Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Bláfell hjá Kili (1.204 m)

Stór er Íslands eilíf mynd
   - Enn er tjaldið dregið frá:
Bláfell upp í ljómans lind
Lyftist hreint úr daggarsjá
Móðir guðs hinn tigna tind
Tásu hvíta breiðir á.
       (Jóhannes úr Kötlum (Leiksvið)

 

Það eru fjögur Bláfell á landinu bláa. í fjallgöngunni var gengið á góða veðurspá með Ferðfélagi Ísland og markmiðið að bæta bláu felli í litasafnið ásamt 60 öðrum söfnurum. Fyrir valinu var Bláfell hjá Kili (1.204 m) En fjöll með litanöfnum eru eftirfarandi:

Rauðafell, Grænafell, Bláfell, Svartafell/Svartfell, Hvítafell/Hvítfell og Gráfell.

Mörg örnefni á Íslandi tengjast litum, t.d. Rauðhólar, Rauðisandur og Rauðifoss, og eru rauðir litir í örnefnum oftast skýrðir með lit berggrunns eða jarðefna. Hins vegar tengist blár litur í örnefni oftast fjarlægð og skýrist af áhrifum andrúmsloftsins á ljós. Grænn litur tengist yfirleitt gróðri.

Annars þarf maður að herða sig, aðeins kominn með Svartfell í safnið. Einnig Grænudyngju en spurning hvort hún teljist með.

Bláfell er raunar fyrir sunnan Hvítárvatn og engan veginn á Kili, en þetta er mikið fjall og fagurt og girnilegt til fróðleiks. Það er ílangt nokkuð í stefnu NA-SV, og hátindurinn, 1204 m., lítill um sig, en allbrattur, er framan til við miðju og skilinn af skarði frá norðurbungu fjallsins, sem er nokkru lægri, 1160 m. Bláfell er úr móbergi og bólstrabergi upp undir brúnir, en grágrýtislögum þar fyrir ofan. Að þessu leyti má það teljast til þeirrar fjallgerðar, sem nefnd hefur verið stapi. Fellið hefur orðið til á hinu grimma, næstsíðasta jökulskeiði ísaldarinnar. Þegar aftur kólnaði á síðasta skeiði ísaldarinnar, lagðist jökullinn yfir Bláfell á nýjan leik og mýkti ásýnd þess og gerði óreglulegt. Minnir mig á Úlfarsfell.

Bláfell sést víða að og þjóðsögur um bergrisann Bergþór sem þar hefur búsetu eru vel þekktar. Ekki fundum við Bergþórshelli og ketilinn stóra með rjúpnalaufum.

Þrátt fyrir að þjóðvegurinn yfir Kjöl liggi við rætur fjallsins og tiltölulega auðvelt sé að ganga á fjallið, fara sárafáir þangað upp.

Geysivítt útsýni er af Bláfelli. Einbeitum okkur fyrsta af jöklunum en þeir verða ekki í boði eftir 200 ár ef ekki næst að að koma böndum á hamfarahlýnun af mannavöldum. Ef horft er á jöklaseríuna sem er í boði þá er er fyrst að nefna Langjökul með tignarfaldinn hvíta og Jarlhettur í forgrunni. Í vestri eru Þórisjökull og Geitlandsjökull og yfir Langjökli sést Eiríksjökull. Hrútfell, annar stæðilegur stapi, með jökulhettu á kolli. Til hægri sést Hofsjökull breiða úr sér en síða taka við Kerlingarfjöll með sínar fannir. Í miklum fjarska yfir Kerlingarfjöll, sést til Tungnafellsjökuls og Vatnajökuls frá Bárðarbungu til Öræfajökuls.

Í suðri sér til Eyjafjallajökuls, einnig hluta af Mýrdalsjökli. Í vestri sér í jökullaust Ok og þá er jöklahringnum lokað. Ég saknaði þó Tindfjallajökuls en Hekla skyggir á hann.

Örnefni utan jökla eru Jarlhettur tignarleg 15 km röð mishárra tinda og fylgdu okkur alla leið. Geldingafell er næst Bláfelli og handan er Skálpanesdyngjan og móbergsstapinn Skriðufell sem gengur út í Hvítárvatn. Norðan vatnsins er Leggjabrjótur, mikil dyngja  með sinn stóra gíg, Sólkötlu á kolli og Kjalfell sem Kjalvegur dregur nafn af.

Í ríki Vatnajökuls sést Hamarinn og Kerlingar, Tungnárfjöll og Fögrufjöll með dökkan Sveinstind við Langasjó. Í suðri ber mikið á Heklu og Vestmannaeyjar sjást. Vörðufell á Skeiðum, Hestfjall, Hestvatn og Mosfell sem við keyrðum framhjá. Ingólfsfjall, Apavatn, Bjarnarfell og Sandfell. Útfjöllin: Rauðafell, Högnhöfði og Kálfstindur. Síðan Hlöðufell og Skjaldbreiður. Á milli þeirra er Ármannsfell. Í forgrunni er Klakkur umvafinn tignarfaldinum hvíta.

Bláfell

Gangan hófst við bílastæði á móts við Illagil við Bláfellsháls og var gengið um mela að fjallsrótum.. Þegar á háfjallið er komið er afar víðsýnt til allra átta.

Dagsetning: 27. október 2019
Hæð í göngubyrjun: 570 metrar, Bláfellsháls (N: 64.29.814 – W:19.55.416)
Bláfell - hnjúkur: 1.204 m (N: 64.29.287 – W: 19.51.525)
Hækkun göngufólks: 634 metrar
Uppgöngutími: 170 mínútur (10:30 – 13:20)
Heildargöngutími: 300 mínútur (10:30 – 15:30)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 8 km
Veður - Hjarðarland kl. 12.00: Heiðskýrt, NA 2 m/s, -0,4 °C, raki 53%
Þátttakendur: FÍ, gengið á góða spá. 60 göngumenn 2 hundar og 22 bílar.
GSM samband: Já, 4G
Gestabók: Nei
Gönguleiðalýsing: Greiðfærir melar að fellsrótum. Síðan tekur við móbergshella með lausamöl, skriður og snjór í efri hluta. Stórgrýtt efst. Gengið á allt of sjaldan.

Facebook-status: Takk fyrir frábæran dag á einhverju besta útsýnisfjalli landsins!

 

Heimildir
Fjallajarðir og Framafréttur Biskupstungna – FÍ 1998
Íslensk fjöll - Gönguleiðir á 151 tind
Íslenskar þjóðsögur og ævintýri – Jón Árnason


Ármannsfell (766 m)

og kjarrið græna inn í Bolabás
og Ármannsfellið fagurblátt
og fannir Skjaldbreiðar
og hraunið fyrir sunnan Eyktarás.
         (Einu sinni ágústkvöldi eftir Jónas Árnason)

Það var stórbrotið veður og haustlitir skörtuðu sínu fegursta þegar gengið var á Ármannsfell sem er norðan við Þingvallaþjóðgarðinn og setur mikinn svið á allt umhverfið. Fellið hefur setið fyrir á ófáum málverkum og ljósmyndum í gegnum tíðina. Það er mjög gaman að ganga á það og virða fyrir sér Þingvallasvæðið frá skemmtilegu sjónarhorni.

Ármannsfell, 766 m mosavaxið móbergsfjall. Sunnan undir því er Bolabás, þar voru kappreiðar haldnar áður fyrr í Skógarhólum en nú er þar góð aðstaða fyrir hesta og hestamenn.

Gangan hófst vestan við Sleðaás, sunnan undir fjallinu. Byrjuðum að ganga í kjarri þangað til komið var upp á Sleðaás. Þaðan er greið leið eftir hrygg  á fjallið þar sem fyrst er komið uppá  mosavaxna suðurbrúnina. Síðan tekur við alllöng ganga norður á hæsta hnjúkinn. Dalir eru austan megin og þegar komið er vel upp á brúnina sjást tveir kollar. Hæsti hnúkurinn með vörðu er á milli þeirra.

Ármannsfell dregur nafn sitt af hálftröllinu Ármanni. Hann hafði víst haft þann starfa að standa fyrir kappglímum milli trölla og hálftrölla á Hoffmannaflöt undir Meyjarsæti, sem er austan við fjallið, en mun hafa gengið í fjallið að leiðarlokum.

Ármannsfell bauð upp á rándýrt útsýni, milljarða krónu viðri. Hefjum augnveisluna á jökullausu Oki með Fanntófell í forgrunn. Síðan tekur Þórisjökull við og Kaldidalur á milli. Í brekkunni fram unda Þórisjökli eru Hrúðurkarlar og síðan Litla- og Stóra-Björnsfell. Það bjarmaði fyrir Langjökli. Horfun okkur nær: Langafell, snjólaus Skjaldbreiður sem ber af öðrum fjöllum, síðan Hlöðufell, Bláfell fjær, fönguleg Skriða, Lágafell liggur næst Ármannsfelli, Tindaskagi, Klukkutindar, Kálfstindar, Hrafnabjörg, Miðdalsfjall og Fagradalsfjall. Arnarfell, Miðfell við Þingvallavatn. Horfum fjær: Sjáum topp Heklu, Eyjafjallajökull, Vestmanneyjar, Búrfell, Ingólfsfjall, Hellisheiði, Skálafell, Hengill, Lambafell, Sauðdalahnúkar, Blákollur, Vífilsfell og Bláfjöll.  Síðan tökum við Reykjanesfjöllin: Trölladyngja, Keilir og Fagradalsfjall sjást greinilega.  Komum okkur aftur á Þingvallavatn og horfum í suður og sjáum Grafningsfjöll og síðan Hrómundartind. Þá sér yfir Mosfellsheiði, Grímmannsfell, Úlfarsfell og Esjuna með Móskarðsnúka, Skálafell, Búrfell, Kjölur og tignarlegar Botnsslúlur með Gagnheiði á milli og Kvígindisfell og Þverfell fjær. Akrafjall með Geirmundartind og Skarðsheiði lengra í vestri.

Við söknuðum að sjá ekki Hvalfell en það er á bakvið Botnssúlur og Baulu í Borgarfirði.

Einfaldast og öruggast er að fara sömu leið til baka en við ákváðum að fara beint niður, styttri leið en brattari og giljum og uppþornuðum árfarvegi fylgt. Mögulega tekið lengri tíma eftir allt saman. En vara þarf sig á að laus möl getur legið yfir móbergshellunni.

Aðrar leiðir eru að beygja við eyðibýlið Svartagil og ganga upp samnefnt gil.

Hin er að keyra aðeins lengra áfram eftir veg 52 Uxahryggir og hefja gönguna austan við Sleðaás í Krika.

Varða á Ármannsfelli

Varða á toppi Ármannsfells í 766 m hæð. Dýrt útsýni og ægifegurð. Skjaldbreiður og Hlöðufell í beinni línu. 

Dagsetning: 28. september 2019
Hæð í göngubyrjun: 143 metrar, Bolabás (N: 64.17.705 – W:21.03.580)
Ármannsfell - varða: 766 m (N: 64.19.600 – W: 21.01.956)
Hækkun göngufólks: 623 metrar
Uppgöngutími: 180 mínútur (10:00 – 13:00)
Heildargöngutími: 330 mínútur (10:00 – 15:30)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 10 km
Veður Þingvellir kl. 12.00: Léttskýjað, SV 2 m/s, 10,6 °C, raki 63%
Þátttakendur: Villiendurnar, 3 göngumenn.
GSM samband: Já, 3G
Gestabók: Já, Fella- og fjallgönguverkefnið Sveitin mín
Gönguleiðalýsing: Greiðfær en nokkuð um mosa og lausagrjót, og grýtt uppi á fellinu. Létt og gefandi fjallganga. Fellið er við alfaraleið en gengið allt of sjaldan.

Facebook-status: Guðdómlegt gönguveður í dag og fjöllin skörtuðu sínu fegursta hvert sem litið var. Alveg frá jökullausu Oki til Mariannelund!

Heimildir
Íslensk fjöll – gönguleiðir á 151 tind: Ari Trausti Guðmundsson, Pétur Þorleifsson
Ferðafélag Árnesinga: Ármannsfell 26. júní 2010 og Ármannsfell 9. september 2017

 


Siglufjarðarskarð (630 m)

Það eru tveir möguleikar á að hefja göngu um Siglufjarðarskarð úr Fljótum. Sá fyrri er að hefja göngu eftir vegaslóðanum sem gerður var 1946 og er vel fær. Hinn er að hefja gönguna vestan frá Heljartröð skammt norðan Hrauna í Fljótum.

Gönguhópurinn lagði í ferðina frá Heljartröð í glæsilegu veðri, heiðskýrt og fallegu veðri. Gönguslóðin er augljós allan tímann upp grasi grónar brekkur í suðurhlíð Hraundals og aflíðandi brekkur vestan í Breiðafjalli. Þegar Skarðið nálgast þá er komið inn á Skarðsveginn sem er jeppafær.

Illviðrishnjúkur (895 m) er tignarlegur skammt norðan Skarðsins og þrjú rafmagnsmöstur minna á sköpunarkraft mannsins sem getur bæði gefið líf eða drepið.

Fagurt útsýni er úr skarðinu til beggja átta, Siglufjarðar og Skagafjarðar. Upplýsingaskilti með gestabók er í Skarðinu en ljóst er að fjallvegurinn er ekki á fjárlögum hjá Vegagerðinni því mikið hrun hefur komið úr hömrunum. Nokkrum dögum fyrir gönguna voru jarðskjálftar fyrir norðan Siglufjörð upp á 4,6 og mögulega hafa þeir bætt á hrunið.

Ekki urðum við vör við óværu nokkra en hennar er getið á upplýsingaskiltinu en vondir andar sem voru í skarðinu var stefnt í Afglapaskarð 1735 af Þorleifi prest. Eru þeir væntanlega þar enn.

Siglufjörður blasti fagur við þegar gengið var um Skarðið. Skarðsvegurinn hlykkjaðist niður fjörðinn og framkvæmdir voru við skíðasvæðið í Skarðsdal. Endað var  við skógrækt Siglfirðinga, nyrsta skóg á Íslandi. Gróskumikill og fallegur skógur sem bindur kolefni og einnig mikið notaður til útivistar. 

Upphaflega var fjallseggin í skarðinu svo mjó að þar mátti sitja klofvega með annan fótinn í Skagafjarðarsýslu en hinn í Eyjafjarðarsýslu. Í þessa egg hafði þó til forna verið höggvið skarð, nægilega breitt til að unnt væri að koma klyfjahesti þar í gegn. Skarðið var svo sprengt niður um fjórtán metra árið 1940 og í framhaldi af því var lagður akfær vegur um skarðið árið 1946. Fram að því höfðu allir meiriháttar flutningar á fólki og varningi farið um sjóveg til og frá Siglufirði. Mikil samgöngubót var að Skarðsveginum þótt fær væri aðeins fáa mánuði á ári. Óhöpp eða slys á hinum nýja vegi eru ekki í frásögur færandi. Strákagöng voru opnuð 1967 og þá fór sjarminn af Siglufjarðarskarði.

Hlaupið í Skarðið er en þá hefst það á sama stað og við hófum okkar göngu en einnig er haldin skíðaganga sem hefst á sama stað.

Skarðið

Göngukona í Siglufjarðarskarði. Ófært fyrir jeppa en torfæruhjól fara þarna léttilega í gegn.

Dagsetning: 28. júlí 2019
Hæð í göngubyrjun: 81 metrar Heljartröð í Fljótum (N: 66.05.879 – W:19.04.001)
Siglufjarðarskarð: 631 m (N: 66.00.381– W: 18.10.842)

Skógrækt Siglfirðinga:  71 m (N: 66.07.717 – W:18.56.542)
Hækkun göngufólks: 550 metrar
Uppgöngutími: 160 mínútur (11:00 – 13:40)
Heildargöngutími: 240 mínútur (11:00 – 15:00)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 11 km
Veður Siglufjörður kl. 12.00: Léttskýjað, NA 3 m/s, 10,6 °C, raki 89%
Þátttakendur: Villiendurnar, 11 göngumenn.
GSM samband: Já
Gestabók: Já
Gönguleiðalýsing: Auðrötuð leið eftir þéttri tröð. Komið inn á fjallveg í efri hæðum.

Facebook-status: Enn einn dásamlegur dagur ðŸ˜

Heimildir:
Fjallabyggð.is - Siglufjarðarskarð
Jónas Kristjánsson - Siglufjarðarskarð
Siglufjarðarskarð - Jónas Kristjánsson 
Stefán Gíslason - Fjallvegahlaup
Wikipedia - Siglufjarðarskarð

 


Kaldbakur í Eyjafirði (1.173 m)

„ramlegt fjall með reknar herðar reisir gafl við hánorðrið," -MJ

Kaldbakur gnæfir yfir landslaginu austan Eyjafjarðar, norður af Grenivík og er hluti af fjallakeðju sem einu nafni nefnist Látrafjöll. Fjallið er 1.173 m hátt og gengur nálega í sjó fram og speglaðist í sænum, hrikalegt og tilkomumikið.  Á tindi Kaldbaks er varða sem hlaðin var af landmælingamönnum danska herforingjaráðsins árið 1914.

Hefðbundin leið á Kaldbak hefst við Grenjárbrúnna við Árbakka skammt norðan Grenivíkur. Við fórum aðra leið. Keyrt var á jeppum upp fjallveg sem liggur í Grenivíkurfjalli en þar er aðstaða sem Kaldbaksferðir hafa gert fyrir vélsleðaferðir. Við keyrðum upp að þriðja palli og stoppuðum í 356 metra hæð.

Þegar lagt var af stað var þoka en spáin lofaði góðu fyrir daginn og vonuðumst við að sólin næði að eyða skýjunum. 

Strax var farið niður í gil sem Grenjá hefur grafið og þegar komið var upp úr gilinu minnkaði þokan og skömmu síðar gengum við upp úr henni. Eyjafjörðurinn var þakinn skýjum og glæsilegur að sjá en vel sást í efstu fjallstinda fjarðarins. Þjóðskáldið Matthías Jochumsson orðaði þetta snilldarlega: undan sólu silfurþoka svífur létt um Eyjafjörð.

Gengið var eftir mel alla leið upp snjólausa suðuröxlina á topp en snjóskafl liggur í jökulskál vestan megin axlarinnar og mættum við honum í 650 metra hæð en snjór og er ís í skálinni allt árið um kring. 

Eftir tveggja tíma göngu var tekið matarstopp í tæplega 900 metra hæð og horft yfir bómullarlagðan Eyjafjörðinn. Þar sáum við fjórar rjúpur og sauðfé. En ýmislegt sást t.d. lambagras, grasvíðir, dýragras og músaeyra. Einnig sáum við lóur og mikið var um köngulær.

Eftir rúmlega þriggja tíma göngu var toppnum náð en hann er á grýttri sléttu og er varðan glæsilega. Það var mikil stemming við vörðuna og rifjaðist upp vísa sem Látra-Björg kvað um svikul og tvíráð veðrateikn á tindi Kaldbaks: 

   Vestanblika
   kúfnum kalda
   Kaldbak hleður;
   sunnan kvika,
   utanalda,
   austan veður.

Kaldbakur er mikið útsýnisfjall og sér langt inn á hálendið en fjöllin á Gjögraskaga vöktu mesta athygli, keilulaga og snævi þakin. Í gamalli ferðalýsingu Sig. Júl. Jóhannessonar segir um útsýni af Kaldbak: „þaðan sést yfir allan Skjálfanda, og afar langt á sæ út; Herðubreið, sem er suður undir Vatnajökli, öll Mývatnsfjöll, Eyjafjörður allur, Fnjóskadalur, Bárðardalur, Hörgárdalur og Svarfaðardalur o.s.frv. þaðan sést austur á Sléttu og vestur undir Horn.“ 

Ekki sáum við alla dýrðina og söknuðum helst Herðubreiðar en skýjabólstrar voru yfir hálendinu.

Kaldbakur hefur verið skáldum og rithöfundum hugleikinn og líkt honum við hvítabjörn og ort um fegurð og kraft fjallsins.

Árið 2002 var alþjóðlegt ár fjalla. Þá var Herðubreið kosin þjóðarfjall Íslendinga og Kaldbakur sigraði í keppninni um fjall Eyjafjarðar eftir harða samkeppni við Kerlingu og Súlur. Á landinu eru sex fjöll sem bera nafnið Kaldbakur.

Á toppi Kaldbaks

Gönguhópurinn við glæsilegu landmælingavörðuna frá 1914Útburðarskálarhnjúkur handan og hafa sést þar svipir manna.

Dagsetning: 27. júlí 2019
Hæð í göngubyrjun: 356 metrar Grenivíkurfjall 3. pallur (N: 65.58.092 – W: 18.10.289)
Kaldbakur - varða: 1.173 m (N: 66.00.381– W: 18.10.842)
Hækkun göngufólks: 817 metrar
Uppgöngutími: 195 mínútur (09:15 – 12:30)
Heildargöngutími: 330 mínútur (09:15 – 14:45)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 10 km
Veður Akureyri kl. 12.00: Skýjað, SA 1 m/s, 13,2 °C
Þátttakendur: Villiendurnar, 11 göngumenn.
GSM samband: Já
Gestabók: Já
Gönguleiðalýsing: Stikuð leið eftir hrygg sem er gróin neðarlega en breytist í mel er ofar dregur.

Facebook-status: Kaldbakur minnir mig frekar á mammút eða loðfíl heldur en hvítabjörn eftir þessa fræknu gönguferð.

Heimildir:
Fjöllin í Grýtubakkahreppi – Hermann Gunnar Jónsson, 2016
Huldulandið – Vigfús Björnsson, 1997
Kaldbaksferdir.com - Kaldbakur
Sig. Júl. Jóhannesson. (Ferðapistlar VIII. Dagskrá 26. nóv. 1898.)


Hvítárbrú og áætlanir

Langafi minn Sigurður Sigurðsson (1883-1962) trésmiður vann að öllum líkindum við byggingu Hvítárbrúar árið 1928. Í einkabréfi sem hann skrifar 1948 telur hann upp helstu byggingarverk sem hann hefur komið að en hleypur yfir árið 1928. Í myndasafni sem hann átti er jólakort með mynd af Hvítárbrú.

Hann hefur lært af meistaraverkinu við Hvítárbrú og í bréfi frá 1935 sem varðveitt er hjá Vegagerðinni eru samskipti milli Sigurðar snikkara og brúarverkfræðings Vegamálastjóra til, en þá stóð bygging Kolgrímubrúar í Suðursveit sem hæst. Grípum niður í Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar:

Bréf til Sigurðar brúasmiðs. Afritið sem varðveitt er í skjalasafni Vegagerðarinnar er ekki undirritað en miklar líkur eru á að Árni Pálsson brúarverkfræðingur hafi skrifað þessar línur. Þetta er athyglisverð lýsing á vinnubrögðum við bogabrýr.

29. maí 1935
Herra verkstjóri Sigurður Sigurðsson Hornafirði

Viðvíkjandi steypu í bogabrúna á Kolgrímu skal það
tekið fram, að áður en að byrjað er að steypa bogann,
skal gengið að fullu frá því að leggja bogajárnin, - bæði
efri og neðri járnin - og binda þau saman með krækjum
og þverjárnum í samfellt net, sem sýnt er á uppdrætti. Að
því loknu verður boginn steyptur og er hér heppilegast að
steypa bogann í fimm köflum, - með raufum á milli - svo
missig bogagrindar verði sem minnst; verður til þessa að
hólfa sundur með sérstökum uppslætti þvert yfir bogann.

Á meðfylgjandi uppdrætti er sýnt hvar heppilegast er
að setja þverhólfin og verður þá fyrst steyptur kafli nr.
1 um bogamiðju, síðan kafli nr. 2 við ásetur, loks kaflar
nr. 3 á milli ásetu og bogamiðju og að síðustu er steypt í
raufarnar nr. 4.

Eins og þér sjáið af þessu er hér að öllu leyti farið að,
eins og við bogana á Hvítá hjá Ferjukoti.
Samsetning steypunnar í boga er að sjálfsögðu
1:2:3, en að öðru leyti skal í öllu fylgt þeim góðu
byggingarvenjum er þér hafið vanist við brúargerðir.

Virðingarfyllst.

Bréfritari vísar í byggingu bogabrúar yfir Hvítá í Borgarfirði svo líklega hefur Sigurður komið þar að verki sem smiður og bréfritara verið kunnugt um það.
Steypublandan 1:2:3 eru hlutföll sements, sands og malar sem algengust voru við brúargerð.

Hvítárbrú í smíðum

 

Brúargerð á Hvítá hjá Ferjukoti 1928 stendur á bakhlið myndarinnar. Eigandi Sigurður Sigurðsson, trésmiður frá Hornafirði.

Ég hef heyrt það að annað sem hafi verð merkilegt fyrir utan glæsilega hönnun og mikla fegurð brúarinnar er að verkið stóðst fjárhagsáætlun upp á krónu. Ekki voru Microsoft forritin Excel eða Project til þá. Heldur hyggjuvitið notað.

Í bréfi langafa frá 1948 segir ennfremur:

"1926 Eftirlitsmaður við Lýðskólabygginguna á Eiðum." Og aðeins neðar: "1927 var ég einnig eftirlitsmaður á Hólum í Hjaltadal. Einnig voru þar byggð fjárhús og hlaða fyrir um 300 fjár. Ég var svo hygginn að þessar byggingar fóru ekkert fram úr áætlunum og því ekkert blaðamál út af þeim. Þess vegna enginn frægur fyrir að verja eða sækja það mál þar sem hvorki var þakkað eða vanþakkað."

Við getum lært mikið af þessu verkefnum og verkefnastjórnun fyrir rúmum 90 árum. Fjárhagsáætlanir hafa því í gegnum tíðina verið í skotlínu fólks.

Til hamingju með afmælið, Hvítárbrú.

Póstkort Hvítárbrú 1928

Póstkort af Hvítárbrú frá 1928

Heimild:

Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar, 3. tbl. 2018.  Bls. 6 


mbl.is Bogabrúin yfir Hvítá 90 ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hornafjarðarmanni - Íslandsmót

Íslandsmót í Hornafjarðarmanna verður haldið síðasta vetrardag í Breiðfirðingabúð. Keppt hefur verið um titilinn frá árinu 1998 og hefur Albert Eymundsson verið guðfaðir keppninnar. Nú tekur Skaftfellingafélagið í Reykjavík við keflinu.

HumarManniÞað er mikill félagsauður í Hornafjarðarmanna. Hann tengir saman kynslóðir en Hornafjarðarmanninn hefur lengi verið spilaður eystra og breiðst þaðan út um landið, meðal annars með sjómönnum og því hefur nafnið fest við spilið.

Talið er að séra Eiríkur Helgason í Bjarnanesi (1892-1954) hafi verið höfundur þess afbrigðis af manna sem nefnt hefur verið Hornafjarðarmanni.

Til eru nokkur afbrigði af Manna, hefðbundinn manni, Trjámanni, Laugarvatnsmanni og Hornafjarðarmanni og sker sá síðastnefndi sig úr þegar dregið er um hvað spilað verður. En mögulegir samningar eru sex talsins:  nóló, grand, hjarta, spaði, tígull og lauf.

Spilareglurnar eru einfaldar og lærist spilið mjög fljótt. Það er hentugt keppnisform fyrir mismunandi fjölda spilara. Fyrst er forkeppni og eftir hana er útsláttarkeppni.  Eftir stendur einn sigurvegari, sá sem fær flest prik. Hornafjarðarmanni er samt sem áður meira leikur en keppni.

Albert Eymundsson endurvakti Hornarfjarðarmanna til vegs og virðingar þegar Hornafjörður hélt upp á 100 ára afmæli bæjarins 1997 og hefur síðan verið keppt um Hornafjarðarmeistara-, Íslandsmeistara- og Heimsmeistaratitil árlega.  

Síðasta vetrardag, 18. apríl, verður haldið Íslandsmeistaramót í Hornafjarðarmanna og eru allir velkomnir. Spilað verður í Breiðfirðingabúð, Faxafeni 14 og hefst keppnin kl. 20.00. Góðir vinningar. Aðgangseyrir kr. 1.000, innifalið kaffi og kruðerí, þar á meðal flatkökur með reyktum Hornafjarðarsilungi.

Sigurvegarinn fær sértakan farandverðlaunagrip sem Kristbjörg Guðmundsdóttir hannaði og hýsir í ár.


Grábrók (170 m) 2017

Það var gaman að ganga upp á Grábrók í sumar og hafa einstakt útsýni yfir Borgarfjarðarhérað og Norðurárdalinn. Sjá Baulu í öllu sínu veldi, Hrauns­nef­söxl, Hreðavatn, Bifröst og Norðurá. Það sem vakti mesta athygli er göngustigar sem stýrir umferð um viðkvæmt fjallið eða fellið.

Mér finnst vel hafa tekist til með gerð göngustigana og merkinga til að stýra umferð gangandi og auka öryggi, en svona inngrip er umdeilt en eitthvað þarf að gera til að vernda óvenjulega viðkvæmt svæði þar sem hraun og mosi er undir fótum

Grábrók er einn af þremur gígum í stuttri gígaröð. Þeir heita Grábrók (Stóra – Grábrók), Smábrók (litla Grábrók) og Grábrókarfell (Rauðabrók). Úr þeim rann Grábrókarhraun fyrir 3.200 árum og myndaði meðal annars umgjörð Hreðavatns. Efni í vegi var tekið úr Smábrók á sjötta áratugnum og tókst að stoppa þá eyðileggingu.

Daginn eftir var gengin hringur sem Grábrókarhraun skóp, gengið frá Glanna, niður í Paradísarlaut og meðfram Norðurá og kíkt á þetta laxveiðistaði. Það var mikil sól og vont að gleyma sólarvörninni. Mæli með bók eftir Reyni Ingibjartsson, 25 gönguleiðir í Borgarfirði og Dölum fyrir stuttar upplifunarferðir.

Dagsetning: 24.júní 2017
Hæð: Um 170 metrar
Hæð í göngubyrjun: Um 100 m (N:64° 46' 17.614" W:21° 32' 23.370")
Hækkun: 70 metrar
Heildargöngutími: 30 mínútur (20:00 - 20:30)
Erfiðleikastig: 1 skór 
Þátttakendur: Fjölskylduferð, 6 manns 
GSM samband: Já
Gestabók: Nei
Gönguleiðalýsing: Létt ganga mest upp eða niður göngustiga

Grábrók júní 2017

Hér sér ofan í gíginn í Grábrók sem gaus fyrir 3.200 árum. Manngerðir göngustigar sem minnka álag og falla ágætlega að umhverfinu liggja upp og niður fjallið.


Hrísey

Gönguferð 29. júlí 2014

Hrísey gengin frá suðri til norðus. Eyjan leynir á sér og breytilegt veðurfar í norðanáttinni. Fleiri bílar í eyjunni en maður átti von á. Gaman að sjá fólk vera að tína hvannarlauf. Geysi mikil berjaspretta nyrst á Hrísey, krækiber og bláber. Flottur taxi.
Arkaði 15,5 km eða rúmlega 20 þúsund skref og 1.200 kkal brenndar.
Skemmtileg og fróðleg ferð.

 

Hrísey

Gönguhópurinn, 18 manns. Frænkuhittingur í Hrísey.

Hrísey er önnur stærsta eyja við Ísland, 11.5 km2. Hrísey er um 7 km löng, breiðust sunnan til, um 2,5 km, en nyrðri helmingurinn er allt að helmingi mjórri.

Hvön

Hvönnin nýtt. Hér er hópur fólks að tína hvannarlauf. Einangrunarstöðin í baksýn.


ML85 golfmótið

Hin gömlu kynni gleymast ei,
enn glóir vín á skál.
Hin gömlu kynni gleymast ei
né gömul tryggðamál

Svo segir í skosku þjóðlagi.  Útskriftarárgangur 1985 árgangs Menntaskólans að Laugarvatni heldur árlega golfmót til að rifja upp hin gömlu kynni en núna eru nákvæmlega 30 ár síðan nemendur hittust í fyrsta skipti. Þátttaka er ekki mikil en mótið er stórskemmtilegt. Flest mótin hafa verið haldin á Ljósafossvelli í Grímsnesi en í ár varð Korpuvöllur fyrir valinu.

Einn sjötti hluti árgangsins skráði sig til leiks en menn búa víða um land og sumir hafa mikið að gera við aðra merkilega hluti. Auk þess eru ekki allir með áhuga á golfíþróttinni.

Úrslitin skipta ekki máli en verkfræðingurinn Guðlaugur Valgarð Þórarinsson náði að hala inn flesta punkta þegar mótið var gert upp og var því úrskurðaður sigurvegari. Stjórnmálafræðingurinn og auglýsingagúrúinn, Einar Örn Sigurdórsson og undirritaður voru jafnir en Einar Örn spilaði mun betur í bráðabana og uppskar silfur.

Einar Örn átti mörg stórgóð upphafshögg og náði góðu sambandi við sína Stóru Bertu. Guðlaugur var öruggur á öllum brautum og náði alltaf að krækja í punkta. 

Þetta var mjög skemmtilega stund í fallegu haustveðri og verður hittingurinn endurtekin að ári eða oftar.

Verdlaunabikar

Mynd frá mótinu árið 2010 á Ljósafossvelli.  Guðlaugur Valgarð Þórarinsson, Sigurpáll Ingibergsson og Einar Örn Sigurdórsson sem heldur á farandbikarnum.

 


Síldarmannagötur

Lúxussíld frá ORA smakkast hvergi betur en í Síldarmannabrekkum. Það get ég staðfest og ekki er verra að hafa síldina á nýbökuðu rúgbrauði. Þegar síldinni er rennt niður þá er gott að hugsa aftur í tímann og minnast ferða forfeðranna og lífsbaráttu þeirra við síldveiðar í Hvalfirði.

Síldarmannagötur er þjóðleið, vestri leiðin yfir Botnsheiði sem Borgfirðingar notuðu til að komast  í Hvalfjörð til að veiða og nytja síld, þegar síldarhlaup komu í Hvalfjörð.

Lagt var í ferðina á rútu frá Sæmundi sem er frá Borgarfirði. Gönguferðin um Síldarmannagötur hófst í Botnsvogi í Hvalfirði en búið er að hlaða glæsilega vörðu við upphaf eða enda leiðarinnar og voldugur vegvísir bendir á götuna.

Fyrst er farið upp Síldarmannabrekkur og hlykkjast gatan upp vel varðaða brekkuna. Eftir um klukkutíma göngu og 3,2 km að baki er komið í Reiðskarð sem er á brún fjallsins. Þá blasir við mikil útsýn. Hvalfell og Botnssúlur fanga augað í austri. Múlafjall og Hvalfjörður í suðri og miklar örnefnaríkar víðáttur í austri og norðri.

Við fylgjum Bláskeggsá hluta leiðarinnar en hún er vatnslítil og göngum framhjá Þyrilstjörn á leiðinni um Botnsheiði. 

Hæsti hluti leiðarinnar er við Tvívörðuhæðir en þá sér í aðeins Hvalvatn hið djúpa. Göngumenn eru þá komnir í 487 metra hæð en fjallahringurinn er stórbrotinn. Tvívörðuhæðir eru vatnaskil og gönguskil. Þá tekur að halla undan fæti og ný þekkt fjöll fanga augun.

Okið, Fanntófell, Þórisjökull, Litla og Stóra Björnsfell, Skjaldbreiður og Kvígindisfell raða sér upp í norðaustri og Þverfell er áberandi.  Einnig sést yfir til Englands með Englandsháls og Kúpu í framenda Skorradals.

Rafmagnslínur tvær birtast eins og steinrunnin tröll á heiðinni, Sultartangalína kallast hún og sér bræðslunum Grundartanga fyrir orku.

Mikil berjaspretta var í  grónni hlíð´fyrir ofan bæinn Vatnshorn. Í 266 metra hæð var varla hægt að setjast niður án þess að sprengja á sitjandanum krækiber og bláber.

Hefðbundin endir er við grjótgarð beint upp af eyðibýlinu Vatnshorni og sú leið 12,6 km en við förum yfir Fitjaá og enduðum við kirkjustaðinn Fitjar en þar er glæsileg gistiaðstaða og aðstaða fyrir listamenn.

Jónas Guðmundsson tók myndir af göngugörpum.

Hér er tæplega 5 mínútna myndband um Síldarmannagöngur og er það hýst á Youtube.

Dagsetning: 4. september 2011
Hæsta gönguhæð: 487 m, nálægt Tvívörðuhæð (N:64.26.095 - W:21.20.982)
Hæð Tvívörðuhæðar: 496 metrar
Hæð í göngubyrjun:  35 metrar við vörðu og vegvísi í Botnsvog í Hvalfirði, (N:64.23.252 - W:21.21.579)
Hækkun: Um 452 metrar          
Uppgöngutími Tvívörðuhæð: 170 mín (10:40 - 13:30) - 8,2 km
Heildargöngutími: 360 mínútur (10:40 - 16:40) endað við Fitjar
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd:  16,2 km
Veður kl. 12 Botnsheiði: Léttskýjað, NV 6 m/s, 7,2 °C. Raki 90%
Veður kl. 15 Botnsheiði: Léttskýjað, N 5 m/s, 8,5 °C. Raki 82%
Þátttakendur: Útivist, 40 þátttakendur í dagsferð, Fararstjóri Ingvi Stígsson 
GSM samband:  Já, en fékk á köflum aðeins neyðarnúmer

Gönguleiðalýsing: Vel vörðuð leið frá Hvalfirði yfir í Skorradal. Gatan er brött beggja vegna en létt undir fæti þegar upp er komið.

Facebook staða: Yndislegur dagur, get hakað við Síldarmannagötur. Dásamlegur dagur með Útivistarfólki, eintóm sól og sæla. Takk fyrir mig! Er afar þakklát fyrir þennan dýrðardag.

Facebook staða
: Frábær dagsferð með Útivist í dag um Síladarmannagötur. Góð fararstjórn, skemmtilegir ferðafélagar og ekki skemmdi nú veðrið fyrir alveg geggjað og útsýni til óteljandi fallegra tinda. Get sko mælt með þessari fallegu og þægilegu gönguleið.

Vatnshorn

Vatnshorn er merkilegur bær, þar er upphaf eða endir Síldarmannagötu. Bugðótt Fitjaá rennur í Skorradalsvatn. Góð berjaspretta sem tafði göngumenn.

Þótti mér betur farið en heima setið. Lýkur þar að segja frá Síldarmannagötu.

Heimildir:
Environice - http://www.environice.is/default.asp?sid_id=33463&tId=1
Ferlir - http://www.ferlir.is/?id=4277
Skorradalshreppur - http://www.skorradalur.is/um-skorradal/sildarmannagotur/


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 39
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 36
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband