5.4.2015 | 14:57
Kakóið í páskaegginu
Æ, nú skemmir maður kannski páskastemminguna. En maður kemst ekki hjá því að rifja upp hvaðan súkkulaðið kemur sem er í páskaegginu og hvernig það var framleitt.
Sá grein í The Guardian um slæmar aðstæður kakóbænda á Fílabeinsströndinni og Ghana en 60% af kakóbaunum heimsins koma þaðan. Þar er mikið byggt á vinnu barna, 1,5 milljón barna vinna við að koma vörunni á markað, annað orð yfir þessa vinnu er barnaþrælkun.
Dæmigerður kakóbóndi fær aðeins 6,6% af verði afurðarinnar í sinn hlut og vinnuaðstæður eru slæmar.
Verst er að heyra að ef aðeins 1% af 86 milljón dollara markaðskostnaði væri notað til að styrkja bændur þá myndu kjör þeirra bætast gífurlega.
Þrír risar eru á páskaeggjamarkaðnum íslenska, Nói-Síríus, Góa og Freyja. Aðeins eitt er með verkefni fyrir bændur en það er Nói-Síríus.Súkkulaði frá þeim er QPP framleitt. QPP (Quality partner program) gerir kakóræktendum kleift að rækta og framleiða kakóið á sjálfbæran og ábyrgan hátt.
Freyja og Góa gefa ekki upp neina vottun á sínum vefsíðum. Þau vinna ekki að samfélagslegri ábyrgð.
Vona að þið njótið páskanna en pælið í þessu og skrifið íslenskum páskaeggjaframleiðendum bréf og biðjið um stefnu þeirra um siðræna vottun í aðfangakeðjunni.
Ég naut betur páskaeggs #2 frá Nóa-Síríus þegar ég las um QPP verkefnið.
Kakóbaun sem súkkulaðið í páskaegginu er unnið úr.
Tenglar:
4.4.2015 | 15:06
Margnota burðapokar
Á göngu á föstudaginn langa rakst ég á þrjá fjúkandi burðapoka úr plasti. Skora á fólk að vera samfélagslega ábyrgt og virkja Plastpokalaus Laugardagur - Plastic Bag Free Saturdays átakið í dag.
Margnota burðapokar eru framtíðin.
Áætlað er að um 50 milljónir plastpoka falli til á ári hverju hér á landi. Það eru um 1.120 tonn af plasti. Langstærstur hluti þessara plastpoka fer í urðun með öðrum heimilisúrgangi en á urðunarstöðunum tekur niðurbrot pokanna nokkrar aldir, jafnvel þúsund ár.
Notkun einnota plastpoka veldur miklum umhverfisáhrifum því talsvert magn af plasti er hvorki endurunnið né fargað heldur berst til sjávar með regni, frárennsli og ám eða fýkur til hafs. Plastefni brotna þar niður í smærri einingar á mjög löngum tíma, en eyðast jafnvel aldrei að fullu. Plast safnast því upp í umhverfinu.
Plastið hefur mikil áhrif á allt lífríki því árlega drepst mikill fjöldi sjófugla og sjávarspendýra eftir að hafa étið plast, auk þess sem dýr geta flækst í plastinu og jafnvel kafnað. Þá geta ýmis mengandi efni loðað við plastagnirnar, s.s. þrávirk lífræn efni.
Einnota plastpoki á leið í sjóinn.
Vínbúðirnar eru framarlega í flokki. Hér er tlinefning til Nýsköpunarverðlauna, Margnota burðapokar.
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 15:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.12.2014 | 15:39
Holuhraun og Bárðarbunga
Eldgosið í Holuhrauni og jarðskjálftahrina í Bárðarbungu var ein af fréttum ársins. Stefnan er að heimsækja Holuhraun næsta sumar og ganga á Tungnafellsjökul ef mögulegt. Mikið af glæsilegum myndum voru teknar af gosinu í Holuhrauni og fóru um samfélagsmiðla um allan heim.
Leitarniðurstöður á Google sýna hvenær sjónarspilið stóð sem hæst. Mestur fjöldi var 17,6 milljónir en er tæplega 500 þúsund núna. Bárðarbunga byrjaði í 16.100, fór hæst í rúmlega 3 milljónir og er í kringum 600 þúsund um áramót. Eldgosið heldur hægt og hljóðlega áfram, aðeins brennisteinsdíoxíð (SO2) er til ama í hægviðri.
Leitarniðurstöður á Google. Jarðskjálftahrinan hófst 17. ágúst og fyrsta hraungosið í Holuhrauni 29.ágúst. Þann 13. október er hátindurinn en nokkur loftmengun í höfuðborginn á þessum tíma.
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 15:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.12.2014 | 13:28
Héðinshöfði og Tungulending
Héðinshöfði og Tungulending, 31. júlí.
Fyrirhugaðri ferð um Tunguheiði var frestað vegna úrhellis. Það rigndi svo hressilega við Fjöllin.
Við Tungulendingu er hægt að sjá Tjörneslögin og var það mikil upplifun, þó ekki hafi fundist loðfíll en mikið um skeljar. Athyglisvert verkefni sem grásleppuskúrinn er að fá, breyting í gistiheimili, hvað annað.
Síðan var gengið um Héðinshöfða og horft á hvalafriðunarskipin sigla með ferðamenn. Einnig skoðuð eyðibýli sem sjórinn er að ná. Hlúð að særðri kind sem flæktist í neti og rætt um lundaveiði í Lundey. Tekin fyrir nokkur stökk úr Njálu. Að lokum var minnisvarði um Einar Benediktsson, skáld og athafnamann heimsóttur en hann bjó með föður sínum á bænum Héðinshöfða í nokkur ár. Síðan var haldið til Húsavíkur og Gamli Baukur styrktur meðan fylgst var með hvalafriðunarbátum koma og leggja frá bryggjunni. Skemmtileg vísindaferð um Tjörnes.
Tungulending. Endurbygging í gangi. Mjög svalur staður.
Héðinshöfði og háflóð. Fínt fyrir "surfing". Brimbrettið gleymdist.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.12.2014 | 12:11
Inn yfir fjall: Fnjóskadalur Bárðardalur
Inn yfir fjall: Fnjóskadalur - Bárðardalur, 30. júlí
Gekk inn yfir fjall í dag. Frá Sörlastöðum í Fnjóskadal að Stóruvöllum í Bárðardal. 16 km ganga, 21.072 skref og 1.240 kkal brenndar eða 10 bananar. Gangan hófst í 250 m í 600 m og endað í 214 m. Vel vörðuð leið.
Bárðardalur er einhver lengsti byggði dalur á Íslandi. Hann er fremur mjór, með allbröttum, grónum, klettalausum hlíðum
Dætur Bárðardals við lykilvörðu á Vallnafjalli vestan megin í Bárðardal. Skjálfandafljót rennur eftir dalnum og Valley í Fljótinu. Hlíðskógar er bærinn.
Holuhraun
Héðan sést til Holuhrauns en það var göngumönnum algerlega óþekkt enda hálfur mánuður í að jarðskjálftar hæfust í Bárðarbungu og mánuður í eldgos í Holuhrauni.
Vallnafjall er slétt að ofan og greiðfært. Lá alfaraleið yfir það frá Stóru-Völlum í Bárðardal og að Sörlastöðum í Fnjóskadal. Var hún allmikið farin áður, hæð þar um 600 m y.s., og komið niður i Hellugnúpsskarð að norðan, allnokkru innan við Sörlastaði. Leið þessi er um 15 km milli bæja og ágætlega fær á hestum. (bls. 22, Landið þitt Ísland, U-Ö)
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.12.2014 | 10:46
Hrísey
Hrísey gengin frá suðri til norðus. Eyjan leynir á sér og breytilegt veðurfar í norðanáttinni. Fleiri bílar í eyjunni en maður átti von á. Gaman að sjá fólk vera að tína hvannarlauf. Geysi mikil berjaspretta nyrst á Hrísey, krækiber og bláber. Flottur taxi.
Arkaði 15,5 km eða rúmlega 20 þúsund skref og 1.200 kkal brenndar.
Skemmtileg og fróðleg ferð.
Gönguhópurinn, 18 manns. Frænkuhittingur í Hrísey.
Hrísey er önnur stærsta eyja við Ísland, 11.5 km2. Hrísey er um 7 km löng, breiðust sunnan til, um 2,5 km, en nyrðri helmingurinn er allt að helmingi mjórri.
Hvönnin nýtt. Hér er hópur fólks að tína hvannarlauf. Einangrunarstöðin í baksýn.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 10:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.11.2014 | 01:25
Tékkland - Ísland og gullni pilsner-bjórinn
Tékkland og Ísland leika forkeppni EM 2016 í dag í Pilsen. Það er því góð tenging að fjalla um Tékkland og bjór í dag þegar jólabjórinn tekur völdin.
Tékkland er mesta bjórþjóð veraldar og er bjórneysla á mann 149 lítrar á ári. Slá þeir út Austurríki með 108 og Þjóðverja með 106 lítra. Ísland er í 37. sæti með 45 lítra og lægra en á FIFA-listanum en Ísland er þar í 28. sæti.
Fyrst Tékkland,land lagersins er í beinni í kvöld, þá verður maður að rifja upp og upplifa bjórsöguna og láta hugann leita til Pilsen. Þar er merkilegt brugghús, musteri brugglistarinnar, Pilsner Urquell Brewery. Þar var fyrsti gullni bjórinn með botngerjun eða kaldri gerjun bruggaður árið 1842. Tími pilsnersins var þá runninn upp og markaði upphaf lagerbjórsins. Tærleiki hans er í glasið kom var aðlaðandi og samsetning ilms og bragðs, sem var maltkennd en með indælum humla og bitterkeim, heillaði alla er á honum smökkuðu. Svo vel hefur gullni bjórinn frá Bæheimi (Bohemia) lagst í Íslendinga að 97% af seldum bjór í Vínbúðunum er lagerbjór.
Bjór má skipta gróft upp í tvo flokka, öl (ale) og lager. Öl er bruggað með gertegund sem vinnur mest við yfirborðið en í lager er notaður ger sem vinnur mest við botninn við kaldara hitastig. Síðan tekur við langt geymsluferli, lagering.
Það er gaman að fara í skoðunarferð um bruggverksmiðjuna sem framleiðir Pilsner Urquell og anda að sér bjórsögunni. Nokkrir stuðningsmenn Íslands heimsóttu hana fyrir leikinn. En eikartunnur frá frystu lögn, fyrir 172 árum, eru til sýnis fyrir ferðamenn. Einnig er gengið um kaldan kjallarann og hápunkturinn er sopi af ósíuðum og ógerilsneyddum pilsner bruggaður í eikartunnu. Þreföld humlun er lykilinn. Bjórinn er gjöf náttúrunnar til mannsins.
En hvernig fer svo landsleikurinn: Spái Tékkum 1-0 sigri á Struncovy Sady Stadion í Pilzen. Klókt hjá Tékkum að spila leikinn í vaxandi Pilsen-borg, þaðan koma flestir landsliðsmennirnir, fimm frá Viktoria PlzeÅ og þjálfarinn. En völlurinn er lítill, tekur 11.700 manns, litlu meira enn Laugardalsvöllur.
Inngangurinn í elsta Pilsner-brugghúsið (Burgher's brugghúsið) minnir meira á sigurboga en hlið. Vatnsturninn, 46 metra hár sést í gegnum hliðið og minnir á mínarettu á mosku. Háir reykháfar standa upp úr brugghúsinu, musteri brugglistarinnar og smekklegar vöruskemmur sjást. Á bakvið strætóinn sem keyrir gesti um bruggþorpið er Pilsen bjórlestin sem flutti vörur á hverjum morgni til Vínar. Brugghúsið er mjög stutt frá leikvellinum.
Heimild:
Wikipedia: http://en.wikipedia.org/wiki/List_of_countries_by_beer_consumption_per_capita
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 01:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.9.2014 | 13:14
Hrafnagjá
Hrafnagjá er ekki vel þekkt. En hún er stutt frá Vogum og minnir á Þingvelli með Almannagjá sem miðpunkt.
Hrafnagjá er tilkomumikil ofan við Voga, með háu hamrabelti sem snýr til fjalla. Hún er mjög djúp á köflum og nokkuð breið milli bakka. Besta upp- og niðurgangan í Hrafnagjá á þessum slóðum er um Kúastíg. Ofan hans á gjárbarminum eru þrjár vörður; Strákar.
Talið er að þær hafi verið nefndar svo vegna þess að þrír strákar, kúasmalar, úr Vogum hafi dundað við að hlaða upp fáeinum steinum, sem síðar voru kenndir við þrjá Stráka. Kúastígurinn hefur eflaust verið notaður af selfólki úr Vogunum og e.t.v. hafa verið kúahagar á grasbölunum við ofanverða gjána.
Hrafnagjá er á köflum mjög djúp, minnir á Almannagjá en er þrengri.
Síðan var stefna tekið yfir Huldur, þarna eru víða sprungur er leyna á sér. Komið að Hulugjá en þær eru tilkomuminni en Hrafnagjá.
Hrafnagjá er af mörgum talin fallegri en Almannagjá.
Vörðurnar Strákar við Hrafnagjá. Gengið niðu um Kúastíg. Keilir í fjarlægð.
Dagsetning: 24. september 2014
Hæð stígs: Lægst: 14,3 m og hæst: 48,6 m.
GPS hnit Vogaafleggari: (N:63.58.395 - W:22.21.462) 23 m.
Heildargöngutími: 90 mínútur (19:10 - 20:40)
Erfiðleikastig: 1 skór
Vegalengd: 4.0 km
Skref: 6.200
Orka: 363 kkal eða 3 bananar.
Veður kl. 19 Keflavík: Skýjað, SV 10 m/s, 8,2 °C. Raki 97%. Skyggni 25 km. Skúrir.
Þátttakendur: Útivistarræktin, 7 manns.
GSM samband: Gott 4G samband.
Gönguleiðalýsing: Mosavaxið gróft hraun. Gengið meðfram Hrafngjá sem liggur samhliða Reykjanesbraut. Áfram er haldið að Huldum og Huldugjá.
Gönguleiðin, 4 km alls. Keyrt eftir Reykjanesbrautinni að gatnamótunum að Vogum. Lagt við hringtorgið.
Gengið um kílómeter að Hrafnagjá og meðfram henni. Síðan yfir jarðsigið Huldur að Huldugjá.
Heimild:
Ferlir.is - Kánabyrgi Viðaukur Heljarstígur Huldur - Kúastígur - Hvíthólar
Ferðalög | Breytt 3.1.2015 kl. 14:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.9.2014 | 22:17
Tóarstígur
Í Afstapahrauni upp af Kúagerði eru sjö gróðurvinjar sem kallaðar eru Tóur á milli þeirra liggur göngustígur sem heitir Tóarstígur. Stígurinn liggur áfram inn að Höskuldarvöllum en endað var við svokallaða Seltó.
Flestir fara sömu leið til baka en á GPS mæli var slóði út í viðkvæmt hraunið. Eflaust í einhverja tilraunarborholu fyrir tíma umhverfismats. Við leituðum slóðann uppi og komum inn á veginn að Höskuldarvöllum.
Tóurnar sem eru sjö. Þar var haglendi sæmilegt og er talið að þarna hafi vermenn eða útróðramenn haldið hestum sínum á vertíðum.
Stefna Tóarstígs er að Keili og sást hann oftast og bar af í hrauninu. Mikið sjónarspil i birtunni. Skúraský börðust við sólarljósið og myndaði dulúðlega birtu. Mikið gengið í hrauni og mosa. Skúr helltist yfir okkur í nestispásunni og myndaði glæsilegan regnboga.
Hraunið gleypir alla úrkomu og því er vatn vandfundið á svæðinu, því hefur vistin verið erfið í selinu ef menn og skepnur hafa búið þar um tíma.
Tó þrjú er talsvert minni en þar er mikið jarðfall eða ker, Tóarker, er þar gott skjól.
Dagsetning: 3. september 2014
Hæð stígs: Lægst: 24,3 m og hæst: 91,4 m.
GPS hnit gryfjur: (N:64.00.305 - W:22.10.274)
Heildargöngutími: 150 mínútur (19:10 - 21:40)
Erfiðleikastig: 1 skór
Vegalengd: 8.8 km
Skref: 11.116
Orka: 611 kkal eða 5 bananar.
Veður kl. 21 Keflavík: Skýjað, N 1 m/s, 9,8 °C. Raki 93%. Skyggni 30 km. Gambur.
Þátttakendur: Útivistarræktin, 26 manns.
GSM samband: Gott 4G samband.
Gönguleiðalýsing: Mosavaxið hraun, stígur ógreinilegur á köflum.
GPS-kort sem sýnir leiðina og neðra sýnir hæð og gönguhraða. Nestisstopp um miðja ferð. Gefið í í myrkrinu á veginum að Höskuldarvöllum.
Heimild:
Ferlir.is: Kúagerði - Afstapahraun
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.8.2014 | 16:48
Á Fjórðungsöldu
Það eru miklir atburðir að gerast í Bárðarbungu, Dyngjujökli og Öskju um þessar mundir. Ferlið hófst 16. ágúst og hefur heimurinn fylgst með óvæntri framvindu og ýmsum uppákomum. Berggangurinn eða kvikugangurinn er að nálgast Öskju á sínum 4 km hraða og vatnsstaða Grímsvatna hækkar.
Jarðskjálftar verða öflugri og það sér á Holuhrauni og sigkatlar hafa myndast suðaustan við Bárðarbungu. Stórbrotið lærdómsferli fyrir jarðfræðinga.
Ég fór norður Kjöl og suður Sprengisand fyrir átta árum og þar var stórbrotin sýn alla leið. Veður var dásamlegt á Sprengisandi. Á Fjórðungsöldu sá maður umtöluðustu staði á Íslandi í dag, Bárðarbungu og Dyngjujökul. Ekki grunaði mig að rúmum átta árum síðar myndi Bárðarbunga láta í sér heyra. Kannski verður svæðið á myndunum umflotið jökulvatni? Kannski verður komið nýtt fell? Kannski gýs sprengigosi í Öskju og Víti hverfur? Kannski gerist ekkert, myndast aðeins nýr berggangur neðanjarðar?
Það var lítil umferð yfir hálendið, ég grét það ekki en fannst að fleiri hefðu mátt njóta stundarinnar. Skráði þetta á blað um ferðina:
23. júlí 2006
Frábært ferðaveður, heiðskírt og 15 gráðu hiti.
Keyrðum 50 km frá Kiðagili í Bárðardal að Kiðagili á Sprengisandi, þá hófst Sprengisandur. Komum við hjá Aldeyjarfossi.
Á Fjórðungsöldu var magnað útsýni. Hofsjökull, Tungnafellsjökull, Bárðarbunga og Trölladyngja.
Fórum yfir tvö vöð hjá Tungnafellsjökli og eitt við Höttóttardyngju.
Keyrðum 204 km á möl og 160 km á malbiki í bæinn og enduðum ferðina á Sprengisandi við Reykjanesbraut.
Mættum 19 bílum á norðurleið og 2 hjólreiðamönnum. Aðeins fleiri á suðurleið þar af einn hjólreiðamaður.
#Hagakvísl, #Nýjadalsá, #Skrokkalda og #Svartá.
Hef trú á að það eigi fleiri eftir að ferðast yfir Sprengisand á komandi árum eftir þetta ævintýr.
Tungnafellsjökull og Bárðarbunga frá Fjórðungsöldu. Kistufell og Dyngjujökull handan.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 13
- Sl. viku: 50
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 46
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar