Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Menga á daginn og grilla á kvöldin

COP28 loftslagsráðstefnan í Dubai hófst 30. nóvember 2023 og því er nauðsynlegt að skoða frammistöðu Íslenskra fyrirtækja sem losa meira en 20 þúsund tonn af CO2 á síðasta ári. En berjast þarf að krafti við að draga úr losun því hvert hitametið á fætur öðru hefur verið slegið á þessu ári. Haldi þessi þróun áfram mun hún hafa skelfi­legar afleið­ingar fyrir jarð­ar­búa, líf­ríki og vist­kerfi á jörð­inn­i.

Niðurstaðan úr loftslagsbókhaldi er sorgleg. Eins sést í töflunni þá sést að fyrirtækin juku losunina um 759 þúsund tonn CO2 eða 17%. Ef flugið er aðskilið þá er aukningin 4%. Þessi 22 fyrirtæki losa 4,4 milljón tonn CO2 og ábyrg fyrir 2/3 af losun Íslands fyrir utan landnotkun. Til að berjast gegn hlýnun jarðarinnar og ná markmiði að halda hlýnun jarðarinnar undir 1,5°C. og ná lögbundnum markmiðum Íslands 2030 þá þurfa fyrirtækin að draga losun saman um 8% árlega. Losun er losun sama úr hvaða losunarkerfi eða atvinnugeira hún kemur.

Sobril

Flugfélögin þrjú juku losun um tæp 600 þúsund tonn af CO2 eða eins og 300 þúsund nýir jarðefnabílar hafi bæst í bílaflotann. Allt stefnir í að þau losi enn meira á þessu ári.

Losun frá stóriðjunni jókst vegna aukinnar framleiðslu og ljóst að hún muni verða svipuð komandi ár.

Skipafélögin tvö losuðu um 600 þúsund tonn CO2 og ánægjulegt að heyra að þau ætli að taka sig á og hagræða í flutningum vegna losunarheimilda í stað þess að biðja um undanþágu.

Orkufyrirtækin þrjú bættu öll vel við sig vegna aukinnar framleiðslu. Ljóst er að losun mun aukast frá þeim með aukinni orkuframleiðslu.

Sjávarútvegsfyrirtækin bættu öll við sig og helsta ástæðan er að notuð voru 22 þúsund tonna af olíu til að bræða uppsjávarfisk en ekki var næg raforka í landi hinnar hreinu orku fyrir fiskimjölsverksmiðjurnar. Aukningin vegna bræðslunnar er eins og þrjú ár af rafbílavæðingu hafi verið þurrkuð út. Aukning hjá Síldarvinnslunni er vegna sameiningar við Vísi og 7,4 þúsund tonna af olíu til bræðslu sem losar 19 þúsund tonn CO2 eða ávinning af rafbílavæðingu í eitt ár!

Nú berast fréttir um orkuskerðingu frá Landsvirkjun og öfug orkuskipti framundan. Spurning er hvort gáfulegt sé að veiða loðnu beint til bræðslu þegar ástandið er svona.

Samherji er eina fyrirtækið á listanum sem ekki hefur gefið út sjálfbærniskýrslur og ekki viljað gefa losunartölur upp.

Gífurlegur hagnaður

Sjáið þið ekki veisluna? Hagnaður fyrirtækjanna fyrir skatta árið 2021 er gífurlegur eða 164 milljarðar. Beðið er eftir afkomutölum úr tímaritinu 300 stærstu en allt stefnir í að síðasta ár hafi gefið svipaða niðurstöðu. Þegar horft er á hlutina með augum sjálfbærni þá er mikið ójafnvægi á milli þriggja stoða, efnahags, samfélags og umhverfis en efnahagur trompar allt og fyrirtækin sýnt lítinn metnað í að bæta sig í umhverfismálum. Sorglegt að sjá að fyrirtækin fjárfesti ekki meira í grænum fjárfestingum, orkuskiptum, hringrásarhugsun, þekkingaröflun og nýsköpun í loftslagsmálum í góðærinu. Einnig hafa fyrirtækin verið dugleg að sækja um í opinberum sjóðum og keppa við fátæka námsmenn og nýsköpunarfyrirtæki. Það má því segja að fyrirtækin mengi á daginn og grilli á kvöldin!

Þegar fleiri þættir eru skoðaðir kemur í ljós að aðeins 1% af losuninni er bundið eða fangað en til að ná kolefnishlutleysi þarf losun og binding að vara jöfn. Landsvirkjun dregur hér vagninn.

Flest fyrirtækin eru með umhverfis- eða sjálfbærnistefnur og þar kemur fram að þau ætli að draga úr losun en þegar þessar rauðu tölur eru skoðaðar þá er eftirfylgni engin. Það er eins og stefnurnar séu til skrauts.

Losun í losunarsviði 3 (e. scope 3) er aðeins 2% hjá fyrirtækjunum en talið er að 88% losunar séu í virðiskeðjunni og ábyrgða fyrirtækjanna er mikil. Hellnasker hugveita hefur þegar kortlagt losun og niðurstaðan er að 9 milljón tonn af CO2 eru vantalin

Í gögnum frá Hagstofu Íslands kemur fram að 90% af losun kemur frá fyrirtækjum og 10% frá heimilum. En 60% af umhverfissköttum kemur frá heimilum og restin frá fyrirtækjum. Fyrirtækin losa en almenningur borgar brúsann. Þetta eru ekki réttlát umskipti.

Þegar þessi upptalning er skoðuð þá er eins og stjórnvöld hafa slegið skjaldborg um losunarfyrirtækin.

Neyðarlög

Til að ná árangri þá þurfa stjórnvöld að setja neyðarlög á þessi 22 fyrirtæki sem eiga 2/3 af losun landsins og setja í gjörgæslu. Skyldi þau til að gefa út staðfestar kolefnislosunartölur fyrir öll losunarsvið og fylgja Science Based Targets aðferðafræðinni. Þau þurfa að setja sér raunhæf markmið og metnaðarfulla aðgerðaráætlun í loftslagsmálum.

Stjórnvöld þurfa að spyrja þriggja spurninga í anda agile aðferðafræðinnar:

  • Hvað ætlið þið að gera í dag í loftslagsmálum?
  • Hvað gerðu þig í gær í loftslagsmálum?
  • Eru einhverjar hindranir?

 

Höfundur er félagi í Hellnaskeri, hugveitu um sjálfbærni.

Greinin birtist fyrst 30. nóvember í Skoðun á visir.is


Upphaf hvalaskoðunarferða á Íslandi

Fjórum langreiðum var landað í Hvalfirði í dag. Þá birtast tvær minningar í kollinum,prósi sem Kristín Helga Gunnarsdóttir skrifaði þegar hvalveiðar voru endurræstar og pistill sem ég skrifaði fyrir 20 árum um upphaf hvalaskoðunarferða á Íslandi.

Kristín Helga skrifaði: "Baráttan fyrir lífi langreyða meitlar svo sterkt framtíð sem mætir fortíð. Gamall og langreiður fauskur sem neitar að mæta framtíðinni og nýjum viðhorfum til samspils manns og náttúru og neitar að viðurkenna að við þurfum að taka okkur á, bæta okkur gagnvart náttúrunni, hafinu ... en heldur áfram að marka sína blóðugu slóð allt til enda."

Upphaf hvalaskoðunarferða á Íslandi

Til að átta okkur á upphafi hvalaskoðunarferða er gott að hafa í huga að árið 1985 voru hvalveiðar í atvinnuskyni bannaðar af Alþjóðahvalveiðiráðinu en vísindaveiðar á langreyð og sandreyð leyfðar á sumrunum 1986 til 1989. Hrefnuveiðar sem stundaðar höfðu verið með hléum frá 1914 lögðust af árið 1984. Hvalveiðibannið átti upphaflega að standa í fjögur ár en stendur enn. Andstæðingar hvalveiða, bentu á að hægt væri að hafa tekjur af því að skoða hvali í stað þess að veiða þá.

Upphaf hvalaskoðunarferða frá Hornafirði má rekja til Nýheima tuttugustu aldarinnar, kaffistofunnar í Hafnarbúðinni þar sem Tryggvi Árnason réð ríkjum um miðjan níunda ártuginn. Gefum Tryggva orðið: „Trillukarlarnir og humarsjómennirnir voru stundum að segja frá hvölum sem þeir voru að rekast á fyrir utan Hornafjörð og við Ingólfshöfða. Ein sagan var sérlega áhugaverð. Mig minnir að það hafi verið Torfi Friðfinns eða Frissi, Friðrik Snorrason, sem var að veiða á trillu fyrir utan Jökulsárlónið eða Ingólfshöfða. Kemur þá stór hnúfubakur syndandi að bátnum og fer að leika sér við hann. Mikil hræðsla greip um sig hjá karlinum og setti hann í gang og sigldi á fullri ferð í burtu. Hvalurinn elti hann og varð úr nokkur eltingarleikur. Það endaði með því að karlinn sigldi í land. Í framhaldi af þessu fór ég að hugsa um hvort ekki væri hægt að bjóða upp á hvalaskoðunarferðir fyrir ferðamenn til að auka starfsemi Jöklaferða.”

Það er ekki auðvelt að vera frumherji og koma nýrri vöru á markað þótt við Íslendingar teljum okkur vera nýjungagjarna þjóð. Hvernig tóku menn þessum nýja markhóp? Tryggvi svarar því svona: „Fór ég að nefna þetta við ferðaskrifstofur og ferðaþjónustuaðila. Áhuginn var ekki mikill hjá þeim þar sem það passaði ekki inn í hringferðirnar. Einhvernvegin hafði þessi hugmynd samt komist í erlenda ferðabæklinga þar sem sagt var frá því að Jöklaferðir væru með hvalaskoðunarferðir frá Höfn.”

Þegar vara er komin í ferðabæklinga sem dreifast út um allan heim má búast við fyrirspurnum. Alltaf eru til einstaklingar sem ferðast á eigin vegum og hafa áhuga á að prófa eitthvað nýtt. Á árinu 1990 komu nokkrir ferðamenn og vísuðu í ferðabæklingana. Því voru leigðar trillur tvisvar eða þrisvar og fóru þær með tvo til fjóra farþega. Árið eftir kom pöntun frá erlendri ferðaskrifstofu fyrir 20 manna spánskan hóp og fór Lúlli, Lúðvík Jónsson, á gömlu Æskunni í ferðina. Um haustið voru farnar tvær eða þrjár ferðir með hvataferðahópa og var þá boðið upp á sjóstangarveiði í ferðunum.

Eftir þetta fór Tryggvi að spá í alvöru að hefja hvalaskoðunarferðir. Hann útbjó skýrslublöð og lét eigendur fiskibátanna hafa til útfyllingar en þar átti að skrá dagsetningar, hvar verið var að veiðum, hvort sæist til hvala, hvaða tegund, hve margir, veðurfar o.fl. Þessi skýrslugerð stóð yfir í um 18 mánuði og fékk hann til baka möppur frá átta bátum með gagnlegum upplýsingum. Þetta var gert í samráði við Hafrannsóknastofnunina.

En hvernig var staðið að markaðsstarfinu hjá Jöklaferðum eftir að gagnasöfnun lauk og útlit fyrir að grundvöllur væri fyrir nýjung í ferðaþjónustunni. Gefum Tryggva aftur orðið:

„Á þessum tíma var ég í góðu sambandi við Clive Stacey hjá bresku ferðskrifsofunni Arctic Experience og hafði sagt honum frá þessum hugmyndum. Hófst hann þegar handa um að setja upp ferðir til Íslands með hvalaskoðun sem aðalmarkmið, ásamt því að fara á jökul.

Setti hann fyrst upp ferð í nafni Arctic Experience og var heldur dræm sala en síðan fór hann í samstarf við dýraverndunarsamtökin World Wildlife Found sem vinnur að brýnni verndun villidýra og lands eða hafsvæða um alla veröld. Sett var upp ferð sem sló í gegn. Vandinn hjá mér fólst í því að ekki var hægt að fá báta nema á haustin að lokinni humarvertíð og áður en síldarvertíðin hófst.”

Skortur á bátaflota hjá Jöklaferðum var því orsök fyrir því að ekki var hægt að taka við hópum fyrr en síðari hluta sumars. Kosturinn við það var að hægt var að lengja ferðatímabilið en ókosturinn að besti tíminn var ekki nýttur. Markaðurinn var hins vegar fyrir hendi. Taflan hér fyrir neðan sýnir vöxtinn í hvalaskoðun á Íslandi.

Ár
Staðir
Fyrirtæki
Farþegar
1990
1
1
6
1991
1
1
100
1992
0
0
0
1993
1
1
150
1994
3
4
200
1995
6
8
2.200
1996
8
9
9.700
1997
10
13
20.540
1998
8
12
30.330
1999
7
10
35.250
2000
9
12
44.000
2001
10
12
60.550
2002
10
12
 



Source: Björgvinsson, 1999; Hoyt, 1994b; Hoyt, 1995a; Gögn í fórum höfundar.

Sumir hvalveiðimenn hafa dregið þessar tölur í efa og eins tekjur sem myndast hafa en Ásbjörn Björgvinsson hefur fært rök fyrir því að tekjur árið 2000 hafi verð rúmur milljarður. Því ættu tekjur árið 2001 að vera einn og hálfur milljarður. Eftir að hafa skoðað gögn frá Ferðamálaráði úr nýrri ferðakönnun þá er ég sannfærður um að talan 60.000 er nærri lagi en 36% erlendra ferðamanna fóru í hvalaskoðun í júní, júlí og ágúst 2002. Rannsaka þarf tekjurnar betur. Ásbjörn hefur hvatt ferðamálayfirvöld til þess en einhver tregða er þar í gangi. Á vormánuðum 1995 var haldið námskeið í Keflavík á vegum W.D.C.S. sem eru umhverfissamtök í Bretlandi. Enskir sérfræðingar í hvalaskoðunarferðamennsku, Mark Carwardine, Alison Smith og Erich Hoyt, komu þar fram með hugmyndir sem ruddu brautina fyrir hvalaskoðunarferðir á Íslandi. Framhaldið hjá Jöklaferðum var svo á þá leið að þegar nýja Æskan kom um sumarið 1991 datt hún úr skaftinu og því var leitað til Braga Bjarnasonar. Síðan kom Sigurður Ólafsson SF-44 inn í spilið 1993 og var í þessum ferðum til 1996 að eigendurnir vildu ekki halda áfram. Árið eftir var tekinn á leigu bátur úr Reykjavík, en eftir það gáfust Jöklaferðir upp þar sem enginn fékkst í þetta á staðnum. Í töflunni árið 1998 lækkar fjöldi fyrirtækja úr 13 í 12 og er mismunurinn Jöklaferðir.

Hvalaskoðunarferðir eru stundaðar frá fleiri stöðum en Íslandi. Þær voru stundaðar í 87 löndum árið 1998, fjöldi farþega 9 milljónir frá 492 stöðum og var veltan áætluð um 80 milljarðar króna.

Að lokum er hér listi yfir fyrirtæki í hvalaskoðun 2002.
Norðursigling, Húsavík, www.nordursigling.is
Hvalaferðir, Húsavík, www.hvalaferdir.is
Ferðaþjónustan Áki, Breiðdalsvík
Víking bátaferðir, Vestmannaeyjum, www.boattours.is
Elding, Hafnarfirði, www.islandia.is/elding
Höfrunga- og hvalaskoðun, Reykjanesbæ, www.arctic.ic/itn/whale
Hvalastöðin, Reykjavík/Reykjanesbæ, www.whalewatching.is
Húni, Hafnarfirði, www.islandia.is/huni
Bátsferðir Arnarstapa/Snjófell, Snæfellsnesi, www.snjofell.is
Sæferðir, Stykkishólmi/Ólafsvík, www.saeferdir.is
Sjóferðir, Dalvík, www.isholf.is/sjoferdir/
Níels Jónsson, Hauganesi, www.niels.is
Hvalaminjasafnið, Húsavík, www.icewhale.is

Legg ég því til að Íslendingar fari í hvalaskoðunarferðir næsta sumar, hver veit nema það verði hægt frá Hornafirði? Kíki á Hvalamiðstöðina á Húsavík og skoði hnúfubakinn sem þeir borðuðu á þorrablótinu.

Auk þess legg ég til að kvótakerfið í núverandi mynd verði lagt í eyði.


Hvalaskoðun, hvalreki í Hornafirði - pistill eftir Sigurpál Ingibergsson

Hvalaskoðun frá Hornafirði árið 1993 - myndasyrpa

Heimildir:
Tryggvi Árnason, tölvupóstur 16. október 2002

Ifaw.org, www.ifaw.org/press/press/2000report.doc, Björgvinsson, 1999; Hoyt, 1994b; Hoyt, 1995a.

Ásbjörn Björgvinsson, „Hvalaskoðun á Íslandi árið 2000” http://um.margmidlun.is/um/ ferdamalarad/vefsidur.nsf/index/19.14?open

Könnun Ferðamálaráðs júní-ágúst 2002, „Tafla 2.18: Hvaða afþreying var nýtt? (%)”http://www.now2003.is/Kannanir/toflsumar/Tafla%202.18%20-%20sumar2002.pdf


Hvalaskoðun, hvalreki í Hornafirði

Nú berast fréttir af því að þrjár langreyðar hafa verið veiddar og séu komnar í verstöðina í Hvalfirði. Rifjast þá upp fyrir mér hvalaskoðunarferð sem ég fór í fyrir 30 árum 

Fyrir 30 árum fór hópur danskra fuglaáhugamanna í hvalaskoðunarferð frá Höfn með Jöklaferðum. Eitt af afsprengjum Jöklaferða voru hvalaskoðunarferðir en þar vann fyrirtækið algert brautryðjendastarf. Ég fór óvænt í mína fyrstu hvalaskoðunarferð með Sigurði Ólafssyni SF 44 með danskan hóp í júlí sumarið 1993 og er sú ferð mér ógleymanleg. Hópurinn samanstóð af 24 fuglaáhugamönnum og höfðu þeir frétt af því að hægt væri að komast í hvalaskoðunarferð frá Hornafirði. Áhöfnin á Sigurði Ólafssyni var tilbúin að fara í ferðina þótt humarvertíð stæði yfir. Það hafði sést til hnúfubaka við Hrollaugseyjar og voru skipstjórar á öðrum bátum fúsir að veita upplýsingar. Síðar á árinu fóru fjórir hópar frá Discover The World í hvalaskoðunarferðir og heildarfjöldi 1993 var 150 manns. Hornafjörður var höfuðborg hvalaskoðunar á Íslandi á þessum árum.

Á síðasta ári fóru 360.000 manns í hvalaskoðun á Íslandi en enginn frá Höfn.

Hér á eftir er grein sem skrifuð var á horn.is 2003.

Á hvalaslóð
Þegar ég vann hjá Jöklaferðum hf á árunum 1993-1996 var ekkert sem takmarkaði fyrirtækið nema stærð alheimsins. Jöklaferðir eru að öllum líkindum fyrsta sérhæfða afþreyingarfyrirtækið í ferðaþjónustu hér á landi en það var stofnað í maí 1985. Markmið félagsins var að standa fyrir ævintýraferðum á Vatnajökul og nágrenni. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins var hinn umdeildi sölumaður af guðs náð, Tryggvi Árnason.

Eitt af afsprengjum Jöklaferða voru hvalaskoðunarferðir en þar vann fyrirtækið algert brautryðjendastarf. Ég fór óvænt í mína fyrstu hvalaskoðunarferð með Sigurði Ólafssyni SF-44 með danskan hóp í júlí sumarið 1993 og er sú ferð mér ógleymanleg. Hópurinn samanstóð af 24 fuglaáhugamönnum og höfðu þeir frétt af því að hægt væri að komast í hvalaskoðunarferð frá Hornafirði. Áhöfnin á Sigurði Ólafssyni var tilbúin að fara í ferðina þótt humarvertíð stæði yfir. Það hafði sést til hnúfubaka við Hrollaugseyjar og voru skipstjórar á öðrum bátum fúsir að veita upplýsingar. Stímið þangað var um fjórir tímar. Töluverð kvika var í straumhörðum Ósnum og þegar Óli Björn keyrði á 10 mílunum var mikill veltingur. Hver fuglaáhugamaðurinn á fætur öðrum varð grænn og þegar ég hafði talið 12, varð ég líka sjóveikinni að bráð og sá mikið eftir því að hafa gefið kost á mér í þessa ferð. Þó höfðu menn tekið inn sjóveikistöflur. Loks sáust Hrollaugseyjar og við komin á hvalaslóð, sjólag var orðið gott.

Á leiðinni sáum við hnísur, minnstu hvalategund hér við land. Skyndilega kom höfrungavaða, (hnýðingur og stökkull) og lék listir sínar fyrir okkur, 5-10 dýr í hóp. Þeir eru afar hraðsyndir og koma oft stökkvandi á fleygiferð í átt að skipinu til þess að leika sér í bárunni sem kinnungurinn ryður frá sér. Sjóveikin var horfin og ég sá ekki lengur eftir því að hafa farið í þessa ferð. Næsta atriði var stórfenglegt en þá vorum við komin í hóp hnúfubaka, fjöldi á annan tug og var magnað að fylgjast með þeim koma upp úr sjónum og undirbúa köfun. Þessi ferlíki, hvítskellótt af hrúðurkörlum, geta orðið 17 metrar á lengd og 40 tonn að þyngd og ná háum aldri, lífslíkur 95 ár. Þegar þeir fara í djúpköfun lyfta þeir nánast alltaf sporðinum úr sjónum og sést þá litamynstur neðan á sporðblöðkunni en engir tveir einstaklingar hafa sömu áferð. Við sigldum á milli þeirra í dágóða stund og var magnað að fylgjast með atferli hvalanna og fólksins sem var á dekki. Það má segja að þarna hafi verið mikill bægslagangur því eitt sérkenni tegundarinnar eru gríðarlöng bægsli sem geta orðið allt að sex metra löng. Á heimleiðinni bauð Bugga, Sigurbjörg Karlsdóttir humarkokkur, upp á humar, matreiddan á marga vegu. Sumir þátttakendur voru svo mikil náttúrubörn að þeir borðuðu aðeins grænmeti. Í september fór ég svo aftur í ferð með nærri 30 manna hóp frá bresku ferðaskrifstofunni Discover The World sem voru í helgarferð. Annar dagurinn fór í hvalaskoðun og hinn í jöklaferð. Í þessari ferð voru einnig kvikmyndatökumenn frá Saga Film (en þeir bjuggu til 15 mínútna kynningarmyndband), Mark Carwardine leiðsögumaður en hann er heimskunnur hvalasérfræðingur og rithöfundur, Gunnþóra Gunnarsdóttir frá Eystrahorni og Jón Sveinsson apótekari. Stefnt var á Hrollaugseyjar. Á leiðinni sáum við hrefnu sem fylgdi okkur áleiðis en líkur á að sjá þær eru mjög miklar eða um 90%. Tvær hnísur sáust skyndilega en stundum getur verið erfitt að koma auga á þessi smáhveli, bakugginn sést í smástund og hún getur horfið eins og hendi sé veifað. Kapteinn Óli Björn var í stöðugu sambandi við trillukarlana sem voru dýpra en þeir höfðu enga hvali séð. Stutt frá Tvískerjum sást svo stórhveli, hnúfubakur, og hann skemmti okkur mikið. Strákarnir hjá Saga Film fóru út í hraðbát sem var um borð og nálguðust hnúfubakinn og eltu hann. Þeir náðu mögnuðum skotum af honum. Veislunni var ekki lokið því þegar við vorum á heimstíminu komu höfrungar og léku sér við bátinn. Þarna voru færri dýr á ferð enda komið haust en samneytið við Öræfajökul bætti það upp. Þetta var því nokkuð merkileg ferð eins og lesa má á greinunum „Hvalaskoðun” í Eystrahorni eftir Gunnþóru og „Sporðaköst undir jökli” eftir Ara Trausta Guðmundsson sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins 12. mars 1994. Síðar í mánuðinum fóru þrír hópar í hvalaskoðunar- og jöklaferð og alls komu 150 manns í hvalaskoðunarferðirnar þetta árið.
Það er gaman að lesa yfir greinarnar tæpum 10 árum eftir að þær voru skrifaðar. Blaðamenn eru hógværir á framtíð þessarar nýju greinar í ferðaþjónustu og enginn hefði þorað að spá að rúmlega 60.000 manns ættu eftir að fara í hvalaskoðunarferðir tæpum áratug síðar. Boðið var upp á sjóstangaveiði í ferðunum en ekki var mikill áhugi á þeim hjá ferðafólkinu, ekki í þeirra eðli að stunda veiðar. Flestir þeirra hafa mikinn áhuga á náttúruvernd, þ.á m. hvalafriðun. Í þeirra huga eru hvalir ekki nytjadýr heldur hluti náttúrunnar, eingöngu til að skoða og dást að. Því myndi líklega draga mikið úr aðsókn í hvalaskoðunarferðir ef hvalveiðar hæfust við Ísland. Eða eins og Flateyringurinn Ásbjörn Björgvinsson, forstöðumaður Hvalamiðstövarinnar á Húsavík, orðar það: „Það gengur aldrei upp að sýna hval á stjórnborða og skjóta hann á bakborða”. Auk þess eru þessar ferðir meira en hvalaskoðun, þetta er náttúruskoðun í hæsta gæðaflokki þar sem landið er skoðað frá öðru sjónarhorni

Markaðsstarfið gekk vel hjá Clive Stacey og félögum hjá Discover the World, dótturfyrirtæki Arctic Experience í Englandi, og næsta ár seldist í mun fleiri ferðir. Var Ásbjörn fararstjóri í þeim ferðum næstu ár. Hann smitaðist þarna af hvalabakteríunni stóru og hefur byggt upp starfsemi Hvalamiðstöðvarinnar á Húsavík frá árinu 1997. Getur Húsavík kallast með réttu “hvalaskoðunarhöfuðborg Evrópu” en 25.000 manns fóru í ferðir þaðan á síðasta ári og er bærinn orðin stærsti einstaki hvalaskoðunarstaðurinn í Evrópu.

Hvalreki
Ég rifja þetta upp af því að á síðasta ári komu hvalir mikið við sögu á Hornafirði. Í vor rak hnúfubak inn í Hornafjörð, í lok ágúst strandaði kálffull hrefna í Skarðsfirði og háhyrningur fannst í vetur við Stokksnes. Hvalir eru stærstu dýr jarðarinnar og vekja því mikla eftirtekt. Ef hvalir lenda í ógöngum komast þeir á forsíður íslensku blaðanna og jafnvel í heimspressuna.

Það fyrsta sem hornfirsku náttúrubörnin, hvalaskurðarmenn, gerðu þegar búið var að skera hvalkjötið var að hringja til Húsavíkur og bjóða beinin og hrefnufóstrið til Hvalamiðstöðvarinnar. Ásbjörn Björgvinsson sagði í viðtali við DV í sumar að hann hefði orðið húkt á hvali eftir ferðirnar með Jöklaferðum og Discover the World fyrir tæpum áratug.
Mér finnst nú þarft að benda mönnum á að Hornfirðingar voru brautryðjendur í þessari afþreyingu og einnig þá staðreynd að árið 2001 fóru 60.550 manns í hvalaskoðunarferðir með 12 fyrirtækum en enginn frá Hornafirði! Það mætti svo sem geyma eitt beinasett á Hornafirði, þó ekki nema til að minnast uppruna hvalaskoðunarferða á Íslandi.

Á þessari stundu fer um hugann upphafserindi í kvæði Davíðs Stefánssonar:
“Til eru fræ, sem fengu þennan dóm:
Að falla í jörð, en verða aldrei blóm.
Eins eru skip, sem aldrei landi ná.”

Kafteinn Óli Björn Þorbjörnsson og Páfinn, Baldur Bjarnason vélstjóri, komu skipinu Sigurði Ólafssyni allaf í land með brosandi fólki en hvalaskoðunarferðir frá Höfn urðu ekki blóm þótt Jöklaferðir hafi sáð mörgum fræjum.

Því er vert að spyrja, af hverju er ekki boðið upp á hvalaskoðunarferðir frá Höfn? Ein skýringin er sú að langt er á góð hvalaskoðunarmið, því verða ferðir þaðan dýrari og lýjandi. Enginn Hornfirðingur treystir sér til að reka hvalaskoðunarbát sem þó gæti nýst í fleira, t.d. sjóstangaveiði, skemmtiferðir og skoðunarferðir um Ósinn.

Svo ég haldi hugarfluginu áfram fyrst ég er kominn í stuð, þá mætti huga að hvalasafni tengdu byggðasafninu. Ég vil minna á að í Grindavík var opnað Saltfisksetur í september síðastliðinn sem á að höfða til erlendra ferðamanna. En ég minni á að Hornfirðingar eru margfaldir Íslandsmeistarar í saltfiskverkun með EHD merkið heimsfræga. Hví ekki að stofna Humarsetur, þar eigum við heimsmeistaratitil, eða Síldarsetur með áherslu á reknetaveiðar. Væri ekki hægt að spyrða þessi söfn einhvernvegin saman? Svo væri hægt að tengja söfnin við Kaldastríðið með því að varðveita ratsjárstöðina og skermana á Stokksnesi. Þetta er kallað menningartengd ferðaþjónusta og gæti hún dafnað vel eins og hvalaskoðunarferðirnar.

Legg ég því til að næsti hvalur sem strandar á Hornafirði verði verkaður af náttúrubörnunum, Gústa Tobba, Kidda í Sauðanesi og hvalskurðarmönnum staðarins. Beinagrindin verði hengd upp í Nýheimum og hvalurinn verði nefndur Tryggvi Árnason í höfuðið á frumkvöðli hvalaskoðunarferða á Íslandi.

Auk þess legg ég til að kvótakerfið í núverandi mynd verði lagt í eyði.


Þakka Arnþóri Gunnarssyni fyrir faglega ráðgjöf og Tryggva Árnasyni fyrir upplýsingar við gerð pistilsins.


Hvalaskoðun II - pistill eftir Sigurpál Ingibergsson

Hvalaskoðun frá Hornafirði árið 1993 - myndasyrpa

Heimildir:
DV, 21. júní 1993, „Hvalaskoðunarferðir frá Höfn: Hnúfubakar blása og höfrungar stökkva”, Ari Sigvaldason
Eystrahorn, 31. tölublað , 9. september 1993, „Hvalaskoðun”, Gunnþóra Gunnarsdóttir
Hvalaskoðun við Ísland, JPV-útgáfa 2002, Ásbjörn Björgvinsson & Helmut Lugmayr
Morgunblaðið, 26. september 1993, „Á hvalaslóð”, Guðmundur Guðjónsson
Morgunblaðið, 12. mars 1994, „Sporðaköst undir jökli”, Ari Trausti Guðmundsson


mbl.is Hvalirnir komnir til hafnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kolefnislosun og hagnaður

Þorskstofninn í hættu vegna loftslagsbreytinga en möguleg tækifæri í sardínum og makríl er frétt á forsíðu Fréttablaðsins 9. desember 2022.  Ráðast þarf að rót vandamálsins, stoppa losun GHL.

Slæmu fréttirnar þegar mælingar á losun í virðiskeðju fyrirtækja eru að risarnir í losun eru ekki að vinna neitt í losunarsviði 3, nema orkufyrirtækin tvö, LV or OR. Hlutfallið í losunarsviði 3 er 5% en viðmið MSCI vísitölunnar er 88%.

Mælingar í virðiskeðjunni eru nauðsynlegar til að fyrirtæki skilji rekstur sinn og ábyrgð. Lykilatriði til að ná kolefnishlutleysi (Net Zero emissions).  Staðan eða kortlagning  hjá fyrirtækjunum minnir mig á landakort sem Christopher Columbus hafði árið 1492 þegar hann ætlaði að sigla til Asíu en endaði í Ameríku!

Enginn losun reiknuð við flutning hráefnis og vöru hjá álverum. Einnig hvernig hráefnis er aflað. Það vantar fallega framtíðarsýn eins og CarbFix hefur um að fanga CO2 úr andrúmslofti og farga neðanjarðar sé flutt  í skipum með vistvænu eldsneyti.

Sobril taflan

Í töflunni eru stærstu kolefnislosunarvaldar Íslands og raðað eftir beinni losun (grái dálkurinn).  Fyrsti dálkurinn er hagnaður fyrir skatta 2021 og fengin úr bókinni 300 stærstu. Síðan koma losunarsviðin og mótvægisaðgerðin, kolefnisbinding.  Athygli vekur að hagnaður gráu fyrirtækjanna 18 er 136 milljarðar fyrir skatta og ef þau væru skylduð skv. mengunarbótareglunni til að kolefnisjafna losun í dag og greiða þrjú þúsund krónur (20 EUR) fyrir tonnið af CO2 væri kostnaður um 10 milljarðar eða rúm 7% af hagnaði fyrir skatta.   Sorglegt að sjá að fyrirtækin fjárfesti ekki meira í grænum fjárfestingum, orkuskiptum, hringrásarhugsun, þekkingaröflun og nýsköpun í loftslagsmálum í góðærinu.

Heildarlosun gráu fyrirtækjanna er 3,3 milljón tonn CO2 eða rúmlega 73% af losun landsins fyrir utan landnotkun. Almenningur, sveitarfélög og hin 20.000 fyrirtækin eiga 27%! Til samanburðar er losun gróðurhúsalofttegunda sem er á beinni ábyrgð Íslands 2,7 milljón tonn.

Orkufyrirtækin með yfirburði í kolefnisbindingu en margt spennandi í farvatninu á komandi árum ef staðið verður við farmtíðarsýn fyrirtækjanna í sjálfbærniskýrslum. En aðeins rúmlega 1% af losun er kolefnisjöfnuð.

Aðeins Landsvirkjun nær að uppfylla kröfur um kolefnishlutleysi en búið að að lögfesta að Ísland ætlar að ná markmiði um kolefnishlutleysi eigi síðar en 2040.

Einnig er í hættu að Ísland ná markmiði Parísarsamkomulagsins 2030 með þessu aðgerðaleysi.

Stóru losunarfyrirtækin eru ekki að standa sig og sýna litla ábyrgð, stjórnvöld þurfa að taka frumkvæðið með réttlátum umskiptum í loftslagsmálum, setja þarf neyðarlög og skylda fyrirtækin til að gera metnaðarfulla neyðaráætlun.

ETS – Viðskiptakerfi ESB heldur um iðnað, flug og sjóflutninga. Um kerfið gilda sérstakar reglur en þrátt fyrir það þá öndum við að okkur sama loftinu og við þurfum að gera strangar kröfur til risanna í losun. Mögulegt er að að losunartölurnar sem álverin birta í sjálfbærniskýrslum eru mun lægri en losunin er í raun og veru.

Nú er að hefjast nýtt uppgjörsár og vonandi verða þessar upplýsingar til þess að fyrirtæki setji meiri metnað í mælingar á virðiskeðjunni. Það skiptir miklu máli að finna hvaða losunarþáttur og hvar mest ábyrgðin liggur. Forgangsraða og setja mestan tíma í stærstu loftslagsvænu aðgerðina.

Íslensk fyrirtæki þurfa að spýta í lófana og vera góð fyrirmynd, til að sviðmyndin - þorskstofninn hverfur úr lögsögunni - raungerist ekki.

          Greinin birtist fyrst í dálknum Skoðun í Fréttablaðinu 12. febrúar 2023


Lærum snjóruðning af Týrolbúum - Brenner-skarð

Það fyrsta sem þarf að gera er að breyta lögum og leyfa Vegagerðinni og/eða Björgunarsveitum að fjarlægja yfirgefna bíla sem stoppa hreinsunarstarf. Það næsta er að læra af Týrolbúum.

Brenner-skarð - Brenner Pass "Bridge of Europe"

Ég átti leið um Brenner-skarð í júli og þegar ég áttaði mig á mannvirkinu, hraðbrautinni sem er 49,1 km brú þá fannst mér stærstu brúarmannvirki á Íslandi agnarsmá í samanburði. Brenner-skarð er fjallvegur milli Ítalíu og Austurríkis í Ölpunum í gegnum Norður og Suður Týrol.

Á einum stað var farið yfir lítið fjallaþorp í dal einum og tæpir 200 metrar niður. Þá fannst mér Brennerbrúin mikilfengleg. Þar er brúarhandriðið svo hátt uppi að sundlar alla fugla er á setjast.

Framkvæmdir hófust árið 1959 og lauk 1963. Lest gengur einnig yfir skarðið og mannvirkið þekkt fyrir að vera hátt upp án jarðgangna.

Það snjóar í 1.370 metrum. Snjóruðningur er vel þróaður og koma fjórir snjóplógar og taka alla brautina. Þegar þeir koma í næsta svæði, þá taka næstu við og svo koll af kolli.
Getum við eitthvað lært af Týrolbúum við snjóruðning á Reykjanesbraut og Hellisheiði?

Brúin var ekki hönnuð fyrir þungaflutninga sem eru í dag. Ef það verður óhapp og umferð stoppar, þá er löng röð af trukkum sem bíða á brúnni. Það er helsta ógnin í dag,
að brúin hrynji. Því er verið að leggja leið fyrir flutninga- og farþegalestir. Jarðgöngin verða 64 km. Brenner Base Tunnel (BBT) sem opna 2032.

Það þriðja: Þegar upplýsingar um Brenner-skarð eru skoðaðar þá er það fyrsta sem kemur er sektir ef bílar eru ekki á vetrardekkjum eða keðjum. Það eru allt of léttvægar sektir ef fólk er á sumardekkjum í snjóstormi hér á landi.

Brenno

Þrír snjóplógar sem hreinsa hraðbrautina. Þeir skipta hraðbrautinni niður í hólf. Þannig að þessir sjá um hluta af leiðinni.


mbl.is „Hvernig ætlum við að bregðast við“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kláfar á Íslandi

Allir íslensku kláfarnir sem til eru, eru yfir fljót. Engir eru til að ferja ferðamenn upp á fjöll. Íslendingar hafa meira talað um að byggja kláfa heldur en að framkvæma. En áhugaverðar hugmyndir eru á prjónum.
 
Þegar ég heimsótti Dólómíta og Gardavatn í júlí mánuði þá upplifði ég þróað samgöngukerfi með kláfum og voru þeir vel nýttir til að koma ferðamönnum á "erfiða" staði og þroskuð skálamenning tók við. Allt mjög snyrtilegt og mikil fagmennska.
Ég ferðaðist með kláfum til: Mt. Baldo við Gardavatn, hækkun: einn Eyjafjallajökull. Efra Breiðholt Bolzano, hluti af Borgarlínu bæjarins. Seizer Alm hásléttan og um Rósagarðinn í Dólómítunum. Sjá myndir á þræðinum Brýr og kláfar á Íslandi og víðar.
 
Skoðaði þróun á Íslandi. Í fjölmiðlum er fyrst minnst á kláf 1874 yfir vestari Jökulsá í Skagafirði. Næst er hugmynd um kláf á Skálafellsjökli 1990. Síðan upp í Klif í Vestmannaeyjum 1996. Kláfur í Hlíðarfjall 1998 og kláfur upp í Bolafjalli 2006.
Fjórar hugmyndir sem unnið hefur verið með hafa birst sótt um byggingarleyfi. En svo kom heimsfaraldur og allt stopp eða hvað?
2022 - Esjuferja - Hugmyndir lagaðar fram á ný
2021 - Eyrarfjall á Ísafirði - 45 manns í kláf
2017 - Kláfur á topp Hlíðarfjalls - Hlíðarhryggur ehf.
2015 - Esjuferja ehf sótti um að setja upp kláf á Esjuna, tekur 80 manns í ferð. Kostnaður 3 milljarðar þá. Hafnað af Hverfisráði Kjalarness
2014 - Rannsóknir - Vindmælir á Esju 
2012 - Kláfur á Kistufell 2012, draumur
 
Persónulega tel ég að kláfur og fjallahótel á Skálafelli og Hlíðarfjalli gæti gengið því hægt að nýta allt árið. Ísafjörður og Esjan eru erfiðari nema rekstraraðilar eigi ás í erminni. 
 
Fjallaskáli eða fjallahótel þarf að vera á endastöðinni og þá geta ferðamenn notið útsýnis, farið í gönguferðir, gengið, hlaupið, hjólað eða skíðað niður fjallið. Einnig getur áhugafólk um hverskonar svifflug nýtt kláfferjuna. Norðurljósa- og stjörnuskoðun er möguleg og í góðum veitingasal er hægt að halda allskonar veislur á stórbrotnum stað. Hér er komin stórgóð viðbót við ferðaþjónustu.
 
Ég hvet til umræðu um byggingu kláfferja upp á fjöll. Þær hafa umtalsverð umhverfisáhrif og starfsemin sem upp sprettur í kringum samgöngubótina þarf að vera sjálfbær. Virðist vera fyrirstaða hjá yfirvöldum en raflínur eru ofanjarðar og skapa mikla sjónmengun. Kláfferjur eru afturkræfar framkvæmdir. 
Björgunarþyrla þarf að æfa björgun úr kláf því kláfferja getur bilað eða stoppað. Íslenskt stormveður lokar fyrir samgöngur og þoka getur dregið úr ferðaáhuga. Því þarf að gera áætlanir með þetta í huga.
 
Suður-Týrol var eitt fátækasta ríki Evrópu fyrir stríð, svipað og Ísland. Eftir stríð þá breyttist allt. Kláfar voru notaðar þegar verja þurfti fjallaskörð og þegar stríðinu lauk, þá var hægt að nýta þá til að ferja ferðamenn upp á hæstu sléttur og tinda til að skíða eða njóta fegurðarinnar.
Við eigum að geta lært helling af Týról- og Alpabúum.
 
Samgöngukerfi
 
Mynd af samgöngum og gönguleiðum í Rósagarðinum sem er á Heimsminjaskrá UNESCO. Samanstendur af kláfferjum og skíðalyftum.

mbl.is Hugmyndir um ferju á Esjuna lagðar fram á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stríð og Rauði krossinn

Það var áhrifaríkt að sjá hauskúpurnar 2.500 og bein í San Martino beinakapellunni. Þarna eru bein hermannanna sem létu lífið í blóðugu orrustunni við Solferno 24. júní 1859.
Brotin hauskúpa eftir byssukúlu vakti hughrif um unga menn sem áttu drauma en enduðu sem safngripur. Virðing fyrir lífum kom upp í hugann. Stríð í Evrópu. Hefur mannkyninu ekkert farið fram?


Stríðið leiddi til þess að Ítalía sameinaðist í eitt ríki 1861, Rauð krossinn var stofnaður 1863 og Genfarsáttmálinn 1864.


Maður hugsaði til hræðilegs stríðs í Úkraínu og tilgangsleysi mannfórna þar fyrir einhvern hégóma.

"Make Love, Not War" eftir John Lennon og Friðarsúlan hjá Yoko er fallegri boðskapur.

Sagan á bakvið stofnun Rauð krossinn er áhrifarík. Hinn vellauðugi Genfarkaupmaður Jean Henri Dunant ætlaði að ná fundi við Napóleon III, Frakkakeisara. Erindi hans var að fá heimild hjá keisaranum til þess að byggja kornmyllur í Alsír. En í þessu stríði tóku þjóðhöfðingjar sjálfir þátt í stríðnu. Frakkar með Napoleon III og Victor Emanuel III með Sardínu-Piedmont herinn gegn Austurríkis-Ungverjalands mönnum leiddir áfram af keisaranum Francis Joseph.

Rauði krossinn

Henri Dunant kom að blóðvellinum kvöldið eftir hina miklu orrustu við Solferini, þar sem 300 þúsund hermenn höfðu háð grimmilega orrustu og um 40 þúsund manns lágu í valnum. Svona var þá styrjöld! Henri Dunant varð skelfingu lostinn. Í fyrstu vissi hann varla hvert halda skyldi. Hvarvetna ómuðu angistaróp og stunur særðra og deyjandi manna. Dunant gleymir öllu um tilgang ferðarinnar.

Hann fer þegar að líkna særðum og þjáðum með aðstoð sjálfboðaliða og liðsinnir Austurríkismönnum, Frökkum og Ítölum á þrem dögum og gerir ekki upp á milli vina og óvina, - þegar haft er orð á því við hann er svarið: "Við erum allir bræður"

Þessi dagur varð honum örlagaríkur um alla framtíð. Þegar hann kom heim til Genfar tók hann að starfa af kappi fyrir glæsilega, fagra hugsjón: Stofnun alþjóðlegs félagsskapar til hjálpar særðum hermönnum. Henri gaf út bók "Endurminningar frá Solferino". Úr þessu spratt Rauði krossinn og Genfarsáttmálinn.

Genfarsáttmáinn hefur verið margbrotinn í stríði Rússa við Úkraínu og óhuggulegt að heyra fréttir. Nú síðast af árás á fangelsi þar sem stríðsfangar voru í haldi. En Rauði krossinn hefur unnið þarft verk í heimsmálum, ekki bara á stríðstímum.

Jean Henri Dunant varð fyrstur að fá friðarverðlaun Nóbels 1901 ásamt Frakkanum Frédéric Passy.

Safn sem geymir hergögn frá stríðinu er í San Martino og hægt að ganga upp í 64 metra turn og sjá yfir svæðið þar sem hildarleikurinn var háður. Frábært útsýni yfir vel ræktað land, mest vínekrur og í norðri sér til Gardavatns.

Beinakirkjan

Afleiðing stríðs. Áhrifarík sýn.

Heimildir

Morgunblaðið - Solferino 1859 og stofnun Rauða krossins
Rauði krossinn - Henri Dunant (1828-1910)  

 


Landeigendur léleg landkynning

"Reynslan hefir sýnt það og sannað, að atvinnurekstur einstaklinga þolir engan samanburð við ríkisrekstur." - Þórbergur Þórðarson

Landeigendur ekki að standa sig við Seljalandsfoss og léleg landkynning fyrir Ísland.

Var að koma frá Suður-Týrol og ferðaðist um Dólómítana. Það var áberandi hvað allt er snyrtilegt í Suður-Týrol. Ekkert fyrir plokkara að gera.
Svæðið er að stórum hluta á Heimsminjaskrá UNESCO, rétt eins og Vatnajökulsþjóðgarður, Þingvellir og Surtsey.

Greinilegt að íbúar svæðisins eru snyrtilegir og góðir innviðir fyrir úrgangslosun. Virðing fyrir náttúrunni í menningu Suður-Týrol. Hún smitast í ferðamenn. Einstaklingar, fyrirtæki og stjórnvöld geta lært af þeim.


Mikið er af kláfum og fjallaskálum sem þjóna ferðamönnum og gott aðgengi fyrir úrgang og úrgang frá fólki öðru nafni saur. Eplasafinn var afgreiddur í margnota glösum, ekkert plast.

Stór hluti af vandamálinu er umbúðaþjóðfélagið hér á landi. Flest allt umvafið plasti og einnota það má gera miklu betur þar.

Þurfum að hugsa þetta út frá úrgangspíramídanum, forvarnir,  lágmörkun úrgangs, endurnotkun, endurvinnsla, endurnýting og förgun.
 

Selva

Snyrtilegt svæði. Enginn úrgangur fljótandi innan um náttúruperlurnar. Hér sést St. Ulrich Ortisei í 1.226 m. og Selva fyrir ofan. Val Gardena þekk fyrir skíði. Mynt tekin af Seiser Alm hásléttunni í 2.130 metra hæð í 24 stiga hita.

 


mbl.is Harmar upplifun gesta Seljalandsfoss
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loftslagsbreytingar: Þróun lausna og bætt nýting auðlinda

Mál nr. S-103/2019

Hagrænir hvatar

Lífsferilsgreiningar sýna að byggingar eiga um þriðjung af heildar kolefnisspori jarðarinnar.

Stjórnarráðið á að setja stefnu um að allar stofnanir verði í vistvæntu vottuðum byggingum fyrir árið 2030. Einnig eiga fyrirtæki og einstaklingar að geta fengið skattaafslátt hafi þau vistvænar vottanir. Hagrænir hvatar eru lykilinn í að breyta  hegðun.  Sveitarfélög geta gefið afslátt af fasteignagjöldum. Hús Náttúrufræðistofnunar í Urriðaholti er ágætis fyrirmynd en hún er í BREEAM vottunarferli. New York með metnaðarfull verkefni. Einnig hefur Kaliforníuríki útfært vistvænar lausnir í byggingum.

Stjórnvöld eiga að nota hagræna hvata á öllum þeim stöðum sem hægt er að koma þeim á til að stuðla að sjálfbærni og hækka álög á alla sóun og mengun.  Stuðla að því að fara inn í hringrásarhagkerfi, úr línulega hagkerfinu með allri sinni sóun.

Kolefnisskattar

Kolefnisspor flugs er 12% af samgöngum og er fyrir utan  mörg losunarkerfi. Íslensk stjórnvöld eiga að vera í fararbroddi og setja kolefnisskatt á allt flug til og frá landinu og nýta fjármagnið í kolefnisjöfnun með gróðursetningu, endurheimt votlendis, landgræðslu og í nýsköpun.  Alls ekki niðurgreiða flug, það er í mótsögn við umhverfisáhrifin.

Vistvænir bílar verði með lágmarks álögur en jarðefnabílar skattaðir í botn. Brennsla á jarðefnaeldsneyti er ekkert annað en glæpur gegn mannkyni.

Kolefnisspor á umbúðir vöru

Fæða á um þriðjung af heildar kolefnissporinu. Matarsóun er mikil í hinum vestræna heimi og einn liður í að sporna við henni er að kolefnisspor matvöru sé reiknuð og gefið upp á umbúðum. Einnig á vörulýsingu og verðmiðum.  Styðja við nýsköpun á framsetningu kolefnisspors.

Kolefnisspor

Einingin er kg CO2/kg.   https://www.oatly.com/se/products/havredryck-deluxe

Fólksfækkun

SkólaverkfallHver einstaklingur skilur eftir sig kolefnisspor og því fleiri einstaklingar því meira álag verður á jörðina. Fæðingarhlutfall íslenskra kvenna er þó jákvætt, 1,7 barn á hverja konu. Yfirleitt er miðað við að frjósemi þurfi að vera um 2,1 barn til þess að viðhalda mannfjöldanum til lengri tíma litið. Tryggja þarf að úrelt hagfræðilíkön sem ganga út á endalausa fólksfjölgun fái ekki að ráða ferðinni.  Fólksfækkun skapar vandamál en fólksfjölgun skapar enn stærra vandamál. Stjórnvöld eiga ekki að hvetja til barneigna með ívilnunum. Taka þarf tillit til umhverfisþátta í hagvexti.

Neyðarástand

Ísland á að lýsa yfir neyðarástandi vegna loftslagsmála tafarlaust.

Ísland á um 0,02% af heildarlosun CO2 og er lítill leikari á sviðinu þó kolefnissporið á einstakling sé með því stærsta í heimi. En takist Íslandi að innleiða djarfar og áhrifaríkar sjálfbærar lausnir sem virka og verði kolefnishlutlaust fyrir 2040 þá verður landið góð fyrirmynd fyrir heimsbyggðina.

Á meðan hiti á jörðinni eykst, jöklar bráðna, höfin súrna og loðnan hverfur þá er þessi umsögn skrifuð.

 

Heimildir:

https://architecture2030.org/buildings_problem_why/

https://www.theguardian.com/us-news/2019/apr/18/new-york-city-buildings-greenhouse-gas-emissions?fbclid=IwAR2VC2VlfeAYfj2l5CFdup9FaiTJtwSrcyuE4izH9aY-JzOtTFlM5VSag28

https://www.nature.com/news/one-third-of-our-greenhouse-gas-emissions-come-from-agriculture-1.11708

https://www.hagstofa.is/utgafur/frettasafn/mannfjoldi/faedingar-2017/


Einbreiðar brýr í ríki Vatnajökuls

Þegar ég heimsótti átthagana um páskana árið 2016 var ég skelkaður vegna mikillar umferðar og hættum sem einbreiðar brýr skapa. Þá voru 21 einbreið brú, svartblettir í umferðinni á leiðinni. Ég ákvað að taka myndir af öllum brúm og senda alþingismönnum Suðurlands ábendingar með áhættumati sem ég framkvæmdi.

Einnig sendi ég umsögn til Umhverfis- og samgöngunefndar vegna Samgönguáætlunar 2015 - 2018. Þar komu fram nokkrar tillögur til úrbóta.  Læt þær fylgja hér:

Úrbætur

  • Draga úr ökuhraða þegar einbreið brú er framundan í tíma
  • Hraðamyndavélar.
  • Blikkljós á allar brýr, aðeins við fjórar brýr og blikkljós verða að virka allt árið.
  • Útbúa umferðarmerki á ensku
  • Fjölga umferðamerkum, kröpp vinstri- og hægri beygja, vegur mjókkar
  • Setja tilmælaskilti um hraða í tíma við einbreiðar brýr og aðra svartbletti, t.d. 70, 50, 30 km hraði.
  • Skoða útfærslu á vegriðum
  • Fræðsla fyrir erlenda ferðamenn
  • Virkja markaðsfólk í ferðaþjónustu, fá það til að ná athygli erlendu ferðamannanna á hættunni án þess að hræða ökumenn
  • Nýta SMS smáskilaboð eða samfélagsmiðla
  • Betra viðhald
  • Bæta göngubrú norðan megin við Jökulsárlón á Breiðamerkursandi
  • Styrkja þarf brýr, sú veikasta, Steinavötn tekur aðeins 20 tonn

Þegar erlend áhættumöt eru lesin, þá hafa brúarsmiðir mestar áhyggjur af hryðjuverkum á brúm en við Íslendingar höfum mestar áhyggjur af erlendum ferðamönnum á einbreiðum brúm.

Mér finnst gaman að lesa yfir úrbótalistann tæpum þrem árum eftir að hann var gerður og áhugavert að sjá minnst á brúna yfir Steinavötn en hún varð úrskurðuð ónýt um haustið 2017 eftir stórrigningu.

Það virðist vera stemming núna að lækka hámarkshraðann en hraðinn drepur. Vegrið á Núpsvatnabrúnni uppfylla ekki staðla og fræðsla hefur verið fyrir erlenda ferðamenn hjá Samgöngustofu.

Um sumarið 2016 voru gerðar úrbætur. Fjárveiting fékkst og fór nokkrar milljónir í að laga aðgengi að einbreiðum brúm. Blikkljós voru sett við allar einbreiðar brýr í Ríki Vatnajökuls og málaðar þrengingar að brúm en sumar sjást illa í dag.  Umferðamerkjum var fjölgað og merking samræmd.

Við það minnkaði áhættan nokkuð og alvarlegum slys urðu ekki fyrr en á fimmtudaginn er 3 erlendir ferðamenn fórust í hörmulegu slysi á brúnni yfir Núpsvötn.

Það er loks komin áætlun en það var markmið með erindi mínu til Umhverfis- og samgöngunefndar.  Í samgönguáætlun 2019 -2023 er gert ráð fyrir að átta einbreiðar brýr verði eftir á vegkaflanum milli Reykjavíkur og austur fyrir Jökulsárlón í lok árs 2023.

Þá sé í tillögu að samgönguáætlun fram til ársins 2033 áætlað að skipta út sex brúm í viðbót, þannig að í lok þess árs verði tvær einbreiðar brýr eftir á vegkaflanum. Það er annars vegar brúin yfir Núpsvötn og brúin á Jökulsá á Breiðamerkursandi.

Það þarf að setja brúna yfir Núpsvötn í hærri forgang eftir atburði síðustu daga. Uppræta þarf ógnina. Bæta öryggi á íslenskum vegum og þannig fækka slysum.  

Kostaður samfélagsins af umferðarslysum síðustu tíu árin er rúmir fimm hundruð milljarðar króna eða að meðaltali um fimmtíu milljarðar árlega. Á sama tíma hefur Vegagerðin fengið um 144 milljarða króna til nýframkvæmda.  Hér er vitlaust gefið.

En þetta er áætlun á blaði og vonandi heldur hún betur en samningurinn um heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar sem getið var í stjórnarsáttmálaunum og ætla Sjálfstæðismenn svíkja það loforð.

Heimildir

Umferðarslys á Íslandi 2017 - Samgöngustofa

Einbreiðar brýr í Ríki Vatnajökuls. Umsögn Sigurpáls Ingibergssonar um tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun 2015 - 2018. Mál 638.

Núpsvötn og Lómagnúpur


Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.9.): 114
  • Sl. sólarhring: 251
  • Sl. viku: 365
  • Frá upphafi: 232711

Annað

  • Innlit í dag: 101
  • Innlit sl. viku: 325
  • Gestir í dag: 101
  • IP-tölur í dag: 98

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband