Færsluflokkur: Spil og leikir

Íslandsmót í Hornafjarðarmanna

15. Íslandsmótið í HornafjarðarManna var haldið á veitingastaðnum Höfninni í gærkveldi. Mæting var ágæt, 48 af bestu spilurum landsins mættu til leiks og áttu saman góða kvöldstund. Gaman var að sjá hvað mikið af ungu fólki mætti.  Albert Eymundsson og Ásta Ásgeirsdóttir sáu um að mótsstjórn og tókst  vel til að venju.

Eftir undankeppni komust 27 efstu spilarar í úrslitakeppni og enduðu svo þrír keppendur í æsispennandi úrslitarimmu sem þurfti að tvíframlengja. Kristján  G. Þórðarson stóð upp sem sigurvegari en Þóra Sigurðardóttir hafnaði í öðru. Þorgrímur Guðmundsson hafnaði í bronssætinu en hann hefur oft verið í úrslitakeppnni.

En það er ekki aðal málið að vera að berjast um flest prik og sigurlaunin heldur vera með í góðum félagsskap og spila í merkilegu móti. Heldur rækta félagsauðinn og leggja inn á hann. 

Flest bendir til þess að félagsauður hafi áhrif á velferð, hagsæld og heilbrigði einstaklinga og samfélaga. Einnig dregið úr spillingu.

Íslandsmeistarar í Hornafjarðarmanna frá upphafi:
2012 Kristján G. Þórðarson, frá Flúðum (tengdasonur Hvamms í Lóni)
2011 Anna Eymundsdóttir, frá Vallarnesi
2010 Kristín Auður Gunnarsdóttir, Vegamótum
2009 Kjartan Kjartansson, frá Mýrdal
2008 Elín Arnardóttir, frá Hornafirði
2007 Sigurpáll Ingibergsson, frá Hornafirði
2006 Guðjón Þorbjörnsson, frá Hornafirði
2005 Jón Hilmar Gunnarsson, frá Þinganesi
2004 Jón Hilmar Gunnarsson, frá Þinganesi
2003 Þorvaldur B. Hauksson, Hauks Þorvalds
2002 Hjálmar Kristinsson, Hólar í Nesjum
2001 Jónína María Kristjánsdóttir Hvalnes/Djúpavogur
2000 Signý Rafnsdóttir, Miðsker/Þinganes
1999 Þorgrímur Guðmundsson, Vegamótum
1998 Guðrún Valgeirsdóttir, Valgeirsstöðum

Hægt er að sjá myndband af  Íslandsmótinu á facebook hjá Hornfirðingafélaginu.

Það er mikill félagsauður falinn í HornafjarðarManna.

Íslandsmót í Hornafjarðarmanna 2012

Þorgrímur Guðmundsson frá Vegamótum, Kristján G. Þórðarson frá Flúðum (tengdasonur Hvamms í Lóni) hafði sigur eftir bráðabana við Þóru Sigurðardóttur (hans Bebba).


Súgfirðingaskálin

Mánudagskvöldið fór í að stjórna bridsmóti hjá Súgfirðingum en ég hef verið spilastjóri þar síðustu tíu ár og það ellefta er í gangi.
Það sveif vinalegur heimsmeistaraandi yfir spilurum í keppni um Súgfirðingaskálina, tvímenningsmóti Súgfirðingafélagsins.
Fjórtán pör spiluðu í musteri brids-viskunnar, æfingaherbergi landsliðsmanna sem gerðu góða ferð til Hollands og komst í 8 landa úrslitin í keppni um Bermúdaskálina. Frábær árangur hjá þeim.
Andinn virkaði best á Gróu Guðnadóttur og Guðrúnu K. Jóhannesdóttur og uppskáru þær tæplega 64% skor.

Úrslit úr 2. lotu, meðalskor 130 stig.
Gróa Guðnadóttir - Guðrún K. Jóhannesdóttir   166
Karl Jónsson - Ísak Örn Sigurðsson                  154
Ásgeir Sölvason - Sölvi Ásgeirsson                   149
Kristján H. Björnsson - Flemming Jessen          142
Finnbogi Finnbogason - Pétur Carlsson            141
Ólafur Karvel Pálsson - Ingimar Bjarnason       135

Staðan eftir. 2 umferðir en meðalskor er 260 stig.
Gróa Guðnadóttir - Guðrún K. Jóhannesdóttir   305
Kristján/Ólafur Pálssynir - Ingimar Bjarnason   281
Þorsteinn Þorsteinsson - Rafn Haraldsson       279
Hlynur Antonsson - Auðunn Guðmundsson       277
Ásgeir Sölvason - Sölvi Ásgeirsson                   270
Finnbogi Finnbogason - Pétur Carlsson            260

Alls verða spilaðar sjö lotur um Súgfirðingaskálina og gilda sex bestu skorin til verðlauna.
Það má með sanni segja að það sé mikill félagsauður falinn í starfi Súgfirðingafélagsins.
Næsta lota verður spiluð 21. nóvember í musteri bridslandsliðsins.

Ísland komið í 8-landa úrslit í Bermuda Bowl

BermudaBowl2011

Fyrsta markmiðinu náð í dag hjá Íslenska landsliðinu á 40. heimsmeistaramótinu í bridge. Liðið hélt sjó gegn USA 2 og uppskar 12 stig og dugði það til að komast áfram.

Það var gaman að fylgjast með lokaumferðinni á vefsíðu mótsins,  http://www.worldbridge1.org/tourn/Veldhoven.11/Veldhoven.htm

Einnig hefur Bridgesamband Íslands, brige.is haldið út öflugum fréttaflutningi og gefið upplýsingar um beinar útsendingar á BBO. 

En bridge er skrítin íþrótt, keppendur vita ekki hvernig staðan er, allir aðrir. 

Ítalir fá að velja sér andstæðing úr sætum 5 til 8 í 8-landa úrslitum. Nú stendur það hugarflug yfir. Velji þeir ekki Ísland, þá er talið líklegt að Hollendingar velji okkur en spilamennska hefst á morgun, alls 96 spil.


Hrossakjötsveisla og bridshátíð í Þórbergssetri

Það verður ein allsherjarskemmtun yfir spilum og áti á milli hjá mér um helgina. Stefnan er sett á hina árlegu bridshátíð og hrossakjötsveislu í Þórbergssetri. Torfi Steinþórsson á Hala  var mikill  félagsmálafrömuður og áhugamaður um spilamennsku og  gekkst  hann fyrir  bridskeppni og hrossakjötsveislum í Suðursveit á árum áður. Afkomendur hans hafa tekið að sér að halda merkinu á loftinu og halda við hefðinni. Þetta er því mót með sögu og karakter.

Ég mætti á hátíðina í fyrra og hafði mikla skemmtun af. Einnig var heppnin með okkur Guðmundi H. Guðjónssyni og höfðum við sigur. Vorum við leystir út með miklum verðlaunum. Fengum við glæsilegan farandgrip því til staðfestingar. Auk þess Jöklableikju frá Hala og bækur um ÞÞ í Fátæktarlandi og um Skaftafell.  Á bak við hönnunina á farandverðlaununum var djúp pæling enda ekki við öðru að búast. Úr steini úr Borgarhafnarfjalli stendur  hrútshorn og í það er grafið táknin fyrir, hjarta, spaða, tígul og lauf. En Torfi var mikill áhugamaður um brids og hrúta. Þetta bridsmót er lofsvert framtak hjá afkomendum Torfa.

En hvernig undirbýr maður sig fyrir svona bridshátíð? Jú, ég er að lesa kiljuna, Þegar ég varð óléttur, úrval úr ritum Þórbergs Þórðarsonar. Þá hellist spilaandinn vonandi yfir mig og makker.

Torfi

 


Íslandsmót í HornafjarðarManna

Það var skemmtileg stemming á Íslandsmóti í HornafjarðarManna í kvöld. Spilað var í Skaftfellingabúð og mættu 48 öflugir og sprækir spilarar til leiks. Flestir tengdir Hornafirði á einn eða annan hátt.  Allar kynslóðir áttu sinn fulltrúa. Albert Eymundsson stjórnaði móti af sinni alkunnu snilld.

Eftir undanúrslit með 5 lotum, komust 27 áfram í úrslitakeppni. Ég var fengsæll og fiskaði 20 prik en þau töldu ekki í mikið í úrslitunum. Datt strax út fyrir Stefáni Arnarsyni en hann stefndi á sigur. Tæpur helmingur keppenda var kominn af legg Eymundar og Lukku en aðeins hótelstjórinn Óðinn komst í topp níu.

Það var mjög skemmtileg úrslitakeppni en þar spiluðu Þorvaldur B. Hauksson, Oddverji, Katrín Steindórsdóttir frá Hvammi og Kristín Auður Gunnarsdóttir fulltrúi Vegamóta.

Hafði Kristín Auður Gunnarsdóttir öruggan sigur í mótinu, keypti hún ávallt vel úr Manna.

HM2010

Þorvaldur, Kristín og Katrín

Íslandsmeistarar frá upphafi. 


2010 Kristín Auður Gunnarsdóttir, Vegamótum
2009 Kjartan Kjartansson, frá Mýrdal
2008 Elín Arnardóttir, frá Hornafirði
2007 Sigurpáll Ingibergsson, frá Hornafirði
2006 Guðjón Þorbjörnsson, frá Hornafirði
2005 Jón Hilmar Gunnarsson, frá Þinganesi
2004 Jón Hilmar Gunnarsson, frá Þinganesi
2003 Þorvaldur B. Hauksson, Hauks Þorvalds
2002 Hjálmar Kristinsson, Hólar í Nesjum
2001 Jónína María Kristjánsdóttir Hvalnes/Djúpavogur
2000 Signý Rafnsdóttir, Miðsker/Þinganes
1999 Þorgrímur Guðmundsson, Vegamótum
1998 Guðrún Valgeirsdóttir, Valgeirsstöðum

 


Skaftfellingameistarinn í HornafjarðarMANNA

Skaftfellingafélagið í Reykjavík hélt á fimmtudagskvöld þriðja  átthagamótið í HornafjarðarMANNA í Skaftfellingabúð. Keppt var um nafnbótina, Skaftfellingameistarinn. Fékk ég, keppnisstjórinn í brids að spreyta mig í mótsstjórn og kennslu Hornafjarðarmanna. Árangurinn í fyrra var góður, núverandi Íslandmeistari í Hornafjarðarmanna, Kjartan Kjartansson steig sín fyrstu skref í Skaftfellingabúð. Kannski er heimsmeistaraefni í hópnum sem keppti núna.

Spilað var á fimm borðum, 15 skemmtilegir spilarar og voru spilaðar fjórar umferðir í undanúrslitum. Sólveig Snorradóttir fékk flest prik  í undankeppninni, 20 alls. Eftir glæsilegt kaffihlé hófst úrslitakeppnin en níu efstur spilarar unnu sér keppnisrétt.

Úrslitakeppnin gekk vel fyrir sig og kepptu Jón Bjarnason, Skaftfellingameistari, Sædís Vigfúsdóttir fv. meistari og Gyða Kristinsdóttir úrslitaglímuna. Það var hörku rimma sem endaði með sigri Jóns  og uppskar 2 kíló af humri úr Hornafjarðardýpi. Sædís hafnaði í öðru sæti og Gyða landaði bronsinu.

Veitt voru góð verðlaun fyrir verðlaunasætin þrjú.

Eftirminnilegt og skemmtilegt kvöld í Skaftfellingabúð og vonandi verður spilaður HornafjarðarMANNI að ári. Útbreiðslan gengur vel og spilinu vex fiskur um hrygg.  Þetta er einfalt spil með flott og einfalt keppniskerfi fyrir stóran hóp keppenda.  Einnig er spilið fjölskylduvænt og tengir kynslóðir auðveldlega saman.


Hraðsveitakeppni Súgfirðingafélagsins

 Í vikunni var ég spilastjóri hjá Súgfirðingum. Einnig spilaði ég. Það gekk ekki vel en við náðum á topp 4, Meistaradeildarsæti!  Það er því ekki úr vegi að minnast á úrslitin úr mótinu.
 
Hraðsveitakeppni Súgfirðingafélagsins er nýlokið. Eftir snarpa og skemmtilega baráttu höfðu liðsmenn Esjunnar öruggan sigur. Gnæfðu þeir tignarlega yfir Hvíldarklett og Gölt í mótslok .
Fimm hæstu sætin í Hraðsveitakeppninni skipuðu:
1. Esja               488
2. Hvíldarklettur   452
3. Efribær           416
4. Bridgstone      404
5. Göltur             400
 
Sveit Esju skipuðu Finnbogi Finnbogason, Jón Óskar Carlsson, Karl Jónsson og Pétur Carlsson
 
Björn Guðbjörnsson fv. formaður Súgfirðingafélagsins athenti spilurum Esju verðlaun í mótslok.
Næsta mót Súgfirðingafélagsins er keppni um Súgfirðingaskálina, fimm kvölda tvímenningur. Er mótið haldið í níunda skipti. Spilamennska hest kl. 18, mánudaginn 23. nóvember. Nánari upplýsingar á www.sugandi.is

Hrossakjötsveisla og brids á Hala

Þórbergur Þórðarson var ekki þekktur fyrir að spila brids. Hans miklu hæfileikar lágu á öðrum sviðum. Um síðustu helgi var blásið til hrossakjötsveislu og bridsspilamennsku í Þórbergssetri. Ég skráði mig til þátttöku og var meðal 40 spilara víða af lanndinu, eða 20  para.

Hugmyndina að mótinu skemmtilega á bloggvinurinn Þórbergur Torfason, á Hala.  Markmiðið er að standa fyrir góðri hrossakjötsveislu og spila, rétt eins og Halamenn gerðu  síðustu öld. Faðir hans, Torfi Steinþórsson,  á Hala  var mikill  félagsmálafrömuður og áhugamaður um spilamennsku og  gekkst  hann fyrir  bridgekeppni og hrossakjötsveislum í Suðursveit á árum áður. Afkomendur hans hafa tekið að sér að halda merkinu á loftinu og halda við hefðinni. Þetta er því mót með sögu og karakter.

Ég renndi austur ásamt spilafélaga, Guðmundi Guðjónssyni, en það eru um 15 ár síðan við spiluðum saman í stórmóti síðast. Komið var að Hala um nónbil og við tékkuðum okkur inn á vistlega bændagistingu. Ég fékk herbergi númer 22, kennt við Skötusker. En herbergin bera nöfna örnefna í kringum Halatorfuna.

Þegar ég mætti á staðinn, beið mín flókið en skemmtilegt verkefni.  Aðstoða við að koma mótinu af stað en hinir hressu skipuleggjendur, Valdimar Einarsson og Ragnar Björnsson voru búnir að vinna mikla grunnvinnu.  Mér til furðu var fartölva notuð sem ég keypti til Bridsfélags Hornafjarðar fyrir 14  árum. Það voru skemmtilegir og óvæntir fagnaðarfundir.  Forritið sem var á tölvunni svaraði hverri skipun vel og reiknaði einnig fullkomlega. Svo fullkominn var útreikningurinn að hún setti undirritaðan í efsta sæti strax í byrjun móts og hélt honum þar í kulda og trekk út allt mótið.  Hver segir svo að líftími tölvu sé aðeins þrjú ár!

Hrossakjötsmeistarar 2009 urðu því Sigurpáll Ingibergsson - Guðmundur Guðjónsson.  Verðlaunin voru ekki af verri endanum. Tvær fróðlegar bækur, önnur um Þórberg og hin um Skaftafell. Auk reyktrar Halableikju.

Það var meira í boði heldur en hrossakjöt á mótsstað. Vel skipulögð áthlé á milli slag.  Skaftfellsk súkkulaðiterta var um kvöldið, hollur morgunverður á sunnudagsmorgun og stórgott bleikjuhlaðborð í áthléi á sunnudaginum. Allt framleitt á staðnum.  Sjáflbært samfélag er orðið sem kemur upp í hugann.

Við héldum því heim á leið, vel mettir, fróðari og sigurreifir.

 


Íslandsmót í Hornafjarðarmanna

Um síðustu helgi var Íslandsmótið í Hornafjarðarmanna haldið. Undankeppni fór fram í Skaftfellingabúð og tóku 54 slungnir spilarar þátt. Helmingur keppenda komst áfram í fyrstu hindrun og þrír síðustu spiluðu til úrslita á Þorrablóti Hornfirðinga.

Sigurvegari var Kjartan Kjartansson, úr Mýrdal. Rúnar Þór Gunnarsson hafnaði í öðru sæti og Brynjar Eymundsson í því þriðja.

Það var fín stemming í Skaftfellingabúð, en Svavar M. Sigurjónsson náði að fanga stemminguna skemmtilega á mynd.

IMG_5649a


Tapslagatalningin (TST)

Ég ákvað að taka með mér nýtt vopn í brids í kvöld. Inn á borð hjá mér rakst nýverið bridsbókin Tapslagatalningin (TST) í þýðingu Ísaks Arnar Sigurðssonar sem byggir á riti Ástralans Ron Klinger, The modern losing trick count. Fjallar hún um þá matsaðferð að áætla tökuslagi út frá tapslögum. Í hverjum lit geta mest verið þrír tapslagir og þar með alls tólf á einni hendi. Mesti fjöldi tapslaga á tveimur höndum er þar með 24 (12+12). Aðferðin snýst um það að telja tapslagi beggja handa og draga frá 24, en þá kemur út áætlaður fjöldi tökuslaga.

Með þessa nýju visku fór ég til spila en einn kostur TST aðferðarinnar er að hægt er að hafa nota af henni án þess að samherji hafi kynnt sér hana. Einnig er hún óháð sagnkerfi. Ég taldi því punkta og tapslagi í allt kvöld og beið eftir góðu tækifæri í Butlertvímenning.   Loks kom spil þar sem reglan gæti nýst. Í sextánda spili tók ég upp í norður:

S: J963  H:K92   T:K9543   L:7     alls 8 tapslagir og 7 punktar.

Makker í suður opnaði á einu hjarta eftir þrjú pöss.  Ég hækkaði í 2 hjörtu. Makker kom með boð, 3 hjörtu og ég lyfti í geim. Ég ályktaði að hann ætti etv. 7 tapslagi eftir opnun og nú væru þeir komnir niður í 6. Samkvæmt formúlunni, þá væru tapslagir 8+6=14  og 24-14=10   því lyfti ég yfirvegað í geim.   Makker átti:

S:KD10  H:108765  T:A76  L:AK   alls 6 tapslagir og 16 punktar.

Það töpuðust tveir slagir á tromp og spaðás.  Tíu slagir í húsi og 420 í okkar dálk.

Reglan svínvirkaði eins og svíningin í hjarta. Hluti af salnum náði ekki geiminu. Í nokkrum af næstu spilum sem á eftir komu var hægt að nýta regluna. Ég hef nú grun um að við hefðum náð geiminu með 23 punkta á milli handanna án TST en maður var öruggari og hafði betri forsendur fyrir hækkuninni. Þetta er því góð viðbót við sagnvenjur í brids. Bætist ofan á "Law of Total tricks", sem Larry Cohen hefur boðað.

Í lokaorðum bókarinnar stendur: Ef þú telur að TST sé gagnleg viðbót við venjulegar sagnir þínar, mun það sannarlega verða gott hjálpartæki. Ef þú lítur á það sem töfralausn á öllum sagnvandamálum, muntu verða fyrir bitrum vonbrigðum og gætir hafnað TST, en myndir þá tapa öllum kostum sem það bíður. TST er takmörkuð viðbót, en kemur að góðum notum ef trompsamlega finnst eða ef annar hvor er með sjálfspilandi lit. Í því samhengi er TST frábær matstækni. Það er ekki óbrigðult, en þú átt eftir að sjá að það er nákvæmara en nokkrar punktatalningaraðferðir.

Það má taka undir þetta.


Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.9.): 110
  • Sl. sólarhring: 248
  • Sl. viku: 361
  • Frá upphafi: 232707

Annað

  • Innlit í dag: 97
  • Innlit sl. viku: 321
  • Gestir í dag: 97
  • IP-tölur í dag: 94

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband