Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Íshellar og áin Volga í Kverkfjöllum

Eitt af undrum Kverkfjalla eru íshellar í Kverkjökli og áin Volga. Volga er ein af fyrstu kvíslum Jökulsár á Fjöllum, næst lengstu á landsins 206 km. En hvernig varð nafnið Volga til?

Sumarið 1963 fóru nokkrir menn í Jöklarannsóknarfélaginu í Kverkfjöll. Þeir hugðust kanna gróður og ganga á fjöll, en eins og oft vill verða á þessum slóðum tók veðrið af þeim völdin og varð þeim ekki annað til dundurs en að kanna íshella Kverkjökuls. Um hellisgöngin streymdi 13°C heit á og henni var gefið nafnið Volga. Aðal íshvelfing undirheimanna reyndist 15-20 metra há og 330 metra löng. Hún þrengdist inn á við og endaði háum fossi. Þar var skuggsýnt og mikið gufukóf. En Volguhellar eru að breytast. Volga stendur ekki lengur undir nafni og á meðan hún streymir ísköld viðheldur hún ekki hvelfingunum. Jökullinn skríður fram og við hellisopið hrynja ísflykki af og til. (bls. 276)

Á sumrin gætir ekki hitans í Volgu því leysingavatn gerir hana að ískaldri jökulá.

Við merktan göngustíg í átt að íshellinum eru skilti sem banna skoðunarferðir inn í íshellinn enda er þar slysahætta af völdum íshruns. Hópur af erlendum ferðamönnum fór samt inn í íshellinn og virti aðvaranir ekki að vettugi. Þegar við vorum búin að vera í nokkurn tíma að fræðast um íshellinn og samspil elds og ísa þá komu tveir erlendir ferða menn út úr hellinum. Þeir hafa eflaust farið lengra inn í hann en hópurinn. Þeim til happs var að vorið og sumarið var kalt og íshellinn stöðugri en í meðalári.

Fréttamaðurinn Ómar Ragnarsson er mjög hrifinn af Kverkfjöllum og hefur kynnt íshellin, Volgu og Kverkfjöll fyrir Íslendingum. Hann hefur lent í háskalegum atburðum og náð á kvikmynd. Í ljóðinu Kóróna landsins eftir Ómar er þessi fallega lína um Volgu:  Í Kverkfjöllum glóðvolg á íshellinn þvær.

íshellirinn í Kverkjökli

Íshellirinn í Kverkjökli þann 18. júlí 2015. Hann má muna fífil sinn fegurri. En hiti frá Volgu hefur minnkað og framskrið Kverkjökuls hefur dregið úr tignarleik hellisins.

Heimildir:
Perlur í náttúru Íslands, Guðmundur Páll Ólafsson, 5. prentun 2005.


Kverkfjöll - Hveradalir

Kverkfjöll eru önnur hæsta eldstöð landsins, næst á eftir Öræfajökli. Kverkfjöll rísa meira en 1.000 metra yfir umhverfi sitt og eru að hluta til hulin ís. Hæst rís Skarphéðinstindur á austanverðu fjallinu (1.933 m). Skipta má Kverkfjöllum í eystri og vestari hluta um Kverk sem er mikið skarð í fjöllin norðanverð með geysiháum þverhníptum hamraveggjum. Út um Kverk skríður Kverkjökull til norðvesturs niður undir hásléttuna í um 950 metra hæð.

En markmiðið með gönguferðinni var að heimsækja Hveradal í 1.600-1.700 m hæð með miklum gufu- og leirhverum, um 3 km langur og allt að 1 km breiður. Þetta er eitt öflugasta háhitasvæði landsins. Bergið er sundursoðið af jarðhita.

Lagt var frá Sigurðarskála (840 m) rétt eftir dagrenningu og íshellinn skoðaður úr fjarlægð. Jarðhiti er undir Kverkjökli, og undan honum fellur stærsti hveralækur landsins, sem bræðir ísgöng fyrir farveginn. Erlendir ferðamenn fóru inn í hellinn og virtu aðvaranir að vettugi.

Síðan voru mannbroddar settir undir fætur og lagt af stað, úr 950 m hæð. Gengið yfir Kverkjökul og snæviþakta Löngufönn. Á leiðinni var fallegt sprungusvæði og drýli röðuð sér skipulega upp. Spáin var óhagstæð. Kuldapollur frá heimskautinu skaust inn á landið og vetur konungur var að ganga í garð á hálendinu um miðjan júlí.

Gönguhópurinn fór í rúmlega 1.500 metra hæð en sneri við vegna snjóa. Lítið að sjá og fylgja ráðum háfjallagöngumannsins Ed Viesturs, að snúa við áður en það er orðið og seint. En skjótt skipast veður í lofti í mikilli hæð.

En tilhugsunin um Hveradali efri og neðri er stórbrotin og alltaf mögulegt að reyna aftur. Félag íslenskra fjallalækna, FÍFL fóru í ferð á síðasta ári og tóku frábærar myndir, þá lék veðrið við félaga.

Kverkjökull- ganga

Gengið á mannbroddum yfir Kverkjökul en undir honum er jarðhiti.

Göngukort

Mynd sem skýrir ferðina en hún er tekin af skilti á Sigurðarskála. Lagt af stað frá stað vinstra megin við Volgu og sést hann ekki.

Dagsetning: 18. júlí 2015
Erfiðleikastig: 4 skór
Þátttakendur: Ferðafélag Íslands, 20 manns

Heimildir
Jöklar á Íslandi, Helgi Björnsson, 2009. Bls. 343.
Vatnajokulsthjodgardur.is


ísöldin og hornfirskir jöklar

Nýlega var opnuð ný gönguleið um Breiðarármörk en hún er fyrsti hluti af Jöklastíg, frá Öræfum og yfir í Lón. Fyrsti hluti er um fimmtán kílómetra og tengir saman þrjú jökullón, Jökulsárlón, Breiðárlón og Fjallsárlón.

Þetta er falleg gönguleið fyrir augað og á leiðinni eru fræðsluskilti með ýmiss konar gagnlegum, fróðlegum og skemmtilegum upplýsingum meðal annars um gróðurfar, fuglalíf og sambýli manns og jökuls.

Þá dettur manni í hug fyrstu rannsóknir á ísaldarkenningunni en hún kom fyrst fram 1815. Nokkrir leiðangar vor farnir til Íslands til að rannsaka náttúruna. Í bókinni ÍSLANDSFERÐ SUMARIÐ 1857, úr minnisblöðum og bréfum frá Nils O:son Gadde, segir frá fyrstu rannsóknarferð Svía undir stjórn Otto Torell. Aðalviðfangsefni var áhrif ísaldarjökla á myndun landsins

ice-age-cover"Heiðurinn af því að leiða kenningar um ísöldina til sigurs í Evrópu og brjóta niður trúna á syndaflóðið og öll afbrigði hennar, á Svíinn Otto Torell, sem með reynslunni úr ferðum sínum á sjötta og sjöunda tug nítjándu aldar á Íslandi, Grænlandi og Spitsbergen, sannfærðist og sannaði að ekki einungis okkar land, heldur líka Norður-Þýskaland, hafi einhvertímann verið þakið jökli.“   - 

Svo skrifar Hans W:son Ahlmann, „Pa skidor och till hast i Vatnajokulls rike“

Svo segir í bókinni: 

Úr skýrslu Torrels  Svínafell við Öræfajökul þann 5. Ágúst

Heinabergsjökull rennur saman við Skálafellsjökul og snertir hérumbil annan jökul austar. Framan jökulsins var bergið núið og rákað með álagshliðina að jöklinum, en stefna rákanna kom ekki heim við jökulinn eins og hann er nú, heldur við það sem verið hefði ef jökullinn hefði verið stærri og runnið saman við eystri jökulinn. Ruðningur á ísnum var í framhaldi af Hafrafelli sem stendur á milli Heinabergs- og Skálafellsjökuls. Er ég fór upp með Hafrafelli heinabergsmeginn fann ég ekki rákir við jökulinn, en greinilegar og vel afmarkaðar rákir úti í stóru gili sem náði frá hliðarruðningi jökulsins skáhallt gegnum neðri hluta bergsins. Þegar ég kom aftur fór ég hinsvegar meðfram þeirri hlið hins jökulsins (Skálafells) sem lá að fjallshlíðinni og fann þar víða hinar fallegustu rákir, ýmist fast við ísinn eða við jökulruðninginn. Þó undarlegt megi virðast mynduðust rákir á kletti einum horn hver við aðra, en í því er einmitt fólgin röksemd Waltershausens geng því að hinar íslensku rákir haf myndast af jöklum.

Sporðurðirnar eru yfirleitt úr smáhnullungum, möl og sandi og gegnbleyttar af jökulánni, en jarðarurðingar eru aftur á móti miklu meira úr stórgrýti og björgum."

Svo er merkilegt hér:

Milli Heinabergs- og Breiðamerkjurjökuls fór ég upp þrjá fjalldali sem lokuðust í botninn af jöklum uppi í fjöllunum sem ganga út úr Klofajökli. Þeir voru ákaflega forvitnilegir, þar sem greinilegt var að þeir voru botnar gamalla jökla. Þvert yfir dalbotninn fjalla á milli lágu nunir bergstallar með rákum sem lágu inn dalina, samsíða stefnu þeirra. Sumstaðar hafði núningurinn grafið skálar í bergið í dölunum.“ (bls. 160)

Einnig framkvæmdu leiðangursmenn skriðhraðamælingar á Svínafellsjökli í Öræfum, þær fyrstu hér á landi.

Hér eru líklega Birnudalur, Kálfafellsdalur og Hvanndalur sem Torell hefur heimsótt. Það væri gaman að finna bergstallana með rákum og skálar í berginu. 

Því má segja að hornfirskir jöklar hafi átt þátt í að staðfesta ísaldarkenninguna. Vonandi verður minnst á þetta á upplýsingaskiltunum. Gott innlegg fyrir menningartengda ferðaþjónustu.


Græn skref í ríkisrekstri

Þetta eru fimm græn skref fyrir okkur, en umhverfisvæn skref fyrir mannkynið....

Það var góður dagur í vinnunni í dag. Við hjá ÁTVR fengum viðurkenningu frá umhverfis- og auðlindaráðherra fyrir að ná 5 grænum skrefum og tók það stuttum tíma.

Græn skref eru leið fyrir opinbera aðila til að vinna markvisst að umhverfismálum eftir skýrum gátlistum og fá viðurkenningu eftir hvert skref. Við tókum þetta í einu stökki enda búin að vinna heimavinnuna og fyrirmynd í samfélagslegri ábyrgð.
www.graenskref.is

Viðurkenning - 5 græn skref

Grænu skrefin 5 tekin í einu grænu stökki. Enda búið að vinna að samfélagslegri ábyrgð frá 2001.

Opinber fyrirtæki jafnt sem sveitarfélög og almenn fyrirtæki geta ekki annað en hagnast á því að innleiða umhverfisstjórnun inn í ferla fyrirtækisins. Sóun minnkar, þekking á sjálfbærni eykst og ákvarðanataka verður markvissari.  Því eru Græn skref í ríkisrekstri góður kostur.

Af hverju Græn skref?

Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru staðreynd. Styrkur koldíoxíðs í andrúmsloftinu er nú 404 ppm en upphafi iðnbyltingar, en þá er hann talinn hafa verið um 280 ppm.
Til að eðlilegt líf þrífist á jörðinni er talið að styrkur CO2 þurfi að vera 350 ppm. Því þurfum við að taka okkur á.

Hitastig mun hækka um 2 til 4 gráður á Celsíus á næstu 100 árum
Loftslagsbreytingar hafa áhrif á náttúrulega ferla á jörðinni og því ber öllum skylda að bregðast gegn þessum breytingum.

Íslendingar eiga eitt hæsta sótspor í heimi. Íslendingar þurfa að gera ráðstafanir (handprint).
Endurvinnsla og gróðursetning trjáa er eitt svar. Einnig endurheimt votlendis og þróa nýja tækni.
Hætta að brenna jarðefnaeldsneyti í samgöngum og rafvæða bílaflotann.

Einnig markvisst átak í notkun á plasti og plastpokum. Plastið eyðist ekki upp og höfin eru að fyllast af plastögnum. Ólíkt lífrænum efnum „hverfur" plast aldrei í náttúrunni heldur safnast upp í umhverfinu, sérstaklega í höfunum.

Draga þarf losun gróðurhúsalofttegunda um 40% frá því sem losunin var árið 1990 ef ekki, þá fara hollensku leiðina og kæra stjórnvöld. En þeim var skipað að draga úr losun með dómi.

Óstöðugleiki í heiminum vex. Við erum að falla á tíma.

Jörðin hitnar, jöklarnir hverfa sjávarborð hækkar og höfin súrna.


Íslandsferð sumarið 1857

Fyrir nokkru áskotnaðist mér bók ÍSLANDSFERÐ SUMARIÐ 1857, úr minnisblöðum og bréfum frá Nils O:son Gadde (1834-1904).

Þetta var fyrsti sænski vísindaleiðangurinn til Íslands undir stjórn Otto Torell (1828-1900), en ferðafélagi hans var Nils 0:son Gadde sem skrifaði hjá sér lýsingar á ferðinni og því sem fyrir augu bar. Tveir aðrir Svíar voru með í leiðangrinum, Cato og Andres.

nilsosongadde_islandsferdsumarid1857

Leiðangurinn hófst í Þistilfirði og endaði á Akureyri með viðkomu á Mývatni. Þeir unnu að rannsóknum á jöklum í Hornafirði og mældu skriðhraða Svínafellsjökuls í Öræfum.

En Skjaldbreið er mér ofarlega í huga á Jónsmessu eftir Jónsmessugöngu með Ferðafélaginu um síðustu helgi. Þegar þeir félagar koma að Þingvöllum í lok ágúst og lýsa furðum landsvæðisins og þegar þeir sjá Skjaldbreið skrifar Gadde:

Þingvallasvæðið myndast af illræmdum hraunstraumi sem í annan endann teygir sig til upphafs síns, hinnar snævi þöktu hraundyngju Skjaldbreiðar – heiti fjallsins er samsett úr tveim orðum sem tákna skjöldur og breiður – en sökkvir hinum í Þingvallarvatn.  Á þessum hraunfláka eru hinar nafnfrægu gjár, Almannagjá og Hrafnagjá, ásamt fleiri gjám smærri.  Í nokkrum þeirra getur maður séð niður 100-200 fet: allt sem þar er að sjá er gert úr miklum hraunbjörgum.  Einnig finnast stórir hellar á jörðinni, sennilega þannig til orðnir að hraunið hefur haldið áfram að renna undir yfirborðinu eftir að  það var storknað„   

"Í hinu mikla dalflæmi blasir við jafnrunnið hraun með djúpum gjám, báðum megin þess fjallgarðarnir sem afmarka það og fyrir botninum Skjaldbreið með sinni breiðu bungu."                                    (bls. 113, Íslandsferð sumarið 1857)

Hér er Gadde eflaust undir áhrifum frá Jónasi Hallgrímssyni, náttúrufræðingi og skáldi sem ferðaðist um Ísland sumarið 1841. Á ferð sinni um Þingvallasvæðið villtist hann frá ferðafélögum sínum og orti kvæðið Fjallið Skjaldbreiður sem birtist fyrst í 8. árgangi Fjölnis árið 1845. Í ljóðinu bregður skáldið upp skemmtilegri mynd af sögu svæðisins, tilurð Skjaldbreiðar og þátt þess í myndun Þingvallavatns. Hér er fyrsta erindið:

Fanna skautar faldi háum,
fjallið, allra hæða val;
hrauna veitir bárum bláum
breiðan fram um heiðardal.
Löngu hefur Logi reiður
lokið steypu þessa við.
Ógna-skjöldur bungubreiður
ber með sóma rjettnefnið.

En Jónas vissi heldur ekki um landrekskenninguna né ísaldarkenninguna en fyrstu hugmyndir um ísöld komu fram um 1815 og urðu ekki viðurkenndar fyrr en um miðja nítjándu öldina. 

Kvæðið lifir, þótt kenningin um myndun þess sé í einhverjum atriðum fallin. En rómantíkin í kringum það hefur haldið ímynd Skjaldbreiðar og Þingvalla á lofti.

Svo heldur lífsnautnamaðurinn Gadde áfram nokkur síðar:

Almannagjá vestan hraunstraumsins úr Skjaldbreið og  Hrafnagjá austan hans urðu til við það að hraunflákinn, sem er jarðmíla á breidd, sökk. Vesturveggur Almannagjár og austurveggur Hrafnagjár mynda standberg sem gagnstæðir veggir gjánna sprungu frá við sig hraunsins á milli þeirra.“

Þarna er ekki komin þekking á landrekskenningunni en ummerki hennar eru augljós á Þingvöllum en 1915 setti þýski jarðeðlisfræðingurinn Alfred Wegener (1880-1930) kenninguna fram í bókinni Myndun meginlanda og úthafa árið 1915.   

Gadde er eins og flestir ferðamenn bergnuminn af náttúrufegurð landsins og bókstaflega á kafi í ýmsum undrum: eldfjöllum, goshverum, fossum og sólarlagi.

Það er gaman að lesa 158 ára frásögn, en þekking og skilningur á landmótun hefur aukist en upplifunin er ávallt sú sama

 


Skjaldbreið (1.060 m)

Hvernig er best að halda upp á 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna, 19 júní hátíðlegan, sumarsólstöður og jónsmessu? Jú heimsækja Skjaldbreið í miðnæturgöngu en samkvæmt íslenzkri þjóðsögu er sagt að Okið og Skjaldbreið séu brjóst ungrar risameyjar, sem varð að steini, þegar ættir trölla urðu aldauða í landinu.

Hópurinn var fjölmennur, um 100 manns og 2/3 hlutar konur. Svona á að halda upp á 19. júní!

Ég gekk á Skjaldbreið haustið 1981 á fjallgöngudegi í Menntaskólanum á Laugarvatni. Var búinn að vera veikur um haustið og þreklaus. Man hvað stallarnir voru margir á uppleiðinni, hélt alltaf að toppnum væri náð en þá tók næsti við. Margir nemendur sneru við en Haraldur Matthíasson, þjóðsagnarpersóna og fv. kennari við ML fór létt með að toppa.

Ég lærði helling í þessari ferð. Lærði aðeins að lesa landið. Ógnarskjöldurinn átti oft eftir að koma fyrir í náminu og jók gangan skilning á jarðfræði. Einnig ljóðin sem tengjast dyngjunni. Örnefni í nágrenni, Okið, Hlöðufell,Þórisjökull, Botnssúlur, Hvalfell, Hagavatn og fleiri festust í minni. Man einnig að línumenn voru að tengja raflínu úr Hrauneyjafossvirkjun yfir í Hvalfjörð. Sá þá hanga í möstrunum og „sprengja saman“ vír. Ógleymanlegur öræfadagur.

Dyngjan Skjaldbreið varð til í rólegu flæðigosi fyrir rúmlega 9000 árum, skömmu eftir að jökull hvarf úr Þingvalladældinni. Þetta sýnir C14-aldursgreining á koluðum gróðri í jarðvegssniði undir Miðfellshrauni við útfall Sogsins. Rúmmál fjallsins og hraunbreiðunnar í kring er um 17 km3, en talið er að fjallið allt hafi myndast í einu gosi. Í dyngjugosum kemur upp fremur lítið hraunmagn á tímaeiningu, aðeins um 5 til 10 rúmmetrar á sekúndu, svo það hefur tekið 50 til 100 ár að mynda þessa tignarlegu dyngju.

Í hvirfli Skjaldbreiðar er gígur, 300 metrar í þvermál og 50 metra djúpur. Hliðarhalli fjallsins er dæmigerður fyrir dyngjur, 7 gráður þar sem hann er mestur.

Vatnið í Þingvallavatni er að mestu komið frá Langjökli. Áður en Skjaldbreið myndaðist rann jökulvatn óhindrað út í vatnið, en þegar fjallið myndaðist lokaði hraunið vatnið af og hindraði streymi jökulvatns ofanjarðar. Nú rennur jökulvatnið neðanjarðar, síast í Skjaldbreiðarhrauni og stígur upp blátært um sprungur í Vellankötlu úr norðanverðu Þingvallavatni. Vatnið er um 20 til 30 ár á leið frá Langjökli í gegnum jarðlögin og inn í Þingvallavatn.

Skjaldbreið af línuvegi

Skjaldbreið í öllu sínu veldi hulin hvítu skýi og sjást efstu 300 metrarnir ekki. Umkringt í norðri tröllslegum raflínum frá Hrauneyjafossi og Sultartanga og liggja niður í Hvalfjörð.

Lagt var af stað í ferðina frá Mörkinni kl. 19.00 og komið við á Þingvöllum. Þar var farið yfir konur og áhrif Skjaldbreiðs á líf Jónasar Hallgrímssonar, náttúrufræðings og skálds. Síðan var keyrð Uxahryggjaleið og beygt inn Skjaldbreiðarveg, F338, línuveg að Haukadalsheiði og keyrt eins langt og rútur komust en fínn sandur og snjóflákar stoppuðu göngumenn við Tröllsháls. Yfirleitt er lagt í Skjaldbreið að norðan frá gíghólnum Hrauk sem er í 605 metra hæð. 

Snjóflákar neðst en hjarn þegar ofar kom og varð færð erfið í þokunni og vindinum. Komið að vörðu við gíginn um miðnætti. Ekki létti til. Þoka, kuldi og vindur skemmdi jónsmessustemminguna. Ekki tókst að baða sig í miðnætursólinni með stórfenglegt útsýni í allar áttir. Erfið færð síðustu 300 hæðarmetrana og var ég örþreyttur en gangan niður var létt.

Miðnætursólsetur

 

 

 

Gengið í snjófláka. Það sér móta fyrir Baulu í sólroðanum. Fanntófell, Oköxl og Kaldidalur handan.

Dagsetning: 19. júní 2015 
Hæð Skjaldbreiðar: 1.060 m 
GPS hnit varða við gíg: (N:64.24.495 - W:20.45.300)
Hæð í göngubyrjun:  459 metrar (N:64.26.433 - W:20.50.339) hjá Tröllháls.
Hækkun: 600 metrar         
Uppgöngutími: 170 mín (21:10 - 00:06) – 5,6 km ganga.
Heildargöngutími: 265 mínútur (21:10 - 01:35)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd:  11,2 km 
Skref: 16.000
Brennsla: 2.326 kaloríur upp og svipað niður.
Veður kl. 24 Þingvellir: Alskýjað, SV 1 m/s,  7,5 °C. Raki 93%. 
Þátttakendur: Ferðafélag Íslands, 100 manns með fararstjórum, 2/3 hlutar konur.
GSM samband:  Ágætt í hlíðum en ekkert á toppi.

Gönguleiðalýsing: Snjóflákar neðst en hjarn þegar ofar kom og varð færð erfið í þokunni og vindinum. Annars sandborið hraun og misháir hraunrimar.

Þótti mér betur farið en heima setið. Lýkur þar að segja frá jónsmessuför á Skjaldbreið.

Heimildir
Ferðafélag Íslands, göngulýsing
Gönguleið á 151 tind, bls. 238-239.
Perlur Íslands,  bls. 398-399.


Sláttur og spretta sumarið 2015

Enginn fyrsti sláttur í dag. Fyrir nákvæmlega ári síðan sló ég slátt #2 í garðinum. Svona er vorið búið að vera kalt.
Grenitrén fengu að kenna á djúpum lægðum í vetur. Halla líflaus til vesturs. Loftslagsbreytingar. Kaldur sjór.

Grassprettan í garðinumFlekkótt garðflötin eftir kaldan maí. Líflaus grenitrén snúa undan vindi.

Hér er yfirlit yfir slátt í Álfaheiði 11 fyrstu ár aldarinnar.  http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1168563/

 

 

 

 

 


Þórnýjartindur (648 m)

Sumardagurinn fyrsti

Samkvæmt gamalli þjóðtrú boðar það gott sumar eftir kaldan vetur ef frýs nóttina milli veturs og sumars.

Ég trúi því. Eftir kaldan og stormasaman vetur, þá setti ég út fötu við síðasta vetrardag en ekki fraus í henni yfir nóttina. Þá var aðeins eitt ráð til að bjarga sumrinu sunnanlands, en það var að fara að ráðum húsfreyjunnar Þórnýjar frá Eilífsdal.

Ég ákvað því að bjarga sumrinu, sýna samfélagslega ábyrgð og fylgja þjóðsögunni um Þórnýju. Ganga á Þórnýjartind (648 m) í björtu en köldu veðri.

Hún hafði sett út skel með vatni að kvöldi síðasta vetrardags. Til að hjálpa forlögunum ögn gekk húsfreyjan með skelina til fjalls svo frekar frysi. En undir morgun stóð hún á Þórnýjartindi og ekki fraus enn, svo þá var ekki um margt að gera!

Fleygði Þórný sér fram af fjallinu í fullkominni örvæntingu um gott tíðarfar.

Ekki var ég eins „desperate“ og Þórný en þegar ég keyrði inn Eilífsdal sá ég að það hafði frosið þunnt skæni á polli í holóttum malarveginum.   Sumrinu var bjargað, allavega bakvið Esjuna.

Þórnýjartindur er ekki mjög árennilegur við fyrstu sýn sökum þess hve brattur hann er, en þegar á hólminn er komið er ekki allt sem sýnist og leiðin nokkuð greið þó brött sé.

Nokkur snjór var ofarlega fyrir ofan svokallaða Múlarönd og snjóalög ótrygg, því ákvað göngumaður að snúa við í tæka tíð og komast örugglega heim enda búið að vera nóg að gera hjá björgunarsveitum í vetur. Sumrinu hafði líka verið bjargað.                  

Ég tók því stefnuna inn stuttan Eilífsdal og horfði inn i eilífðina.

Gleðilegt sumar

Þórnýjartindur og skæni

Þunnt skæni á pollinum, hrikalegur, snjóþungur Þórnýjartindur handan

Dagsetning: 23. apríl 2015
GPS hnit - Google: (N:64.294086 - W:21.661850)
Veður kl.14 Reykjavík: Heiðskýrt, 4 m/s, 2,5 °C, NNV, raki 41%,skyggni >70 km

Heimildir:
Toppatrítl
Morgunblaðið
Staðsetning


Maríuhöfn - Búðasandur

Þegar keyrt er inn langan Hvalfjörðinn gengur nes út í fjörðinn. Nefnist það Hálsnes í Kjósinni. Á nesinu er merkur staður Maríuhöfn á Búðasandi.  Gengin var hringur í eftir Búðasandi og fjörunni en þar eru fallegir steinar og mikið fuglalíf.

Maríuhöfn mun hafa verið mesti kaupstaður landsins á miðöldum, fram á 15. öld. Rústir staðarins eru ofan við Búðasand og er Maríuhöfn við suðausturenda sandsins. Skip sem þangað komu voru dregin inn á poll inn af sandinum. Þarna er talið að haffær skip hafi verið smíðuð á landnámsöld, enda viður tiltækur. Árið 1402 kom skip (Hvala-) Einars Herjólfssonar í Maríuhöfn og flutti með sér svartadauða.

Maríuhöfn

Staðsetning náttúrulegrar Maríuhafnar var ákjósanleg til að koma vörum beint á markað á Þingvöllum.

Við norðanverðan Búðasand sáust tóftir Hálsbúða greinilega. Þær hafa legið nokkuð þétt saman í einni samfellu. Byggður hefur verið sumarbústaður í nyrsta hluta tóftanna og trjám plantað utan og ofan í þær. Búðirnar virðast hafa verið margar, en erfitt er að greina fjölda þeirra af nákvæmni. Veggir standa víða grónir og dyr hafa gjarnan vísað að hafi. 

Hálsbúðir

Sunnarlega í röðinni hefur farið fram fornleifauppgröftur. Er hann dæmigerður fyrir slíka framkvæmd hér á landi; allt skilið eftir ófrágengið og öðrum einskis nýt. Auðvitað á ekki að leifa fornleifauppgröft nema gera ráð fyrir frágangi svæðisins að honum loknum, þ.e. með viðhlítandi minjaskiljum, merkingum og upplýsingaskiltum. Sumir segja, grafendum til vorkunnar, að uppgröfturinn hafi verið stöðvaður í miðjum klíðum af ótta við þarna kynnu að hafa verið grafin lík frá tímum svartadauða.

Stóriðjuver góndu á okkur allan tíman og það var táknrænt að sjá merki samtakanna Sólar í Hvalfirði þegar komið var upp úr fjörunni í hringferðinni.

Dagsetning: 15. apríl 2015
Hæð göngu: Lægst: 0 m, fjaran og hæst: 20 m.
GPS hnit - Google: (N:64.345221 – W:21.666158)
Heildargöngutími: 120 mínútur (18:50 - 20:50)
Erfiðleikastig: 1 skór
Vegalengd: 5.5 km
Skref: 7.250
Orka: 400 kkal.
Veður kl. 20: Skýjað, 2 m/s, 6,0 °C, suð-suð-austan, raki 75%,skyggni 50 km.
Þátttakendur: Útivistarræktin, 14 manns.
GSM samband:  Gott 4G samband.

Gönguleiðalýsing: Gengið frá Hálsabúðum eftir Búðasandi að Maríuhöfn og eftir léttri fjörunni framhjá Hlein og komið upp hjá Stömpum.

Heimildir
Ferlir: Maríuhöfn-Búðasandur-Steðji
Kjósin: Maríuhöfn
Wikipedia: Maríuhöfn


Holuhraun og Bárðarbunga

Eldgosið í Holuhrauni og jarðskjálftahrina í Bárðarbungu var ein af fréttum ársins. Stefnan er að heimsækja Holuhraun næsta sumar og ganga á Tungnafellsjökul ef mögulegt. Mikið af glæsilegum myndum voru teknar af gosinu í Holuhrauni og fóru um samfélagsmiðla um allan heim.

Leitarniðurstöður á Google sýna hvenær sjónarspilið stóð sem hæst. Mestur fjöldi var 17,6 milljónir en er tæplega 500 þúsund núna. Bárðarbunga byrjaði í 16.100, fór hæst í rúmlega 3 milljónir og er í kringum 600 þúsund um áramót. Eldgosið heldur hægt og hljóðlega áfram, aðeins brennisteinsdíoxíð (SO2) er til ama í hægviðri.

Google-leitarniðurstöður 2014

Leitarniðurstöður á Google. Jarðskjálftahrinan hófst 17. ágúst og fyrsta hraungosið í Holuhrauni 29.ágúst. Þann 13. október er hátindurinn en nokkur loftmengun í höfuðborginn á þessum tíma.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 22
  • Sl. sólarhring: 26
  • Sl. viku: 109
  • Frá upphafi: 235913

Annað

  • Innlit í dag: 13
  • Innlit sl. viku: 83
  • Gestir í dag: 13
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband