Færsluflokkur: Fjármál

Arcade Fire og Ísbúð Vesturbæjar

Það voru stórmagnaðir og orkumiklir tónleikar hjá kanadísku indí rokkbandinu Arcade Fire í Nýju Laugardalshöllinni á þriðjudagskvöldið.  Um 4.300 gestir mættu og upplifðu kraftinn á AB-svæði. Stórmerkilegt að ekki skyldi vera uppselt en þarna eru tónlistarmenn í þungavigt á ferð.

Mikil umræða hefur verið um sölu og svæðaskiptingu á tónleikunum en ég var einn af þeim rúmlega fjögur þúsund manns sem keypti miða í A-svæði. Því kom það mér á óvart þegar gengið var inn í salinn að enginn svæðaskipting var.  Ég var ekki að svekkja mig á því að hafa  ekki keypt B-miða. Hugsaði til ferðalaga í flugvélum eða strætó, þar ferðast menn á misjöfnum gjöldum en sitja svo saman í einni kös. Ég skil vel ákvörðunartöku tónleikahaldara um AB-svæði, sérstaklega ef þetta hafa verið 79 miðar.

Ég kynntist Arcade Fire góðærisárið 2007 en þá gaf sveitin út diskinn Neon Bible og var það eini diskurinn sem ég keypti það árið. Var hann víða talinn einn besti gripur ársins af álistgjöfum í tónlist. Ég get tekið undir það og hlustaði mikið á hann í iPod-inum mínum.  Síðan hef ég lítið fylgst með sveitinni og missti af þrem síðustu plötum sveitarinnar, The Suburbs, Reflektor og Everyting Now.

Arcade Fire

Sviðsframkoman var stórbrotin og fagmannleg. Fyrst hittust meðlimir á réttum tíma fyrir framan sviðið, tóku hópknús eins og íþróttalið gera og fóru í gegnum áhorfendaskarann og gáfu fimmur. Margir símar sáust á lofti. Síðan hófst tónlistarveislan með titillaginu Everything Now. Lagið er undir ABBA-áhrifum í byrjun, það fór rólega af stað en svo bættust öll möguleg hljóðfæri sem leikið var á af gleði og innlifun og krafturinn varð hrikalegur. Tónninn var sleginn!  

Söngvarinn stæðilegi og stofnandi sveitarinnar Win Butler fór fyrir liðinu og steig á stokk í rauðu skónum sínum og reif gítar hátt á loft. Ekki  ósvipað og kyndilberi á Ólympíuleikum sem er að fara að tendra eldinn. Bróðir hans William Butler fór hamförum á sviðinu og var gaman að fylgjast með honum. Hann hoppaði á milli hljóðfæra, spilaði á hljómborð, barði á trommu og spilaði á gítar og stóð upp á hljómborðum. Hann ferðaðist kófsveittur um sviðið eins og api en kom ávallt inn á réttum stöðum. Magnað. 

Alls voru níu liðsmenn Arcade Fire á sviðinu sem þakið var hljóðfærum. Mörg hljómborð og hljóðgervlar voru og tvö trommusett. Skiptust þeir reglulega á að spila á hljóðfæri af innlifun og minntu mig á Ljótu hálfvitana frá Húsavík.

Krafturinn og hljómurinn var mikill í byrjun og fjögur fyrstu lögin spiluð í einum rykk á háu tempói. Aðdáendur tóku vel við enda þekktir slagarar. Svo kom þakkarræðan um Ísland og hrósaði hann Björk mikið. Hún hafði mikil áhrif á bandið.

Sviðið og ljósin komu vel út í Höllinni og mynduðu stórbrotna umgjörð um tónleikana og gaman að bera saman þegar vinalega upphitunarhljómsveitin Kiriyama Family spilaði raftónlist fyrr um kvöldið. En þá voru ljós og myndræn framsetning ekki notuð. Tónleikagestir voru hrifnir og dönsuðu, sungu og klöppuðu taktfast í hitanum og svitanum.

Ég komst að því að vera illa lesin því síðari hluti tónleikanna var með nýjum lögum og þekkti ég þau ekki en fólkið í salnum tók vel undir. Ég hef síðustu daga verið að hlusta á lög af skífunni Everyting Now og líkar þau betur og betur. Margar laglínur hljóma nú fallega í hausnum á mér. Einna helst hefur enduruppgötvun mín á lögum Electric Blue og Sprawl II (Mountains Beyond Mountains) sem Régine Chassagne söng vaxið mjög en ég tengdi ekki við þau þegar hún flutti þau á sviðinu. Eina lagið sem ég saknaði var Intervention.

Þetta var skemmtilegt kvöld og gaf manni mikinn eldmóð fyrir veturinn.

Win Butler

Daginn eftir tónleikana átti ég leið í Ísbúð Vesturbæjar í Vesturbænum og var þá ekki stórsöngvarinn í Arcade Fire, Win Butler staddur þar og að kaupa sér bragðaref. Hann var klæddur í gallajakka merktum NOW-tónleikaferðinni.  Það var töluverður fjöldi krakka að versla  sér ís og létu þau hinn heimsfræga tónlistarmann algjörlega í friði. Kurteist fólk, Íslendingar. Líklegast er að þau hafi ekki vitað af því hver þetta var en landi hans Justin Bieber hefði ekki fengið að vera í friði. Svona er kynslóðabilið í tónlistinni.


mbl.is Enginn gestur leið fyrir ákvörðunina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Chinatown ****

Rökkurmyndin Chinatown (1974) í leikstjórn Roman Polanski var fyrsta myndin á Mánudagsbíóum Háskóla Íslands og Háskólabíós. Það var góð stemming eldra fólks í Stóra sal Háskólabíós, gömul filma sem rann í gegnum sýningarvélarnar og varpaðist á 175 fermetra sýningartjaldið. Rispur og eðlilegar hljóðtruflanir mögnuðu upp fortíðarstemminguna.

ChinatownMyndin á mjög vel við í dag enda er umfjöllunarefnið spilling og siðblinda. En þegar myndin var frumsýnd hér í Háskólabíó í júní 1976 töldu landsmenn sig búa í óspilltasta landi í heimi. Vatns- og landréttindi í þurri Los Angeles eru meginþemað en þessi mál eru í hámæli hér á landi núna. Leikararnir Jack Nicholsson, Faye Dunaway og John Huston, í hlutverki siðblinda og gráðuga öldungsins sem telur að sér sé allt leyfilegt, eru stórgóð.  Leikstjórinn Roman Polanski tekur sér Alfred Hitchcock til fyrirmyndar og er stórgóður í litlu hlutverki. En það sem gerir myndina sterka er góður leikur allra aukaleikara.

Sagan er stórgóð byggir á vel meitluðu handriti. Sögusviðið er Los Angeles á fjórða áratugnum (1930's) og er mikið reykt af sígarettum í myndinni. Eflaust hafa tóbaksrisarnir styrkt hana vel.  Myndin var á sínum tíma kölluð fyrsta rökkurmyndin (film noir) í lit.  Hún var tilnefnd til 10 Óskarsverðlauna en uppskar aðeins ein, fyrir handrit.

Sagan segir að Chinatown hafi átt að vera fyrsta myndin í þríleik um auðlindaspillingu en Polanski flúði Bandaríkin vegna lögbrota og því varð ekkert úr pælingu hans. Jack Nicholson tók við hjólinu en myndin, The Two Jakes (1990), fékk slæma dóma gagnrýnenda og því dó spillingar uppfræðslan.

Á leiðinni út úr heitum sal Háskólabíós í kuldann og snjóinn komu upp í hugann leikarinn John Huston sem Noah Cross. En í stað hans setti maður orkuútrásarvíkinga, REI, bankastjóra árið 2008, FLokkinn, Magma og æðsta dómsstig landsins. Allir þessir aðilar spegluðust vel í Noah Cross.

Myndin var á sínum tíma kölluð fyrsta rökkurmyndin (film noir) í lit. En hvað eru rökkurmyndir. Ég hafði ekki hugmynd um það áður en ég fór á sýninguna en eftir að hafa leitað mér upplýsinga þá læt ég þær fylgja hér með.  

"Meginþema í öllum Film Noir myndum er spilling. Rotin og ísköld spilling og ekki síst blekkingarvefur. Fólk er gjarna ekki allt þar sem það er séð og algengt þema er að einhver ber ást til manneskju sem reynist síðan ekki vera sú manneskja sem hann varð ástfangin af.

Til útskýringar fyrir þá sem þekkja ekki til Film Noir mynda þá voru þær vinsælar á fimmta áratugnum. Þetta voru sakamálamyndir og í flestum tilfellum var aðalpersónan einkaspæjari. Sögumaður segir söguna, gjarna einkaspæjarinn sjálfur. Veröldin í þessum myndum er spillt og siðlaus, umhverfið stórborg og það hellirignir í Film Noir. Sem dæmi um þekktar Film Noir myndir má nefna "Double Indemnity" og "The Postman Always Rings Twice". Í Film Noir er heimsmyndin kolsvört, algjört svartsýni ríkir. Og ekki má gleyma kaldhæðninni. Lýsingin er það sem einkennir Film Noir hvað mest og flestir þekkja. Lýsing neðan frá, dimmar senur og miklar andstæður ljóss og skugga. Svo eru þverlínur notaðar til að koma óróleika í myndina, gjarna í formi rimlagluggatjalda.
"

Heimild:  Kvika.net

Já, hann er margbreytilegur kvikmyndaheimurinn.


Mjög alvarlegur upplýsingaleki hjá Hraðpeningum

503 Service Unavailable 

Þannig svarar þjónninn sem svarar fyrir leppaludar.com.  Á vefsvæðinu er viðkvæmur listi í Excel skrá yfir 1.500 lántakendur hjá okurlánafyrirtækinu Hraðpeningar.

Á vef Pressunar eru tvær fréttir um málið í dag.

Þetta er mjög alvarlegt atvik. Persónuupplýsingar á Netinu. Það sem fer á Netið verður á Netinu. Svo einfalt er það.

Nú þarf lögreglan að finna út hverjir reka vefinn leppaludar.com og upplýsa málið.

Fjármálaeftirlitið ætti að gera kröfu um að allar bankastofnanir vinni eftir alþjóðlegum öryggisstöðlum til að minnka líkur á að svona gerist. ISO/IEC 27001 upplýsingaöryggisstaðalinn er eini aljóðlegi staðallinn. Grundvallaratrið staðalsins er verndun upplýsinga gegn þeim hættum sem að upplýsingunum steðja.

Einnig eru þarna upplýsingar um krítarkort og þá þarf að setja kröfu um að fjármálafyrirtæki uppfylli PCI DSS-staðalinn.

Hér fyrir neðan er skjámynd sem sýnir hvernig hægt var að finna Excel-skránna á Netinu með því að gúggla.

HradpeningarLeit


Fyrsta þjóðaratkvæðagreiðslan

Sögulegur dagur að renna upp.  Fyrsta þjóðaratkvæðagreiðslan. Ég ætla að nýta mér kosningarétt minn.  Það hafa svo margir dáið svo ég geti kosið. Málefnið hefði mátt vera skemmtilegra og markvissara. Ég verð alveg tómur í kjörklefanum í Smáranum rétt á eftir.  Spái að kjörsókn verði samt undir 50% þó ég mæti.

Nú bíð ég spenntur eftir að fá að kjósa burtu kvótakerfið.

 


Hollenskur gálgahúmor

Þeir hafa húmor Hollendingar. Á vefsvæðinu thedutchiceland.com er búið að skipta Íslandi upp í tvö svæði rétt eins og Berlín forðum.  Skuldugu landinu er skipt á milli nýlenduþjóðanna Hollands og Stóra-Bretlands. Hollendingar eru frekari á landrými.

Á vefnum er holl ráð fyrir skuldara og einnig er hægt að eignast part af landinu. 

En þessi vefur er ekki alslæmur fyrir ferðaþjónustu hér á landi og fín landkynning.

TheDutchIceland

Nú er spurning hvort orðatiltækið, Betra er illt umtal en ekkert umtal, eigi hér við.


Maybe I Should Have ****

Það voru sorglega fáir á góðri og skemmtilegri heimildarmynd, Maybe I Should Have, í Kringlubíó í gærkveldi. Setti það að mér ákveðin ugg um að landsmenn séu farnir að gefast upp í baráttnni um Nýja Ísland. Það má ekki sofna aftur á verðinum.

MISHÍ byrjun myndar er farið yfir sviðið og saga hrunsins sögð fram að stjórnarslitum fyrir rúmu ári. Það þekkja allir þá sögu en hún hefur komið í öðrum heimildarmyndum, bókum og ánnálum.  Eftir þennan inngang fer Gunnar Sigurðsson, leikstjóri í leit að peningunum sem hurfu. Notar hann sömu aðferð og Michael Moore. Hann ferðast til London og Luxemburgar, skoðar bankabyggingar og fyrirtæki. Einnig ræðir við fólk. Það liggur leiðin til Guernsey og Tortola. Ekki finnur hann neina peninga en hefur ákveðinn grun hvar þá gæti verið að finna.

Einnig er rætt við þekkta erlenda aðila, m.a. fjármálaeftirlitsmanninn William Black, Evu Joly og Robert Wade en þau hafa komið með góð ráð í Silfri Egils.

Niðurstaða er að ekkert hefur breyst á þessu rúma ári frá hruni. Það er eflaust mikið til í því, sérstaklega í ljósi síðustu fregna. Jón Ásgeir og Jóhannes Jónsson eru jafnvel að eignast Baug aftur og Ólafur Ólafsson að eignast Samskip. Allt stefnir í sama farið.

Myndin endar á tveim öflugum lögum, Fjalabræður flytja áhrifamikið lag, Freyja, á Þingvöllum. Eflir það þjóðerniskenndina. Hjálmar eiga síðustu raggítónana.

Létt og skemmtileg heimildarmynd um hrunið og verður verðmætari er frá líður.


FBI varar við netsvikum vegna náttúruhamfara á Haití

Þeir standa sig vel íslensku björgunarsveitarmennirnir á Haíti við skelfilegar aðstæður. Í könnum á visir.is eru 95,2% landsmanna stolt af frammistöðu sveitarinnar. Landsmenn hafa einnig verið örlátir í söfnunum og sýnt samhug í verki.  

Einfaldasta og öruggasta leiðin fyrir Íslendinga til að styrkja hjálparstarf á Haíti er að hringja í söfnunarsímann 904-1500 og áhafna Rauða krossinum pening í söfnunina. Fleiri aðilar eru traustsins verðir á Ísland, þar á meðal UNICEF (908-x00) og Hjálparstarf Kirkjunnar (907-2003) og SOS-barnaþorp.

Íslendingar eiga því ekki að lenda í vandamálum með að láta gott af sér leiða. En hætturnar eru til staðar úti í hinum stóra Netheimi. 

Það er tvennt öruggt þegar náttúruhamfarir verða. Í fyrsta lagi, Bandaríkjamenn bjóða fram aðstoð og fjárframlög. Hitt er að óprúttnir aðilar, hrægammar, reyna að setja af stað falskar peningasafnanir á  Netinu.

Bæði Better Business Bureau (BBB) og Federal Bureau of Investigation (FBI) hafa sent frá sér viðvaranir til Netverja vegna falskra safnana.

FBI hvetur Netverja til að svara ekki tölvupósti um safnanir sem kemur í pósthólfið. Það á einnig við að smella ekki á tengla sem fylgja í tölvupóstinum.

Leitið sjálf uppi hjálparsamtök sem taka á móti styrkjum. Ekki láta upphæðina fara í gegnum milliliði.

Verið á varðbergi með að opna viðhengi sem eiga að innihalda myndir af vettvangi náttúrhamfaranna því þau skjöl geta innihaldið vírusa. Opnið aðeins viðhengi frá þekktum aðilum.

Hafið efasemdir um einstaklinga sem segjast hafa komist af  og biða um fjármagn í gegnum tölvupóst eða samfélagsvefi (facebook).

Ekki gefa persónulegar eða fjárhagslegar upplýsingar til neins sem tekur við styrkjum. Það getur stofnað viðkomandi auðkenni í hættu og gert notandann berskjaldaðri fyrir fleiri svikum í framtíðinni.


mbl.is Íslendingar vekja áhuga Rússa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einföld lykilorð skapa hættu á Netinu

Notar þú sama lykil fyrir húsnæði, bíl og bílskúr?

Svarið er neitandi, því  fólk vill ekki taka áhættur. Hins vegar er algengt að fólk noti sama lykilorð fyrir einkabankann, tölvupóstinn og fésbók.

Auk þess eru lykilorð yfirleitt einföld en þau ættu að vera samsett úr tölum og stöfum sem erfitt er að geta upp á.

Í könnun sem nýlega var gerð í Bretlandi af tryggingarfyrirtækinu CPP kom fram að helmingur notenda notaði sama lykilorð fyrir helstu athafnir í rafheimum.

Einnig kom fram að  40% tölvunotenda í könnunni svöruðu því játandi að þeir hefðu gefið lykilorðið upp til amk einnar annarrar persónu og einnig töldu þeir að 39% þeirra hefðu notað sér lykilorðið. 

Ekki hefur verið gerð nein rannsókn á notkun lykilorða hér á landi en ekki kæmi mér á óvart að niðurstöður yrðu svipaðar.


Jómfrúræða Ólafs Thors

Það er merkilegt að skoða söguna. Hún virðist endurtaka sig í sífellu. Hinn mikli leiðtogi Íhaldsflokksins og síðar Sjálfstæðisflokksins, Ólafur Thor komst á þing árið 1926 í aukakosningum.  Hann hafði sig ekki mikið frammi fyrsta árið en jómfrúræða hans fjallaði um gengismál. Það er kunnugt málefni.

Fannst honum íslenska krónan of hátt metin. En þá var ekki Seðlabanki og forsætisráðherra ákvað gengið.  Vildi Ólafur fella gengi krónunnar svo útflytjendur fengu meira fyrir sinn snúð á kostnað innflutnings.

Það er merkilegt að nú, 83 árum síðar skulu við Íslendingar enn vera fangar gengis íslensku krónunnar. Verðum við ekki að skipta henni út fyrir stöðugan gjaldmiðil svo komandi kynslóðir þurfi ekki að hlusta á sömu ræðurnar.

Ég er þessa stundina að lesa bókina Thorsararnir, auður - völd - örlög efir Guðmund Magnússon og er merkilegt að lesa bókina nú eftir bankahrun. Margt líkt með skyldum, 70 árum síðar.  Mútur, fjármagn tekið úr rekstri útgerðarfélaga, gjaldeyrishöft og grimm pólitík.

Í kvikmyndinni Draumalandið er minnst á skörungsskap Ólafs Thors er hann hafnaði því að  Bandaríkjamenn reistu hér á landi 5 herstöðvar og leigðu landið til 99 ára. Það var djörf ákvörðun en rétt. Peningar hefðu streymt inn í landið en við orðið feitt leiguþý. Nú vilja flokksmenn Ólafs Thors selja erlendum auðhringum orku okkar á "lægsta verði í heimi". Væri Ólafur Thors sammála?


Netbankinn er tómur

Þeim hefur hríðfækkað netbönkunum eftir bankahrunið.  Tveir netbankar sem ég hef notað hafa lokað. Ég fór því niður í KB-banka í niðri í Smára í morgun en hann er staddur á jarðhæð turnsins. 

Eftir að hafa slegið inn PIN númer og valið upphæð, þá kom melding,  Netbankinn er tómur.  Síðan var mér boðið að halda áfram. Ég fór aðra umferð og bað um minni upphæð, en sama svar. Netbankinn var tómur. Ég gat fundið takka, Hætta við og þá kom kortið.

Ég gafst ekki upp, fór upp í fjármálahverfið í Hamraborg og þar fann ég Netbanka sem ekki var tómur. Ég á því lausafé.

Icesave


Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.9.): 104
  • Sl. sólarhring: 242
  • Sl. viku: 355
  • Frá upphafi: 232701

Annað

  • Innlit í dag: 92
  • Innlit sl. viku: 316
  • Gestir í dag: 92
  • IP-tölur í dag: 90

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband