Færsluflokkur: Lífstíll

Móskarðshnjúkur (807 m)

Eitt markmið hjá mér er að ganga á bæjarfjallið Esjuna að lágmarki einu sinni á ári. Í ár var haldið á Móskarðshnjúka en þeir eru áfastir Esjunni. Tekinn var Móskarðshringur frá austri til vesturs á hnjúkana þrjá.

Aðeins austasti hnjúkurinn hét Móskarðshnjúkur, hinir voru nafnlausir, en Móskörð var nafn á hnjúkaröðinni allri. Víst er að austasti hnjúkurinn er tignarlegastur, enda afmarkaður af djúpum skörðum á báða vegu. Þessir hnjúkar eru úr líparíti og virðist ævinlega skína á þá sól vegna þeirra ljósa litar.

Lagt var á Móskarðshnúk frá Skarðsá og haldið upp Þverfell og stefnan tekin fyrir ofan Bláhnjúk. Það var þoka á austustu tindunum en veðurspá lofaði jákvæðum breytingum. Leiðin er stikuð og vel sýnileg göngufólki. Reyndir göngumenn á Móskörð segja að leiðin sé greinilegri á milli ára.

Eftir að hafa gengið í rúma þrjá kílómetra á einum og hálfum tíma, þá var toppi Móskarðshnjúks náð en skýin ferðuðust hratt. Á leiðinni á toppinn á hnjúknum var stakur dökkur drangur sem gladdi augað. Það var hvasst á toppnum skýin ferðuðust hratt. 

Útsýni gott yfir Suðvesturland, mistur yfir höfuðborginni. Fellin í Mosfellsbæ glæsileg, Haukafjöll og Þrínhnúkar. Vötnin á Mosfellsheiði sáust og hveralykt fannst, líklega frá Nesjavöllum. Skálafell, nágranni í austri með Svínaskarð sem var þjóðleið norður í land. Í norðri var Trana og Eyjadalur og í vestri voru Móskarðsnafnarnir, Laufskörð og Kistufell.

Glæsileg fjallasýn eða eins og Jón Kalmann Stefánsson skrifar í Himnaríki og Helvíti: "Fjöllin eru ekki hluti af landslaginu, þau eru landslagið."

Haldið var af toppnum niður í skarðið og leitað skjóls og nesti snætt. Síðan var haldið á miðhnjúkinn (787 m), síðan á þann austasta (732 m) og niður með Grjáhnjúk (Hrútsnef).

Þórbergur Þórðarson á skemmtilega lýsingu af líparítinu í Móskarðshnjúkum sem eru hluti af 1-2 milljón ára gamalli eldstöð (Stardalseldstöðinni) í Ofvitanum. En rigningarsumarið 1913 ætlaði hann að afla sér tekna með málningarvinnu. Það var ekkert sólskin á tindunum. Það var grjótið í þeim, sem var svona á litinn. Náðu Móskarðshnjúkar að blekkja meistarann í úrkominni. 

Móskarðshnjúkur

Tignarlegur Móskarðshnjúkur, 807 metrar. Trana (743 m) tranar sér inn á myndina til vinstri og Skálafell með Svínaskarð á milli er til hægri.

Dagsetning: 25. júlí 2017
Hæð: 807 metrar
Hæð í göngubyrjun: 130 metrar við Skarðsá
Hækkun: 677 metrar, heildarhækkun 814 metrar
Heildargöngutími: 240 mínútur (11:00 - 15:00)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 8 km
Veður kl. 12.00 Þingvellir: Skýjað, S 3 m/s, 15,4 °C og 69% raki
Þátttakendur: Skál(m), 3 þátttakendur
GSM samband: Já, mjög gott
Gönguleiðalýsing: Gróið land og brattar skriður

Heimildir
Íslensk fjöll, Gönguleiðir á 151 tind, Ari Trausti Guðmundsson og Pétur Þorleifsson
Morgunblaðið, Bæjarfjallið Esja, Sigrún Huld Þorgrímsdóttir, 25. nóvember 2000.


Frá monopoly til duopoly

Sjálfstæðismenn eru hugmyndasnauðir eins og áður fyrr og enn dúkkar áfengisfrumvarp upp en skoðanakannanir Maskínu og Fréttablaðsins sýna að Íslendingar vilja ekki áfengi í matvöruverslanir. Áfengisfrumvarpið, er eins og allir vita smjörklípa sem sjálfstæðismenn grípa til og leggja fram á Alþingi þegar vond mál skekja flokkinn.

Auk þess sýna rannsóknir vísindamanna að aukið aðgengi hefur neikvæð áhrif á samfélagið.

Hér er t.d. rannsókn frá Washington:

(2014) Alcohol Deregulation by Ballot Measure in Washington State

http://www.healthyalcoholmarket.com/pdf/Alcohol_Deregulation_by_Ballot_Measure_in_Washington_State.pdf

Afleiðingar þess að hafa lagt niður einkaleyfi ríkis á sölu áfengis í Washington-fylki árið 2011

Niðurstaða:

  • Ávinningur íbúa Washington fylkis var rýr. Áfengisverð hækkaði strax um 12%.
  • Of snemmt að meta samfélagsleg áhrif.
  • Þeir sem hafa hagnast á nýju reglugerðinni eru Costco og aðrar stórar verslunarkeðjur.
  • Minni búðir gátu ekki keppt við stóru verslunarkeðjurnar. Margar vínverslanir urðu gjaldþrota.
  • Reglugerðin leiddi til þess að markaðinum er stjórnað af stóru verslunarkeðjunum („monopoly to a duopoly“).
  • Reglugerðin samin þannig að gjöld voru lögð á heildsala en ekki smásala, þ.a. stóru verslunarkeðjurnar sluppu.
  • Minni áfengisframleiðendur eiga erfiðara uppdráttar.
  • Þjófnaður jókst.

...og svo var gerð könnun tveimur árum seinna um hvort kjósendur myndu kjósa öðruvísi eftir að vita afleiðingarnar (Aflögn einkaleyfis fór sem sagt í „þjóðar“atkvæðagreiðslu).

(2016) Opinions on the Privatization of Distilled-Spirits Sales in Washington State: Did Voters Change Their Minds?

http://www.jsad.com/doi/abs/10.15288/jsad.2016.77.568

Myndu kjósendur kjósa öðruvísi í „I-1183“ ef þeir hefðu séð inn í framtíðina?

Niðurstaða:

  • Þeir sem kusu „já“ eru átta sinnum líklegri til að kjósa öðruvísi núna heldur en þeir sem kusu „nei“.
  • Það er ekki fylgni á milli þessara breytinga og skoðanir kjósenda á sköttunum.
  • Mikilvægt fyrir lönd/ríki sem íhuga einkavæðingu að skoða þessa niðurstöðu.

Mjóifjörður

Sum örnefni eru augljós. Hér er eitt.
Mjóifjörður, 18 km langur og veðursæll, á milli Norðfjarðarflóa og Seyðisfjarðar. Þorp með 24 íbúa í Brekkuþorpi, eitt minnsta þorp landsins. Heiðin lokuð yfir veturinn. Kilfbrekkufossar, rygðaður landgönguprammi, hvalveiðistöð og gamli tíminn heilla mann.
Hvalveiðistöð Ellefsens var á Asknesi og var byggð af Norðmönnum um aldamótin 1900 og var ein stærsta í heimi. Sem betur fer er tími hvalveiða liðinn.


Malarvegur liggur niður í fjörðinn, inn Slenjudal, yfir Mjóafjarðarheið og alveg út á Dalatanga. Það var gaman að keyra niður í Mjóafjörð. Á hlykkjóttri leiðinni sást Prestagil, þar bjó tröllskessa sem tældi til sín presta í Mjóafirði og í Sólbrekku var hægt að fá frægar vöfflur. Í kirkjugarðinum er eitt veglegsta grafhýsi fyrir einstakling sem til er á landinu. Þar hvílir Konráð Hjálmarsson (1858-1939).

Einnig var bókin "Hann er sagður bóndi" æviferisskýrsla Vilhjálms Hjálmarssonar keypt með vöfflunni og lesin er heim var komið. Gaf það meiri dýpt í sögu fjarðarins og bóndans! 

Mjóifjörður

Mjóifjörður séður ofan af Mjóafjarðarheiði með Fjarðará fyrir miðju. 


Hvítserkur (771 m)

Á leið í Húsavík eystra var keyrt framhjá Hvítserk. Bar fjallið af öðrum fjöllum með sínum frumlega svip. Litasamsetning og  berggangar gera það næstum fullkomið. En Hvítserkur er ekki bara fegurðin heldur stórmerkilegt fjall.

Merking orðsins hvítserkur er ‘hvítur kyrtill (ermalaus eða ermastuttur)’. Hvítserkur sem örnefni er notað um eitthvað sem líkist slíku fati. Þannig heita eftirfarandi náttúrufyrirbæri Hvítserkur. Hvítserkir eru þrír á landinu: Foss í Fitjaá í Skorradal í Borgarfirði, klettur í sjó við vestanverðan botn Húnafjarðar í Vestur-Húnavatnssýslu (hann er hvítur af fugladriti) og síðan fyrrgreint fjall. Það hefur einnig verið nefnt Röndólfur. Fjallið er myndað úr ljósu súru bergi, rýólíti/líparíti með svörtum göngum úr blágrýti á milli. 

Ljósa efnið sem myndar meginhluta fjallsins er flikruberg (ignimbrit), hluti af yfir 300 m þykku jarðlagi sem myndast hefur af eldskýi við gjóskuhlaup úr Breiðvíkureldstöð litlu norðar. Gegnum ljóst og rauðbleikt flikrubergið hríslast dökkir basaltsgangar eða innskot sem sum tengjast dökkri basaltshúfu efst á tindi fjallsins, en hann er hluti af bólstrabergi og móbergi sem varð til í öskjuvatni í Breiðvíkureldstöð. Fjall sem myndaðist í setskál.

Flikrubergið í Hvítserki er samansett af mismikið ummynduðum vikri, basaltmolum og öðrum framandsteinum. Þar á meðal eru zirkon-steindir. Með aldursgreiningu reyndist aldur sumra á bilinu 126-242 milljón ár. Bendir það til að djúpt undir Austfjörðum eða hluta þeirra sé til staðar meginlandsskorpa og hafi flikrubergið rutt með sér til yfirborðsins allnokkru af fornu grannbergi gosrásarinnar og zirkon-steindir hafi síðan kristallast út úr kviku í hólfi undir eldstöðinni.

Það hefur gengið mikið á þegar fjöllin sunnan og austan Borgarfjarðar eystri mynduðust. Verði þetta staðfest með ítarlegri rannsóknum þarf að hugsa myndun Íslands upp á nýtt, en til þessa hefur verið talið að Íslands sé ekki eldra en um 16 milljón ára.

Þetta er stórmerkilegt. Það verður því gengið á Hvítserk, mögulega elsta fjall landsins við næsta tækifæri. 

Hvitserkur

Hvítserkur með rauðbleikt flikruberg og bergganga, mögulega elsta berg landsins sem inniheldur zirkon-steindir og gætu verið 126-242 milljón ára og tengst myndum Grænlands eða hugsanlega flís úr meginlandsskorpu.

Heimildir
Ferðafélag Íslands árbók 2008, Úthérað eftir Hjörleif Guttormsson
Glettingur, Dyrfjallablaðið, 55-56 tölublað 2011
Ferlir.is - Borgarfjörður - Breiðavík - Húsavík - Loðmundarfjörður


Húsavík eystra

Þær eru í það minnsta þrjár Húsavíkurnar á Íslandi. Eitt stórt þorp sem er höfuðborg hvalaskoðunar og hýsir einnig kísilmálmverksmiðju á Bakka. Önnur í Strandasýslu og sú þriðja á Víknaslóðum.

Húsavík eystra er stærst víkna milli Borgarfjarðar og Loðmundarfjarðar. Landnáma segir að Þorsteinn kleggi hafi numið land og út af honum séu Húsvíkingar komnir. Inn af víkinni gengur grösugur dalur sem skiptist síðan í þrjá minni dali.

Húsavík fór í eyði 1974. Eyðibyggðir búa yfir sérstakri og átakanlegri sögu. Íbúar Húsavíkur urðu flestir 65 undir lok 19. aldar en fækkað mikið eftir aldamótin 1900. 

Ekki fundust baggalútar né mannabein úr kirkjugarðinum. En mögulegt er að finna baggalúta eða hreðjasteina í Álftavíkurtindi og Húsavíkurmegin í Suðurfjalli. Atlantshafið nagar í landið. Bakkarnir eru háir og eyðast stöðugt. Í byrjun 20. aldar hafði um fjórðipartur af Gamla kirkjugarði hrunið niður fyrir og var þá nýr garður vígður neðst í túni.

Jeppaslóði var ruddur 1958 frá Borgarfiðri um Húsavíkurheiði sem liggur um Vetrarbrekkur sunnan undir Hvítserk (771 m), niður eftir Gunnhildardal. Bar Hvítserkur (771 m) af og litirnir komu margbreytilegir fram eftir úrkomu dagsins. Líparítfjöllin eru hvergi litríkari og fjölbreyttari en á þessu svæði. Vegurinn versnaði eftir því sem sunnar dró en jepplingur komst án vandræða til Húsavíkur eystra. Þó þurfti hann að glíma við eina áskorun og stóðst RAV4 hana. Framhald af jeppaslóðanum liggur um Nesháls til Loðmundarfjarðar. Myndalegur skáli Ferðafélags Fljótsdalshéraðs stendur þar við veginn. Hinn formfagri Skælingur, kínverska musterið, sást ekki nógu vel í þokunni.

Það var gaman að ferðast til Húsavíkur eystra, keyra rúmlega 20 km jeppaslóða og reyna að skilja landið sitt.

Húsavík eystra

Áhugavert aðgengi að Húsavíkurkirkju sem er bændakirkja sem byggð var 1937 og höfuðbólið Húsavík handan. Öllu vel viðhaldið.

Heimildir
Ferðafélag Íslands árbók 2008, Úthérað eftir Hjörleif Guttormsson
Borgarfjöður eystri – borgarfjordureystri.is


Svartfell (510 m) í Borgarfirði eystra

Ekki gaf gott veður í gönguferð í Loðmundarfjörð um Kækjuskörð. Því var ákveðið að ganga á Svartfell í Borgarfirði eystri en það var bjart yfir firðinum.

Tilvalið enda er ég að safna litafellum. Mörg örnefni á Íslandi tengjast litum, t.d. Rauðhólar, Rauðisandur og Rauðifoss, og eru rauðir litir í örnefnum oftast skýrðir með lit berggrunns eða jarðefna. Hins vegar tengist blár litur í örnefni oftast fjarlægð og skýrist af áhrifum andrúmsloftsins á ljós. Grænn litur tengist yfirleitt gróðri.
Hér eru fellin: Rauðafell, Grænafell, Bláfell, Svartafell/Svartfell, Hvítafell/Hvítfell og Gráfell.

Gengið er eftir vegslóðanum sem liggur til Brúnavíkur en þegar á gönguna leið færðist úrkoma yfir og þoka huldi Goðaborgina. Því var gengið í kringum fellið.

En göngulýsing segir: Gengið upp á tind Svartfells (510m) Brúnavíkurmegin. Fallegt útsýni er af toppnum yfir Borgarfjörð og Brúnavík. Á toppnum er að finna gestabók sem allir eiga að skrifa í. Farið er sömu leið niður af fjallinu en gengið á Hofstarndarmælinn sem er í fjallinu miðju. Svartfellshlíðarnar eru fallegt framhlaup sem hefur myndast einhvern tímann eftir síðastliðna ísöld. Þetta er leið 25 í ágætu göngukorti um Víknaslóðir.

Gjá ein mikil efst í Svartfelli heitir Klukknagjá og komu heiðnir þar fyrir klukkum sem hringja fyrir stórtíðindum og í ofsaveðrum. Sló í brýnu milli kristinna og heiðingja og höfðu þeir kristnu betur. Heiðingjar sem ekki féllu voru skírðir í Helgá en hinir dauðu voru huslaðir í Dysjarhvammi skemmt sunnan bæjar. 

Svartfell

Bakkagerði með 82 íbúa og Svartfell í bak.

Dagsetning: 3. ágúst 2016
Hæð Svartfells: 510 m
Hæð í göngubyrjun: 15 metrar (N:65.31.152 - W:13.46.585) Hofströnd að Brúnavík. Leið 20
Heildargöngutími: 240 mínútur (09:20 - 13:20)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: Um 7,0 km
Veður kl. 12 Vatnsskarð: Skýjað, ASA 6 m/s, 6,5 °C. Raki 97% 
Þátttakendur: Skál(m), 9 göngumenn.GSM samband: 3G/4G gott
GSM samband: 3G/4G gott
Gestabók: Já

Gönguleiðalýsing: Gengið eftir vegaslóða í Brúnavík, leið #20 um Hofstrandarskarð og austur fyrir Svartfell við Engidal. Farið upp skarð og komið niður inn á leið #25 og sótt á Breiðuvíkurveg.

Tenglar
http://www.borgarfjordureystri.is/ferdathjonusta/gongusvaedid-viknaslodir/gps-trokk
http://www.wildboys.is/blog/record/482593/


Stórurð - Undraveröld í ríki Dyrfjalla

Orðið ægifegurð kemur í hugann þegar maður er staddur í Stórurð með reisulega Dyrfjöll yfir höfði sér og innan um stórbrotið þursabergið í Urðardal. 

Stórurð er stórgrýtt urð sem geymir slétta fagurgræna grasbala og hyldjúpar grænbláar tjarnir innan um stór björg á hæð við fjölbýlishús. Urðardalsá rennur í gengum Urðardalinn og grænn mosinn fullkomnar verkið. Fyrsta nafnið á urðinn var Hrafnabjargarurð en nýja nafið er stórbrotnara.

Gengin var algengasta leiðin í Stórurð. Lagt af stað frá Vatnsskarðsvatni, leið 9 og komið til baka leið 10 en bíll var skilinn eftir þar. Alls 17,4 km.

Dyrnar á Dyrfjöllum sáust vel milli standbjarganna beggja vegna en þoka dansaði á efstu tindum Dyrfjalla. Talið er að Stórurð hafi myndast við hreyfingu skriðjökla utan í Dyrfjöllum. Við það féll mikið af bergi af ýmsum stærðum og gerðum niður á þá. Sum stykki eru á stærð við heila blokk. Stykkin færðust með jöklum niður þrjá dali sem allir heita Urðardalir og liggja frá Dyrfjöllum. Langstærstu stykkin finnast í Stórurð.

Grænbláa tjörnin kallaði á söng vaskra göngukvenna og gerði hann áhrifameiri. Lagið Vikivaki (Sunnan yfir sæinn breiða) var valið af lagalistanum en það er eftir Austfirðinginn Valgeir Guðjónsson og texti eftir Jóhannes í Kötlum. Græni grasbalinn sýndi kyrrðina í öllu sínu veldi, tilvalinn þingstaður.

Dyrfjöll eru svipmikil klettafjöll og var eitt sinn askja og megineldstöð en ísaldajökullinn hefur brotið allt niður.

Ferðamálahópur Borgarfjarðar á hrós skilið fyrir Víknaslóðir. Stikun leiða er til fyrirmyndar og upplýsingaskilti víða. Svæðið er eitt allra best skipulagða göngusvæði á Íslandi.

Stórurð í ríki Dyrfjalla

Þursabergið í Stórurð, Dyrnar í Dyrfjöllum með Urðardalsá og grænn mosi.

Dagsetning: 2. ágúst 2016 
Hæð Stórurðar: 451 m 
GPS hnit Stórurð: (N:65.30.974 - W:13.59.413)
Hæð í göngubyrjun:  428 metrar (N:65.33.718 - W:13.59.505) við vatnið á Vatnsskarði. Leið 9.
Hæsti hæðarpunktur: 654 metrar, við Geldingafell og þá opnast sýn til Dyrfjalla og yfir Dyrfjalladal        
Göngutími niður að Stórurð: 170 mín (10:15 - 13:20) – um 7 km ganga.
Heildargöngutími: 375 mínútur (10:15 - 16:30) 
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd:  17,4 km 
Veður kl. 12 Vatnsskarð: Léttkýjað, ANA 6 m/s,  8,3 °C. Raki 91%. 
Þátttakendur: Skál(m), 12 göngumenn.
GSM samband:  Ekki stöðugt en meirihluti leiðar í 3G/4G.

Gönguleiðalýsing: Gengið eftir vel stikaðri leið, #9 um Geldingaskörð að Urðardal, gengið niður í Stórurð 76 m hæðarmunur og hringur tekin í þursaberginu í Stórurð. Gengið eftir leið #10 til baka yfir Mjóadalsvarp og niður Dyrfjalladal. Gott og vel stikað gönguland með upplýsingaskiltum víða.

Heimildir
Víknaslóðir, Göngukort Ferðamálahópur Borgarfjarðar
Ferðafélag Íslands árbók 2008, Úthérað eftir Hjörleif Guttormsson
Glettingur, Dyrfjallablaðið, 55-56 tölublað 2011
Borgarfjörður eystri, vefur, Göngusvæðið Víknalsóðir

 


Hólárjökull hörfar

Jöklarannsóknir mínar halda áfram. Ávallt þegar ég keyri framhjá Hólárjökli sem var einn af tignarlegum skriðjöklum úr Öræfajökli, þá smelli ég ljósmynd af honum. Hólárjökull er rétt austan við Hnappavelli. Hólá kemur frá honum.

Efri myndin var tekin 5. ágúst 2016 í súld. Neðri myndin er samsett og sú til vinstri tekin 16. júlí 2006 en hin þann 5. ágúst 2015.  Það sést glöggt að jökultungan hefur styst og jökullin þynnst, nánast horfið.  Rýrnun jöklanna er ein afleiðingin af hlýnun jarðar. 

Árið 2006 voru íslenskir jöklar útnefndir meðal sjö nýrra undra veraldar af sérfræðingadómstól þáttarins Good Morning America á bandarísku sjónvarpsstöðinni ABC. Íslensku jöklarnir urðu fyrir valinu vegna samspils síns við eldfjöllin sem leynast undir íshellunni.

Jöklarnir vita svo margt. Við erum að tapa þeim með ósjálfbærri hegðun okkar.

Hólárjökull 2016

 

Loftslagsbreytingar eru staðreynd og hitastig breytist með fordæmalausum hraða. Við þurfum að hafa miklar áhyggjur, jöklarnir bráðna og sjávarstaða hækkar með hækkandi hita og höfin súrna.

Draga þarf úr útblæstri jarðefnaeldsneytis og á meðan breytingarnar ganga yfir, þá þarf að kolefnisjafna. Annað hvort með gróðursetningu trjáa eða endurheimt votlendis.Einnig þarf að þróa nýja tækni.

 

 

 

 

 

Hólárjökull 5. ágúst 2016.

 

Hólárjökull 2006 og 2015

Jökulsporðurinn er nær horfinn. En hann hefur í fyrndinni náð að ryðja upp jökulruðningi og mynda garð.

Sjá:
Hólárjökull 2007 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/259538/
Hólárjökull 2008 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/611572/
Hólárjökull 2009 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/911196/
Hólárjökull 2011 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1192311/

Hólárjökull 2012 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1253486/

Hólárjökull 2015 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1920380/


Að deyja úr frjálshyggju

Þær safnast undirskriftirnar hjá endurreisn.is. Það styttist í 70 þúsund manna múrinn verði rofinn.

Ég lenti í lífsreynslu í sumar og þurfti að leita á náðir heilbirgðiskerfisins og eru það ný lífsreynsla fyrir mér en hef náð áratug án þess að þurfa að leita læknis.

Skrifaði grein á visir.is: Frá Kverkfjöllum til Tambocor, þriggja mánaða krefjandi ferðalag.

Að leggja fjármagn í heilbirgðiskerfið er fjárfesting en ekki útgjöld. Hvert mannslíf er verðmætt. Um hálfur milljarður!

Hér á landi vantar lækna. Það vantar hjúkrunarfólk. Það vantar fjármagn, kærleik og skilvirkt heilbrigðiskerfi. Það vantar góða stjórnmálamenn. Það vantar rétta forgangsröðun. Það er vísvitandi verið að brjóta heilbrigðiskerfið niður innanfrá. Það er verið að undirbúa innrás frjálshyggjunnar.  

Heilbrigðiskerfið á Íslandi er eflaust á heimsmælikvarða fyrir heilbrigt fólk, en þegar reynir á kerfið eru biðlistarnir langir.  Þeir eru í boði stjórnvalda. Þau bera ábyrgð á stöðunni. Fagfólkið á spítalanum gerir sitt bezta.

Við skulum von að okkur Íslendingum takist að endurreisa heilbrigðiskerfið og hafa sambærilegt heilbrigðiskerfi og hin Norðurlöndin búa við til að vernda okkar mikilvægust eign, heilsuna.

Vonandi deyr enginn úr frjálshyggju. 


Ice and the Sky ***1/2

Sá þessa áhugaverðu heimildarmynd, Ísinn og himininn (e. Ice and the Sky) um jöklafræðinginn Claude Lorius eftir franska leikstórann Luc Jacquet í Bíó Paradís á föstudaginn en sýningin var í tengslum við Arctic Circle ráðstefnuna. En Lorius og samstarfsmenn unnu frækileg vísindaafrek í kuldanum á Suðurskautslandinu og náðu að lesa hitastig jarðar 800 þúsund ár aftur í tímann með því að bora niður í jökulinn og lesa upplýsingar úr ískjörnum. Frakkar unnu með Bandaríkjamönnum og síðar Sovétmönnum að vísindarannsókum í kalda stríðinu. Friður og vísindi.

Ísinn og himininnÞetta er köld mynd og sýnir hversu mikinn viljastyrk og mikla fróðleiksfýsn Lorius og vísindamennirnir sem unnu með honum höfðu. Mér kom i hug bókin Himnaríki og helvíti eftir Jón Kalman við áhorfið. Vísindamenn að skrá upplýsingar og bora niður í jökulinn meðan pósturinn glímdi við íslenskar heiðar.

Heimildarmyndin er byggð upp með efni sem leiðangursmenn tóku á eigin upptökuvélar og svo er Lorius á sama stað og horfir yfir sviðið, bæði á Suðurskautslandinu og í brenndum skógi. Hann talar ekkert en þulur þylur spekina sem greindarlegt andlit aldna vísindamannsins gefur frá sér.

Maðurinn hefur áhrif allsstaðar og daglegar gjörðir okkar hafa áhrif um allan heim. Líka á Antartíku þar sem aðeins örfáir menn stíga niður fæti.

Eftir sýninguna sagði Jacquet frá gerð myndarinnar og markmiðum hennar. Fræða fólk, sérstaklega unga fólkið. Þegar hann var spurður um hvað almenningur gæti gert til að minnka loftslagsbreytingar svaraði Luc: Almenningur að kjósa umhverfisvænt fólk á þing út um allan heim og fólk þarf að finna hamingjuna í öðru en glæsibifreiðum og flatskjám.

Áhugaverð mynd um loftslagsbreytingar og framlag merkilegs vísindamanns.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 5
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 59
  • Frá upphafi: 233597

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 50
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband