Text-Enhance fjarlægður

Viðbætur í vöfrurum eru öflug tól til að nýta kosti Netsins. Þær eru ekki allar jafn góðar viðbæturnar. Ein viðbótin er Text-Enhance eða auka-tenglar.  En útsmognir tölvuþrjótar hafa komið þeim inn í vafrarann án samþykkis notanda. Flokkað sem browser hijacker.

Þessi viðbót er hvimleið og auglýsendur nýta hann eins og mögulegt er.  Þetta lýsir sér þannig að tengill kemur í textann og ef ýtt er á hann,  lendir maður á einhverri óumbeðinni síðu. Oftast eru þetta veðmálssíður eða stefnumótasíður.

Lausnin er að fjarlægja viðbótina.  Einnig góðar leiðbeiningar hjá botcrawl.com. Hér er myndband sem sýnir hvernig hægt er að fjarlægja Text-Enhance úr Chrome.


Santi Cazorla

Þeir hlógu mikið frændurnir Ari Sigurpálsson og Ingiberg Ólafur Jónsson þegar leikmaður númer 19, Spánverjinn Santi Cazorla hljóp inn Emirates völlin fyrir leik gegn QPR.  „Hann er eins og álfur“, sögðu þeir enda sérfróðir um álfa. Búnir að vera í Álfhólsskóla og annar í leikskólanum Álfaheiði. Auk þess hafa þeir búið í Álfaheiði.

Santi CazorlaSanti hefur ekki mikla hæð (1.65 m) en bætir það upp á öðrum sviðum.  Í síðasta leik gegn Aston Villa skoraði hann tvö mörk og tryggði mikilvægan sigur. Seinna markið var Malaga-mark, en nýi vinstri bakvörðurinn nýkominn frá Malaga, Nacho Monreal gaf góða sendingu inn í teig og Santi stýrði knettinum í hornið.  Hann slökkti á Aston Villa og sendi í fallsæti. Einnig létti sigurinn á pressunni á Wenger en gengi Arsenal hefur verið lélegt í bikar og Meistaradeild. 

"Oh santi cazorla, oh santi cazorla", sungu stuðningsmenn Arsenal í megnið af leiknum.

Santiago Cazorla González kom til Arsenal í júlí frá Malaga fyrir 16 milljón pund en liðið þurfti að selja leikmenn til að grynnka á skuldum. Vakti hann strax athygli stuðningsmanna frá fyrstu mínútu fyrir hugmyndaríki í sendingum og öflug markskot.

Hann hafði orðið Evrópumeistari með Spáni 2012 og 2008 en miðjumennirnir Xavi, Fabregas og Iniesta skyggðu svo á hann að menn tóku ekki vel ekki eftir honum.  Santi er leikmaðurinn sem kemur til með að fylla skarðið sem Fabregas skyldi eftir sig er hann hélt heim til Barcelona.

Hann fæddist í borginni Llanera í sjálfsstjórnarhéraðinu Asturias á norður Spáni 13. desember 1984 og er því 28 ára en það er góður knattspyrnualdur. Hann hóf ungur knattspyrnuferilinn með Oviedo sem er aðal liðið í héraðinu. Þaðan fór hann til  Villarreal.  Í millitíðinni lék hann með Recreativo de Huelva og var kosinn leikmaður ársins á Spáni. Þaðan hélt hann aftur til Gulu kafbátanna og á síðasta leiktímabili lék hann með Malaga Andalúsíu og náði liðið fyrsta skipti Meistaradeildarsæti.

Helsti styrkleiki Cazorla er að hann er jafnvígur á báðar fætur. Hann gefur hárnákvæmar sendingar og í hornspyrnum og aukaspyrnum er nákvæmni skota mikil. Hann hefur verið á báðum köntum og einnig sóknartengiliður. Hann er fimur,  með mikla knattspyrnugreind og skapandi leikmaður. Hraði hans og fjölhæfni var þyrnir í augum varnarleikmanna í spænsku deildinni í 8 ár og nú hrellir hann enska varnarmenn stuðningsmönnum Arsenal til mikillar ánægju.

Þegar Ari Sigurpálsson heimsótti Emirates Stadium í haust var hann búinn að velja leikmann ársins.

Santi Cazorla og Ari

Ari á japanskri sessu hjá sínum leikmanni#19, S. Cazorla.


Er heilbrigðiskerfið að hrynja?

Hlustaði á Silfur Egils í dag eftir 60 mínútna göngu í Lífshlaupinu. Settist fullur af lífskrafti niður og hlustaði á álitsgjafa.  Spurning dagsins hjá Agli var hvort heildbrigðiskerfið væri að molna niður. Benti Egill meðal annars á uppsagnir og neikvæðar fréttir um heilbrigðismál. Hjá sumum álitsgjöfum var eins og heimsendir væri í nánd en aðrir voru bjartsýnni.

Í 40 ár hef ég lesið blöð og fylgst með fréttum. Ég man ekki eftir tímabili í þessa fjóra áratugi án þess að einhverjar neikvæðar fréttir hafi komið frá heilbrigðisgeiranum. Léleg laun, léleg aðstaða og léleg stjórnun. Ávallt hafa verið uppsagnir heilbrigðisstarfsfólks til að ná fram kjarabót.

Ég tók því til minna ráða og leitaði upp nokkrar uppsagnafréttir í gegnum tíðina. Allt hefur þetta endað vel. Sjúkrahúsin hafa bjargað mannslífum á degi hverjum og þjóðin eldist.

Allir eru að taka á sig afleiðingar hrunsins 2008 og það má vera að það sé komið að þolmörkum hjá einhverjum hópum innan heilbrigðisgeirans en heilbrigðiskerfið er ekki að hrynja. Þessi söngur hefur áður heyrst. 

          
Morgunblaðið30.04 2008þegar uppsagnir skurð- og svæfingarhjúkrunarfræðinga taka gildi 1. maí   
DV20.12.2003frestað Uppsagnir starfsmanna á Landspítala     
Fréttablaðið23.11.2002Annríki hefur verið mikið og bæjarfélög á Suðurnesjum hafa verið án læknis að mestu eftir uppsagnir lækna þar.
DV15.04.2002uppsagnir lækna       
Morgunblaðið20.10.2001Uppsagnir sjúkraliða eru mikið áhyggjuefni og því verður að vinna að lausn kjaradeilunnar  
Morgunblaðið03.11 1998Uppsagnir meinatækna á rannsóknarstofum Landspítalans í blóðmeina- og meinefnafræði 
Morgunblaðið20.05.1998Ríkisspítala og hjá Sjúkrahúsi Reykjavíkur, en um 65% þeirra hafa sagt upp starfi  
Tíminn02.02.1993Hjúkrunarfræðingar og ljósmæður drógu uppsagnir sínar til baka   
Þjóðviljinn26.08.1986Sjúkraþjálfar Uppsagnir framundan Yfirlýsing frá sjúkraþjálfum    
Morgunblaðið19.05.1982uppsagnir lagðar formlega fram      
Tíminn02.10.1976hjúkrunarfræðinga hjá Landakotsspítala og Borgarspítala, en það reyndist ekki unnt. Uppsagnir hjúkrunarfræðinga
Vísir04.04.1966Læknarnir sögðu sem kunnugt er upp í nóvember og desember og áttu uppsagnir þeirra að taka gildi í febrúar og marz

Eins og sjá má, þá tók ég af handahófi 12 fréttir á þessum fjórum áratugum. Alltaf er þetta sama sagan. Heilbrigðisþjónustan snýst nú samt.

En það sem þarf að ráðast í  er að efla forvarnir. Fá fólk til að hreyfa sig. Minnka sykurát þjóðarinnar en sykursýki 2 er tifandi tímasprengja. Einnig er þjóðin yfir kjörþyngd. Þessi flóðbylgja á eftir að kalla á fleiri lækna og meiri kostnað. Því þarf þjóðin að hugsa sinn gang, annars hrynur heilbrigðiskerfið.


HotBotaðu bara

"Googlaðu bara" er algeng setning í daglegu máli nú til dags.

Ég kíkti í Tölvuheim frá árinn 1998 og þar var grein, Heimsmeistarakeppnin í upplýsingaleit - Bestu leitarvélarnar.

Leitarvélin HotBoot drottnaði yfir markaðnum. AltaVista rokkaði og Yahoo býsna klár.  Brittanica var menningarlegasta leitarvélin, LookSmart vefskráin öflug og Lycos bland í poka.  Excite pirraði leitarmenn, InfoSeek misheppnuð. WebCrawler meingölluð. En þessar leitarvélar höfðu sína kosti og galla.

Síðar á þessu herrans ári þróuðu Larry Page og Sergey Brin leitarvél sem fékk nafnið Google og allir þekkja í dag. Spurningin er ef þeir hefðu ekki komið til sögunnar, myndum við segna "Hotbotaðu bara"?


Jöklunum blæðir

Í nýlegri skýrslu, SVALI, en hún er norrænt rannsóknarverkefni kemur fram að Íslensku jöklarnir þynnast nú um u.þ.b. 1 m á ári að meðaltali. Það jafngildir 9,5 km³ vatns á ári og leggja þeir um 0,03 mm árlega til heimshafanna. 

Samkvæmt skýrslunni hafa jöklar við Norður-Atlantshaf hopað og þynnst hratt síðustu árin eins og raunin er með jökla víðast hvar á jörðinni.

Á ferð minni undir Öræfajökli tók ég mynd af Hólarjökli en hann er lítill skriðjökull úr risanum og fóðrar lítinn foss og litla á. 

Helstu orsakir bráðnunarinnar er tilkoma gróðurhúsaahrifa. Helstu áhrif gróðurhúsaárhrifa eru:

1)   Útstreymi gróðurhúsalofttegunda
2)   Minnkun lífmassa á jörðu með eyðingu frumskóga.  

Því ættu stjórnvöld, einstaklingar og fyrirtæki að setja áramótaheit. Minnka gróðurhusaáhrif og vinna að sjálfbærni.

30122012

Mynd tekin 30. desember 2012.  Rýrnunin á milli tveggja ára er augljós, jöklarnir bráðna sem aldrei fyrr.

29122010

Mynd tekin 29. desember 2010.

Sjá:
Hólárjökull 2007 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/259538/
Hólárjökull 2008 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/611572/
Hólárjökull 2009 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/911196/

Hólárjökull 2011 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1192311/

Hólárjökull 2012 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1253486/


Theo Walcott - fer hann?

Framundan eru áramót og þá opnast leikmannagluggi. Stóra spurningin hjá Arsenal mönnum er, fer Theo Walcott eða skrifar hann undir nýjan samning. Skrifi hann ekki undir samning, þá verður hann seldur í janúarglugganum.

Enginn er ómissandi, það hefur sést en Walcott hefur verið að sækja í sig veðrið og síðasta keppnistímabil hans besta. Auk þess enskur að þjóðerni og yngsti leikmaður sem leikið hefur landsleik fyrir England.

Ray Parlour fyrrur leikmaður Arsenal ræddi við okkur um leikmannamál í afmælishófi Arsenal-klúbbsins á Emirates Stadium og hans niðurstaða var að Walcott myndi fara um áramótin. Hann fái ekki eins mikil laun og önnur illa rekin knattspyrnulið bjóða. Heimildir herma að launin séu £70,000 á viku en krafan er £100,000. 

Walcott hefur staðið sig áægtlega það sem komið er af þessu tímabili og skorað nokkur góð mörk en hann vill leiða sóknina en ekki vera úti á kanti en þar nýtist hraði hans vel. Hann hefur hins vegar vermt varamannabekkinn og ein ástæðan er sú að samningaviðræður standa yfir. Það er ekki hægt að byggja sóknarleikinn á manni sem er hugsanlega að yfirgefa liðið.

Ég vona hins vegar að innanbúðarmaðurinn Parlour hafi rangt fyrir sér. Walcott og umboðsmaður hans horfi til bjartrar framtíðar Arsenal og ég trúi því að Walcott verði einn af burðarásum liðsins í framtíðinni.

Vona að Walcott verði í stuði í dag gegn Fulham og setji mark sitt á leikinn. En í síðasta leik gegn Schalke 04 var hann í fyrsta skipti í byrjunarliði og skoraði fyrsta mark leiksins og var næstum búin að setja einn í blálokin. Einnig skoraði hann þrennu gegn Reading í stórfenglegum leik.

Walcott Chamberlain

Félagarnir frá Southampton, Walcott og Chamberlain eru samrýmdir. Frimpong (26) er næstur. Fremstur er stuðningsmaðurinn Ari Sigurpálsson í búningsklefa Arsenal á Emirates Stadium en umgjörðin er japönsk. En stjórinn Wenger hefur sótt mikið af humyndafræði sinni til Japans eftir að hafa búið þar um tíma. Leikmenn hafa skápa eftir því ákveðnu kerfi og athygli vakti að hvöss horn eru ekki í boði, heldur eru hornskáparnir ávalir.


Sigur Rós á Airwaves

Mætti með Særúnu á fyrstu tónleika Sigur Rósar í fjögur ár hér á landi á Airwaves hátíðinni. Um sjö þúsund manns voru mættir og margir erlendir aðdáendur sveitarinnar. Flestir með iPad og í lopapeysum.

Salurinn rólegur, prúður, kurteis.

Eftir klukkutíma upphitun og sama lagið sem var orðið leiðigjarnt, þá birtust goðin ásamt aðstoðarfólki, bakröddum og lúðrasveit. Það er allataf mikil veisla þegar Sigur Rós stígur á svið.

Fyrsta lagið hófst rólega en svo kom sprengja, vá. Hvílík snilld og gæðsahúð spratt fram. Sveitin var á bakvið tjald og birtust dulúðlega myndir á því. Eftir þrú lög féll tjaldið og sást þá sveitin vel. Litskrúðugt svið tók við með 180 gráðu tjaldi fyrir ofan og gaf lögunum meiri dýpt.

Boðið var upp á 90 mínútna tónleika með mikið af gömlu góðu lögunum, m.a. Glósóla og Hoppipolla, ásamt lögum af Valtara. Þó vantaði fyllingu í sum lögin, eins og hljóðið skilaði sér ekki. Í lokin kom æðilslegt lokalag með miklum ljósum og flæðandi tónum. Svo henti Jónsi fiðlustrengnum út í sal. Magnaður endir.

Þrisvar sinnum gæsahúð.

Eftir uppklapp komu þrjú lög, Fjögur píanó var eitt af þeim og kom vel út. Eitt nýtt lag sem ekki hefur heyrst áður. Það er mjög rokkað og minnti á U2 á tímabili. Brennisteinn heitir það. Það á eftir að gera góða hluti og ef restin af lögunum á plötunni verður í sama stíl, verður hún þrælþétt og góð.

En eins og Jónsi söng í laginu, Viðrar vel til loftárása,  "það besta sem guð hefur skapað er nýr dagur". Þetta var góður dagur og vonandi verður morgundagurinn eins.

Sigur Rós 2006

Mynd tekin á ógleymanlegum tónleikum í Öxnadal sumarið 2006.


Arsenal-klúbburinn í afmælisferð

Hún var fjölmenn 30 ára afmælisferð Arsenal-klúbbsins á Íslandi til Lundúna. Um 250 manns voru á leiknum á laugardaginn við QPR.  Ég skellti mér með og tók Ara litla með. 

Arsenal hafði dottið niður eftir landsleikjahlé og er það algengt mein. Tapað tveim leikjum gegn Norwich og Schalke 04.  Blöð í Englandi töluðu um að það vantaði leiðtoga í liðið.

Og leiðtoginn mætti í leikinn. Jack Wilshere lék sinn fyrsta leik í 523 daga. Fyrirsagnir blaðanna voru á þessum nótum:  "Welcome back Jack", enda enskur landsliðsmaður.

Wilshere stóð sig vel og var einn besti maður Arsenal en markvörður QPR Julio Cesar hélt sínum mönnum inni í leiknum með góðum markvörslum. 

Leikurinn var daufur en pressan og stemmingn á Emirates Stadium í kaldri golunni jókst sífellt þegar á leikinn leið.  Þegar Stephane Mbia sparkaði sig úr leiknum, þá vissi maður að markið myndi koma.  Spánverjinn og vinur okkar Arteta sá um það á 84. mínútu. 

Tveim dögum fyrr var afmælisfagnaður Arsenal-klúbbsins haldinn á Emirates, á Dial Square veitingastaðnum en þegar liðið var stofnað 1886 unnu leikmenn liðsins í Dial Square vopnaverksmðjunni í London.  Þá birtist tákn á lofti sem menn áttu að nýta sér í veðmálum. Baskinn Arteta flutti ávarp fyrir hönd leikmanna liðsis og þakkaði okkur stuðninginn.

Auðvitað skoraði hann sigurmarkið.  

Eftir leikinn kom hópurinn saman á leikvellinum og heilsuðu tveir leikmenn upp á hópinn. Það voru ekki neinir smákóngar sendir til okkar. Fyrirliðinn Thomas Vermaelen og Mikel Arteta heiðruðu okkur.   Arteta var maður ferðarinnar. 

Arsenal QPR 

Staðan stuttu eftir mark Mikel Arteta en það gerðist mikið næstu mínúturnar. Tíminn var fljótur að líða á Emirates Stadium.  


Súrrealískt landslag

Græni hryggur í Sveinsgili í Friðlandi að Fjallabaki er einstök náttúrusmíð. Hann verður að vernda.

Í ólýsanlegri ferð um Friðland að Fjallabaki með Ferðafélagi Árnesinga var ég svo heppinn að berja náttúruundrið augum.  Græni hryggurinn, sem fáir vissu um þar til fyrir örfáum árum, liggur eins og risastór gota, wasabi grænn og við hliðina á honum er annar minni hryggur, kanil litaður.

Sú hugsun skýtur upp hvort þessi undur og stórmerki væru enn til ef svæðið væri ekki svo afskekkt og fáfarið sem raunin er.  Fyrir aðeins þremur árum voru það aðeins fjársmalar sem höfðu barið hann augum, en engir ferðamenn áttu leið um þetta torfæra og vandrataða svæði.

Ég kenndi í brjóst um ósnortið landið. Fáir höfðu verið á göngu þarna og ekki sást móta fyrir göngustígum. Því sáust spor okkar á leiðinni upp í Hattver. Við vorum því eins og tunglfarar. Sú hugsun skaut upp í kollinum að takmarka þurfi aðgang og fá leyfi rétt eins og í þjóðgörðum víða um heim.

Skaparinn hefur verið í stuði þegar hann mótaði landslag í Friðlandinu. En náttúruvísindamenn hafa líta á hlutina með öðrum augum. Hér er efnafræðileg skýring á jarðmyndununum og er hún miklu órómantískari.

"Litskrúð og form fjallana er aðall Landmannalauga og umhverfi þeirra. Hvergi á landinu eru víðáttumeiri líparítmyndanir og hvergi kraumar jarðhitinn af meiri ákafa, nema ef vera skyldi undir íshellu Grímsvatna. Líparít og ummyndað berg spanna í sameiningu allt litróf hinna mildu jarðarlita. Kolsvört hrafntinna og hvítur líparítvikur, sama efnið í tveimur myndunum, eru skörpustu andstæðurnar. Á milli eru gulir, grænir, grábláir, brúnir og rauðir litir ummyndaðia bergsins og kringum gufuaugun er hveraleirinn í mörgum litatónum.

Litadýrðin við hverina stafar af því að í vatninu og gufunni er koltvísýringur (CO2) og brennisteinsvetni (H2S) og þegar brennisteinsvetnið tekur til sín súrefni myndast brennisteinssýra. Hitinn og sýran moðsjóða bergið og þá verður til leir en ýmis tilfallandi efnasambönd kalla litina fram. Hvítar útfellingar eru hverahrúður og gips en þær gulu eru brennisteinn. Brúnn og rauðleitur leir tekur lit sinn af járnoxíðum en sá grái af samböndum járns og brennisteins." (362)

 Græni Hryggurinn

Einstök litaflóra. Efast um að súrrealískir landslagsmálarar hafi dottið niður á þessa litasamsetningu.

Jökulsá  í Sveinsgili

Íslensk göngumær á leið yfir kalda jökulá. Helsta hindrunin að Græna hrygg er köld jökulá sem á uppruna sinn í Torfajökli. Hún getur orðið mikið forað í sumarhitum. Það þurfi að fara fimm sinnum yfir ána á leiðinni frá Kirkjufelli í gegnum Halldórsgil.  Vegalengd 7 km.

Heimildir:
Perlur í náttúru Íslands, Guðmundur Páll Ólafsson


Sandfell (390 m) í Kjós

Það lætur ekki mikið yfir sér Sandfellið í Kjós. Helst að maður taki eftir því þegar maður ekur Mosfellsdal og inn Kjósarskarð.

Fellið er dæmigert Sandfell en þau eru mörg fellin sem bera þetta nafn.

Sandfell rís um 130 metra yfir umhverfið og hefur myndast við gos undir jökli fyrir um 50.000 árum eða svo. Er það móbergsfjall sem hefur haldið nokkuð lögun sinni þrátt fyrir að hafa myndast á tímum elds og ísa.

Á leiðinni sér í gamla þjóðleið, Svínaskarðsveg sem liggur úr Kollafirði og yfir í Hvalfjörð.

Það sem er heillandi við ágústgöngur eru berin. Berjaspretta var ágæt í Kjósinni. Bláber og krækiber töfðu göngufólk og voru göngumenn fullir af andoxunarefnum eftir að hafa tínt í sig ofurfæði úr náttúru Íslands.

Bláberin verja frumur líkamans fyrir skemmdum af völdum sindurefna. Lífið er stöðug barátta góðs og ills.

Lítið útsýnisfjall. Víðsýnt er yfir Kjósina. Meðalfell er helsta fjallið í austurátt og falleg Laxáin sem rennur í bugðum í Hvalfjörðinn. Síðan sér í Hvalfjörð, lágreist Írafell sem þekkt er fyrir drauginn Írafellsmóra, Skálafell og Trana í suðri. Esjan norðanverð tekur mikið pláss. Hægt að sjá hæstu tinda Skarðsheiðar.

Dagsetning: 22. ágúst 2012
Hæð Sandfells: 390 m
GPS hnit varða á toppi Sandfells: (N:64.18.462 - W:21.27.602)
Hæð í göngubyrjun:  63 metrar (N:64.18.699 - W:21.29.920) við Vindás
Hækkun: 327 metrar          
Uppgöngutími: 60 mín (19:22 - 21:22) – 2 km loftlína
Heildargöngutími: 128 mínútur (19:22 - 21:30)
Erfiðleikastig: 1 skór
Vegalengd:  4,5 km
Veður kl. 21 Þingvellir
: Skúrir, áttleysa 0 m/s, 11,7 °C. Raki 86%
Þátttakendur: Útivist, 26 þátttakendur
GSM samband:  Já
Sandfell:  (23) M.a. Sandfell við Þingvallavatn og Sandfell við Sandskeið.

Gönguleiðalýsing: Lagt af stað frá Kjósarvegi rétt sunnan við bæinn Víndás og gengið yfir mýri upp á kjarri vaxinn stall sem skyggir á Sandfellið. Þegar upp á stallinn er komið sér í fellið og gengið að rótum þess. Hækkun frá rótum að toppi um 130 metrar. Létt uppganga en ber að varast lausagrjót á móbergsklöppinni.

Sandfell í Kjós

Við rætur Sandfells í Kjós. Fellið gnæfir 130 metra yfir umhverfið.

 Á toppi Sandfells í Kjós

Myndaleg varða á toppi Sandfells. Skálafell og Trana í baksýn.

Heimildir
Toppatrítl, Sandfell í Kjós 25. maí 2005


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.7.): 4
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 295
  • Frá upphafi: 236821

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 242
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband