Færsluflokkur: Vísindi og fræði
31.12.2014 | 13:28
Héðinshöfði og Tungulending
Héðinshöfði og Tungulending, 31. júlí.
Fyrirhugaðri ferð um Tunguheiði var frestað vegna úrhellis. Það rigndi svo hressilega við Fjöllin.
Við Tungulendingu er hægt að sjá Tjörneslögin og var það mikil upplifun, þó ekki hafi fundist loðfíll en mikið um skeljar. Athyglisvert verkefni sem grásleppuskúrinn er að fá, breyting í gistiheimili, hvað annað.
Síðan var gengið um Héðinshöfða og horft á hvalafriðunarskipin sigla með ferðamenn. Einnig skoðuð eyðibýli sem sjórinn er að ná. Hlúð að særðri kind sem flæktist í neti og rætt um lundaveiði í Lundey. Tekin fyrir nokkur stökk úr Njálu. Að lokum var minnisvarði um Einar Benediktsson, skáld og athafnamann heimsóttur en hann bjó með föður sínum á bænum Héðinshöfða í nokkur ár. Síðan var haldið til Húsavíkur og Gamli Baukur styrktur meðan fylgst var með hvalafriðunarbátum koma og leggja frá bryggjunni. Skemmtileg vísindaferð um Tjörnes.
Tungulending. Endurbygging í gangi. Mjög svalur staður.
Héðinshöfði og háflóð. Fínt fyrir "surfing". Brimbrettið gleymdist.
31.12.2014 | 12:11
Inn yfir fjall: Fnjóskadalur Bárðardalur
Inn yfir fjall: Fnjóskadalur - Bárðardalur, 30. júlí
Gekk inn yfir fjall í dag. Frá Sörlastöðum í Fnjóskadal að Stóruvöllum í Bárðardal. 16 km ganga, 21.072 skref og 1.240 kkal brenndar eða 10 bananar. Gangan hófst í 250 m í 600 m og endað í 214 m. Vel vörðuð leið.
Bárðardalur er einhver lengsti byggði dalur á Íslandi. Hann er fremur mjór, með allbröttum, grónum, klettalausum hlíðum
Dætur Bárðardals við lykilvörðu á Vallnafjalli vestan megin í Bárðardal. Skjálfandafljót rennur eftir dalnum og Valley í Fljótinu. Hlíðskógar er bærinn.
Holuhraun
Héðan sést til Holuhrauns en það var göngumönnum algerlega óþekkt enda hálfur mánuður í að jarðskjálftar hæfust í Bárðarbungu og mánuður í eldgos í Holuhrauni.
Vallnafjall er slétt að ofan og greiðfært. Lá alfaraleið yfir það frá Stóru-Völlum í Bárðardal og að Sörlastöðum í Fnjóskadal. Var hún allmikið farin áður, hæð þar um 600 m y.s., og komið niður i Hellugnúpsskarð að norðan, allnokkru innan við Sörlastaði. Leið þessi er um 15 km milli bæja og ágætlega fær á hestum. (bls. 22, Landið þitt Ísland, U-Ö)
28.8.2014 | 16:48
Á Fjórðungsöldu
Það eru miklir atburðir að gerast í Bárðarbungu, Dyngjujökli og Öskju um þessar mundir. Ferlið hófst 16. ágúst og hefur heimurinn fylgst með óvæntri framvindu og ýmsum uppákomum. Berggangurinn eða kvikugangurinn er að nálgast Öskju á sínum 4 km hraða og vatnsstaða Grímsvatna hækkar.
Jarðskjálftar verða öflugri og það sér á Holuhrauni og sigkatlar hafa myndast suðaustan við Bárðarbungu. Stórbrotið lærdómsferli fyrir jarðfræðinga.
Ég fór norður Kjöl og suður Sprengisand fyrir átta árum og þar var stórbrotin sýn alla leið. Veður var dásamlegt á Sprengisandi. Á Fjórðungsöldu sá maður umtöluðustu staði á Íslandi í dag, Bárðarbungu og Dyngjujökul. Ekki grunaði mig að rúmum átta árum síðar myndi Bárðarbunga láta í sér heyra. Kannski verður svæðið á myndunum umflotið jökulvatni? Kannski verður komið nýtt fell? Kannski gýs sprengigosi í Öskju og Víti hverfur? Kannski gerist ekkert, myndast aðeins nýr berggangur neðanjarðar?
Það var lítil umferð yfir hálendið, ég grét það ekki en fannst að fleiri hefðu mátt njóta stundarinnar. Skráði þetta á blað um ferðina:
23. júlí 2006
Frábært ferðaveður, heiðskírt og 15 gráðu hiti.
Keyrðum 50 km frá Kiðagili í Bárðardal að Kiðagili á Sprengisandi, þá hófst Sprengisandur. Komum við hjá Aldeyjarfossi.
Á Fjórðungsöldu var magnað útsýni. Hofsjökull, Tungnafellsjökull, Bárðarbunga og Trölladyngja.
Fórum yfir tvö vöð hjá Tungnafellsjökli og eitt við Höttóttardyngju.
Keyrðum 204 km á möl og 160 km á malbiki í bæinn og enduðum ferðina á Sprengisandi við Reykjanesbraut.
Mættum 19 bílum á norðurleið og 2 hjólreiðamönnum. Aðeins fleiri á suðurleið þar af einn hjólreiðamaður.
#Hagakvísl, #Nýjadalsá, #Skrokkalda og #Svartá.
Hef trú á að það eigi fleiri eftir að ferðast yfir Sprengisand á komandi árum eftir þetta ævintýr.
Tungnafellsjökull og Bárðarbunga frá Fjórðungsöldu. Kistufell og Dyngjujökull handan.
1.5.2014 | 12:52
Kóngakrabbahátíð
Þær eru válegar fréttirnar um fyrsta kóngakrabbann sem veiddist á Breiðamerkurdýpi. Vonandi er krabbinn einfari en hann hefur slæm áhrif á lífríkið nái hann fótfestu.
Humarstofninn gæti tapað. Jafnvel hrunið.
Þessi heimsókn á ekki að koma á óvart. Mannfólkið mengar umhverfið. Íslendingar eiga stærsta kolefnisfótsporið. Loftslagsbreytingar, eru metnar sem ein mesta samfélagsógn 21. aldar.
Höfin eru að hitna og súrna. Heimshöfin taka við um fjórðungi allrar losunar manna á koltvísýring með þeim afleiðingum að þau súrna og áhyggjur fara vaxandi af því að hafið sé ferli sem muni leiða til alvarlegra og óafturkræfra áhrifa á vistkerfi og fæðukeðju heimshafanna, allt frá svifdýrum til fisks.
Við skiptum ekki um kennitölu á sjónum.
Verður í framtíðinni haldin kóngakrabbahátíð á Hornafirði í stað humarhátíðar?

Fyrsti kóngakrabbinn sem veiðist í íslenskri lögsögu. Áhöfnin á Sigurði Ólafssyni veiddi krabbann og myndin er fengin af facebook-síðu sjómanna.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 13:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.12.2013 | 17:10
Sjálfbærni og heilsufarsmælingar

Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.12.2013 | 21:17
ISO 27001 öryggisvottun
Eftirlit á Íslandi er í rúst. Nærtækasta dæmið er hrunið, en þá brugðust eftirlitsstofnanir.
Öflugur miðill ætti nú að kanna hve mörg af 100 stærstu fyrirtækjum Íslands hafa öryggisstefnu og fylgja henni eftir með mælingum. Einnig athyga hvort áhættumat hafi verið framkvæmt, námskeið í öryggisvitnd og þjálfun starfsmanna.
Á Íslandi eru 20 fyrirtæki með ISO27001 öryggisvottun. En öll fyrirtæki í upplýsingatækni eiga að vera með þá vottun.
![]() |
Viðurkenna skelfileg mistök |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt 3.12.2013 kl. 08:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.10.2013 | 22:15
Fræðst um Hengilssvæðið
Það er ekki oft sem fjallganga hefst í hæsta punkti. Það blés köldum norðan vindi þegar komið var að bílastæði við Himnaríki á Skarðsmýrarfjalli en göngumenn vissu að ástandi ætti bara eftir að batna.
Einar Gunnlaugsson leiðsögumaður með 30 ára reynslu af svæðinu og Rannveig Magnúsdóttir farastjóri frá Landvernd stýrðu hópnum. Einar gjörþekkti svæðið og var gaman að heyra um sögu hraunanna sem runnu fyrir 1000, 2000 og 5000 árum er við fórum framhjá þeim. Einnig var hann á heimavelli er steina með útfellingar bar fyrir augu.
Í ferðinni sáum við að það var búið að fjarlægja nokkra gíga úr gosröðinni fyrir 2000 árum og er efnið í þeim í veginum yfir Hellisheiði. Okkur var hugsað til Hraunavina í Gálgahrauni.
Í Miðdal sást jarðhiti vel. Hann hafði brætt snjóinn og grænn mosinn skar sig úr. Einnig eru nokkrir hverir og litlir heitir lækir sem renna í Hengladalsá. Líffræðingar eru að rannsaka þá en hitakærar örverur lifa þar.
Í lokin kíktu við á eina af 25 virkum borholum á Hengilssvæðinu sem Hellisheiðarvirkjun nýtir og gefa af sér um 300 MW af orku. Holurnar eru að jafnaði að jafnaði 2000 metra djúpar. Við höfðum gengið yfir svæðið sem gaf af sér nokkrar af bestu borholunum. Hitinn í borholuskýlinu var þægilegur er úr kuldanum var komið en sum rörin eru 200 gráðu heit.
Líffræðingar að rannsaka hitakærar örverur í Miðdal.
Dagsetning: 26. október 2013
Mesta hæð: 566 m, bílastæði v/Himnaríki
GPS hnit Himnaríki: 566 m (N:64.02.997 - W:21.21.009)
GPS hnit borholur: 386 m (N:64.02.402 W:21.19.999)
Heildarlækkun: 377 metrar
Heildargöngutími: 2,5 klst, 149 mínútur (10:59 - 13:28)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 5,6 km
Skref: 7,912 og 565 kkal
Veður kl. 12 Skarðsmýrarfjall: Skýjað, ANA 17 m/s, -2.5 °C. Raki 79%
Þátttakendur: Ferðafélag Íslands og Landvernd, 18 félagar
GSM samband: Já, enda háhitasvæði með dýrmætum borholum. Stöðugt 3G-samband.
Gönguleiðalýsing: Gengið eftir vegarslóða niður Skarðsmýrarfjall eftir misgengi í Þrengsli norðan við fjallið og niður Miðdal. Þar er jarðhiti og mosagróinn dalur. Ganga þarf tvisvar yfir meinlitla Hengladalsá á leið meðfram fjallinu. Létt ganga í snjóföl, mest niðurávið um stórmerkilegt háhitasvæði.
Þetta var ekki mikil útsýnisferð. Kalt og hvasst á hæsta punkti, þar sem útsýni átti að vera mest. Hér getur að líta algengustu sýn okkar í suðurátt en þetta er skjamynd úr hinu skemmtilega appi frá Seiði, Hringsjá nefnist það.
5.8.2013 | 20:22
Sveinstindur (1.090 m)
Það var ljúft að anda að sér tæru fjallaloftinu þegar maður steig út úr tjaldinu hjá veiðihúsinu við Langasjó. Umhverfi sem þetta á engan sinn líka, upphafið, eyðilegt og hljótt. Framundan var spennandi ganga á Sveinstind í Fögrufjöllum.
Ég hafði reynt göngu á Sveinstind fyrir fjórum árum í ferð með Augnablik en þá var mikil þoka á tindinum.
Langisjór var einn best varðveitti leyndardómur við jaðar Vatnajökuls. Það var fyrst árið 1878 að skaftfellskir leitarmenn fengu veður af stöðuvatni handan fjalla sem þeir gáfu nafnið Skaftárvatn og fjallgarðinum Skaftárfjallgarður, síðar kallað Fögrufjöll. Hæsta tindi í fjallgarðinum gáfu þeir nafnið Bjarnatindur eftir Bjarna [Bjarnasyni] í Hörgsdal á Síðu.
Þegar Þorvaldur Thoroddsen landkönnuður kom að Langasjó á árunum 1889 og 1893 skapaði hann örnefnin Sveinstind og Langasjó. Hvarf þá nafnið Bjarnatindur en lægri tindur í fjallinu ber nafn Bjarna.
Sveinstindur nefndur eftir Sveini Pálssyni (1762-1840) lækni og náttúrufræðingi. Hann er eitt flottasta útsýnisfjall landsins ef skyggni er gott.
Gangan er nokkuð auðveld þó að bratt sé og greinilegur slóði alla leið. Á tveim stöðum hafa verið settar stálplötur í gönguleiðina til að koma í veg fyrir smáskriður.
Útsýni af toppi Sveinstind er víðsýnt og stórbrotið. Langisjór blátær ber af með sína fallegu liti. Einstök Fögrufjöll eru tvöfaldur, örmjór fjallgarður, alsettur hnjúkum. Milli þeirra hafa lón víða orðið innlyksa. Þau eru hulin grænum mosa og háplöntum á stangli. Norðan við Langasjó eru gróðurlaus Tungnaárfjöll. Skaftá breiðir úr sér sunnan Fögrufjalla og ber mest á Stakafelli. Risinn Vatnajökull sýndi hvítar breiðurnar með Kerlingar og svart Pálsfjall og snævi þakin Þórðarhyrna ber af í austri. Landmannaafréttur, Veiðivötn og Kerlingarfjöll eru í norðri og Hekla áberandi í vestur.
Lakagígaröðin í suðri er stórfengleg og með Þjórsárhraun getur orðið glæsilegur Eldfjallagarður. Grænifjallgarður glæsilegur í auðninni.
Fyrir neðan tindinn í rúmlega þúsund metra hæð eru vegamót en hægt er að ganga niður í skála Útivistar og halda þaðan í Skælinga. Stutt þar frá er steinhleðsla. Talið er að Þorvaldur Thoroddsen hafi hlaðið hana til varnar tjaldi sínu.
Sveinstindur í vesturenda Fögrufjalla. Næst hæsti tindurinn heitir Fagra (923 m) og er í austurenda fjallgarðsins. Fögruvellir, Fagralón og Fagrifjörður með eyjunni Ást eru fögur örnefni þarna.
Gönguleið á Sveinstind. Fylgt er hryggnum til vinsti, alla leið á topp. Hækkun 413 metrar.
Á toppi Sveinstinds í 1.090 metra hæð. Göngufólk umkringt ægifegurð.
Dagsetning: 27. júlí 2013
Hæð Sveinstinds: 1.090 m
GPS hnit varða á toppi Sveinstinds: (N:64.06.346 - W:18.25.088)
Hæð í göngubyrjun: 677 metrar (N:64.06.163- W:18.26.672) við bílaplan.
Hækkun: 413 metrar
Uppgöngutími: 81 mín (09:36 10:57)
Heildargöngutími: 180 mínútur (09:36 - 12:30) Gott stopp á Sveinstindi
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 5 km
Veður kl. 12 Vatnsfell: Heiðskýrt, SV 4 m/s, 16,3 °C. Raki 54%
Þátttakendur: Skál(m), 7 manns.
GSM samband: Já, á köflum.
Sveinstindar: (2) Sveinstindur í Öræfajökli (2.044 m)
Gönguleiðalýsing: Lagt frá bílastæði undir Sveinstind. Gengið eftir stikaðri leið yfir gróðurlítið svæði en klædd mosa og háplöntum á stangli. Traust undirlag eftir hálsum og hryggjum að vörðu á toppi og við blasir ægifegurð.
Heimildir
Leyndardómur Vatnajökuls, Hjörleifur Guttormsson og Oddur Sigurðsson, 1997.
Ísafold, 1878 bls. 69 - http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=273166&pageId=3939780&lang=is&q=Vatnaj%F6kli
Náttúrufræðingurinn, 1958. http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=4269151&issId=291007&lang=da
Vísindi og fræði | Breytt 6.8.2013 kl. 12:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.5.2013 | 11:32
Fagradalsfjall (391 m)
Fagradalsfjall (391 m), vestasta fjallið í Reykjanesfjallgarðinum var heimsótt á baráttudegi verkalýðsins. Í fjallinu eru þrjú flugvélaflök frá seinni heimsstyrjöld. Markmiðið var að finna þau og minnast þess hversu vitlaus stríð eru.
Fagradalsfjall er fyrir norðaustan Grindavík. Það er fjalllendi með mörgum fjöllum af öllum stærðum og gerðum. Á kortum er það merkt mjög greinilega sem Fagradalsfjall en það fjall má telja sem kjarnann í þessu fjalllendi. Þau fjöll sem ganga út úr því bera einnig sín eigin nöfn.
Fagradalsfjall er myndað við gos undir jökli og flokkast undir s.k. stapa því gosið hefur á endanum náð upp úr íshellunni og náð að mynda hraun. Megingígurinn er nyrst á fjallinu þar sem það rís hæst. Þaðan hefur svo hraunið runnið til suðurs og er fjallið um 100 metrum lægra þar. Hæsti hlutinn heitir Langhóll og gægist 40 metra yfir hásléttuna.
Á föstudaginn, 3. maí kl. 16.20 verða 70 ár síðan B24D sprengiflugvél fórst í fjallinu. Í henni var æðsti yfirmaður herafla Bandríkjanna í Evrópu, hershöfðinginn Frank M. Andrews. Hann fórst þarna ásamt ásamt þrettán öðrum félögum sínum. Einn komst af.
Kastið vestan við Fagradalsfjall. Þar hafnaði B-24D "Hot Stuff" sprengiflugvélin. Sandhóll lúrir á bakvið.
Því leikur Fagradalsfjall, þó lágreist sé, nokkra sögu í heimssögunni. Síðar tók Dwight D. Eisenhower við yfirmannsstöðunni. Stjórnaði aðgerðum í Normandy og varð í kjölfarið 34. forseti Bandaríkjanna.
Menn hafa velt því fyrir sér hvernig Kalda stríðið hefði litið út ef Andrews hefði lifað af heimsóknina til Íslands og Fagradalsfjall verið aðeins lægra. Hann var miklu mildari maður, ekki eins kaldur og Ike.
Því er viðeigandi að ganga á Fagradalsfjall á köldum baráttudeginum, fyrsta maí, og minnast í kuldanum hermanna 28 sem létust þar í hildarleiknum.
Ekki gekk okkur vel að finna flugvélaflökin þrjú. En það mætti klárlega gera upplýsingaskilti á Suðurstrandarvegi fyrir framan fjallið sem segir þessa merkilegu sögu. Einnig gefa upp staðsetningarpunkta svo göngufólk geti fundið það sem eftir er af flökunum og rifjað upp atburði þessa og tilgangsleysi stríða.
Göngufólk getur fylgst með krafti náttúrunnar. Orðið vitni að því hvernig hún brytjar flökin niður í tímans tönn.
Útsýni yfir Reykjanesskagann er mjög gott af toppi Fagradalsfjalls, ofan af Langhól. Körfuboltabæirnir, Grindavík og Keflavík sjást vel ásamt minni þorpum. Einnig sér til höfuðborgarinnar og austur til Eyjafjallajökuls. Fjallaröðin, Keilir, Litlihrútur, Kistufell og Stórihrútur er glæsileg í návígi.
Dagsetning: 1. maí 2013
Hæð Fagradalsfjalls: 391 m
GPS hnit á Landmælingastöpli á toppi Fagradalsfjalls: (N:63.54.280 - W:22.16.379)
Hæð í göngubyrjun: 86 metrar (N:63.51.985 - W:22.19.162) við Suðurstrandarveg
Hækkun: 305 metrar
Uppgöngutími: 154 mín (11:58 - 14:32) 6 km loftlína, með leit að braki
Heildargöngutími: 320 mínútur (11:58 - 17:18)
Erfiðleikastig: 1 skór
Vegalengd: 14 km
Veður kl. 15 Grindavík: NNA 7 m/s, 1,2 °C. Raki 44%
Veður kl. 12 Grindavík: NNA 8 m/s, 0,5 °C. Raki 47%
Þátttakendur: Rannsóknar- og friðarferð, 4 alls í föruneyti
GSM samband: Já, en óstöðugt í dölum
Gönguleiðalýsing: Lagt frá Suðurstrandarvegi með stefnu á Kastið (2,2 km). Leitað að flugvélarflaki B-24. Síðan haldið upp á hásléttuna með stefnu á toppinn um mosavaxið móberg. Þaðan haldið niður í Drykkjarsteinsdal með stefnu á Stórahrút. Mikill uppblástur.
Heimildir:
Illugi Jökulsson: http://www.pressan.is/Frettir/Lesa_Illuga_utlondum/breytti-fagradalsfjall-ekki-bara--gangi-seinni-heimsstyrjaldar-heldur-lika-kalda-stridsins
Ferlir: http://www.ferlir.is/?id=6506
Ferlir: http://www.ferlir.is/?id=4185
Grétar William: http://gretarwilliam.wordpress.com/2007/10/24/fagradalsfjall-21-oktober-fundum-tvo-flugvelaflok-af-thremur/
Keilir: http://www.keilir.net/is/keilir/frettir/minningarathofn-um-andrews-hershofdingja
Heimildarmynd um B-24 Liberator, Andrews og flugslysið á Fagradalsfjalli [YouTube]
Toppatrítl: http://www.toppatritl.org/ganga20020501.htm
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 11:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.12.2012 | 15:01
Jöklunum blæðir
Í nýlegri skýrslu, SVALI, en hún er norrænt rannsóknarverkefni kemur fram að Íslensku jöklarnir þynnast nú um u.þ.b. 1 m á ári að meðaltali. Það jafngildir 9,5 km³ vatns á ári og leggja þeir um 0,03 mm árlega til heimshafanna.
Samkvæmt skýrslunni hafa jöklar við Norður-Atlantshaf hopað og þynnst hratt síðustu árin eins og raunin er með jökla víðast hvar á jörðinni.
Á ferð minni undir Öræfajökli tók ég mynd af Hólarjökli en hann er lítill skriðjökull úr risanum og fóðrar lítinn foss og litla á.
Helstu orsakir bráðnunarinnar er tilkoma gróðurhúsaahrifa. Helstu áhrif gróðurhúsaárhrifa eru:
1) Útstreymi gróðurhúsalofttegunda
2) Minnkun lífmassa á jörðu með eyðingu frumskóga.
Því ættu stjórnvöld, einstaklingar og fyrirtæki að setja áramótaheit. Minnka gróðurhusaáhrif og vinna að sjálfbærni.
Mynd tekin 30. desember 2012. Rýrnunin á milli tveggja ára er augljós, jöklarnir bráðna sem aldrei fyrr.
Mynd tekin 29. desember 2010.
Sjá:
Hólárjökull 2007 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/259538/
Hólárjökull 2008 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/611572/
Hólárjökull 2009 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/911196/
Hólárjökull 2011 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1192311/
Hólárjökull 2012 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1253486/
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.5.): 23
- Sl. sólarhring: 27
- Sl. viku: 110
- Frá upphafi: 235914
Annað
- Innlit í dag: 14
- Innlit sl. viku: 84
- Gestir í dag: 14
- IP-tölur í dag: 11
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar