fyrir stórmyndinni í þrívídd, Everest sem stjórnað er að Baltasar Kormák.

EverestMargar áhugaverðar persónur og góðar persónulýsingar í bókinni sem er vel skrifuð. Skyldi myndin ná að  skila því?

Stórmyndin er sögð frá sjónarhorni Rob Hall (Jason Clarke) en hann sýndi mikið ofdramb, hafði komið mörgum óþjálfuðum ferðamönnum á toppinn. Aðrar áhugaverðar persónur eru: Bréfberinn Doug Hansen (John Hawkes) sem var að fara í annað sinn og besti klifrarinn. Beck Weathers, (Josh Brolin) sem er óhóflega kumpánalegur meinafræðingur frá Dallas í Texas. Rússneski leiðsögumaðurinn Anatoli Boukreev, leikinn af Ingvari Sigurðssyni. Hann þurft ekkert súrefni. Scott Fisher (Jake Gyllendal) hinum leiðangursstjóranum sem er lýst sem kærulausum og veikum leiðsögumanni. Kona Halls,Jan Arnold (Keira Knightley) kemur inn á mikilvægu augnabliki en myndin er ekki bara fjallamynd, heldur um samskipti fólks. Hafa eflaust margir fellt tár þegar síðasta samtal þeirra hjóna fór fram. Sögumaðurinn í bókinni Krakauer (Michael Kelly) kemur lítið við sögu, er áhorfandi.

Mér fannst meistaralega vel gert hvernig Baltasar notar Krakauer í myndinni en hann varpar fram spurningunni: "Til hvers ertu að fara á toppinn", og leiðangursmenn svara af hreinskylni. Áhrifaríkast er svar bréfberans Doug en hann vildi vera fyrirmynd skólakrakkanna í Sunrise-grunnskólanum, dreyma stóra og litla drauma og þunglyndið hjá Beck.

Sjerparnir fá litla athygli í myndinni en vega þyngra í bókinni. Enda markaður fyrir myndina Vesturlandabúar.

Eflaust á myndin eftir að fá tilnefningar fyrir grafík og tæknibrellur en ég sat framarlega og naut myndin sín ekki á köflum í gegnum gleraugun. Mér fannst sumt mega gera betur. 

Í 8000 metra hæð hafa menn ekki efni á að sýna samúð. Það kom í ljós í myndinni. Hver þarf að sjá um sjálfan sig því fjallið, vonda aflið í sögunni á alltaf síðasta orðið.

Ekki er farið djúpt ofan í orsök slyssins en Krakauer kafaði djúpt í bókinni. Göngumenn áttu að snúa kl. 14.00 en virtu það ekki. Fyrir vikið lágu 8 manns í valnum eftir storm. Hefðu menn virt reglur, þá hefði þessi saga ekki verið sögð.

Balti þekkir storma, rétt eins og í Djúpinu þá var stúdíóið yfirgefið og haldið út í storminn. Það gefur myndinni trúverðugleika.

Hljóð og tónlist spilar vel inní en það þarf að horfa aftur á myndina til að stúdera hana. Þrívíddarbrellur koma nokkrum sinnum vel út og gera menn lofthrædda. Gott atriði þegar klaki fór út í sal í einu snjóflóðinu. Margir gestir viku sér undan klakastykkinu.

Ágætis stórslysamynd sem sendir mann um stund til Himalaya og næsta skref er að lesa bók ofurmennisins Boukreev, The Climb.

#everestmovie


Breiðdalshnúkur - Í fótspor Russel Crowe

Breiðdalshnúkur

Breiðdalshnúkur klifinn á annan í páskum. Russel Crowe sem leikur Nóa gekk hann í lok júlí 2012 en tökur á kvikmyndinni Noah voru teknar norðan við Kleifarvatn. Nóa páskaegg klárað og farið á myndina, Noah um Nóa gamla eftir göngu. Nóa nammi keypt á nammibarnum. Nói kemur víða við sögu.....

Það fer lítið fyrir Breiðdalshnúk á leitarvélum. Helst að heimsókn Russel Crowe hafi bætt við nokkrum leitarmöguleikum en tindurinn ber nafn sitt af Breiðdal sem er inn af honum og hnúkurinn er fastur við Lönguhlíð sem er í miklum fjallabálki.

Gengið upp snjólausan hrygg að snælínu en stoppað þar og ráðum háfjallagöngumannsins Ed Viesturs fylgt, að snúa við áður en það er orðið og seint.  Því ísöxi og mannbroddar voru ekki með í för og snjórinn þéttur og varasamur.

Markmiðinu var náð, sama sjónarhorn og óskarsverðlaunaleikarinn náði og rómaði á Twitter-síðu sinni, aðdáendum til mikillar ánægju.

Til eru nokkur fjallanöfn kennd við erlenda afreksmenn. Wattsfell eða Vatnsfell, Lockstindur eða Lokatindur á Norðurlandi.  Nú er spurning um hvort Breiðdalshnúkur fái nafnið Crowhnúkur!

 

Stórleikarinn Russel Crowe

“Good view from the top of Breiðdalshnúkur” - Stórleikarinn Russel Crowe með húfu í fánalitunum á Breiðdalshnúk og horfir yfir kvikmyndatökustaðinn í hléi. Myndin tekin 30. júlí 2012 af Chris Feather.

Dagsetning göngu: 21. apíl 2014, annar í páskum
Mesta hæð: 323 m,  við snælínu
GPS hnit upphaf: 165 m (N:63.57.570 – W:21.56.707)
GPS hnit snælínu: 323 m (N:63.57.301 - W:21.56.536)
Heildarhækkun: 158 metrar         
Heildargöngutími: 90 mínútur (12:30 - 14:00)
Erfiðleikastig:  2 skór
Veður kl. 12 Selvogur: Skýjað, ASA 7 m/s, 5,0 °C. Raki 93%
Þátttakendur: Fjölskyldan á hreyfingu, 3 meðlimir
GSM og 3G samband:  Já, enda mikið ferðasvæði. Stöðugt 3G-samband.
 
Gönguleiðalýsing: Gengið frá þjóðvegi, upp snjólausan móbergshrygg að snælínu. 

Ari Sigurpálsson, 11 ára á Breiðdalshnúk

Ari Sigurpálsson stoltur með húfu í fánalitum í 323 m hæð og horfir yfir leiksvið Hollywood-kvikmyndarinnar Noah. Kleifarvatn og Sveifluháls í baksýn.


The Secret Life of Walter Mitty ****

"Life is about courage and going into the unknown"

Mitty Ísland er hið óþekkta, spennandi, ævintýri.

Ísland er í aðalhlutverki í stórmyndinni The Secret Life of Walter Mitty og má þakka eldgosinu Eyjafjallajökli athyglina.

Ben Stiller er leikstjóri og aðalleikari kvikmyndarinnar The Secret Life of Walter Mitty en hún er gerð eftir samnefndri smásögu sem kom út árið 1939 eftir James Thurber og kvikmynd frá 1947. Einnig hafa nýlega verið framleiddir sjónvarpsþættir.

Walter Mitty er í óöruggustu vinnu hjá LIFE tímaritinu, leggur hart að sér við framköllun á einstökum ljósmyndum, sérstaklega frá Sean O'Connell, okkar RAX, sem leikinn er af Sean Penn. Ný tækni er að taka völdin, starfræna tæknin. Netútgáfa.

Nýrri tæki fylgja breytingar. Sjá má fyrir sér í myndinni breytingarstjórann, útvarpsstjórann Páll Magnússon.

Mitty helgar starfinu lífi sínu og gerir fátt markvert. Hann bætir það upp með dagdraumum eins og við öll þekkjum. Hann tekur dagdraumana alla leið og dettur út.

Myndin er því óður til starfsmanna á plani.

Þegar umbreytingin á sér stað, þá þarf að grípa í taumana. Mitty dregur djúpt andann og heldur á vit hins ókunna. Hann ákveður að leita uppi RAXA og fer í ævintýraferð til Grænlands og þaðan til Íslands. Síðan til Afganistan. Ævintýrin gerast ekki betri nú til dags.

Loks fær Ísland að vera Ísland.

Yfirleitt er landið notað fyrir önnur lönd en hér talar landið fyrir sjálft sig. En tökur á landinu eru einnig notaðar í önnur atriði.   Fyrir Hornfirðinga eru nokkur falleg og góð skot. Hornafjarðarflugvöllur tekur á móti stærstu flugvél sem lent hefur á vellinum fyrr og síðar. Einnig sést Vestrahorn með Skarðsfjörðinn í sinni fallegustu mynd.

Nokkrir íslenskir leikarar koma við sögu. Stærsta bitann fær Ólafur Darri Ólafsson, þyrluflugmaður. Ari Matthíasson er góður sjómaður og kennir framburð á tungubrjótinum Eyjafjallajökull. Þórhallur Sigurðsson (ekki Laddi) er grásprengdur skipstjóri. Einnig er mikill asi á Gunnari Helgasyni hótelhaldara.

Vel gerð gaman- og ævintýramynd með rómantískri hliðarsögu. Glæsileg umgjörð enda hafa myndatökumenn haft úr miklu og fallegu myndefni að moða.  Athyglisverður kreditlisti í lokinn en þá er filman látin njóta sín með póstkortamyndum flestum frá Íslandi.

Helsti galli myndarinnar eru að samtöl eru hæg og framvinda sögunnar í byrjun.

Myndin fær fína dóma erlendis en var frumsýnd víða á jóladag. Þetta er mikil og góð kynning fyrir Ísland.  Sé henni fylgt rétt eftir munu fylgja margir ferðamenn.

Nú er bara að vona að stjórnvöld setji sjálfbærni og græn viðmið á oddinn svo komandi kynslóðir geti áfram nýtt landið fyrir stórmyndir. 

Tengill:

https://www.facebook.com/WalterMitty


Ísland og The Taking of Pelham 1 2 3 (5/10)

The Taking of Pelham 1 2 3 er Hollywood kvikmynd frá 2009. Leikstjóri er Tony Scott heitinn og helstu leikarar eru John Travolta og Denzel Washington.  Þessi mynd er endurgerð eftir mynd frá 1974 og var sýnd á Ríkissjónvarpinu í gærkveldi.

Ísland kemur óvænt við sögu í gíslatökumáli en þá segir aðal söguhetjan frá ferðalagi til landsins árið 1998 með litháenskri rassfyrirsætu og jöklaferð á hundasleðum. 

Ekki áttaði ég mig á samhenginu.  

Í mistakasögu myndarinnar er sagt frá nokkrum mistökum í kvikmyndinni.

"Character mistakeRyder says it takes 6 hours to fly to Iceland from New York. It takes less than 4."

Svo er hægt að sjá söguna um ferðalagið til Íslands á imdb.  Ekki fannst mér myndin tilkomumikil og gef fimm stjörnur af tíu mögulegum. Sagan dularfulla um Ísland gerir hana minnisstæða.


Ísöld 4: Heimsálfuhopp 3D (**)

Ísöld 4Ægifegurð eða hryllileg manngerð fegurð landslagsins er það sem mér kemur fyrst í hug eftir að hafa barið Ísöld 4: Heimsálfuhopp augum. Teiknarar hafa eflaust skoðað myndir af Vatnajökli, Jökulsárlóni og fleiri jöklum.

Formúlumynd með nokkrum bröndurum en fremstur í þeim fer letidýrið Lúlli og amma hans.

Myndin sækir hugmyndir í sjóræningjamyndir, Moby Dick og sígildar myndir.

Endirinn kemur engum á óvart. En unga fólkinu fannst gaman og það er fyrir öllu.

Þrívíddin gerir lítið fyrir  myndina, en takið með ykkur þrívíddargleraugu ef þið eigið, annað er sóun.

Formúlumynd sem rakar inn pening.


Chinatown ****

Rökkurmyndin Chinatown (1974) í leikstjórn Roman Polanski var fyrsta myndin á Mánudagsbíóum Háskóla Íslands og Háskólabíós. Það var góð stemming eldra fólks í Stóra sal Háskólabíós, gömul filma sem rann í gegnum sýningarvélarnar og varpaðist á 175 fermetra sýningartjaldið. Rispur og eðlilegar hljóðtruflanir mögnuðu upp fortíðarstemminguna.

ChinatownMyndin á mjög vel við í dag enda er umfjöllunarefnið spilling og siðblinda. En þegar myndin var frumsýnd hér í Háskólabíó í júní 1976 töldu landsmenn sig búa í óspilltasta landi í heimi. Vatns- og landréttindi í þurri Los Angeles eru meginþemað en þessi mál eru í hámæli hér á landi núna. Leikararnir Jack Nicholsson, Faye Dunaway og John Huston, í hlutverki siðblinda og gráðuga öldungsins sem telur að sér sé allt leyfilegt, eru stórgóð.  Leikstjórinn Roman Polanski tekur sér Alfred Hitchcock til fyrirmyndar og er stórgóður í litlu hlutverki. En það sem gerir myndina sterka er góður leikur allra aukaleikara.

Sagan er stórgóð byggir á vel meitluðu handriti. Sögusviðið er Los Angeles á fjórða áratugnum (1930's) og er mikið reykt af sígarettum í myndinni. Eflaust hafa tóbaksrisarnir styrkt hana vel.  Myndin var á sínum tíma kölluð fyrsta rökkurmyndin (film noir) í lit.  Hún var tilnefnd til 10 Óskarsverðlauna en uppskar aðeins ein, fyrir handrit.

Sagan segir að Chinatown hafi átt að vera fyrsta myndin í þríleik um auðlindaspillingu en Polanski flúði Bandaríkin vegna lögbrota og því varð ekkert úr pælingu hans. Jack Nicholson tók við hjólinu en myndin, The Two Jakes (1990), fékk slæma dóma gagnrýnenda og því dó spillingar uppfræðslan.

Á leiðinni út úr heitum sal Háskólabíós í kuldann og snjóinn komu upp í hugann leikarinn John Huston sem Noah Cross. En í stað hans setti maður orkuútrásarvíkinga, REI, bankastjóra árið 2008, FLokkinn, Magma og æðsta dómsstig landsins. Allir þessir aðilar spegluðust vel í Noah Cross.

Myndin var á sínum tíma kölluð fyrsta rökkurmyndin (film noir) í lit. En hvað eru rökkurmyndir. Ég hafði ekki hugmynd um það áður en ég fór á sýninguna en eftir að hafa leitað mér upplýsinga þá læt ég þær fylgja hér með.  

"Meginþema í öllum Film Noir myndum er spilling. Rotin og ísköld spilling og ekki síst blekkingarvefur. Fólk er gjarna ekki allt þar sem það er séð og algengt þema er að einhver ber ást til manneskju sem reynist síðan ekki vera sú manneskja sem hann varð ástfangin af.

Til útskýringar fyrir þá sem þekkja ekki til Film Noir mynda þá voru þær vinsælar á fimmta áratugnum. Þetta voru sakamálamyndir og í flestum tilfellum var aðalpersónan einkaspæjari. Sögumaður segir söguna, gjarna einkaspæjarinn sjálfur. Veröldin í þessum myndum er spillt og siðlaus, umhverfið stórborg og það hellirignir í Film Noir. Sem dæmi um þekktar Film Noir myndir má nefna "Double Indemnity" og "The Postman Always Rings Twice". Í Film Noir er heimsmyndin kolsvört, algjört svartsýni ríkir. Og ekki má gleyma kaldhæðninni. Lýsingin er það sem einkennir Film Noir hvað mest og flestir þekkja. Lýsing neðan frá, dimmar senur og miklar andstæður ljóss og skugga. Svo eru þverlínur notaðar til að koma óróleika í myndina, gjarna í formi rimlagluggatjalda.
"

Heimild:  Kvika.net

Já, hann er margbreytilegur kvikmyndaheimurinn.


Bleiki pardusinn

Vika Bleika Pardusins var að enda í Bíó Paradís. - Ég fór á kvikmyndina, Pink Panter Stirikes Again.Alveg meiriháttar mynd og Peter Sellers var stórkostlegur í hverju atriðinu á fætur öðru sem leynilöggan og hrakfallabálkurinn Inspector Clouseau.

Framleiðandi myndanna í bálknum um bleika pardusinn, Blake Edwards lést í síðasta mánuði og voru allar fimm myndirnar sýndar í vikunni í minningu hans. Fallegt og flott framtak hjá Bíó Paradís. 

Það eru að verða 30 ár síðan ég sá þessa stórskemmtilegu mynd í Sindrabæ á Hornafirði og eldist hún mjög vel. Húmorinn lifir. Peter Sellers er stórmagnaður með sinn franska hreim. Kalda stríðið er í bakgrunni. Maður var ekki laus við smá nostalgíu.

Nú verður maður að kaupa alla Pink Panter diskana á Amazon. Þetta er klassík.


Svínafellsjökull minnkar

Í uppgjöri Svínafellsjökuls á því herrans ári 2010 kemur eflaust fram að hann hefur minnkað.

Í nýjasta hefti Jökuls (No 59, 2009), fjallar Oddur Sigurðsson um jöklabreytingar. Um Svínafellsjökul árin 2006-2007 segir: Neskvísl sem rann frá jöklinum i Skaftafellsá er nú hætt að renna. Allt vatn frá jöklinum fer nú um Svínafellsá.

Einnig eru mælingar á stað 2 athyglisverðar en Guðlaugur Gunnarsson hefur séð um þær. Á árunum 1930-1960 hopaði hann um 403 metra. Skriðjökullinn bætti við sig 3 metrum á tímabilinu 1960-1990. Hann hörfaði um 96 metra 2003-2004 og 2 metra 2006-2007. Hopið síðustu kreppuár er augljóst.

Á stað 3 eru meiri breytinagar á Svínafellsjökli: Hop um 2.342 metra 1930-1960; Hop um 281 metra 1960 til 1990 og 72 metrar 2003-2004. 

Ég átti leið að jöklinum í vikunni og fór í gönguferð á Svínafellsjökli með fjallaleiðsögumanninum Einari Sigurðssyni hjá Öræfaferðum. Þetta er stórbrotin ferð, áhrifamikil og mjög lærdómsrík.

Það er svo margt sem jöklarnir vita og við vitum ekki um. Okkur birtast svipir góðs og ills sem mótuðust í iðrum breðans á meðan aldirnar líða.

Atriði í kvikmyndin, Batman Begins voru tekin við Svínafellsjökul í Öræfasveit árið 2004 og sést vel í einu bardagaatriðinu í jökulinn. Ég tók mynd af sama stað sex árum síðar og munurinn er gríðarmikill.

Hér er bardagaatriði úr Batman-myndinni (4:22):

SvBatmanBeginsJok

Liam Neeson og Christian Bale að berjast við jaðar Svínafellsjökuls á frostlögðu vatni. 

Mynd tekin í lok árs 2010 á sama stað:

IMG_3843

Bardagahetjurnar börðust á svellinu sem er í forgrunni og yfirborð jökulsins hefur lækkað mikið og jaðarinn hörfað. Hér eru ekki nein tæknibrögð í tafli heldur er jörðin að hlýna.


Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.9.): 110
  • Sl. sólarhring: 248
  • Sl. viku: 361
  • Frá upphafi: 232707

Annað

  • Innlit í dag: 97
  • Innlit sl. viku: 321
  • Gestir í dag: 97
  • IP-tölur í dag: 94

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband