Færsluflokkur: Lífstíll

Hvannalindir

Lífskraftur er fyrsta orðið sem manni dettur í hug þegar maður sér rústirnar í Hvannalindum en þær eru umkringdar hálendiseyðimörk. Hvílík ofurmenni hafa Fjalla-Eyvindur og Halla verið, að geta lifað veturinn af. En þau söguð sig úr lögum við samfélagið eða samfélagið grimmt við þau.

Hún er athyglisverð fréttin á ruv.is vefnum en Minjastofnun Íslands tók í sumar þrjú bein úr gömlum rústum af vistarverum fólks sem hafðist við í Hvannalindum.

"Kolefnisgreining á beinum sem fundust í Hvannalindum rennir stoðum undir þá kenningu að dularfullur mannabústaður þar hafi verið skjól Fjalla-Eyvindar og Höllu eða annarra útilegumanna sem höfðu sagt sig úr lögum við samfélagið á 18. öld."

Samkvæmt greiningunni séu beinin líklegast frá um 1750 en skekkjumörkin séu 33 ár.

Upplýsingasteinar

Upplýsingasteinar í Hvannalindum

"Hvannalindir eru gróðurvin í um 640 metra hæð undir Lindahrauni í skjóli af Lindafjöllum og Krepputunguhraunum að vestan og Kreppuhrygg að austan."

Rústir

Séð inn í rústirnar. Kristján Eldjárns rannskaði þær sumarið 1941 og taldi þær hafa verið einangraðar með gærum.

Í rústunum fundust, útihúss, mosavaxinn eldiviðarköstur, steinpottur og ausa úr hrossherðablaði. 

Heimildir

Rúv. Bein styrkja tilgátu um bú Fjalla-Eyvindar


Ísjakar í fjörunni við Jökulsárlón

Það var mikið af jökum og ferðamönnum í fjörunni við Jökulsárlón í gær. Mikið af ís streymdi úr Jökulsárlóni út á haf og sunnanáttin skutlað þeim upp í fjöru. Geysimargar myndir voru teknar og flugu um samfélagsmiðla. Jöklarnir eru að hverfa.

Jakar við Jökulsárlón

Til­komu­mik­il upp­lif­un get­ur fal­ist í að skoða ísjakana í fjörunni. En eftir nokkra áratugi verður Jökulsárlón orðið að firði og jakaburður hættir fari fram sem horfir.


mbl.is Á sér hvergi hliðstæðu í sögunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íshellar og áin Volga í Kverkfjöllum

Eitt af undrum Kverkfjalla eru íshellar í Kverkjökli og áin Volga. Volga er ein af fyrstu kvíslum Jökulsár á Fjöllum, næst lengstu á landsins 206 km. En hvernig varð nafnið Volga til?

Sumarið 1963 fóru nokkrir menn í Jöklarannsóknarfélaginu í Kverkfjöll. Þeir hugðust kanna gróður og ganga á fjöll, en eins og oft vill verða á þessum slóðum tók veðrið af þeim völdin og varð þeim ekki annað til dundurs en að kanna íshella Kverkjökuls. Um hellisgöngin streymdi 13°C heit á og henni var gefið nafnið Volga. Aðal íshvelfing undirheimanna reyndist 15-20 metra há og 330 metra löng. Hún þrengdist inn á við og endaði háum fossi. Þar var skuggsýnt og mikið gufukóf. En Volguhellar eru að breytast. Volga stendur ekki lengur undir nafni og á meðan hún streymir ísköld viðheldur hún ekki hvelfingunum. Jökullinn skríður fram og við hellisopið hrynja ísflykki af og til. (bls. 276)

Á sumrin gætir ekki hitans í Volgu því leysingavatn gerir hana að ískaldri jökulá.

Við merktan göngustíg í átt að íshellinum eru skilti sem banna skoðunarferðir inn í íshellinn enda er þar slysahætta af völdum íshruns. Hópur af erlendum ferðamönnum fór samt inn í íshellinn og virti aðvaranir ekki að vettugi. Þegar við vorum búin að vera í nokkurn tíma að fræðast um íshellinn og samspil elds og ísa þá komu tveir erlendir ferða menn út úr hellinum. Þeir hafa eflaust farið lengra inn í hann en hópurinn. Þeim til happs var að vorið og sumarið var kalt og íshellinn stöðugri en í meðalári.

Fréttamaðurinn Ómar Ragnarsson er mjög hrifinn af Kverkfjöllum og hefur kynnt íshellin, Volgu og Kverkfjöll fyrir Íslendingum. Hann hefur lent í háskalegum atburðum og náð á kvikmynd. Í ljóðinu Kóróna landsins eftir Ómar er þessi fallega lína um Volgu:  Í Kverkfjöllum glóðvolg á íshellinn þvær.

íshellirinn í Kverkjökli

Íshellirinn í Kverkjökli þann 18. júlí 2015. Hann má muna fífil sinn fegurri. En hiti frá Volgu hefur minnkað og framskrið Kverkjökuls hefur dregið úr tignarleik hellisins.

Heimildir:
Perlur í náttúru Íslands, Guðmundur Páll Ólafsson, 5. prentun 2005.


Kverkfjöll - Hveradalir

Kverkfjöll eru önnur hæsta eldstöð landsins, næst á eftir Öræfajökli. Kverkfjöll rísa meira en 1.000 metra yfir umhverfi sitt og eru að hluta til hulin ís. Hæst rís Skarphéðinstindur á austanverðu fjallinu (1.933 m). Skipta má Kverkfjöllum í eystri og vestari hluta um Kverk sem er mikið skarð í fjöllin norðanverð með geysiháum þverhníptum hamraveggjum. Út um Kverk skríður Kverkjökull til norðvesturs niður undir hásléttuna í um 950 metra hæð.

En markmiðið með gönguferðinni var að heimsækja Hveradal í 1.600-1.700 m hæð með miklum gufu- og leirhverum, um 3 km langur og allt að 1 km breiður. Þetta er eitt öflugasta háhitasvæði landsins. Bergið er sundursoðið af jarðhita.

Lagt var frá Sigurðarskála (840 m) rétt eftir dagrenningu og íshellinn skoðaður úr fjarlægð. Jarðhiti er undir Kverkjökli, og undan honum fellur stærsti hveralækur landsins, sem bræðir ísgöng fyrir farveginn. Erlendir ferðamenn fóru inn í hellinn og virtu aðvaranir að vettugi.

Síðan voru mannbroddar settir undir fætur og lagt af stað, úr 950 m hæð. Gengið yfir Kverkjökul og snæviþakta Löngufönn. Á leiðinni var fallegt sprungusvæði og drýli röðuð sér skipulega upp. Spáin var óhagstæð. Kuldapollur frá heimskautinu skaust inn á landið og vetur konungur var að ganga í garð á hálendinu um miðjan júlí.

Gönguhópurinn fór í rúmlega 1.500 metra hæð en sneri við vegna snjóa. Lítið að sjá og fylgja ráðum háfjallagöngumannsins Ed Viesturs, að snúa við áður en það er orðið og seint. En skjótt skipast veður í lofti í mikilli hæð.

En tilhugsunin um Hveradali efri og neðri er stórbrotin og alltaf mögulegt að reyna aftur. Félag íslenskra fjallalækna, FÍFL fóru í ferð á síðasta ári og tóku frábærar myndir, þá lék veðrið við félaga.

Kverkjökull- ganga

Gengið á mannbroddum yfir Kverkjökul en undir honum er jarðhiti.

Göngukort

Mynd sem skýrir ferðina en hún er tekin af skilti á Sigurðarskála. Lagt af stað frá stað vinstra megin við Volgu og sést hann ekki.

Dagsetning: 18. júlí 2015
Erfiðleikastig: 4 skór
Þátttakendur: Ferðafélag Íslands, 20 manns

Heimildir
Jöklar á Íslandi, Helgi Björnsson, 2009. Bls. 343.
Vatnajokulsthjodgardur.is


Fossaganga í Skjálfandafljóti

Skjálfandafljót er fjórða lengsta á landsins, lengd fljótsins er 178 km. Það var því ákveðið að ganga rúma 20 km með eystri bakka Skjálfandafljóts. Gangan hófst við Réttartorfu og endaði við stuðlaðan Aldeyjarfoss.

Á leiðinni var hugsað til mögulegrar virkjunar, Hrafnabjargavirkjunar en á teikniborðinu eru þrír kostir, A, B og C. Við gengum eftir Fljótsdalnum sunnan við Hrafnabjörg og værum á kafi væri búið að virkja.

Með virkjun myndi stóru gróðursvæði á hálendinu vera sökkt með 25 km löngu miðlunarlóni og Aldeyjarfoss myndi þorna upp.

Í Skjálfandafljóti eru margir fallegir fossar með söguleg nöfn: Ullarfoss, Barnafoss, Goðafoss, Aldeyjarfoss, Hrafnabjargafossar og minna þekktir eru, Geitafoss, Ingvararfossar, og syðst er Gjallandi, en þeir eru fleiri.  Við ákváðum að heimsækja Hrafnabjargafossa, Ingvararfossa og Aldeyjarfoss í ferðinni.

Ferðin gekk vel frá Réttartorfu en ein á er á leiðinni, Sandá og vorum við ferjuð yfir.

"Hljóðlítið fljótið safnar enn í sig sopum úr ótal lænum áður en það fossar tignarlegt af stöllum Hrafnabjarga og nokkru neðar fram af hamraskrúði Aldeyjarfoss." (bls. 327, Hálendið í náttúru Íslands).

Það er gaman að ganga í gamla árfarvegi Skjálfandafljóts og finna fyrir pússuðu hrauninu og virða fyrir sér skessukatlana. Leiðin eftir gamla fljótsfarveginum er vel gróin við Stórutungu og mjög falleg. 

Það má ekki hrófla við fossunum, þeir eiga aðeins eftir að skapa tekjur fyrir komandi kynslóðir. Ég rifja oft upp þegar fyrstu hvalaskoðunarferðirnar voru farnar fyrir 22 árum, þá fóru 200 manns í ferð en í dag hefur talan þúsundfaldast!

Hrafnabjargafossar

Hrafnabjargafossar, margslungnir, minna á Goðafoss og fleiri fagra fossa.

Ingvararfossar

Kraftmiklir Ingvararfossar, frumgerð að Aldeyjarfossi eða Hjálparfossi í Þjórsá.

Aldeyjarfoss

Aldeyjarfoss er myndrænn vegna samspils svarts basalts og hvíts vatns.

Dagsetning: 10. júlí 2015 
Göngutími: 330 mín (12:30 - 18:00)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd:  20 km 
Veður kl. 15 Mývatn: Alskýjað, NV 4 m/s,  7,2 °C. Raki 71%. 
Þátttakendur: Frænku-gönguhópur, 7 manns og trúss.
GSM samband:  Lélegt á köflum.

Gönguleiðalýsing: Gengið í hrauni eftir mögulegu miðlunarlóni, Fljótsdalnum og eftir vegaslóða.


Græn skref í ríkisrekstri

Þetta eru fimm græn skref fyrir okkur, en umhverfisvæn skref fyrir mannkynið....

Það var góður dagur í vinnunni í dag. Við hjá ÁTVR fengum viðurkenningu frá umhverfis- og auðlindaráðherra fyrir að ná 5 grænum skrefum og tók það stuttum tíma.

Græn skref eru leið fyrir opinbera aðila til að vinna markvisst að umhverfismálum eftir skýrum gátlistum og fá viðurkenningu eftir hvert skref. Við tókum þetta í einu stökki enda búin að vinna heimavinnuna og fyrirmynd í samfélagslegri ábyrgð.
www.graenskref.is

Viðurkenning - 5 græn skref

Grænu skrefin 5 tekin í einu grænu stökki. Enda búið að vinna að samfélagslegri ábyrgð frá 2001.

Opinber fyrirtæki jafnt sem sveitarfélög og almenn fyrirtæki geta ekki annað en hagnast á því að innleiða umhverfisstjórnun inn í ferla fyrirtækisins. Sóun minnkar, þekking á sjálfbærni eykst og ákvarðanataka verður markvissari.  Því eru Græn skref í ríkisrekstri góður kostur.

Af hverju Græn skref?

Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru staðreynd. Styrkur koldíoxíðs í andrúmsloftinu er nú 404 ppm en upphafi iðnbyltingar, en þá er hann talinn hafa verið um 280 ppm.
Til að eðlilegt líf þrífist á jörðinni er talið að styrkur CO2 þurfi að vera 350 ppm. Því þurfum við að taka okkur á.

Hitastig mun hækka um 2 til 4 gráður á Celsíus á næstu 100 árum
Loftslagsbreytingar hafa áhrif á náttúrulega ferla á jörðinni og því ber öllum skylda að bregðast gegn þessum breytingum.

Íslendingar eiga eitt hæsta sótspor í heimi. Íslendingar þurfa að gera ráðstafanir (handprint).
Endurvinnsla og gróðursetning trjáa er eitt svar. Einnig endurheimt votlendis og þróa nýja tækni.
Hætta að brenna jarðefnaeldsneyti í samgöngum og rafvæða bílaflotann.

Einnig markvisst átak í notkun á plasti og plastpokum. Plastið eyðist ekki upp og höfin eru að fyllast af plastögnum. Ólíkt lífrænum efnum „hverfur" plast aldrei í náttúrunni heldur safnast upp í umhverfinu, sérstaklega í höfunum.

Draga þarf losun gróðurhúsalofttegunda um 40% frá því sem losunin var árið 1990 ef ekki, þá fara hollensku leiðina og kæra stjórnvöld. En þeim var skipað að draga úr losun með dómi.

Óstöðugleiki í heiminum vex. Við erum að falla á tíma.

Jörðin hitnar, jöklarnir hverfa sjávarborð hækkar og höfin súrna.


Skjaldbreið (1.060 m)

Hvernig er best að halda upp á 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna, 19 júní hátíðlegan, sumarsólstöður og jónsmessu? Jú heimsækja Skjaldbreið í miðnæturgöngu en samkvæmt íslenzkri þjóðsögu er sagt að Okið og Skjaldbreið séu brjóst ungrar risameyjar, sem varð að steini, þegar ættir trölla urðu aldauða í landinu.

Hópurinn var fjölmennur, um 100 manns og 2/3 hlutar konur. Svona á að halda upp á 19. júní!

Ég gekk á Skjaldbreið haustið 1981 á fjallgöngudegi í Menntaskólanum á Laugarvatni. Var búinn að vera veikur um haustið og þreklaus. Man hvað stallarnir voru margir á uppleiðinni, hélt alltaf að toppnum væri náð en þá tók næsti við. Margir nemendur sneru við en Haraldur Matthíasson, þjóðsagnarpersóna og fv. kennari við ML fór létt með að toppa.

Ég lærði helling í þessari ferð. Lærði aðeins að lesa landið. Ógnarskjöldurinn átti oft eftir að koma fyrir í náminu og jók gangan skilning á jarðfræði. Einnig ljóðin sem tengjast dyngjunni. Örnefni í nágrenni, Okið, Hlöðufell,Þórisjökull, Botnssúlur, Hvalfell, Hagavatn og fleiri festust í minni. Man einnig að línumenn voru að tengja raflínu úr Hrauneyjafossvirkjun yfir í Hvalfjörð. Sá þá hanga í möstrunum og „sprengja saman“ vír. Ógleymanlegur öræfadagur.

Dyngjan Skjaldbreið varð til í rólegu flæðigosi fyrir rúmlega 9000 árum, skömmu eftir að jökull hvarf úr Þingvalladældinni. Þetta sýnir C14-aldursgreining á koluðum gróðri í jarðvegssniði undir Miðfellshrauni við útfall Sogsins. Rúmmál fjallsins og hraunbreiðunnar í kring er um 17 km3, en talið er að fjallið allt hafi myndast í einu gosi. Í dyngjugosum kemur upp fremur lítið hraunmagn á tímaeiningu, aðeins um 5 til 10 rúmmetrar á sekúndu, svo það hefur tekið 50 til 100 ár að mynda þessa tignarlegu dyngju.

Í hvirfli Skjaldbreiðar er gígur, 300 metrar í þvermál og 50 metra djúpur. Hliðarhalli fjallsins er dæmigerður fyrir dyngjur, 7 gráður þar sem hann er mestur.

Vatnið í Þingvallavatni er að mestu komið frá Langjökli. Áður en Skjaldbreið myndaðist rann jökulvatn óhindrað út í vatnið, en þegar fjallið myndaðist lokaði hraunið vatnið af og hindraði streymi jökulvatns ofanjarðar. Nú rennur jökulvatnið neðanjarðar, síast í Skjaldbreiðarhrauni og stígur upp blátært um sprungur í Vellankötlu úr norðanverðu Þingvallavatni. Vatnið er um 20 til 30 ár á leið frá Langjökli í gegnum jarðlögin og inn í Þingvallavatn.

Skjaldbreið af línuvegi

Skjaldbreið í öllu sínu veldi hulin hvítu skýi og sjást efstu 300 metrarnir ekki. Umkringt í norðri tröllslegum raflínum frá Hrauneyjafossi og Sultartanga og liggja niður í Hvalfjörð.

Lagt var af stað í ferðina frá Mörkinni kl. 19.00 og komið við á Þingvöllum. Þar var farið yfir konur og áhrif Skjaldbreiðs á líf Jónasar Hallgrímssonar, náttúrufræðings og skálds. Síðan var keyrð Uxahryggjaleið og beygt inn Skjaldbreiðarveg, F338, línuveg að Haukadalsheiði og keyrt eins langt og rútur komust en fínn sandur og snjóflákar stoppuðu göngumenn við Tröllsháls. Yfirleitt er lagt í Skjaldbreið að norðan frá gíghólnum Hrauk sem er í 605 metra hæð. 

Snjóflákar neðst en hjarn þegar ofar kom og varð færð erfið í þokunni og vindinum. Komið að vörðu við gíginn um miðnætti. Ekki létti til. Þoka, kuldi og vindur skemmdi jónsmessustemminguna. Ekki tókst að baða sig í miðnætursólinni með stórfenglegt útsýni í allar áttir. Erfið færð síðustu 300 hæðarmetrana og var ég örþreyttur en gangan niður var létt.

Miðnætursólsetur

 

 

 

Gengið í snjófláka. Það sér móta fyrir Baulu í sólroðanum. Fanntófell, Oköxl og Kaldidalur handan.

Dagsetning: 19. júní 2015 
Hæð Skjaldbreiðar: 1.060 m 
GPS hnit varða við gíg: (N:64.24.495 - W:20.45.300)
Hæð í göngubyrjun:  459 metrar (N:64.26.433 - W:20.50.339) hjá Tröllháls.
Hækkun: 600 metrar         
Uppgöngutími: 170 mín (21:10 - 00:06) – 5,6 km ganga.
Heildargöngutími: 265 mínútur (21:10 - 01:35)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd:  11,2 km 
Skref: 16.000
Brennsla: 2.326 kaloríur upp og svipað niður.
Veður kl. 24 Þingvellir: Alskýjað, SV 1 m/s,  7,5 °C. Raki 93%. 
Þátttakendur: Ferðafélag Íslands, 100 manns með fararstjórum, 2/3 hlutar konur.
GSM samband:  Ágætt í hlíðum en ekkert á toppi.

Gönguleiðalýsing: Snjóflákar neðst en hjarn þegar ofar kom og varð færð erfið í þokunni og vindinum. Annars sandborið hraun og misháir hraunrimar.

Þótti mér betur farið en heima setið. Lýkur þar að segja frá jónsmessuför á Skjaldbreið.

Heimildir
Ferðafélag Íslands, göngulýsing
Gönguleið á 151 tind, bls. 238-239.
Perlur Íslands,  bls. 398-399.


Sláttur og spretta sumarið 2015

Enginn fyrsti sláttur í dag. Fyrir nákvæmlega ári síðan sló ég slátt #2 í garðinum. Svona er vorið búið að vera kalt.
Grenitrén fengu að kenna á djúpum lægðum í vetur. Halla líflaus til vesturs. Loftslagsbreytingar. Kaldur sjór.

Grassprettan í garðinumFlekkótt garðflötin eftir kaldan maí. Líflaus grenitrén snúa undan vindi.

Hér er yfirlit yfir slátt í Álfaheiði 11 fyrstu ár aldarinnar.  http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1168563/

 

 

 

 

 


Þórnýjartindur (648 m)

Sumardagurinn fyrsti

Samkvæmt gamalli þjóðtrú boðar það gott sumar eftir kaldan vetur ef frýs nóttina milli veturs og sumars.

Ég trúi því. Eftir kaldan og stormasaman vetur, þá setti ég út fötu við síðasta vetrardag en ekki fraus í henni yfir nóttina. Þá var aðeins eitt ráð til að bjarga sumrinu sunnanlands, en það var að fara að ráðum húsfreyjunnar Þórnýjar frá Eilífsdal.

Ég ákvað því að bjarga sumrinu, sýna samfélagslega ábyrgð og fylgja þjóðsögunni um Þórnýju. Ganga á Þórnýjartind (648 m) í björtu en köldu veðri.

Hún hafði sett út skel með vatni að kvöldi síðasta vetrardags. Til að hjálpa forlögunum ögn gekk húsfreyjan með skelina til fjalls svo frekar frysi. En undir morgun stóð hún á Þórnýjartindi og ekki fraus enn, svo þá var ekki um margt að gera!

Fleygði Þórný sér fram af fjallinu í fullkominni örvæntingu um gott tíðarfar.

Ekki var ég eins „desperate“ og Þórný en þegar ég keyrði inn Eilífsdal sá ég að það hafði frosið þunnt skæni á polli í holóttum malarveginum.   Sumrinu var bjargað, allavega bakvið Esjuna.

Þórnýjartindur er ekki mjög árennilegur við fyrstu sýn sökum þess hve brattur hann er, en þegar á hólminn er komið er ekki allt sem sýnist og leiðin nokkuð greið þó brött sé.

Nokkur snjór var ofarlega fyrir ofan svokallaða Múlarönd og snjóalög ótrygg, því ákvað göngumaður að snúa við í tæka tíð og komast örugglega heim enda búið að vera nóg að gera hjá björgunarsveitum í vetur. Sumrinu hafði líka verið bjargað.                  

Ég tók því stefnuna inn stuttan Eilífsdal og horfði inn i eilífðina.

Gleðilegt sumar

Þórnýjartindur og skæni

Þunnt skæni á pollinum, hrikalegur, snjóþungur Þórnýjartindur handan

Dagsetning: 23. apríl 2015
GPS hnit - Google: (N:64.294086 - W:21.661850)
Veður kl.14 Reykjavík: Heiðskýrt, 4 m/s, 2,5 °C, NNV, raki 41%,skyggni >70 km

Heimildir:
Toppatrítl
Morgunblaðið
Staðsetning


Hrísey

Gönguferð 29. júlí 2014

Hrísey gengin frá suðri til norðus. Eyjan leynir á sér og breytilegt veðurfar í norðanáttinni. Fleiri bílar í eyjunni en maður átti von á. Gaman að sjá fólk vera að tína hvannarlauf. Geysi mikil berjaspretta nyrst á Hrísey, krækiber og bláber. Flottur taxi.
Arkaði 15,5 km eða rúmlega 20 þúsund skref og 1.200 kkal brenndar.
Skemmtileg og fróðleg ferð.

 

Hrísey

Gönguhópurinn, 18 manns. Frænkuhittingur í Hrísey.

Hrísey er önnur stærsta eyja við Ísland, 11.5 km2. Hrísey er um 7 km löng, breiðust sunnan til, um 2,5 km, en nyrðri helmingurinn er allt að helmingi mjórri.

Hvön

Hvönnin nýtt. Hér er hópur fólks að tína hvannarlauf. Einangrunarstöðin í baksýn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 6
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 60
  • Frá upphafi: 233598

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 51
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband