Kvígindisfell (783 m) á Uxahryggjaleið

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, þjóðfræðingur hefur leitt kvöldgöngur á föstudagaskvöldum sem kallast sumarnætur og eru í samvinnu við Ferðafélag Íslands. Í þeim eru þekktir staðir heimsóttir og sagnir og þjóðlegur fróðleikur dreginn fram.

Ég skellti mér í ferða á Kvígindisfell á Uxahryggjaleið en þar erum við komin á slóðir „Skúlaskeiðs“ sem Grímur Thomsen orti svo fagurlega um.

Haldið er af stað í gönguna frá Biskupsbrekku, norðan Víðikera og austan Hvannadala á Uxahryggjaleið og gengin auðveld leið upp á Kvígindisfellið.

Þegar vel viðrar er geysivíðsýnt til allra átta, bæði jöklasýn og til fjalla, allt norður í Húnavatnssýslu þegar best lætur. Þarna fengum við að upplifa landslag eins og inni á reginöræfum, samhliða mikilli fjallasýn.  

Kvígindisfell er fornt móbergsfjall, frá síðkvarter, skorið giljum, 783 m hátt. Mikið útsýni er af fellinu. Nafnið vafðist fyrir mönnum og eru til frá síðustu öldum „skýringarheitin“ Kvigyndisfell, Kvikfénaðaryndisfell, Kvikféyndisfell, Kvíindisfell ofl. „Kvígindi“ eru ungir nautgripir eða geldneyti, sem þarna munu hafa verið á afrétti.  (bls. 262)

Nokkur örnefni og bæjanöfn á landinu hafa kvígindi að forlið, Kvígindisá, Kvígindisdalur, Kvígindisfell og Kvígindisfjöll. Þessi nöfn er að finna í öllum landshlutum.

Smalaland Lunddæla suður fyrir Kvígindisfell er kallað „Suðurfjall“  (afrétturinn norðan Grímsár er „Norðurfjall“)   (bls. 260)

Snjólaus Skjalabreiður, ógnarskjöldur bungubreiður fylgdi göngufólki alla leið. Snjóleysið má skrifa á hamfarahlýnun af mannavöldum. Þoka lág yfir Þórisjökli og Ok en hin þekktu fjöll í kringum Þingvallavatn skörtuðu sínu fegursta. Þegar toppur Kvígindisfells nálgaðist skall á þoka og því ekki farið alla leið.

Á heimleiðinni las Ólína hestavísuna Skúlaskeið eftir Grím Thomsen og var gaman að heyra hrynjandann og tengja við örnefnin á leiðinni, Tröllaháls, Víðiker og Ok. Skúlaskeið er torfær og stórgrýttur kafli á Kaldadalsvegi.  Skúli nokkur var dæmdur til lífláts á Alþingi, en komst undan vegna afbragðshests, Sörla, sem hann reið. Aldrei hefur enn í manna minni meira riðið nokkur Íslendingur.

Þeir eltu hann á átta hófahreinum
og aðra tvenna höfðu þeir til reiðar
en Skúli gamli sat á Sörla einum
svo að heldur þótti gott til veiðar.

 

Kvígindisfell

Kvígindisfell séð frá Biskupsbrekku

Dagsetning: 19. júlí 2019
Hæð Kvígindisfells: 783 metrar
Hæð í göngubyrjun: 330 metrar við Biskupsbrekku (N:64.25.252 - W:20.59.086)
Kvígindisfell – næsti efsti pallur (724 m): (N:64.24.441 – W: 21.02.983)
Hækkun göngufólks: 394 metrar
Uppgöngutími: 150 mínútur (19:15 - 21:45)
Heildargöngutími: 225 mínútur (19:15 – 23:00)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 10 km
Veður kl. 21.00 - Þingvellir: Skýjað, N 4 m/s, 14,1 °C, raki 67%
Þátttakendur: Ferðafélag Íslands, 50 þátttakendur í einni rútu.
GSM samband: Nei
Gestabók: Líklega ekki
Gönguleiðalýsing: Gengið eftir gömlum veg, síðan stefnt á norðaustur hluta fellsins og stikum fylgt. Leiðin er gróin fyrst og greiðfær. Fremur auðveld leið á ágætis útsýnisfell.

Facebook-status: Fínasta ganga i kvöld með Ferðafélagi Íslands á Kvígindisfell à Uxahryggjaleið

Heimildir:
Árbók F.Í. 2004 - Borgarfjarðarhérað
Vísindavefurinn - Hvað merkir nafnið Kvígindisfjörður

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurpáll Ingibergsson

Egill Helgason í þáttunum Bækur og staðir greinir frá þessu sögulega svæði. Góð samantekt að vanda.

https://www.ruv.is/frett/aesilegur-eltingaleikur-um-kaldadal

Á fjallaveginum yfir Kaldadal lést Jón Vídalín biskup og þangað á hinn dauðadæmdi Skúli að hafa flúið á hestinum Sörla. Þá hefur dalurinn orðið mörgum skáldum yrkisefni í gegnum tíðina.

Á Kaldadal er Skúlaskeið þar sem þjóðsagan um Skúla á að hafa gerst, sem var dæmdur til dauða á Alþingi en náði að flýja. Það varð æsilegur eltingaleikur um hrjóstugan dalinn sem varð Grími Thomsyni yrkisefni í einu af hans karlmannlegu kvæðum. Í kvæðinu segir að Skúli hafi verið eltur á „átta hófa hreinum“, en Skúli nær að komast undan, þó í lok kvæðisins sé hesturinn Sörli uppgefinn og springi loks.

Kaldidalur er vegur sem liggur milli Þórisjökuls og Oks, leið frá Suðurlandi upp í Borgarfjörð. Kaldidalur er ekki langur, það er stundum sagt að hann sé íslenska hálendið fyrir byrjendur. Þar var lagður akvegur á millistríðsárunum og á tíma Alþingishátíðarinnar á Þingvöllum var mikil umferð þar yfir, en þegar vegur var lagður um Hvalfjörð lögðust ferðirnar nær af. Hannes Hafstein orti ljóð um Kaldadal þar sem kallað er eftir stormi. 

Sunnarlega á Kaldadalsleiðinni eru Hallbjarnarvörður. Í Landnámu segir frá Hallbirni Oddsyni sem verður svo ósáttur við Hallgerði konu sína að hann greip í hár hennar og hjó af henni höfuðið. Hallbjörn var þess vegna eltur uppi og drepinn við vörðurnar sem nú eru kenndar við hann. Biskupinn Jón Vídalín andaðist í Biskupsbrekku árið 1720. Hann er höfundur Vídalínspostillu og sá klerkur á Íslandi sem hefur látið rigna mestum eldi og brennisteini í ræðum sínum.

Jón Vídalín var á leiðinni frá Skálholti vestur á Snæfellsnes þegar hann tók snögga sótt og dó. Það er til vísa eftir hann þar sem hann segist kvíða því að fara Kaldadal, en Þorsteinn frá Hamri tók þessa vísu og notaði í eigið kvæði um dauða Jóns. Kaldidalur kemur líka við sögu í Vefaranum mikla frá Kasmír eftir Halldór Laxness, þegar aðalpersónan Steinn Elliði finnur þar jurt sem hann notar til að hreinsa pípuna sína.

Sigurpáll Ingibergsson, 11.8.2019 kl. 14:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 21
  • Sl. sólarhring: 28
  • Sl. viku: 98
  • Frá upphafi: 226358

Annað

  • Innlit í dag: 21
  • Innlit sl. viku: 85
  • Gestir í dag: 21
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband