Drangey (180 m)

Tíbrá frá Tindastóli

titrar um rastir þrjár.

Margt sér á miðjum firði

Mælifellshnjúkur blár.

 

Þar rís Drangey úr djúpi,

dunar af fuglasöng

bjargið, og báðumegin

beljandi hvalaþröng.

 

Einn gengur hrútur í eynni.

Illugi Bjargi frá

dapur situr daga langa

dauðvona bróður hjá.        

   (Jónas Hallgrímsson)

Þetta kvæði eftir ljóðskáldið Jónas smellpassar við ferðalag Villiandanna  til Skagafjarðar um sumarsólstöður. Fyrst var Mælifellshnjúkur genginn, síðan Drangey heimsótt og að lokum Tindastóll. Stemmingin í Drangey rímar vel við ljóðið. Drangey rís eins og rammbyggður kastali úr hafinu með þverhnípta hamraveggi á alla kanta og grasi vaxinn koll. Fjörugt fuglalíf með dunandi hávaða og á heimleiðinni skoðuðum við hnúfubaka.  Sagan af Gretti sterka fléttaðist skemmtilega inn í ferðina og gaf öllu nýja dýpt.

Drangey og Kerling

Drangey og Kerling

Að sigla upp að Drangey í Skagafirði var eins og að koma inn í ævintýraheim. Svartfuglinn, ritan og fýllinn tóku  vel á móti okkur og það var mikið líf við klettadranginn Kerlingu. Hvítur á köflum eftir fugladrit og minnti á klettinn Hvítserk. Í gamalli þjóðsögu segir að tvö nátttröll hafi verið á ferð með kú sína yfir fjörðinn þegar lýsti af degi. Urðu þau og kýrin þá að steini. Er Drangey kýrin og stendur Kerling sunnan hennar. Karl var fyrir norðan eyna en féll í jarðskjálfta 11. september 1755.

Að sigla meðfram eyjunni með allt þetta fuglalíf, garg og lykt var stórbrotið og minnti á siglingu inn Vestmanneyjahöfn.

Suðurhluti eyjarinnar blasti við eins og hamraveggur og vöktu Svörtuloft athygli en fyrir neðan þau er Fjaran en hún hefur minnkað. Þar var mikil útgerð áður fyrr og allt að 200 manns höfðu aðsetur. Þeir stunduðu umdeildar flekaveiðar sem voru bannaðar 1966. Eyjan var mikil matarkista og ótrúlegar tölur heyrðust um fugl sem veiddur var, allt að 200 þúsund fuglar á einu sumri og 20 þúsund egg tekin, stútfull af orku. Þessar tölur vekja spurningu um hvort veiðin hafi verið sjálfbær hjá forfeðrum okkar?

Búið er að útbúa litla höfn inni í Uppgönguvík og lentum við þar innan um forvitna sjófugla.  Síðan var farið upp göngu upp að hafti einu, Lambhöfðaskarð og stoppað þar. Bergið slútir yfir manni, maður verður lítill og ægifegurð blasir við. Á vinstri hönd blasir Heiðnaberg, eitt þekktasta örnefnið en sagan af Guðmundi góða segir að einhvers staðar verða vondir að vera!  Ekki óttuðumst við neitt. En keðjustigi  sem lá niður úr Lambhöfða vakti athygli, ég óttaðist hann, hefði aldrei þorað að nota hann fyrir mitt litla líf og um leið spurði maður sjálfan sig, úr hverju eru félagar í Drangeyjarfélaginu búnir til?

Traustur stígur með  tröppum og kaðal er alla leið upp á topp. Þar var hægt að sjá hvar Karlinn stóð en hann orðin að skeri og það brotnaði sjór á honum. Rétt eins og fór fyrir Karlinum, þá eyðilagðist Drangeyjarbryggja í óveðrinu fyrr í mánuðinum er því aðkoma að uppgöngu erfið núna. Náttúröflin eru óblíð.

Síðan var farið upp á efstu hæð og endað á því að ganga upp traustan járnstiga. Á leiðinni er gengið fyrir Altarið og  þar er faðirvorið greypt í járn.  Uppi í eyjunni er Drangeyjarskáli sem reistur var 1984. Eftir kaffistopp var gengið að Grettisbæli sem er sunnarlega á eyjunni og sagði farastjórinn Helgi Rafn Viggósson hjá Drangey Tours okkur sögur af eyjalífi, frá Gretti og frá lífsferli lundans. Náttúra og saga.

Grettissaga er ein af þekktustu og vinsælustu Íslendingasögunum og kemur Drangey mikið við sögu en  Grettir Ásmundarson bjó í eyjunni frá 1028 til 1031 ásamt Illuga bróður sínum og þrælnum Glaumi.

Við sáum yfir spegilsléttan Skagafjörðinn yfir á  Reykjanes á Reykjaströnd undir Tindastóli en þar er Grettislaug. En árið 1030 misstu þeir útlagar eldinn og þurfti Grettir að synda í land. Kallast það Grettissund þegar synt er frá Uppgönguvík og í land en Drangeyjarsund þegar synt er sunnar frá eyjunni.

Uppgönguvík

Á göngu sáum við sáum nokkra dauða svartfugla en fálkar eiga einnig lögheimili í eyjunni  og höfðu þeir lagt þá sér til munns. Vitað er um eitt fálkahreiður í Drangey.

Drangey er um 700 þúsund ára gömul og úr linu móbergi og hæsti punktur Mávanef í 180 metra hæð.  Hún er um kílómeter að lengd og meðaltalsbreidd um 300 m.  Bergið er mjúkt og er stanslaus barátt við hafið en það heggur í bergið. Á leiðinni á hápunktinn kíktum við á vatnsból Grettis, Grettisbrunn. en það er undir klettum sem lekur í gegnum og frekar erfið aðkoma að því.

Sigling tekur um hálftíma og þegar komið var að höfninni við Sauðárkrók tóki tveir hnúfubakar á móti okkur. Þeir voru í miklu æti og að safna fituforða fyrir veturinn. Það var mjög áhugavert að sjá þegar hvalirnir smöluðu smásíldinni saman upp að yfirborði sjávar og þá steyptu fuglarnir sér niður til að ná í æti. Síðan kom gin hvalsins úr djúpinu og gleypti torfuna en fuglarnir hörfuðu furðu lostnir. Mögnuð samvinna.

Mæli með ævintýraferð í Drangey en þeir sem eru mjög lofthræddir ættu að hugsa sig vel um en uppgangan og niðurferðin er krefjandi. En lykillinn er að horfa fyrir neðan tærnar á sér allan tímann, halda í kaðalinn sem fylgir alla leið og hugsa jákvætt.

Næst var haldið í sundlaugina verðlaunuðu á Hofsósi og horft til Drangeyjar frá sundlaugarbakkanum. Hugurinn var hjá fuglunum og Gretti sterka.

Fullkominn dagur.

 

Heimildir
Ferðafélag Íslands árbók 2016, Skagafjörður austan vatna
Drangey – Lesbók Morgunblaðsins, 1934
Drangey.net – Drangey Tours

Hnúfubakur


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 14
  • Sl. viku: 84
  • Frá upphafi: 226258

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 76
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband