Færsluflokkur: Ljóð
4.10.2019 | 17:24
Ármannsfell (766 m)
og kjarrið græna inn í Bolabás
og Ármannsfellið fagurblátt
og fannir Skjaldbreiðar
og hraunið fyrir sunnan Eyktarás.
(Einu sinni ágústkvöldi eftir Jónas Árnason)
Það var stórbrotið veður og haustlitir skörtuðu sínu fegursta þegar gengið var á Ármannsfell sem er norðan við Þingvallaþjóðgarðinn og setur mikinn svið á allt umhverfið. Fellið hefur setið fyrir á ófáum málverkum og ljósmyndum í gegnum tíðina. Það er mjög gaman að ganga á það og virða fyrir sér Þingvallasvæðið frá skemmtilegu sjónarhorni.
Ármannsfell, 766 m mosavaxið móbergsfjall. Sunnan undir því er Bolabás, þar voru kappreiðar haldnar áður fyrr í Skógarhólum en nú er þar góð aðstaða fyrir hesta og hestamenn.
Gangan hófst vestan við Sleðaás, sunnan undir fjallinu. Byrjuðum að ganga í kjarri þangað til komið var upp á Sleðaás. Þaðan er greið leið eftir hrygg á fjallið þar sem fyrst er komið uppá mosavaxna suðurbrúnina. Síðan tekur við alllöng ganga norður á hæsta hnjúkinn. Dalir eru austan megin og þegar komið er vel upp á brúnina sjást tveir kollar. Hæsti hnúkurinn með vörðu er á milli þeirra.
Ármannsfell dregur nafn sitt af hálftröllinu Ármanni. Hann hafði víst haft þann starfa að standa fyrir kappglímum milli trölla og hálftrölla á Hoffmannaflöt undir Meyjarsæti, sem er austan við fjallið, en mun hafa gengið í fjallið að leiðarlokum.
Ármannsfell bauð upp á rándýrt útsýni, milljarða krónu viðri. Hefjum augnveisluna á jökullausu Oki með Fanntófell í forgrunn. Síðan tekur Þórisjökull við og Kaldidalur á milli. Í brekkunni fram unda Þórisjökli eru Hrúðurkarlar og síðan Litla- og Stóra-Björnsfell. Það bjarmaði fyrir Langjökli. Horfun okkur nær: Langafell, snjólaus Skjaldbreiður sem ber af öðrum fjöllum, síðan Hlöðufell, Bláfell fjær, fönguleg Skriða, Lágafell liggur næst Ármannsfelli, Tindaskagi, Klukkutindar, Kálfstindar, Hrafnabjörg, Miðdalsfjall og Fagradalsfjall. Arnarfell, Miðfell við Þingvallavatn. Horfum fjær: Sjáum topp Heklu, Eyjafjallajökull, Vestmanneyjar, Búrfell, Ingólfsfjall, Hellisheiði, Skálafell, Hengill, Lambafell, Sauðdalahnúkar, Blákollur, Vífilsfell og Bláfjöll. Síðan tökum við Reykjanesfjöllin: Trölladyngja, Keilir og Fagradalsfjall sjást greinilega. Komum okkur aftur á Þingvallavatn og horfum í suður og sjáum Grafningsfjöll og síðan Hrómundartind. Þá sér yfir Mosfellsheiði, Grímmannsfell, Úlfarsfell og Esjuna með Móskarðsnúka, Skálafell, Búrfell, Kjölur og tignarlegar Botnsslúlur með Gagnheiði á milli og Kvígindisfell og Þverfell fjær. Akrafjall með Geirmundartind og Skarðsheiði lengra í vestri.
Við söknuðum að sjá ekki Hvalfell en það er á bakvið Botnssúlur og Baulu í Borgarfirði.
Einfaldast og öruggast er að fara sömu leið til baka en við ákváðum að fara beint niður, styttri leið en brattari og giljum og uppþornuðum árfarvegi fylgt. Mögulega tekið lengri tíma eftir allt saman. En vara þarf sig á að laus möl getur legið yfir móbergshellunni.
Aðrar leiðir eru að beygja við eyðibýlið Svartagil og ganga upp samnefnt gil.
Hin er að keyra aðeins lengra áfram eftir veg 52 Uxahryggir og hefja gönguna austan við Sleðaás í Krika.
Varða á toppi Ármannsfells í 766 m hæð. Dýrt útsýni og ægifegurð. Skjaldbreiður og Hlöðufell í beinni línu.
Dagsetning: 28. september 2019
Hæð í göngubyrjun: 143 metrar, Bolabás (N: 64.17.705 W:21.03.580)
Ármannsfell - varða: 766 m (N: 64.19.600 W: 21.01.956)
Hækkun göngufólks: 623 metrar
Uppgöngutími: 180 mínútur (10:00 13:00)
Heildargöngutími: 330 mínútur (10:00 15:30)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 10 km
Veður Þingvellir kl. 12.00: Léttskýjað, SV 2 m/s, 10,6 °C, raki 63%
Þátttakendur: Villiendurnar, 3 göngumenn.
GSM samband: Já, 3G
Gestabók: Já, Fella- og fjallgönguverkefnið Sveitin mín
Gönguleiðalýsing: Greiðfær en nokkuð um mosa og lausagrjót, og grýtt uppi á fellinu. Létt og gefandi fjallganga. Fellið er við alfaraleið en gengið allt of sjaldan.
Facebook-status: Guðdómlegt gönguveður í dag og fjöllin skörtuðu sínu fegursta hvert sem litið var. Alveg frá jökullausu Oki til Mariannelund!
Heimildir
Íslensk fjöll gönguleiðir á 151 tind: Ari Trausti Guðmundsson, Pétur Þorleifsson
Ferðafélag Árnesinga: Ármannsfell 26. júní 2010 og Ármannsfell 9. september 2017
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.9.2019 | 12:31
Kaldbakur í Eyjafirði (1.173 m)
ramlegt fjall með reknar herðar reisir gafl við hánorðrið," -MJ
Kaldbakur gnæfir yfir landslaginu austan Eyjafjarðar, norður af Grenivík og er hluti af fjallakeðju sem einu nafni nefnist Látrafjöll. Fjallið er 1.173 m hátt og gengur nálega í sjó fram og speglaðist í sænum, hrikalegt og tilkomumikið. Á tindi Kaldbaks er varða sem hlaðin var af landmælingamönnum danska herforingjaráðsins árið 1914.
Hefðbundin leið á Kaldbak hefst við Grenjárbrúnna við Árbakka skammt norðan Grenivíkur. Við fórum aðra leið. Keyrt var á jeppum upp fjallveg sem liggur í Grenivíkurfjalli en þar er aðstaða sem Kaldbaksferðir hafa gert fyrir vélsleðaferðir. Við keyrðum upp að þriðja palli og stoppuðum í 356 metra hæð.
Þegar lagt var af stað var þoka en spáin lofaði góðu fyrir daginn og vonuðumst við að sólin næði að eyða skýjunum.
Strax var farið niður í gil sem Grenjá hefur grafið og þegar komið var upp úr gilinu minnkaði þokan og skömmu síðar gengum við upp úr henni. Eyjafjörðurinn var þakinn skýjum og glæsilegur að sjá en vel sást í efstu fjallstinda fjarðarins. Þjóðskáldið Matthías Jochumsson orðaði þetta snilldarlega: undan sólu silfurþoka svífur létt um Eyjafjörð.
Gengið var eftir mel alla leið upp snjólausa suðuröxlina á topp en snjóskafl liggur í jökulskál vestan megin axlarinnar og mættum við honum í 650 metra hæð en snjór og er ís í skálinni allt árið um kring.
Eftir tveggja tíma göngu var tekið matarstopp í tæplega 900 metra hæð og horft yfir bómullarlagðan Eyjafjörðinn. Þar sáum við fjórar rjúpur og sauðfé. En ýmislegt sást t.d. lambagras, grasvíðir, dýragras og músaeyra. Einnig sáum við lóur og mikið var um köngulær.
Eftir rúmlega þriggja tíma göngu var toppnum náð en hann er á grýttri sléttu og er varðan glæsilega. Það var mikil stemming við vörðuna og rifjaðist upp vísa sem Látra-Björg kvað um svikul og tvíráð veðrateikn á tindi Kaldbaks:
Vestanblika
kúfnum kalda
Kaldbak hleður;
sunnan kvika,
utanalda,
austan veður.
Kaldbakur er mikið útsýnisfjall og sér langt inn á hálendið en fjöllin á Gjögraskaga vöktu mesta athygli, keilulaga og snævi þakin. Í gamalli ferðalýsingu Sig. Júl. Jóhannessonar segir um útsýni af Kaldbak: þaðan sést yfir allan Skjálfanda, og afar langt á sæ út; Herðubreið, sem er suður undir Vatnajökli, öll Mývatnsfjöll, Eyjafjörður allur, Fnjóskadalur, Bárðardalur, Hörgárdalur og Svarfaðardalur o.s.frv. þaðan sést austur á Sléttu og vestur undir Horn.
Ekki sáum við alla dýrðina og söknuðum helst Herðubreiðar en skýjabólstrar voru yfir hálendinu.
Kaldbakur hefur verið skáldum og rithöfundum hugleikinn og líkt honum við hvítabjörn og ort um fegurð og kraft fjallsins.
Árið 2002 var alþjóðlegt ár fjalla. Þá var Herðubreið kosin þjóðarfjall Íslendinga og Kaldbakur sigraði í keppninni um fjall Eyjafjarðar eftir harða samkeppni við Kerlingu og Súlur. Á landinu eru sex fjöll sem bera nafnið Kaldbakur.
Gönguhópurinn við glæsilegu landmælingavörðuna frá 1914. Útburðarskálarhnjúkur handan og hafa sést þar svipir manna.
Dagsetning: 27. júlí 2019
Hæð í göngubyrjun: 356 metrar Grenivíkurfjall 3. pallur (N: 65.58.092 W: 18.10.289)
Kaldbakur - varða: 1.173 m (N: 66.00.381 W: 18.10.842)
Hækkun göngufólks: 817 metrar
Uppgöngutími: 195 mínútur (09:15 12:30)
Heildargöngutími: 330 mínútur (09:15 14:45)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 10 km
Veður Akureyri kl. 12.00: Skýjað, SA 1 m/s, 13,2 °C
Þátttakendur: Villiendurnar, 11 göngumenn.
GSM samband: Já
Gestabók: Já
Gönguleiðalýsing: Stikuð leið eftir hrygg sem er gróin neðarlega en breytist í mel er ofar dregur.
Facebook-status: Kaldbakur minnir mig frekar á mammút eða loðfíl heldur en hvítabjörn eftir þessa fræknu gönguferð.
Heimildir:
Fjöllin í Grýtubakkahreppi Hermann Gunnar Jónsson, 2016
Huldulandið Vigfús Björnsson, 1997
Kaldbaksferdir.com - Kaldbakur
Sig. Júl. Jóhannesson. (Ferðapistlar VIII. Dagskrá 26. nóv. 1898.)
Ljóð | Breytt 26.9.2019 kl. 09:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.8.2019 | 21:53
Kvígindisfell (783 m) á Uxahryggjaleið
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, þjóðfræðingur hefur leitt kvöldgöngur á föstudagaskvöldum sem kallast sumarnætur og eru í samvinnu við Ferðafélag Íslands. Í þeim eru þekktir staðir heimsóttir og sagnir og þjóðlegur fróðleikur dreginn fram.
Ég skellti mér í ferða á Kvígindisfell á Uxahryggjaleið en þar erum við komin á slóðir Skúlaskeiðs sem Grímur Thomsen orti svo fagurlega um.
Haldið er af stað í gönguna frá Biskupsbrekku, norðan Víðikera og austan Hvannadala á Uxahryggjaleið og gengin auðveld leið upp á Kvígindisfellið.
Þegar vel viðrar er geysivíðsýnt til allra átta, bæði jöklasýn og til fjalla, allt norður í Húnavatnssýslu þegar best lætur. Þarna fengum við að upplifa landslag eins og inni á reginöræfum, samhliða mikilli fjallasýn.
Kvígindisfell er fornt móbergsfjall, frá síðkvarter, skorið giljum, 783 m hátt. Mikið útsýni er af fellinu. Nafnið vafðist fyrir mönnum og eru til frá síðustu öldum skýringarheitin Kvigyndisfell, Kvikfénaðaryndisfell, Kvikféyndisfell, Kvíindisfell ofl. Kvígindi eru ungir nautgripir eða geldneyti, sem þarna munu hafa verið á afrétti. (bls. 262)
Nokkur örnefni og bæjanöfn á landinu hafa kvígindi að forlið, Kvígindisá, Kvígindisdalur, Kvígindisfell og Kvígindisfjöll. Þessi nöfn er að finna í öllum landshlutum.
Smalaland Lunddæla suður fyrir Kvígindisfell er kallað Suðurfjall (afrétturinn norðan Grímsár er Norðurfjall) (bls. 260)
Snjólaus Skjalabreiður, ógnarskjöldur bungubreiður fylgdi göngufólki alla leið. Snjóleysið má skrifa á hamfarahlýnun af mannavöldum. Þoka lág yfir Þórisjökli og Ok en hin þekktu fjöll í kringum Þingvallavatn skörtuðu sínu fegursta. Þegar toppur Kvígindisfells nálgaðist skall á þoka og því ekki farið alla leið.
Á heimleiðinni las Ólína hestavísuna Skúlaskeið eftir Grím Thomsen og var gaman að heyra hrynjandann og tengja við örnefnin á leiðinni, Tröllaháls, Víðiker og Ok. Skúlaskeið er torfær og stórgrýttur kafli á Kaldadalsvegi. Skúli nokkur var dæmdur til lífláts á Alþingi, en komst undan vegna afbragðshests, Sörla, sem hann reið. Aldrei hefur enn í manna minni meira riðið nokkur Íslendingur.
Þeir eltu hann á átta hófahreinum
og aðra tvenna höfðu þeir til reiðar
en Skúli gamli sat á Sörla einum
svo að heldur þótti gott til veiðar.
Kvígindisfell séð frá Biskupsbrekku
Dagsetning: 19. júlí 2019
Hæð Kvígindisfells: 783 metrar
Hæð í göngubyrjun: 330 metrar við Biskupsbrekku (N:64.25.252 - W:20.59.086)
Kvígindisfell næsti efsti pallur (724 m): (N:64.24.441 W: 21.02.983)
Hækkun göngufólks: 394 metrar
Uppgöngutími: 150 mínútur (19:15 - 21:45)
Heildargöngutími: 225 mínútur (19:15 23:00)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 10 km
Veður kl. 21.00 - Þingvellir: Skýjað, N 4 m/s, 14,1 °C, raki 67%
Þátttakendur: Ferðafélag Íslands, 50 þátttakendur í einni rútu.
GSM samband: Nei
Gestabók: Líklega ekki
Gönguleiðalýsing: Gengið eftir gömlum veg, síðan stefnt á norðaustur hluta fellsins og stikum fylgt. Leiðin er gróin fyrst og greiðfær. Fremur auðveld leið á ágætis útsýnisfell.
Facebook-status: Fínasta ganga i kvöld með Ferðafélagi Íslands á Kvígindisfell à Uxahryggjaleið
Heimildir:
Árbók F.Í. 2004 - Borgarfjarðarhérað
Vísindavefurinn - Hvað merkir nafnið Kvígindisfjörður
Ljóð | Breytt s.d. kl. 22:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.6.2015 | 00:04
Íslandsferð sumarið 1857
Fyrir nokkru áskotnaðist mér bók ÍSLANDSFERÐ SUMARIÐ 1857, úr minnisblöðum og bréfum frá Nils O:son Gadde (1834-1904).
Þetta var fyrsti sænski vísindaleiðangurinn til Íslands undir stjórn Otto Torell (1828-1900), en ferðafélagi hans var Nils 0:son Gadde sem skrifaði hjá sér lýsingar á ferðinni og því sem fyrir augu bar. Tveir aðrir Svíar voru með í leiðangrinum, Cato og Andres.
Leiðangurinn hófst í Þistilfirði og endaði á Akureyri með viðkomu á Mývatni. Þeir unnu að rannsóknum á jöklum í Hornafirði og mældu skriðhraða Svínafellsjökuls í Öræfum.
En Skjaldbreið er mér ofarlega í huga á Jónsmessu eftir Jónsmessugöngu með Ferðafélaginu um síðustu helgi. Þegar þeir félagar koma að Þingvöllum í lok ágúst og lýsa furðum landsvæðisins og þegar þeir sjá Skjaldbreið skrifar Gadde:
Þingvallasvæðið myndast af illræmdum hraunstraumi sem í annan endann teygir sig til upphafs síns, hinnar snævi þöktu hraundyngju Skjaldbreiðar heiti fjallsins er samsett úr tveim orðum sem tákna skjöldur og breiður en sökkvir hinum í Þingvallarvatn. Á þessum hraunfláka eru hinar nafnfrægu gjár, Almannagjá og Hrafnagjá, ásamt fleiri gjám smærri. Í nokkrum þeirra getur maður séð niður 100-200 fet: allt sem þar er að sjá er gert úr miklum hraunbjörgum. Einnig finnast stórir hellar á jörðinni, sennilega þannig til orðnir að hraunið hefur haldið áfram að renna undir yfirborðinu eftir að það var storknað
"Í hinu mikla dalflæmi blasir við jafnrunnið hraun með djúpum gjám, báðum megin þess fjallgarðarnir sem afmarka það og fyrir botninum Skjaldbreið með sinni breiðu bungu." (bls. 113, Íslandsferð sumarið 1857)
Hér er Gadde eflaust undir áhrifum frá Jónasi Hallgrímssyni, náttúrufræðingi og skáldi sem ferðaðist um Ísland sumarið 1841. Á ferð sinni um Þingvallasvæðið villtist hann frá ferðafélögum sínum og orti kvæðið Fjallið Skjaldbreiður sem birtist fyrst í 8. árgangi Fjölnis árið 1845. Í ljóðinu bregður skáldið upp skemmtilegri mynd af sögu svæðisins, tilurð Skjaldbreiðar og þátt þess í myndun Þingvallavatns. Hér er fyrsta erindið:
Fanna skautar faldi háum,
fjallið, allra hæða val;
hrauna veitir bárum bláum
breiðan fram um heiðardal.
Löngu hefur Logi reiður
lokið steypu þessa við.
Ógna-skjöldur bungubreiður
ber með sóma rjettnefnið.
En Jónas vissi heldur ekki um landrekskenninguna né ísaldarkenninguna en fyrstu hugmyndir um ísöld komu fram um 1815 og urðu ekki viðurkenndar fyrr en um miðja nítjándu öldina.
Kvæðið lifir, þótt kenningin um myndun þess sé í einhverjum atriðum fallin. En rómantíkin í kringum það hefur haldið ímynd Skjaldbreiðar og Þingvalla á lofti.
Svo heldur lífsnautnamaðurinn Gadde áfram nokkur síðar:
Almannagjá vestan hraunstraumsins úr Skjaldbreið og Hrafnagjá austan hans urðu til við það að hraunflákinn, sem er jarðmíla á breidd, sökk. Vesturveggur Almannagjár og austurveggur Hrafnagjár mynda standberg sem gagnstæðir veggir gjánna sprungu frá við sig hraunsins á milli þeirra.
Þarna er ekki komin þekking á landrekskenningunni en ummerki hennar eru augljós á Þingvöllum en 1915 setti þýski jarðeðlisfræðingurinn Alfred Wegener (1880-1930) kenninguna fram í bókinni Myndun meginlanda og úthafa árið 1915.
Gadde er eins og flestir ferðamenn bergnuminn af náttúrufegurð landsins og bókstaflega á kafi í ýmsum undrum: eldfjöllum, goshverum, fossum og sólarlagi.
Það er gaman að lesa 158 ára frásögn, en þekking og skilningur á landmótun hefur aukist en upplifunin er ávallt sú sama
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.2.2007 | 10:44
Tómasarhagi
Tindrar úr Tungnajökli,
Tómasarhagi þar
algrænn á eyðisöndum
er einn til fróunar.
Veit eg áður hér áði
einkavinurinn minn,
aldrei ríður hann oftar
upp í fjallhagann sinn.
Spordrjúgur Sprengisandur
og spölur er út í haf;
hálfa leið hugurinn ber mig,
það hallar norður af.
Fyrsta blog-færzlan. Er ekki tilvalið að byrja á ljóði eftir Jónas Hallgrímsson.
Þessi vísa er um Fjölnismanninn Tómas Sæmundsson sem fann hagablettinn á Sprengisandi árið 1835. Ljóðið er allt í senn, um vin hans, um hagann algræna í sandflæminu mikla sem oft er seinfarinn - nema í huganum einum.
Við fórum á síðasta sumri í eftirminnilegt ferðalag upp á Kjöl og yfir Sprengisand. Veður var ómótstæðilegt. Ekki ský á himni. Mögnuð stund. Verst að fáir Íslendingar skyldu fá að upplifa þennan dag. Við töldum 29 bíla á norðurleið og þrjú hjól. Meirihluti farþega voru erlendir ferðamenn.
Eftir ferðalagið yfir Sprengisand hefur þetta ljóð verið mér minnisstætt.
Ljóð | Breytt 10.8.2007 kl. 21:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (16.9.): 122
- Sl. sólarhring: 259
- Sl. viku: 373
- Frá upphafi: 232719
Annað
- Innlit í dag: 109
- Innlit sl. viku: 333
- Gestir í dag: 109
- IP-tölur í dag: 106
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar