22.6.2015 | 16:58
Skjaldbreið (1.060 m)
Hvernig er best að halda upp á 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna, 19 júní hátíðlegan, sumarsólstöður og jónsmessu? Jú heimsækja Skjaldbreið í miðnæturgöngu en samkvæmt íslenzkri þjóðsögu er sagt að Okið og Skjaldbreið séu brjóst ungrar risameyjar, sem varð að steini, þegar ættir trölla urðu aldauða í landinu.
Hópurinn var fjölmennur, um 100 manns og 2/3 hlutar konur. Svona á að halda upp á 19. júní!
Ég gekk á Skjaldbreið haustið 1981 á fjallgöngudegi í Menntaskólanum á Laugarvatni. Var búinn að vera veikur um haustið og þreklaus. Man hvað stallarnir voru margir á uppleiðinni, hélt alltaf að toppnum væri náð en þá tók næsti við. Margir nemendur sneru við en Haraldur Matthíasson, þjóðsagnarpersóna og fv. kennari við ML fór létt með að toppa.
Ég lærði helling í þessari ferð. Lærði aðeins að lesa landið. Ógnarskjöldurinn átti oft eftir að koma fyrir í náminu og jók gangan skilning á jarðfræði. Einnig ljóðin sem tengjast dyngjunni. Örnefni í nágrenni, Okið, Hlöðufell,Þórisjökull, Botnssúlur, Hvalfell, Hagavatn og fleiri festust í minni. Man einnig að línumenn voru að tengja raflínu úr Hrauneyjafossvirkjun yfir í Hvalfjörð. Sá þá hanga í möstrunum og sprengja saman vír. Ógleymanlegur öræfadagur.
Dyngjan Skjaldbreið varð til í rólegu flæðigosi fyrir rúmlega 9000 árum, skömmu eftir að jökull hvarf úr Þingvalladældinni. Þetta sýnir C14-aldursgreining á koluðum gróðri í jarðvegssniði undir Miðfellshrauni við útfall Sogsins. Rúmmál fjallsins og hraunbreiðunnar í kring er um 17 km3, en talið er að fjallið allt hafi myndast í einu gosi. Í dyngjugosum kemur upp fremur lítið hraunmagn á tímaeiningu, aðeins um 5 til 10 rúmmetrar á sekúndu, svo það hefur tekið 50 til 100 ár að mynda þessa tignarlegu dyngju.
Í hvirfli Skjaldbreiðar er gígur, 300 metrar í þvermál og 50 metra djúpur. Hliðarhalli fjallsins er dæmigerður fyrir dyngjur, 7 gráður þar sem hann er mestur.
Vatnið í Þingvallavatni er að mestu komið frá Langjökli. Áður en Skjaldbreið myndaðist rann jökulvatn óhindrað út í vatnið, en þegar fjallið myndaðist lokaði hraunið vatnið af og hindraði streymi jökulvatns ofanjarðar. Nú rennur jökulvatnið neðanjarðar, síast í Skjaldbreiðarhrauni og stígur upp blátært um sprungur í Vellankötlu úr norðanverðu Þingvallavatni. Vatnið er um 20 til 30 ár á leið frá Langjökli í gegnum jarðlögin og inn í Þingvallavatn.
Skjaldbreið í öllu sínu veldi hulin hvítu skýi og sjást efstu 300 metrarnir ekki. Umkringt í norðri tröllslegum raflínum frá Hrauneyjafossi og Sultartanga og liggja niður í Hvalfjörð.
Lagt var af stað í ferðina frá Mörkinni kl. 19.00 og komið við á Þingvöllum. Þar var farið yfir konur og áhrif Skjaldbreiðs á líf Jónasar Hallgrímssonar, náttúrufræðings og skálds. Síðan var keyrð Uxahryggjaleið og beygt inn Skjaldbreiðarveg, F338, línuveg að Haukadalsheiði og keyrt eins langt og rútur komust en fínn sandur og snjóflákar stoppuðu göngumenn við Tröllsháls. Yfirleitt er lagt í Skjaldbreið að norðan frá gíghólnum Hrauk sem er í 605 metra hæð.
Snjóflákar neðst en hjarn þegar ofar kom og varð færð erfið í þokunni og vindinum. Komið að vörðu við gíginn um miðnætti. Ekki létti til. Þoka, kuldi og vindur skemmdi jónsmessustemminguna. Ekki tókst að baða sig í miðnætursólinni með stórfenglegt útsýni í allar áttir. Erfið færð síðustu 300 hæðarmetrana og var ég örþreyttur en gangan niður var létt.
Gengið í snjófláka. Það sér móta fyrir Baulu í sólroðanum. Fanntófell, Oköxl og Kaldidalur handan.
Dagsetning: 19. júní 2015
Hæð Skjaldbreiðar: 1.060 m
GPS hnit varða við gíg: (N:64.24.495 - W:20.45.300)
Hæð í göngubyrjun: 459 metrar (N:64.26.433 - W:20.50.339) hjá Tröllháls.
Hækkun: 600 metrar
Uppgöngutími: 170 mín (21:10 - 00:06) 5,6 km ganga.
Heildargöngutími: 265 mínútur (21:10 - 01:35)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 11,2 km
Skref: 16.000
Brennsla: 2.326 kaloríur upp og svipað niður.
Veður kl. 24 Þingvellir: Alskýjað, SV 1 m/s, 7,5 °C. Raki 93%.
Þátttakendur: Ferðafélag Íslands, 100 manns með fararstjórum, 2/3 hlutar konur.
GSM samband: Ágætt í hlíðum en ekkert á toppi.
Gönguleiðalýsing: Snjóflákar neðst en hjarn þegar ofar kom og varð færð erfið í þokunni og vindinum. Annars sandborið hraun og misháir hraunrimar.
Þótti mér betur farið en heima setið. Lýkur þar að segja frá jónsmessuför á Skjaldbreið.
Heimildir
Ferðafélag Íslands, göngulýsing
Gönguleið á 151 tind, bls. 238-239.
Perlur Íslands, bls. 398-399.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.6.2015 | 12:32
Sláttur og spretta sumarið 2015
Enginn fyrsti sláttur í dag. Fyrir nákvæmlega ári síðan sló ég slátt #2 í garðinum. Svona er vorið búið að vera kalt.
Grenitrén fengu að kenna á djúpum lægðum í vetur. Halla líflaus til vesturs. Loftslagsbreytingar. Kaldur sjór.
Flekkótt garðflötin eftir kaldan maí. Líflaus grenitrén snúa undan vindi.
Hér er yfirlit yfir slátt í Álfaheiði 11 fyrstu ár aldarinnar. http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1168563/
23.4.2015 | 21:36
Þórnýjartindur (648 m)
Sumardagurinn fyrsti
Samkvæmt gamalli þjóðtrú boðar það gott sumar eftir kaldan vetur ef frýs nóttina milli veturs og sumars.
Ég trúi því. Eftir kaldan og stormasaman vetur, þá setti ég út fötu við síðasta vetrardag en ekki fraus í henni yfir nóttina. Þá var aðeins eitt ráð til að bjarga sumrinu sunnanlands, en það var að fara að ráðum húsfreyjunnar Þórnýjar frá Eilífsdal.
Ég ákvað því að bjarga sumrinu, sýna samfélagslega ábyrgð og fylgja þjóðsögunni um Þórnýju. Ganga á Þórnýjartind (648 m) í björtu en köldu veðri.
Hún hafði sett út skel með vatni að kvöldi síðasta vetrardags. Til að hjálpa forlögunum ögn gekk húsfreyjan með skelina til fjalls svo frekar frysi. En undir morgun stóð hún á Þórnýjartindi og ekki fraus enn, svo þá var ekki um margt að gera!
Fleygði Þórný sér fram af fjallinu í fullkominni örvæntingu um gott tíðarfar.
Ekki var ég eins desperate og Þórný en þegar ég keyrði inn Eilífsdal sá ég að það hafði frosið þunnt skæni á polli í holóttum malarveginum. Sumrinu var bjargað, allavega bakvið Esjuna.
Þórnýjartindur er ekki mjög árennilegur við fyrstu sýn sökum þess hve brattur hann er, en þegar á hólminn er komið er ekki allt sem sýnist og leiðin nokkuð greið þó brött sé.
Nokkur snjór var ofarlega fyrir ofan svokallaða Múlarönd og snjóalög ótrygg, því ákvað göngumaður að snúa við í tæka tíð og komast örugglega heim enda búið að vera nóg að gera hjá björgunarsveitum í vetur. Sumrinu hafði líka verið bjargað.
Ég tók því stefnuna inn stuttan Eilífsdal og horfði inn i eilífðina.
Gleðilegt sumar
Þunnt skæni á pollinum, hrikalegur, snjóþungur Þórnýjartindur handan
Dagsetning: 23. apríl 2015
GPS hnit - Google: (N:64.294086 - W:21.661850)
Veður kl.14 Reykjavík: Heiðskýrt, 4 m/s, 2,5 °C, NNV, raki 41%,skyggni >70 km
Heimildir:
Toppatrítl
Morgunblaðið
Staðsetning
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.4.2015 | 22:20
Maríuhöfn - Búðasandur
Þegar keyrt er inn langan Hvalfjörðinn gengur nes út í fjörðinn. Nefnist það Hálsnes í Kjósinni. Á nesinu er merkur staður Maríuhöfn á Búðasandi. Gengin var hringur í eftir Búðasandi og fjörunni en þar eru fallegir steinar og mikið fuglalíf.
Maríuhöfn mun hafa verið mesti kaupstaður landsins á miðöldum, fram á 15. öld. Rústir staðarins eru ofan við Búðasand og er Maríuhöfn við suðausturenda sandsins. Skip sem þangað komu voru dregin inn á poll inn af sandinum. Þarna er talið að haffær skip hafi verið smíðuð á landnámsöld, enda viður tiltækur. Árið 1402 kom skip (Hvala-) Einars Herjólfssonar í Maríuhöfn og flutti með sér svartadauða.
Staðsetning náttúrulegrar Maríuhafnar var ákjósanleg til að koma vörum beint á markað á Þingvöllum.
Við norðanverðan Búðasand sáust tóftir Hálsbúða greinilega. Þær hafa legið nokkuð þétt saman í einni samfellu. Byggður hefur verið sumarbústaður í nyrsta hluta tóftanna og trjám plantað utan og ofan í þær. Búðirnar virðast hafa verið margar, en erfitt er að greina fjölda þeirra af nákvæmni. Veggir standa víða grónir og dyr hafa gjarnan vísað að hafi.
Sunnarlega í röðinni hefur farið fram fornleifauppgröftur. Er hann dæmigerður fyrir slíka framkvæmd hér á landi; allt skilið eftir ófrágengið og öðrum einskis nýt. Auðvitað á ekki að leifa fornleifauppgröft nema gera ráð fyrir frágangi svæðisins að honum loknum, þ.e. með viðhlítandi minjaskiljum, merkingum og upplýsingaskiltum. Sumir segja, grafendum til vorkunnar, að uppgröfturinn hafi verið stöðvaður í miðjum klíðum af ótta við þarna kynnu að hafa verið grafin lík frá tímum svartadauða.
Stóriðjuver góndu á okkur allan tíman og það var táknrænt að sjá merki samtakanna Sólar í Hvalfirði þegar komið var upp úr fjörunni í hringferðinni.
Dagsetning: 15. apríl 2015
Hæð göngu: Lægst: 0 m, fjaran og hæst: 20 m.
GPS hnit - Google: (N:64.345221 W:21.666158)
Heildargöngutími: 120 mínútur (18:50 - 20:50)
Erfiðleikastig: 1 skór
Vegalengd: 5.5 km
Skref: 7.250
Orka: 400 kkal.
Veður kl. 20: Skýjað, 2 m/s, 6,0 °C, suð-suð-austan, raki 75%,skyggni 50 km.
Þátttakendur: Útivistarræktin, 14 manns.
GSM samband: Gott 4G samband.
Gönguleiðalýsing: Gengið frá Hálsabúðum eftir Búðasandi að Maríuhöfn og eftir léttri fjörunni framhjá Hlein og komið upp hjá Stömpum.
Heimildir
Ferlir: Maríuhöfn-Búðasandur-Steðji
Kjósin: Maríuhöfn
Wikipedia: Maríuhöfn
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 22:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.4.2015 | 16:04
75 frá hernámi Noregs
Nú eru liðin 75 ár síðan Þjóðverjar hernámu Noreg og Danmörku í heimsstyrjöldinni síðari.
Mér var hugsað til 10. apríl fyrir 75 árum er ég var í skoðunarferð á smáeyju sem hýsir virkið Oscarsborg í Oslóarfirði fyrir þrem árum. Eyjan er vel staðsett í miðjum firðinum gengt þorpi sem heitir Drøbak.
Mánuði fyrir hernám Íslands, þann 9. apríl 1940 var mikil orrusta á Drøbak-sundi, sú eina sem háð var við eyjuna meðan hún var útvörður. Þjóðverjar höfðu áformað að hertaka Noreg með hernaðaráætluninni Operation Weserübung en hún byggðist á því að senda flota með fimm herskipum til landsins. Þegar Oslóarsveitin kom nálægt Oscarsborg, gaf hershöfðinginn Birger Eriksen skipun um að skjóta á þýsku skipin. Forystuskipið Blücher var skotið niður og tafðist hernámið um sólarhring. Kóngurinn, ríkisstjórnin og þingið með gjaldeyrisforðann gat nýtt þann tíma til að flýja höfuðborgina.
Árið 2003 yfirgáfu hermenn eyjuna og nú er hún almenningi til sýnis. Mæli ég með skoðunarferð til eyjarinnar og tilvalið að sigla aðra leiðina frá Osló.
Safnið í virkinu var mjög vel hannað og stórfróðlegt að ganga um salina sem sýndu fallbyssur frá ýmsum tímum ýmis stríðstól. Fyrir utan virkið voru svo öflugar fallbyssur sem góndu út fjörðinn. Orrustunni við Nasista voru gerð góð skil. En hún er mjög vel þekkt í Noregi.
Mikið var manni létt að þurfa ekki að upplifa það að vera kvaddur til herþjónustu og forréttindi að búa í herlausu landi. Stríð eru svo heimskuleg. Mér dettur strax í hug speki Lennons - "Make Love, not War".
En hernám Þjóðverja á Noregi setti af stað atburðarás sem gerði Íslendinga ríka.
Eyjurnar tvær með Oscarsborg virkið og fallbyssur á verði. Það sérmóta í rætur Håøya, hæstu eyjarinnar í Oslóarfirðinum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.4.2015 | 14:57
Kakóið í páskaegginu
Æ, nú skemmir maður kannski páskastemminguna. En maður kemst ekki hjá því að rifja upp hvaðan súkkulaðið kemur sem er í páskaegginu og hvernig það var framleitt.
Sá grein í The Guardian um slæmar aðstæður kakóbænda á Fílabeinsströndinni og Ghana en 60% af kakóbaunum heimsins koma þaðan. Þar er mikið byggt á vinnu barna, 1,5 milljón barna vinna við að koma vörunni á markað, annað orð yfir þessa vinnu er barnaþrælkun.
Dæmigerður kakóbóndi fær aðeins 6,6% af verði afurðarinnar í sinn hlut og vinnuaðstæður eru slæmar.
Verst er að heyra að ef aðeins 1% af 86 milljón dollara markaðskostnaði væri notað til að styrkja bændur þá myndu kjör þeirra bætast gífurlega.
Þrír risar eru á páskaeggjamarkaðnum íslenska, Nói-Síríus, Góa og Freyja. Aðeins eitt er með verkefni fyrir bændur en það er Nói-Síríus.Súkkulaði frá þeim er QPP framleitt. QPP (Quality partner program) gerir kakóræktendum kleift að rækta og framleiða kakóið á sjálfbæran og ábyrgan hátt.
Freyja og Góa gefa ekki upp neina vottun á sínum vefsíðum. Þau vinna ekki að samfélagslegri ábyrgð.
Vona að þið njótið páskanna en pælið í þessu og skrifið íslenskum páskaeggjaframleiðendum bréf og biðjið um stefnu þeirra um siðræna vottun í aðfangakeðjunni.
Ég naut betur páskaeggs #2 frá Nóa-Síríus þegar ég las um QPP verkefnið.
Kakóbaun sem súkkulaðið í páskaegginu er unnið úr.
Tenglar:
4.4.2015 | 15:06
Margnota burðapokar
Á göngu á föstudaginn langa rakst ég á þrjá fjúkandi burðapoka úr plasti. Skora á fólk að vera samfélagslega ábyrgt og virkja Plastpokalaus Laugardagur - Plastic Bag Free Saturdays átakið í dag.
Margnota burðapokar eru framtíðin.
Áætlað er að um 50 milljónir plastpoka falli til á ári hverju hér á landi. Það eru um 1.120 tonn af plasti. Langstærstur hluti þessara plastpoka fer í urðun með öðrum heimilisúrgangi en á urðunarstöðunum tekur niðurbrot pokanna nokkrar aldir, jafnvel þúsund ár.
Notkun einnota plastpoka veldur miklum umhverfisáhrifum því talsvert magn af plasti er hvorki endurunnið né fargað heldur berst til sjávar með regni, frárennsli og ám eða fýkur til hafs. Plastefni brotna þar niður í smærri einingar á mjög löngum tíma, en eyðast jafnvel aldrei að fullu. Plast safnast því upp í umhverfinu.
Plastið hefur mikil áhrif á allt lífríki því árlega drepst mikill fjöldi sjófugla og sjávarspendýra eftir að hafa étið plast, auk þess sem dýr geta flækst í plastinu og jafnvel kafnað. Þá geta ýmis mengandi efni loðað við plastagnirnar, s.s. þrávirk lífræn efni.
Einnota plastpoki á leið í sjóinn.
Vínbúðirnar eru framarlega í flokki. Hér er tlinefning til Nýsköpunarverðlauna, Margnota burðapokar.
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 15:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.12.2014 | 15:39
Holuhraun og Bárðarbunga
Eldgosið í Holuhrauni og jarðskjálftahrina í Bárðarbungu var ein af fréttum ársins. Stefnan er að heimsækja Holuhraun næsta sumar og ganga á Tungnafellsjökul ef mögulegt. Mikið af glæsilegum myndum voru teknar af gosinu í Holuhrauni og fóru um samfélagsmiðla um allan heim.
Leitarniðurstöður á Google sýna hvenær sjónarspilið stóð sem hæst. Mestur fjöldi var 17,6 milljónir en er tæplega 500 þúsund núna. Bárðarbunga byrjaði í 16.100, fór hæst í rúmlega 3 milljónir og er í kringum 600 þúsund um áramót. Eldgosið heldur hægt og hljóðlega áfram, aðeins brennisteinsdíoxíð (SO2) er til ama í hægviðri.
Leitarniðurstöður á Google. Jarðskjálftahrinan hófst 17. ágúst og fyrsta hraungosið í Holuhrauni 29.ágúst. Þann 13. október er hátindurinn en nokkur loftmengun í höfuðborginn á þessum tíma.
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 15:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.12.2014 | 13:28
Héðinshöfði og Tungulending
Héðinshöfði og Tungulending, 31. júlí.
Fyrirhugaðri ferð um Tunguheiði var frestað vegna úrhellis. Það rigndi svo hressilega við Fjöllin.
Við Tungulendingu er hægt að sjá Tjörneslögin og var það mikil upplifun, þó ekki hafi fundist loðfíll en mikið um skeljar. Athyglisvert verkefni sem grásleppuskúrinn er að fá, breyting í gistiheimili, hvað annað.
Síðan var gengið um Héðinshöfða og horft á hvalafriðunarskipin sigla með ferðamenn. Einnig skoðuð eyðibýli sem sjórinn er að ná. Hlúð að særðri kind sem flæktist í neti og rætt um lundaveiði í Lundey. Tekin fyrir nokkur stökk úr Njálu. Að lokum var minnisvarði um Einar Benediktsson, skáld og athafnamann heimsóttur en hann bjó með föður sínum á bænum Héðinshöfða í nokkur ár. Síðan var haldið til Húsavíkur og Gamli Baukur styrktur meðan fylgst var með hvalafriðunarbátum koma og leggja frá bryggjunni. Skemmtileg vísindaferð um Tjörnes.
Tungulending. Endurbygging í gangi. Mjög svalur staður.
Héðinshöfði og háflóð. Fínt fyrir "surfing". Brimbrettið gleymdist.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.12.2014 | 12:11
Inn yfir fjall: Fnjóskadalur Bárðardalur
Inn yfir fjall: Fnjóskadalur - Bárðardalur, 30. júlí
Gekk inn yfir fjall í dag. Frá Sörlastöðum í Fnjóskadal að Stóruvöllum í Bárðardal. 16 km ganga, 21.072 skref og 1.240 kkal brenndar eða 10 bananar. Gangan hófst í 250 m í 600 m og endað í 214 m. Vel vörðuð leið.
Bárðardalur er einhver lengsti byggði dalur á Íslandi. Hann er fremur mjór, með allbröttum, grónum, klettalausum hlíðum
Dætur Bárðardals við lykilvörðu á Vallnafjalli vestan megin í Bárðardal. Skjálfandafljót rennur eftir dalnum og Valley í Fljótinu. Hlíðskógar er bærinn.
Holuhraun
Héðan sést til Holuhrauns en það var göngumönnum algerlega óþekkt enda hálfur mánuður í að jarðskjálftar hæfust í Bárðarbungu og mánuður í eldgos í Holuhrauni.
Vallnafjall er slétt að ofan og greiðfært. Lá alfaraleið yfir það frá Stóru-Völlum í Bárðardal og að Sörlastöðum í Fnjóskadal. Var hún allmikið farin áður, hæð þar um 600 m y.s., og komið niður i Hellugnúpsskarð að norðan, allnokkru innan við Sörlastaði. Leið þessi er um 15 km milli bæja og ágætlega fær á hestum. (bls. 22, Landið þitt Ísland, U-Ö)
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (10.7.): 0
- Sl. sólarhring: 9
- Sl. viku: 243
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 204
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar