Færsluflokkur: Menntun og skóli

Einbreiðar brýr í Ríki Vatnajökuls - Áhættustjórnun

Ég geri mér grein fyrir að einbreiðu brýrnar 21, verða ekki allar teknar úr umferð strax með því að breikka þær eða byggja nýja en það má efla forvarnir stórlega. Markmiðið hjá okkur öllum hlýtur að vera að enginn slasist eða láti lífið. Takist það þá er það mikið afrek.
Erlendum ferðamönnum hefur fjölgað gífurlega og ferðast flestir í leigubifreiðum. Slys á ferðamönnum hefur tvöfaldast frá árinu 2008.
Á Páskadag voru um 2.500 bifreiðar við Seljalandsfoss, um 1.000 í Ríki Vatnajökuls og 250 fyrir austan Höfn. - vegagerdin.is
Í samgönguáætlun 2011 segir: Útrýma einbreiðum brúm á vegum með yfir 200 bíla á sólarhring.

En markmið áhættustjórnunar er að ákvarða nauðsynlegar aðgerðir til að fjarlægja, minnka eða stjórna áhættu.

Ógnir
Náttúrulegar
- Ægifegurð í Ríki vatnajökuls - erlendir ferðamenn horfa á landslag og missa einbeitningu
- Niðurbrot byggingarefnis. Meðalaldur einbreiðra brúa í Ríki Vatnajökuls er tæp 50 ár.
- Hálka
- Viðvörunarskylti sjást stundum ekki vegna snjólaga um vetur
- Sól lágt á lofti
- Lélegt skyggni, þoka eða skafrenningur, skyndilega birtist hætta og ekkert svigrúm
- Jarðskjálftar, hitabreytingar, jökulhlaup eða flóð geta skapað hættu

Manngerðar ógnir
- Óreyndir ökumenn, sérstaklega frá Asíu
- Krappar beygjur að brúm
- Umferðarmerkið Einbreið brú - aðeins á íslensku
- Umferðarmerki við einbreiðar brýr séríslensk, aðrar merkingar erlendis
- Brýr stundum á hæsta punkti, ekki sér yfir, blindhæð
- Einbreiðar brýr, svartblettir í umferðinni
- Lélegt viðhald á brúm. Ryðgaðar og sjúskuð vegrið. Ósléttar.
- Hált brúargólf
- Beinir vegakaflar, býður upp á hraðakstur
- Flestir ferðamenn koma akandi frá höfuðborginni og byrja á tvíbreiðum brúm (68 alls) en svo koma slysagildrur, jafnvel dauðagildrur
- Hringvegurinn lokast um langan tíma verði óhapp á brú.
- Litlu eða stuttu brýrnar eru hættulegri en lengri, þær sjást verr, lengri brýrnar gefa meira svigrúm og ökuhraði hefur minnkað
- Lítill áhugi Alþingismanna og ráðherra á öryggismálum á innviðum landsins
                
Úrbætur
- Draga úr ökuhraða þegar einbreið brú er framundan í tíma
- Hraðamyndavélar.
- Blikkljós á allar brýr, aðeins við fjórar brýr og blikkljós verða að virka allt árið.
- Útbúa umferðarmerki á ensku
- Fjölga umferðamerkum, kröpp vinsri- og hægri beygja, vegur mjókkar.
- Skoða útfærslu á vegriðum
- Fræðsla fyrir erlenda ferðamenn
- Virkja markaðsfólk í ferðaþjónustu, fá það til að ná athygli erlendu ferðamannana á hættunni án þess að hræða það
- Nýta SMS smáskilaboð eða samfélagsmiðla
- Betra viðhald
- Bæta göngubrú norðanmeginn við Jökulsárlón á Breiðarmerkursandi
- Styrkja þarf brýr, sú veikasta, Steinavötn tekur aðeins 20 tonn

Þegar erlend áhættumöt eru lesin, þá hafa brúarsmiðir mestar áhyggjur af hryðjuverkum á brúm en við Íslendingar höfum mestar áhyggjur af erlendum ferðamönnum á einbreiðum brúm. Jarðskjálftar og flóð eru náttúrlegir áhættuþættir en hryðjuverk og erlendir ferðamenn ekki.

Þingmenn í Suðurlandskjördæmi og stjórnarþingmenn verða að taka fljótt á málunum. Einhverjir hafa þó sent fyrirspurnir á Alþingi og ber að þakka það. Auka þarf fjármagn í forvarnir og öryggismál. Arðsemi fjárfestingarinnar (ROI) er mikið. 

Útbúin hefur verið síða á facebook með myndum og umsög um allar einbreiðu brýrnar, 21 alls í Ríki Vatnajökuls.
https://www.facebook.com/EinbreidarBryr/

Í haust verður gerð samskonar úttekt áhugamanns um aukið umferðaröryggi. Vonast undirritaður til að jákvæðar breytingar verði í vor og sumar og ekkert slys verði í kjördæminu og landinu öllu. Það er til núllslysamarkmið.
 
En hafið í huga fræga setningu úr myndinni Schindlers List meðan manngerða Tortóla fárviðrið gengur yfir: "Hver sem bjargar mannslífi bjargar mannkyninu"

Jökulsárlón á Breiðarmerkursandi

Brúin yfir Jökulsárlón á Breiðamerkusandi, hengibrú byggð 1967, 108 m löng, 4,2 m breið og 34 tonna vagnþungi.  Mjög mikil áhætta.


Sýndarveruleiki

Nokkrir spá því að næsta ár, 2016, verði ár sýndarveruleikans, (virtual reality - VR). Hér er mynd af fólki með sýndarveruleikagleraugu að skoða lausn við loftslagsbreytingum með því að bjóða fólki að útiloka raunveruleikann. Sýndarveruleiki gefur notandanum þá hugmynd að hann sé staddur í allt öðrum heimi en hann er í raun staddur í. 

Til eru sýndarveruleikagleraugu sem passa fyrir alla smartsíma og breyta símanum í t.d. 3D bíóhús eða þrívíða leikjahöll.

Það er næsta víst að sýndarveruleiki mun skipa stóran sess í afþreygingariðnaði framtíðarinnar. 

VR

Verður 2016 svona?  Venjulegur maður sker sig úr?


ML85 golfmótið

Hin gömlu kynni gleymast ei,
enn glóir vín á skál.
Hin gömlu kynni gleymast ei
né gömul tryggðamál

Svo segir í skosku þjóðlagi.  Útskriftarárgangur 1985 árgangs Menntaskólans að Laugarvatni heldur árlega golfmót til að rifja upp hin gömlu kynni en núna eru nákvæmlega 30 ár síðan nemendur hittust í fyrsta skipti. Þátttaka er ekki mikil en mótið er stórskemmtilegt. Flest mótin hafa verið haldin á Ljósafossvelli í Grímsnesi en í ár varð Korpuvöllur fyrir valinu.

Einn sjötti hluti árgangsins skráði sig til leiks en menn búa víða um land og sumir hafa mikið að gera við aðra merkilega hluti. Auk þess eru ekki allir með áhuga á golfíþróttinni.

Úrslitin skipta ekki máli en verkfræðingurinn Guðlaugur Valgarð Þórarinsson náði að hala inn flesta punkta þegar mótið var gert upp og var því úrskurðaður sigurvegari. Stjórnmálafræðingurinn og auglýsingagúrúinn, Einar Örn Sigurdórsson og undirritaður voru jafnir en Einar Örn spilaði mun betur í bráðabana og uppskar silfur.

Einar Örn átti mörg stórgóð upphafshögg og náði góðu sambandi við sína Stóru Bertu. Guðlaugur var öruggur á öllum brautum og náði alltaf að krækja í punkta. 

Þetta var mjög skemmtilega stund í fallegu haustveðri og verður hittingurinn endurtekin að ári eða oftar.

Verdlaunabikar

Mynd frá mótinu árið 2010 á Ljósafossvelli.  Guðlaugur Valgarð Þórarinsson, Sigurpáll Ingibergsson og Einar Örn Sigurdórsson sem heldur á farandbikarnum.

 


Stóra upplestrarkeppnin

Hún Særún mín stóð sig vel í Stóru upplestrarkeppninni í Hjallaskóla. Lokahátíðin var haldin í sal skólans í dag. Gerði stúlkan sér lítið fyrir og vann keppnina. Fékk hún að launum fallega rós og bókina Sagan af brauðinu dýra eftir Nóbelskáldið Halldór. Einnig verður hún fulltrúi Hjallaskóla í aðalkeppninní í Salnum í Kópavogi, þann 17. marz.

Særún

Særún í jógaæfingu á Eyjabökkum með Snæfell í bak í júlí 2005.  


Vínsmökkun í Ríki Vatnajökuls

Vínskólinn er merkilegur skóli. Þar er skemmtilegt að vera.

Námið þar dýpkar skilning nemanda á góðum veigum. Eitt af markmiðum Vínskólans er að fara í vínsmökkunarferðir. Ávallt er farið erlendis í slíkar ferðir enda lítið um vínrækt hér á landi. En nýlega sá ég mjög athyglisverða nýbreytni. Vínskólinn ætlar að fara í vínsmökkunarferð innanlands.

AfurdVatnajokullHvernig má það vera hægt, ekki er mikið um víngerð hér landi. En það býr meira á bakvið vínsmökkun en bragð vínsins. Það er samsetning matar og víns. Einnig menning viðkomandi staðar. Ísland hefur upp á mikið að bjóða í mat. T.d. osta, villibráð og allt sjávarfangið.  Því er spennandi að fylgjast með hvernig til tekst með vínsmökkunarferð í Ríki Vatnajökuls. Ég fékk neðangreind skilaboð frá Dominique, skólastjóra Vínskólans fyrir stuttu.

Vínsmökkunarferð innanlands?
Það er vel hægt og hópur er að fara í fyrsta skipti í eins konar óvissuferð norður á land, þar sem fléttað verður saman mat úr héraði (Matarkistu Skagafjarðar og Eyjafjarðar) með kvöldmáltíð á Hótel Varmahlíð og hjá Friðrík V, heimsókn í héruðunum og vínsmökkun með matnum. Auðvelt í framkvæmd, gefandi að skoða hvað landið hefur uppá að bjóða - og það er ótrúlega margt.
Ríki Vatnajökuls í Hornafirði hefur samskonar dagskrá í boði og ekki er sú sveit verr setin hvað matarkistu varðar.
Vínskólinn er stoltur að vera á báðum stöðum samstarfsaðili þeirra sem gera matnum úr sveitum landsins svona hátt undir höfði.


Fyrsta skólastigið

Hann Ari litli útskrifaðist úr Leikskólanum Álfaheiði á föstudaginn síðasta. Fyrir nokkru var útskriftarhátíðin og því var hóflegur kveðjustund enda orðið fámennt. Það hefja því 22 krakkar grunnskólanám í haust. Krakkarnir dreifast á nokkra skóla í Kópavogi og ætlar Ari í Hjallaskóla í haust.

Ari lærði magt í leikskólanum. Það var mikill knattspyrnuáhugi hjá strákunum. Knattspyrnuvöllurinn er einfaldur. Fjórar aspir notaðar sem markstangir. Umgjörðin minnir mig á afríska leikvelli.  Leikskólinn er örstutt frá Digranesi og því eru allir í HK. Ari hóf að vísu knattspyrnuferilinn í Breiðablik en skipti yfir í stórveldið fyrir ári síðan. Að sjálfsöguð gaf Ari skólanum bolta að skilnaði.

Fyrir utan hefðbundið nám, þá lærðu krakkarnir mannganginn í skák og svo er umhverfisvæn hugsun kennd í lífsmenntaskólanum.

Hér eru myndir sem sýna námsmanninn fyrir framan Lífsmenntaskólann Álfaheiði. Sú fyrri var tekin er fyrsti stóri dagurinn rann upp, þann 15. ágúst 2005.  Neðri myndin sýnir knattspyrnumanninn á síðasta skóladegi, 17. júlí 2009.

Ari upphaf

 

Ari lok


Þýli

Á Hafíssetrinu í Hillebrandtshúsi, elsta timburhúsi landsins á Blönduósi er þessari köldu spurningu kastað fram.

Talið er að Ísland hafi heitað Þýli í a.m.k. 1200 ár. Ættum við að skipta og taka upp gamla nafnið? Hugsið málið!

Hvað ætli markaðsmenn segi um nafnabítti. Eftir tvöhundruð ár verður Ísland íslaust og ber þá ekki nafn með rentu.

Mér fannst þetta athyglisverð vitneskja um gamla nafnið á landinu okkar sem ég fékk á Hafíssetrinu í gær. Hins vegar finnst mér nafnið Þýli vera frekar óþjált og líta illa út á prenti. En það yrði borið fram eins og Thule. En þetta er svipuð pæling og cuil.com menn eru að framkvæma, vera kúl.

Nafnið Þýli er komið af gríska orðinu þýle. Gríski sæfarinn Pyþeas ritaði um ferðir sínar á fjórðu öld fyrir Krist og minnist þar meðal annars á þessa norðlægu eyju, Þýli. Segir hann ís ekki fjarri landinu í norðri, bjart nánast allan sólarhringinn um hásumar og sé þangað sex daga sigling frá Bretlandi.

Á frólega vefnum ferlir.is er þessi frásögn af nafninu Þýli.

"En laust eftir aldamótin 700, þegar norrænir víkingar, er þá og síðar vóru yfirleitt nefndir "danir", tóku að herja og ræna vestur á bóginn frá aðalbækistöð sinni á meginlandinu er enn heitir Normandí í Frakklandi, var höfuðbækistöðin flutt norður til þess óbyggða eylands, er nú heitir Ísland, en þá hét Þúla eða Þýli = Sóley, (síðar Thule eftir að þ-ið hvarf úr engilsaxnesku stafrófi), "

Að lokum má leika sér með nokkrar línur. 
  "Ég ætla heim til Þýlis!",
  "Hæstu vextir í heimi á Þýli",
  "Þýlenska kvótakerfið.

Þýli ögrum skorið

Þýli ögrum skorið,
eg vil nefna þig
sem á brjóstum borið
og blessað hefur yfir mig
fyrir skikkun skaparans.
Vertu blessað, blessi þig
blessað nafnið hans.

    Eggert Ólafsson  1726-1768 

Borgarvirki 022


Nelson níræður

Fyrir nokkrum árum fór ég á árlegan bókamarkað í Perlunni. Þar voru þúsundir bókatitla til sölu. Ég vafraði um svæðið og fann grænleita bók sem bar af öllum. Hún kostaði aðeins  fimmhundruð krónur. Þetta var eina bókin sem ég keypti það árið.  Hún hét Leiðin til frelsis, sjálfsævisaga Nelson Mandela.

NelsonMandelaFjölvi gaf út bókina árið 1996 og er ágætlega þýdd af Jóni Þ. Þór og Elínu Guðmundsóttur. Bókin hafði góð áhrif á mig. Hún sýndi stórbrotinn mann í nýju ljósi.

Thembumaðurinn Rolihlahla sem fæddist fyrir 90 árum er síðar nefndur Nelson á fyrsta skóladegi var bráðvel gefinn drengur.  Nafnið Rolihlahla merkir á máli Xhosa "sá sem dregur trjástofn", en í daglegu máli er það notað yfir þá, sem valda vandræðum.  Nelson Mandela átti eftir að valda hvíta meirihlutanum í S-Afríku miklum vandræðum í baráttunni við aðskilnaðarstefnuna, Apartheid.

Þegar Nelson var 38 ára var bannfæringu létt af léttvigtarmanninum. Hann fór í frí til átthaganna. Þar er áhrifamikil frásögn. 

"Þegar kom framhjá Humansdorp varð skógurinn þéttari og í fyrsta skipti á ævinni sá ég fíla og bavíana. Stór bavíani fór yfir veginn fyrir framan mig og ég stöðvaði bílinn. Hann stóð og starði á mig, eins og hann væri leynilögreglumaður úr sérdeildinni. Það var grátbroslegt að ég, Afríkumaðurinn, var að sjá þá Afríku, sem lýst er í sögum, í fyrsta sinn. Þetta fallega land, hugsaði ég, allt utan seilingar, í eigu hinna hvítu og forboðið svörtum. Það var jafn óhugsandi að ég gæti búið í þessu fallega héraði og að ég gæti boðið mig fram til þings."

Mæli með að fólk lesi sem mest um Nelson Mandela í dag og næstu daga. Það er mannbætandi.

Þetta voru mjög vel heppnuð bókarkaup.   Til hamingju með daginn, Rolihlahla Mandela.

 


Huðnur að spekjast á Horni

Það er skrifuð góð íslenska í Eystrahorni í dag, eða gær!

Á forsíðu Eystrahorns er sagt frá geitum í landi Horns. Ómar Antonsson hrossa- og geitabóndi segir frá smölun á huðnum og höfrum í Hornsfjöllum. En hann brást skjótt við tilmælum bændasamtakan og handsamaði þrjár huðnur og einn hafur.

Í fréttinni komu fyrir tvö orð sem ég hef ekki heyrt áður á ferlinum. Huðna og spekjast. Ég fór því í orðabækur og á Netið til að finna út hvað þau standa fyrir.

Huðna er eins og allir vita kvenkyns geit og má til gamans geta þess að Huðnur eru ein allra sterkustu dýrin sem finnast úti í íslenskri náttúru!

Spekjast er annað orð yfir að róast eða temjast og notað í Eystrahorni: "Þær eru allar að koma til og spekjast hér inni." 

Gott mál hjá Eystrahorni


Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.9.): 104
  • Sl. sólarhring: 242
  • Sl. viku: 355
  • Frá upphafi: 232701

Annað

  • Innlit í dag: 92
  • Innlit sl. viku: 316
  • Gestir í dag: 92
  • IP-tölur í dag: 90

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband