5.10.2015 | 14:44
Orkulausir Manchester-menn
Í febrúar á því góðærisári 2007 fór ég í knattspyrnuferð til London og heimsótti Emirates Stadium. Boðið var upp á skoðunarferð um hinn glæsilega leikvang. Þegar búningsklefarnir sem voru glæsilegir og rúmgóðir voru skoðaðir sagði hress leiðsögumaður okkur skemmtilega sögu af leik Arsenal og Manchester United sem hafði farið fram í mánuðinum áður.
Í leikhléi fengu leikmenn Manchester ávallt banana sendingu frá ávaxtafyrirtæki í London. Snæddu leikmenn þá í leikhléi til að hlaða batteríin. Svo óheppilega vildi til að birginn tafðist á leiðinni og komst sendingin of seint. Síðari hálfleikur var hafinn. Leikar voru jafnir í hálfleik. Rooney kom gestunum yfir í byrjun síðari hálfleiks en tvö mörk í lokin hjá Arsenal frá Robin van Persie (83) og Henry (90) skópu sigur Arsenal. Runnu leikmenn Manchester út af orku? En bananarnir voru skildir eftir í búningsklefanum, óhreyfðir.
Bananar eru mjög næringarríkir, meðal annars er mikill mjölvi í þeim auk þess sem þeir eru mettandi. Þeir eru líka mikilvæg uppspretta vítamína og í þeim er mjög mikið af steinefnum. Svo er mjög einfalt að nálgast ávöxtinn, hýðið rennur af. Frábær hönnun hjá náttúrinni.
Í stórleiknum í gær var byrjunin skelfileg hjá Manchester mönnum og var uppskeran 0-3 tap. Skyldi ávaxtabirginn með bananasendinguna hafa komið of seint? Eða er orsökin sú að í vörn United voru leikmenn, young, small og blind!
Arsenal valtaði yfir Manchester United | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Enski boltinn | Breytt s.d. kl. 14:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.10.2015 | 16:05
Everest ****
Fyrir nokkrum árum fór ég á bókamarkað í Perlunni. Um tíuþúsund titlar voru í boð en aðeins ein bók náði að heilla mig en það var bókin Á fjalli lífs og dauða (Into Thin Air) eftir Jon Krakauer. Kostaði hún aðeins 500 kall. Voru það góð kaup.
Ég var stórhrifinn af bókinni og vakti hún margar spurningar um háfjallamennsku. Krakauer veltir upp mörgum steinum og sér litla dýrð í háfjallaklifri nútímans. En margir fjallgöngumenn hafa ekkert þangað að gera. Það er ávísun á slys. Einnig upplifði ég bókina betur því íslensku fjallamennirnir þrír sem náðu toppi Everest í maí 1997 fléttuðu sögusvið myndarinnar inn í söguna.
Auk þess hafa fjallamennirnir Peter Habeler, Ed Viesturs og David Breashears komið hingað til lands á vegum FÍFL og haldið góða fyrirlestra.
Því var ég spenntur fyrir stórmyndinni í þrívídd, Everest sem stjórnað er að Baltasar Kormák.
Margar áhugaverðar persónur og góðar persónulýsingar í bókinni sem er vel skrifuð. Skyldi myndin ná að skila því?
Stórmyndin er sögð frá sjónarhorni Rob Hall (Jason Clarke) en hann sýndi mikið ofdramb, hafði komið mörgum óþjálfuðum ferðamönnum á toppinn. Aðrar áhugaverðar persónur eru: Bréfberinn Doug Hansen (John Hawkes) sem var að fara í annað sinn og besti klifrarinn. Beck Weathers, (Josh Brolin) sem er óhóflega kumpánalegur meinafræðingur frá Dallas í Texas. Rússneski leiðsögumaðurinn Anatoli Boukreev, leikinn af Ingvari Sigurðssyni. Hann þurft ekkert súrefni. Scott Fisher (Jake Gyllendal) hinum leiðangursstjóranum sem er lýst sem kærulausum og veikum leiðsögumanni. Kona Halls,Jan Arnold (Keira Knightley) kemur inn á mikilvægu augnabliki en myndin er ekki bara fjallamynd, heldur um samskipti fólks. Hafa eflaust margir fellt tár þegar síðasta samtal þeirra hjóna fór fram. Sögumaðurinn í bókinni Krakauer (Michael Kelly) kemur lítið við sögu, er áhorfandi.
Mér fannst meistaralega vel gert hvernig Baltasar notar Krakauer í myndinni en hann varpar fram spurningunni: "Til hvers ertu að fara á toppinn", og leiðangursmenn svara af hreinskylni. Áhrifaríkast er svar bréfberans Doug en hann vildi vera fyrirmynd skólakrakkanna í Sunrise-grunnskólanum, dreyma stóra og litla drauma og þunglyndið hjá Beck.
Sjerparnir fá litla athygli í myndinni en vega þyngra í bókinni. Enda markaður fyrir myndina Vesturlandabúar.
Eflaust á myndin eftir að fá tilnefningar fyrir grafík og tæknibrellur en ég sat framarlega og naut myndin sín ekki á köflum í gegnum gleraugun. Mér fannst sumt mega gera betur.
Í 8000 metra hæð hafa menn ekki efni á að sýna samúð. Það kom í ljós í myndinni. Hver þarf að sjá um sjálfan sig því fjallið, vonda aflið í sögunni á alltaf síðasta orðið.
Ekki er farið djúpt ofan í orsök slyssins en Krakauer kafaði djúpt í bókinni. Göngumenn áttu að snúa kl. 14.00 en virtu það ekki. Fyrir vikið lágu 8 manns í valnum eftir storm. Hefðu menn virt reglur, þá hefði þessi saga ekki verið sögð.
Balti þekkir storma, rétt eins og í Djúpinu þá var stúdíóið yfirgefið og haldið út í storminn. Það gefur myndinni trúverðugleika.
Hljóð og tónlist spilar vel inní en það þarf að horfa aftur á myndina til að stúdera hana. Þrívíddarbrellur koma nokkrum sinnum vel út og gera menn lofthrædda. Gott atriði þegar klaki fór út í sal í einu snjóflóðinu. Margir gestir viku sér undan klakastykkinu.
Ágætis stórslysamynd sem sendir mann um stund til Himalaya og næsta skref er að lesa bók ofurmennisins Boukreev, The Climb.
#everestmovie
23.9.2015 | 22:24
Hvannalindir
Lífskraftur er fyrsta orðið sem manni dettur í hug þegar maður sér rústirnar í Hvannalindum en þær eru umkringdar hálendiseyðimörk. Hvílík ofurmenni hafa Fjalla-Eyvindur og Halla verið, að geta lifað veturinn af. En þau söguð sig úr lögum við samfélagið eða samfélagið grimmt við þau.
Hún er athyglisverð fréttin á ruv.is vefnum en Minjastofnun Íslands tók í sumar þrjú bein úr gömlum rústum af vistarverum fólks sem hafðist við í Hvannalindum.
"Kolefnisgreining á beinum sem fundust í Hvannalindum rennir stoðum undir þá kenningu að dularfullur mannabústaður þar hafi verið skjól Fjalla-Eyvindar og Höllu eða annarra útilegumanna sem höfðu sagt sig úr lögum við samfélagið á 18. öld."
Samkvæmt greiningunni séu beinin líklegast frá um 1750 en skekkjumörkin séu 33 ár.
Upplýsingasteinar í Hvannalindum
"Hvannalindir eru gróðurvin í um 640 metra hæð undir Lindahrauni í skjóli af Lindafjöllum og Krepputunguhraunum að vestan og Kreppuhrygg að austan."
Séð inn í rústirnar. Kristján Eldjárns rannskaði þær sumarið 1941 og taldi þær hafa verið einangraðar með gærum.
Í rústunum fundust, útihúss, mosavaxinn eldiviðarköstur, steinpottur og ausa úr hrossherðablaði.
Heimildir
Rúv. Bein styrkja tilgátu um bú Fjalla-Eyvindar
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.9.2015 | 18:19
Fláajökull
Fláajökull, sem er skriðjökull og gengur úr suðausturhluta Vatnajökuls niður á Mýrar í Hornafirði hefur lengi verið uppáhaldsjökull minn en ég horfði nær daglega á hann í æsku ofan af Fiskhól og hef í gegnum tíðina séð Jökulfell sem er í jökulsporði hans stækka. Þegar myndir frá byrjun síðustu aldar eru skoðaðar þá sést Jökulfell ekki. Það er hulið ísstáli.
Umgjörð Suðursveitar, Mýra og Nesja í Hornafirði er mjög óvenjuleg og á sér kannski hvergi hliðstæðu, hvorki hér á landi né annarsstaðar. Stutt til sjávar og hver skiðjökullinn eftir annan steypist niður frá Vatnajökli og breiðir úr sér. Það er ótrúlega stutt frá grænu sveitinni upp í meginhvel Vatnajökuls, aðeins 15 km. Ferðamönnum nútímans finnst þetta einnig heillandi sýn og tilbúnir að greiða hátt gjald fyrir upplifunina sem er einstök: Voldugur jökullinn seilist niður í byggð í gegnum fjallaskörð og dali niður á græna og votlenda byggðina. En fyrr á öldum háðu bændur mika baráttu við vötnin. Skaftfellsk þrautseigja sem hélt lífinu í byggðinni.
Fláajökull frá þjóðvegi. Jökulfell sækkar á hverju ári.
Ég heimsótti vin minn Fláajökul 3. ágúst 2015 og velti því um leið fyrir mér þegar ég gekk yfir traustra göngubrúnna yfir kolmórauða jökulánna Hólmsá að einhvern tíma í framtíðinni gætu ísjakar og jöklar heyrt sögunni til og aðeins verið til á myndum. Það er ein afleiðing hnattrænnar hlýnunnar.
Jöklar vita svo margt. Jöklar geyma ótrúlegt magn upplýsinga um veður og loftslag.
Á síðasta mælingarári hörfaði sporður Fláajökuls um 78 metra. Hörfunin frá 1995-2000 var að meðaltali 10-25 m/ári en hefur verið 50-78 m/ári síðan þá.
Í fróðlegri ritgerð, Hörfunargarðar við Fláajökul: Landlögun, dreifing, setgerð og bygging eftir Heimi Ingimarsson er fjallað um hörfunargarða og dembigarða jafngangsjökla. Einnig hörfun jökulsporðsins.
Hólmsá, sem rennur undan Fláajökli, hefur lengi ógnað byggð á Mýrum
Áægtis upplýsingar eru um baráttu Mýramanna og jökulsins víða nálægt bílastæðinu. Árið 1937 voru miklar framkvæmdir og einnig 2002. Densilegur kamar tekur á móti ferðamönnum og smá mátti geitur frá Húsdýragarðinum í Hólmi.
Fláajökull hefur einnig borið nafnið Hólmsárjökull en Hólmsá kemur frá honum en einnig Djúpá sem fellur í Hornafjarðarfljót. Einnig hafa nöfnin Mýrajökull og Hólsárjökull verið notuð yfir skriðjökulinn.
Heimildir:
Hörfunargarðar við Fláajökul: Landlögun, dreifing, setgerð og bygging, Heimir Ingimarsson, 2013
Við rætur Vatnajökuls, Árbók FÍ 1993, Hjörleifur Guttormsson
Jöklar á Íslandi, Helgi Björnsson, 2009.
Geographic Names of Icelands Glaciers: Historic and Modern, Oddur Sigurðsson og Richard S. Williams jr, 2008.
Tveir í sjálfheldu við Fláajökul | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.9.2015 | 10:29
#mittframlag
Hann var ánægjulegur föstudagurinn 4.september en þá fékk ég boð um að mæta í franska sendiráðið og taka á móti verðlaunum í ljósmyndakeppninni #mittframlag. Sendiherra Frakka og starfsfólk ásamt samstarfsaðilum verkefnisins voru mjög viðkunnanleg og hjálpleg enda ætla Frakkar að ná árangri á COP21 fundinum í byrjun desember. Verðlaunin voru ferð fyrir tvo til Parísar meðan fundurinn, sem gæti orðið mikivægasti fundur mannkyns, stendur yfir.
Eftir að hafa æft mig í frönsku yfir daginn var tekinn strætó, leið 5 niður í bæ. Farið út hjá BSÍ og gengið eftir Fríkirkjuveginum og meðfram Tjörninni. Ég var klæddur svörtum fötum, samt ekki á leið í jarðarför heldur í umhverfisvænstu litunum.
Hornfirðingar eru að upplifa loftslagsbreytingar með eigin augum. Jöklarnir sem hafa vakað yfir okkur í þúsund ár eru að hverfa. Fyrir nokkru voru þeir taldi ásamt eldfjöllum undir þeim til 7 undur veraldar. Píramídar okkar eru að hverfa fyrir framan nefið á okkur. Ég lagði mitt af mörkum til að stöðva þróunina í Ríki Vatnajökuls. Verðum að halda hitabreytingum undir 2 gráðum. Ég sendi inn mynd af Hólárjökli en ávallt þegar ég keyri framhjá honum tek ég mynd af skriðjöklinum hverfandi.
Ljósmyndin sem vann er verkefni sem ég hef unnið síðastliðin 9 ár og gæti talist sem endurljósmyndun. Aðferð sem gengur út á að taka gömul verk og endurvinna sömu sjónarhorn.
Mynd af Hólárjökli vinnur ljósmyndaleik. Samsett mynd af Hólarjökli frá 2006 til 2015.
Dómnefnd ljósmyndaleiksins Mitt framlag hefur valið mynd Sigurpáls Ingibergssonar af Hólarjökli sigurvegara í ljósmyndaleiknum #MittFramlag. Dómnefndin taldi að samsettar myndir Sigurpáls af Hólarjökli sem teknar eru með tíu ára millibili sýni í hnotskurn áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi.
Vísindamenn telja að 80 af jöklum á Íslandi muni bráðna fyrir lok þessarar aldar. Því er spáð að Langjökull, næststærsti jökull landsins, hverfi innan hálfrar annarar aldar.
Sigurvegarinn í vali dómnefndar hlýtur ferð fyrir tvo til Parísar á meðan COP21, Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna, stendur yfir í desember. Icelandair og franska sendiráðið á Íslandi gáfu vinninginn og hefur Sigurpáll og gestur hans tök á að heimsækja ýmsa viðburði í tengslum við loftslagsráðstefnuna.
Alls bárust 154 ljósmyndir í ljósmyndaleikinn. Tilgangurinn var að vekja almenning til vitundar um lofslagsbreytingar. Engin skilyrði voru um val á myndefni að öðru leyti en því að myndirnar skyldu minna með einum eða öðrum hætti á loftslagsbreytingar.
Myndum var hlaðið inn á á netið með Instagram, Twitter og Facebook og á vefsíðu leiksins, www.mittframlag.is
Ljósmyndaleikurinn var haldinn í samvinnu Evrópustofu, Náttúruverndarsamtaka Íslands, Umhverfisstofnunar, Sendiráðs Fraklands á Íslandi, Reykjavíkurborgar, Kapals - markaðsráðgjafar og UNRIC, Upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna.
Ég er ákaflega stoltur að því að hafa unnið ljósmyndakeppnina og þarna náð að sameina tvö áhugamál mín, ljósmyndum og umhverfismál. Veit að myndin hefur haft áhrif á fólk og vakið upp umræðu. Gef allan höfundarétt og vonandi fá komandi kynslóðir að njóta þess.
Tæknilega séð er myndin ekki mikið afrek, það má ýmislegt finna að henni en sagan sem hún geymir er áhrifarík. Segir meira en þúsund orð.
Umhverfismál | Breytt 24.1.2016 kl. 15:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.8.2015 | 12:24
Hrossaborg (441 m)
Hrossaborg (441 m)á Mývatnsöræfum er annar tveggja þekktra, samkynja gjóskugíga á Norðausturlandi. Hinn er Hverfjall (Hverfell) í Mývatnssveit. Báðir eru myndaðir í tengslum við þeytigos í vatni eða við miklar grunnvatnsbirgðir. Hrossaborg er eldri, u.þ.b. 10.000 ára, en Hverfjall 2500 ára.
Veðrun hefur sorfið úr Hrossaborg og er hún því ekki eins vel formuð og Hverfjall.
Mývetningar beittu hrossum sínum gjarnan á þessu svæði og notuðu gíginn sem aðhald fyrir þau á meðan leitum var haldið áfram. Að þeim loknum var allt stóðið rekið niður í Mývatnssveit. Vegur liggur alla leið inn í gíginn, sem lítur út eins og stórt hringleikahús, þegar inn er komið. Leiðin inn í Herðubreiðarlindir (#F88) liggur steinsnar austan Hrossaborgar.
Til eru tvær aðrar Hrossaborgir, á Skarðsströnd.
Séð niður í Hrossaborg. Rúta SBA-Norðurleið sést til hægri.Fylgt er slóða upp á gígbarminn. Þaðan er mikið útsýni yfir Mývatnsöræfi.
Dagsetning: 17. júlí 2015
Hæð vörðu: 441 m
GPS-hnit vörðu: (N:65.36.820 W:16.15.731)
Hæð rútu: 380 m (N:65.36.924 W:16.15.488)
Hækkun: 60 m
Erfiðleikastig: 2 skór
Þátttakendur: Ferðafélag Íslands, 20 manns
Heimildir
Ódáðahraun, Ólafur Jónsson
nat.is - Hrossaborgir
Ferðalög | Breytt 24.1.2016 kl. 15:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.8.2015 | 13:48
Hólárjökull 2015
Jöklarannsóknir mínar halda áfram. Ávallt þegar ég keyri framhjá Hólárjökli sem var einn af tignarlegum skriðjöklum úr Öræfajökli, þá smelli ég ljósmynd af honum. Hólárjökull er rétt austan við Hnappavelli. Hólá kemur frá honum.
Fyrri myndin var tekin þann 16. júlí 2006 og sú nýjasta þann 5. ágúst 2015. Það sést glöggt að jökultungan hefur styst og jökullin þynnst, nánast horfið. Rýrnun jöklanna er ein afleiðingin af hlýnun jarðar. Ég spái því að jökultungan verði horfin innan fjögurra ára. Hlutirnir gerast svo hratt.
Árið 2006 voru íslenskir jöklar útnefndir meðal sjö nýrra undra veraldar af sérfræðingadómstól þáttarins Good Morning America á bandarísku sjónvarpsstöðinni ABC. Íslensku jöklarnir urðu fyrir valinu vegna samspils síns við eldfjöllin sem leynast undir íshellunni.
Jöklarnir vita svo margt. Við erum að tapa þeim með ósjálfbærri hegðun okkar.
Hólárjökull, 16. júlí 2006. Jökulsporðurinn þykkur og teygir sig niður í gilið.
Hólárjökull, 5. ágúst 2015. Augljós rýrnun á 9 árum. Jökulsporðurinn er nær horfinn. En hann hefur í fyrndinni náð að ryðja upp jökulruðningi og mynda garð.
Sjá:
Hólárjökull 2007 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/259538/
Hólárjökull 2008 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/611572/
Hólárjökull 2009 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/911196/
Hólárjökull 2011 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1192311/
Hólárjökull 2012 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1253486/
6.8.2015 | 23:58
Ísjakar í fjörunni við Jökulsárlón
Það var mikið af jökum og ferðamönnum í fjörunni við Jökulsárlón í gær. Mikið af ís streymdi úr Jökulsárlóni út á haf og sunnanáttin skutlað þeim upp í fjöru. Geysimargar myndir voru teknar og flugu um samfélagsmiðla. Jöklarnir eru að hverfa.
Tilkomumikil upplifun getur falist í að skoða ísjakana í fjörunni. En eftir nokkra áratugi verður Jökulsárlón orðið að firði og jakaburður hættir fari fram sem horfir.
Á sér hvergi hliðstæðu í sögunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.7.2015 | 13:31
Íshellar og áin Volga í Kverkfjöllum
Eitt af undrum Kverkfjalla eru íshellar í Kverkjökli og áin Volga. Volga er ein af fyrstu kvíslum Jökulsár á Fjöllum, næst lengstu á landsins 206 km. En hvernig varð nafnið Volga til?
Sumarið 1963 fóru nokkrir menn í Jöklarannsóknarfélaginu í Kverkfjöll. Þeir hugðust kanna gróður og ganga á fjöll, en eins og oft vill verða á þessum slóðum tók veðrið af þeim völdin og varð þeim ekki annað til dundurs en að kanna íshella Kverkjökuls. Um hellisgöngin streymdi 13°C heit á og henni var gefið nafnið Volga. Aðal íshvelfing undirheimanna reyndist 15-20 metra há og 330 metra löng. Hún þrengdist inn á við og endaði háum fossi. Þar var skuggsýnt og mikið gufukóf. En Volguhellar eru að breytast. Volga stendur ekki lengur undir nafni og á meðan hún streymir ísköld viðheldur hún ekki hvelfingunum. Jökullinn skríður fram og við hellisopið hrynja ísflykki af og til. (bls. 276)
Á sumrin gætir ekki hitans í Volgu því leysingavatn gerir hana að ískaldri jökulá.
Við merktan göngustíg í átt að íshellinum eru skilti sem banna skoðunarferðir inn í íshellinn enda er þar slysahætta af völdum íshruns. Hópur af erlendum ferðamönnum fór samt inn í íshellinn og virti aðvaranir ekki að vettugi. Þegar við vorum búin að vera í nokkurn tíma að fræðast um íshellinn og samspil elds og ísa þá komu tveir erlendir ferða menn út úr hellinum. Þeir hafa eflaust farið lengra inn í hann en hópurinn. Þeim til happs var að vorið og sumarið var kalt og íshellinn stöðugri en í meðalári.
Fréttamaðurinn Ómar Ragnarsson er mjög hrifinn af Kverkfjöllum og hefur kynnt íshellin, Volgu og Kverkfjöll fyrir Íslendingum. Hann hefur lent í háskalegum atburðum og náð á kvikmynd. Í ljóðinu Kóróna landsins eftir Ómar er þessi fallega lína um Volgu: Í Kverkfjöllum glóðvolg á íshellinn þvær.
Íshellirinn í Kverkjökli þann 18. júlí 2015. Hann má muna fífil sinn fegurri. En hiti frá Volgu hefur minnkað og framskrið Kverkjökuls hefur dregið úr tignarleik hellisins.
Heimildir:
Perlur í náttúru Íslands, Guðmundur Páll Ólafsson, 5. prentun 2005.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.7.2015 | 16:11
Kverkfjöll - Hveradalir
Kverkfjöll eru önnur hæsta eldstöð landsins, næst á eftir Öræfajökli. Kverkfjöll rísa meira en 1.000 metra yfir umhverfi sitt og eru að hluta til hulin ís. Hæst rís Skarphéðinstindur á austanverðu fjallinu (1.933 m). Skipta má Kverkfjöllum í eystri og vestari hluta um Kverk sem er mikið skarð í fjöllin norðanverð með geysiháum þverhníptum hamraveggjum. Út um Kverk skríður Kverkjökull til norðvesturs niður undir hásléttuna í um 950 metra hæð.
En markmiðið með gönguferðinni var að heimsækja Hveradal í 1.600-1.700 m hæð með miklum gufu- og leirhverum, um 3 km langur og allt að 1 km breiður. Þetta er eitt öflugasta háhitasvæði landsins. Bergið er sundursoðið af jarðhita.
Lagt var frá Sigurðarskála (840 m) rétt eftir dagrenningu og íshellinn skoðaður úr fjarlægð. Jarðhiti er undir Kverkjökli, og undan honum fellur stærsti hveralækur landsins, sem bræðir ísgöng fyrir farveginn. Erlendir ferðamenn fóru inn í hellinn og virtu aðvaranir að vettugi.
Síðan voru mannbroddar settir undir fætur og lagt af stað, úr 950 m hæð. Gengið yfir Kverkjökul og snæviþakta Löngufönn. Á leiðinni var fallegt sprungusvæði og drýli röðuð sér skipulega upp. Spáin var óhagstæð. Kuldapollur frá heimskautinu skaust inn á landið og vetur konungur var að ganga í garð á hálendinu um miðjan júlí.
Gönguhópurinn fór í rúmlega 1.500 metra hæð en sneri við vegna snjóa. Lítið að sjá og fylgja ráðum háfjallagöngumannsins Ed Viesturs, að snúa við áður en það er orðið og seint. En skjótt skipast veður í lofti í mikilli hæð.
En tilhugsunin um Hveradali efri og neðri er stórbrotin og alltaf mögulegt að reyna aftur. Félag íslenskra fjallalækna, FÍFL fóru í ferð á síðasta ári og tóku frábærar myndir, þá lék veðrið við félaga.
Gengið á mannbroddum yfir Kverkjökul en undir honum er jarðhiti.
Mynd sem skýrir ferðina en hún er tekin af skilti á Sigurðarskála. Lagt af stað frá stað vinstra megin við Volgu og sést hann ekki.
Dagsetning: 18. júlí 2015
Erfiðleikastig: 4 skór
Þátttakendur: Ferðafélag Íslands, 20 manns
Heimildir
Jöklar á Íslandi, Helgi Björnsson, 2009. Bls. 343.
Vatnajokulsthjodgardur.is
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 16:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 13
- Sl. viku: 50
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 46
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar