Stórurð - Undraveröld í ríki Dyrfjalla

Orðið ægifegurð kemur í hugann þegar maður er staddur í Stórurð með reisulega Dyrfjöll yfir höfði sér og innan um stórbrotið þursabergið í Urðardal. 

Stórurð er stórgrýtt urð sem geymir slétta fagurgræna grasbala og hyldjúpar grænbláar tjarnir innan um stór björg á hæð við fjölbýlishús. Urðardalsá rennur í gengum Urðardalinn og grænn mosinn fullkomnar verkið. Fyrsta nafnið á urðinn var Hrafnabjargarurð en nýja nafið er stórbrotnara.

Gengin var algengasta leiðin í Stórurð. Lagt af stað frá Vatnsskarðsvatni, leið 9 og komið til baka leið 10 en bíll var skilinn eftir þar. Alls 17,4 km.

Dyrnar á Dyrfjöllum sáust vel milli standbjarganna beggja vegna en þoka dansaði á efstu tindum Dyrfjalla. Talið er að Stórurð hafi myndast við hreyfingu skriðjökla utan í Dyrfjöllum. Við það féll mikið af bergi af ýmsum stærðum og gerðum niður á þá. Sum stykki eru á stærð við heila blokk. Stykkin færðust með jöklum niður þrjá dali sem allir heita Urðardalir og liggja frá Dyrfjöllum. Langstærstu stykkin finnast í Stórurð.

Grænbláa tjörnin kallaði á söng vaskra göngukvenna og gerði hann áhrifameiri. Lagið Vikivaki (Sunnan yfir sæinn breiða) var valið af lagalistanum en það er eftir Austfirðinginn Valgeir Guðjónsson og texti eftir Jóhannes í Kötlum. Græni grasbalinn sýndi kyrrðina í öllu sínu veldi, tilvalinn þingstaður.

Dyrfjöll eru svipmikil klettafjöll og var eitt sinn askja og megineldstöð en ísaldajökullinn hefur brotið allt niður.

Ferðamálahópur Borgarfjarðar á hrós skilið fyrir Víknaslóðir. Stikun leiða er til fyrirmyndar og upplýsingaskilti víða. Svæðið er eitt allra best skipulagða göngusvæði á Íslandi.

Stórurð í ríki Dyrfjalla

Þursabergið í Stórurð, Dyrnar í Dyrfjöllum með Urðardalsá og grænn mosi.

Dagsetning: 2. ágúst 2016 
Hæð Stórurðar: 451 m 
GPS hnit Stórurð: (N:65.30.974 - W:13.59.413)
Hæð í göngubyrjun:  428 metrar (N:65.33.718 - W:13.59.505) við vatnið á Vatnsskarði. Leið 9.
Hæsti hæðarpunktur: 654 metrar, við Geldingafell og þá opnast sýn til Dyrfjalla og yfir Dyrfjalladal        
Göngutími niður að Stórurð: 170 mín (10:15 - 13:20) – um 7 km ganga.
Heildargöngutími: 375 mínútur (10:15 - 16:30) 
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd:  17,4 km 
Veður kl. 12 Vatnsskarð: Léttkýjað, ANA 6 m/s,  8,3 °C. Raki 91%. 
Þátttakendur: Skál(m), 12 göngumenn.
GSM samband:  Ekki stöðugt en meirihluti leiðar í 3G/4G.

Gönguleiðalýsing: Gengið eftir vel stikaðri leið, #9 um Geldingaskörð að Urðardal, gengið niður í Stórurð 76 m hæðarmunur og hringur tekin í þursaberginu í Stórurð. Gengið eftir leið #10 til baka yfir Mjóadalsvarp og niður Dyrfjalladal. Gott og vel stikað gönguland með upplýsingaskiltum víða.

Heimildir
Víknaslóðir, Göngukort Ferðamálahópur Borgarfjarðar
Ferðafélag Íslands árbók 2008, Úthérað eftir Hjörleif Guttormsson
Glettingur, Dyrfjallablaðið, 55-56 tölublað 2011
Borgarfjörður eystri, vefur, Göngusvæðið Víknalsóðir

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurpáll Ingibergsson

Hér eru fleiri myndir úr ferðinni á facebook:

https://www.facebook.com/media/set/?set=a.10208938491852600.1073741846.1624936523&type=3

Sigurpáll Ingibergsson, 16.8.2016 kl. 18:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 75
  • Frá upphafi: 226261

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 67
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband