Síldarmannagötur

Lúxussíld frá ORA smakkast hvergi betur en í Síldarmannabrekkum. Það get ég staðfest og ekki er verra að hafa síldina á nýbökuðu rúgbrauði. Þegar síldinni er rennt niður þá er gott að hugsa aftur í tímann og minnast ferða forfeðranna og lífsbaráttu þeirra við síldveiðar í Hvalfirði.

Síldarmannagötur er þjóðleið, vestri leiðin yfir Botnsheiði sem Borgfirðingar notuðu til að komast  í Hvalfjörð til að veiða og nytja síld, þegar síldarhlaup komu í Hvalfjörð.

Lagt var í ferðina á rútu frá Sæmundi sem er frá Borgarfirði. Gönguferðin um Síldarmannagötur hófst í Botnsvogi í Hvalfirði en búið er að hlaða glæsilega vörðu við upphaf eða enda leiðarinnar og voldugur vegvísir bendir á götuna.

Fyrst er farið upp Síldarmannabrekkur og hlykkjast gatan upp vel varðaða brekkuna. Eftir um klukkutíma göngu og 3,2 km að baki er komið í Reiðskarð sem er á brún fjallsins. Þá blasir við mikil útsýn. Hvalfell og Botnssúlur fanga augað í austri. Múlafjall og Hvalfjörður í suðri og miklar örnefnaríkar víðáttur í austri og norðri.

Við fylgjum Bláskeggsá hluta leiðarinnar en hún er vatnslítil og göngum framhjá Þyrilstjörn á leiðinni um Botnsheiði. 

Hæsti hluti leiðarinnar er við Tvívörðuhæðir en þá sér í aðeins Hvalvatn hið djúpa. Göngumenn eru þá komnir í 487 metra hæð en fjallahringurinn er stórbrotinn. Tvívörðuhæðir eru vatnaskil og gönguskil. Þá tekur að halla undan fæti og ný þekkt fjöll fanga augun.

Okið, Fanntófell, Þórisjökull, Litla og Stóra Björnsfell, Skjaldbreiður og Kvígindisfell raða sér upp í norðaustri og Þverfell er áberandi.  Einnig sést yfir til Englands með Englandsháls og Kúpu í framenda Skorradals.

Rafmagnslínur tvær birtast eins og steinrunnin tröll á heiðinni, Sultartangalína kallast hún og sér bræðslunum Grundartanga fyrir orku.

Mikil berjaspretta var í  grónni hlíð´fyrir ofan bæinn Vatnshorn. Í 266 metra hæð var varla hægt að setjast niður án þess að sprengja á sitjandanum krækiber og bláber.

Hefðbundin endir er við grjótgarð beint upp af eyðibýlinu Vatnshorni og sú leið 12,6 km en við förum yfir Fitjaá og enduðum við kirkjustaðinn Fitjar en þar er glæsileg gistiaðstaða og aðstaða fyrir listamenn.

Jónas Guðmundsson tók myndir af göngugörpum.

Hér er tæplega 5 mínútna myndband um Síldarmannagöngur og er það hýst á Youtube.

Dagsetning: 4. september 2011
Hæsta gönguhæð: 487 m, nálægt Tvívörðuhæð (N:64.26.095 - W:21.20.982)
Hæð Tvívörðuhæðar: 496 metrar
Hæð í göngubyrjun:  35 metrar við vörðu og vegvísi í Botnsvog í Hvalfirði, (N:64.23.252 - W:21.21.579)
Hækkun: Um 452 metrar          
Uppgöngutími Tvívörðuhæð: 170 mín (10:40 - 13:30) - 8,2 km
Heildargöngutími: 360 mínútur (10:40 - 16:40) endað við Fitjar
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd:  16,2 km
Veður kl. 12 Botnsheiði: Léttskýjað, NV 6 m/s, 7,2 °C. Raki 90%
Veður kl. 15 Botnsheiði: Léttskýjað, N 5 m/s, 8,5 °C. Raki 82%
Þátttakendur: Útivist, 40 þátttakendur í dagsferð, Fararstjóri Ingvi Stígsson 
GSM samband:  Já, en fékk á köflum aðeins neyðarnúmer

Gönguleiðalýsing: Vel vörðuð leið frá Hvalfirði yfir í Skorradal. Gatan er brött beggja vegna en létt undir fæti þegar upp er komið.

Facebook staða: Yndislegur dagur, get hakað við Síldarmannagötur. Dásamlegur dagur með Útivistarfólki, eintóm sól og sæla. Takk fyrir mig! Er afar þakklát fyrir þennan dýrðardag.

Facebook staða
: Frábær dagsferð með Útivist í dag um Síladarmannagötur. Góð fararstjórn, skemmtilegir ferðafélagar og ekki skemmdi nú veðrið fyrir alveg geggjað og útsýni til óteljandi fallegra tinda. Get sko mælt með þessari fallegu og þægilegu gönguleið.

Vatnshorn

Vatnshorn er merkilegur bær, þar er upphaf eða endir Síldarmannagötu. Bugðótt Fitjaá rennur í Skorradalsvatn. Góð berjaspretta sem tafði göngumenn.

Þótti mér betur farið en heima setið. Lýkur þar að segja frá Síldarmannagötu.

Heimildir:
Environice - http://www.environice.is/default.asp?sid_id=33463&tId=1
Ferlir - http://www.ferlir.is/?id=4277
Skorradalshreppur - http://www.skorradalur.is/um-skorradal/sildarmannagotur/


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

2 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

Fyrir fáum vikum var ég í Vatnshorni viðstödd vígslu "pakkhússins", en það er litla húsið sem, stendur örlítið ofan og til hliðar við gamla íbúðarhúsið. Ég er að nokkru ættuð frá Vatnshorni, langafi minn ólst þar upp. Ef þú skoðar bloggið mitt- nokkur ár aftur í tímann- geturðu lesið um uppruna þess langafa. Gaman að lesa ferðalýsinguna þína. Kv. HRE.

Helga R. Einarsdóttir, 17.9.2011 kl. 18:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 74
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 66
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband