Færsluflokkur: Samgöngur
17.8.2024 | 21:47
Sandeyjargöng í Færeyjum - Með lengstu neðansjávargöngum í heimi
Ef það er eitthvað sem Færeyingar eiga mikið af, þá eru það jarðgöng.
Jarðgöng í Færeyjum eru eins og æðar sem tengja hjarta eyjanna saman, hvort sem þau skera sig í gegnum fjallasali eða teygja sig undir djúpan sjó. Þessi göng, bæði í fjöllum og neðansjávar, skapa ósýnilega tengingu milli staða sem áður voru aðeins aðgengilegir með ferjum. Þar mætast fortíð og nútíð, þar sem samgöngur breyta einangrun í tengsl og sameina samfélög með öruggum leiðum í gegnum grjót.
Þann 21. desember sl. voru ný 11 km neðansjávargöng milli Straumeyjar og Sandeyjar vígð og einangrun eyjunnar rofin.
Sandeyjargöngin eru fjármögnuð með blöndu af opinberu fjármagni og veggjöldum og kostuðu um 15 milljarða. Norska byggingarfyrirtækið NCC sá um byggingu gangnanna en fyrirtækið er eitt af stærstu byggingarfyrirtækjum Noregs og hefur mikla reynslu í jarðgangagerð, bæði í Noregi og á alþjóðavísu og hefur aðstoðað Færeyinga við að innleiða háþróaða tækni og þekkingu í þessum verkefnum.
Stefnan er að halda áfram með jarðgöng til Suðureyjar frá Sandey, 23 km að lengd með viðkomu í Skúfey.
Getum við Íslendingar lært eitthvað af Færeyingum í jarðgangnamálum?
Því var tilvalið að heimsækja Sandey, sem er ein af 18 eyjum Færeyja með 1.300 íbúa og sú fimmta stærsta í eyjaklasanum. Villiendur leigðu sér litla rútu og innfæddan leiðsögumann frá Heimdal Tours sem sagði okkur allt sem hann vissi um föðurland sitt.
Það var spennandi að fara niður í björt Sandeyjargöng með listaverk, óður til Víkinga á veggjum en það var mikill raki í rútunni þegar við komum upp úr 155 metra djúpu göngunum. Ein ferð fyrir fólksbíl kostar 175 DKK eða 3.500 krónur.
Eyjan er flöt og hentar því vel til landbúnaðar enda góð gras og kartöfluspretta í frjósömum jarðvegssandinum. Hugmyndir hafa verið um að gera nýjan alþjóðlegan flugvöll á eyjunni. Einnig er útgerð, vaxandi ferðaþjónusta og fjölskrúðugt fuglalíf.
Fornleifagröftur sýnir að byggð hófst 300 til 400 eftir Krist. Víkingar voru því ekki fyrstir og sagan segir að þegar þeir komu sem var á svipuðum tíma og Ísland var numið, þá hafi verið kindur frjálsar í fjöllum og nafnið, Fjáreyjar eða Færeyjar dregið af því.
Við keyrðum um flata eyjuna með sendnum ströndum og heimsóttum lítil þorp: Sandur, Húsavík, Skálavík, Dalur og Sköpun. Það voru fáir á ferli og lítið líf enda Ólafsvaka haldin daginn áður og allir í Þórshöfn.
Ný hús voru að spretta upp og byggðin að eflast og má eflaust skrifa það á nýju göngin en margir íbúar vinna í Þórshöfn. En í sumum eyjum vilja íbúar lifa í gamla tímanum og ekkert spenntir fyrir jarðgöngum.
Gönguhópurinn gekk í gengum þorpið Skálavík og heyrði um helstu hetjur bæjarins en eitt vakti sérstaka undrun hjá okkur en það var lamadýr á beit. Það mun hafa komið í frá Danmörku. Það komu fleiri dýr í sendingunni en þetta er eina sem er eftir. Þeir eru ekki eins harðir í sóttvörnum Færeyingar.
Nesti var boðað í litla þorpinu Dalur sem er sjarmerandi og telur 33 íbúa en þangað lá einbreiður vegur með útskotum í hamrahlíð. Þar var verið að byggja 2,2 km jarðgöng, Dalsgöng, sem eiga að klárast í ár. En ein skýring á þessum framkvæmdum er að frá Dal verði farið í neðansjávargöngum til Suðureyjar.
Í Sköpun, þorpinu með áhugaverða nafnið er blár póstkassi, sá stærsti í heimi en skapandi íbúar sáu tækifæri á að koma sér í Heimsmetabók Guiness.
Skóli og knattspyrnuvöllur er miðsvæðis og heitir knattspyrnufélag eyjarinnar B71 Sandoy og spilar í B-deild.
Að lokum endaði gönguhópurinn Villiendurnar á því að ganga frá Gróthúsvatni vestur í Saltvíkur en þetta var besti göngustígur sem ég hef gengið á.
Í Saltvík er minnisvaði um gufuskipið S/S Principia kom frá Skotlandi 1895 og beið örlaga sinna í stormi á grýttri Saltvíkurströndinni. Einn skipverji lifði af en 28 lentu í greipum Ægis.
Áhugavert að sjá hvar úrgangi var sturtað beint í sjóinn en það er bannað í dag. Færeyingum hefur farið fram og slagarinn, lengi tekur sjórinn við á ekki lengur við.
Víkin við Gróthúsvatn. Þarna sér í Skúvoy, Stóra- og Litla Dímon og Suðurey syðst.
Dagsetning: 31. júlí 2024
Göngutími: 1 klukkustund
Vegalengd: 4,3 km
Göngubyrjun: Við Grjóthúsvatn
Erfiðleikastig: 1 skór
Veður: Hálfskýjað, 13 stiga hiti og 10 m/s vindur frá SA.
Þátttakendur: Villiendur, 12 göngumenn og farastjóri
Gönguleiðalýsing: Létt ganga á jafnsléttu frá Grjóthúsvatni til Saltvíkur á bundnu slitlagi
10.8.2024 | 22:22
Klakkur (413 m.) í Færeyjum
Dagsetning: 4. ágúst 2024
Klakkur: 413 m
Göngubyrjun: Við bílastæði á Ástarbrautinni
Erfiðleikastig: 2 skór
Veður: Skýjað og úrkoma í grennd, 12 stiga hiti og 8 m/s vindur frá vestri. Raki 95%.
GSM samband: Já
Gönguleiðalýsing: Létt og þægileg ganga á stórbrotið útsýnisfjall en þoka byrgði sýn. Fyrst gengið eftir vegarslóða og síðan gróið land, fyrst með stíg en siðan slóð að toppi.
5.8.2024 | 10:12
Bensínkvíði
Er staddur í Færeyjum í sumarfríi og markmiðið er að ganga á sem flest fjöll í ægifagri náttúru 18 eyja er mynda Færeyjar.
Til að komast á milli fjallstinda, en 340 fjöll eru hærri en 100 metrar að hæð, þá var leigður bíll. Leitin beindist að vistvænum bíl en það fannst enginn. Þeir geta gert betur Færeyingarnir í sjálfbærni.
Því varð jarðefnabíll fyrir valinu og þá helltist yfir mann jarðefnakvíði. Að þurfa að fylla á tankinn en því fylgir ekki góð tilfinning í hamfaraástandi.
Einnig spurning um hvort bíllinn gengi fyrir bensíni eða dísel en það var sem betur fer vel merkt þegar lokið var opnað. Bensín stóð þar á grænum miða.
Bensínkvíði og loftslagsógn eru tvær hliðar á sama peningi, þar sem báðar tilfinningar stafa af þörfinni fyrir að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis
Í gær rann svo upp dæludagurinn og var það mikil áskorun að dæla á leigubílinn, 95 oktana E10 bensíni, því ekki var boðið upp á þjónustu á bensínstöðinni. Það tókst að dæla á bílinn en leiðbeiningar voru góðar.
Þegar heimabankinn var skoðaður í morgun, þá helltist aftur yfir mig bensínkvíði. Upphæðin var tvöföld. Þetta er grimmur jarðefnaheimur sem við lifum í.
Hér er gengið niður í Hvannhaga á Suðurey. Litli Dímon blasir við í allri sinni dýrð.
16.11.2023 | 11:32
Afrekssund gæðingsins Laufa
Þegar ég las fréttina um að hestur hafi slitið sig lausan í flugvél Air Atlanta þá rifjaðist upp fyrir mér svipað atvik um lausan hest en það gerðist ekki í háloftunum. Páll Imsland jarðfræðingur ritaði grein í tímaritið Skaftfelling um Ævintýraferð í Lónsöræfin 1990 á hestum.
"Afrek Laufa fólst í því að hann sleit sig lausan á skipsdekki utan við Hornafjarðarós fyrir einum sextíu árum og stökk fyrir borð og synt af hafi upp á Þinganessker, þaðan upp á Austurfjörur og þaðan upp í Lambhelli og svo þaðan upp í Ósland og loks upp í Hafnarvíkina án þess að hafa óþarfar viðstöður á þurrlendinu. Alls mun hann hafa synt um 1700 til 1800 metra og alla sprettina í sjó, öldum og straumi. Laufi átti þá heima á Fiskhól á Höfn en var ættaður frá Uppsölum í Suðursveit frá Gísla Bjarnasyni. Laufi var ekki bara sundkappi heldur líka viljugur alhliða gæðingur. Það var ekki til einskis að Gísli kenndi Laufa sundið, en það gerði hann með því að ríða út á Hestgerðislónð með móður Laufa í taumi þegar hann gekk undir henni folald og fylgdi hann móður sinn vel eftir."
Kjartan Kristinn Halldórsson (1896-1956) átti hestinn Laufa og bjó á Sólstöðum, Fiskhól 5. Þetta sundafrek hefur átt sé stað um 1930 eða fyrir tæpri öld.
Flugvél Air Atlanta snúið við eftir að hestur losnaði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.9.2023 | 08:58
Topphóll séður með augum sjálfbærni
Steinarnir tala
Í síðasta mánuði var mikil fjölmiðlaumræða um álfakirkjuna í Topphól í Hornafirði. Ekki virðist vera hægt að bjarga stuðlabergshólnum því nýr vegur mun liggja yfir hólinn og verður hann sprengdur í loft upp.
Bæjarstjórn Hornafjarðar harmar ákvörðum Vegagerðarinnar enda hefur hann mikið tilfinningalegt gildi fyrir marga Hornfirðinga og ferðamenn. Trú á álfa, huldufólk og tröll hefur verið hluti af sjálfsmynd Íslendinga.
Vegagerðin segir að ekki sé hægt að hnika veginum, ábendingin hafi komið of seint, því fylgi aukinn kostnaður og verkið tefjist. Ferlið við vegalagninguna hefur tekið fimmtán ár og einhver hefur sofnað á verðinum.
Völvan Ísvöld Ljósbera nær kjarnanum í umræðunni en hún mótmælti aðförinni: Álfatrú er hluti af okkar þjóðarhjarta. Hún er dýrmæt og komandi kynslóðir eiga skilið að fá að upplifa hana líka.
Hvað ætla hornfirskir leiðsögumenn að sýna ferðamönnum eftir hundrað ár þegar jökullinn verður nær horfinn, íshellarnir og Topphóll? Álfasögunar horfnar og tengslin við landið.
Þá verða sagðar sögur af sprengdum álfaborgum rétt eins og Úkraínskir leiðsögumenn munu segja um borgirnar Bakhmut og Mariupol. Pútin er víða.
Tröllið Þorlákur
Þegar umræðan um Topphól var í hámarki, var ég staddur í sumarbústaðalandi í Hraunborgum, Álfasteinssundi í Grímsnesi og þar er steinn, Þorlákur heitir hann eftir tröllkarli sem varð að steini þegar sólin kom upp. Vegagerðarmenn fundu sniðuga lausn, lögðu veg er beggja vegna Þorláks og virðist hann vera nokkuð sáttur og sagan lifir. Hornfirðingar höfðu gæfu að bjarga vatnstanknum á Fiskhól frá niðurrifi á síðustu öld og er hann orðinn tákn fyrir staðinn. Ekki er hægt að bjarga Topphól með þessari sniðugu lausn.
Hér var ekki sprengt með dínamíti í Álfasteinssundi, heldur fundin lausn. Allir sáttir, ferðamenn, álfar, tröll, leiðsögumenn, framkvæmdaraðilar og aðrir hagaðilar. Virðing er lykilorðið!
Sjálfbærni
Sjálfbærni og sjálfbær þróun eru lykilhugtök fyrir framtíð Jarðar og velsæld okkar og komandi kynslóða. Sjálfbær þróun hefur verið skilgreind sem þróun sem mætir þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til þess að mæta sínum þörfum. Hugtakið byggir á þrem stoðum, náttúru og umhverfi og hinar stoðirnar eru efnahagslíf og samfélagslegir þættir s.s. jafnrétti, heilsa, velferð og menning. Þessar þrjár stoðir tengjast innbyrðis og spila saman.
Þegar Topphóll er skoðaður með augum sjálfbærni, þá erum við, freka kynslóðin búin að stroka Topphól út af hinu rómaða Skaftfellska landslagi og skemma allar álfasögurnar sem hefðu fylgt fyrir næstu kynslóðir. Peningarnir hafa trompað umhverfið og samfélagið, þeir ráða því miður oftast ferðinni.
En til að bæta okkur í sjálfbærni, þá skora ég á bekkjarbróður minn, hugvitsmanninn Einar Björn Einarsson sem rekur Jökulsárlón ehf með myndarbrag að taka stórt skref í orkuskiptum. Skipta út jarðefnaeldsneyti á bátaflotanum á Lóninu sem fyrst en Einar veit hvað er best, allt gangverk lifnar við í höndunum á honum. Vetni, metan, metanól, rafmagn, repjuolía, ammóníak, lífdísill eða etanól. Allt er þetta betra en mengandi olía sem er að steikja okkur.
Þegar stór aðili tekur stóra skrefið í sjálfbærni, þá sendir hann jákvæð skilaboð til allra í hinni mengandi ferðaþjónustu og verður góð fyrirmynd í umhverfismálum og fleiri fylgja á eftir.
Það að vera sjálfbær snýst því um að búa til félagsleg og efnahagsleg kerfi sem eru ekki skaðleg náttúrunni og tryggja þannig lífsgæði okkar og framtíðarkynslóða.
21.12.2022 | 17:23
Lærum snjóruðning af Týrolbúum - Brenner-skarð
Það fyrsta sem þarf að gera er að breyta lögum og leyfa Vegagerðinni og/eða Björgunarsveitum að fjarlægja yfirgefna bíla sem stoppa hreinsunarstarf. Það næsta er að læra af Týrolbúum.
Brenner-skarð - Brenner Pass "Bridge of Europe"
Ég átti leið um Brenner-skarð í júli og þegar ég áttaði mig á mannvirkinu, hraðbrautinni sem er 49,1 km brú þá fannst mér stærstu brúarmannvirki á Íslandi agnarsmá í samanburði. Brenner-skarð er fjallvegur milli Ítalíu og Austurríkis í Ölpunum í gegnum Norður og Suður Týrol.
Á einum stað var farið yfir lítið fjallaþorp í dal einum og tæpir 200 metrar niður. Þá fannst mér Brennerbrúin mikilfengleg. Þar er brúarhandriðið svo hátt uppi að sundlar alla fugla er á setjast.
Framkvæmdir hófust árið 1959 og lauk 1963. Lest gengur einnig yfir skarðið og mannvirkið þekkt fyrir að vera hátt upp án jarðgangna.
Það snjóar í 1.370 metrum. Snjóruðningur er vel þróaður og koma fjórir snjóplógar og taka alla brautina. Þegar þeir koma í næsta svæði, þá taka næstu við og svo koll af kolli.
Getum við eitthvað lært af Týrolbúum við snjóruðning á Reykjanesbraut og Hellisheiði?
Brúin var ekki hönnuð fyrir þungaflutninga sem eru í dag. Ef það verður óhapp og umferð stoppar, þá er löng röð af trukkum sem bíða á brúnni. Það er helsta ógnin í dag,
að brúin hrynji. Því er verið að leggja leið fyrir flutninga- og farþegalestir. Jarðgöngin verða 64 km. Brenner Base Tunnel (BBT) sem opna 2032.
Það þriðja: Þegar upplýsingar um Brenner-skarð eru skoðaðar þá er það fyrsta sem kemur er sektir ef bílar eru ekki á vetrardekkjum eða keðjum. Það eru allt of léttvægar sektir ef fólk er á sumardekkjum í snjóstormi hér á landi.
Þrír snjóplógar sem hreinsa hraðbrautina. Þeir skipta hraðbrautinni niður í hólf. Þannig að þessir sjá um hluta af leiðinni.
Hvernig ætlum við að bregðast við | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 17:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.12.2022 | 17:44
Kláfar á Íslandi
Hugmyndir um ferju á Esjuna lagðar fram á ný | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 19:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.7.2022 | 13:14
Sældarhyggja við Gardavatn
Hið ljúfa líf, la dolce vita, við Gardavatn hjá Villiöndunum, göngu og sælkeraklúbb fyrr í mánuðinum var endurnærandi í hitanum og gott til að upplifa sæluhyggjuna. Það er einhver galdur við orðið Garda og ferðafólk hrífst með.
Gardavatn og Meðalfellsvatn í Kjós eiga margt sameiginlegt. Þau eru bæði jökulsorfin og svo er fjölbreytt mannlíf á bökkum vatnanna.
Gardavatnið er stærsta vatn Ítalíu , um 370 km2 og í einungis 65 m hæð yfir sjávarmáli. Norðurhluti vatnsins teygir sig upp í Alpana. Vegna góðrar landfræðilegrar staðsetningar vatnsins og lítillar hæðar yfir sjávarmáli er loftslagið þar ákaflega hagstætt og minnir einna helst á miðjarðarhafsloftslag. Vatnið er notað sem áveita fyrir frjósamt ræktarland og er vatnsstaðan núna um metri lægri en í meðalári vegna þurrka.
Sirmione er tangi sem skagar út í Gardavatnið sunnanvert. Þar kemur heitt vatn úr jörðu og nutu Rómverjar lífsins í heitum pottum eins og Snorri Sturluson forðum. Söngdívan Maria Callas bjó þarna á sínum bestu árum.
Tveir dagar fóru í hjólaferð á rafhjólum sem var vel skipulögð af Eldhúsferðum. Hjólað var í gegnum vínekrurnar austan við Gardavatnið og eftir sveitastígum í gegnum lítil falleg sveitaþorp. Komið var við hjá vínframleiðendum og veitingamönnum með framleiðslu beint frá býli og töfruðu fram ítalskan sælkeramat. Sérstaklega gaman að hjóla um Bardolino vínræktarhéraðið með Corvina þrúguna á aðra hönd og Rondinella og Molinara þrúgurnar á hina. Kræklótt ólífutrén tóku sig líka vel út. Hjólaferðin endaði með sundsprett í heitu Gardavatni.
Við dvölum í smáþorpi sem heitir Garda en þar var varðstöð Rómverja fyrr á öldum. Lítið þorp með mikið af veitingastöðum á vatnsbakkanum þar sem við gátum notið þess að horfa á vatnið í kvöldsólinni og snæða ekta ítalskan mat og drekka gott rauðvín frá svæðinu.
Nokkrar Villiendur heimsóttu Mt. Baldo hæsta fjallið við Gardavatn. Tókum borgarlínu vatnsins en góðar samgöngur eru á vatninu með ferjum. Sigldum til bæjarins Malcesine en athygli vakti hve mikið af sumarhúsum var í kringum allt vatnið. Ferðuðumst með kláf upp í 1.730 metra hæð, einn Eyjafjallajökull á 17 mínútum. Það var ægifagurt landslag sem blasti við en mesta breytingin var að fara úr 32 gráðu hita í 22 gráður en í þeim hita leið mér vel.
Að lokum var sigling á sægrænu Gardavatni frá Sirmione. Það var gaman að sjá hvernig ferðamenn slökuðu á og upplifðu hið ljúfa líf sem Gardavatnið og bæirnir þar í kring færa manni, það er sem tíminn stöðvist um stund.
Mæli með ferð til Gardavatns en hitinn í byrjun júlí var full mikill fyrir minn smekk.
Kastalamynd frá stærstu eyju Gardavatns, Isola del Garda. Í eigu Conti Cavazza fjölskyldunnar frá Bologna Þar var fyrsta sítrónan ræktuð í Evrópu. Þar stofnaði Frans frá Assisí klaustur árið 1220.
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 13:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.12.2020 | 12:37
Grímannsfell (484 m)
Átakalítil fjallganga á bungumyndað, lúið fjall, skrifar Ari Trausti í bókinni Íslensk fjöll, gönguleiðir á 151 tind. Ísaldarjöklar hafa barið á fjallinu en það var ofsaveður er upp á fjallið var komið og spurning um hvort fjallið eða göngumaður var lúnari.
Um tilvist Grimmansfells er um það að segja að það ásamt öðrum fellum í nágrenninu leifar af hinu forna Esjufjalllendi sem ísaldarjöklar hafa ekki alveg náð að jafna út. Er það því nokkuð komið til ára sinna.
Rétt áður en komið er að hinum sögufræga Gljúfrasteini var beygt af leið, inn Helgadal. Þar er mikil hestamenning. Einnig skógrækt, refarækt og gróðurhús. Þá blasir hið umfangsmikla Grímannsfell við. Það eru til nokkrar útgáfur af nafninu, Grímannsfell, Grímarsfell, eða Grimmannsfell. Nafnið er fornt, eflaust hægt að færa rök fyrir því að það sé frá Landnámsöld.
Lagt var af stað úr Helgadal í Mosfellsbæ í myrkri með höfuðljós og legghlífar. Gengið upp vestan við Hádegisklett og þaðan upp brattar brekkur á Flatafell. Næst gengið í hring um Katlagil. Síðan var Hjálmur heimsóttur, en þar var rauð viðvörun og komið niður í Torfdal og endað í Helgadal. Það blés vel á toppum enda eykst vindur með hæð.
Líklegt hefur verið talið að nafnið Torfdalur sé til komið vegna torfristu og/eða mótekju fyrrum.
Þegar ofar dró í fellið, jókst vindur. Mikill vindstrengur blés frá austri og fagnaði maður hverju aukakílói. Við náðum hæðinn fljótt en hægt var að finna logn.
Gangan á Grímmannsfelli minnti mig mjög á göngu á Akrafjall. Veður var svipað og tvær fjallbungur sem klofna í tvennt fyrir miðju þar sem á rennur um gil sem endar í fögru gljúfri.
Útsýni er ágætt yfir Þingvallahringinn en mest ber á Mosfellsheiði og Borgarhólum sem fóðruðu heiðina af hrauni. Hengillinn er góður nágranni og Stóra Kóngsfell áberandi í Bláfjallaklasanum.
Eftir matarstopp með sýn yfir Mosfellsheiði var áhlaup gert á lágan klettabunka sem kallast Hjálmur í miklum vindi. Þegar á Hjálminn var komið blés vel á göngumenn og tók lítil varða á móti okkur. Fagnað var í stutta stund og lagt af stað eftir merktri leið niður Torfdal og gengið þaðan í Helgadal.
Fagnað Hjálmi á Grímmannsfelli í 35 m/s. Úlfarsfell og höfuðborgin í bak.
Dagsetning: 13. desember 2020
Stórhóll hæsti punktur: 484 metrar
Hæð í göngubyrjun: Við hestagerði Helgadal, 150 m (N:64.10.355- V:21.35.605)
Hækkun göngufólks: 300 metrar, uppsöfnuð hækkun: 462 m
Uppgöngutími: 140 mín (09:10 - 11:30)
Heildargöngutími: 250 mín (09:10 - 13:20)
Erfiðleikastig: 1 skór
Flatafell: 385 m (N:64.10.093 - V:21.33.260)
Hjálmur: 450 m (N:64.09.262 - V:21.33.599)
Vegalengd: 10 km
Veður-Bústaðavegur: 7 gráðu hiti, léttskýjað, kaldi 8 m/s af austan
Þátttakendur: Fjallkonur, 7 manns
GSM samband: Já
Gönguleiðalýsing: Létt og þægileg hringleið, stutt frá borginni sem minnir á Akrafjall með nokkrum möguleikum á útfærslu uppgöngu.
Facebook-staða: Dásamleg ferð í morgunmyrkrinu á Grímmannsfell. Þið eruð besta jólagjöfin.
Heimild:
Íslensk fjöll: Gönguleiðir á 151 tind eftir Ara Trausta og Pétur Þorleifsson
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 16:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.12.2020 | 15:44
Ásfjall (127 m) í Hafnarfirði
Sumir kalla Ásfjall lægsta fjall landsins en útsýnið leynir á sér. Ásfjall fyrir ofan Hafnarfjörð og er í raun vel gróin grágrýtishæð. Ástjörn er fyrir neðan og kemur nafnið af bænum Ási sem stóð undir fjallinu. Efst á fjallinu er vel hlaðin varða, Dagmálavarðan og var leiðarmerki á fiskimið. Útsýnisskífa er stutt frá vörðunni. Menjar eftir hersetu eru einnig á fjallinu.
Gangan hófst hjá Íþróttamiðstöð Hauka eftir göngustíg í kringum Ástjörn. Gengið var í norður. Síðan var stefnan tekin á mitt fjallið, varðan og hringsjáin heimsótt og stefnt suður Ásfjallsöxlina í Hádegisskarð og niður að Ástjörn. Léttari ganga er að stefna á norðuröxlina og ganga yfir fjallið lágvaxna. Nýtt hverfi er að rísa sunnan við fjallið og eina sem vantar er trjágróður.
Útsýni er gott yfir höfuðborgarsvæðið og ný hverfi sem eru að byggjast upp við fjallsræturnar, Skarðshlíð kallast það og dregur eflaust nafn af Hádegisskaði. Helgafell er áberandi í suðri sem og Húsfell. Einnig Bláfjöll. Fjöllin á Reykjanesi sjást og Keilir tignarlegur. Akrafjall og Esjan í norðri. Á góðum degi sést Snæfellsjökull.
Einföld og góð ganga sem býður upp á skemmtileg sjónarhorn yfir höfuðborgina.
Grágrýtishæðin Ásfjall í Hafnarfirði og ósar Ástjarnar við Íþróttamiðstöðvar Hauka.
Dagsetning: 28. nóvember 2020
Göngubyrjun: Íþróttamiðstöð Hauka
Ásfjall Hringskífa: 127 metrar (N: 64.03,1 V: 21.56,5)
Hækkun göngumanns: 120 metrar
Heildargöngutími: 60 mínútur (13:40 14:40)
Erfiðleikastig: 1 skór
Vegalengd: 3,8 km
Þátttakendur: Undirritaður
GSM samband: Já, 4G
Gestabók: Nei
Gönguleiðalýsing: Gengið eftir malbikuðum göngustíg kringum Ástjörn og farið af honum og stefnt á mitt fjallið og gengi í lyngi og mosa. Komið niður á göngustíginn á bakaleið.
Gönguslóðin
Gönguslóðin á Ásfjall. Dagmálavaraðan til norðurs og hverfið Skarðshlíð neðst á myndinni.
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (16.9.): 110
- Sl. sólarhring: 248
- Sl. viku: 361
- Frá upphafi: 232707
Annað
- Innlit í dag: 97
- Innlit sl. viku: 321
- Gestir í dag: 97
- IP-tölur í dag: 94
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar