Færsluflokkur: Tónlist
25.8.2018 | 12:37
Arcade Fire og Ísbúð Vesturbæjar
Það voru stórmagnaðir og orkumiklir tónleikar hjá kanadísku indí rokkbandinu Arcade Fire í Nýju Laugardalshöllinni á þriðjudagskvöldið. Um 4.300 gestir mættu og upplifðu kraftinn á AB-svæði. Stórmerkilegt að ekki skyldi vera uppselt en þarna eru tónlistarmenn í þungavigt á ferð.
Mikil umræða hefur verið um sölu og svæðaskiptingu á tónleikunum en ég var einn af þeim rúmlega fjögur þúsund manns sem keypti miða í A-svæði. Því kom það mér á óvart þegar gengið var inn í salinn að enginn svæðaskipting var. Ég var ekki að svekkja mig á því að hafa ekki keypt B-miða. Hugsaði til ferðalaga í flugvélum eða strætó, þar ferðast menn á misjöfnum gjöldum en sitja svo saman í einni kös. Ég skil vel ákvörðunartöku tónleikahaldara um AB-svæði, sérstaklega ef þetta hafa verið 79 miðar.
Ég kynntist Arcade Fire góðærisárið 2007 en þá gaf sveitin út diskinn Neon Bible og var það eini diskurinn sem ég keypti það árið. Var hann víða talinn einn besti gripur ársins af álistgjöfum í tónlist. Ég get tekið undir það og hlustaði mikið á hann í iPod-inum mínum. Síðan hef ég lítið fylgst með sveitinni og missti af þrem síðustu plötum sveitarinnar, The Suburbs, Reflektor og Everyting Now.
Sviðsframkoman var stórbrotin og fagmannleg. Fyrst hittust meðlimir á réttum tíma fyrir framan sviðið, tóku hópknús eins og íþróttalið gera og fóru í gegnum áhorfendaskarann og gáfu fimmur. Margir símar sáust á lofti. Síðan hófst tónlistarveislan með titillaginu Everything Now. Lagið er undir ABBA-áhrifum í byrjun, það fór rólega af stað en svo bættust öll möguleg hljóðfæri sem leikið var á af gleði og innlifun og krafturinn varð hrikalegur. Tónninn var sleginn!
Söngvarinn stæðilegi og stofnandi sveitarinnar Win Butler fór fyrir liðinu og steig á stokk í rauðu skónum sínum og reif gítar hátt á loft. Ekki ósvipað og kyndilberi á Ólympíuleikum sem er að fara að tendra eldinn. Bróðir hans William Butler fór hamförum á sviðinu og var gaman að fylgjast með honum. Hann hoppaði á milli hljóðfæra, spilaði á hljómborð, barði á trommu og spilaði á gítar og stóð upp á hljómborðum. Hann ferðaðist kófsveittur um sviðið eins og api en kom ávallt inn á réttum stöðum. Magnað.
Alls voru níu liðsmenn Arcade Fire á sviðinu sem þakið var hljóðfærum. Mörg hljómborð og hljóðgervlar voru og tvö trommusett. Skiptust þeir reglulega á að spila á hljóðfæri af innlifun og minntu mig á Ljótu hálfvitana frá Húsavík.
Krafturinn og hljómurinn var mikill í byrjun og fjögur fyrstu lögin spiluð í einum rykk á háu tempói. Aðdáendur tóku vel við enda þekktir slagarar. Svo kom þakkarræðan um Ísland og hrósaði hann Björk mikið. Hún hafði mikil áhrif á bandið.
Sviðið og ljósin komu vel út í Höllinni og mynduðu stórbrotna umgjörð um tónleikana og gaman að bera saman þegar vinalega upphitunarhljómsveitin Kiriyama Family spilaði raftónlist fyrr um kvöldið. En þá voru ljós og myndræn framsetning ekki notuð. Tónleikagestir voru hrifnir og dönsuðu, sungu og klöppuðu taktfast í hitanum og svitanum.
Ég komst að því að vera illa lesin því síðari hluti tónleikanna var með nýjum lögum og þekkti ég þau ekki en fólkið í salnum tók vel undir. Ég hef síðustu daga verið að hlusta á lög af skífunni Everyting Now og líkar þau betur og betur. Margar laglínur hljóma nú fallega í hausnum á mér. Einna helst hefur enduruppgötvun mín á lögum Electric Blue og Sprawl II (Mountains Beyond Mountains) sem Régine Chassagne söng vaxið mjög en ég tengdi ekki við þau þegar hún flutti þau á sviðinu. Eina lagið sem ég saknaði var Intervention.
Þetta var skemmtilegt kvöld og gaf manni mikinn eldmóð fyrir veturinn.
Daginn eftir tónleikana átti ég leið í Ísbúð Vesturbæjar í Vesturbænum og var þá ekki stórsöngvarinn í Arcade Fire, Win Butler staddur þar og að kaupa sér bragðaref. Hann var klæddur í gallajakka merktum NOW-tónleikaferðinni. Það var töluverður fjöldi krakka að versla sér ís og létu þau hinn heimsfræga tónlistarmann algjörlega í friði. Kurteist fólk, Íslendingar. Líklegast er að þau hafi ekki vitað af því hver þetta var en landi hans Justin Bieber hefði ekki fengið að vera í friði. Svona er kynslóðabilið í tónlistinni.
Enginn gestur leið fyrir ákvörðunina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Breytt s.d. kl. 13:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.11.2012 | 01:18
Sigur Rós á Airwaves
Mætti með Særúnu á fyrstu tónleika Sigur Rósar í fjögur ár hér á landi á Airwaves hátíðinni. Um sjö þúsund manns voru mættir og margir erlendir aðdáendur sveitarinnar. Flestir með iPad og í lopapeysum.
Salurinn rólegur, prúður, kurteis.
Eftir klukkutíma upphitun og sama lagið sem var orðið leiðigjarnt, þá birtust goðin ásamt aðstoðarfólki, bakröddum og lúðrasveit. Það er allataf mikil veisla þegar Sigur Rós stígur á svið.
Fyrsta lagið hófst rólega en svo kom sprengja, vá. Hvílík snilld og gæðsahúð spratt fram. Sveitin var á bakvið tjald og birtust dulúðlega myndir á því. Eftir þrú lög féll tjaldið og sást þá sveitin vel. Litskrúðugt svið tók við með 180 gráðu tjaldi fyrir ofan og gaf lögunum meiri dýpt.
Boðið var upp á 90 mínútna tónleika með mikið af gömlu góðu lögunum, m.a. Glósóla og Hoppipolla, ásamt lögum af Valtara. Þó vantaði fyllingu í sum lögin, eins og hljóðið skilaði sér ekki. Í lokin kom æðilslegt lokalag með miklum ljósum og flæðandi tónum. Svo henti Jónsi fiðlustrengnum út í sal. Magnaður endir.
Þrisvar sinnum gæsahúð.
Eftir uppklapp komu þrjú lög, Fjögur píanó var eitt af þeim og kom vel út. Eitt nýtt lag sem ekki hefur heyrst áður. Það er mjög rokkað og minnti á U2 á tímabili. Brennisteinn heitir það. Það á eftir að gera góða hluti og ef restin af lögunum á plötunni verður í sama stíl, verður hún þrælþétt og góð.
En eins og Jónsi söng í laginu, Viðrar vel til loftárása, "það besta sem guð hefur skapað er nýr dagur". Þetta var góður dagur og vonandi verður morgundagurinn eins.
Mynd tekin á ógleymanlegum tónleikum í Öxnadal sumarið 2006.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 13:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.6.2010 | 17:57
Sunday Bloody Sunday
Írska hljómsveitin U2 hefur gert þennan atburð ógleymanlegan fyrir fólk um allan heim með laginu Sunday Bloody Sunday. Lagið er kraftmikið og tilfinningaþrungið. Árið 2005 fór ég á tónleika í London með U2 og að sjálfsögðu var lagið á listanum.
Ég tók upp smá bút af byrjun lagsins og bjó til myndband. Ég setti það á Youtube og fékk sterk viðbrögð og mikið áhorf. Myndbandið er búið að vera í tæp fjögur ár og 190.000 manns hafa skoðað það. Viðbrögðin í byrjun endurspegluðust í athugasemdum sem skrifaðar voru og það var mikill tilfinningaþungi. Ég var á tímabili að hugsa um að fjarlæga myndbandið svo hart tókust menn á.
Vonandi verður þessi skýrsla til að sætta menn. En lagið með U2 mun lengi lifa þrátt fyrir spurninguna: "How long must we sing this song?"
Cameron biðst afsökunar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.11.2009 | 10:56
Pakkhúsið besta tónleikahúsið
Hin fjölhæfa hljómsveit Hjaltalín er á hljómleikaferðalagi um landið. Í Rokklandi var Sigríður Thorlacius í viðtali hjá Óla Palla. Hún var spurð um það hvaða staður hefði verið bestur.
"Á Höfn", svarði hún. Pakkhúsið er besti staðurinn. Gott hljóð, góð nálægð og eflaust frábærir tónleikagestir.
Sama sagði Snorri Helgason fyrr í vikunni. Pakkhúsið er að rokka.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.6.2009 | 11:33
Ár frá Náttúrutónleikunum í Laugardal
Í dag er slétt ár síðan eftirminnilegir stórtónleikar með Sigur Rós og Björk voru haldnir í Laugardalnum. Voru þeir haldnir undir heitinu Náttúra. Vefsvæði þeirra er nattura.info. Yfir 30.000 manns mættu í dalinn og milljónir fylgdust með á Netinu.
Ég setti saman stutt myndband við lagið Glósóli með Sigur Rós. Á einu ári höfðu 12,437 manns horft á myndbandið á Youtube. Áhorfið var mest í kjölfar útitónleikanna. Margar athugasemdir hafa verið skráðar og nokkrir póstar komið til mín. M.a. náði ég að mæla meistaraverkinu Heima með Sigur Rós við aðdáanda í Mexíkó. Hann keypti eintak og var ánægður með mynddiskinn þó dýr væri. Það hefur margt breyst á þessu eina ári. Þarna mátti sjá Birgittu Jónsdóttur með fána Tíbets. Nú er hún komin á þing í gegnum Búsáhaldabyltinguna. Heimildarmyndin Draumalandið sýnd við góða aðsókn í kvikmyndahúsum og vakið miklar umræður. Skelfilegt bankahrun sem kallar á nýjar lausnir og vonandi verður það ekki á kostnað náttúrunnar.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.6.2009 | 09:29
Thriller
Michael Jackson (1958-2009), konungur poppsins og höfundur Thriller er allur. Þegar stórstjarna fellur frá er almenningur og fjölmiðlar fullir af fréttum af goðinu. Það selur. Hugur minn reikar aftur við að sjá fréttir um andlátið.
Mín helsta minning um Michael Jackson er Thriller. Platan sem innihélt níu topplög kom út árið 1982. Þá var ég í heimavist Menntaskólans að Laugarvatni. Ég minnist þess að hafa oft heyrt lagið Thriller keyrt í botni á Nös. Félagi Einar Örn spilaði það svo hátt í öflugum græjum sínum. Oft vaknaði maður upp við Thriller. Á ólíklegustu tímum. Þetta voru góðir og skemmtilegir tímar. Einar Örn spilaði Thriller svo oft fyrir heimavistina að ég keypti aldrei plötuna. Þurfti þess ekki. Nú rifjar maður upp góða og eftirminnilega tíma. Þökk sé Einari Erni og Michael Jackson.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 09:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.3.2009 | 18:47
U2 - NO L INE ON THE HOR I ZON
Er að fara að fíla nýju plötu U2 - No Line on the Horizon. Rokksveitin frá Írlandi hefur verið efst á vinsældalista mínum síðustu 25 ár, eða síðan ég heyrði The Unforgettable Fire á heimavistinni í Menntaskólanum að Laugarvatni. Ég féll því kylliflatur fyrir markaðssetningu Íranna í U2 sem eru með fyrirtækið skráð í skattaskjóli í Hollandi. Þetta er stærsta geislaplötuumslag sem ég hef eignast. Fjárfesti í Limited útgáfu fyrir 6.799 krónur sem inniheldur CD-geisladisk með 11 lögum og meðlæti, DVD með mynd eftir Anton Corbijn, 64 blaðsíðna bók og plakat. Þegar hvíta boxið er opnað sést að útgáfan er fagmannlega unnin. Er ekki að fíla framsetninguna á U2 merkinu. Of flókið.
Næsta vers er að skella disknum í tölvuna og setja allt í botn.
Fyrsta lagið, No Line On The Horizon er ekki að slá í gegn í hátölurum fartölvu minnar. Þetta er plata sem þarfnast hlustunar og pælingar. Það er auðheyrt. Spennandi tímar framundan.
Tónlist | Breytt 3.3.2009 kl. 09:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.1.2009 | 17:01
Í stígvélin - Get On Your Boots
Heyrði í morgun hjá nafna í Popplandi nýjasta lag U2, Get On Your Boots. Það er forsmekkurinn af nýju plötunni, "No Line on the Horizon".
Þetta er kraftmikið lag sem vinnur á við hverja hlustun. Það er frábrugðið því sem sveitin hefur verið að skapa á öldinni. Bassinn hjá Clayton er þungamiðjan í laginu og aðrir meðlimir sveitarinnar koma með innslög.
Markaðsdeildin hjá U2 er öflug. Platan nýja sem kemur út 2. mars og verður í fimm útgáfum. Vinyl, hefðbundið CD með 24 blaðsíðna bæklingi, Digipak format, Magazine format og Box format. Ætli maður endi ekki á þeirri veglegustu.
Hér er lagalistinn á Línulausa sjóndeildarhringnum:
1. No Line On The Horizon
2. Magnificent
3. Moment of Surrender
4. Unknown Caller
5. I'll Go Crazy If I Don't Go Crazy Tonight
6. Get On Your Boots
7. Stand Up Comedy
8. Fez - Being Born
9. White As Snow
10. Breathe
11. Cedars Of Lebanon
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.12.2008 | 19:42
Þjóðfundur á Arnarhóli
Ég átti leið um Arnarhól rétt fyrir kl. 15 í dag. Þangað lá leið margra á þjóðfund en yfir þúsund Íslendingar minntust Fullveldisdagsins fyrir 90 árum. Kröfðust fundarmenn breytinga í ríkisstjórn og eftirlitsstofnunum. Það var kalt í veðri. Ég var á hraðferð og stoppaði ekki lengi á hólnum. Ekki varð ég var við Vargastefnu við Stjórnarráðið en margar löggur voru á ferli. Það lá eitthvað í loftinu. Þegar Þjóðfundinum var lokið, tóku um 100 manns strikið niður í Seðlabanka og föluðust eftir upplýsingum um hvar Davíð keypti ölið. Ekki fengust neinar upplýsingar þar um mjöðinn. Urðu sumir mótmælendur snakillir er þeir fengu ekki svör og máluðu bankann rauðann.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 19:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.10.2008 | 01:46
Fátt er svo með öllu illt
Fór á minningar tónleika um Vilhjálm Vilhjálmsson í gær. Tónlistarlandsliðið var mætt til leiks og stóð sig vel. Það er mikilvæg auðlind sem ekki verður tekin frá okkur. Umgjörðin var glæsileg. Góðir og vel merktir stólar til að sitja á og flott myndrænt svið vel skreytt skjáum í svörtum sal Laugardalshallarinnar. Stórhljómsveit var á sviði skipuð valinum manni í hverju rúmi. Flutt voru 34 lög af nálægt tuttugu flytjendum. Ég var í yngri kanti tónleikagesta.
Mikið var lagt í tónleikana og myndmiðillin vel nýttur. Gagnleg innslög og viðtöl komu á milli laga og myndauðu góða heild. Við kynntumst Vilhjálmi betur og tíðarandanum. Óvæntustu innkomuna átti sonur Vilhjálms, Jóhann Vilhjálmsson í laginu Lítill drengur. Helgi Björnsson kom sterkur inn, sérstaklega í laginu Ég labbaði í bæinn. Bubbi fór vel með Hrafninn og nafni minn Rósinkrans byrjaði af krafti með Bíddu Pabbi og Heimkoma. Einnig var gaman að heyra í Helenu Eyjólfs og Þorvaldi á sjó. Aðrir landsliðsmenn stóðu sig með prýði en þrátt fyrir mikla hæfileika, náðu þeir ekki að toppa Vilhjálm. Upprunalega lagið er alltaf betra enda maðurinn með tæra og hreina rödd með einstæðum íslenskum framburði. Ómar Ragnarsson átti marga texta í syrpunni og sýnir það hversu fjölhæfur maður hann er. Besta lagið og frumlegasta framkoman var í laginu Tölum saman, en þar átti Vilhjálmur sviðið. Söngurinn var leikinn af bandi en undirleikur var fagmannlega leikinn af stórsveitinni.
Á tónleikunum fór maður 30 ár aftur í tímann. Ég náði fínni nostalgíu og tengingunni víð tímann en hann fylgir efnahaginum, en þar erum við einnig komin þrjátíu ár aftur í tíman eftir síðustu hamfarir. Þetta var annars ágætis tími, enginn leið skort. Efni tónleikanna á vel við í dag og sáu tónleikahaldarar skemmtilegan vinkil á lagavali. Endað var á laginu Fátt er svo með öllu illt en það á vel við í dag til að setja kraft í mannsskapinn.
En hugurinn hvarflaði þrjátíu ár aftur í tímann þegar Vilhjálmur hvarf af sviðinu.
Ég man þegar Vilhjálmur Vilhjálmsson lést. Þá var ég að keppa á Íslandsmóti í skák U-14 ára. Ég man að ég byrjaði mótið illa. Ég man að á degi tvö gekk mér vel og komst á hátt borð. Ég man að mér var rúllað upp og ákvað að koma ekki nálægt þessum snillingum á efstu borðum. Ég man eftir sigurvegaranum, Jóhann Hjartarson hét hann. Ég man að Halldóra systir var að tefla á mótinu og vakti mikla athygli en hún glímdi við nöfnu sína frá Eskifirði. Ég man að Vilhjámsæði greip um sig, ekki ósvipað og þegar Elvis lést nokkru áður.
Eftirminnilegir tónleikar og gæsahúð gerði vart við sig.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 01:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (16.9.): 112
- Sl. sólarhring: 249
- Sl. viku: 363
- Frá upphafi: 232709
Annað
- Innlit í dag: 99
- Innlit sl. viku: 323
- Gestir í dag: 99
- IP-tölur í dag: 96
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar