23.8.2015 | 12:24
Hrossaborg (441 m)
Hrossaborg (441 m)á Mývatnsöræfum er annar tveggja þekktra, samkynja gjóskugíga á Norðausturlandi. Hinn er Hverfjall (Hverfell) í Mývatnssveit. Báðir eru myndaðir í tengslum við þeytigos í vatni eða við miklar grunnvatnsbirgðir. Hrossaborg er eldri, u.þ.b. 10.000 ára, en Hverfjall 2500 ára.
Veðrun hefur sorfið úr Hrossaborg og er hún því ekki eins vel formuð og Hverfjall.
Mývetningar beittu hrossum sínum gjarnan á þessu svæði og notuðu gíginn sem aðhald fyrir þau á meðan leitum var haldið áfram. Að þeim loknum var allt stóðið rekið niður í Mývatnssveit. Vegur liggur alla leið inn í gíginn, sem lítur út eins og stórt hringleikahús, þegar inn er komið. Leiðin inn í Herðubreiðarlindir (#F88) liggur steinsnar austan Hrossaborgar.
Til eru tvær aðrar Hrossaborgir, á Skarðsströnd.
Séð niður í Hrossaborg. Rúta SBA-Norðurleið sést til hægri.Fylgt er slóða upp á gígbarminn. Þaðan er mikið útsýni yfir Mývatnsöræfi.
Dagsetning: 17. júlí 2015
Hæð vörðu: 441 m
GPS-hnit vörðu: (N:65.36.820 W:16.15.731)
Hæð rútu: 380 m (N:65.36.924 W:16.15.488)
Hækkun: 60 m
Erfiðleikastig: 2 skór
Þátttakendur: Ferðafélag Íslands, 20 manns
Heimildir
Ódáðahraun, Ólafur Jónsson
nat.is - Hrossaborgir
Ferðalög | Breytt 24.1.2016 kl. 15:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.8.2015 | 13:48
Hólárjökull 2015
Jöklarannsóknir mínar halda áfram. Ávallt þegar ég keyri framhjá Hólárjökli sem var einn af tignarlegum skriðjöklum úr Öræfajökli, þá smelli ég ljósmynd af honum. Hólárjökull er rétt austan við Hnappavelli. Hólá kemur frá honum.
Fyrri myndin var tekin þann 16. júlí 2006 og sú nýjasta þann 5. ágúst 2015. Það sést glöggt að jökultungan hefur styst og jökullin þynnst, nánast horfið. Rýrnun jöklanna er ein afleiðingin af hlýnun jarðar. Ég spái því að jökultungan verði horfin innan fjögurra ára. Hlutirnir gerast svo hratt.
Árið 2006 voru íslenskir jöklar útnefndir meðal sjö nýrra undra veraldar af sérfræðingadómstól þáttarins Good Morning America á bandarísku sjónvarpsstöðinni ABC. Íslensku jöklarnir urðu fyrir valinu vegna samspils síns við eldfjöllin sem leynast undir íshellunni.
Jöklarnir vita svo margt. Við erum að tapa þeim með ósjálfbærri hegðun okkar.
Hólárjökull, 16. júlí 2006. Jökulsporðurinn þykkur og teygir sig niður í gilið.
Hólárjökull, 5. ágúst 2015. Augljós rýrnun á 9 árum. Jökulsporðurinn er nær horfinn. En hann hefur í fyrndinni náð að ryðja upp jökulruðningi og mynda garð.
Sjá:
Hólárjökull 2007 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/259538/
Hólárjökull 2008 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/611572/
Hólárjökull 2009 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/911196/
Hólárjökull 2011 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1192311/
Hólárjökull 2012 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1253486/
6.8.2015 | 23:58
Ísjakar í fjörunni við Jökulsárlón
Það var mikið af jökum og ferðamönnum í fjörunni við Jökulsárlón í gær. Mikið af ís streymdi úr Jökulsárlóni út á haf og sunnanáttin skutlað þeim upp í fjöru. Geysimargar myndir voru teknar og flugu um samfélagsmiðla. Jöklarnir eru að hverfa.
Tilkomumikil upplifun getur falist í að skoða ísjakana í fjörunni. En eftir nokkra áratugi verður Jökulsárlón orðið að firði og jakaburður hættir fari fram sem horfir.
![]() |
Á sér hvergi hliðstæðu í sögunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.7.2015 | 13:31
Íshellar og áin Volga í Kverkfjöllum
Eitt af undrum Kverkfjalla eru íshellar í Kverkjökli og áin Volga. Volga er ein af fyrstu kvíslum Jökulsár á Fjöllum, næst lengstu á landsins 206 km. En hvernig varð nafnið Volga til?
Sumarið 1963 fóru nokkrir menn í Jöklarannsóknarfélaginu í Kverkfjöll. Þeir hugðust kanna gróður og ganga á fjöll, en eins og oft vill verða á þessum slóðum tók veðrið af þeim völdin og varð þeim ekki annað til dundurs en að kanna íshella Kverkjökuls. Um hellisgöngin streymdi 13°C heit á og henni var gefið nafnið Volga. Aðal íshvelfing undirheimanna reyndist 15-20 metra há og 330 metra löng. Hún þrengdist inn á við og endaði háum fossi. Þar var skuggsýnt og mikið gufukóf. En Volguhellar eru að breytast. Volga stendur ekki lengur undir nafni og á meðan hún streymir ísköld viðheldur hún ekki hvelfingunum. Jökullinn skríður fram og við hellisopið hrynja ísflykki af og til. (bls. 276)
Á sumrin gætir ekki hitans í Volgu því leysingavatn gerir hana að ískaldri jökulá.
Við merktan göngustíg í átt að íshellinum eru skilti sem banna skoðunarferðir inn í íshellinn enda er þar slysahætta af völdum íshruns. Hópur af erlendum ferðamönnum fór samt inn í íshellinn og virti aðvaranir ekki að vettugi. Þegar við vorum búin að vera í nokkurn tíma að fræðast um íshellinn og samspil elds og ísa þá komu tveir erlendir ferða menn út úr hellinum. Þeir hafa eflaust farið lengra inn í hann en hópurinn. Þeim til happs var að vorið og sumarið var kalt og íshellinn stöðugri en í meðalári.
Fréttamaðurinn Ómar Ragnarsson er mjög hrifinn af Kverkfjöllum og hefur kynnt íshellin, Volgu og Kverkfjöll fyrir Íslendingum. Hann hefur lent í háskalegum atburðum og náð á kvikmynd. Í ljóðinu Kóróna landsins eftir Ómar er þessi fallega lína um Volgu: Í Kverkfjöllum glóðvolg á íshellinn þvær.
Íshellirinn í Kverkjökli þann 18. júlí 2015. Hann má muna fífil sinn fegurri. En hiti frá Volgu hefur minnkað og framskrið Kverkjökuls hefur dregið úr tignarleik hellisins.
Heimildir:
Perlur í náttúru Íslands, Guðmundur Páll Ólafsson, 5. prentun 2005.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.7.2015 | 16:11
Kverkfjöll - Hveradalir
Kverkfjöll eru önnur hæsta eldstöð landsins, næst á eftir Öræfajökli. Kverkfjöll rísa meira en 1.000 metra yfir umhverfi sitt og eru að hluta til hulin ís. Hæst rís Skarphéðinstindur á austanverðu fjallinu (1.933 m). Skipta má Kverkfjöllum í eystri og vestari hluta um Kverk sem er mikið skarð í fjöllin norðanverð með geysiháum þverhníptum hamraveggjum. Út um Kverk skríður Kverkjökull til norðvesturs niður undir hásléttuna í um 950 metra hæð.
En markmiðið með gönguferðinni var að heimsækja Hveradal í 1.600-1.700 m hæð með miklum gufu- og leirhverum, um 3 km langur og allt að 1 km breiður. Þetta er eitt öflugasta háhitasvæði landsins. Bergið er sundursoðið af jarðhita.
Lagt var frá Sigurðarskála (840 m) rétt eftir dagrenningu og íshellinn skoðaður úr fjarlægð. Jarðhiti er undir Kverkjökli, og undan honum fellur stærsti hveralækur landsins, sem bræðir ísgöng fyrir farveginn. Erlendir ferðamenn fóru inn í hellinn og virtu aðvaranir að vettugi.
Síðan voru mannbroddar settir undir fætur og lagt af stað, úr 950 m hæð. Gengið yfir Kverkjökul og snæviþakta Löngufönn. Á leiðinni var fallegt sprungusvæði og drýli röðuð sér skipulega upp. Spáin var óhagstæð. Kuldapollur frá heimskautinu skaust inn á landið og vetur konungur var að ganga í garð á hálendinu um miðjan júlí.
Gönguhópurinn fór í rúmlega 1.500 metra hæð en sneri við vegna snjóa. Lítið að sjá og fylgja ráðum háfjallagöngumannsins Ed Viesturs, að snúa við áður en það er orðið og seint. En skjótt skipast veður í lofti í mikilli hæð.
En tilhugsunin um Hveradali efri og neðri er stórbrotin og alltaf mögulegt að reyna aftur. Félag íslenskra fjallalækna, FÍFL fóru í ferð á síðasta ári og tóku frábærar myndir, þá lék veðrið við félaga.
Gengið á mannbroddum yfir Kverkjökul en undir honum er jarðhiti.
Mynd sem skýrir ferðina en hún er tekin af skilti á Sigurðarskála. Lagt af stað frá stað vinstra megin við Volgu og sést hann ekki.
Dagsetning: 18. júlí 2015
Erfiðleikastig: 4 skór
Þátttakendur: Ferðafélag Íslands, 20 manns
Heimildir
Jöklar á Íslandi, Helgi Björnsson, 2009. Bls. 343.
Vatnajokulsthjodgardur.is
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 16:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.7.2015 | 23:45
Fossaganga í Skjálfandafljóti
Skjálfandafljót er fjórða lengsta á landsins, lengd fljótsins er 178 km. Það var því ákveðið að ganga rúma 20 km með eystri bakka Skjálfandafljóts. Gangan hófst við Réttartorfu og endaði við stuðlaðan Aldeyjarfoss.
Á leiðinni var hugsað til mögulegrar virkjunar, Hrafnabjargavirkjunar en á teikniborðinu eru þrír kostir, A, B og C. Við gengum eftir Fljótsdalnum sunnan við Hrafnabjörg og værum á kafi væri búið að virkja.
Með virkjun myndi stóru gróðursvæði á hálendinu vera sökkt með 25 km löngu miðlunarlóni og Aldeyjarfoss myndi þorna upp.
Í Skjálfandafljóti eru margir fallegir fossar með söguleg nöfn: Ullarfoss, Barnafoss, Goðafoss, Aldeyjarfoss, Hrafnabjargafossar og minna þekktir eru, Geitafoss, Ingvararfossar, og syðst er Gjallandi, en þeir eru fleiri. Við ákváðum að heimsækja Hrafnabjargafossa, Ingvararfossa og Aldeyjarfoss í ferðinni.
Ferðin gekk vel frá Réttartorfu en ein á er á leiðinni, Sandá og vorum við ferjuð yfir.
"Hljóðlítið fljótið safnar enn í sig sopum úr ótal lænum áður en það fossar tignarlegt af stöllum Hrafnabjarga og nokkru neðar fram af hamraskrúði Aldeyjarfoss." (bls. 327, Hálendið í náttúru Íslands).
Það er gaman að ganga í gamla árfarvegi Skjálfandafljóts og finna fyrir pússuðu hrauninu og virða fyrir sér skessukatlana. Leiðin eftir gamla fljótsfarveginum er vel gróin við Stórutungu og mjög falleg.
Það má ekki hrófla við fossunum, þeir eiga aðeins eftir að skapa tekjur fyrir komandi kynslóðir. Ég rifja oft upp þegar fyrstu hvalaskoðunarferðirnar voru farnar fyrir 22 árum, þá fóru 200 manns í ferð en í dag hefur talan þúsundfaldast!
Hrafnabjargafossar, margslungnir, minna á Goðafoss og fleiri fagra fossa.
Kraftmiklir Ingvararfossar, frumgerð að Aldeyjarfossi eða Hjálparfossi í Þjórsá.
Aldeyjarfoss er myndrænn vegna samspils svarts basalts og hvíts vatns.
Dagsetning: 10. júlí 2015
Göngutími: 330 mín (12:30 - 18:00)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 20 km
Veður kl. 15 Mývatn: Alskýjað, NV 4 m/s, 7,2 °C. Raki 71%.
Þátttakendur: Frænku-gönguhópur, 7 manns og trúss.
GSM samband: Lélegt á köflum.
Gönguleiðalýsing: Gengið í hrauni eftir mögulegu miðlunarlóni, Fljótsdalnum og eftir vegaslóða.
Ferðalög | Breytt 15.7.2015 kl. 00:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.7.2015 | 14:32
Sjálfsmyndir, samfélagsmiðlar og ferðaþjónusta
Nýlega sá ég að Bretar taka 14,5 milljón sjálfsmyndir á dag. Aldrei hafa verið teknar eins margar myndir og í dag en metið er slegið á hverjum degi.
Íslensk ferðaþjónusta nýtur þess. Ægifögur náttúra er í bakgrunni sjálfsmynda og hástemmdur texti sem fylgir með, "stunning, scenic, volcanic". Þessi orð búa til ímynd Íslands. Vinirnir úti í heimi fyllast öfund og hugsa, "Ég varð að fara þangað."
Ferðamenn fá upplýsingar ekki beint frá gerilsneyddum ferðamannabæklingum eða yfirborðskenndum auglýsingum fyrirtækja heldur frá vinum og ættingjum sem þeir treysta best.
Ég man þegar ég vann í ferðaþjónustunni fyrir 22 árum en þá kom ferðaskipuleggjandi um haustið til Íslands að skipuleggja ævintýraferð og fylgdi Catalina-flugbátur hópnum. Upplýsingarnar sem skipuleggjarinn var með frá Scandinavian Tourist Board í Bandaríkjunum voru ekki upp á marga fiska. Smá texti um vanþróað Ísland með þrem litlum myndum af Mývatni. Svona sáu Bandaríkjamenn Ísland.
Einangrun landsins var síðan rofin með Internetinu og Veraldarvefnum um 1995. Síðan kom gott gos í Eyjafjallajökli 2010 og það hafði áhrif á flug í Evrópu og víðar. Í kjölfarið hófst jákvæð kynning í samfélagsmiðlum og síðan hafa hótel sprottið upp eins og gorkúlur í samræmi við fjölgun ferðamanna.
Kvikmyndir hafa verið teknar hér á landi og stjórastjörnur hafa tístað og gefið góða ímynd af landinu. T.d. Russel Crowe í Noah og Tom Cruise í Oblivion.
Ég man eitt sinn þegar ég var hjá Jöklaferðum, þá kom undanfari fyrir lítið skemmtiferðaskip, Explorer. Við stóðum við loforð um að senda honum bæklinga með upplýsingum um afþreyingu Jöklaferða og ferðaþjónustu á svæðinu. Þetta var þungur pakki, kostaði mikið en ári síðar mætti fyrsta skemmtiferðaskipið í Hornafjarðarhöfn. Þetta var spurning um traust. Sendingarkostnaðurinn skilaði sér margfalt til baka.
Já, "selfie-stöngin" og samfélagsmiðlar eru að verða eitt arðbærasta markaðstæki ferðaþjónustunnar, ókeypis markaðstól. Nú er bara að losa sig við freka stjórnmálamenn eins og Jón Gunnarsson sem vill virkja allt sem rennur og drepa hvali. Mjög ósjálfbær þingmaður.
Ferðamenn að stilla sér upp fyrir sjálfsmynd (e. selfie). Þarna er ekki "selfie-stöng" notuð. Í myndatexta kemur kannski: "WOW, amazing, stunning, magnicifent Godafoss waterfall, Iceland".
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.7.2015 | 23:59
ísöldin og hornfirskir jöklar
Nýlega var opnuð ný gönguleið um Breiðarármörk en hún er fyrsti hluti af Jöklastíg, frá Öræfum og yfir í Lón. Fyrsti hluti er um fimmtán kílómetra og tengir saman þrjú jökullón, Jökulsárlón, Breiðárlón og Fjallsárlón.
Þetta er falleg gönguleið fyrir augað og á leiðinni eru fræðsluskilti með ýmiss konar gagnlegum, fróðlegum og skemmtilegum upplýsingum meðal annars um gróðurfar, fuglalíf og sambýli manns og jökuls.
Þá dettur manni í hug fyrstu rannsóknir á ísaldarkenningunni en hún kom fyrst fram 1815. Nokkrir leiðangar vor farnir til Íslands til að rannsaka náttúruna. Í bókinni ÍSLANDSFERÐ SUMARIÐ 1857, úr minnisblöðum og bréfum frá Nils O:son Gadde, segir frá fyrstu rannsóknarferð Svía undir stjórn Otto Torell. Aðalviðfangsefni var áhrif ísaldarjökla á myndun landsins
"Heiðurinn af því að leiða kenningar um ísöldina til sigurs í Evrópu og brjóta niður trúna á syndaflóðið og öll afbrigði hennar, á Svíinn Otto Torell, sem með reynslunni úr ferðum sínum á sjötta og sjöunda tug nítjándu aldar á Íslandi, Grænlandi og Spitsbergen, sannfærðist og sannaði að ekki einungis okkar land, heldur líka Norður-Þýskaland, hafi einhvertímann verið þakið jökli. -
Svo skrifar Hans W:son Ahlmann, Pa skidor och till hast i Vatnajokulls rike
Svo segir í bókinni:
Úr skýrslu Torrels Svínafell við Öræfajökul þann 5. Ágúst
Heinabergsjökull rennur saman við Skálafellsjökul og snertir hérumbil annan jökul austar. Framan jökulsins var bergið núið og rákað með álagshliðina að jöklinum, en stefna rákanna kom ekki heim við jökulinn eins og hann er nú, heldur við það sem verið hefði ef jökullinn hefði verið stærri og runnið saman við eystri jökulinn. Ruðningur á ísnum var í framhaldi af Hafrafelli sem stendur á milli Heinabergs- og Skálafellsjökuls. Er ég fór upp með Hafrafelli heinabergsmeginn fann ég ekki rákir við jökulinn, en greinilegar og vel afmarkaðar rákir úti í stóru gili sem náði frá hliðarruðningi jökulsins skáhallt gegnum neðri hluta bergsins. Þegar ég kom aftur fór ég hinsvegar meðfram þeirri hlið hins jökulsins (Skálafells) sem lá að fjallshlíðinni og fann þar víða hinar fallegustu rákir, ýmist fast við ísinn eða við jökulruðninginn. Þó undarlegt megi virðast mynduðust rákir á kletti einum horn hver við aðra, en í því er einmitt fólgin röksemd Waltershausens geng því að hinar íslensku rákir haf myndast af jöklum.
Sporðurðirnar eru yfirleitt úr smáhnullungum, möl og sandi og gegnbleyttar af jökulánni, en jarðarurðingar eru aftur á móti miklu meira úr stórgrýti og björgum."
Svo er merkilegt hér:
Milli Heinabergs- og Breiðamerkjurjökuls fór ég upp þrjá fjalldali sem lokuðust í botninn af jöklum uppi í fjöllunum sem ganga út úr Klofajökli. Þeir voru ákaflega forvitnilegir, þar sem greinilegt var að þeir voru botnar gamalla jökla. Þvert yfir dalbotninn fjalla á milli lágu nunir bergstallar með rákum sem lágu inn dalina, samsíða stefnu þeirra. Sumstaðar hafði núningurinn grafið skálar í bergið í dölunum. (bls. 160)
Einnig framkvæmdu leiðangursmenn skriðhraðamælingar á Svínafellsjökli í Öræfum, þær fyrstu hér á landi.
Hér eru líklega Birnudalur, Kálfafellsdalur og Hvanndalur sem Torell hefur heimsótt. Það væri gaman að finna bergstallana með rákum og skálar í berginu.
Því má segja að hornfirskir jöklar hafi átt þátt í að staðfesta ísaldarkenninguna. Vonandi verður minnst á þetta á upplýsingaskiltunum. Gott innlegg fyrir menningartengda ferðaþjónustu.
28.6.2015 | 17:10
Græn skref í ríkisrekstri
Þetta eru fimm græn skref fyrir okkur, en umhverfisvæn skref fyrir mannkynið....
Það var góður dagur í vinnunni í dag. Við hjá ÁTVR fengum viðurkenningu frá umhverfis- og auðlindaráðherra fyrir að ná 5 grænum skrefum og tók það stuttum tíma.
Græn skref eru leið fyrir opinbera aðila til að vinna markvisst að umhverfismálum eftir skýrum gátlistum og fá viðurkenningu eftir hvert skref. Við tókum þetta í einu stökki enda búin að vinna heimavinnuna og fyrirmynd í samfélagslegri ábyrgð.
www.graenskref.is
Grænu skrefin 5 tekin í einu grænu stökki. Enda búið að vinna að samfélagslegri ábyrgð frá 2001.
Opinber fyrirtæki jafnt sem sveitarfélög og almenn fyrirtæki geta ekki annað en hagnast á því að innleiða umhverfisstjórnun inn í ferla fyrirtækisins. Sóun minnkar, þekking á sjálfbærni eykst og ákvarðanataka verður markvissari. Því eru Græn skref í ríkisrekstri góður kostur.
Af hverju Græn skref?
Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru staðreynd. Styrkur koldíoxíðs í andrúmsloftinu er nú 404 ppm en upphafi iðnbyltingar, en þá er hann talinn hafa verið um 280 ppm.
Til að eðlilegt líf þrífist á jörðinni er talið að styrkur CO2 þurfi að vera 350 ppm. Því þurfum við að taka okkur á.
Hitastig mun hækka um 2 til 4 gráður á Celsíus á næstu 100 árum
Loftslagsbreytingar hafa áhrif á náttúrulega ferla á jörðinni og því ber öllum skylda að bregðast gegn þessum breytingum.
Íslendingar eiga eitt hæsta sótspor í heimi. Íslendingar þurfa að gera ráðstafanir (handprint).
Endurvinnsla og gróðursetning trjáa er eitt svar. Einnig endurheimt votlendis og þróa nýja tækni.
Hætta að brenna jarðefnaeldsneyti í samgöngum og rafvæða bílaflotann.
Einnig markvisst átak í notkun á plasti og plastpokum. Plastið eyðist ekki upp og höfin eru að fyllast af plastögnum. Ólíkt lífrænum efnum hverfur" plast aldrei í náttúrunni heldur safnast upp í umhverfinu, sérstaklega í höfunum.
Draga þarf losun gróðurhúsalofttegunda um 40% frá því sem losunin var árið 1990 ef ekki, þá fara hollensku leiðina og kæra stjórnvöld. En þeim var skipað að draga úr losun með dómi.
Óstöðugleiki í heiminum vex. Við erum að falla á tíma.
Jörðin hitnar, jöklarnir hverfa sjávarborð hækkar og höfin súrna.
24.6.2015 | 00:04
Íslandsferð sumarið 1857
Fyrir nokkru áskotnaðist mér bók ÍSLANDSFERÐ SUMARIÐ 1857, úr minnisblöðum og bréfum frá Nils O:son Gadde (1834-1904).
Þetta var fyrsti sænski vísindaleiðangurinn til Íslands undir stjórn Otto Torell (1828-1900), en ferðafélagi hans var Nils 0:son Gadde sem skrifaði hjá sér lýsingar á ferðinni og því sem fyrir augu bar. Tveir aðrir Svíar voru með í leiðangrinum, Cato og Andres.
Leiðangurinn hófst í Þistilfirði og endaði á Akureyri með viðkomu á Mývatni. Þeir unnu að rannsóknum á jöklum í Hornafirði og mældu skriðhraða Svínafellsjökuls í Öræfum.
En Skjaldbreið er mér ofarlega í huga á Jónsmessu eftir Jónsmessugöngu með Ferðafélaginu um síðustu helgi. Þegar þeir félagar koma að Þingvöllum í lok ágúst og lýsa furðum landsvæðisins og þegar þeir sjá Skjaldbreið skrifar Gadde:
Þingvallasvæðið myndast af illræmdum hraunstraumi sem í annan endann teygir sig til upphafs síns, hinnar snævi þöktu hraundyngju Skjaldbreiðar heiti fjallsins er samsett úr tveim orðum sem tákna skjöldur og breiður en sökkvir hinum í Þingvallarvatn. Á þessum hraunfláka eru hinar nafnfrægu gjár, Almannagjá og Hrafnagjá, ásamt fleiri gjám smærri. Í nokkrum þeirra getur maður séð niður 100-200 fet: allt sem þar er að sjá er gert úr miklum hraunbjörgum. Einnig finnast stórir hellar á jörðinni, sennilega þannig til orðnir að hraunið hefur haldið áfram að renna undir yfirborðinu eftir að það var storknað
"Í hinu mikla dalflæmi blasir við jafnrunnið hraun með djúpum gjám, báðum megin þess fjallgarðarnir sem afmarka það og fyrir botninum Skjaldbreið með sinni breiðu bungu." (bls. 113, Íslandsferð sumarið 1857)
Hér er Gadde eflaust undir áhrifum frá Jónasi Hallgrímssyni, náttúrufræðingi og skáldi sem ferðaðist um Ísland sumarið 1841. Á ferð sinni um Þingvallasvæðið villtist hann frá ferðafélögum sínum og orti kvæðið Fjallið Skjaldbreiður sem birtist fyrst í 8. árgangi Fjölnis árið 1845. Í ljóðinu bregður skáldið upp skemmtilegri mynd af sögu svæðisins, tilurð Skjaldbreiðar og þátt þess í myndun Þingvallavatns. Hér er fyrsta erindið:
Fanna skautar faldi háum,
fjallið, allra hæða val;
hrauna veitir bárum bláum
breiðan fram um heiðardal.
Löngu hefur Logi reiður
lokið steypu þessa við.
Ógna-skjöldur bungubreiður
ber með sóma rjettnefnið.
En Jónas vissi heldur ekki um landrekskenninguna né ísaldarkenninguna en fyrstu hugmyndir um ísöld komu fram um 1815 og urðu ekki viðurkenndar fyrr en um miðja nítjándu öldina.
Kvæðið lifir, þótt kenningin um myndun þess sé í einhverjum atriðum fallin. En rómantíkin í kringum það hefur haldið ímynd Skjaldbreiðar og Þingvalla á lofti.
Svo heldur lífsnautnamaðurinn Gadde áfram nokkur síðar:
Almannagjá vestan hraunstraumsins úr Skjaldbreið og Hrafnagjá austan hans urðu til við það að hraunflákinn, sem er jarðmíla á breidd, sökk. Vesturveggur Almannagjár og austurveggur Hrafnagjár mynda standberg sem gagnstæðir veggir gjánna sprungu frá við sig hraunsins á milli þeirra.
Þarna er ekki komin þekking á landrekskenningunni en ummerki hennar eru augljós á Þingvöllum en 1915 setti þýski jarðeðlisfræðingurinn Alfred Wegener (1880-1930) kenninguna fram í bókinni Myndun meginlanda og úthafa árið 1915.
Gadde er eins og flestir ferðamenn bergnuminn af náttúrufegurð landsins og bókstaflega á kafi í ýmsum undrum: eldfjöllum, goshverum, fossum og sólarlagi.
Það er gaman að lesa 158 ára frásögn, en þekking og skilningur á landmótun hefur aukist en upplifunin er ávallt sú sama
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (10.7.): 5
- Sl. sólarhring: 11
- Sl. viku: 248
- Frá upphafi: 236833
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 207
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar