Færsluflokkur: Löggæsla
30.12.2018 | 11:42
Einbreiðar brýr í ríki Vatnajökuls
Þegar ég heimsótti átthagana um páskana árið 2016 var ég skelkaður vegna mikillar umferðar og hættum sem einbreiðar brýr skapa. Þá voru 21 einbreið brú, svartblettir í umferðinni á leiðinni. Ég ákvað að taka myndir af öllum brúm og senda alþingismönnum Suðurlands ábendingar með áhættumati sem ég framkvæmdi.
Einnig sendi ég umsögn til Umhverfis- og samgöngunefndar vegna Samgönguáætlunar 2015 - 2018. Þar komu fram nokkrar tillögur til úrbóta. Læt þær fylgja hér:
Úrbætur
- Draga úr ökuhraða þegar einbreið brú er framundan í tíma
- Hraðamyndavélar.
- Blikkljós á allar brýr, aðeins við fjórar brýr og blikkljós verða að virka allt árið.
- Útbúa umferðarmerki á ensku
- Fjölga umferðamerkum, kröpp vinstri- og hægri beygja, vegur mjókkar
- Setja tilmælaskilti um hraða í tíma við einbreiðar brýr og aðra svartbletti, t.d. 70, 50, 30 km hraði.
- Skoða útfærslu á vegriðum
- Fræðsla fyrir erlenda ferðamenn
- Virkja markaðsfólk í ferðaþjónustu, fá það til að ná athygli erlendu ferðamannanna á hættunni án þess að hræða ökumenn
- Nýta SMS smáskilaboð eða samfélagsmiðla
- Betra viðhald
- Bæta göngubrú norðan megin við Jökulsárlón á Breiðamerkursandi
- Styrkja þarf brýr, sú veikasta, Steinavötn tekur aðeins 20 tonn
Þegar erlend áhættumöt eru lesin, þá hafa brúarsmiðir mestar áhyggjur af hryðjuverkum á brúm en við Íslendingar höfum mestar áhyggjur af erlendum ferðamönnum á einbreiðum brúm.
Mér finnst gaman að lesa yfir úrbótalistann tæpum þrem árum eftir að hann var gerður og áhugavert að sjá minnst á brúna yfir Steinavötn en hún varð úrskurðuð ónýt um haustið 2017 eftir stórrigningu.
Það virðist vera stemming núna að lækka hámarkshraðann en hraðinn drepur. Vegrið á Núpsvatnabrúnni uppfylla ekki staðla og fræðsla hefur verið fyrir erlenda ferðamenn hjá Samgöngustofu.
Um sumarið 2016 voru gerðar úrbætur. Fjárveiting fékkst og fór nokkrar milljónir í að laga aðgengi að einbreiðum brúm. Blikkljós voru sett við allar einbreiðar brýr í Ríki Vatnajökuls og málaðar þrengingar að brúm en sumar sjást illa í dag. Umferðamerkjum var fjölgað og merking samræmd.
Við það minnkaði áhættan nokkuð og alvarlegum slys urðu ekki fyrr en á fimmtudaginn er 3 erlendir ferðamenn fórust í hörmulegu slysi á brúnni yfir Núpsvötn.
Það er loks komin áætlun en það var markmið með erindi mínu til Umhverfis- og samgöngunefndar. Í samgönguáætlun 2019 -2023 er gert ráð fyrir að átta einbreiðar brýr verði eftir á vegkaflanum milli Reykjavíkur og austur fyrir Jökulsárlón í lok árs 2023.
Þá sé í tillögu að samgönguáætlun fram til ársins 2033 áætlað að skipta út sex brúm í viðbót, þannig að í lok þess árs verði tvær einbreiðar brýr eftir á vegkaflanum. Það er annars vegar brúin yfir Núpsvötn og brúin á Jökulsá á Breiðamerkursandi.
Það þarf að setja brúna yfir Núpsvötn í hærri forgang eftir atburði síðustu daga. Uppræta þarf ógnina. Bæta öryggi á íslenskum vegum og þannig fækka slysum.
Kostaður samfélagsins af umferðarslysum síðustu tíu árin er rúmir fimm hundruð milljarðar króna eða að meðaltali um fimmtíu milljarðar árlega. Á sama tíma hefur Vegagerðin fengið um 144 milljarða króna til nýframkvæmda. Hér er vitlaust gefið.
En þetta er áætlun á blaði og vonandi heldur hún betur en samningurinn um heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar sem getið var í stjórnarsáttmálaunum og ætla Sjálfstæðismenn svíkja það loforð.
Heimildir
Umferðarslys á Íslandi 2017 - Samgöngustofa
Löggæsla | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.2.2018 | 16:06
Refurinn ***
Refurinn eftir Sólveigu Pálsdóttur er fjórða saga höfundar. Sögusvið bókarinnar er í Höfn í Hornafirði og Lóninu. Þetta er því áhugaverð bók fyrir Hornfirðinga og nærsveitarmenn.
Höfundur hefur kynnt sér umhverfið ágætlega. Ýmsum raunverulegum hlutum er fléttað inn í söguna. Flugvöllurinn, Kaffihornið, herstöðin á Stokksnesi og landsmálablaðið Eystrahorn koma við sögu. Einnig Hafnarbraut, Náttúrustígurinn og í lokin einbreiða brúin yfir Hornafjarðarfljót.
Einangrun en meginþemað. Einangrun bæjarins Bröttuskriður austast í Lóni nálægt Hvalnesskriðum. Einangrun söguhetjunnar vegna ólíks menningarlæsis og einangrun löggunnar Guðgeirs.
Hafnarbúar koma vel út, eru hjálpsamir, sérstaklega flugafgreiðslumaðurinn enda líta innfæddir Hornfirðingar á ferðaþjónustuna sem þjónustu en ekki iðnað.
En söguhetjurnar eru ekki fullkomnar frekar en annað fólk. Söguhetjan Sajee er frá Sri Lanka og skilur íslenskt talmál bærilega en er með lélegan lesskilning. Hún kemur fljúgandi til Hornfjarðar og átti að hefja vinnu við snyrtistofu Hornafjarðar en það var blekking. Hjálpsamur hóteleigandi finnur ræstingarvinnu fyrir hana á Bröttuskriðum undir hrikalegu Eystrahorni í nábýli við álfa og huldufólk. Þar búa mæðgin sem eru einöngruð og sérkennileg. Sajee leiðist vistin og vill fara en er haldið fanginni. Engin saknar hennar því hún á ekki sterkt bakland á Íslandi.
Fyrrverandi lögregluþjónn sem vinnur hjá Öryggisþjónustu Hornafjarðar fær þó áhuga á afdrifum erlendu konunnar og hefur eigin rannsókn. Þá hefst óvænt flétta sem kom á óvart en bókarhöfundur hafði laumað nokkrum upplýsingum fyrr í sögunni. Það er því gaman að sjá hvernig kapallinn gengur upp.
Ágætis krimmi með #metoo boðskap, saga sem batnar þegar á bókina líður.
Tenglar:
Salka bókaútgáfa: https://cdn.shopify.com/s/files/1/1090/3582/products/Refurinn_web_1024x1024.jpg?v=1509525051
Kiljan:
http://www.ruv.is/sarpurinn/klippa/solveig-palsdottir-segir-fra-bok-sinni-refurinn
Skáld.is:
Löggæsla | Breytt s.d. kl. 16:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.12.2017 | 01:14
Myrkrið veit ****
Bókin Myrkrið veit eftir Arnald Indriðason er áhugaverð bók enda varð hún söluhæsta bók ársins.
Í þessari glæpasögu er kynntur nýr rannsóknarlögreglumaður til leiks, Konráð heitir hann og kynnist maður honum betur með hverri blaðsíðu. Hann er nokkuð traustur og áhugaverður, flókinn æska og með brotinn bakgrunn, visna hönd og persónuleg vandamál eins og allir norrænir rannsóknarlögreglumenn. Í lok sögunnar kemur skemmtilega útfært tvist á karakter Konráðs.
Það sem er svo áhugavert við bækur Arnaldar er persónusköpun hans og hvernig hann kynnir hverja og eina persónu til leiks. Einnig er tækni höfundar góð við að setja lesandann niður í tíðarandann. Fólk sem komið er á miðjan aldur kannast við mörg atriði sem fjallað er um og getur samsamað sér við söguna.
Dæmi um það er Óseyrarbrúin og Keiluhöllin í Öskjuhlíð. Þessi mannvirki koma við sögu og fléttast inn í sögusviðið og gera söguna trúverðugri. Ég fletti upp hvenær mannvirkin voru tekin í notkun og stenst það allt tímalega séð. Keiluhöllin var tekin í notkun 1. febrúar 1985 og Óseyrarbrú 3. september 1988. Stafandi forsætisráðherrar voru aðal mennirnir við vígsluathafnirnar.
En í sögunni eru þrjú tímabil, morðið á Sigurvin árið 1985, bílslys árið 2009 og sagan lokarannsókn Konráðs sem kominn er á eftirlaun árið 2016.
Einnig er falleg sena um Almyrka á tungli á köldum morgni á vetrarsólstöðum árið 2010 en þá yfirgefur eiginkona Konráðs jarðlífið. Allt gengur þetta upp. Annað sem er tákn í sögum Arnaldar er bíómyndir en þær koma ávallt við sögu, rétt eins og jarðarfarir í myndum Friðrik Þórs.
Sögusviðið þarf að vera nákvæmt fyrir Íslendinga. Eða eins og Ari Eldjárn orðaði svo skemmtilega í spaugi um kvikmyndina Ófærð: Hvernig eiga Íslendingar að geta skilið myndina þegar maður gengur inn í hús á Seyðisfirði og kemur út úr því á Siglufirði.
Toppurinn í nostalgíunni er innslagið um rauðvínið The Dead Arm, Shiraz frá Ástralíu. (bls. 186) - Sniðug tengin við visnu höndina og lokasenuna en vínið er staðreynd.
Eini gallinn í sögunni og gerir hana ósannfærandi er að Arnaldur hefur gleymt verðbólgudraugnum, peningar sem finnast í íbúð virðast ekkert hafa tapað verðgildi sínu.
Ég var einnig hrifin af elementum sem koma við sögu í bókinni en jökull, brýr loftslagsbreytingar, léttvín og kvótakerfið koma við sögu. Einnig minnir líkfundurinn í Langjökli mann á Geirfinns og Guðmundarmál, endurupptaka en jöklarnir vita svo margt.
Myndlíkingin við Ölfusá er tær skáldasnilld hjá Arnaldi, þegar ein sögupersónan situr þar og horfir í fljótið en jökullin sem er að bráðna geymdi líkið í 30 ár.
Það er einnig húmor og léttleiki í sögunni, meiri en ég hef átta að venjast frá Arnaldi.
Sem sagt vel skrifuð og fléttuð bók en glæpurinn og lausn hans er frekar óspennandi og liggur stundum í dvala.
Hönnun á bókarkápu er glæsileg, form andlit í jöklinum. Vel gert.
Tenglar:
Óseyrarbrú - http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=122021&pageId=1688158&lang=is&q=%D3seyrarbr%FA
Keiluhöllin - http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=119930&pageId=1605489&lang=is&q=KEILUH%D6LLIN%20Keiluh%F6llin
Almyrkvi tungls - http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=339641&pageId=5343991&lang=is&q=tungl%20tungl
Löggæsla | Breytt s.d. kl. 01:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.8.2016 | 11:32
Einbreiðar brýr í ríki Vatnajökuls - endurskoðað áhættumat
Fagna mjög nýjustu fréttum frá fjárlaganefnd um breytta forgangsröð á innviðum landsins og að einbreiðum brúm verði útrýmt á næstu árum.
"Það krefjist mikilla samgöngubóta með fækkun einbreiðra brúa svo dæmi sé tekið." - segir í frétt á ruv.is
Það þokast í umferðaröryggismálum. Því ber að fagna.
Í vor framkvæmdi undirritaður úttekt á einbreiðum brúm í Ríki Vatnajökuls, tók myndir og sendi niðurstöður víða, m.a. til Innanríkisráðuneytisins, fjölmiðla og þingmanna.
Undirritaður tók myndir af öllum 21 einbreiðum brúm í fyrri ferð og einnig í ferð í síðust viku. Niðurstaða, óbreytt áhættumat!
- Engar breytingar eru varðandi blikkljós, aðeins eru fjögur.
- Lækkaður hámarkshraði er aðeins á tveim brúm, Jökulsárbrú (70-50-30 km) og Hornafjarðarfljóti (50 km).
- Leiðbeinandi hámarkshraði er hvergi.
- Upplýsingar til erlendra ferðamanna eru ekki sjáanlegar
Eina breytingin sem sjáanleg er að við nokkrar brýr hafa yfirborðsmerkingar verið málaðar. Línur hafa verið málaðar og alls staðar eru málaðar þrengingar, vegur mjókkar, á veg en sú merking er ekki til í reglugerð. Spurning um hverju þetta breytir þegar snjór og hálka sest á vegina í vetur.
Niðurstaðan er að áhættumatið er óbreytt milli úttekta.
Nú er spurningin til innanríkisráðherra, þegar vika er liðin af ágúst: er fjármagnið búið eða koma fleiri umferðarskilti með hámarkshraða eða leiðbeinandi hraða í ágúst og blikkljós en þau eru stórlega vanmetin?
Yfirlit yfir einbreiðar brýr í Ríki Vatnajökuls, 21 alls og niðurstaða úr endurskoðuðu áhættumati.
Vefur sem safnar upplýsingum um einbreiðu brýrnar.
https://www.facebook.com/EinbreidarBryr/?ref=aymt_homepage_panel
Löggæsla | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.2.2016 | 17:47
#Ófærð
Á sunnudagskvöld verður uppgjörið í #Ófærð. Tveir síðustu þættirnir sýndir í beit. Þetta verður gott sjónvarpskvöld.
Ég er með kenningu um skúrkinn. Læt hana flakka svona rétt fyrir opnun. Einnig mögulegar fléttur.
Geirmundur er ekki dauður. Hann er skúrkurinn, hann kveikti elda. Líkið er af óheppnum Litháa. Niðurstöður DNA eiga eftir að leiða það í ljós. Einnig að blóðið á vélsöginni sé af hreindýri ekki líkinu sem Siggi hurðaskellir flutti á haf út.
Eiríkur sem Þorsteinn Gunnarsson leikur er arkitektinn á bakvið brunann í frystihúsinu, hann og Geirmundur tendruðu elda til að svíkja út tryggingabætur. Dóttir Eiríks var óvænt inni.
Hótelstjórinn, Guðni hefur tekjur af mannsali rétt eins og fatasaumarinn í Vík. Frystihúsastjórinn Leifur er óheppin að tengjast því sem og Dvalinn, sá færeyski sem er ekki góður pappír.
Kolbrún kona Hrafns er arkitektinn á bakvið nýhafnarspillinguna ásamt fermingarsystkinum.
Trausti SAS-rannsóknarlögreglumaður á þátt í hvarfi Önnu í málinu sem Andri átti að hafa klúðrað.
Bárður hasshaus á eftir að áreita eldri stúlkuna.
Sigvaldi nýi kærastinn og Ásgeir lögga hafa of mikla fjarvistarsönnun að mínu mati. Ásgeir á eitt lekamál á samviskunni en þarf ekki að segja af sér.
Friðrik alþingismaður, leikinn af Magga glæp, er bara spilltur alþingismaður.
Maggi litli gæti verið Hrafnsson.
Ég trúi engu vondu upp á Steinunni Ólínu (Aldís) þó hún hafi haldið aðeins tekið hliðarspor með Hjálmari og hinn meinlausa Rögnvald sjóræningja.
Gaman að erlendar stöðvar taka spennuþáttaröðinni vel. Íslenskur vetur er alveg ný upplifun fyrir þá. Merkilegt að útlendingar skuli geta munað nöfnin, ég er enn að læra nöfn sögupersóna. Kuldinn selur. Snjallt hjá Baltasar og Sigurjóni Kjartanssyni og félögum að nota íslenskan vetur í krimma í anda Agötu Christie.
Það eru svo margir boltar á lofti. En í könnun á ruv.is eru 3% með Geirmund grunaðann.
Sé þetta allt kolvitlaust, þá er hér kominn hugmynd að fléttu í næstu þáttaröð af #Ófærð II
Guð blessi Ófærð.
Löggæsla | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.9.2015 | 22:24
Hvannalindir
Lífskraftur er fyrsta orðið sem manni dettur í hug þegar maður sér rústirnar í Hvannalindum en þær eru umkringdar hálendiseyðimörk. Hvílík ofurmenni hafa Fjalla-Eyvindur og Halla verið, að geta lifað veturinn af. En þau söguð sig úr lögum við samfélagið eða samfélagið grimmt við þau.
Hún er athyglisverð fréttin á ruv.is vefnum en Minjastofnun Íslands tók í sumar þrjú bein úr gömlum rústum af vistarverum fólks sem hafðist við í Hvannalindum.
"Kolefnisgreining á beinum sem fundust í Hvannalindum rennir stoðum undir þá kenningu að dularfullur mannabústaður þar hafi verið skjól Fjalla-Eyvindar og Höllu eða annarra útilegumanna sem höfðu sagt sig úr lögum við samfélagið á 18. öld."
Samkvæmt greiningunni séu beinin líklegast frá um 1750 en skekkjumörkin séu 33 ár.
Upplýsingasteinar í Hvannalindum
"Hvannalindir eru gróðurvin í um 640 metra hæð undir Lindahrauni í skjóli af Lindafjöllum og Krepputunguhraunum að vestan og Kreppuhrygg að austan."
Séð inn í rústirnar. Kristján Eldjárns rannskaði þær sumarið 1941 og taldi þær hafa verið einangraðar með gærum.
Í rústunum fundust, útihúss, mosavaxinn eldiviðarköstur, steinpottur og ausa úr hrossherðablaði.
Heimildir
Rúv. Bein styrkja tilgátu um bú Fjalla-Eyvindar
Löggæsla | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.11.2011 | 22:37
Busavígsla í Pentlinum
Þegar siglingar með fisk voru stundaðar af kappi til Hull og Grimsby heyrði maður margar sögur af "Pentlinum" og þeim mikla straum sem liggur um hafsvæðið norðan Skotlands við Orkneyjar.
Nokkrar sögur gengu af því er skipið, yfirleitt í vondu veðri og alveg að verða olíulaust, gekk á fullum hraða áfram, 12 mílur en færðist aftur um tvær mílur á siglingartækjunum. En alltaf enduðu þessar sögur vel.
Ein hefð er þó haldin þegar sjómenn fara í gengum hinn fræga Pentil í fyrsta skiptið. En þar eru þeir busaðir.
Ég var togarasjómaður á Þórhalli Daníelssyni, SF-71 og seldum við í Hull í nóvember 1985. Ekki sluppum við við busun en hún var meinlaus en skemmtileg. Ég á enn til verðlaunin sem ég fékk eftir að hafa tekið við smá sjó úr Pentilnum. Ró og skinna í benslagarni. Geymi "Pentil-orðuna" hjá hinum verðlaunapeningum mínum.
Þessi busavígsla er ekkert á við það sem ungi sjóveiki drengurinn sem lenti í svona vægri busun hjá skipsfélögum sínum í fyrstu veiðiferð. Manni verður óglatt við að lesa niðurstöðu dómsins og skuggi fellur á hetjur hafsins.
Gott hjá stráknum og móður hans að kæra málið. Vonandi verður það til að vekja umræðu og aga sjómenn.Níddust á 13 ára dreng í veiðiferð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Löggæsla | Breytt 16.11.2011 kl. 11:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.8.2011 | 00:14
Veikleiki í þráðlausum netum
Bloggarinn og forritarinn frá Hollandi, Nick Kursters er orðinn þekktur fyrir að brjóta upp algrímið fyrir þráðlausa beina. Ein vinsælasta greinin sem hann hefur skrifað er um hvernig hægt er að finna út WPA-lykilorð fyrir Thompson SpeedTouch beina en þeir eru mjög algengir hér á landi. Á bloggsíðu Nick's er hægt að framkvæma leit að WPA lykilorði ef SSID-númer beinis er þekkt.
Hugmynd Thompson-manna var að útbúa sérstakt algrím til að útbúa sérstakt lykilorð fyrir hvern beini (router). Bæði SSID nafn beinis og WPA-lykilorð eru á límmiða neðst á tækinu. SSID stendur fyrir Service Set IDentifier eða nafn á staðarneti.
Áður en lengra er haldið er eflaust ágætt að skilgreina skammstafanirnar. WPA/WPA2 er öflug dulkóðun sem byggir á breytanlegum lyklum. WPA2 er sterkust, mun öflugri dulkóðun en WEP.
Hættan er sú að þriðji aðili komist inn á þráðlausa staðarnetið, nýtt sér öryggisholuna, og geti notað tenginguna til að hlaða niður ólöglegu efni eða hlera samskipti. Öll notkun gegnum þráðlaust net verður rakin til IP-númers eiganda þráðlausa netsins jafnvel þótt hann eigi ekki hlut að máli. Í slíkum tilfellum getur hann lent í þeirri sérkennilegu stöðu að þurfa að afsanna óæskilegt athæfi
Lausn er að breyta sjálfgefni uppsetningu beinisins.
Síminn er með góðar leiðbeiningar um hvernig hægt er að breyta uppsetningunni. Einnig er góð regla að slökkva á beini þegar hann er ekki í notkun.
Á vefnum netoryggi.is eru góðar leiðbeiningar um notkun þráðlausra staðarneta.
Hér er mynd af leitaniðurstöðunni á vefnum hjá Nick Kusters. Fyrst er slegið inn SSID númer SpeedTouch beinisins, sex síðustu stafirnir í heitinu eru notaðir. Síðan skilar leitin niðurstöðunni. Neðsta röðin gildir fyrir beininn sem flett var upp.
Hér koma þrjár niðurstöður úr leitinni. Fyrst SSID er þekkt, þá er hægt að finna úr raðnúmer beinisins og reikna út WPA2 lykilinn.
Þetta eru ekki flókin fræði sem þarf til að komast inn í þráðlaus samskipti. Því þarf notandi ávallt að vera vel á verði. En mig grunar að allt of mörg þráðlaus staðarnet séu óvarin hér á landi.
Löggæsla | Breytt s.d. kl. 00:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.10.2010 | 12:03
Mjög alvarlegur upplýsingaleki hjá Hraðpeningum
503 Service Unavailable
Þannig svarar þjónninn sem svarar fyrir leppaludar.com. Á vefsvæðinu er viðkvæmur listi í Excel skrá yfir 1.500 lántakendur hjá okurlánafyrirtækinu Hraðpeningar.
Á vef Pressunar eru tvær fréttir um málið í dag.
Þetta er mjög alvarlegt atvik. Persónuupplýsingar á Netinu. Það sem fer á Netið verður á Netinu. Svo einfalt er það.
Nú þarf lögreglan að finna út hverjir reka vefinn leppaludar.com og upplýsa málið.
Fjármálaeftirlitið ætti að gera kröfu um að allar bankastofnanir vinni eftir alþjóðlegum öryggisstöðlum til að minnka líkur á að svona gerist. ISO/IEC 27001 upplýsingaöryggisstaðalinn er eini aljóðlegi staðallinn. Grundvallaratrið staðalsins er verndun upplýsinga gegn þeim hættum sem að upplýsingunum steðja.
Einnig eru þarna upplýsingar um krítarkort og þá þarf að setja kröfu um að fjármálafyrirtæki uppfylli PCI DSS-staðalinn.
Hér fyrir neðan er skjámynd sem sýnir hvernig hægt var að finna Excel-skránna á Netinu með því að gúggla.
Löggæsla | Breytt s.d. kl. 12:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.5.2010 | 10:26
Rafbarbarinn Rubico
En hvernig komst Rubico inn í tölvupóst Palin?
Í grein í Computerworld er innbrotið útskýrt en í stuttu máli notaði hann endurstillingu á lykilorðum og aflaði sér svara við spurningum sem póstkerfið bað um með því að lesa samfélagsvefi sem Palin var skráð á.
Þetta atvik segir fólki að það ber að hafa varan á sér þegar frípóstur er notaður. Einnig á fólk ekki að geyma mikilvægar eða persónulegar upplýsingar á frípósti. Öryggið er ekki nógu mikið.
En góðu fréttirnar eru þær að rekjanleiki er í rafheimum og þrjótar fá sína refsingu, amk ef þeir búa í sama landi. Hins vegar vandast málið ef heimsálfur skilja fórnarlambið og rafbarbarann af.
blank_page
Fundinn sekur um að hakka tölvu Palin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Löggæsla | Breytt s.d. kl. 10:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (16.9.): 114
- Sl. sólarhring: 251
- Sl. viku: 365
- Frá upphafi: 232711
Annað
- Innlit í dag: 101
- Innlit sl. viku: 325
- Gestir í dag: 101
- IP-tölur í dag: 98
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar