Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál

Land föður míns

Ich bin ein Berliner!

Ég heimsótti Berlín í vor yfir helgi, naut lífsins og kynntist sorglegri sögu borgarinnar.  Hótelið var á Alexanderplatz stutt frá helsta stolti Austur-Þýskalands, 368 m háum sjónvarpsturni milli Maríukirkjunnar og rauða ráðhússins, en hverfið tilheyrði Austur-Berlín og því sáust styttur af Karl Marx og Friedrich Engels í almenningsgörðum. Húsin í hverfinu voru í austurblokkarstíl en þegar gengið var eftir skemmtigötunni: „Unter den Linden", sem er veglegasta gatan í Berlín tók glæsileikinn við.

Þar var Humboldt háskólinn sem hefur alið 29 nóbelsverðlaunahafa, Dómkirkjan, DDR-safnið, safnaeyjan, glæsileg sendiráð, áin Speer með fljótabátinn Captain Morgan. Trabantar í öllum litum vöktu athygli og við enda götunnar er helsta kennileiti Berlínar, Brandenborgarhliðið. Skammt frá hliðinu er Þinghús Þýskalands með sína nýtísku glerkúlu.

Íslenska sendiráðið í Berlín var einnig heimsótt en það er sameiginlegt með Norðmönnum, Svíum, Finnum og Dönum. Flott hönnun, sameiginleg móttaka en sjálfstæðar sendiráðsbyggingar. Vatnið milli sendiráðanna á reitnum táknar hafið á milli landanna.

Í mat og drykk var þýskt þema. Hofbrau-Berlin var heimsótt, ekta þýskur bjórgarður og snætt svína schnitzel með Radler bjór.  Síðar var Weihnstephan veitingastaðurinn heimsóttur og snætt hlaðborð frá Ölpunum sem vakti mismikla lukku.

Í borgarferðum er nauðsynlegt að fara í skipulagða skoðunarferð og þá bættist við sagan um 17. júní strætið, leifar af Berlínarmúrnum sem klauf borgina í tvennt, nýbyggingar á dauða svæðinu á Potsdamer Platz, Neukölln, Tempelhof flugvöllurinn, Bessastaði Þýskalands, Bellevue Palace eða forsetahöllina, tómt heimili kanslarans en núverandi kanslari, Angela Merkel býr í eigin íbúð, umhverfisvænt umhverfisráðuneyti,  Checkpoint-charlie, Zoo Station sem minnti á Actung Baby plötu U2, heimili Bowie á Berlínarárum hans, höfuðstöðvar Borgarlínu Berlínar, HB, kebab, aspars og Berliner weissbier.

Hjá Zoo Station mættust gamli og nýi kirkjutíminn. Hálfsprengd minningarkirkja Vilhjálms keisara minnti á heimsstyrjöldina síðari en hryðjuverk voru framin þarna 19. desember 2016 þegar 11 létust er vörubifreið var ekið á fólk á jólamarkaði.

Minningarreitur um Helförina var heimsóttur. 2.711 misstórar gráar steinblokkir sem minna á líkkistur. Aldrei aftur kom í hugann. Kaldhæðnislegt að jarðhýsi Hitlers var stutt frá.

Áhrifamikill staður var minningarreitur í Treptower Park um sovéska hermenn sem féllu í orrustunni um Berlín í apríl-maí 1945. Um 80.000 féllu og eru 5.000 hermenn Rauða hersins grafnir þarna. 
Á leiðinni að stærsta minnismerkinu, 12 metra styttu af hermanni með sverð og brotinn hakakross, haldandi á barni voru steinblokkir sem táknuðu eitt af ráðstjórnarríkjunum.

Land föður míns

Land-fodur-minsÞegar hugurinn reikaði um orrustuna um Berlín í Treptower garðinum þá rifjaðist upp að hafa heyrt um bók, Land föður míns eftir þýsku blaða- og sjónvarpskonuna Wibke Bruhns. Ég varð ákveðinn í að kaupa þessa bók og lesa strax við heimkomu.

Bókin er stórmerkileg og mjög áhrifamikil eftir stutta Berlínarferð. Maður lifði sig betur inn í söguna og hápunkturinn er þegar Wibke lýsir gönguferð föður síns eftir götunni Unter den Linden eftir loftárás bandamanna. Flestar byggingar hrundar og eldur logaði víða. Vatnslaust og rústir þriðja ríkisins blasa við.  Þetta  kallaði á gæsahúð.

Lesandinn fær beint í æð í einum pakka sögu Þýskalands allt frá því það var keisaradæmi, atburðarás tveggja styrjalda og hina undarlegu sögu millistríðsáranna með uppgangi Nasista. Um leið og höfundurinn rekur sögu fjölskyldu sinnar reynir hún að greina afstöðu þeirra og þátttöku í voðaverkum stríðsins.

Wibke hefur úr miklu magni af skjölum föður síns og ættar sinnar Klamrothanna í Halberstadt sem voru efnamiklir kaupsýslumenn og iðnjöfrar. Hún nær að kynnast foreldrum sínum upp á nýtt og miðla okkur af heiðarleika, ekkert er dregið undan.


Ice and the Sky ***1/2

Sá þessa áhugaverðu heimildarmynd, Ísinn og himininn (e. Ice and the Sky) um jöklafræðinginn Claude Lorius eftir franska leikstórann Luc Jacquet í Bíó Paradís á föstudaginn en sýningin var í tengslum við Arctic Circle ráðstefnuna. En Lorius og samstarfsmenn unnu frækileg vísindaafrek í kuldanum á Suðurskautslandinu og náðu að lesa hitastig jarðar 800 þúsund ár aftur í tímann með því að bora niður í jökulinn og lesa upplýsingar úr ískjörnum. Frakkar unnu með Bandaríkjamönnum og síðar Sovétmönnum að vísindarannsókum í kalda stríðinu. Friður og vísindi.

Ísinn og himininnÞetta er köld mynd og sýnir hversu mikinn viljastyrk og mikla fróðleiksfýsn Lorius og vísindamennirnir sem unnu með honum höfðu. Mér kom i hug bókin Himnaríki og helvíti eftir Jón Kalman við áhorfið. Vísindamenn að skrá upplýsingar og bora niður í jökulinn meðan pósturinn glímdi við íslenskar heiðar.

Heimildarmyndin er byggð upp með efni sem leiðangursmenn tóku á eigin upptökuvélar og svo er Lorius á sama stað og horfir yfir sviðið, bæði á Suðurskautslandinu og í brenndum skógi. Hann talar ekkert en þulur þylur spekina sem greindarlegt andlit aldna vísindamannsins gefur frá sér.

Maðurinn hefur áhrif allsstaðar og daglegar gjörðir okkar hafa áhrif um allan heim. Líka á Antartíku þar sem aðeins örfáir menn stíga niður fæti.

Eftir sýninguna sagði Jacquet frá gerð myndarinnar og markmiðum hennar. Fræða fólk, sérstaklega unga fólkið. Þegar hann var spurður um hvað almenningur gæti gert til að minnka loftslagsbreytingar svaraði Luc: Almenningur að kjósa umhverfisvænt fólk á þing út um allan heim og fólk þarf að finna hamingjuna í öðru en glæsibifreiðum og flatskjám.

Áhugaverð mynd um loftslagsbreytingar og framlag merkilegs vísindamanns.


75 frá hernámi Noregs

Nú eru liðin 75 ár síðan Þjóðverjar hernámu Noreg og Danmörku í heimsstyrjöldinni síðari.

Mér var hugsað til 10. apríl fyrir 75 árum er ég var í skoðunarferð á smáeyju sem hýsir virkið Oscarsborg í Oslóarfirði fyrir þrem árum. Eyjan er vel staðsett í miðjum firðinum gengt þorpi sem heitir Drøbak.

Mánuði fyrir hernám Íslands, þann 9. apríl  1940 var mikil orrusta á Drøbak-sundi, sú eina sem háð var við eyjuna meðan hún var útvörður.  Þjóðverjar höfðu áformað að hertaka Noreg með hernaðaráætluninni Operation Weserübung en hún byggðist á því að senda flota með fimm herskipum til landsins. Þegar Oslóarsveitin kom nálægt Oscarsborg, gaf hershöfðinginn Birger Eriksen skipun um að skjóta á þýsku skipin. Forystuskipið Blücher var skotið niður og tafðist hernámið um sólarhring. Kóngurinn, ríkisstjórnin og þingið með gjaldeyrisforðann gat nýtt þann tíma til að flýja höfuðborgina.

Árið 2003 yfirgáfu hermenn eyjuna og nú er hún almenningi til sýnis.  Mæli ég með skoðunarferð til eyjarinnar og tilvalið að sigla aðra leiðina frá Osló.

Safnið í virkinu var mjög vel hannað og stórfróðlegt að ganga um salina sem sýndu fallbyssur frá ýmsum tímum ýmis stríðstól. Fyrir utan virkið voru svo öflugar fallbyssur sem góndu út fjörðinn. Orrustunni við Nasista voru gerð góð skil.  En hún er mjög vel þekkt í Noregi.

Mikið var manni létt að þurfa ekki að upplifa það að vera kvaddur til herþjónustu og forréttindi að búa í herlausu landi.  Stríð eru svo heimskuleg.  Mér dettur strax í hug speki Lennons - "Make Love, not War".

En hernám Þjóðverja á Noregi setti af stað atburðarás sem gerði Íslendinga ríka.

Oscarsborg

Eyjurnar tvær með Oscarsborg virkið og fallbyssur á verði. Það sérmóta í rætur Håøya, hæstu eyjarinnar í Oslóarfirðinum.

 


Nautagil

Geimfarar NASA sem komu til Íslands til æfinga fyrir fyrstu mönnuðu tunglferðina 1969 og Nautagil hafa verið í umræðunni síðustu daga. Sýning um heimsókn geimfarana er haldin á Húsavík og Hillary Clinton utanríkisráðherra Bandaríkjanna bað að heilsa Húsvíkingum af því tilefni eftir fund með Össuri Skarphéðinssyni kollega sínum.

Ég heimsótti Nautagil árið 2006 og varð mjög hrifinn. Læt frásögn sem ég skrifaði stuttu eftir ferðalag í Dyngjufjöll fylgja hér á efir.

Nautagil

“Þarna sjáið þið Herðubreiðartögl, Herðubreið, Kollóttadyngju, Eggert og Herðubreiðarfjöll. Fleiri örnefni eru ekki hér”. Sagði Jakob leiðsögumaður í hljóðnemann og kímdi.  Minnugur þessara orða á leiðinni í Lindir fyrr í ferðinni, búinn að skilja nytjahyggju og af hverju örnefnafátæktin stafaði. Bændur höfðu ekkert á miðhálendið að gera og slepptu því að gefa  enn einu Lambafellinu, Svínafellinu og Hrútafjallinu nafn. Þá kom upp spurningin, “Hvað voru naut að þvælast hér?”.

Svarið kom á leiðinni í Nautagil. Geimfarar NASA sem unnu að Appolo geimferðaáætluninni komu tvisvar til Íslands til æfinga fyrir fyrstu tunglferðina en þeir töldu aðstæður í Öskju líkjast mjög aðstæðum á tunglinu. Þeir komu fyrst í Öskju árið 1965 og tveim árum síðar með minni hóp.  Kíkjum á frásögn Óla Tynes í  Morgunblaðinu  4. júlí 1967.

"Frá skálanum [Þorsteinsskála] var haldið inn að Öskju og fyrst farið í eitthvert nafnlaust gil sunnan megin við Drekagilið og þar héldu þeir Sigurður Þórarinsson og Guðmundur Sigvaldson jarðfræðifyrirlestur, sem fór fyrir ofan garð og neðan hjá fréttamönnum. Geimfararnir hinsvegar voru fullir af áhuga og hjuggu steina lausa úr berginu til nánari rannsókna. "

Hér er átt við Nautagil og er nafngiftin komin frá jarðfræðihúmoristunum Sigurði og Guðmundi. Geimfari er astroNAUT á ensku og framhaldið er augljóst.

Nafngiftin er ekkert nema gargandi snilld. Eftir að hafa heyrt sögu þessa jókst virðing mín mikið fyrir Nautagili mikið en ég hef haft mikinn áhuga á geimferðakapphlaupinu á Kaldastríðsárunum. 

Nautagil átti eftir að heilla enn meira. Hvert sem litið var, mátti sjá eitthvert nýtt jarðfræðilegt fyrirbrigði. Fyrst var boðið upp á innskot, bólstraberg og sandstein, síðan móbergsveislu. Mikilfenglegur móbergsveggur sem sorfinn var í toppinn og stóðu kollar uppúr sem minnti á tanngarð eða höggmyndir í Rushmore-fjalli af forsetum Bandaríkjanna. Maður lét hugann reika, þarna er George Washington, síðan Thomas Jefferson, Theodore Roosvelt og Abraham Lincoln. Þarna er vindill, það hlýtur að vera Clinton, en hvar er Bush?  Svo kom pælingin, hvar eru styttur af forsetum Íslands? Svar: Hvergi, bara til styttur af athafnaskáldum.

Fleira bar við augu. Lítill lækur spratt undan hrauninu og dökk hraunspýja sem talið er minnsta hraun á Íslandi var næst.  Rósin í hnappagatinu var svo vel falin bergrós ofarlega í mynni gilsins.  Þetta var óvænt ánægja og Nautagil kom mér mest á óvart í meðferðinni.  Það var augljóst að fáir hafa komið í gilið í sumar en með öflugri markaðssetningu væri hægt að dæla fólki í Nautagil. Lækur rennur fyrir framan gilið vel skreyttur breiðum af eyrarrós og hægt væri að hafa speisaða brú yfir hann.  Nota geimfarana  og NASA-þema sem umgjörð og hafa eftirlíkingu af Appolo 11 í gilinu. Þá væri hægt að bjóða upp á tunglferðir til Öskju!

Næst var haldið inn í Drekagil. Það býður upp á ýmsar glæsilegar bergmyndanir en féll alveg í skuggann af Nautagili. Innst inn í Drekagili er flottur slæðufoss og fyrir ofan hann er skemmtilegar myndanir, hestur og ljón sem gæta hans. 


mbl.is Geimfarar í Þingeyjarsýslum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgar sig ekki að haardera

Það borgar sig ekki að haardera þegar maður er í ríkisstjórn. Vissulega eiga ráðherrarnir fjórir allir að fara fyrir Landsdóm og fá niðurstöðu sem þeir eiga skilið. Þá fer okkur fram sem þjóð.

 

Á slangurorðabókinni snara.is er þessi skilgreining á nýyrðinu haardera.

Haardera

so.
gera ekki neitt, vísar til þess að sumir töldu Geir Haarde gera helst til lítið eftir bankahrunið haustið 2008
 
Ríkisstjórnin ákvað að haardera málið.
 
http://slangur.snara.is/?s=haardera

mbl.is Tvær tillögur um málshöfðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hinn snæfellski James Bond

JaguarFór í gær í skemmtilega og lærdómsríka óvissuferð um Snæfellsnes.  Um miðjan dag komum við að Sögusetrinu í Grundarfirði. Þar tók á móti okkur Ingi Hans Jónsson og kom á eðal Jagúar sem bar númerið P-67.  Hann bauð okkur velkomin og hóf skemmtilega sögu af hinum íslenska James Bond.

Hvernig skyldi James Bond tengjast Íslandi og Snæfellsnesi. Það var gátan. Ingi rakti lífshlaup Kanadamannsins Williams Stephensonar, með dulnefnið Intrepid. sem var stórmagnað og öfundvert. Þar voru tengsl Stephensons, Ian Flemming og James Bond skýrð. Síðan fór hann í ættfræði kappans og auðvitað var hann ættaður frá Íslandi. Foreldrar hans voru frá Skógarströndinni. Þau fluttu til Kanada og eignuðust William 1897 eða ári fyrr. Síðar var hann ættleiddur.  Til er bók Dularfulli Kanadamaðurinn, sem maður þarf að lesa.

Þeir eru orðnir nokkrir heimsþekktir íslensku landnemasynirnir. Má þar nefna, fyrir utan njósnarann Intrepid, Vilhjálm Stefánsson, landkönnuð og Íslensku Fálkana sem unnu gull í íshokkí árið 1920.

Nú er mikið talað um landflótta frá Íslandi, sem ég tel að sé orðum aukið. Þá rifjast upp tímabil Vesturfaranna frá 1870-1914. Það er mikill mannauður sem fór og margir gerðu það gott, aðrir ekki.  En við megum ekki missa gott fólk burtu. Næsti eða næsta ofurhetja verður að vera al-íslensk, ekki afkomandi Íslendinga.


Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.9.): 123
  • Sl. sólarhring: 260
  • Sl. viku: 374
  • Frá upphafi: 232720

Annað

  • Innlit í dag: 110
  • Innlit sl. viku: 334
  • Gestir í dag: 110
  • IP-tölur í dag: 107

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband