Færsluflokkur: Lífstíll
2.8.2019 | 21:53
Kvígindisfell (783 m) á Uxahryggjaleið
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, þjóðfræðingur hefur leitt kvöldgöngur á föstudagaskvöldum sem kallast sumarnætur og eru í samvinnu við Ferðafélag Íslands. Í þeim eru þekktir staðir heimsóttir og sagnir og þjóðlegur fróðleikur dreginn fram.
Ég skellti mér í ferða á Kvígindisfell á Uxahryggjaleið en þar erum við komin á slóðir Skúlaskeiðs sem Grímur Thomsen orti svo fagurlega um.
Haldið er af stað í gönguna frá Biskupsbrekku, norðan Víðikera og austan Hvannadala á Uxahryggjaleið og gengin auðveld leið upp á Kvígindisfellið.
Þegar vel viðrar er geysivíðsýnt til allra átta, bæði jöklasýn og til fjalla, allt norður í Húnavatnssýslu þegar best lætur. Þarna fengum við að upplifa landslag eins og inni á reginöræfum, samhliða mikilli fjallasýn.
Kvígindisfell er fornt móbergsfjall, frá síðkvarter, skorið giljum, 783 m hátt. Mikið útsýni er af fellinu. Nafnið vafðist fyrir mönnum og eru til frá síðustu öldum skýringarheitin Kvigyndisfell, Kvikfénaðaryndisfell, Kvikféyndisfell, Kvíindisfell ofl. Kvígindi eru ungir nautgripir eða geldneyti, sem þarna munu hafa verið á afrétti. (bls. 262)
Nokkur örnefni og bæjanöfn á landinu hafa kvígindi að forlið, Kvígindisá, Kvígindisdalur, Kvígindisfell og Kvígindisfjöll. Þessi nöfn er að finna í öllum landshlutum.
Smalaland Lunddæla suður fyrir Kvígindisfell er kallað Suðurfjall (afrétturinn norðan Grímsár er Norðurfjall) (bls. 260)
Snjólaus Skjalabreiður, ógnarskjöldur bungubreiður fylgdi göngufólki alla leið. Snjóleysið má skrifa á hamfarahlýnun af mannavöldum. Þoka lág yfir Þórisjökli og Ok en hin þekktu fjöll í kringum Þingvallavatn skörtuðu sínu fegursta. Þegar toppur Kvígindisfells nálgaðist skall á þoka og því ekki farið alla leið.
Á heimleiðinni las Ólína hestavísuna Skúlaskeið eftir Grím Thomsen og var gaman að heyra hrynjandann og tengja við örnefnin á leiðinni, Tröllaháls, Víðiker og Ok. Skúlaskeið er torfær og stórgrýttur kafli á Kaldadalsvegi. Skúli nokkur var dæmdur til lífláts á Alþingi, en komst undan vegna afbragðshests, Sörla, sem hann reið. Aldrei hefur enn í manna minni meira riðið nokkur Íslendingur.
Þeir eltu hann á átta hófahreinum
og aðra tvenna höfðu þeir til reiðar
en Skúli gamli sat á Sörla einum
svo að heldur þótti gott til veiðar.
Kvígindisfell séð frá Biskupsbrekku
Dagsetning: 19. júlí 2019
Hæð Kvígindisfells: 783 metrar
Hæð í göngubyrjun: 330 metrar við Biskupsbrekku (N:64.25.252 - W:20.59.086)
Kvígindisfell næsti efsti pallur (724 m): (N:64.24.441 W: 21.02.983)
Hækkun göngufólks: 394 metrar
Uppgöngutími: 150 mínútur (19:15 - 21:45)
Heildargöngutími: 225 mínútur (19:15 23:00)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 10 km
Veður kl. 21.00 - Þingvellir: Skýjað, N 4 m/s, 14,1 °C, raki 67%
Þátttakendur: Ferðafélag Íslands, 50 þátttakendur í einni rútu.
GSM samband: Nei
Gestabók: Líklega ekki
Gönguleiðalýsing: Gengið eftir gömlum veg, síðan stefnt á norðaustur hluta fellsins og stikum fylgt. Leiðin er gróin fyrst og greiðfær. Fremur auðveld leið á ágætis útsýnisfell.
Facebook-status: Fínasta ganga i kvöld með Ferðafélagi Íslands á Kvígindisfell à Uxahryggjaleið
Heimildir:
Árbók F.Í. 2004 - Borgarfjarðarhérað
Vísindavefurinn - Hvað merkir nafnið Kvígindisfjörður
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 22:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.5.2019 | 09:02
Loftslagsbreytingar: Þróun lausna og bætt nýting auðlinda
Mál nr. S-103/2019
Hagrænir hvatar
Lífsferilsgreiningar sýna að byggingar eiga um þriðjung af heildar kolefnisspori jarðarinnar.
Stjórnarráðið á að setja stefnu um að allar stofnanir verði í vistvæntu vottuðum byggingum fyrir árið 2030. Einnig eiga fyrirtæki og einstaklingar að geta fengið skattaafslátt hafi þau vistvænar vottanir. Hagrænir hvatar eru lykilinn í að breyta hegðun. Sveitarfélög geta gefið afslátt af fasteignagjöldum. Hús Náttúrufræðistofnunar í Urriðaholti er ágætis fyrirmynd en hún er í BREEAM vottunarferli. New York með metnaðarfull verkefni. Einnig hefur Kaliforníuríki útfært vistvænar lausnir í byggingum.
Stjórnvöld eiga að nota hagræna hvata á öllum þeim stöðum sem hægt er að koma þeim á til að stuðla að sjálfbærni og hækka álög á alla sóun og mengun. Stuðla að því að fara inn í hringrásarhagkerfi, úr línulega hagkerfinu með allri sinni sóun.
Kolefnisskattar
Kolefnisspor flugs er 12% af samgöngum og er fyrir utan mörg losunarkerfi. Íslensk stjórnvöld eiga að vera í fararbroddi og setja kolefnisskatt á allt flug til og frá landinu og nýta fjármagnið í kolefnisjöfnun með gróðursetningu, endurheimt votlendis, landgræðslu og í nýsköpun. Alls ekki niðurgreiða flug, það er í mótsögn við umhverfisáhrifin.
Vistvænir bílar verði með lágmarks álögur en jarðefnabílar skattaðir í botn. Brennsla á jarðefnaeldsneyti er ekkert annað en glæpur gegn mannkyni.
Kolefnisspor á umbúðir vöru
Fæða á um þriðjung af heildar kolefnissporinu. Matarsóun er mikil í hinum vestræna heimi og einn liður í að sporna við henni er að kolefnisspor matvöru sé reiknuð og gefið upp á umbúðum. Einnig á vörulýsingu og verðmiðum. Styðja við nýsköpun á framsetningu kolefnisspors.
Einingin er kg CO2/kg. https://www.oatly.com/se/products/havredryck-deluxe
Fólksfækkun
Hver einstaklingur skilur eftir sig kolefnisspor og því fleiri einstaklingar því meira álag verður á jörðina. Fæðingarhlutfall íslenskra kvenna er þó jákvætt, 1,7 barn á hverja konu. Yfirleitt er miðað við að frjósemi þurfi að vera um 2,1 barn til þess að viðhalda mannfjöldanum til lengri tíma litið. Tryggja þarf að úrelt hagfræðilíkön sem ganga út á endalausa fólksfjölgun fái ekki að ráða ferðinni. Fólksfækkun skapar vandamál en fólksfjölgun skapar enn stærra vandamál. Stjórnvöld eiga ekki að hvetja til barneigna með ívilnunum. Taka þarf tillit til umhverfisþátta í hagvexti.
Neyðarástand
Ísland á að lýsa yfir neyðarástandi vegna loftslagsmála tafarlaust.
Ísland á um 0,02% af heildarlosun CO2 og er lítill leikari á sviðinu þó kolefnissporið á einstakling sé með því stærsta í heimi. En takist Íslandi að innleiða djarfar og áhrifaríkar sjálfbærar lausnir sem virka og verði kolefnishlutlaust fyrir 2040 þá verður landið góð fyrirmynd fyrir heimsbyggðina.
Á meðan hiti á jörðinni eykst, jöklar bráðna, höfin súrna og loðnan hverfur þá er þessi umsögn skrifuð.
Heimildir:
https://architecture2030.org/buildings_problem_why/
https://www.nature.com/news/one-third-of-our-greenhouse-gas-emissions-come-from-agriculture-1.11708
https://www.hagstofa.is/utgafur/frettasafn/mannfjoldi/faedingar-2017/
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 09:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.10.2018 | 15:30
Litli-Meitill (467 m) og Stóri-Meitill (521 m)
Meitillinn var stórt fiskvinnslufyrirtæki í Þorlákshöfn en endaði í hagræðingu kvótakerfisins. Fyrirtækið átti tvo togara, kennda við biskupana Þorlák og Jón Vídalín. Til er veitingastaður í bænum sem heitir Meitillinn veitingahús. Meitlarnir tveir, Stóri og Litli hafa því mikil ítök í sjálfsmynd sveitarfélagsins Ölfus.
Það var fallegur haustdagur þegar gengið var á Meitlana við Þrengslaveg. Valin var skemmtileg leið sem hófst sunnan við Meitilstagl og þaðan gengið á Litla-Meitil. Á leiðinni upp taglið sáum við í Eldborgarhrauni fólk sem var við myndatöku. Eftir áreynslulausa göngu, 2 km á rúmum klukkutíma, var komið á topp Litla-Meitils og sá þá vel yfir Ölfusið. Næst okkur í norðri var stóri bróðir og sást í gíginn fallega. Í vestri voru Krossfjöll, Geitafell, Litla-Sandfell, Heiðin há, Bláfjöll með sínum fjallgarði. Skálafell í Hellisheiði bar af í austri. Nær sáust Stóra-Sandfell og Eldborgir tvær sem hraunið er kennt við sem rann fyrir 2.000 árum.
Meitlarnir eru úr móbergi og hefur smá minni ekki náð upp úr jökulskildinum en sá stærri hefur náð í gegn enda skilur hann eftir sig fallegan gíg, leyndarmál sem er um 500 metrar á lengd og 350 metrar á breidd.
Næst var að ganga á Stóra-Meitil og þá tapaðist hæð en farið var um Stórahvamm, landið milli Meitla, eftir mosavöxnu hrauni. Það er skylda göngumanna að ganga kringum gíginn og best að halda áfram réttsælis. Tilvalið að taka nestisstopp í miðjum gígnum. Af gígbarminum sér vel í sundurtætt Lambafell og Hveradali með sín fjöll og virkjun. Stakihnúkur sést vel úr gígopinu en margir sem ganga bara á Stóra-Meitil fara á hann í leiðinni. En hann mun vera erfiður viðureignar.
Þegar könnun á gígnum var lokið var haldið til baka og farið niður gróið gil til austur í Stórahvammi og gengið milli Eldborgarhrauns og fjallsins. Þegar við nálguðumst upphafsstað, þá sáum við kvikmyndafólkið í hrauninu og fyrirsætur. Það er krefjandi vinna að vera í þessum bransa. Líklega var verð að taka upp auglýsingu fyrir útivistarframleiðandann 66° Norður. Ekki fékk ég boð um hlutverk en skelin sem ég var í ber þeirra merki.
Á leiðinni er trjálundur sem Einar Ólafsson fjallamaður ræktaði og vekja grenitrén eftirtekt út af því að ekki sést í nein tré á löngu svæði, hér er ríki mosans.
Fari fólk vestan megin Litla-Meitils í Meitlistaglinu er áhugaverður bergfláki, Votaberg en þar seytlar vant niður bergveggina. Hrafnaklettur er norðar.
Toppur Litla-Meitils
Dagsetning: 30. september 2018
Hæð: 521 metrar
Hæð í göngubyrjun: 211 metrar við Meitlistagl (N:63.57.730 - W:21.26.963)
Litli Meitill (467 m): (N:63.58.544 W:21.26.261)
Stóri Meitill (521 m): (N:64.00.024 - W:21.25.940)
Hækkun: 310 metrar
Uppgöngutími Stóri Meitill: 100 mín (09:00 - 12:00) 5,0 km
Heildargöngutími: 300 mínútur (09:00 - 14:00)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 11,1 km
Veður kl. 11.00 - Hellisheiði: Skýjað, SV 2 m/s, 2,0 °C, raki 82% næturfrost
Þátttakendur: Fjallkonur 7 þátttakendur
GSM samband: Já
Gestabók: Nei
Gönguleiðalýsing: Ganga í mosavöxnu landslagi. Greiðfærir melar og gróði land neðantil. Auðvelt uppgöngu og áhugaverð náttúrusmíð.
Facebook-status: Endalaust þakklát fyrir að geta þetta, takk fyrir Meitla-gönguna elsku fjallafélagar 😘Báðir toppaðir í yndislegu veðri og haustlitum
Heimild:
Íslensk fjöll. Gönguleiðir á 151 tind.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.9.2018 | 11:49
Geitafell (509 m)
Geitafell er 509 metrar á hæð og klætt fallegri mosakápu. Það er vestan Þrengslavegar. Fellið stendur stakt og á góðum degi er afar víðsýnt af því. Það var bjart í norðri þegar lagt var í gönguna en blikur á lofti í suðurátt.
Geitafell er móbergsstapi og hefur myndast við gos undir jökli, en gosið hefur ekki náð upp úr ísaldarjöklinum. Misgengi liggur eftir endilöngu fellinu frá suðvestri til norðausturs. Austurhlutinn hefur sigið nokkuð og sést það vel á loftmyndum.
Geitafellin eru fjögur víða um landið skv. Kortabók Íslands og hafa forfeður okkar fundið geitur eða haft geitur á beit í fellunum. En geitarstofninn á Íslandi er í útrýmingarhættu en fjöllin hverfa ekki. Og þó. Mikið malarnám er í Lambafelli og sótt hart að efni úr norður og suðurátt.
Gengið frá malarnáminu í Litla-Sandfell yfir Þúfnavelli að rótum Geitafells en þar er vegvísir. Eftir hálftíma göngu er komið að honum og um 200 metra brött hækkun tekur við. Eftir það er létt hækkun að Landmælingavörðu á hæsta punkti.
Þegar á toppinn var komið var skollið á mikið óveður, úrkoma og rok úr austri, því var snúið strax til baka og leitað að skjóli fyrir nestispásu. Það munaði mikið á 50 metra lækkun en veðrið lagaðist mikið þegar neðar dró.
Útsýni á góðum degi er gott yfir Ölfusið og hraunin í kring. Bláfjöll, Heiðin há í vestri. Laskað Lambafell eftir malarnám, Meitlarnir tveir, Litla-Sandfell, Ingólfsfjall, Skálafell, Krossfjöll og Hekla. Þorlákshöfn sást í þokumóðunni og var draugaleg að sjá. Ölfusá og Flói voru áberandi í landslaginu.
Hægt er að halda áfram í suður niður af fjallinu og lengist gangan þá í 12-13 km. Einnig er hægt að ganga hringinn í kringum Geitafellið og tekur sú ganga um 4 klst. og er 11,5 km löng.
Þegar göngu var lokið við Litla-Sandfell sáum við mikið af forhlöðum, plasthylkjum frá haglskotum en greinilegt að þarna er skotsvæði Ölfusinga. Mikil sjónmengun og vont að sjá. Plastmengun í plastlausum september var áfall og skemmdi upplifunina. Bæjaryfirvöld í Ölfusi eiga að hreinsa svæðið fyrir fyrsta snjó vetrarins.
Geitafell í Ölfusi klætt fallegri mosakápu. Ganga þarf um 2 km yfir grasi gróna velli að rótum fellsins.
Dagsetning: 15. september 2018
Hæð: 509 metrar
Hæð í göngubyrjun: 225 metrar við Litla-Sandfell (N:63.57.368 - W:21.28.243)
Vegamót: 247 m við Geitafell (N:63.57.368 W:21.30.516)
Geitafell (509 m): Landmælingavarða (N:63.56.365 - W:21.31.516)
Hækkun: 284 metrar
Uppgöngutími Geitafell: 100 mín (08:40 - 10:20) 4,0 km
Heildargöngutími: 200 mínútur (08:40 - 12:00)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 8,8 km
Veður kl. 10.00 - Hellsheið: Alskýjað, A 6 m/s, 4,0 °C, raki 94%
Þátttakendur: Fjallkonur 5 þátttakendur, 2 hundar.
GSM samband: Já
Gestabók: Nei
Gönguleiðalýsing: Ganga í mosavöxnu landslagi. Auðvelt uppgöngu og hentar vel fyrir byrjendur í fjallamennsku.
Heimildir
Íslensk fjöll. Gönguleiðir á 151 tind.
Kortabók Ísland
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.8.2018 | 12:37
Arcade Fire og Ísbúð Vesturbæjar
Það voru stórmagnaðir og orkumiklir tónleikar hjá kanadísku indí rokkbandinu Arcade Fire í Nýju Laugardalshöllinni á þriðjudagskvöldið. Um 4.300 gestir mættu og upplifðu kraftinn á AB-svæði. Stórmerkilegt að ekki skyldi vera uppselt en þarna eru tónlistarmenn í þungavigt á ferð.
Mikil umræða hefur verið um sölu og svæðaskiptingu á tónleikunum en ég var einn af þeim rúmlega fjögur þúsund manns sem keypti miða í A-svæði. Því kom það mér á óvart þegar gengið var inn í salinn að enginn svæðaskipting var. Ég var ekki að svekkja mig á því að hafa ekki keypt B-miða. Hugsaði til ferðalaga í flugvélum eða strætó, þar ferðast menn á misjöfnum gjöldum en sitja svo saman í einni kös. Ég skil vel ákvörðunartöku tónleikahaldara um AB-svæði, sérstaklega ef þetta hafa verið 79 miðar.
Ég kynntist Arcade Fire góðærisárið 2007 en þá gaf sveitin út diskinn Neon Bible og var það eini diskurinn sem ég keypti það árið. Var hann víða talinn einn besti gripur ársins af álistgjöfum í tónlist. Ég get tekið undir það og hlustaði mikið á hann í iPod-inum mínum. Síðan hef ég lítið fylgst með sveitinni og missti af þrem síðustu plötum sveitarinnar, The Suburbs, Reflektor og Everyting Now.
Sviðsframkoman var stórbrotin og fagmannleg. Fyrst hittust meðlimir á réttum tíma fyrir framan sviðið, tóku hópknús eins og íþróttalið gera og fóru í gegnum áhorfendaskarann og gáfu fimmur. Margir símar sáust á lofti. Síðan hófst tónlistarveislan með titillaginu Everything Now. Lagið er undir ABBA-áhrifum í byrjun, það fór rólega af stað en svo bættust öll möguleg hljóðfæri sem leikið var á af gleði og innlifun og krafturinn varð hrikalegur. Tónninn var sleginn!
Söngvarinn stæðilegi og stofnandi sveitarinnar Win Butler fór fyrir liðinu og steig á stokk í rauðu skónum sínum og reif gítar hátt á loft. Ekki ósvipað og kyndilberi á Ólympíuleikum sem er að fara að tendra eldinn. Bróðir hans William Butler fór hamförum á sviðinu og var gaman að fylgjast með honum. Hann hoppaði á milli hljóðfæra, spilaði á hljómborð, barði á trommu og spilaði á gítar og stóð upp á hljómborðum. Hann ferðaðist kófsveittur um sviðið eins og api en kom ávallt inn á réttum stöðum. Magnað.
Alls voru níu liðsmenn Arcade Fire á sviðinu sem þakið var hljóðfærum. Mörg hljómborð og hljóðgervlar voru og tvö trommusett. Skiptust þeir reglulega á að spila á hljóðfæri af innlifun og minntu mig á Ljótu hálfvitana frá Húsavík.
Krafturinn og hljómurinn var mikill í byrjun og fjögur fyrstu lögin spiluð í einum rykk á háu tempói. Aðdáendur tóku vel við enda þekktir slagarar. Svo kom þakkarræðan um Ísland og hrósaði hann Björk mikið. Hún hafði mikil áhrif á bandið.
Sviðið og ljósin komu vel út í Höllinni og mynduðu stórbrotna umgjörð um tónleikana og gaman að bera saman þegar vinalega upphitunarhljómsveitin Kiriyama Family spilaði raftónlist fyrr um kvöldið. En þá voru ljós og myndræn framsetning ekki notuð. Tónleikagestir voru hrifnir og dönsuðu, sungu og klöppuðu taktfast í hitanum og svitanum.
Ég komst að því að vera illa lesin því síðari hluti tónleikanna var með nýjum lögum og þekkti ég þau ekki en fólkið í salnum tók vel undir. Ég hef síðustu daga verið að hlusta á lög af skífunni Everyting Now og líkar þau betur og betur. Margar laglínur hljóma nú fallega í hausnum á mér. Einna helst hefur enduruppgötvun mín á lögum Electric Blue og Sprawl II (Mountains Beyond Mountains) sem Régine Chassagne söng vaxið mjög en ég tengdi ekki við þau þegar hún flutti þau á sviðinu. Eina lagið sem ég saknaði var Intervention.
Þetta var skemmtilegt kvöld og gaf manni mikinn eldmóð fyrir veturinn.
Daginn eftir tónleikana átti ég leið í Ísbúð Vesturbæjar í Vesturbænum og var þá ekki stórsöngvarinn í Arcade Fire, Win Butler staddur þar og að kaupa sér bragðaref. Hann var klæddur í gallajakka merktum NOW-tónleikaferðinni. Það var töluverður fjöldi krakka að versla sér ís og létu þau hinn heimsfræga tónlistarmann algjörlega í friði. Kurteist fólk, Íslendingar. Líklegast er að þau hafi ekki vitað af því hver þetta var en landi hans Justin Bieber hefði ekki fengið að vera í friði. Svona er kynslóðabilið í tónlistinni.
![]() |
Enginn gestur leið fyrir ákvörðunina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 13:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.11.2017 | 14:51
Grábrók (170 m) 2017
Það var gaman að ganga upp á Grábrók í sumar og hafa einstakt útsýni yfir Borgarfjarðarhérað og Norðurárdalinn. Sjá Baulu í öllu sínu veldi, Hraunsnefsöxl, Hreðavatn, Bifröst og Norðurá. Það sem vakti mesta athygli er göngustigar sem stýrir umferð um viðkvæmt fjallið eða fellið.
Mér finnst vel hafa tekist til með gerð göngustigana og merkinga til að stýra umferð gangandi og auka öryggi, en svona inngrip er umdeilt en eitthvað þarf að gera til að vernda óvenjulega viðkvæmt svæði þar sem hraun og mosi er undir fótum.
Grábrók er einn af þremur gígum í stuttri gígaröð. Þeir heita Grábrók (Stóra Grábrók), Smábrók (litla Grábrók) og Grábrókarfell (Rauðabrók). Úr þeim rann Grábrókarhraun fyrir 3.200 árum og myndaði meðal annars umgjörð Hreðavatns. Efni í vegi var tekið úr Smábrók á sjötta áratugnum og tókst að stoppa þá eyðileggingu.
Daginn eftir var gengin hringur sem Grábrókarhraun skóp, gengið frá Glanna, niður í Paradísarlaut og meðfram Norðurá og kíkt á þetta laxveiðistaði. Það var mikil sól og vont að gleyma sólarvörninni. Mæli með bók eftir Reyni Ingibjartsson, 25 gönguleiðir í Borgarfirði og Dölum fyrir stuttar upplifunarferðir.
Hæð: Um 170 metrar
Hæð í göngubyrjun: Um 100 m (N:64° 46' 17.614" W:21° 32' 23.370")
Hækkun: 70 metrar
Heildargöngutími: 30 mínútur (20:00 - 20:30)
Erfiðleikastig: 1 skór
Þátttakendur: Fjölskylduferð, 6 manns
GSM samband: Já
Gestabók: Nei
Gönguleiðalýsing: Létt ganga mest upp eða niður göngustiga
Hér sér ofan í gíginn í Grábrók sem gaus fyrir 3.200 árum. Manngerðir göngustigar sem minnka álag og falla ágætlega að umhverfinu liggja upp og niður fjallið.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
14.10.2017 | 15:43
Hvalárvirkjun - eitthvað annað
Takk, takk Tómas, Ólafur og Dagný fyrir að opna Ísland fyrir okkur á #LifiNatturan. Alltaf kemur Ísland mér á óvart. Stórbrotnar myndir sem sýna ósnortið víðerni sem á eftir að nýtast komandi kynslóðum. Við megum ekki ræna þau tækifærinu.
En hvað skyldu Hvalárvirkjun og hvalaskoðun eiga sameiginlegt?
Mér kemur í hug tímamótamyndir sem ég tók í fyrstu skipulögðu hvalaskoðunarferðunum með Jöklaferðum árið 1993. Þá fóru 150 manns í hvalaskoðunarferðir frá Höfn í Hornafirði. Á síðasta ári fóru 354.000 manns í hvalaskoðunarferðir. Engan óraði fyrir að þessi grein ætti eftir að vaxa svona hratt. Hvalaskoðun er ein styrkasta stoðin í ferðaþjónustunni sem heldur hagsæld uppi í dag á Íslandi. Hvalaskoðun fellur undir hugtakið "eitthvað annað" í atvinnusköpun í stað mengandi stóriðu og þungaiðnaði.
Vestfirðingar geta nýtt þetta ósnortna svæði með tignarlegum fossum í Hvalá og Rjúkanda til að sýna ferðamönnum og er nauðsynlegt að finna þolmörk svæðisins. Umhverfisvæn og sjálfbær ferðaþjónusta getur vaxið þarna rétt eins og hvalaskoðun. Fari fossarnir í ginið á stóriðjunni, þá rænum við komandi kynslóðum arðbæru tækifæri. Það megum við ekki gera fyrir skammtímagróða vatnsgreifa.
Ég ferðaðist um Vestfirði í sumar. Dvaldi í nokkra daga á Barðaströnd og gekk Sandsheiði, heimsótti Lónfell hvar Ísland fékk nafn, Hafnarmúla, Látrabjarg og Siglunes. Það var fámennt á fjöllum og Vestfirðingar eiga mikið inni. Þeir verða einnig að hafa meiri trú á sér og fjórðungnum. Hann býður upp á svo margt "eitthvað annað".
Við viljum unaðsstundir í stað kílóvattstunda.
Fyrstu myndir sem teknar voru í hvalaskoðun á Íslandi 1993 og birtust í fjölmiðlum. Þá fóru um 150 manns í skipulagðar hvalaskoðunarferðir. Í dag fara 354.000 manns á ári. Það er eitthvað annað.
![]() |
Marga þyrstir í heiðarvötnin blá |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 20:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.10.2017 | 12:54
Siglunes á Barðaströnd
Frá Siglunesi var róið um aldir og sagt er: Sá sem frá Siglunesi rær landi nær.
Siglunes er úrvörður Barðastrandar til vesturs og lífhöfn sjófarenda en útvörður í austri er Vatnsfjörður.
Siglunes liggur yst á Barðaströnd við opinn Breiðafjörðinn og andspænis Snæfellsnesi krýndu samnefndum jökli.
Siglunesið býður upp á fjöruferð, ferð upp til fossa og að fjárrétt undir sjávarbökkum. Siglunesá rennur niður fjallið og gengum við upp með ánni og geymir hún fjóra fossa Hæstafoss, Undirgöngufoss, Háafoss og Hundafoss. Útsýni mjög gott yfir hluta Barðastrandarinnar.
Síðan var farið út á Ytranes og svæði þar sem verbúðir voru um aldir. Við sáum fimm seli og nokkur úrgang, mest frá nútíma útgerð. Dásamlegt að ganga berfættur í gylltum heitum sandinum til baka með stórkostlegt útsýni út og yfir Breiðafjörð á jökulinn sem logar.
Þegar komið var aftur að Siglunesi var komið að Naustum, bær Erlendar Marteinssonar. Austurhliðin hefur látið á sjá en er inn var komið þá sást eldavél. Ekki gerðu menn miklar kröfur til þæginda. Bærinn var byggður 1936 og bjó Erlendur til ársins 1962. Innviðin í bæinn komu úr kaupfélaginu í Flatey - það leiddi okkur á aðrar slóðir og þær hvernig alfaraleiðir lágu um Breiðafjörðinn. Þetta er hrein endalaus uppspretta heillandi sögu og ummerkja um það hvernig fólkið okkar komst af hér á öldum áður.
Að endingu var komið við að gestabók og minnisvarða um síðust hjónin sem bjuggu að Siglunesi.
Að Naustum, bær Erlendar Marteinssonar, austurhliðin hefur látið á sjá. Erlendur bjó þarna til ársins 1962.
Dagsetning: 31. júlí 2017
Gestabók: Já
Heimild:
Barðastrandarhreppur göngubók, Elva Björg Einarsdóttir, 2016
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.9.2017 | 14:37
Hólárjökull 2017
Jöklarannsóknir mínar halda áfram. Ávallt þegar ég keyri framhjá Hólárjökli sem var einn af tignarlegum skriðjöklum úr Öræfajökli, þá smelli ég ljósmynd af honum. Hólárjökull er rétt austan við Hnappavelli. Hólá kemur frá honum.
Efri samsetta myndin var tekin 5. ágúst 2016 í súld og 13. ágúst 2017 í fallegu veðri. Tungan hefur aðeins styst á milli ára. Neðri myndin er samsett og sú til vinstri tekin 16. júlí 2006 en hin þann 5. ágúst 2015. Það sést glöggt að jökultungan hefur styst og jökullin þynnst, nánast horfið. Rýrnun jöklanna er ein afleiðingin af hlýnun jarðar.
Árið 2006 voru íslenskir jöklar útnefndir meðal sjö nýrra undra veraldar af sérfræðingadómstól þáttarins Good Morning America á bandarísku sjónvarpsstöðinni ABC. Íslensku jöklarnir urðu fyrir valinu vegna samspils síns við eldfjöllin sem leynast undir íshellunni.
Jöklarnir vita svo margt. Við erum að tapa þeim með ósjálfbærri hegðun okkar.
En hvað getur almenningur best gert til að minnka sótsporið? Í rannsókn hjá IPO fyrr á árinu kom fram: Til þess að hafa raunveruleg áhrif á loftslagsbreytingar þarf komandi kynslóð að taka upp bíllausan lífsstíl, eignast færri börn, draga úr flugferðum og leggja meiri áherslu mataræði sem byggir á grænmeti. Sá sem neytir fyrst og fremst grænmetisfæðis leggur fjórum sinnum meira af mörkum til minnkunar losunar en sá sem aðeins flokkar og endurvinnur rusl. Þetta eru þær aðferðir sem skila mestu, bæði þegar horft er til losunar og áhrifa á stefnumörkun.
Loftslagsbreytingar eru staðreynd og hitastig breytist með fordæmalausum hraða. Við þurfum að hafa miklar áhyggjur, jöklarnir bráðna og sjávarstaða hækkar með hækkandi hita og höfin súrna.
Fyrirtæki og almenningur þarf úr útblæstri jarðefnaeldsneytis og á meðan breytingarnar ganga yfir, þá þarf að kolefnisjafna. Annað hvort með gróðursetningu trjáa eða endurheimt votlendis.Einnig þarf að þróa nýja tækni.
Jökulsporðurinn er nær horfinn. En hann hefur í fyrndinni náð að ryðja upp jökulruðningi og mynda garð.
Sjá:
Hólárjökull 2007 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/259538/
Hólárjökull 2008 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/611572/
Hólárjökull 2009 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/911196/
Hólárjökull 2011 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1192311/
Hólárjökull 2012 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1253486/
Hólárjökull 2015 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1920380/
Hólárjökull 2016 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/2177752/?t=1470576153
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.9.2017 | 17:23
Hafnarmúli (um 300 m)
Hafnarmúli er snarbrattur með flughömrum milli Mosdals og Örlygshafnar í Patreksfirði gengt þorpinu.
Neðan við veg númer 612 er hægt að leggja bílum og hefja göngu inn Mosdal, upp hálsinn og ganga eftir toppnum að vörðu á fremsta hluta Hafnarmúla. Gangan upp tekur einn knattspyrnuleik og það borgar sig ekki að reyna að stytta sér leið upp fjallshlíðina, heldur fylgja slóða upp hálsinn að vörðu fremst á fjallinu.
Á leiðinni er tilvalið að stoppa við Garðar BA64, elsta stálbát Íslendinga í fjörunni í Skápadal og koma við í Sauðlauksdal. Eftir gönguferð er sniðugt að koma við á Minjasafni Egils Ólafssonar að Hnjóti.
Magdalena Thoroddsen lýsir svo bjarginu:
Flestum gæðum foldar rúinn
fjalladjásn með klettaskörð.
Hafnarmúlinn hömrum búinn
heldur vörð um Patreksfjörð.
Útsýni af Hafnarmúla er stórgott yfir Patreksfjörð. Þorpið með bæjarfjallið Brellur á ská á móti. Núpurinn Tálkni beint á móti með ekta vestfirska fjallabyggingu. Dýrðin er að horfa niður í Örlygshöfn, sjá litadýrðina í vaðlinum, gyllta sanda, græn tún, grænan sjó og blátt haf. Ógleymanlegt.
Hafnarmúli er helst þekktur fyrir hörmulegt sjóslys. Í ofviðri 1. desember 1948, fórst enski togarinn Sargon undir Hafnarmúla í Patreksfirði og fórust með honum 11 manns en 6 tókst að bjarga.
Í Lýsing Íslands eftir Þorvald Thoroddsen segir um Hafnarmúla: "austan við vaðalinn í Örlygshöfn er Hafnarmúli, snarbrattur og hvass að ofan einsog saumhögg," Ekki skil ég alveg hvað Þorvaldur á við með lýsingunni "að ofan eins og saumhögg" en að ofan er fjallið jafnslétt og mosagróið þó laust grjót sé en saumhögg er hvass þrístrendur hryggur.
Eftir göngu á Hafnarmúla var farið í sund í Barmahlíð á Patreksfirði. Úr heitu pottinum sér göngumaður að múlinn sker sig aðeins úr fjallasalnum með gylltar fjörur sunnan fjarðar.
Varða nálægt fremsta hluta Hafnarmúla, á móti er hinn bratti núpur Tálkni, hann skilur Patreksfjörð frá Tálknafirði. Selárdalshlíðar sjást handan Tálkna.
Dagsetning: 2. ágúst 2017 Yfirdráttardagurinn
Hæð: Um 300 metrar
Hæð í göngubyrjun: 12 metrar við bílastæði við Mosá
Hafnarmúli varða (282 m): (N:65.34.862 - W:24.05.474)
Hækkun: 270 metrar
Uppgöngutími Hafnarmúli: 100 mín (09:50 - 11:30) 4,2 km
Heildargöngutími: 190 mínútur (09:50 - 13:00)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 8,4 km
Veður kl. 12.00: Skýjað, S 1 m/s, 11°C
Þátttakendur: Villiendurnar, 8 þátttakendur
GSM samband: Já
Gestabók: Nei
Gönguleiðalýsing: Vel sýnileg leið með stórgrýti í uppgöngu. Mosavaxið að ofan.
Heimild:
Lýsing Íslands: Þorvaldur Thoroddsen
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 17:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.8.): 5
- Sl. sólarhring: 21
- Sl. viku: 113
- Frá upphafi: 237953
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 80
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar