Færsluflokkur: Lífstíll

Geitafell (509 m)

Geitafell er 509 metrar á hæð og klætt fallegri mosakápu. Það er vestan Þrengslavegar. Fellið stendur stakt og á góðum degi er afar víðsýnt af því. Það var bjart í norðri þegar lagt var í gönguna en blikur á lofti í suðurátt.

Geitafell er móbergsstapi og hefur myndast við gos undir jökli, en gosið hefur ekki náð upp úr ísaldarjöklinum. Misgengi liggur eftir endilöngu fellinu frá suðvestri til norðausturs. Austurhlutinn hefur sigið nokkuð og sést það vel á loftmyndum.

Geitafellin eru fjögur víða um landið skv. Kortabók Íslands og hafa forfeður okkar fundið geitur eða haft geitur á beit í fellunum. En geitarstofninn á Íslandi er í útrýmingarhættu en fjöllin hverfa ekki. Og þó. Mikið malarnám er í Lambafelli og sótt hart að efni úr norður og suðurátt.

Gengið frá malarnáminu í Litla-Sandfell yfir Þúfnavelli að rótum Geitafells en þar er vegvísir. Eftir hálftíma göngu er komið að honum og um 200 metra brött hækkun tekur við. Eftir það er létt hækkun að Landmælingavörðu á hæsta punkti.

Þegar á toppinn var komið var skollið á mikið óveður, úrkoma og rok úr austri, því var snúið strax til baka og leitað að skjóli fyrir nestispásu.  Það munaði mikið á 50 metra lækkun en veðrið lagaðist mikið þegar neðar dró.

Útsýni á góðum degi er gott yfir Ölfusið og hraunin í kring. Bláfjöll, Heiðin há í vestri. Laskað Lambafell eftir malarnám, Meitlarnir tveir, Litla-Sandfell, Ingólfsfjall, Skálafell, Krossfjöll og Hekla.  Þorlákshöfn sást í þokumóðunni og var draugaleg að sjá. Ölfusá og Flói voru áberandi í landslaginu.

Hægt er að halda áfram í suður niður af fjallinu og lengist gangan þá í 12-13 km.  Einnig er hægt að ganga hringinn í kringum Geitafellið og tekur sú ganga um 4 klst. og er 11,5 km löng.

Þegar göngu var lokið við Litla-Sandfell sáum við mikið af forhlöðum, plasthylkjum frá haglskotum en greinilegt að þarna er skotsvæði Ölfusinga. Mikil sjónmengun og vont að sjá. Plastmengun í plastlausum september var áfall og skemmdi upplifunina.  Bæjaryfirvöld í Ölfusi eiga að hreinsa svæðið fyrir fyrsta snjó vetrarins.

Geitafell

Geitafell í Ölfusi klætt fallegri mosakápu. Ganga þarf um 2 km yfir grasi gróna velli að rótum fellsins.

Dagsetning: 15. september 2018
Hæð: 509 metrar
Hæð í göngubyrjun: 225 metrar við Litla-Sandfell (N:63.57.368  - W:21.28.243)

Vegamót: 247 m við Geitafell (N:63.57.368 – W:21.30.516)
Geitafell (509 m): Landmælingavarða (N:63.56.365 - W:21.31.516)
Hækkun: 284 metrar
Uppgöngutími Geitafell: 100 mín (08:40 - 10:20) 4,0 km
Heildargöngutími: 200 mínútur (08:40 - 12:00)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 8,8 km
Veður kl. 10.00 - Hellsheið: Alskýjað, A 6 m/s, 4,0 °C, raki 94%
Þátttakendur: Fjallkonur 5 þátttakendur, 2 hundar. 
GSM samband: Já
Gestabók: Nei
Gönguleiðalýsing: Ganga í mosavöxnu landslagi. Auðvelt uppgöngu og hentar vel fyrir byrjendur í fjallamennsku.

 

Heimildir

Íslensk fjöll. Gönguleiðir á 151 tind.
Kortabók Ísland


Arcade Fire og Ísbúð Vesturbæjar

Það voru stórmagnaðir og orkumiklir tónleikar hjá kanadísku indí rokkbandinu Arcade Fire í Nýju Laugardalshöllinni á þriðjudagskvöldið.  Um 4.300 gestir mættu og upplifðu kraftinn á AB-svæði. Stórmerkilegt að ekki skyldi vera uppselt en þarna eru tónlistarmenn í þungavigt á ferð.

Mikil umræða hefur verið um sölu og svæðaskiptingu á tónleikunum en ég var einn af þeim rúmlega fjögur þúsund manns sem keypti miða í A-svæði. Því kom það mér á óvart þegar gengið var inn í salinn að enginn svæðaskipting var.  Ég var ekki að svekkja mig á því að hafa  ekki keypt B-miða. Hugsaði til ferðalaga í flugvélum eða strætó, þar ferðast menn á misjöfnum gjöldum en sitja svo saman í einni kös. Ég skil vel ákvörðunartöku tónleikahaldara um AB-svæði, sérstaklega ef þetta hafa verið 79 miðar.

Ég kynntist Arcade Fire góðærisárið 2007 en þá gaf sveitin út diskinn Neon Bible og var það eini diskurinn sem ég keypti það árið. Var hann víða talinn einn besti gripur ársins af álistgjöfum í tónlist. Ég get tekið undir það og hlustaði mikið á hann í iPod-inum mínum.  Síðan hef ég lítið fylgst með sveitinni og missti af þrem síðustu plötum sveitarinnar, The Suburbs, Reflektor og Everyting Now.

Arcade Fire

Sviðsframkoman var stórbrotin og fagmannleg. Fyrst hittust meðlimir á réttum tíma fyrir framan sviðið, tóku hópknús eins og íþróttalið gera og fóru í gegnum áhorfendaskarann og gáfu fimmur. Margir símar sáust á lofti. Síðan hófst tónlistarveislan með titillaginu Everything Now. Lagið er undir ABBA-áhrifum í byrjun, það fór rólega af stað en svo bættust öll möguleg hljóðfæri sem leikið var á af gleði og innlifun og krafturinn varð hrikalegur. Tónninn var sleginn!  

Söngvarinn stæðilegi og stofnandi sveitarinnar Win Butler fór fyrir liðinu og steig á stokk í rauðu skónum sínum og reif gítar hátt á loft. Ekki  ósvipað og kyndilberi á Ólympíuleikum sem er að fara að tendra eldinn. Bróðir hans William Butler fór hamförum á sviðinu og var gaman að fylgjast með honum. Hann hoppaði á milli hljóðfæra, spilaði á hljómborð, barði á trommu og spilaði á gítar og stóð upp á hljómborðum. Hann ferðaðist kófsveittur um sviðið eins og api en kom ávallt inn á réttum stöðum. Magnað. 

Alls voru níu liðsmenn Arcade Fire á sviðinu sem þakið var hljóðfærum. Mörg hljómborð og hljóðgervlar voru og tvö trommusett. Skiptust þeir reglulega á að spila á hljóðfæri af innlifun og minntu mig á Ljótu hálfvitana frá Húsavík.

Krafturinn og hljómurinn var mikill í byrjun og fjögur fyrstu lögin spiluð í einum rykk á háu tempói. Aðdáendur tóku vel við enda þekktir slagarar. Svo kom þakkarræðan um Ísland og hrósaði hann Björk mikið. Hún hafði mikil áhrif á bandið.

Sviðið og ljósin komu vel út í Höllinni og mynduðu stórbrotna umgjörð um tónleikana og gaman að bera saman þegar vinalega upphitunarhljómsveitin Kiriyama Family spilaði raftónlist fyrr um kvöldið. En þá voru ljós og myndræn framsetning ekki notuð. Tónleikagestir voru hrifnir og dönsuðu, sungu og klöppuðu taktfast í hitanum og svitanum.

Ég komst að því að vera illa lesin því síðari hluti tónleikanna var með nýjum lögum og þekkti ég þau ekki en fólkið í salnum tók vel undir. Ég hef síðustu daga verið að hlusta á lög af skífunni Everyting Now og líkar þau betur og betur. Margar laglínur hljóma nú fallega í hausnum á mér. Einna helst hefur enduruppgötvun mín á lögum Electric Blue og Sprawl II (Mountains Beyond Mountains) sem Régine Chassagne söng vaxið mjög en ég tengdi ekki við þau þegar hún flutti þau á sviðinu. Eina lagið sem ég saknaði var Intervention.

Þetta var skemmtilegt kvöld og gaf manni mikinn eldmóð fyrir veturinn.

Win Butler

Daginn eftir tónleikana átti ég leið í Ísbúð Vesturbæjar í Vesturbænum og var þá ekki stórsöngvarinn í Arcade Fire, Win Butler staddur þar og að kaupa sér bragðaref. Hann var klæddur í gallajakka merktum NOW-tónleikaferðinni.  Það var töluverður fjöldi krakka að versla  sér ís og létu þau hinn heimsfræga tónlistarmann algjörlega í friði. Kurteist fólk, Íslendingar. Líklegast er að þau hafi ekki vitað af því hver þetta var en landi hans Justin Bieber hefði ekki fengið að vera í friði. Svona er kynslóðabilið í tónlistinni.


mbl.is Enginn gestur leið fyrir ákvörðunina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grábrók (170 m) 2017

Það var gaman að ganga upp á Grábrók í sumar og hafa einstakt útsýni yfir Borgarfjarðarhérað og Norðurárdalinn. Sjá Baulu í öllu sínu veldi, Hrauns­nef­söxl, Hreðavatn, Bifröst og Norðurá. Það sem vakti mesta athygli er göngustigar sem stýrir umferð um viðkvæmt fjallið eða fellið.

Mér finnst vel hafa tekist til með gerð göngustigana og merkinga til að stýra umferð gangandi og auka öryggi, en svona inngrip er umdeilt en eitthvað þarf að gera til að vernda óvenjulega viðkvæmt svæði þar sem hraun og mosi er undir fótum

Grábrók er einn af þremur gígum í stuttri gígaröð. Þeir heita Grábrók (Stóra – Grábrók), Smábrók (litla Grábrók) og Grábrókarfell (Rauðabrók). Úr þeim rann Grábrókarhraun fyrir 3.200 árum og myndaði meðal annars umgjörð Hreðavatns. Efni í vegi var tekið úr Smábrók á sjötta áratugnum og tókst að stoppa þá eyðileggingu.

Daginn eftir var gengin hringur sem Grábrókarhraun skóp, gengið frá Glanna, niður í Paradísarlaut og meðfram Norðurá og kíkt á þetta laxveiðistaði. Það var mikil sól og vont að gleyma sólarvörninni. Mæli með bók eftir Reyni Ingibjartsson, 25 gönguleiðir í Borgarfirði og Dölum fyrir stuttar upplifunarferðir.

Dagsetning: 24.júní 2017
Hæð: Um 170 metrar
Hæð í göngubyrjun: Um 100 m (N:64° 46' 17.614" W:21° 32' 23.370")
Hækkun: 70 metrar
Heildargöngutími: 30 mínútur (20:00 - 20:30)
Erfiðleikastig: 1 skór 
Þátttakendur: Fjölskylduferð, 6 manns 
GSM samband: Já
Gestabók: Nei
Gönguleiðalýsing: Létt ganga mest upp eða niður göngustiga

Grábrók júní 2017

Hér sér ofan í gíginn í Grábrók sem gaus fyrir 3.200 árum. Manngerðir göngustigar sem minnka álag og falla ágætlega að umhverfinu liggja upp og niður fjallið.


Hvalárvirkjun - eitthvað annað

Takk, takk Tómas,  Ólafur og Dagný fyrir að opna Ísland fyrir okkur á #LifiNatturan. Alltaf kemur Ísland mér á óvart. Stórbrotnar myndir sem sýna ósnortið víðerni sem á eftir að nýtast komandi kynslóðum. Við megum ekki ræna þau tækifærinu.

En hvað skyldu Hvalárvirkjun og hvalaskoðun eiga sameiginlegt?

Mér kemur í hug tímamótamyndir sem ég tók í fyrstu skipulögðu hvalaskoðunarferðunum með Jöklaferðum árið 1993. Þá fóru 150 manns í hvalaskoðunarferðir frá Höfn í Hornafirði.  Á síðasta ári fóru 354.000 manns í hvalaskoðunarferðir. Engan óraði fyrir að þessi grein ætti eftir að vaxa svona hratt.  Hvalaskoðun er ein styrkasta stoðin í ferðaþjónustunni sem heldur hagsæld uppi í dag á Íslandi. Hvalaskoðun fellur undir hugtakið "eitthvað annað" í atvinnusköpun í stað mengandi stóriðu og þungaiðnaði.

Vestfirðingar geta nýtt þetta ósnortna svæði með tignarlegum fossum í Hvalá og  Rjúkanda til að sýna ferðamönnum og er nauðsynlegt að finna þolmörk svæðisins. Umhverfisvæn og sjálfbær ferðaþjónusta getur vaxið þarna rétt eins og hvalaskoðun. Fari fossarnir í ginið á stóriðjunni, þá rænum við komandi kynslóðum arðbæru tækifæri. Það megum við ekki gera fyrir skammtímagróða vatnsgreifa.

Ég ferðaðist um Vestfirði í sumar. Dvaldi í nokkra daga á Barðaströnd og gekk Sandsheiði, heimsótti Lónfell hvar Ísland fékk nafn, Hafnarmúla, Látrabjarg og Siglunes. Það var fámennt á fjöllum og Vestfirðingar eiga mikið inni. Þeir verða einnig að hafa meiri trú á sér og fjórðungnum. Hann býður upp á svo margt "eitthvað annað".

Við viljum unaðsstundir í stað kílóvattstunda.

Hvalaskoðun 1993

Fyrstu myndir sem teknar voru í hvalaskoðun á Íslandi 1993 og birtust í fjölmiðlum. Þá fóru um 150 manns í skipulagðar hvalaskoðunarferðir. Í dag fara 354.000 manns á ári. Það er eitthvað annað.


mbl.is Marga þyrstir í heiðarvötnin blá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siglunes á Barðaströnd

Frá Siglunesi var róið um aldir og sagt er: Sá sem frá Siglunesi rær – landi nær.

Siglunes er úrvörður Barðastrandar til vesturs og lífhöfn sjófarenda en útvörður í austri er Vatnsfjörður.

Siglunes liggur yst á Barðaströnd við opinn Breiðafjörðinn og andspænis Snæfellsnesi krýndu samnefndum jökli.

Siglunesið býður upp á fjöruferð, ferð upp til fossa og að fjárrétt undir sjávarbökkum. Siglunesá rennur niður fjallið og gengum við upp með ánni og geymir hún fjóra fossa Hæstafoss, Undirgöngufoss, Háafoss og Hundafoss. Útsýni mjög gott yfir hluta Barðastrandarinnar.

Síðan var farið út á Ytranes og  svæði þar sem verbúðir voru um aldir. Við sáum fimm seli og nokkur úrgang, mest frá nútíma útgerð.  Dásamlegt að ganga berfættur í gylltum heitum sandinum til baka með stórkostlegt útsýni út og yfir Breiðafjörð á jökulinn sem logar.

Þegar komið var aftur að Siglunesi var komið að Naustum, bær Erlendar Marteinssonar. Austurhliðin hefur látið á sjá en er inn var komið þá sást eldavél. Ekki gerðu menn miklar kröfur til þæginda. Bærinn var byggður 1936 og bjó Erlendur til ársins 1962. Innviðin í bæinn komu úr kaupfélaginu í Flatey - það leiddi okkur á aðrar slóðir og þær hvernig alfaraleiðir lágu um Breiðafjörðinn. Þetta er hrein endalaus uppspretta heillandi sögu og ummerkja um það hvernig fólkið okkar komst af hér á öldum áður.

Að endingu var komið við að gestabók og minnisvarða um síðust hjónin sem bjuggu að Siglunesi.

Hús Erlendar

Að Naustum, bær Erlendar Marteinssonar, austurhliðin hefur látið á sjá. Erlendur bjó þarna til ársins 1962.

Dagsetning: 31. júlí 2017
Gestabók: Já

Heimild:
Barðastrandarhreppur göngubók, Elva Björg Einarsdóttir, 2016


Hólárjökull 2017

Jöklarannsóknir mínar halda áfram. Ávallt þegar ég keyri framhjá Hólárjökli sem var einn af tignarlegum skriðjöklum úr Öræfajökli, þá smelli ég ljósmynd af honum. Hólárjökull er rétt austan við Hnappavelli. Hólá kemur frá honum.

Efri samsetta myndin var tekin 5. ágúst 2016 í súld og 13. ágúst 2017 í fallegu veðri. Tungan hefur aðeins styst á milli ára. Neðri myndin er samsett og sú til vinstri tekin 16. júlí 2006 en hin þann 5. ágúst 2015.  Það sést glöggt að jökultungan hefur styst og jökullin þynnst, nánast horfið.  Rýrnun jöklanna er ein afleiðingin af hlýnun jarðar.

Árið 2006 voru íslenskir jöklar útnefndir meðal sjö nýrra undra veraldar af sérfræðingadómstól þáttarins Good Morning America á bandarísku sjónvarpsstöðinni ABC. Íslensku jöklarnir urðu fyrir valinu vegna samspils síns við eldfjöllin sem leynast undir íshellunni.

Jöklarnir vita svo margt. Við erum að tapa þeim með ósjálfbærri hegðun okkar.

En hvað getur almenningur best gert til að minnka sótsporið? Í rannsókn hjá IPO fyrr á árinu kom fram: Til þess að hafa raunveruleg áhrif á loftslagsbreytingar þarf komandi kynslóð að taka upp bíllausan lífsstíl, eignast færri börn, draga úr flugferðum og leggja meiri áherslu mataræði sem byggir á grænmeti. Sá sem neytir fyrst og fremst grænmetisfæðis leggur fjórum sinnum meira af mörkum til minnkunar losunar en sá sem aðeins flokkar og endurvinnur rusl. Þetta eru þær aðferðir sem skila mestu, bæði þegar horft er til losunar og áhrifa á stefnumörkun.

Hólárjökull 2017 og 2016

Loftslagsbreytingar eru staðreynd og hitastig breytist með fordæmalausum hraða. Við þurfum að hafa miklar áhyggjur, jöklarnir bráðna og sjávarstaða hækkar með hækkandi hita og höfin súrna.

Fyrirtæki og almenningur þarf úr útblæstri jarðefnaeldsneytis og á meðan breytingarnar ganga yfir, þá þarf að kolefnisjafna. Annað hvort með gróðursetningu trjáa eða endurheimt votlendis.Einnig þarf að þróa nýja tækni.

Hólárjökull 2006 og 2015Jökulsporðurinn er nær horfinn. En hann hefur í fyrndinni náð að ryðja upp jökulruðningi og mynda garð.

Sjá:
Hólárjökull 2007 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/259538/
Hólárjökull 2008 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/611572/
Hólárjökull 2009 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/911196/
Hólárjökull 2011 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1192311/

Hólárjökull 2012 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1253486/

Hólárjökull 2015 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1920380/

Hólárjökull 2016 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/2177752/?t=1470576153


Hafnarmúli (um 300 m)

Hafnarmúli er snarbrattur með flughömrum milli Mosdals og Örlygshafnar í Patreksfirði gengt þorpinu. 

Neðan við veg númer 612 er hægt að leggja bílum og hefja göngu inn Mosdal, upp hálsinn og ganga eftir toppnum að vörðu á fremsta hluta Hafnarmúla. Gangan upp tekur einn knattspyrnuleik og það borgar sig ekki að reyna að stytta sér leið upp fjallshlíðina, heldur fylgja slóða upp hálsinn að vörðu fremst á fjallinu.

Á leiðinni er tilvalið að stoppa við Garðar BA64, elsta stálbát Íslendinga í fjörunni í Skápadal og koma við í Sauðlauksdal. Eftir gönguferð er sniðugt að koma við á Minjasafni Egils Ólafssonar að Hnjóti.

Magdalena Thoroddsen lýsir svo bjarginu:

Flestum gæðum foldar rúinn
fjalladjásn með klettaskörð.
Hafnarmúlinn hömrum búinn
heldur vörð um Patreksfjörð.

Útsýni af Hafnarmúla er stórgott yfir Patreksfjörð. Þorpið með bæjarfjallið Brellur á ská á móti. Núpurinn Tálkni beint á móti með ekta vestfirska fjallabyggingu. Dýrðin er að horfa niður í Örlygshöfn, sjá litadýrðina í vaðlinum, gyllta sanda, græn tún, grænan sjó og blátt haf. Ógleymanlegt.

Hafnarmúli er helst þekktur fyrir hörmulegt sjóslys. Í ofviðri 1. desember 1948, fórst enski togarinn Sargon undir Hafnarmúla í Patreksfirði og fórust með honum 11 manns en 6 tókst að bjarga.

Í Lýsing Íslands eftir Þorvald Thoroddsen segir um Hafnarmúla: "austan við vaðalinn í Örlygshöfn er Hafnarmúli, snarbrattur og hvass að ofan einsog saumhögg,"    Ekki skil ég alveg hvað Þorvaldur á við með lýsingunni "að ofan eins og saumhögg" en að ofan er fjallið jafnslétt og mosagróið þó laust grjót sé en saumhögg er hvass þrístrendur hryggur.  

Eftir göngu á Hafnarmúla var farið í sund í Barmahlíð á Patreksfirði. Úr heitu pottinum sér göngumaður að múlinn sker sig aðeins úr fjallasalnum með gylltar fjörur sunnan fjarðar.

Hafnarmúli

Varða nálægt fremsta hluta Hafnarmúla, á móti er hinn bratti núpur Tálkni, hann skilur Patreksfjörð frá Tálknafirði. Selárdalshlíðar sjást handan Tálkna.

Dagsetning: 2. ágúst 2017 – Yfirdráttardagurinn
Hæð: Um 300 metrar
Hæð í göngubyrjun: 12 metrar við bílastæði við Mosá
Hafnarmúli varða (282 m): (N:65.34.862 - W:24.05.474)
Hækkun: 270 metrar
Uppgöngutími Hafnarmúli: 100 mín (09:50 - 11:30) 4,2 km
Heildargöngutími: 190 mínútur (09:50 - 13:00)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 8,4 km
Veður kl. 12.00: Skýjað, S 1 m/s, 11°C 
Þátttakendur: Villiendurnar, 8 þátttakendur 
GSM samband: Já
Gestabók: Nei
Gönguleiðalýsing: Vel sýnileg leið með stórgrýti í uppgöngu. Mosavaxið að ofan.

Heimild:

Lýsing Íslands:  Þorvaldur Thoroddsen  


Lónfell (752 m)

„og nefndu landið Ísland.“

"Þá gekk Flóki upp á fjall eitt hátt og sá norður yfir fjöllin fjörð fullan af hafísum. Því kölluðu þeir landið Ísland, sem það hefir síðan heitið." 

Fyrir fjallgöngufólk er ganga á Lónfell skylduganga á fornfrægt fell. Héðan var landinu gefið nafnið Ísland. Fjörðurinn er Arnarfjörður sem blasir við af toppnum. Göngumenn trúa því.

Fjallið er formfagurt og áberandi úr Vatnsfirðinum, ekki síst frá Grund þar sem Hrafna-Flóki byggði bæ sinn og dvaldi veturlangt við illan kost. 

Lagt var á Lónfell frá Flókatóftum í Vatnsfirði, upp Penningsdal frá skilti sem á stendur Lómfell og er vel merkt leið á toppinn. Gangan hófst í 413 m hæð og hækkun um 339 metrar. Töluvert stórgrýti er þegar nær dregur fjallinu. 

Ofar, í Helluskaði nær vegamótum er annað skilti og hægt að ganga hryggjaleið en mér sýndist hún ekki stikuð og aðstaða fyrir bíla léleg.

Eftir 90 mínútna göngu var komið á toppinn og tók á móti okkur traust varða og gestabók. Við heyrðum í lómi og sáum nokkur lón á heiðinni. Langur tími var tekinn við að snæða nesti og nokkrar jógaæfingar teknar til að hressa skrokkinn.

Á leiðinni rifjuðu göngumenn upp deilur á milli manna á tímum vesturferða og ortu sumir níðvísur um landi og kölluðu það hrafnfundið land en einn af þrem hröfnum Flóka fann landið. Aðrir skrifuðu og ortu um sveitarómantíkina.

Franskt par úr Alpahéruðum Frakklands fylgdi okkur og þekkti söguna um nafngiftina. Þeim fannst gangan áhrifamikil. Ekkert svona sögulegt fjall í Frakklandi.

Lónfell-Vatnsfjörður

Af Lónfelli er víðsýnt og þar sér um alla Vestfirði og Vatnsfjörðurinn, Arnarfjörðurinn og Breiðafjörðurinn með sínar óteljandi eyjar lá að fótum okkar.

Lómfell
Á skiltinu við upphaf göngu stóð Lómfell og vakti það athygli okkar. Einnig hafði vinur minn á facebook gengið á fellið daginn áður og notaði orðið Lómfell. Ég taldi að hann hefði gert prentvillu. Hann hélt nú ekki! Er hér Hverfjall/fell deila í uppsiglingu?

Ég spurði höfund göngubókar um Barðaströnd, Elvu Björg Einarsdóttur um örnefnin en hún ólst upp við að fjallið héti Lónfell og um það töluðu og tala flestir sveitungar hennar. En eftir að björgunarsveitin Lómur var stofnuð um miðjan 9. áratug síðustu aldar fór að bera á Lómfells-heitinu og þá var nafnið skírskotun í fellið - enda mynd af fellinu í merki sveitarinnar og kallmerkið "Lómur." 

"Á kortum kemur alls staðar fram Lónfell, nema e.t.v. á þeim yngstu. Örnefnaskrár fyrir Barðaströnd tala einnig um Lónfell en á einum stað í örnefnaskrá fyrir bæ í Arnarfirði sá ég talað um Lómfell. Ég hef rætt málið við stofnun Árna Magnússonar (Örnefnastofnun) og þar segja þau mér að vera sæla með að svo mikill hljómgrunnur sé í heimildum fyrir "Lónfelli" en fyrst að fólk nefni fjallið einnig "Lómfell" sé ekki hægt að skera úr um hvort sé réttast - svo sé oft um örnefni og að þau breytist - það vitum við.

Margir Barðstrendingar voru hvumsa við að sjá nafnið á skiltinu og ég held að mikilvægt sé að setja upp annað skilti þar sem nafnið ,,Lónfell" kemur fram - líklega er réttast að þau standi bæði :)"

Upplifun við söguna er engu líki og vel áreynslunnar virði.

Fjallasýn

Stórgrýtt leið. Ýsufell, Breiðafell, Klakkur og Ármannsfell rísa upp. Norðan þessara fjalla lá hinn forni vegur Hornatær milli Arnarfjarðar og Vattarfjarðar.

Arnarfjörður

Hér sér niður í Arnarfjörð sem er fullur af eldislaxi, hefði landið fengið nafnið Laxaland!

Dagsetning: 3. Ágúst 2017
Hæð: 752 metrar
Hæð í göngubyrjun: 413 metrar við skilti (N:65.37.431  - W:23.13.728)
Lónfell (752 m): (N:65.38.386 - W:23.11.871)
Hækkun: 339 metrar
Uppgöngutími Lónfell: 90 mín (09:40 - 11:10) 3,3 km
Heildargöngutími: 370 mínútur (09:40 - 12:50)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 6,6 km
Veður kl. 12.00: Skýjað, NNA 2 m/s, 12°C 
Þátttakendur: Villiendurnar 7 þátttakendur 
GSM samband: Já
Gestabók: Já
Gönguleiðalýsing: Mjög vel stikuð leið með stórgrýti er á gönguna líður

Heimild:
Barðastrandarhreppur göngubók, Elva Björg Einarsdóttir, 2016


Sandsheiði (488 m)

Sandsheiði er gömul alfaraleið á milli Barðastrandar og Rauðsands. Gatan liggur upp frá Haukabergsrétt við norðanverðan Haukabergsvaðal um Akurgötu, Hellur, Þverárdal, Systrabrekkur að Vatnskleifahorni.

Þar eru vötn og ein tjörnin heitir Átjánmannabani en hún var meinlaus núna. Níu manna gönguhópurinn hélt áfram upp á Hvasshól, hæsta punkt og horfði niður í Patreksfjörð og myndaðist alveg nýtt sjónarhorn á fjörðinn. Uppalinn Patreksfirðingur í hópnum varð uppnuminn af nostalgíu. Nafnið Hvasshóll er mögulega komið af því að hvasst getur verið þarna en annað nafn er Hvarfshóll en þá hefur Rauðasandur horfið sjónum ferðamanna. Það var gaman að horfa yfir fjörðinn hafið og fjallahringinn og rifja upp örnefni.

Vaðall

Þegar horft var til baka af Akurgötu skildi maður örnefnið vaðall betur, svæði fjöru sem flæðir yfir á flóði en hreinsast á fjöru, minnir á óbeislaða jökulá.

Áfram lá leiðin frá Hvasshól,um Gljá og niður í Skógardal á Rauðasand. Á leið okkar um dalinn gengum við fram á Gvendarstein (N:65.28.154 - W:23.55.537), stóran steinn með mörgum smáum steinum ofaná. Steinninn er kenndur við Guðmund góða Hólabiskup. Sú blessun fylgir steininum að leggi menn þrjá steina á hann áður en lagt er upp í för komast þeir heilir á leiðarenda um villugjarna heiði. Endað var við Móberg á Rauðasandi eftir 16 km. göngu. Algengara er að hefja gönguna þaðan.

Gljá

Góður hluti háheiðinnar er svo til á jafnsléttu, heitir Gljá. Það sér í Molduxavötn sem bera nafn sitt af stökum grjóthólum eða klettastöpum er nefnast Molduxar. Molduxi þýðir stuttur, þrekvaxinn maður.

Á leiðinni yfir heiðina veltu göngumenn fyrir sér hvenær Sandsheiðin hafi verið gengin fyrst. Skyldi hún hafa verið notuð af Geirmundi heljarskinni og mönnum hans í verstöðinni á Vestfjörðum? Ekki er leiðin teiknuð inn á kort í bókinni Leitin að svarta víkingnum eftir Bergsvein Birgisson.

Sandsheiðin er einstaklega skemmtileg leið í fótspor genginna kynslóða.

Þegar á Rauðasand er komið verðlaunaði gönguhópurinn sig með veitingum í Franska kaffihúsinu en bílar höfðu verið ferjaðir daginn áður. Landslagið á staðnum er einstakt,afmarkast af Stálfjalli í austri og Látrabjargi í vestri og fyllt upp með gylltri fjöru úr skeljum hörpudisks.

Síðan var haldið að Sjöundá og rifjaðir upp sögulegir atburðir sem gerðust fyrir 215 árum þegar Bjarni Bjarnason og Steinunn Sveinsdóttir myrtu maka sína.

Að lokum var heitur Rauðasandur genginn á berum fótum og tekið í strandblak.

Dagsetning: 1. Ágúst 2017
Hæð: 488 metrar
Hæð í göngubyrjun: 16 metrar við Haukabergsrétt (N:65.28.833 - W:23.40.083)
Hvasshóll (488 m): (N:65.29.892 - W:23.46.578)
Móberg upphaf/endir (29 m): (N:65.28.194 - W:23.56.276)
Hækkun: 462 metrar
Uppgöngutími Hvasshóll: 180 mín (09:30 - 12:30) 8 km
Heildargöngutími: 360 mínútur (09:30 - 15:30)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 16 km
Veður kl. 12.00: Léttskýjað, ANA 3 m/s, 12,4 °C
Þátttakendur: Villiendurnar 9 þátttakendur
GSM samband: Já, mjög gott
Gestabók: Nei
Gönguleiðalýsing: Vel gróið land í upphafi og enda með mosavöxnum mel á milli um vel varðaða þjóðleið

Heimild:
Barðastrandarhreppur göngubók, Elva Björg Einarsdóttir, 2016


Móskarðshnjúkur (807 m)

Eitt markmið hjá mér er að ganga á bæjarfjallið Esjuna að lágmarki einu sinni á ári. Í ár var haldið á Móskarðshnjúka en þeir eru áfastir Esjunni. Tekinn var Móskarðshringur frá austri til vesturs á hnjúkana þrjá.

Aðeins austasti hnjúkurinn hét Móskarðshnjúkur, hinir voru nafnlausir, en Móskörð var nafn á hnjúkaröðinni allri. Víst er að austasti hnjúkurinn er tignarlegastur, enda afmarkaður af djúpum skörðum á báða vegu. Þessir hnjúkar eru úr líparíti og virðist ævinlega skína á þá sól vegna þeirra ljósa litar.

Lagt var á Móskarðshnúk frá Skarðsá og haldið upp Þverfell og stefnan tekin fyrir ofan Bláhnjúk. Það var þoka á austustu tindunum en veðurspá lofaði jákvæðum breytingum. Leiðin er stikuð og vel sýnileg göngufólki. Reyndir göngumenn á Móskörð segja að leiðin sé greinilegri á milli ára.

Eftir að hafa gengið í rúma þrjá kílómetra á einum og hálfum tíma, þá var toppi Móskarðshnjúks náð en skýin ferðuðust hratt. Á leiðinni á toppinn á hnjúknum var stakur dökkur drangur sem gladdi augað. Það var hvasst á toppnum skýin ferðuðust hratt. 

Útsýni gott yfir Suðvesturland, mistur yfir höfuðborginni. Fellin í Mosfellsbæ glæsileg, Haukafjöll og Þrínhnúkar. Vötnin á Mosfellsheiði sáust og hveralykt fannst, líklega frá Nesjavöllum. Skálafell, nágranni í austri með Svínaskarð sem var þjóðleið norður í land. Í norðri var Trana og Eyjadalur og í vestri voru Móskarðsnafnarnir, Laufskörð og Kistufell.

Glæsileg fjallasýn eða eins og Jón Kalmann Stefánsson skrifar í Himnaríki og Helvíti: "Fjöllin eru ekki hluti af landslaginu, þau eru landslagið."

Haldið var af toppnum niður í skarðið og leitað skjóls og nesti snætt. Síðan var haldið á miðhnjúkinn (787 m), síðan á þann austasta (732 m) og niður með Grjáhnjúk (Hrútsnef).

Þórbergur Þórðarson á skemmtilega lýsingu af líparítinu í Móskarðshnjúkum sem eru hluti af 1-2 milljón ára gamalli eldstöð (Stardalseldstöðinni) í Ofvitanum. En rigningarsumarið 1913 ætlaði hann að afla sér tekna með málningarvinnu. Það var ekkert sólskin á tindunum. Það var grjótið í þeim, sem var svona á litinn. Náðu Móskarðshnjúkar að blekkja meistarann í úrkominni. 

Móskarðshnjúkur

Tignarlegur Móskarðshnjúkur, 807 metrar. Trana (743 m) tranar sér inn á myndina til vinstri og Skálafell með Svínaskarð á milli er til hægri.

Dagsetning: 25. júlí 2017
Hæð: 807 metrar
Hæð í göngubyrjun: 130 metrar við Skarðsá
Hækkun: 677 metrar, heildarhækkun 814 metrar
Heildargöngutími: 240 mínútur (11:00 - 15:00)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 8 km
Veður kl. 12.00 Þingvellir: Skýjað, S 3 m/s, 15,4 °C og 69% raki
Þátttakendur: Skál(m), 3 þátttakendur
GSM samband: Já, mjög gott
Gönguleiðalýsing: Gróið land og brattar skriður

Heimildir
Íslensk fjöll, Gönguleiðir á 151 tind, Ari Trausti Guðmundsson og Pétur Þorleifsson
Morgunblaðið, Bæjarfjallið Esja, Sigrún Huld Þorgrímsdóttir, 25. nóvember 2000.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.5.): 4
  • Sl. sólarhring: 16
  • Sl. viku: 97
  • Frá upphafi: 226532

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 79
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband