Færsluflokkur: Lífstíll

Rósagarðurinn

Þegar ég var á skuttogaranum Þórhalli Daníelssyni SF-71 þá heimsóttum við stundum Rósagarðinn og mokuðum upp karfa. Rósagarðurinn er víðáttumikil fiskimið langt úti í hafi á milli Íslands og Færeyja. Þýskir togarasjómenn gáfu  bleyðunni nafn og nefndu Rosengarten. Tvennum sögum fer af nafngiftinni. Annað hvort er hún eftir rauðum kóral sem hefur komið upp með trollinu eða rauðum karfa sem veiddist þar.

Verkefni dags tvö hjá Villiöndum var að kanna annan Rósagarð, fjallaklasa í Dólómítunum í Suður-Týrol. Í Rósagarðinum bjó Lárin dvergakonungur sem lét fjöllin leiftra, tindra og glitra og segir ekki meira af honum.  Fjöllin í Ölpunum hafa tinda sem benda til himins og standast samanburðinn við fjöllin í Suðursveit!

Fjallgangan byrjaði hjá Laurin’s Lounge við fjallaskálann Kölner Hutter (2.337 m) og gengið var meðfram vesturhlið Rósagarðsins og austur fyrir hann að fjallaskálanum Rode di Vale. Snúið til baka og tekin skíðalyfta niður við Paoline fjallaskálann og gengið niður að Lake Carezza, stöðuvatni sem hefur alla liti regnbogans og tengist þjóðsögu.

Dólómítarnir eru hluti Ítölsku Alpanna og taka nafn sitt frá steintegundinni í þeim, dólómít. Þetta eru gömul kóralrif og marmarahvít gnæfa þau upp úr fjallgarðinum og þegar sólin sest slær á þau purpurarauðum bjarma. Hæsta fjall Dólómítanna er Marmolada sem rís hæst í 3.343m yfir sjávarmáli og þekktir fjallaklasar eru m.a. Rósagarðurinn (3.004 m) sem sést vel frá borginni Bolzano, Sella, Latemar og Langkofel-klasinn í Val Gardena.  Dólómitarnir eru á Heimsminjaskrá UNESCO. Svæðið er í sama flokki og Surtsey, Þingvellir og Vatnajökulsþjóðgarður. Hefur einstakt gildi á heimsvísu.

Lagt var frá Bolzano og keyrt upp í fjöllin í gengum fjölda jarðganga. Beygjurnar á leiðinni slaga upp í fjölda eyjanna í Breiðafirði. Stórbrotið landaslag, vínviður víðast hvar og fjöllin skógi vaxin og byggð á ótrúlegustu stöðum.

Eftir rútuferð tókum kláf í 1.748 metra hæð og ferjaði hann okkur upp í 2.314 metra hæð og byrjuðum við á því að fá okkur kaffi í Laurin’s Lounge veitingaskálanum. Þetta eru auðveldasta 500 metra hækkun sem ég hef lent í á mínum fjallgönguferli. Frá skálanum var síðan gengið meðfram Rósagarðinum sem er glæsilegur fjallshryggur með Latemar á hægri hönd.

Á leiðinni sáum við berghlaup sem minnti á Stórurð og skömmu síðar var gil sem sendi mann til Grand Canyon í Arizona.  Mikið af göngufólki kom á móti okkur og áberandi hvað það var í eldri kantinum en hvað er betra en að anda að sér fjallaloftinu á eftirlaunaaldri.

Smá hækkun var frá Paloma fjallaskálanum, 70 metrar að stórri styttu af erni og minnismerki um Theodor Christomannos  (1854-1911) stjórnmálamann og frumkvöðul ferðaþjónustu í Suður Týrol. Einskonar Ari Trausti okkar Íslendinga!

Þegar við vorum komin fyrir horn Rósagarðsins sáust rigningarský á himni og  í kjölfarði fylgdu eldingar og þrumur í kjölfarið. Dropar tóku að falla.  Þegar styttist í fjallaskálann, þá opnuðust himnarnir er eldingar færðust nær. Fjölmenni göngufólks var í alpaskálanum og biðum við eftir að gjörningaveðrið gengi yfir.  Skyndilega kom ein elding stutt frá okkur sem lýsti upp himininn og miklar drunur fylgdu í kjölfarið. Það bergmálaði í fjöllunum. Allt í einu var maður kominn til Maríupol í Úkraínu.

Fínasta gúllassúpa var í boði í skálanum en ekki var hægt að kaupa annað vegna vatnsleysi en vatnsdælan hafði bilað daginn áður. Meðan þrumuveðrið gekk yfir skoðaði maður fjallaskálann. Á veggjum héngu myndir af miklum klifurhetjum enda Suður-Týrólar aldir upp við fjallaklifur. Fann mynd af Reinhold Messner og varð “starstruck”, hér höfðu klifurhetjur dvalið. Messner vann það sér til afreka að fara fyrstur án aukasúrefins á Everest ásamt félaga sínum Peter Habeler og gekk á alla 14 tinda yfir 8.000 metra að hæð. Þeir innleiddu alpastílinn í háfjallamennsku. Einnig var glæsileg mynd af Gino Pisoni (1913-1995)  sem var brautryðjandi í fjallaklifri í Ölpunum og lagði margar gönguleiðir. Ægifögur Dólómítafjöll voru þeirra leikvöllur. Messner sagði að hann væri búinn að ganga á 3.500 fjöll víðast hvar í heiminum en Dólómítafjöllin bæru af hvað varðar fallega byggingu.

Þolinmæði er dyggð. Tveggja tíma biðin borgaði sig, þegar við lögðum af stað til baka, þá létti þokunni að það var ævintýralegt að sjá Rósagarðinn birtast og önnur fjöll í Dólómítunum og Ölpunum. Djúpir fjalladalirnir óðu í hvítum skýjum og litir voru svo tærir.

Lake Carresa  er lítið fjallavatn sem ljómar í þúsund tónum af grænu, bláu og grænbláum litum, umlukið þéttum skógi og handan glæsilegum tindum Dólómítanna og speglast þeir í vatninu.  

Minnti mig á blágræna vatnið í Stórurð eða sprengigígurinn Grænavatni í Krýsuvík en það vantar tignarleg trén.

Betur af stað farið en heima setið. Ógleymanlegur dagur, ægifegurð og stórbrotin upplifun með Villiöndum og Eldhúsferðum.

Þó Alparnir með Dólómítanna hafi það orð á sér að vera eitt mesta sköpunarverk veraldar og bjóða upp á eitthvert fallegasta fjallalandslag sem til er, með lóðréttum veggjum, stórum klettum og miklum fjölda af þröngum, djúpum og löngum dölum, þá er margt líkt og á Íslandi en á stærri skala. Það má finna ljós líparítfjöll, jökla, Hraundranga, Dyrfjöll, Stórurð, Morinsheiði, Humarkló, tindótt Suðursveitafjöll og Fjaðrárgljúfur í Ölpunum en það sem okkur vantar eru tré, kláfar og þróaðri fjallaskálamenning.

Dólómítar

 

Hér eru skógivaxnir dalir í þokunni og berir fjallstindar blasa við, hrjóstrug fjallaskörðin tengja dal við dal. Tindar sem benda til himins.

Dagsetning: 3. júlí 2022
Þátttakendur: Villiendur göngu og sælkeraklúbbur, 15 fjallgöngumenn og fararstjóri

Heimildir:

Eldhúsferðir

Fréttablaðið – Peter Habeler

Messner Mountain Museum

UNESCO heimsmynjaskrá - Dólómitarnir (2009)


Stóri-Hrútur (352 m)

Stóri-Hrútur er fallega formað fjall utan í austanverðu Fagradalsfjalli. Vestar er nýtt fjall og nýtt hraun, en norðar sér niður í hraunaða Meradali, Litla-Hrút (312 m) og Keili.

Stóri-Hrútur er eitt fjölfarnasta fjall landsins í dag og kom skyndileg frægð hans til vegna eldgosins í Geldingadölum.  Fjallið er hæsta fjallið í Fagradalsfjalla-klasanum og tilkomumesta þó kollótt sé.

Þegar á Stóra-Hrút er komið sér vel yfir hraunið í Meradölum og nýtt litskrúðugt fjall sem ætlaði að verða dyngja en vantaði efni úr neðra.  Fjallið er vel vaktað og teygir net jarðskjálftamæla sig þangað. Greina má sprungur í móbergsfjallinu.

Lagt var við bílastæði við Langahrygg. Beygt var upp af Suðurstrandaveg á milli Skála-Mælifells og Slögu. Þar voru margir erlendir ferðamenn. Líklega er búið að loka svæðinu núna.

Stefnan var tekin á móbergshrygginn Langahrygg (311 m.) og þaðan gengið á Stóra-Hrút (352 m) en á milli þeirra liggur nýja hraunið, Fagradalshraun. Gengið var stutt út á hraunið.

Mest spennandi var gígurinn sem skóp Fagradalshraun. Þarna var dyngja í mótun en skyndilega stoppaði hraunrennslið. Skrautlegar litaútfellingar eru vegna gas sem kemur enn úr gígnum. Áhugavert var að finna hitann á litskrúðugu sprungunum í hrauninu.

Ekki sást brak úr flugvélinni,sem fór í Langahrygg. Í henni voru 11 menn og allir látist.  Flugvélin var tveggja hreyfla flugbátur Bandaríkjaflota af gerðinni PBM-1 Mariner (flugsveit: VP-74) og var að koma aftur til Skerjafjarðar eftir fylgd með skipalest SV af landinu. Vélin flaug á fjallið í dimmviðri þann 02. nóvember 1941. Tvær aðrar flugvélar fórust í Fagradalsfjalli í heimsstyrjöldinni.

Mæli með að ganga á Stóra-Hrút ef fólk ætlar að sjá nýjasta djásnið í náttúru Íslands.

283766591_10224867532588663_7382736212868640093_n.jpg?_nc_cat=105&ccb=1-7&_nc_sid=730e14&_nc_ohc=IcEH_LQit6cAX_yxs53&_nc_ht=scontent.frkv3-1

Föruneyti hringsins á leið á Stóra-Hrút (352 m) en kollóttur er hann. Það blés hressilega nyrst á hrútnum.

Dagsetning: 22. maí 2022
Stóri-Hrútur: 352 m (N:63.52.999 - V:22.14.992)
Göngubyrjun: Geldingadalir Volcano Parking 2, lokað núna
Uppsöfnuð hækkun: 462 m
Uppgöngutími: 120 mín (12:00 - 14:00)
Heildargöngutími: 200 mín (12:00 - 15:20)
Erfiðleikastig: 1 skór
Langihryggur: 311 m (N:63.52.440 - V:22.15.737)
Vegalengd: 8,4 km
Veður: lék við okkur, bjart og hlýtt og vindur að mestu mildur, það blés þó aðeins uppi á Stóra Hrút
Þátttakendur: Fjallafélag Vínbúðanna, 7 manns
GSM samband: Já

Gönguleiðalýsing: Létt og þægileg hringleið. Byrjar á móbergi upp Langahrygg og þaðan á Stóra-Hrút. Gengið á grónu landi austan við Langahrygg niður Hrútadal á bakaleið.

Facebook-staða: Takk fyrir skemmtilega samveru kæra samferðarfólk


Grímannsfell (484 m)

“Átakalítil fjallganga á bungumyndað, lúið fjall”, skrifar Ari Trausti í bókinni  Íslensk fjöll, gönguleiðir á 151 tind.  Ísaldarjöklar hafa barið á fjallinu en það var ofsaveður er upp á fjallið var komið og spurning um hvort fjallið eða göngumaður var lúnari.

Um tilvist Grimmansfells er um það að segja að það ásamt öðrum fellum í nágrenninu leifar af hinu forna Esjufjalllendi sem ísaldarjöklar hafa ekki alveg náð að jafna út. Er það því nokkuð komið til ára sinna.

Rétt áður en komið er að hinum sögufræga Gljúfrasteini var beygt af leið, inn Helgadal. Þar er mikil hestamenning. Einnig skógrækt, refarækt og gróðurhús. Þá blasir hið umfangsmikla Grímannsfell við. Það eru til nokkrar útgáfur af nafninu, Grímannsfell, Grímarsfell, eða Grimmannsfell.  Nafnið er fornt, eflaust hægt að færa rök fyrir því að það sé frá Landnámsöld.

Lagt var af stað úr Helgadal í Mosfellsbæ í myrkri með höfuðljós og legghlífar. Gengið upp vestan við Hádegisklett og þaðan upp brattar brekkur á Flatafell. Næst gengið í hring um Katlagil. Síðan var Hjálmur heimsóttur, en þar var rauð viðvörun og komið niður í Torfdal og endað í Helgadal. Það blés vel á toppum enda eykst vindur með hæð.

Líklegt hefur verið talið að nafnið Torfdalur sé til komið vegna torfristu og/eða mótekju fyrrum.

Þegar ofar dró í fellið, jókst vindur. Mikill vindstrengur blés frá austri og fagnaði maður hverju aukakílói. Við náðum hæðinn fljótt en hægt var að finna logn. 

Gangan á Grímmannsfelli minnti mig mjög á göngu á Akrafjall. Veður var svipað og tvær fjallbungur sem klofna í tvennt fyrir miðju þar sem á rennur um gil sem endar í fögru gljúfri.

Útsýni er ágætt yfir Þingvallahringinn en mest ber á Mosfellsheiði og  Borgarhólum sem fóðruðu heiðina af hrauni. Hengillinn er góður nágranni og Stóra Kóngsfell áberandi í Bláfjallaklasanum.

Eftir matarstopp með sýn yfir Mosfellsheiði var áhlaup gert á lágan klettabunka sem kallast Hjálmur í miklum vindi. Þegar á Hjálminn var komið blés vel á göngumenn og tók lítil varða á móti okkur. Fagnað var í stutta stund og lagt af stað eftir merktri leið niður Torfdal og gengið þaðan í Helgadal.

Grímannsfell

Fagnað Hjálmi á Grímmannsfelli í 35 m/s. Úlfarsfell og höfuðborgin í bak.

Dagsetning: 13. desember 2020
Stórhóll hæsti punktur: 484 metrar
Hæð í göngubyrjun: Við hestagerði Helgadal, 150 m (N:64.10.355- V:21.35.605)
Hækkun göngufólks: 300 metrar, uppsöfnuð hækkun: 462 m
Uppgöngutími: 140 mín (09:10 - 11:30)
Heildargöngutími: 250 mín (09:10 - 13:20)
Erfiðleikastig: 1 skór
Flatafell: 385 m (N:64.10.093 - V:21.33.260)
Hjálmur: 450 m (N:64.09.262 - V:21.33.599)
Vegalengd: 10 km
Veður-Bústaðavegur: 7 gráðu hiti, léttskýjað, kaldi 8 m/s af austan
Þátttakendur: Fjallkonur, 7 manns
GSM samband: Já

Gönguleiðalýsing: Létt og þægileg hringleið, stutt frá borginni sem minnir á Akrafjall með nokkrum möguleikum á útfærslu uppgöngu.

Facebook-staða: Dásamleg ferð í morgunmyrkrinu á Grímmannsfell. Þið eruð besta jólagjöfin.

Heimild:
Íslensk fjöll: Gönguleiðir á 151 tind eftir Ara Trausta og Pétur Þorleifsson


Ásfjall (127 m) í Hafnarfirði

Sumir kalla Ásfjall lægsta fjall landsins en útsýnið leynir á sér. Ásfjall fyrir ofan Hafnarfjörð og er í raun vel gróin grágrýtishæð. Ástjörn er fyrir neðan og kemur nafnið af bænum Ási sem stóð undir fjallinu. Efst á fjallinu er vel hlaðin varða, Dagmálavarðan og var leiðarmerki á fiskimið. Útsýnisskífa er stutt frá vörðunni. Menjar eftir hersetu eru einnig á fjallinu.

Gangan hófst hjá Íþróttamiðstöð Hauka eftir göngustíg í kringum Ástjörn. Gengið var í norður. Síðan var stefnan tekin á mitt fjallið, varðan og hringsjáin heimsótt og stefnt  suður Ásfjallsöxlina í Hádegisskarð og niður að Ástjörn. Léttari ganga er að stefna á norðuröxlina og ganga yfir fjallið lágvaxna. Nýtt hverfi er að rísa sunnan við fjallið og eina sem vantar er trjágróður.

Útsýni er gott yfir höfuðborgarsvæðið og ný hverfi sem eru að byggjast upp við fjallsræturnar, Skarðshlíð kallast það og dregur eflaust nafn af Hádegisskaði.  Helgafell er áberandi í suðri sem og Húsfell. Einnig Bláfjöll. Fjöllin á Reykjanesi sjást og Keilir tignarlegur. Akrafjall og Esjan í norðri.   Á góðum degi sést Snæfellsjökull.

Einföld og góð ganga sem býður upp á skemmtileg sjónarhorn yfir höfuðborgina.

Ásfjall

Grágrýtishæðin Ásfjall í Hafnarfirði og ósar Ástjarnar við Íþróttamiðstöðvar Hauka.

Dagsetning: 28. nóvember 2020
Göngubyrjun: Íþróttamiðstöð Hauka
Ásfjall – Hringskífa: 127 metrar (N: 64.03,1 – V: 21.56,5)
Hækkun göngumanns: 120 metrar
Heildargöngutími: 60 mínútur (13:40 – 14:40)
Erfiðleikastig: 1 skór
Vegalengd: 3,8 km
Þátttakendur: Undirritaður
GSM samband: Já, 4G
Gestabók: Nei
Gönguleiðalýsing: Gengið eftir malbikuðum göngustíg kringum Ástjörn og farið af honum og stefnt á mitt fjallið og gengi í lyngi og  mosa. Komið niður á göngustíginn á bakaleið.

 

Gönguslóðin

Gönguslóð

Gönguslóðin á Ásfjall. Dagmálavaraðan til norðurs og hverfið Skarðshlíð neðst á myndinni.


Hringuð stöðuvötn

Hringuð stöðuvötn

Vatn er forsenda alls lífs á jörðinni, því allt líf þarf á vatni að halda. Stöðuvatn er samansafn vatns í landslagi sem algjörlega er umkringt af landi.

Í kóvid-ástandinu þarf að hreyfa sig og því var ákveðið að safna stöðuvötnum, ganga í kringum þau og upplifa lífið í kringum þau.

Vinsælustu staðirnir eru Esjan og Úlfarsfell og því er tilvalið að prófa eitthvað nýtt. Svo er það tilbreyting að ganga í hring í stað þess að ganga fram og til baka.

Japanski vísindamaðurinn Masaru Emoto hefur rannsakað og gefið út bækur um vatn og ískristalla. Með rannsóknum sínum og ljósmyndum þykist Emoto hafa sannað að hugsanir og orð hafi bein áhrif á efnisheiminn, ekki síst vatnið í heiminum. Maðurinn er 70% vatn, yfirborð jarðar er 70% vatn og heilinn sjálfur um 90% vatn og Emoto vill meina að jákvæðar og fallegar hugsanir skili sér beinlínis út í veröldina.

Því var markmiðið að senda jákvæðar hugsanir til vatnsins og fá aðrar  jákvæðar til baka. Það eru töfrar í vatninu.  Hér er listi yfir vötnin tíu sem hringuð hafa verið.

 

Vífilsstaðavatn

2,5 km ganga. Vatnið liggur í fallegu umhverfi rétt hjá Vífilsstaðaspítalanum. Merkilegt hvað mikil kyrrð er þarna svo stutt frá stórborginni.  Hringurinn í kringum vatnið liggur meðfram því, á bökkum og um móana. Mæli með að ganga upp heilsustíginn upp að Gunnhildarvörðu. Þá er gangan 3,8 km.

Rauðavatn

Um 3 kílómetra ganga. Gott stígakerfi liggur hringinn í kringum vatnið og um skóginn ef við Rauðavatn voru tekin fyrstu skrefin í skógrækt fyrir um hundrað árum. A

Hvaleyrarvatn

Um 2 kílómetra ganga. Hér var mikið líf. Margir bílar og leggja þurfti hálfum kílómetra frá upphafsstað. Mikið kom þessi gönguleið mér á óvart og ekki furða að Hafnfirðingar hafi mætt vel.  Fallegt og vel gróin gönguleið, hluti er skógi vaxinn og göngustígurinn gengur um allar trissur, að vatninu og inn á milli trjáa. Sannkölluð útivistarperla.

Urriðavatn

Um 2,5 kílómetra hringur.  Fyrst kindastígur en svo tók við vel gerðir göngustígar. Vígaleg brú yfir á.  Gaman að sjá nýtt vistvænt hverfi rísa, glæsileg hús og 25 kranar standandi upp í loftið.

Hafravatn

Um 5 kílómetra stikuð leið umhverfis Hafravatn. Mosfellsbær hefur staðið sig vel í að merkja leiðina með gulum stikum en gönguleiðin er stundum ógreinileg. Á kafla þarf að ganga á veginum. Mikið líf í kringum vatnið, veiðimenn og kajak. Nokkrir sumarbústaðir meðfram vatninu.

Ástjörn

Um 2,6 km ganga. Hafði ekki miklar væntingar fyrir gönguna en kom á óvart. Lagði bíl við knatthús Hauka og gekk aðeins á bakvið svæðið en maður hefur horft á nokkra leikina þarna en tjörnin farið framhjá manni. Heyrði frétt um að Ástjörn væri í hættu vegna knatthús Hauka.

Reynisvatn

Um 1,3 km þægileg ganga. Gaman að ganga spölkorn í skógi en sum tré illa farin. Hægt að fara annan hring í öfuga átt við fyrri hring. Töluverð umferð fólks og hunda.

Leirvogsvatn

Leirvogsvatn

5,5 km.  30 km frá höfuðborginni.  Leirvogsvatn er stærsta vatnið á Mosfellsheiði, 1,2 ferkílómetrar og er mesta dýpt þess 16 metrar. Það liggur í 211 metra hæð yfir sjó, áin Bugða fellur í vatnið að austanverðu en Leirvogsá úr því að vestan og til sjávar í Leirvogi. Mikið er af silungi í vatninu en frekar smár.   Leifar af stíflu við  upphaf Leirvogsár. Hægt að stika yfir steina en ákveðið að fara upp á veg og ganga yfir búna. Slóði alla leið.  Mjög fámennt.

Reykjavíkurtjörn

Um 1,6 km ganga með syðstu tjörninni. Gaman að skoða styttur bæjarins. Í Hljómskálagarðinum er stytta af Jónasi Hallgrímssyni en lifrin í honum var stór, um það bil tvöföld að þyngd, 2.875 grömm.

Elliðavatn

Um 9 km löng ganga í tvær klukkustundir. Gönguleiðin umhverfis vatnið er mjög fjölbreytt. Skiptast þar á þröngir skógarstígar og upplýstir stígar inni í íbúðarhverfi. Þar er einnig saga á hverju strái svo sem um Þingnes og stífluna sem varð til þess að vatnið stækkaði töluvert.. Hækkun lítil.

Mikið af hlaupafólki. Hófum gönguna við Elliðahvamm en algengt að byrja við Elliðavatnsbærinn.

Elliðavatn


Þórsgata í Þórsmörk

Þórsgata er ný falleg gönguleið í kringum Þórsmörk.  Í gönguleiðarlýsingu er hún sögð 22 km en gönguhópurinn taldi sig hafa farið eftir öllum slóðum og fékk rúma 18 km á mæla  sína.

Leiðin liggur upp frá Húsadal, í gegnum Hamraskóg að Slyppugilshrygg og þaðan framhjá glæsilegri Tröllakirkju upp á Tindfjallasléttu, niður Stangarháls og meðfram Krossá að Langadal, upp á Valahnúk, niður eftir endilöngum Merkurrana, út á Markafljótsaura og enda aftur í Húsadal.

Hægt er að búta leiðina niður í smærri áfanga eða lengja. En nokkrar gönguslóðir eru á svæðinu og tengir Þórsgata þær saman.

Lagt var í ferðina frá Húsadal og keyptum við þjónustu hjá Volcano Huts yfir Krossá en hún er oft mikill farartálmi á leiðinni inn í Þórsmörk.

Leiðin er mjög falleg, stórbrotin fjallasýn með jöklum fylgir manni  alla leið. Einn skemmtilegasti hluti leiðarinnar er leiðin framhjá Tröllakirkju en þá er gengið eftir stíg í vel gróinni brattri hlíð. Rjúpnafell (814 m) er glæsilegt úti á sléttunni og fangar augað. Síðan kemur Tindfjallaslétta og haldið var á útsýnisstað en þar er útsýnið  ægifagurt. Maður komst í snertingu við eitthvað stórt og æðra manni sjálfum og sýnin hafði umbreytandi áhrif.

Í fjöllin sækjum við áskoranir jafnt sem innblástur. Við útsýnisskífu á Tindfjallasléttu gagntekur þessi tilfinning mann þegar Eyjafjallajökull og Mýrdalsjökull blasa við með skriðjöklana skríðandi niður á láglendið.

Þegar við voru búin að upplifa hrikafegurðina sáum við hlaupara sem tóku þátt í Þórsgata Volcano Trail Run, 12 km fjallahlaup með um 200 hlaupurum. Það var einstök upplifun að hitta fjallahlauparana og hvetja þá áfram í þessu stórbrotna landslagi á Tindfjallasléttu og niður Stangarháls.

Ein áskorun var eftir þegar Langadal var komið en það er Valahnúkur (454 m) og hugsaði maður til fjallahlauparanna. Það var fallegt að sjá yfir Krossá og Goðaland þegar upp var komið.

Það voru hamingjusamir göngumenn sem komu í Húsadal síðdegis og mælum við með þessari nýju gönguleið um Þórsgötu til að fá að upplifa einstaka náttúru Þórsmerkur.

 

Þórsgata

Göngumenn staddir í Hamraskógi með Eyjafjallajökul í baksýn

Dagsetning: 12. september 2020
Göngubyrjun: Húsadalur, 208 m (N: 63.41.463 – W:12.32.443)
Hækkun göngufólks: 812 metrar
Heildargöngutími: 480 mínútur (09:40 – 17:40)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 18 km
Þátttakendur: Villiendur. 10 göngumenn.
GSM samband: Já, 4G
Gestabók: Nei
Gönguleiðalýsing: Ný fjölbreytt gönguleið sem tengir saman fimm gönguleiðir í Þórsmörk. Getur tekið á fyrir lofthrædda á köflum.

Facebook-status: Þið sem ekki komust með í dag í Þórsmörk, komið með næst! Ólýsanlegur dagur


Tindastóll (995 m)

Hvar skal byrja? Hvar skal standa?
Hátt til fjalla? Lágt til stranda?
Bragi leysir brátt úr vanda,
bendir mér á Tindastól! (Matthías Jochumsson)

Ég skildi aldrei af hverju helsta kennileiti Skagafjarðar, fjallið Tindastóll héti Tindastóll því það hafði ekki tignarlegan skaftfellskan tind. En þegar siglt er undir Stólnum, þá sjást tindaraðir á fjallinu, m.a. I Tröllagreiðu. Þá skilur maður nafnið og mér finnst það mjög fallegt og viðeigandi. Hins vegar er Tindastóll skrítið nafn á íþróttafélagi.

Tindastóll er 995 metra þar sem hann er hæstur og 18 kílómetra langt og 8 km á breidd, efnismesta fjall Skagafjarðar.

Fjallið er hömrótt mjög að austan og þar víða torsótt uppgöngu, en að sunnan og vestan er lítið um kletta og víða ágætar uppgönguleiðir.

Hægt er að ganga á Tindastól frá nokkrum stöðum. Algengast er að ganga stikuðu leiðina frá upplýsingaskilti norðan við malarnámur norðaustan við Hraksíðuá og stefna á fjallsbrún við Einhyrning syðri. Önnur leið er að ganga frá eyðibýlinu Skíðastöðum og stefna á hinn Einhyrninginn.  Einnig er hægt að fara frá skíðasvæðinu og ganga þaðan upp á topp eða niður á Reykjaströnd austan við Stólinn og jafnvel baða sig í Grettislaug. 

Villiendurnar völdu öruggustu leiðina, þá stikuðu. Við stefndum á Einhyrning sem sést allan tímann.  Til að byrja með er gengið upp með Hraksíðuá að norðanverðu, upp aflíðandi brekkur. Liggur leiðin fjarri hættulegum brúnum og giljum og ætti því að vera öllum fær mestan hluta ársins. Þegar ofar kemur er hæstu ásum fylgt þar til upp á brúnina er komið.

Þegar upp er komið er varða með gestabók, glæsilegu útsýni yfir stóran hluta Skagafjarðar og einnig er myndarleg endurvarpsstöð.

Þjóðsaga er um óskastein á Tindastól en vorum ekki hjá Óskatjörn og misstum af öllum óskum þrátt fyrir að vera daginn eftir Jónsmessunótt.

Tindastóll er rofleif í jaðri fornrar megineldstöðvar sem var virk fyrir 8-9 milljón ára. Ísaldarjöklar grófu svo skörð og dali í berggrunninn í 3 ármilljónir en oft hefur fjallið staðið uppúr þeim jöklum. Því nokkuð traust til uppgöngu þegar jarðskjálftahrina er í gangi.

Útsýni var ágætt til suðurs en veðurguðir buðu upp á skýjað veður. Þar er næstur Molduxi, annað einkennisfjall Sauðkrækinga og í fjarska er  konungur Skagafjarðarfjalla, Mælifellshnjúkur, hæsta fjall Skagafjarðar utan jökla en fyrr í vikunni höfðum við gengið á hann og rifjuðum upp ferðina.  Einnig yfir Gönguskörð og Sauðárkrók.  Í austri blasa við fjöllin á Tröllaskaga ásamt eyjunum í Skagafirði í norðaustri. Til vestur sást til fjalla á Skaga.

Einhyrningur

Göngufólk við vörðu á Einhyrning syðri í 795 m hæð. Sauðarárkrókur fyrir neðan.

Dagsetning: 25. júní 2020
Göngubyrjun: Malarnámur norðaustan við Hraksíðuá, 175 m (N: 65.45.453 – W:19.42.138)
Fjallsbrún við Einhyrning - varða: 795 m  (N: 65.46.894 – W: 19.42.820)
Hækkun göngufólks: 620 metrar
Uppgöngutími: 165 mínútur (10:00 – 12:45)
Heildargöngutími: 255 mínútur (10:00 – 14:15)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 12,8 km
Veður - Sauðárkrókur kl. 12.00: Skýjað, S 5 m/s, 16,2 °C, rakastig 57%.
Þátttakendur: Villiendur. 10 göngumenn.
GSM samband: Já, 4G
Gestabók: Já
Gönguleiðalýsing: Fjallið er auðgengt við flestar aðstæður árið um kring eftir þessari leið. Vel stikuð leik upp gróna mela.

Eldra nafn: Eilífsfjall eða Eilífsfell, kennt við landnámsmanninn Eilíf örn Atlason.

Facebook-status: Takk!    Enn einn dýrðardagurinn TAKK

Heimildir
Ferðafélag Íslands árbók 2012, Skagafjörður vestan vatna.
Íslensk fjöll - Gönguleiðir á 151 tind

 


Drangey (180 m)

Tíbrá frá Tindastóli

titrar um rastir þrjár.

Margt sér á miðjum firði

Mælifellshnjúkur blár.

 

Þar rís Drangey úr djúpi,

dunar af fuglasöng

bjargið, og báðumegin

beljandi hvalaþröng.

 

Einn gengur hrútur í eynni.

Illugi Bjargi frá

dapur situr daga langa

dauðvona bróður hjá.        

   (Jónas Hallgrímsson)

Þetta kvæði eftir ljóðskáldið Jónas smellpassar við ferðalag Villiandanna  til Skagafjarðar um sumarsólstöður. Fyrst var Mælifellshnjúkur genginn, síðan Drangey heimsótt og að lokum Tindastóll. Stemmingin í Drangey rímar vel við ljóðið. Drangey rís eins og rammbyggður kastali úr hafinu með þverhnípta hamraveggi á alla kanta og grasi vaxinn koll. Fjörugt fuglalíf með dunandi hávaða og á heimleiðinni skoðuðum við hnúfubaka.  Sagan af Gretti sterka fléttaðist skemmtilega inn í ferðina og gaf öllu nýja dýpt.

Drangey og Kerling

Drangey og Kerling

Að sigla upp að Drangey í Skagafirði var eins og að koma inn í ævintýraheim. Svartfuglinn, ritan og fýllinn tóku  vel á móti okkur og það var mikið líf við klettadranginn Kerlingu. Hvítur á köflum eftir fugladrit og minnti á klettinn Hvítserk. Í gamalli þjóðsögu segir að tvö nátttröll hafi verið á ferð með kú sína yfir fjörðinn þegar lýsti af degi. Urðu þau og kýrin þá að steini. Er Drangey kýrin og stendur Kerling sunnan hennar. Karl var fyrir norðan eyna en féll í jarðskjálfta 11. september 1755.

Að sigla meðfram eyjunni með allt þetta fuglalíf, garg og lykt var stórbrotið og minnti á siglingu inn Vestmanneyjahöfn.

Suðurhluti eyjarinnar blasti við eins og hamraveggur og vöktu Svörtuloft athygli en fyrir neðan þau er Fjaran en hún hefur minnkað. Þar var mikil útgerð áður fyrr og allt að 200 manns höfðu aðsetur. Þeir stunduðu umdeildar flekaveiðar sem voru bannaðar 1966. Eyjan var mikil matarkista og ótrúlegar tölur heyrðust um fugl sem veiddur var, allt að 200 þúsund fuglar á einu sumri og 20 þúsund egg tekin, stútfull af orku. Þessar tölur vekja spurningu um hvort veiðin hafi verið sjálfbær hjá forfeðrum okkar?

Búið er að útbúa litla höfn inni í Uppgönguvík og lentum við þar innan um forvitna sjófugla.  Síðan var farið upp göngu upp að hafti einu, Lambhöfðaskarð og stoppað þar. Bergið slútir yfir manni, maður verður lítill og ægifegurð blasir við. Á vinstri hönd blasir Heiðnaberg, eitt þekktasta örnefnið en sagan af Guðmundi góða segir að einhvers staðar verða vondir að vera!  Ekki óttuðumst við neitt. En keðjustigi  sem lá niður úr Lambhöfða vakti athygli, ég óttaðist hann, hefði aldrei þorað að nota hann fyrir mitt litla líf og um leið spurði maður sjálfan sig, úr hverju eru félagar í Drangeyjarfélaginu búnir til?

Traustur stígur með  tröppum og kaðal er alla leið upp á topp. Þar var hægt að sjá hvar Karlinn stóð en hann orðin að skeri og það brotnaði sjór á honum. Rétt eins og fór fyrir Karlinum, þá eyðilagðist Drangeyjarbryggja í óveðrinu fyrr í mánuðinum er því aðkoma að uppgöngu erfið núna. Náttúröflin eru óblíð.

Síðan var farið upp á efstu hæð og endað á því að ganga upp traustan járnstiga. Á leiðinni er gengið fyrir Altarið og  þar er faðirvorið greypt í járn.  Uppi í eyjunni er Drangeyjarskáli sem reistur var 1984. Eftir kaffistopp var gengið að Grettisbæli sem er sunnarlega á eyjunni og sagði farastjórinn Helgi Rafn Viggósson hjá Drangey Tours okkur sögur af eyjalífi, frá Gretti og frá lífsferli lundans. Náttúra og saga.

Grettissaga er ein af þekktustu og vinsælustu Íslendingasögunum og kemur Drangey mikið við sögu en  Grettir Ásmundarson bjó í eyjunni frá 1028 til 1031 ásamt Illuga bróður sínum og þrælnum Glaumi.

Við sáum yfir spegilsléttan Skagafjörðinn yfir á  Reykjanes á Reykjaströnd undir Tindastóli en þar er Grettislaug. En árið 1030 misstu þeir útlagar eldinn og þurfti Grettir að synda í land. Kallast það Grettissund þegar synt er frá Uppgönguvík og í land en Drangeyjarsund þegar synt er sunnar frá eyjunni.

Uppgönguvík

Á göngu sáum við sáum nokkra dauða svartfugla en fálkar eiga einnig lögheimili í eyjunni  og höfðu þeir lagt þá sér til munns. Vitað er um eitt fálkahreiður í Drangey.

Drangey er um 700 þúsund ára gömul og úr linu móbergi og hæsti punktur Mávanef í 180 metra hæð.  Hún er um kílómeter að lengd og meðaltalsbreidd um 300 m.  Bergið er mjúkt og er stanslaus barátt við hafið en það heggur í bergið. Á leiðinni á hápunktinn kíktum við á vatnsból Grettis, Grettisbrunn. en það er undir klettum sem lekur í gegnum og frekar erfið aðkoma að því.

Sigling tekur um hálftíma og þegar komið var að höfninni við Sauðárkrók tóki tveir hnúfubakar á móti okkur. Þeir voru í miklu æti og að safna fituforða fyrir veturinn. Það var mjög áhugavert að sjá þegar hvalirnir smöluðu smásíldinni saman upp að yfirborði sjávar og þá steyptu fuglarnir sér niður til að ná í æti. Síðan kom gin hvalsins úr djúpinu og gleypti torfuna en fuglarnir hörfuðu furðu lostnir. Mögnuð samvinna.

Mæli með ævintýraferð í Drangey en þeir sem eru mjög lofthræddir ættu að hugsa sig vel um en uppgangan og niðurferðin er krefjandi. En lykillinn er að horfa fyrir neðan tærnar á sér allan tímann, halda í kaðalinn sem fylgir alla leið og hugsa jákvætt.

Næst var haldið í sundlaugina verðlaunuðu á Hofsósi og horft til Drangeyjar frá sundlaugarbakkanum. Hugurinn var hjá fuglunum og Gretti sterka.

Fullkominn dagur.

 

Heimildir
Ferðafélag Íslands árbók 2016, Skagafjörður austan vatna
Drangey – Lesbók Morgunblaðsins, 1934
Drangey.net – Drangey Tours

Hnúfubakur


Mælifellshnjúkur (1.147 m)

Hvítan hest í Hnjúkinn ber,
Hálsinn reyrir klakaband.
Þegar bógur þíður er,
Þá er fært um Stórasand.

(Gamall húsgangur úr Skagafirði, höfundur ókunnur)

Þegar komið er í Skagafjörð og ekið frá Varmahlíð í suðurátt sker eitt fjall sig vel frá öðrum fjöllum og gnæfir yfir, það er Mælifellshnjúkur. Einskonar konungur Skagafjarðafjalla. Því var því auðvelt að velja Mælifellshnúk hjá Villiöndunum, göngu og sælkeraklúbb en hann dvaldi í fimm daga gönguferðalagi í Skagafirði. Nafn fjallsins vísar til þess að í öllu norðurhéraði Skagafjarðar er Mælifellshnjúkur ríkjandi kennileiti í suðri og frá mörgum bæjum markaði hann hádegi hinna gömlu eykta.

Mælifellshnjúkur breytir mjög um svip eftir því hvaðan á hann er horft, minnir á píramída úr norðri séð og ekki síður  sunnan af öræfum en aflangur. Minnir mig á Súlur við Akureyri í byggingu og er einstakt útsýnisfjalla af því að það stendur stakt, stutt frá hálendinu, svipað og Bláfell á Kili.

Á hnjúkinn má ganga eftir fleiri en einni leið, t.d.  upp eftir röðlinum að norðan og eins með að fara upp í Tröllaskarðið milli hnjúksins og Járnhryggjar og þaðan á hnjúkinn. Villiendurnar ákváðu að fara öruggustu leiðina, ofurstikuð gönguleið en gengið er frá bílastæði við Moshól í Mælifellsdal. Sama leið var farin til baka. Skagfirðingar hafa sett upplýsingaskilti við helstu göngufjöll í sýslunni og er það þeim til mikils sóma.  

Á uppgöngunni var boðið upp á ýmsa afþreyingu, m.a. var þagnarbindindi yfir 20 stikur og átti menn að hugsa til þess hvernig þeir ætluðu að fagna á toppnum. Þegar á toppinn var komið tóku göngumenn út fögn sín í gjólu. Útsýni var frábært, þó var skýjabakki í austri og ekki sá í Kerlingu í Eyjafirði og Vatnajökul en farinn var örnefnahringur og komu flest upp og útsýni yfir tíu sýslur stórbrotið.   Á niðurleiðinni var hraða farið en gert stopp fyrir jógaæfingar og hnjúkurinn tekinn inn í nokkrum æfingum.

Mælifellsdalur fylgdi okkur alla leið og liggur Skagfirðingaleið um hann um Stórasand. Þar riðu hetjur um héruð áður fyrr.

Á toppi hnjúksins er stæðilega landmælingavarða og VHF-endurvarpi björgunarsveitanna. Einu vonbrigðin voru þau að engin gestabók var í kassa við vörðuna en alltaf er gaman að kvitta fyrir að toppa.

Það er gaman að þessu viðmiði með sýslunar tíu en núna eru sýslumenn aðeins níu talsins. Áður fyrr voru sýslur og sýslumenn upphaf og endir alls en þegar mest lét voru  sýslur 24. Tímarnir eru breyttir.

Jarðskjálftahringa hafði staðið yfir og höfðu ekki hróflað við hnjúknum en berggrunnur Mælifells er 8 til 9 milljón ára gamall og hnjúkurinn sjálfur um milljón ára gamall en efri hlutinn er úr Móbergi. Fjallið hefur staðist jarðskjálfta lengi og í góðu jafnvægi en í lok síðustu ísaldar hefur orðið berghlaup úr fjallinu og gengum við upp úr því í Mælifellsdal.

Í norðri sá Hnúkstagl röðullinn sem gengur norður af hnjúknum og út fjörðinn en þar fanga Drangey, Málmey og Þórðarhöfði augað. Austan héraðs rísa Blönduhlíðarfjöllin með Glóðafeyki stakan. Ágætlega sást inn Norðurárdal, Austurdal og hrikaleg gljúfrin. Hofsjökull og Kerlingarfjöll komu næst en nær og vestar fjöll á Kili, Kjalfell, Rjúpnafell og Hrútfell sem rís austan Langjökuls.  Eiríksjökull var áberandi og nær Blöndulón og er þar að líta sem haf. Lengra í burtu sást til Baulu, Snjófjalla og Tröllakirkju en við keyrðum framhjá þeim og heilsuðum daginn áður.

Í næsta nágrenni sást í Nónfjall, Reykjafjall og Kirkjuburst en norðar Hellufell, Grísafell og Kaldbakur og Molduxi.  Yst við fjarðaminnið að vestan sást svo efnismesta fjall sýslunnar Tindastóll en við áttum eftir að heilsa upp á hann síðar í ferðinni. Við heilsuðum honum.

Mælifellshnjúkur

Konungur Skagafjarðar, Mælifellshnjúkur með Járnhrygg, Tröllaskarð og Hnúkstagl, röðullinn sem gengur norður af hnjúknum. 

Dagsetning: 23. júní 2020
Göngubyrjun: Bílastæði við Moshól í Mælifellsdal,  500 m   (N: 65.23.193 – W:19.24.063)
Mælifellshnjúkur - varða: 1.147 m  (N: 65.23.325 – W: 19.21.094)
Hækkun göngufólks: 640 metrar
Uppgöngutími: 230 mínútur (10:10 – 14:00)
Heildargöngutími: 350 mínútur (10:10 – 16:00)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 12,6 km
Veður – Stafá kl. 13.00: Léttskýjað, NA 4 m/s, 10,7 °C, rakastig 73%.
Þátttakendur: Villiendur. 16 göngumenn.
GSM samband: Já, 4G
Gestabók: Nei, tómur kassi.
Gönguleiðalýsing: Greiðfær og gróin í fyrstu, síðan traustur melur. Skemmtileg og drjúg fjallganga á frábæran útsýnisstað.

Eldra eða annað nafn: Mælifell.

Facebook-status: Þriðjudagur til þrautar og sælu. Löguðum í hann snemma að Mælifellshnjúk. Gengum hann á frábæru tempói. Magnað útsýni, frábær félagsskapur sem við hjónin erum svo heppin að vera með í. 

 

Heimildir
Ferðafélag Íslands árbók 2012, Skagafjörður vestan vatna.
Íslensk fjöll - Gönguleiðir á 151 tind


Þyrill (393 m)

Fjallið Þyrill í Hvalfirði setur mjög mikinn svip á umhverfi fjarðarins. Það rís þverbratt og hömrum girt upp norðaustur og upp af Þyrilsnesi.Þyrill er fjallsröðull myndaður við rof skriðjökla sem brotist hafa meðfram fjallinu, báðum megin.

Leiðin upp á fjallið liggur upp Síldarmannabrekkur það eru gamlir götuslóðar um Botnsheiði yfir í Skorradal. Þegar á sléttun er komið skilja að leiðir og stefnt á topp Þyrils. Margir fara sömu leið til baka en við fórum umhverfis Þyril og komum niður hjá hvalstöðinni.

Það sem er áhugavert við þessa leið sem er auðveld norðaustur af fjallinu niður Litlasandsdal, með Bláskeggsá niður á þjóðveg. Einnig má hefja gönguna frá þessum stað við  olíutanka NATO en fara þar yfir á á leiðinni.

Yfir Bláskeggsá var byggð fyrsta steinbrú á landinu árið 1907 og upplagt að líta á hana í leiðinni. 

Mikið útsýni er af Þyrli yfir Hvalfjörð og ber Þyrilsnes með Geirshólma af. Það er skemmtilegt að rifja upp söguna af Helgusundi þegar Geirshólmi sést.

"Helga er nú í hólminum og þykist vita nú allar vælar og svik landsmanna; hún hugsar nú sitt mál. Það verður nú hennar ráð, að hún kastar sér til sunds og leggst til lands úr Hólminum um nóttina og flutti með sér Björn, son sinn, fjögra vetra gamlan, til Bláskeggsár, og þá fór hún móti Grímkatli, syni sínum, átta vetra gömlum, því að honum dapraðist sundið þá, og flutti hann til lands. Það heitir nú Helgusund."

Þá kunnu Íslendingar að synda svo tapaðist kunnáttan niður eftir þjóðveldisöld en kom aftur á 19. öld.

Á fastalandinu í botni fjarðarins gnæfir Hvalfell með Botnsúlur til hægri. Múlafjall og Reynivallaháls og yfir honum sér í eftir hluta Esjunnar. Akrafjall er eins og eyja og Hafnarfjall og Skarðsheiðin á hægri hönd. Brekkukambur gnæfir yfir hvalstöðinni. Í norðri fjær sér í snæviþakið Ok og Fanntófell. Næst í hömrum Þyrils sér í Helguskarð en þar kleif Helga upp fjallið með syni sína tvo er hún hélt austur yfir Botnsheiði til Skorradals.

Þegar komið var niður Litlasandsdal sáum við merkilega brú. Brúna yfir Bláskeggsá sem byggð var árið 1907 og var hún fyrsta steinsteypta brúin á Íslandi utan Reykjavíkur.

Þyrill

Útsýni af vörðu á Þyrli. Glæsilegt Þyrilsnes skagar út í Hvalfjörðinn og Geirshólmi einstakur með Reynivallaháls og Esjuna í öllu sínu veldi á bakvið.

 

Dagsetning: 16. maí 2020
Hæð í göngubyrjun: 27 metrar, við upphaf Síldarmannagötu (N: 64.23.247 – W:21.21.587)
Þyrill - varða: 392 m (N: 64.23.576 – W: 21.24.582)
Hækkun göngufólks: 365 metrar
Uppgöngutími: 120 mínútur (09:00 – 11:00)
Heildargöngutími: 255 mínútur (09:00 – 13:15)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 10 km
Veður - Botnsheiði kl. 11.00: Léttskýjað, NNA 5 m/s, 2,3 °C
Þátttakendur: Fjallkonur. 10 göngumenn og einn hundur.
GSM samband: Já, 4G
Gestabók: Nei
Gönguleiðalýsing: Greiðfærar skriður og melar, grónir að hluta. Spordrjúg leið umhverfis svipmikið fjall. Ekki komið niður á upphafsstað. Upphaf við Síldarmannabrekku og endað við hvalstöðina.

Facebook-status: Takk fyrir daginn elskur. Það má segja að við höfum sloppið við að þyrla upp miklu ryki á Þyrli í dag. Frábær ganga í enn betri félagsskap! 

Heimildir
Brúin yfir Bláskeggsá - RUV.is, 25.4.2010
Íslensk fjöll - Gönguleiðir á 151 tind
Helgusund - Morgunblaðið, 11. ágúst 2003

 

 


Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Feb. 2023
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28        

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.2.): 0
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 68
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 54
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband