Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Að deyja úr frjálshyggju

Þær safnast undirskriftirnar hjá endurreisn.is. Það styttist í 70 þúsund manna múrinn verði rofinn.

Ég lenti í lífsreynslu í sumar og þurfti að leita á náðir heilbirgðiskerfisins og eru það ný lífsreynsla fyrir mér en hef náð áratug án þess að þurfa að leita læknis.

Skrifaði grein á visir.is: Frá Kverkfjöllum til Tambocor, þriggja mánaða krefjandi ferðalag.

Að leggja fjármagn í heilbirgðiskerfið er fjárfesting en ekki útgjöld. Hvert mannslíf er verðmætt. Um hálfur milljarður!

Hér á landi vantar lækna. Það vantar hjúkrunarfólk. Það vantar fjármagn, kærleik og skilvirkt heilbrigðiskerfi. Það vantar góða stjórnmálamenn. Það vantar rétta forgangsröðun. Það er vísvitandi verið að brjóta heilbrigðiskerfið niður innanfrá. Það er verið að undirbúa innrás frjálshyggjunnar.  

Heilbrigðiskerfið á Íslandi er eflaust á heimsmælikvarða fyrir heilbrigt fólk, en þegar reynir á kerfið eru biðlistarnir langir.  Þeir eru í boði stjórnvalda. Þau bera ábyrgð á stöðunni. Fagfólkið á spítalanum gerir sitt bezta.

Við skulum von að okkur Íslendingum takist að endurreisa heilbrigðiskerfið og hafa sambærilegt heilbrigðiskerfi og hin Norðurlöndin búa við til að vernda okkar mikilvægust eign, heilsuna.

Vonandi deyr enginn úr frjálshyggju. 


HM og vítaspyrnukeppni

Velheppnað heimsmeistaramót stendur nú yfir í Brasilíu.

Þegar HM í knattspyrnu er annars vegar er þetta ekki bara íþróttaviðburður heldur alþjóðlegur menningarviðburður. Fótbolti er hluti af menningu flestra þjóða, HM er einn alstærsti viðburðurinn (ásamt ÓL) þar sem ólíkar þjóðir úr öllum heimsálfum koma saman í friði og reyna með sér í heilbrigðum leik. 
 
Trúarbrögð, hörundslitur, menning og efnahagur skipta ekki máli. Þetta er eitt af því góða sem samfélag þjóðanna hefur alið af sér. Þetta er keppni sem nær til allra - líka þeirra ríku og fátæku.
 
þegar þetta er skrifað eru 16-liða úrslitin hálfnuð.  Grípa hefur tvisvar til vítaspyrnukeppni.  Brasilía vann Chile 3-2  og Costa Ríka vann Grikkland 5-3 en í bæði skiptin sigraði liðið sem hóf vítaspyrnurnar.  
 
Það hefur verið sannað að liðið sem hefur leik í vítaspyrnukeppni á meiri sigurmöguleika. Því hefur verið stungið upp á nýju kerfi.  ABBAABBAAB-kerfinu.
 
ABBAABBAAB-kerfið er ekki galin útfærsla. Það þarf að prófa það. Eini gallinn er að þetta virðist flókið, bæði fyrir leikmenn og áhorfendur en eflaust sanngjarnara.
 
Í dag leika Frakkar við Nígeríu og Þjóðverjar við Alsír. Evrópsku liðin eru svo sterk að þau ættu að komast áfram án vítaspyrnukeppni en Nígería og Alsír njóta sín betur í  hitanum og rakanum. Það er þeirra tromp. 
 
Það verður stórleikur í 8-liða úrslitum ef Frakkar og Þjóðverjar komast áfram 

Hrakvirði

Mikið var gaman á landsleiknum í gær. Íslendingar voru vel klæddir í fánalitunum og studdu íslensku leikmennina á vellinum vel.  Annað eins hefur ekki sést í Laugardalnum. Svo mikil var stemmingin í Austur-stúkunnu að fólk stóð allan leikinn.

Við inngang að vellinum var boðið upp á húfur og trefla. Sérstakur trefill var hannaður út af leiknum mikilvæga. Íslensku litirnir voru á öðrum helmingnum og rauðir og hvítir, köflóttir litir Króatíu meginn. Dagsetning leiksins kom einnig fyrir. Svona til að minna eigandann á leikinn og vekja nostalgíu síðar meir.

Trefillinn kostaði kr. 3.000 á leikvellinum og var það heldur hátt verðlag. Við feðgar féllum ekki fyrir freistingunni.  En dauðlangaði í enn einn trefilinn.

 Stuðningstrefill

Þegar leiknum lauk sneri fólk heim á leið. Tæplega tíu þúsund manns í einni röð. Á fjölförnum leiðum voru sölumenn, erlendir, líklega Króatar og buðu trefla til kaups. Nú var verðið komið niður í tvö þúsund og við 98 metrum frá Laugardalsvelli.  Okkur dauðlangaði í enn einn trefilinn.

Við héldum áfram með straumnum. Fólk spjallaði um leikinn. Fannst dómarinn slakur.  Modric lítill en snöggur, rauða spjaldið harður dómur og Kristján í markinu góður.  Þegar við nálguðumst Suðurlandsbrautina var einn einn útlendingurinn hlaðinn treflum. En nú var verðið komið niður í eitt þúsund og við 313 metrum frá Laugardalsvellinum.  Eftirspurnin var ekki mikil.  En á rúmum 200 metrum hafði verðið lækkað mikið. Við feðgar vorum loks orðnir sáttir við verðið og keyptum einn trefil til minningar.

Þarna lærði Ari um hrakvirði.  Treflarnir verða verðlausir eftir leikinn.

Ekki voru fleiri erlendir sölumenn en trúlega hafa treflarnir verið framleiddir í Kína og klókir sölumenn tekið áhættuna.

En allt í einu kom upp í hugann Ragnheiður Elín Árnadóttir, af öllum mönum eftir þetta óvænta hrakvirðisnámskeið. Nú vill iðnaðar- og viðskiptaráðherra selja dýrmæta orku okkar á hrakvirði rétt eins og fyrri Ríkisstjórnir. Bara til að koma af stað einhverri bólu í kjördæminu og tryggja mögulegt endurkjör.  Til að selja fleiri eignir landsmanna á hrakvirði og láta flokksfélagana mata krókinn.

Vilhjálmur Þorsteinsson, skrifaði ágætis grein um raforkusamninga og sá ég hann þegar heim var komið.  Dýrasti samningur Íslandssögunnar nefnist hún og er um raforkusamning við Alcoa.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, fv. Aðstoðarmaður Geirs H. Haarde er ekki að standa sig. Snurpar vel rekna Landsvirkjun.

Við þurfum góða ráðherra. Kjósendur bera ábyrgð.


Geir negldur

Niðurstaða Landsdóms kom mér ekki á óvart í landsdómsmálinu nr. 3/2011: Alþingi gegn Geir Hilmari Haarde. Ég var búinn að komast að þessari niðurstöðu eftir að hafa fylgst með aðalmeðferðinni. Til að komast að þessari niðurstöð notaði ég þekkingu mína á gæða- og öryggismálum.

Forsætisráðherran var dæmdur fyrir að látið farast fyrir að framkvæma það sem fyrirskipað er í 17. gr. stjórnarskrár lýðveldisins um skyldu til að halda ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 kemur fram að samræmt verklag var ekki fyrir hendi í mörgum málum. Boðleiðir hafa verið óljósar og ábyrgð ekki skýr.

Niðurstaða Landsdóms tekur undir undir það. Stjórnsýslan hefur verið í molum. Það er ekkert sprenghlægilegt við það.

Ég er vottaður úttektarmaður (Lead Auditor) í ISO 27001 öryggisstaðlinum og í úttektum leitað að sönnunargögnum um að verklagi sé fylgt. Í máli Geirs fundust engin sönnunargögn um að ráðherrafundir hafi verið haldnir. Það má líkja því við kröfu í kafla - 7 Rýni stjórnenda á öryggisstjórnkerfinu, við getum kallað það ráðherraábyrgð.

Úttektarmenn meta það svo hvort frábrigðið sé meiriháttar (major nonconformity) eða minniháttar. Fáir stofnun á sig meiriháttar frábrigði, þá endurnýjast vottunarskírteini ekki. Því má segja að Geir og forsætisráðuneyti hans hafi sloppið með minniháttar frábrigði.

Ein mikilvægasta eign hvers fyrirtækis og stofnunar er traust og gott orðspor. Þetta er eign sem ekki fæst af sjálfu sér og auðvelt er að spilla.

Það er einn lærdómurinn af Landsdómsmálinu að stjórnsýslan á Íslandi er ekki nógu gegnsæ. Ef takast á að lagfæra það sem aflaga hefur farið þarf að skrá verklag og skýra boðleiðir og ábyrgð stjórnenda. Í ljósi stöðunnar er það beinlínis nauðsynlegt fyrir stofnanir að sinna öryggis- og gæðamálum af festu og sýna fram á fylgni við alþjóðlegar öryggis- og gæðakröfur.

Því má segja að Geir hafi verð negldur fyrir ógagða stjórnsýslu fyrri ára. Geir er ekki gert að taka út refsingu fyrir athæfið og er það eflaust næg refsing að lenda fyrir Landsdóm.


Mjög alvarlegur upplýsingaleki hjá Hraðpeningum

503 Service Unavailable 

Þannig svarar þjónninn sem svarar fyrir leppaludar.com.  Á vefsvæðinu er viðkvæmur listi í Excel skrá yfir 1.500 lántakendur hjá okurlánafyrirtækinu Hraðpeningar.

Á vef Pressunar eru tvær fréttir um málið í dag.

Þetta er mjög alvarlegt atvik. Persónuupplýsingar á Netinu. Það sem fer á Netið verður á Netinu. Svo einfalt er það.

Nú þarf lögreglan að finna út hverjir reka vefinn leppaludar.com og upplýsa málið.

Fjármálaeftirlitið ætti að gera kröfu um að allar bankastofnanir vinni eftir alþjóðlegum öryggisstöðlum til að minnka líkur á að svona gerist. ISO/IEC 27001 upplýsingaöryggisstaðalinn er eini aljóðlegi staðallinn. Grundvallaratrið staðalsins er verndun upplýsinga gegn þeim hættum sem að upplýsingunum steðja.

Einnig eru þarna upplýsingar um krítarkort og þá þarf að setja kröfu um að fjármálafyrirtæki uppfylli PCI DSS-staðalinn.

Hér fyrir neðan er skjámynd sem sýnir hvernig hægt var að finna Excel-skránna á Netinu með því að gúggla.

HradpeningarLeit


Maybe I Should Have ****

Það voru sorglega fáir á góðri og skemmtilegri heimildarmynd, Maybe I Should Have, í Kringlubíó í gærkveldi. Setti það að mér ákveðin ugg um að landsmenn séu farnir að gefast upp í baráttnni um Nýja Ísland. Það má ekki sofna aftur á verðinum.

MISHÍ byrjun myndar er farið yfir sviðið og saga hrunsins sögð fram að stjórnarslitum fyrir rúmu ári. Það þekkja allir þá sögu en hún hefur komið í öðrum heimildarmyndum, bókum og ánnálum.  Eftir þennan inngang fer Gunnar Sigurðsson, leikstjóri í leit að peningunum sem hurfu. Notar hann sömu aðferð og Michael Moore. Hann ferðast til London og Luxemburgar, skoðar bankabyggingar og fyrirtæki. Einnig ræðir við fólk. Það liggur leiðin til Guernsey og Tortola. Ekki finnur hann neina peninga en hefur ákveðinn grun hvar þá gæti verið að finna.

Einnig er rætt við þekkta erlenda aðila, m.a. fjármálaeftirlitsmanninn William Black, Evu Joly og Robert Wade en þau hafa komið með góð ráð í Silfri Egils.

Niðurstaða er að ekkert hefur breyst á þessu rúma ári frá hruni. Það er eflaust mikið til í því, sérstaklega í ljósi síðustu fregna. Jón Ásgeir og Jóhannes Jónsson eru jafnvel að eignast Baug aftur og Ólafur Ólafsson að eignast Samskip. Allt stefnir í sama farið.

Myndin endar á tveim öflugum lögum, Fjalabræður flytja áhrifamikið lag, Freyja, á Þingvöllum. Eflir það þjóðerniskenndina. Hjálmar eiga síðustu raggítónana.

Létt og skemmtileg heimildarmynd um hrunið og verður verðmætari er frá líður.


AVATAR ****

Hvar er kreppan? Ekki var hún sjáanleg í Smárabíó í gærkveldi, þriðjudagskveldi. Eintóma bið og þrengsli á þrívíddarsýningu á AVATAR. Þegar maður loks fékk sæti var það á fremsta bekk en nálægt miðju. Etv. er ásókn í kvikmyndahús eitt jákvætt birtingarform kreppunnar. Góð skemmtun fyrir lítinn pening.

AVATARLíklega hefur nálægði við sviðið skapað sérstakt samband milli áhorfanda og myndar. Stundum lá við að maður gæti gripið í hluti sem birtust svo nálægir voru þeir. Textinn var einnig á mismunandi stöðum en ef hlutur stóð fram í sal, þá var ekki hægt að líma texta yfir hann.

Epíska stórmyndin AVATAR (manngervingur), dýrasta kvikmynd sögunnar stendur undir nafni. Leikstjórinn, James Cameron er með fallegan boðskap sem á vel við í dag eftir hálf mislukkaða loftslagsráðstefnu og olíustríð í Írak. Tölvubrellurnar í þrívíddinni komu vel út, frumskógurinn sannfærandi en hreyfingar hinna 2,5 metra Navi manna oft stirðbusalegar. Vinsældir AVATAR eiga eflaust eftir að hjálpa til við framleiðslu á fleiri þrívíddarmyndum og þróun þrívíddarsjónvörpum.

Snúum okkur að efni myndarinnar. Avatar er vísindaskáldsaga og gerist árið 2154. Í stuttu máli fjallar hún um lamaðan landgönguliði í bandaríska flotanum að nafni Jake Sully (Sam Worthington) sem býður sig fram til þess að lifa sem manngervingur á plánetunni Pandóru og njósna um innfædda íbúa, Navi fólkið, fyrir herinn og ónefnt stórfyrirtæki sem leitar sérstakrar steintegundar. Hefst þá mikil þroskasaga. Sully verður ástfanginn af Neytiri, fallegri Navi prinsessu og lærimeistara sínum. Fyrr en varir verður hann flæktur í átök milli hersins og ættbálks hennar en hamingjusamt kattarfólkið eða indíánarnir vilja ekki flytja sig brott.

Hefst mikil orrusta milli Neo-Con manna og frumbyggja og minnir á uppgjörið í Hringadróttinssögu. Mörg önnur atriði finnst mér ég hafa séð áður. T.d. tölvutækni í Minority report og sögusvið Dances with Wolves.

Myndin endar illa fyrir hluthafa stórfyrirtækisins, eflaust verið send afkomuviðvörun fyrir ársfjórðungsuppgjör fyrirtækisins en fyrir alla aðra er endirinn góður, spennandi en fyrirsjáanlegur.

"Orkan er fengin að láni og henni verður að skila aftur" er boðskapur myndarinnar.

Nú þarf maður að fara á 2D myndina þegar hægjast fer um og bera saman brellurnar í útgáfunum, þetta er flott peningasvikamylla í Hollywood!

  


Pappírstígurinn Nóna ehf.

Hún er athyglisverð forsíðufrétt Fréttablaðsins í morgunn. Er þetta einhver Hesteyrarkapall?

Springi einkahlutafélagið Nóna, smábátaútgerð í eigu Skinneyjar-Þinganess, fær almenningur á Íslandi enn einn reikninginn. Það gera 16.000 á hvert mannsbarn.

Nóna skuldaði 5,3 milljarða króna í árslok 2008. Tap Nónu ehf. á árinu 2008 nam 2,5 milljörðum og bókað eigið fé í árslok var neikvætt um annað eins.

Hann er dýr Íslandsmeistaratitilinn hjá smábátnum Ragnari SF-550. Dýrt er hvert tonn.

Þetta er afleiðing af kvótakerfinu. Kerfi sem byggir á óréttlæti, ranglæti, mannréttindabrotum, brottkasti afla, efnahagslegri misskiptingu, upplausn, hrörnun og flótta, óöryggi, "hagræðingu", einkaeign útvalinna og algjöru siðleysi.
Afleiðingin af þessu, auknar skuldir útgerða og minni fiskstofnar. Hér þarf að breyta miklu, enda vitlaust gefið.


Einföld lykilorð skapa hættu á Netinu

Notar þú sama lykil fyrir húsnæði, bíl og bílskúr?

Svarið er neitandi, því  fólk vill ekki taka áhættur. Hins vegar er algengt að fólk noti sama lykilorð fyrir einkabankann, tölvupóstinn og fésbók.

Auk þess eru lykilorð yfirleitt einföld en þau ættu að vera samsett úr tölum og stöfum sem erfitt er að geta upp á.

Í könnun sem nýlega var gerð í Bretlandi af tryggingarfyrirtækinu CPP kom fram að helmingur notenda notaði sama lykilorð fyrir helstu athafnir í rafheimum.

Einnig kom fram að  40% tölvunotenda í könnunni svöruðu því játandi að þeir hefðu gefið lykilorðið upp til amk einnar annarrar persónu og einnig töldu þeir að 39% þeirra hefðu notað sér lykilorðið. 

Ekki hefur verið gerð nein rannsókn á notkun lykilorða hér á landi en ekki kæmi mér á óvart að niðurstöður yrðu svipaðar.


Jómfrúræða Ólafs Thors

Það er merkilegt að skoða söguna. Hún virðist endurtaka sig í sífellu. Hinn mikli leiðtogi Íhaldsflokksins og síðar Sjálfstæðisflokksins, Ólafur Thor komst á þing árið 1926 í aukakosningum.  Hann hafði sig ekki mikið frammi fyrsta árið en jómfrúræða hans fjallaði um gengismál. Það er kunnugt málefni.

Fannst honum íslenska krónan of hátt metin. En þá var ekki Seðlabanki og forsætisráðherra ákvað gengið.  Vildi Ólafur fella gengi krónunnar svo útflytjendur fengu meira fyrir sinn snúð á kostnað innflutnings.

Það er merkilegt að nú, 83 árum síðar skulu við Íslendingar enn vera fangar gengis íslensku krónunnar. Verðum við ekki að skipta henni út fyrir stöðugan gjaldmiðil svo komandi kynslóðir þurfi ekki að hlusta á sömu ræðurnar.

Ég er þessa stundina að lesa bókina Thorsararnir, auður - völd - örlög efir Guðmund Magnússon og er merkilegt að lesa bókina nú eftir bankahrun. Margt líkt með skyldum, 70 árum síðar.  Mútur, fjármagn tekið úr rekstri útgerðarfélaga, gjaldeyrishöft og grimm pólitík.

Í kvikmyndinni Draumalandið er minnst á skörungsskap Ólafs Thors er hann hafnaði því að  Bandaríkjamenn reistu hér á landi 5 herstöðvar og leigðu landið til 99 ára. Það var djörf ákvörðun en rétt. Peningar hefðu streymt inn í landið en við orðið feitt leiguþý. Nú vilja flokksmenn Ólafs Thors selja erlendum auðhringum orku okkar á "lægsta verði í heimi". Væri Ólafur Thors sammála?


Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.9.): 114
  • Sl. sólarhring: 251
  • Sl. viku: 365
  • Frá upphafi: 232711

Annað

  • Innlit í dag: 101
  • Innlit sl. viku: 325
  • Gestir í dag: 101
  • IP-tölur í dag: 98

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband