10.11.2012 | 11:52
Theo Walcott - fer hann?
Framundan eru áramót og þá opnast leikmannagluggi. Stóra spurningin hjá Arsenal mönnum er, fer Theo Walcott eða skrifar hann undir nýjan samning. Skrifi hann ekki undir samning, þá verður hann seldur í janúarglugganum.
Enginn er ómissandi, það hefur sést en Walcott hefur verið að sækja í sig veðrið og síðasta keppnistímabil hans besta. Auk þess enskur að þjóðerni og yngsti leikmaður sem leikið hefur landsleik fyrir England.
Ray Parlour fyrrur leikmaður Arsenal ræddi við okkur um leikmannamál í afmælishófi Arsenal-klúbbsins á Emirates Stadium og hans niðurstaða var að Walcott myndi fara um áramótin. Hann fái ekki eins mikil laun og önnur illa rekin knattspyrnulið bjóða. Heimildir herma að launin séu £70,000 á viku en krafan er £100,000.
Walcott hefur staðið sig áægtlega það sem komið er af þessu tímabili og skorað nokkur góð mörk en hann vill leiða sóknina en ekki vera úti á kanti en þar nýtist hraði hans vel. Hann hefur hins vegar vermt varamannabekkinn og ein ástæðan er sú að samningaviðræður standa yfir. Það er ekki hægt að byggja sóknarleikinn á manni sem er hugsanlega að yfirgefa liðið.
Ég vona hins vegar að innanbúðarmaðurinn Parlour hafi rangt fyrir sér. Walcott og umboðsmaður hans horfi til bjartrar framtíðar Arsenal og ég trúi því að Walcott verði einn af burðarásum liðsins í framtíðinni.
Vona að Walcott verði í stuði í dag gegn Fulham og setji mark sitt á leikinn. En í síðasta leik gegn Schalke 04 var hann í fyrsta skipti í byrjunarliði og skoraði fyrsta mark leiksins og var næstum búin að setja einn í blálokin. Einnig skoraði hann þrennu gegn Reading í stórfenglegum leik.
Félagarnir frá Southampton, Walcott og Chamberlain eru samrýmdir. Frimpong (26) er næstur. Fremstur er stuðningsmaðurinn Ari Sigurpálsson í búningsklefa Arsenal á Emirates Stadium en umgjörðin er japönsk. En stjórinn Wenger hefur sótt mikið af humyndafræði sinni til Japans eftir að hafa búið þar um tíma. Leikmenn hafa skápa eftir því ákveðnu kerfi og athygli vakti að hvöss horn eru ekki í boði, heldur eru hornskáparnir ávalir.
5.11.2012 | 01:18
Sigur Rós á Airwaves
Mætti með Særúnu á fyrstu tónleika Sigur Rósar í fjögur ár hér á landi á Airwaves hátíðinni. Um sjö þúsund manns voru mættir og margir erlendir aðdáendur sveitarinnar. Flestir með iPad og í lopapeysum.
Salurinn rólegur, prúður, kurteis.
Eftir klukkutíma upphitun og sama lagið sem var orðið leiðigjarnt, þá birtust goðin ásamt aðstoðarfólki, bakröddum og lúðrasveit. Það er allataf mikil veisla þegar Sigur Rós stígur á svið.
Fyrsta lagið hófst rólega en svo kom sprengja, vá. Hvílík snilld og gæðsahúð spratt fram. Sveitin var á bakvið tjald og birtust dulúðlega myndir á því. Eftir þrú lög féll tjaldið og sást þá sveitin vel. Litskrúðugt svið tók við með 180 gráðu tjaldi fyrir ofan og gaf lögunum meiri dýpt.
Boðið var upp á 90 mínútna tónleika með mikið af gömlu góðu lögunum, m.a. Glósóla og Hoppipolla, ásamt lögum af Valtara. Þó vantaði fyllingu í sum lögin, eins og hljóðið skilaði sér ekki. Í lokin kom æðilslegt lokalag með miklum ljósum og flæðandi tónum. Svo henti Jónsi fiðlustrengnum út í sal. Magnaður endir.
Þrisvar sinnum gæsahúð.
Eftir uppklapp komu þrjú lög, Fjögur píanó var eitt af þeim og kom vel út. Eitt nýtt lag sem ekki hefur heyrst áður. Það er mjög rokkað og minnti á U2 á tímabili. Brennisteinn heitir það. Það á eftir að gera góða hluti og ef restin af lögunum á plötunni verður í sama stíl, verður hún þrælþétt og góð.
En eins og Jónsi söng í laginu, Viðrar vel til loftárása, "það besta sem guð hefur skapað er nýr dagur". Þetta var góður dagur og vonandi verður morgundagurinn eins.
Mynd tekin á ógleymanlegum tónleikum í Öxnadal sumarið 2006.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 13:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.10.2012 | 23:40
Arsenal-klúbburinn í afmælisferð
Hún var fjölmenn 30 ára afmælisferð Arsenal-klúbbsins á Íslandi til Lundúna. Um 250 manns voru á leiknum á laugardaginn við QPR. Ég skellti mér með og tók Ara litla með.
Arsenal hafði dottið niður eftir landsleikjahlé og er það algengt mein. Tapað tveim leikjum gegn Norwich og Schalke 04. Blöð í Englandi töluðu um að það vantaði leiðtoga í liðið.
Og leiðtoginn mætti í leikinn. Jack Wilshere lék sinn fyrsta leik í 523 daga. Fyrirsagnir blaðanna voru á þessum nótum: "Welcome back Jack", enda enskur landsliðsmaður.
Wilshere stóð sig vel og var einn besti maður Arsenal en markvörður QPR Julio Cesar hélt sínum mönnum inni í leiknum með góðum markvörslum.
Leikurinn var daufur en pressan og stemmingn á Emirates Stadium í kaldri golunni jókst sífellt þegar á leikinn leið. Þegar Stephane Mbia sparkaði sig úr leiknum, þá vissi maður að markið myndi koma. Spánverjinn og vinur okkar Arteta sá um það á 84. mínútu.
Tveim dögum fyrr var afmælisfagnaður Arsenal-klúbbsins haldinn á Emirates, á Dial Square veitingastaðnum en þegar liðið var stofnað 1886 unnu leikmenn liðsins í Dial Square vopnaverksmðjunni í London. Þá birtist tákn á lofti sem menn áttu að nýta sér í veðmálum. Baskinn Arteta flutti ávarp fyrir hönd leikmanna liðsis og þakkaði okkur stuðninginn.
Auðvitað skoraði hann sigurmarkið.
Eftir leikinn kom hópurinn saman á leikvellinum og heilsuðu tveir leikmenn upp á hópinn. Það voru ekki neinir smákóngar sendir til okkar. Fyrirliðinn Thomas Vermaelen og Mikel Arteta heiðruðu okkur. Arteta var maður ferðarinnar.
Staðan stuttu eftir mark Mikel Arteta en það gerðist mikið næstu mínúturnar. Tíminn var fljótur að líða á Emirates Stadium.
8.9.2012 | 21:07
Súrrealískt landslag
Græni hryggur í Sveinsgili í Friðlandi að Fjallabaki er einstök náttúrusmíð. Hann verður að vernda.
Í ólýsanlegri ferð um Friðland að Fjallabaki með Ferðafélagi Árnesinga var ég svo heppinn að berja náttúruundrið augum. Græni hryggurinn, sem fáir vissu um þar til fyrir örfáum árum, liggur eins og risastór gota, wasabi grænn og við hliðina á honum er annar minni hryggur, kanil litaður.
Sú hugsun skýtur upp hvort þessi undur og stórmerki væru enn til ef svæðið væri ekki svo afskekkt og fáfarið sem raunin er. Fyrir aðeins þremur árum voru það aðeins fjársmalar sem höfðu barið hann augum, en engir ferðamenn áttu leið um þetta torfæra og vandrataða svæði.
Ég kenndi í brjóst um ósnortið landið. Fáir höfðu verið á göngu þarna og ekki sást móta fyrir göngustígum. Því sáust spor okkar á leiðinni upp í Hattver. Við vorum því eins og tunglfarar. Sú hugsun skaut upp í kollinum að takmarka þurfi aðgang og fá leyfi rétt eins og í þjóðgörðum víða um heim.
Skaparinn hefur verið í stuði þegar hann mótaði landslag í Friðlandinu. En náttúruvísindamenn hafa líta á hlutina með öðrum augum. Hér er efnafræðileg skýring á jarðmyndununum og er hún miklu órómantískari.
"Litskrúð og form fjallana er aðall Landmannalauga og umhverfi þeirra. Hvergi á landinu eru víðáttumeiri líparítmyndanir og hvergi kraumar jarðhitinn af meiri ákafa, nema ef vera skyldi undir íshellu Grímsvatna. Líparít og ummyndað berg spanna í sameiningu allt litróf hinna mildu jarðarlita. Kolsvört hrafntinna og hvítur líparítvikur, sama efnið í tveimur myndunum, eru skörpustu andstæðurnar. Á milli eru gulir, grænir, grábláir, brúnir og rauðir litir ummyndaðia bergsins og kringum gufuaugun er hveraleirinn í mörgum litatónum.
Litadýrðin við hverina stafar af því að í vatninu og gufunni er koltvísýringur (CO2) og brennisteinsvetni (H2S) og þegar brennisteinsvetnið tekur til sín súrefni myndast brennisteinssýra. Hitinn og sýran moðsjóða bergið og þá verður til leir en ýmis tilfallandi efnasambönd kalla litina fram. Hvítar útfellingar eru hverahrúður og gips en þær gulu eru brennisteinn. Brúnn og rauðleitur leir tekur lit sinn af járnoxíðum en sá grái af samböndum járns og brennisteins." (362)
Einstök litaflóra. Efast um að súrrealískir landslagsmálarar hafi dottið niður á þessa litasamsetningu.
Íslensk göngumær á leið yfir kalda jökulá. Helsta hindrunin að Græna hrygg er köld jökulá sem á uppruna sinn í Torfajökli. Hún getur orðið mikið forað í sumarhitum. Það þurfi að fara fimm sinnum yfir ána á leiðinni frá Kirkjufelli í gegnum Halldórsgil. Vegalengd 7 km.
Heimildir:
Perlur í náttúru Íslands, Guðmundur Páll Ólafsson
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.9.2012 | 14:02
Sandfell (390 m) í Kjós
Það lætur ekki mikið yfir sér Sandfellið í Kjós. Helst að maður taki eftir því þegar maður ekur Mosfellsdal og inn Kjósarskarð.
Fellið er dæmigert Sandfell en þau eru mörg fellin sem bera þetta nafn.
Sandfell rís um 130 metra yfir umhverfið og hefur myndast við gos undir jökli fyrir um 50.000 árum eða svo. Er það móbergsfjall sem hefur haldið nokkuð lögun sinni þrátt fyrir að hafa myndast á tímum elds og ísa.
Á leiðinni sér í gamla þjóðleið, Svínaskarðsveg sem liggur úr Kollafirði og yfir í Hvalfjörð.
Það sem er heillandi við ágústgöngur eru berin. Berjaspretta var ágæt í Kjósinni. Bláber og krækiber töfðu göngufólk og voru göngumenn fullir af andoxunarefnum eftir að hafa tínt í sig ofurfæði úr náttúru Íslands.
Bláberin verja frumur líkamans fyrir skemmdum af völdum sindurefna. Lífið er stöðug barátta góðs og ills.
Lítið útsýnisfjall. Víðsýnt er yfir Kjósina. Meðalfell er helsta fjallið í austurátt og falleg Laxáin sem rennur í bugðum í Hvalfjörðinn. Síðan sér í Hvalfjörð, lágreist Írafell sem þekkt er fyrir drauginn Írafellsmóra, Skálafell og Trana í suðri. Esjan norðanverð tekur mikið pláss. Hægt að sjá hæstu tinda Skarðsheiðar.
Dagsetning: 22. ágúst 2012
Hæð Sandfells: 390 m
GPS hnit varða á toppi Sandfells: (N:64.18.462 - W:21.27.602)
Hæð í göngubyrjun: 63 metrar (N:64.18.699 - W:21.29.920) við Vindás
Hækkun: 327 metrar
Uppgöngutími: 60 mín (19:22 - 21:22) 2 km loftlína
Heildargöngutími: 128 mínútur (19:22 - 21:30)
Erfiðleikastig: 1 skór
Vegalengd: 4,5 km
Veður kl. 21 Þingvellir: Skúrir, áttleysa 0 m/s, 11,7 °C. Raki 86%
Þátttakendur: Útivist, 26 þátttakendur
GSM samband: Já
Sandfell: (23) M.a. Sandfell við Þingvallavatn og Sandfell við Sandskeið.
Gönguleiðalýsing: Lagt af stað frá Kjósarvegi rétt sunnan við bæinn Víndás og gengið yfir mýri upp á kjarri vaxinn stall sem skyggir á Sandfellið. Þegar upp á stallinn er komið sér í fellið og gengið að rótum þess. Hækkun frá rótum að toppi um 130 metrar. Létt uppganga en ber að varast lausagrjót á móbergsklöppinni.
Við rætur Sandfells í Kjós. Fellið gnæfir 130 metra yfir umhverfið.
Myndaleg varða á toppi Sandfells. Skálafell og Trana í baksýn.
Heimildir
Toppatrítl, Sandfell í Kjós 25. maí 2005
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 14:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.8.2012 | 12:10
Armstrong og Nautagil
Nú er Neil Armstrong geimfari allur. Blessuð sé minning hans.
Þegar fréttin um andlát hans barst þá reikaði hugurinn til Öskju en ég gekk Öskjuveginn árið 2006 og komu geimfarar NASA til sögunnar í þeirri ferð.
Gil eitt ber nafnið Nautagil en hvað voru naut að gera á þessum slóðum?
Svarið kom á leiðinni í Nautagil. Geimfarar NASA sem unnu að Appolo geimferðaáætluninni komu tvisvar til Íslands til æfinga fyrir fyrstu tunglferðina en þeir töldu aðstæður í Öskju líkjast mjög aðstæðum á tunglinu. Þeir komu fyrst í Öskju árið 1965 og tveim árum síðar með minni hóp.
Nafngiftin er komin frá jarðfræðingunum og húmoristunum Sigurði Þórainssyni og Guðmundi Sigvaldasyni. Geimfari er astroNAUT á ensku og framhaldið er augljóst.
Margt bar fyrir augu í Nautagili, m.a. vel falin bergrós ofarlega í mynni gilsins.
Hér er mynd af Eyvindi Barðasyni við Bergrósina í Nautagili árið 2006
Hér eru geimfararnir að skoða sömu bergrós. Mynd af goiceland.is eftir Sverrir Pálsson og NASA.
Eitt par, náttúrufræðingarnir, í hópnum ákváðu að sofa úti um eina nóttina og tengjast náttúrunni betur. Þau fetuð í spor ekki ómerkari manna en geimfarana Anders og Armstrong er lögðust í svefnpoka sína úti undir berum himni þegar þeir voru í Öskju fyrir 45 árum. Neil Armstrong átti í kjölfarið eftir að stíga fyrstur manna á tunglið og segja setninguna frægu, Þetta er lítið skref fyrir einn mann en risastökk fyrir mankynið.
Eit
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 12:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.8.2012 | 14:22
Rafbíll
Hann var rafmagnaður vinnudagurinn í dag.
Ég kom keyrandi í vinnuna í rafbíl sem Iðnaðarráðuneytið lánaði. Rafbíllinn er af gerðinni Mitsubishi MiEV, er fjögurra manna og hefur um 50-70 km drægni i einni hleðslu. Gengur bíllinn undir nafninu Jarðarberið.
Vinnufélagar voru ánægðir með bílinn og fljótir að læra á hann þótt stýrið væri öfugu megin. Hann rúmaði fólkið vel, þótt smágerður og léttur sé. Rafbíllinn er mjög hljóðlátur og kom það flestum á óvart. Ekkert hljóð þegar hann var ræstur. Einnig kom á óvart hversu fljótt tæmdist af rafgeyminum en það munaði miklu hvort bíllin var í D eða Eco drifi.
Þetta er liður í verkefninu Græn orka, orkuskipti í samgöngum sem Iðnarðarráðuneytið stendur fyrir og markmiðið með verkefninu er að kynna fyrir fyritækjum og starfsfólki nýja valkosti í orkugjöfum.
Í framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar sem sett er fram í stefnuskjalinu, Ísland 2020, eru kynnt eftirfarandi markmið:
- Í samgöngum og sjávarútvegi verði að minnsta kosti 10% orkugjafa af endurnýjanlegum uppruna árið 2020
- Árið 2020 gangi 75% nýskráðra bifreiða, undir fimm tonnum að þyngd, fyrir endurnýjanlegum orkugjöfum.
En þess má geta að árið 2010 var Ísland með hæstu skráðu CO2 meðaltalslosun nýskráðra fólksbíla af öllum löndum á evrópska efnahagssvæðinu.
Ísland býr yfir þeirri sérstöðu að allt rafmagn í landinu er af endurnýjanlegum uppruna, úr vatnsaflsvirkjunum og jarðvarmavirkjunum, og raforka er þess vegna mjög hentugur orkugjafi fyrir samgöngur hér á landi.
Ljóst er að ríkisvaldið þarf að stíga ákveðið fram til að orkuskiptin verði að veruleika og hefur Alþingi samþykkja ný lög sem kveða á um að virðisaukaskattur af raf- og vetnisbílum sem kosta innan við sex milljónir falli niður.
Í kjölfarið má búast við því að flest bílaumboðin fari að bjóða raf- og tvinntengibíla.
Frétt: http://www.idnadarraduneyti.is/frettir/frettatilkynningar/nr/3571
17.8.2012 | 11:34
Hólárjökull 2012
Jöklarannsóknir mínar halda áfram. Ávallt þegar ég keyri framhjá Hólárjökli sem var einn af tignarlegum skriðjöklum úr Öræfajökli, þá smelli ég ljósmynd af honum. Hólárjökull er rétt austan við Hnappavelli. Hólá kemur frá honum.
Fyrri myndin var tekin þann 16. júlí 2006 og sú nýjasta þann 14. ágúst 2012. Það sést glöggt að jökultungan hefur styst og jökullin þynnst. Rýrnun jöklanna er ein afleiðingin af hlýnun jarðar. Ég spái því að jökultungan verði horfin innan fjögurra ára. Hlutirnir gerast svo hratt.
Hólárjökull, 16. júlí 2006. Jökulsporðurinn þykkur og teygir sig niður í gilið.
Hólárjökull, 14. ágúst 2012 í þokusúld. Augljós rýrnun á 6 árum. Jökulsporðurinn hefur bæði styst og þynnst.
Sjá:
Hólárjökull 2007 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/259538/
Hólárjökull 2008 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/611572/
Hólárjökull 2009 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/911196/
Hólárjökull 2011 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1192311/
15.8.2012 | 22:05
Klakkur í Langjökli (999 m)
Við vörum klökk yfir náttúrufegurðinni á toppi Klakks í Langjökli. Klakkur er einstakt jökulsker sem skerst inn Hagafellsjökul vestari í Langjökli. Opinber hæð Klakks er einnig áhugaverð, 999 metrar og þegar göngumaður tyllir sér á toppinn, þá gægist Klakkur yfir kílómetrann. Svona er máttur talnanna.
En til að skemma stemminguna, þá sýna GPS-tæki að Klakkur eigi nokkra metra inni. Klakkur með lágvöruhæðartöluna.
Lagt var í ferðina frá línuveginum norðan við Þórólfsfelli, stutt frá grænu sæluhúsi og tröllslegri Sultartungnalínu sem liggur fyrir norðan fellið niður í Hvalfjörð. Stefnan var tekin beint á Klakk, gengið austan við Langavatn og fylgja jökulánni og ef menn væru vel stemmdir fara hringferð og heimsækja Skersli. Af því varð ekki.
Í bókinni Íslensk fjöll, Gönguleiðir á 151 tind eftir Ara Trausta Guðmundsson og Pétur Þorleifsson er annarri leið lýst en þá er lagt í gönguna frá Tjaldafelli, meðfram Lambahlíðum og Langafelli og upp grágrýtisdyngjuna Skersli og kíkt í gíginn Fjallauga. Þessi ganga er mun lengri.
Mynd af korti við Þjónustumiðstöðina á Þingvöllum. Rauða línan sýnir göngu frá Þórólfsfeli en hin frá Tjaldafelli hjá Sköflungi en hann er líkur nafna sínum á Hengilssvæðinu.
Þó Klakkur sé kominn í bókina vinsælu, Íslensk fjöll, þá er hann fáfarinn og ef við rákumst á fótspor á fjöllum, þá voru þau gömul, sennilega frá síðasta sumri. En þrátt fyrir að gangan sé löng þá er hún þess virði. Farastjórinn Grétar W. Guðbergsson fór fyrir sex árum sömu leið og höfðu orðið nokkrar breytingar. Í minningunni var nýja jökulskerið ekki minnisstætt, meira gengið á jökli eða fönn og svo voru komin jökulker í miðlínuna sem liggur frá Klakki. Svæðið er því í sífelldri mótun.
Ferðin sóttist vel í ísnúnu hrauninu en eftir fjögurra tíma göngu var komið að rótum jökulskersins. Þá var göngulandið orðið laust undir fót. Helsta tilbreytingin á leiðinni var nýlegt nafnlaust jökulsker sem er sífellt að stækka vegna rýrnunar jökulsins. Langafell er áberandi til vesturs og eru margir áhugaverðir gígar í því. Hið tignarlega Hlöðufell og Þórólfsfell minnkuðu sífellt er lengra dró. Minnti ganga þessi mig mjög á ferð á Eiríksjökul fyrir nokkrum árum.
Hápunktur ferðarinnar var gangan á jökli. Hann var dökkur jökulsporðurinn en lýstist er ofar dró. Mikil bráðnun var á yfirborði jökulsins og vatnstaumar runnu niður jökulinn. Sandstrýtur sáust með reglulegu millibili neðarlega á jöklinum og nokkrir svelgir höfðu myndast í leysingunni en þeir geta orðið djúpir.
Þegar komið er upp á jökulinn er haldið upp á Klakk og eru göngumenn komnir í 840 metra hæð. Gangan upp fjallið er erfið, mikið laust grjót og hætta á grjóthruni. Jökullinn hefur fóðrað skerið með nýjum steinum. Þegar ofar er komið sér í móberg og er þá fast fyrir.
Komust við svo klakklaust upp á topp Klakks.
Mynd af nágrenni Klakks í Hagafellsjökli vestari í Langjökli. Tekin árið 2009.
Útsýni af Klakki er sérstakt. Langjökull með skrautlegt munstur tekur stærsta hluta sjóndeildarhringsins. Í norðvestri sér í Geitlandsjökul síðan Þórisjökull en milli þeirra liggur hið fræga huldupláss Þórisdalur og yfir honum sér í Okið. Ísalón er áberandi og Hryggjavatn í Þórisdal.
Í austri má sjá Hagafell, langan fjallsrana sem teygir sig langt upp í jökulinn frá Hagavatni. Yfir það sést aðeins á Bláfell og Jarlhettur. Tröllhetta (Stóra-Jarlhetta), ein af Jarlhettunum er glæsileg þegar hún stingur upp hausnum yfir Hagafell og Hagafellsjökul vestari, glæsileg sjón. Nokkuð mistur var og sáust sum illa og ekki minnisstæð en Kálfstindur og Högnhöfði en nær félagarnir Þórólfsfell og Hlöðufell í suðri. Langavatn og Langafell eru í ríki Skerslis og þá er komið að Skriðu, Skjaldbreið og Botnssúlur. Þar til hægri sá í Stóra-Björnsfell.
Betur af stað farið en heima setið á Frídegi verslunarmanna og fullur af endorfíni eftir kynni af jökli og jökulskerjum í ferðalok.
Dagsetning: 6. ágúst 2012 Frídagur verslunarmannaHæð Klakks: 999 m (722 m rætur jökulskers, 277 m hækkun)
GPS hnit Klakks: (N:64.34.040 - W:20.29.649)
Lægsta gönguhæð: 469 m, lægð á miðri leið
Hæð í göngubyrjun: 506 metrar við Þórólfsfell, rafmagnsstaur #163 , (N:64.27.531 - W:20.30.487)
Hækkun: 493 metrar
Uppgöngutími: 330 mín (11:10 - 16:40) 14,4 km
Heildargöngutími: 600 mínútur (11:10 - 21:10)
Erfiðleikastig: 3 skór
Vegalengd: 27 km
Veður kl. 12 Þingvellir: Skýjað, S 1 m/s, 15,8 °C. Raki 57%
Veður kl. 15 Þingvellir: Léttskýjað, NA 4 m/s, 16,0 °C. Raki 56%
Þátttakendur: Útivist, 17 þátttakendur
GSM samband: Já, á toppi en dauðir punktar á leiðinni
Klakkar: (5) Við Grundarfjörð, á Vestfjörðum, í Kerlingarfjöllum og í Hofsjökli.
Gönguleiðalýsing: Langdrægt jökulsker í einstöku umhverfi. Löng eyðimerkugarganga í ísnúnu hrauni á jafnsléttu og sérstakakt útsýni í verðlaun.
Klakkur með jökul á vinstri hönd og til hægri jökulgarð, raunar leifar af miðrönd sem lá frá Klakki meðan hann var jökulsker. Slíkir garðar eru jafnan með ískjarna og eru kallaðir "ice cored moraine" á ensku.
Heimildir:
Oddur Sigurðsson, tölvupóstur.
Íslensk fjöll, Ari Trausti Guðmundsson, Pétur Þorleifsson
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.7.2012 | 22:30
Í fótspor Þórbergs
Vona að það sé góð þátttaka í Framhjágöngu Þórbergs en Ferðafélag Íslands stendur fyrir þessari stórmerkilegu ferð. Þá gekk skáldið fullur bjartsýni frá Norðurfirði í Ströndum til Reykjavíkur á þrettán dögum og með þrettán krónur í vasanum. Þetta er þekktasta gönguferð íslenskra bókmennta.
Nú eru slétt 100 ár síðan þessi stórmerkilega ganga var gengin og er undirbúningur Ferðafélagsins til fyrirmyndar. Glæsilegt skjal er því til vitnis.
Ég kemst því miður ekki en ætla að fylgjast með göngufólki.
Pétur Gunnarsson skrifaði um atburð þennan í bókinni ÞÞ í fátæktarlandi og svipti rómantíkinni af atburðinum.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 3
- Sl. sólarhring: 7
- Sl. viku: 53
- Frá upphafi: 233615
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 49
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar