8.7.2013 | 15:49
Snæfellsjökull (1.446 m)
Hverfandi jöklar er frábært framtak hjá Útivist. Fyrsta jöklaferðin í þemanu var á konung íslenskra fjalla, Snæfellsjökul sunnudaginn 7. júlí 2013.
Snæfellsjökull (10 km2) hefur mikið látið á sjá á síðustu árum. Hann er 13. stærsti jökull landsins en þriðji vinsælasti íslenski jökullinn á Google með 394 þúsund leitarniðurstöður. En sögur um kraft jökulsins, Bárð Snæfellsás og glæsileg keilulögun og bloggfærslur á sólríkum dögum í höfuðborginni afla honum vinsælda.
Hverfandi jökull
Samkvæmt nýjum mælingum hefur Snæfellsjökull lækkað um einn og hálfan metra að meðaltali síðustu tíu ár. Mest þynnist hann á jöðrunum, sums staðar um 30-40 metra, minna á hákollinum en þar hefur hann þynnst um nokkra metra.
Á sama tíma hefur flatarmál hans minnkað um rúman ferkílómetra í um 10 ferkílómetra. Ef horft er aftur til byrjunar síðustu aldar þá er Snæfellsjökull helmingi minni nú en hann var að flatarmáli og ekki nema þriðjungur að rúmmáli. Ef ekki verður mikil breyting á tíðarfari þá hverfur Snæfellsjökull á næstu áratugum.
Göngumenn höfðu fylgst vel með veðurspám og von var á lægð en síðdegis. En spár gerðu ráð fyrir björtu veðri fram eftir degi.
Þegar lagt var af stað kl. 8 frá BSÍ sást til sólar en þegar kom á Snæfellsnesið var þungt yfir. Þó sá í sólarglennu á Arnarstapa. Gaf það göngumönnum von. Í hópnum voru 5 útlendingar, fjórðungur göngumanna og misvel búnir. Höfðu þeir mikinn áhuga á krafti Snæfellsjökuls og bráðnun jökla vegna hækkandi lofthita.
Þegar komið var á Jökulhálsinn, F570 keyrðum við inn í þoku og vonuðust bjartsýnustu menn eftir því að komast upp úr skýjunum, í sólina sem var í veðurkortunum. Undirbúningur hófst í rútunni og drukku menn fyrir ókomnum þorsta og komu orku í kroppinn. En þegar lagt var í gönguna kl. 11.40 sást að þokan var að þéttast. Fararstjórinn, Guðjón Benfield klæddist gulum buxum og vonuðust menn til að þetta væri ekki eina gula sjónin í ferðinni.
Gengið var eftir gljúpu hjarni alla leið og þegar komið var í 1.000 metra hæð þá mættu fyrstu rigningardroparnir okkur. Áfram var haldið og bætti í vindinn og úrkomuna. Svöruðu göngumenn því með betri klæðnaði. Ákveðið var að ganga aðeins lengur en sífellt bætti í. Því tók leiðangursstóri þá réttu ákvörðun að snúa við. Stundum þarf meira hugrekki til að snúa við en ana upp. Göngumenn voru þá í 1.071 metra hæð og 1,4 km eftir.
Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson
Þeir félagar Eggert og Bjarni gengu á Snæfellsjökul 1. júlí 1753 en til forna hét jökulinn einungis Snjófell og talinn vera hæsta fjall á Íslandi. Þeir höfðu með sér loftvogir, áttavita kvikasilfursmæli. Einnig sterka taug og slæður fyrir augun og njarðarvött.
"$422. Menn töldu fyrirætlun okkar, að ganga á jökulinn, fullkomna fífldirfsku. Það var meira að segja talið með öllu ókleyft af ýmsum sökum. Í fyrsta langi væri leiðin svo löng og fjallið bratt, svo að ókleyft væri, í öðru lagi væru sprungurnar í jöklinum ófærar yfirferðar öllum mönnum, og loks var fullyrt, að menn yrðu blindir af hinu sterka endurskini sólarljóssins á jöklinum"
Ekki urðum við blind eða hringluð en hundblaut og köld.
Göngumenn á niðurleið og hafði veður aðeins batnað. Það sér móta fyrir förum eftir snjóbil og vélsleða frá ferðaþjónustu Snjófells Arnarstapa.
Dagsetning: 7. júlí 2013
Hæð Miðþúfu: 1.446 m
GPS hnit á snúning: (N:64.48.643 - W:23.45.619) í 1.071 metra hæð.
Hæð í göngubyrjun: 561 metrar (N:64.48.253- W:23.41.954) hjá snjósleðaleigu.
Hækkun: 510 metrar (885 metrar)
Uppgöngutími: 120 mín (11:40 - 13:40) 3 km loftlína
Heildargöngutími: 180 mínútur (11:40 - 14:40) 3,6 km
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 7,2 km
Veður kl. 12 Gufuskálar: Alskýjað, S 9 m/s (10-13 m/s), 9,4 °C. Raki 73%
Veður kl. 12 Bláfeldur: Alskýjað, S 5 m/s (6-7 m/s), 9,2 °C. Raki 82%, skyggni 30 km.
Þátttakendur: Útivistarræktin, 20 manns með fararstjórum.
GSM samband: Nei, ekki hægt að senda SMS í byrjun.
Gönguleiðalýsing: Lagt frá snjósleðaleigu á Jökulháls. Gengið inn Hyrningsdal og stefnt á Þríhyrning. Þaðan tekin stefna á Jökulþúfur. Hjarn alla leið frá vegi og sökk fótur ofaní. Þungt færi. Ekki sást í jökulsprungur.
Heimildir
Ferðadagbók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar - http://handrit.is/is/manuscript/view/IB02-0008
RÚV - http://www.ruv.is/frett/snaefellsjokull-ad-hverfa
Snjófell - http://www.snjofell.is
Vatnajokull.com - http://www.vatnajokull.com/Snaefellsjokull/
Vísindavefur.is - http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=4704
Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull - http://ust.is/snaefellsjokull/
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.7.2013 | 21:47
Húsmúli (440 m)
Húsmúli er dyngja sem allir sjá á leið yfir Hellisheiði en fæstir vita um af því að múlinn fellur svo vel inn í umhverfið. Húsmúli er fell sem gengur suðvestur úr Henglinum og er í raun helmingur af fornri dyngju. Á kortum lítur Húsmúli út eins og skel á hvolfi.
Ekið eftir Suðurlandsvegi og beygt við Stóra-Reykjafell að virkjanasvæðinu. Farið frá innsta skála við Sleggjubeinsskarð að Þjófagili og því fylgt upp á Húsmúla. Í bakaleiðinni var komið við hjá Draugatjörn.
Eftir rúmlega háltíma göngu upp Þjófagil var komið upp á topp Húsmúla. Þaðan sást vel yfir dyngjuna. Gengin var hringur og eftir 5 km göngu komum við niður af múlanum að Draugatjörn. Við rústir sæluhússins var nestið tekið upp.
Draugatjörn og Húsmúlarétt er ein merkilegustu kennileiti á þessu svæði. Hin forna þjóðleið yfir Hellisheiði lá hér um og í árdaga var hér sæluhús sem var mjög reimt í. Sökum reimleika var sæluhúsið síðar flutt að Kolviðarhól árið 1844.
Ágætis sýn yfir Svínahraun og Hellisheiðarfjöll. Má nefna Skarðasmýrarfjall, Stóra-Sandfell, Geitafell, Lambafell, Blákoll og Vífilsfell. Einnig rafmagnslínur sem skera hraunið.
Útivistarrækin á toppi Húsmúla. Slegga til vinstri og hið orkumikla Stóra-Reykjafell til hægri.
Dagsetning: 3. júlí 2013
Hæð Húsmúla: 440 m
GPS hnit á kolli Húsmúla: (N:64.03.371 - W:21.22.647)
Lægsta gönguhæð: 265 metrar við Draugatjörn (N:64.03.020 - W:21.24.621)
Hæð í göngubyrjun: 315 metrar (N:64.02.898 - W:21.22.394) við Sleggjubeinsskarð
Hækkun: 125 metrar
Uppgöngutími: 35 mín (19:15 - 19:50) 900 loftlína
Heildargöngutími: 155 mínútur (19:15 - 21:50)
Erfiðleikastig: 1 skór
Vegalengd: 8 km
Veður kl. 21 Hellisheiði: Skýjað, SSA 4 m/s, 7,0 °C. Raki 78%
Þátttakendur: Útivistarræktin, 69 manns á 24 bílum.
GSM samband: Já, gott.
Gönguleiðalýsing: Lagt frá innsta skála við Sleggjubeinsskarð að Þjófagili og því fylgt upp á Húsmúla. Þægileg ganga á dyngjunni enda vel stikuð. Tilkomulítill múli með þjóðleiðir á aðra hönd og orkubú á hina. Hljóðmengun, sjónmengun og brennisteinsmengun á gönguleiðinni.
Heimildir:
Húsmúli - http://www.centrum.is/~ate/husmuli.htm
OR - http://www.or.is/sites/default/files/velkomin_a_hengilssvaedid_gonguleidir.pdf
Toppatrítl - http://www.toppatritl.org/ganga20100505.htm
Ferðalög | Breytt 5.7.2013 kl. 11:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.6.2013 | 14:34
Hvalaskoðun 1993
Hvalurinn hvílíkt tákn! Hann er eina spendýrið sem rúmast ekki innan mannlegrar lögsögu eina spendýrið sem við getum ekki haft í dýragarði. Hann er dýrið sem svamlar um heiminn eftir sínum risabrautum og hefur samskipti við frændur og frænkur með sínu heimullegu hljóðum og hann á ekki neitt undir mönnunum; hann er frjáls; hann er náttúran sem hefur gildi í sjálfri sér; hann er fagurt sköpunarverk, tröllaukinn leyndardómur, hann er fjarlægur og ræður því sjálfur hvenær hvernig hann birtist, og hann hlýtur að vita eitthvað sem við vitum ekki [Guðmundur Andri Thorsson, 2006]
Nú berast fregnir að því að langreyður sem er í útrýmingarhættu og veiddur á Íslandi er notaður í gæludýrafóður í Japan.
Aðgerðasinnar á vefsíðunni Avaaz.org eru að safna undirskriftum og þegar milljón verður náð ætla þeir að senda forsætisráðherra Hollands, Mark Rutte listann og biðja um banna flutning hvalkjöts í gegnum hollenskar hafnir.
Langreyðar eru töfrandi skepnur. En eftir nokkra daga mun yfir 180 af þessum skepnum í útrýmingarhættu verða slátrað af einum auðjöfri og félögum hans, sem eiga það sumaráhugamál að skutla þá, búta þá niður og að senda þá til Japans í gegnum Holland - til þess eins að búa til hundamat!
Rifjast þá upp fyrir mér hvalaskoðunarferð sem ég fór í fyrir 20 árum og sannaðist það sem ritað er hér í byrjun.
Fyrir 20 árum fór hópur danskra fuglaáhugamanna í hvalaskoðunarferð frá Höfn með Jöklaferðum. Eitt af afsprengjum Jöklaferða voru hvalaskoðunarferðir en þar vann fyrirtækið algert brautryðjendastarf. Ég fór óvænt í mína fyrstu hvalaskoðunarferð með Sigurði Ólafssyni SF 44 með danskan hóp í júlí sumarið 1993 og er sú ferð mér ógleymanleg. Hópurinn samanstóð af 24 fuglaáhugamönnum og höfðu þeir frétt af því að hægt væri að komast í hvalaskoðunarferð frá Hornafirði. Áhöfnin á Sigurði Ólafssyni var tilbúin að fara í ferðina þótt humarvertíð stæði yfir. Það hafði sést til hnúfubaka við Hrollaugseyjar og voru skipstjórar á öðrum bátum fúsir að veita upplýsingar. Síðar á árinu fóru fjórir hópar frá Discover The World í hvalaskoðunarferðir og heildarfjöldi 1993 var 150 manns. Hornafjörður var höfuðborg hvalaskoðunar á Íslandi á þessum árum.
Á síðasta ári fóru 175.000 manns í hvalaskoðun á Íslandi en enginn frá Höfn. Svona geta hlutirnir breyst og vaxið hratt.
Hnúfubakar eru í útrýmingarhættu en stofninn hefur vaxið. Norður-Atlantshafsstofninn talinn vera á bilinu 12.000 til 14.000 dýr.
http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=194840&pageId=2615022&lang=is&q=Ari
Frétt í ferðablaði DV 21. júlí 1993.
Greinar á horn.is um hvalaskoðun frá Hornafirði
http://web.archive.org/web/20030826144551/http://horn.is/pistill.php?ID=60
http://web.archive.org/web/20030826144702/http://horn.is/pistill.php?ID=62
3.5.2013 | 11:32
Fagradalsfjall (391 m)
Fagradalsfjall (391 m), vestasta fjallið í Reykjanesfjallgarðinum var heimsótt á baráttudegi verkalýðsins. Í fjallinu eru þrjú flugvélaflök frá seinni heimsstyrjöld. Markmiðið var að finna þau og minnast þess hversu vitlaus stríð eru.
Fagradalsfjall er fyrir norðaustan Grindavík. Það er fjalllendi með mörgum fjöllum af öllum stærðum og gerðum. Á kortum er það merkt mjög greinilega sem Fagradalsfjall en það fjall má telja sem kjarnann í þessu fjalllendi. Þau fjöll sem ganga út úr því bera einnig sín eigin nöfn.
Fagradalsfjall er myndað við gos undir jökli og flokkast undir s.k. stapa því gosið hefur á endanum náð upp úr íshellunni og náð að mynda hraun. Megingígurinn er nyrst á fjallinu þar sem það rís hæst. Þaðan hefur svo hraunið runnið til suðurs og er fjallið um 100 metrum lægra þar. Hæsti hlutinn heitir Langhóll og gægist 40 metra yfir hásléttuna.
Á föstudaginn, 3. maí kl. 16.20 verða 70 ár síðan B24D sprengiflugvél fórst í fjallinu. Í henni var æðsti yfirmaður herafla Bandríkjanna í Evrópu, hershöfðinginn Frank M. Andrews. Hann fórst þarna ásamt ásamt þrettán öðrum félögum sínum. Einn komst af.
Kastið vestan við Fagradalsfjall. Þar hafnaði B-24D "Hot Stuff" sprengiflugvélin. Sandhóll lúrir á bakvið.
Því leikur Fagradalsfjall, þó lágreist sé, nokkra sögu í heimssögunni. Síðar tók Dwight D. Eisenhower við yfirmannsstöðunni. Stjórnaði aðgerðum í Normandy og varð í kjölfarið 34. forseti Bandaríkjanna.
Menn hafa velt því fyrir sér hvernig Kalda stríðið hefði litið út ef Andrews hefði lifað af heimsóknina til Íslands og Fagradalsfjall verið aðeins lægra. Hann var miklu mildari maður, ekki eins kaldur og Ike.
Því er viðeigandi að ganga á Fagradalsfjall á köldum baráttudeginum, fyrsta maí, og minnast í kuldanum hermanna 28 sem létust þar í hildarleiknum.
Ekki gekk okkur vel að finna flugvélaflökin þrjú. En það mætti klárlega gera upplýsingaskilti á Suðurstrandarvegi fyrir framan fjallið sem segir þessa merkilegu sögu. Einnig gefa upp staðsetningarpunkta svo göngufólk geti fundið það sem eftir er af flökunum og rifjað upp atburði þessa og tilgangsleysi stríða.
Göngufólk getur fylgst með krafti náttúrunnar. Orðið vitni að því hvernig hún brytjar flökin niður í tímans tönn.
Útsýni yfir Reykjanesskagann er mjög gott af toppi Fagradalsfjalls, ofan af Langhól. Körfuboltabæirnir, Grindavík og Keflavík sjást vel ásamt minni þorpum. Einnig sér til höfuðborgarinnar og austur til Eyjafjallajökuls. Fjallaröðin, Keilir, Litlihrútur, Kistufell og Stórihrútur er glæsileg í návígi.
Dagsetning: 1. maí 2013
Hæð Fagradalsfjalls: 391 m
GPS hnit á Landmælingastöpli á toppi Fagradalsfjalls: (N:63.54.280 - W:22.16.379)
Hæð í göngubyrjun: 86 metrar (N:63.51.985 - W:22.19.162) við Suðurstrandarveg
Hækkun: 305 metrar
Uppgöngutími: 154 mín (11:58 - 14:32) 6 km loftlína, með leit að braki
Heildargöngutími: 320 mínútur (11:58 - 17:18)
Erfiðleikastig: 1 skór
Vegalengd: 14 km
Veður kl. 15 Grindavík: NNA 7 m/s, 1,2 °C. Raki 44%
Veður kl. 12 Grindavík: NNA 8 m/s, 0,5 °C. Raki 47%
Þátttakendur: Rannsóknar- og friðarferð, 4 alls í föruneyti
GSM samband: Já, en óstöðugt í dölum
Gönguleiðalýsing: Lagt frá Suðurstrandarvegi með stefnu á Kastið (2,2 km). Leitað að flugvélarflaki B-24. Síðan haldið upp á hásléttuna með stefnu á toppinn um mosavaxið móberg. Þaðan haldið niður í Drykkjarsteinsdal með stefnu á Stórahrút. Mikill uppblástur.
Heimildir:
Illugi Jökulsson: http://www.pressan.is/Frettir/Lesa_Illuga_utlondum/breytti-fagradalsfjall-ekki-bara--gangi-seinni-heimsstyrjaldar-heldur-lika-kalda-stridsins
Ferlir: http://www.ferlir.is/?id=6506
Ferlir: http://www.ferlir.is/?id=4185
Grétar William: http://gretarwilliam.wordpress.com/2007/10/24/fagradalsfjall-21-oktober-fundum-tvo-flugvelaflok-af-thremur/
Keilir: http://www.keilir.net/is/keilir/frettir/minningarathofn-um-andrews-hershofdingja
Heimildarmynd um B-24 Liberator, Andrews og flugslysið á Fagradalsfjalli [YouTube]
Toppatrítl: http://www.toppatritl.org/ganga20020501.htm
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 11:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.3.2013 | 11:38
Ísland og The Taking of Pelham 1 2 3 (5/10)
The Taking of Pelham 1 2 3 er Hollywood kvikmynd frá 2009. Leikstjóri er Tony Scott heitinn og helstu leikarar eru John Travolta og Denzel Washington. Þessi mynd er endurgerð eftir mynd frá 1974 og var sýnd á Ríkissjónvarpinu í gærkveldi.
Ísland kemur óvænt við sögu í gíslatökumáli en þá segir aðal söguhetjan frá ferðalagi til landsins árið 1998 með litháenskri rassfyrirsætu og jöklaferð á hundasleðum.
Ekki áttaði ég mig á samhenginu.
Í mistakasögu myndarinnar er sagt frá nokkrum mistökum í kvikmyndinni.
"Character mistake: Ryder says it takes 6 hours to fly to Iceland from New York. It takes less than 4."
Svo er hægt að sjá söguna um ferðalagið til Íslands á imdb. Ekki fannst mér myndin tilkomumikil og gef fimm stjörnur af tíu mögulegum. Sagan dularfulla um Ísland gerir hana minnisstæða.
13.3.2013 | 12:38
Text-Enhance fjarlægður
Viðbætur í vöfrurum eru öflug tól til að nýta kosti Netsins. Þær eru ekki allar jafn góðar viðbæturnar. Ein viðbótin er Text-Enhance eða auka-tenglar. En útsmognir tölvuþrjótar hafa komið þeim inn í vafrarann án samþykkis notanda. Flokkað sem browser hijacker.
Þessi viðbót er hvimleið og auglýsendur nýta hann eins og mögulegt er. Þetta lýsir sér þannig að tengill kemur í textann og ef ýtt er á hann, lendir maður á einhverri óumbeðinni síðu. Oftast eru þetta veðmálssíður eða stefnumótasíður.
Lausnin er að fjarlægja viðbótina. Einnig góðar leiðbeiningar hjá botcrawl.com. Hér er myndband sem sýnir hvernig hægt er að fjarlægja Text-Enhance úr Chrome.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.2.2013 | 20:52
Santi Cazorla
Þeir hlógu mikið frændurnir Ari Sigurpálsson og Ingiberg Ólafur Jónsson þegar leikmaður númer 19, Spánverjinn Santi Cazorla hljóp inn Emirates völlin fyrir leik gegn QPR. Hann er eins og álfur, sögðu þeir enda sérfróðir um álfa. Búnir að vera í Álfhólsskóla og annar í leikskólanum Álfaheiði. Auk þess hafa þeir búið í Álfaheiði.
Santi hefur ekki mikla hæð (1.65 m) en bætir það upp á öðrum sviðum. Í síðasta leik gegn Aston Villa skoraði hann tvö mörk og tryggði mikilvægan sigur. Seinna markið var Malaga-mark, en nýi vinstri bakvörðurinn nýkominn frá Malaga, Nacho Monreal gaf góða sendingu inn í teig og Santi stýrði knettinum í hornið. Hann slökkti á Aston Villa og sendi í fallsæti. Einnig létti sigurinn á pressunni á Wenger en gengi Arsenal hefur verið lélegt í bikar og Meistaradeild.
"Oh santi cazorla, oh santi cazorla", sungu stuðningsmenn Arsenal í megnið af leiknum.
Santiago Cazorla González kom til Arsenal í júlí frá Malaga fyrir 16 milljón pund en liðið þurfti að selja leikmenn til að grynnka á skuldum. Vakti hann strax athygli stuðningsmanna frá fyrstu mínútu fyrir hugmyndaríki í sendingum og öflug markskot.
Hann hafði orðið Evrópumeistari með Spáni 2012 og 2008 en miðjumennirnir Xavi, Fabregas og Iniesta skyggðu svo á hann að menn tóku ekki vel ekki eftir honum. Santi er leikmaðurinn sem kemur til með að fylla skarðið sem Fabregas skyldi eftir sig er hann hélt heim til Barcelona.
Hann fæddist í borginni Llanera í sjálfsstjórnarhéraðinu Asturias á norður Spáni 13. desember 1984 og er því 28 ára en það er góður knattspyrnualdur. Hann hóf ungur knattspyrnuferilinn með Oviedo sem er aðal liðið í héraðinu. Þaðan fór hann til Villarreal. Í millitíðinni lék hann með Recreativo de Huelva og var kosinn leikmaður ársins á Spáni. Þaðan hélt hann aftur til Gulu kafbátanna og á síðasta leiktímabili lék hann með Malaga Andalúsíu og náði liðið fyrsta skipti Meistaradeildarsæti.
Helsti styrkleiki Cazorla er að hann er jafnvígur á báðar fætur. Hann gefur hárnákvæmar sendingar og í hornspyrnum og aukaspyrnum er nákvæmni skota mikil. Hann hefur verið á báðum köntum og einnig sóknartengiliður. Hann er fimur, með mikla knattspyrnugreind og skapandi leikmaður. Hraði hans og fjölhæfni var þyrnir í augum varnarleikmanna í spænsku deildinni í 8 ár og nú hrellir hann enska varnarmenn stuðningsmönnum Arsenal til mikillar ánægju.
Þegar Ari Sigurpálsson heimsótti Emirates Stadium í haust var hann búinn að velja leikmann ársins.
Ari á japanskri sessu hjá sínum leikmanni#19, S. Cazorla.
10.2.2013 | 19:49
Er heilbrigðiskerfið að hrynja?
Hlustaði á Silfur Egils í dag eftir 60 mínútna göngu í Lífshlaupinu. Settist fullur af lífskrafti niður og hlustaði á álitsgjafa. Spurning dagsins hjá Agli var hvort heildbrigðiskerfið væri að molna niður. Benti Egill meðal annars á uppsagnir og neikvæðar fréttir um heilbrigðismál. Hjá sumum álitsgjöfum var eins og heimsendir væri í nánd en aðrir voru bjartsýnni.
Í 40 ár hef ég lesið blöð og fylgst með fréttum. Ég man ekki eftir tímabili í þessa fjóra áratugi án þess að einhverjar neikvæðar fréttir hafi komið frá heilbrigðisgeiranum. Léleg laun, léleg aðstaða og léleg stjórnun. Ávallt hafa verið uppsagnir heilbrigðisstarfsfólks til að ná fram kjarabót.
Ég tók því til minna ráða og leitaði upp nokkrar uppsagnafréttir í gegnum tíðina. Allt hefur þetta endað vel. Sjúkrahúsin hafa bjargað mannslífum á degi hverjum og þjóðin eldist.
Allir eru að taka á sig afleiðingar hrunsins 2008 og það má vera að það sé komið að þolmörkum hjá einhverjum hópum innan heilbrigðisgeirans en heilbrigðiskerfið er ekki að hrynja. Þessi söngur hefur áður heyrst.
Morgunblaðið | 30.04 2008 | þegar uppsagnir skurð- og svæfingarhjúkrunarfræðinga taka gildi 1. maí | |||||||
DV | 20.12.2003 | frestað Uppsagnir starfsmanna á Landspítala | |||||||
Fréttablaðið | 23.11.2002 | Annríki hefur verið mikið og bæjarfélög á Suðurnesjum hafa verið án læknis að mestu eftir uppsagnir lækna þar. | |||||||
DV | 15.04.2002 | uppsagnir lækna | |||||||
Morgunblaðið | 20.10.2001 | Uppsagnir sjúkraliða eru mikið áhyggjuefni og því verður að vinna að lausn kjaradeilunnar | |||||||
Morgunblaðið | 03.11 1998 | Uppsagnir meinatækna á rannsóknarstofum Landspítalans í blóðmeina- og meinefnafræði | |||||||
Morgunblaðið | 20.05.1998 | Ríkisspítala og hjá Sjúkrahúsi Reykjavíkur, en um 65% þeirra hafa sagt upp starfi | |||||||
Tíminn | 02.02.1993 | Hjúkrunarfræðingar og ljósmæður drógu uppsagnir sínar til baka | |||||||
Þjóðviljinn | 26.08.1986 | Sjúkraþjálfar Uppsagnir framundan Yfirlýsing frá sjúkraþjálfum | |||||||
Morgunblaðið | 19.05.1982 | uppsagnir lagðar formlega fram | |||||||
Tíminn | 02.10.1976 | hjúkrunarfræðinga hjá Landakotsspítala og Borgarspítala, en það reyndist ekki unnt. Uppsagnir hjúkrunarfræðinga | |||||||
Vísir | 04.04.1966 | Læknarnir sögðu sem kunnugt er upp í nóvember og desember og áttu uppsagnir þeirra að taka gildi í febrúar og marz |
Eins og sjá má, þá tók ég af handahófi 12 fréttir á þessum fjórum áratugum. Alltaf er þetta sama sagan. Heilbrigðisþjónustan snýst nú samt.
En það sem þarf að ráðast í er að efla forvarnir. Fá fólk til að hreyfa sig. Minnka sykurát þjóðarinnar en sykursýki 2 er tifandi tímasprengja. Einnig er þjóðin yfir kjörþyngd. Þessi flóðbylgja á eftir að kalla á fleiri lækna og meiri kostnað. Því þarf þjóðin að hugsa sinn gang, annars hrynur heilbrigðiskerfið.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 19:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.1.2013 | 23:48
HotBotaðu bara
"Googlaðu bara" er algeng setning í daglegu máli nú til dags.
Ég kíkti í Tölvuheim frá árinn 1998 og þar var grein, Heimsmeistarakeppnin í upplýsingaleit - Bestu leitarvélarnar.
Leitarvélin HotBoot drottnaði yfir markaðnum. AltaVista rokkaði og Yahoo býsna klár. Brittanica var menningarlegasta leitarvélin, LookSmart vefskráin öflug og Lycos bland í poka. Excite pirraði leitarmenn, InfoSeek misheppnuð. WebCrawler meingölluð. En þessar leitarvélar höfðu sína kosti og galla.
Síðar á þessu herrans ári þróuðu Larry Page og Sergey Brin leitarvél sem fékk nafnið Google og allir þekkja í dag. Spurningin er ef þeir hefðu ekki komið til sögunnar, myndum við segna "Hotbotaðu bara"?
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.12.2012 | 15:01
Jöklunum blæðir
Í nýlegri skýrslu, SVALI, en hún er norrænt rannsóknarverkefni kemur fram að Íslensku jöklarnir þynnast nú um u.þ.b. 1 m á ári að meðaltali. Það jafngildir 9,5 km³ vatns á ári og leggja þeir um 0,03 mm árlega til heimshafanna.
Samkvæmt skýrslunni hafa jöklar við Norður-Atlantshaf hopað og þynnst hratt síðustu árin eins og raunin er með jökla víðast hvar á jörðinni.
Á ferð minni undir Öræfajökli tók ég mynd af Hólarjökli en hann er lítill skriðjökull úr risanum og fóðrar lítinn foss og litla á.
Helstu orsakir bráðnunarinnar er tilkoma gróðurhúsaahrifa. Helstu áhrif gróðurhúsaárhrifa eru:
1) Útstreymi gróðurhúsalofttegunda
2) Minnkun lífmassa á jörðu með eyðingu frumskóga.
Því ættu stjórnvöld, einstaklingar og fyrirtæki að setja áramótaheit. Minnka gróðurhusaáhrif og vinna að sjálfbærni.
Mynd tekin 30. desember 2012. Rýrnunin á milli tveggja ára er augljós, jöklarnir bráðna sem aldrei fyrr.
Mynd tekin 29. desember 2010.
Sjá:
Hólárjökull 2007 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/259538/
Hólárjökull 2008 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/611572/
Hólárjökull 2009 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/911196/
Hólárjökull 2011 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1192311/
Hólárjökull 2012 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1253486/
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 1
- Sl. sólarhring: 7
- Sl. viku: 51
- Frá upphafi: 233613
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 47
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar