24.4.2014 | 13:20
Breiðdalshnúkur - Í fótspor Russel Crowe

Breiðdalshnúkur klifinn á annan í páskum. Russel Crowe sem leikur Nóa gekk hann í lok júlí 2012 en tökur á kvikmyndinni Noah voru teknar norðan við Kleifarvatn. Nóa páskaegg klárað og farið á myndina, Noah um Nóa gamla eftir göngu. Nóa nammi keypt á nammibarnum. Nói kemur víða við sögu.....
Það fer lítið fyrir Breiðdalshnúk á leitarvélum. Helst að heimsókn Russel Crowe hafi bætt við nokkrum leitarmöguleikum en tindurinn ber nafn sitt af Breiðdal sem er inn af honum og hnúkurinn er fastur við Lönguhlíð sem er í miklum fjallabálki.
Gengið upp snjólausan hrygg að snælínu en stoppað þar og ráðum háfjallagöngumannsins Ed Viesturs fylgt, að snúa við áður en það er orðið og seint. Því ísöxi og mannbroddar voru ekki með í för og snjórinn þéttur og varasamur.
Markmiðinu var náð, sama sjónarhorn og óskarsverðlaunaleikarinn náði og rómaði á Twitter-síðu sinni, aðdáendum til mikillar ánægju.
Til eru nokkur fjallanöfn kennd við erlenda afreksmenn. Wattsfell eða Vatnsfell, Lockstindur eða Lokatindur á Norðurlandi. Nú er spurning um hvort Breiðdalshnúkur fái nafnið Crowhnúkur!
Good view from the top of Breiðdalshnúkur - Stórleikarinn Russel Crowe með húfu í fánalitunum á Breiðdalshnúk og horfir yfir kvikmyndatökustaðinn í hléi. Myndin tekin 30. júlí 2012 af Chris Feather.
Dagsetning göngu: 21. apíl 2014, annar í páskum
Mesta hæð: 323 m, við snælínu
GPS hnit upphaf: 165 m (N:63.57.570 W:21.56.707)
GPS hnit snælínu: 323 m (N:63.57.301 - W:21.56.536)
Heildarhækkun: 158 metrar
Heildargöngutími: 90 mínútur (12:30 - 14:00)
Erfiðleikastig: 2 skór
Veður kl. 12 Selvogur: Skýjað, ASA 7 m/s, 5,0 °C. Raki 93%
Þátttakendur: Fjölskyldan á hreyfingu, 3 meðlimir
GSM og 3G samband: Já, enda mikið ferðasvæði. Stöðugt 3G-samband.
Gönguleiðalýsing: Gengið frá þjóðvegi, upp snjólausan móbergshrygg að snælínu.
Ari Sigurpálsson stoltur með húfu í fánalitum í 323 m hæð og horfir yfir leiksvið Hollywood-kvikmyndarinnar Noah. Kleifarvatn og Sveifluháls í baksýn.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 13:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.3.2014 | 23:24
Um fjöll og hveri í Krýsuvík
Gangan hófst við Grænavatn sem er vatnsfylltur sprengigígur, friðað náttúruvætti rétt við veginn. Þar hófst saga náttúruverndar á Íslandi. Þaðan var gengið upp að Austurengjahver sem er með stærstu hverum á suðvesturlandi. Síðsumars 1924 lifnaði Austurengjahver (Stórahver) við jarðskjálfta, var áður lítilfjörlegur.
Frá hverasvæðinu var gegnið á Stóra-Lambafell til þess að njóta útsýnis yfir hið dularfulla Kleifarvatn bústað skrímsla og heimkynni hvera. Á bakaleiðinni var komið við á Litla-Lambafelli sem er litlu lægra en minna um sig. Á meðan gengið var upp Litla Lambafell, þá var Gísli Marteinn að þjarma að Sigmundi forsætisráðherra í þættinum sínum, Sunnudagsmorgunn. Frægt viðtal.
Síðan var haldið niður að Grænavatni á ný og nú arkað til suðurs að Bæjarfelli og gengið á það. Undir fellinu eru rústir hins forna kirkjustaðar í Krýsuvík og þar settust göngumenn niður og fengu sér nesti og rifjuðu upp merka sögu staðarins.
Listmálarinn Sveinn Björnsson bjó lengi þarna og hvílir hann þar.
Frá Bæjarfelli er steinsnar yfir að Arnarfelli og var þessum netta hring lokað með því að ganga á það áður en haldið var að Grænavatni á ný. Arnarfell er formfegurst fellana enda leikmynd í stórmyndinni Flags of Our Fathers and Letters from Iwo Jima frá 2006. Arnarfell er eitt þeirra örnefna sem ber dýraheiti, s.s. Geitafell, Grísafell, Hafursfell, Hestfjall, Hrútafjöll, Rjúpnafell og Sauðafell.
Þegar komið er á topp Arnarfells er lítil varða, og þar er hægt að sjá hlaðna garða mjög forna en mikil eldvirkni var á Reykjanesi um 1100 og gæti nýtt tímabil verið að hefjast. Gestabók er á Arnarfelli og hvernig væri að reisa fána þar? Hvað um skjöld um Hollywood kvikmyndirnar?
Alls er þetta 13 km löng ganga með viðkomu á fjórum lágum fellum og en samanlögð hækkun um 350 metrar.
Vagga ferðaþjónustu hófst á svæðinu á 19. öld en ferðamenn fóru dagleið frá Reykjavik að hverunum í Seltúni og Hveradölum í Krýsuvík.
Göngufólk á Bæjarfelli. Arnarfell, Krýsuvíkurhraun, Eldborg og Geitahlíða sjást.
Dagsetning: 16. febrúar 2014
Mesta hæð: 239 m, Stóra-Lambafell
GPS hnit Grænavatn: 166 m (N:63.53.155 W:22.03.441)
GPS hnit Stóra-Lambafell: 239 m (N:63.53.923 - W:22.01.848)
GPS hnit Litla-Lambafell: 237 m (N:63.53.481 W:22.02.095)
GPS hnit Bæjarfell: 221 m (N:63.52.226 W:22.04.170)
GPS hnit Arnarfell: 205 m (N:63.51.857 W:22.03.126)
Heildarlækkun: 350 metrar
Heildargöngutími: 5,5 klst, 330 mínútur (10:00 - 15:30)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 13,0 km
Skref: 18,631 og 1.087 kkal
Veður kl. 12 Bláfjallaskáli: Heiðskýrt, A 13 m/s, -7.5 °C. Raki 64%
Veður kl. 12 Selvogur: Heiðskýrt, NA 9 m/s, -2,8 °C. Raki 51%
Þátttakendur: Ferðafélag Íslands, gengið á góða spá, 66 félagar
GSM og 3G samband: Já, enda mikið ferðasvæði. Stöðugt 3G-samband.
Gönguleiðalýsing: Gengið að hluta eftir merktum stíg, Dalaleið að hverum og Lambafellum. Síðan eftir þýfði Krýsuvíkurmýri að Bæjarfelli og Arnarfelli. Fallegur fjögra fella hringur.
Heimildir:
Ferlir.is - Grænavatn-Austurengjahver-Krýsuvíkurbjarg-Arnarfell-Augun
Ferlir.is - Örnefnið Krýsuvík
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.3.2014 | 16:43
Fellaþrenna: Helgafell (340 m) Valahnúkar (205 m) Húsfell (295 m)
Rétt innan við Hafnarfjörð standa nokkur fell úti í hrauni. Lagt var frá Kaldárseli og gengið sem leið lá upp á Helgafellið. Þaðan var haldið niður á við og gengið á Valahnjúka. Komum við í Valabóli og Músahelli áður en Húsfell var gengið.
Þegar gengið var upp Helgafell um gilið í miðju fellinu, þá heyrðist í þyrlu frá Norðurflugi. Þegar á toppinn var komið, þá var þyrlan lent á sléttum toppnum og mynduðu ferðamenn sig í bak og fyrir. Vakti hún verðskuldaða athygli en það blés vel um toppinn.
Mjög eftirminnilegt atvik í fjallgöngusögu minni en maður veltir fyrir sér reglum um lendingar hjá þyrlu í fólkvangi og kyrrð og ró fjallgöngumannsins. Það geta skapast hættur á fjöllum.
Eftir uppákomuna á Helgafelli var lagt á Valahnúka en þeir eru í beinni línu milli Helgafells og Húsfells.
Toppurinn á Valahnúkum er klettur og vaggaði hann en Valahnúkar eru taldir hafa myndast í gosi fyrir um 120 þúsund árum.
Frá vaggandi Valahnúk var haldið að Valabóli og orku safnað fyrir síðasta fellið, Húsfell.
Margt sér á miðju Húsfelli, Búrfellsgjá blá. Húsfell er umkringt hrauni sem er komið ofan úr Rjúpnadyngjum og á að hafa myndast á tímabilinu 900 - 1500.
Á toppi Helgafells í Hafnarfirði. Þyrla með fjallgöngufólk!
Dagsetning: 1. febrúar 2014
Kaldársel upphaf: 84 m (N:64.01.374 W:21.52.066)
Helgafell: 340 m - hækkun: 200 m
Húsfell: 306 m (N:64.01.591 W:21.47.947)
Valahnúkar: 205 m (N:64.01.192 W:21.50.118)
Heildarlækkun: Um 400 metrar
Heildargöngutími: 2,5 klst, 263 mínútur (10:07 - 14:30)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 14,1 km
Skref: 18,874 og 1,257 kkal
Veður kl. 12 Bláfjallaskáli: Skýjað, austan 10 m/s. 4,5 °C hiti og 64% raki. Skyggni 50 km.
Þátttakendur: Ferðafélag Árnesinga, 32 félagar
GSM samband: Já, enda í útjaðri Hafnarfjarðar. Stöðugt 3G-samband.
Gönguleiðalýsing: Gengið eftir vel gengnu hrauni milli fella. Flott fellaþrenna.
Séð frá Helgafelli, yfir Valahnúka og yfir á Helgafell.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
31.12.2013 | 17:10
Sjálfbærni og heilsufarsmælingar

Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.12.2013 | 14:00
The Secret Life of Walter Mitty ****

Ísland er í aðalhlutverki í stórmyndinni The Secret Life of Walter Mitty og má þakka eldgosinu Eyjafjallajökli athyglina.
Ben Stiller er leikstjóri og aðalleikari kvikmyndarinnar The Secret Life of Walter Mitty en hún er gerð eftir samnefndri smásögu sem kom út árið 1939 eftir James Thurber og kvikmynd frá 1947. Einnig hafa nýlega verið framleiddir sjónvarpsþættir.
Walter Mitty er í óöruggustu vinnu hjá LIFE tímaritinu, leggur hart að sér við framköllun á einstökum ljósmyndum, sérstaklega frá Sean O'Connell, okkar RAX, sem leikinn er af Sean Penn. Ný tækni er að taka völdin, starfræna tæknin. Netútgáfa.
Nýrri tæki fylgja breytingar. Sjá má fyrir sér í myndinni breytingarstjórann, útvarpsstjórann Páll Magnússon.
Mitty helgar starfinu lífi sínu og gerir fátt markvert. Hann bætir það upp með dagdraumum eins og við öll þekkjum. Hann tekur dagdraumana alla leið og dettur út.
Myndin er því óður til starfsmanna á plani.
Þegar umbreytingin á sér stað, þá þarf að grípa í taumana. Mitty dregur djúpt andann og heldur á vit hins ókunna. Hann ákveður að leita uppi RAXA og fer í ævintýraferð til Grænlands og þaðan til Íslands. Síðan til Afganistan. Ævintýrin gerast ekki betri nú til dags.
Loks fær Ísland að vera Ísland.
Yfirleitt er landið notað fyrir önnur lönd en hér talar landið fyrir sjálft sig. En tökur á landinu eru einnig notaðar í önnur atriði. Fyrir Hornfirðinga eru nokkur falleg og góð skot. Hornafjarðarflugvöllur tekur á móti stærstu flugvél sem lent hefur á vellinum fyrr og síðar. Einnig sést Vestrahorn með Skarðsfjörðinn í sinni fallegustu mynd.
Nokkrir íslenskir leikarar koma við sögu. Stærsta bitann fær Ólafur Darri Ólafsson, þyrluflugmaður. Ari Matthíasson er góður sjómaður og kennir framburð á tungubrjótinum Eyjafjallajökull. Þórhallur Sigurðsson (ekki Laddi) er grásprengdur skipstjóri. Einnig er mikill asi á Gunnari Helgasyni hótelhaldara.
Vel gerð gaman- og ævintýramynd með rómantískri hliðarsögu. Glæsileg umgjörð enda hafa myndatökumenn haft úr miklu og fallegu myndefni að moða. Athyglisverður kreditlisti í lokinn en þá er filman látin njóta sín með póstkortamyndum flestum frá Íslandi.
Helsti galli myndarinnar eru að samtöl eru hæg og framvinda sögunnar í byrjun.
Myndin fær fína dóma erlendis en var frumsýnd víða á jóladag. Þetta er mikil og góð kynning fyrir Ísland. Sé henni fylgt rétt eftir munu fylgja margir ferðamenn.
Nú er bara að vona að stjórnvöld setji sjálfbærni og græn viðmið á oddinn svo komandi kynslóðir geti áfram nýtt landið fyrir stórmyndir.
Tengill:
https://www.facebook.com/WalterMitty
1.12.2013 | 21:17
ISO 27001 öryggisvottun
Eftirlit á Íslandi er í rúst. Nærtækasta dæmið er hrunið, en þá brugðust eftirlitsstofnanir.
Öflugur miðill ætti nú að kanna hve mörg af 100 stærstu fyrirtækjum Íslands hafa öryggisstefnu og fylgja henni eftir með mælingum. Einnig athyga hvort áhættumat hafi verið framkvæmt, námskeið í öryggisvitnd og þjálfun starfsmanna.
Á Íslandi eru 20 fyrirtæki með ISO27001 öryggisvottun. En öll fyrirtæki í upplýsingatækni eiga að vera með þá vottun.
![]() |
Viðurkenna skelfileg mistök |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tölvur og tækni | Breytt 3.12.2013 kl. 08:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.11.2013 | 16:35
Hrakvirði
Mikið var gaman á landsleiknum í gær. Íslendingar voru vel klæddir í fánalitunum og studdu íslensku leikmennina á vellinum vel. Annað eins hefur ekki sést í Laugardalnum. Svo mikil var stemmingin í Austur-stúkunnu að fólk stóð allan leikinn.
Við inngang að vellinum var boðið upp á húfur og trefla. Sérstakur trefill var hannaður út af leiknum mikilvæga. Íslensku litirnir voru á öðrum helmingnum og rauðir og hvítir, köflóttir litir Króatíu meginn. Dagsetning leiksins kom einnig fyrir. Svona til að minna eigandann á leikinn og vekja nostalgíu síðar meir.
Trefillinn kostaði kr. 3.000 á leikvellinum og var það heldur hátt verðlag. Við feðgar féllum ekki fyrir freistingunni. En dauðlangaði í enn einn trefilinn.
Þegar leiknum lauk sneri fólk heim á leið. Tæplega tíu þúsund manns í einni röð. Á fjölförnum leiðum voru sölumenn, erlendir, líklega Króatar og buðu trefla til kaups. Nú var verðið komið niður í tvö þúsund og við 98 metrum frá Laugardalsvelli. Okkur dauðlangaði í enn einn trefilinn.
Við héldum áfram með straumnum. Fólk spjallaði um leikinn. Fannst dómarinn slakur. Modric lítill en snöggur, rauða spjaldið harður dómur og Kristján í markinu góður. Þegar við nálguðumst Suðurlandsbrautina var einn einn útlendingurinn hlaðinn treflum. En nú var verðið komið niður í eitt þúsund og við 313 metrum frá Laugardalsvellinum. Eftirspurnin var ekki mikil. En á rúmum 200 metrum hafði verðið lækkað mikið. Við feðgar vorum loks orðnir sáttir við verðið og keyptum einn trefil til minningar.
Þarna lærði Ari um hrakvirði. Treflarnir verða verðlausir eftir leikinn.
Ekki voru fleiri erlendir sölumenn en trúlega hafa treflarnir verið framleiddir í Kína og klókir sölumenn tekið áhættuna.
En allt í einu kom upp í hugann Ragnheiður Elín Árnadóttir, af öllum mönum eftir þetta óvænta hrakvirðisnámskeið. Nú vill iðnaðar- og viðskiptaráðherra selja dýrmæta orku okkar á hrakvirði rétt eins og fyrri Ríkisstjórnir. Bara til að koma af stað einhverri bólu í kjördæminu og tryggja mögulegt endurkjör. Til að selja fleiri eignir landsmanna á hrakvirði og láta flokksfélagana mata krókinn.
Vilhjálmur Þorsteinsson, skrifaði ágætis grein um raforkusamninga og sá ég hann þegar heim var komið. Dýrasti samningur Íslandssögunnar nefnist hún og er um raforkusamning við Alcoa.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, fv. Aðstoðarmaður Geirs H. Haarde er ekki að standa sig. Snurpar vel rekna Landsvirkjun.
Við þurfum góða ráðherra. Kjósendur bera ábyrgð.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.10.2013 | 14:27
Hringsjá
Landslag yrði lítið virði ef það héti ekki neitt.
Eitt athyglisvert snjallforrit (app) Heitir Hringsjá og er kjörið fyrir göngumanninn. Fyrirtækið Seiður ehf er framleiðandi. Í þessari fyrstu útgáfu er hægt að skoða nöfn 4000 fjalla, jökla, hóla og hæða um allt land.
Ef opið er fyrir GPS-staðsetningu göngumanns, þá er hægt að sjá í snjallsímanum fjöllin í næsta nágrenni og fjarlægð að fjallinu. Hér opnast mikill möguleiki fyrir göngumann að læra ný örnefni og uppfræða aðra göngumenn og auka virði landslagsins.
Í síðustu gönguferð minni prófaði ég snjallforritið. Ekki viðraði vel á hæsta punkti og því nýtti ég mér tæknina ekki en tími Hringsjárinnar mun koma.
Mæli með þessu snjallforriti. Snjöll hugmynd. En verst hversu oft það varð óvirkt og lengi að ræsast.
Svona lítur sjóndeildarhringurinn út frá Hellisheiði séð í norður. Ofan á það bætast svo örnefni fjallanna, hæð og fjarlægð. Loksins er hægt að finna út hvað tindurinn þarna heitir!
26.10.2013 | 22:15
Fræðst um Hengilssvæðið
Það er ekki oft sem fjallganga hefst í hæsta punkti. Það blés köldum norðan vindi þegar komið var að bílastæði við Himnaríki á Skarðsmýrarfjalli en göngumenn vissu að ástandi ætti bara eftir að batna.
Einar Gunnlaugsson leiðsögumaður með 30 ára reynslu af svæðinu og Rannveig Magnúsdóttir farastjóri frá Landvernd stýrðu hópnum. Einar gjörþekkti svæðið og var gaman að heyra um sögu hraunanna sem runnu fyrir 1000, 2000 og 5000 árum er við fórum framhjá þeim. Einnig var hann á heimavelli er steina með útfellingar bar fyrir augu.
Í ferðinni sáum við að það var búið að fjarlægja nokkra gíga úr gosröðinni fyrir 2000 árum og er efnið í þeim í veginum yfir Hellisheiði. Okkur var hugsað til Hraunavina í Gálgahrauni.
Í Miðdal sást jarðhiti vel. Hann hafði brætt snjóinn og grænn mosinn skar sig úr. Einnig eru nokkrir hverir og litlir heitir lækir sem renna í Hengladalsá. Líffræðingar eru að rannsaka þá en hitakærar örverur lifa þar.
Í lokin kíktu við á eina af 25 virkum borholum á Hengilssvæðinu sem Hellisheiðarvirkjun nýtir og gefa af sér um 300 MW af orku. Holurnar eru að jafnaði að jafnaði 2000 metra djúpar. Við höfðum gengið yfir svæðið sem gaf af sér nokkrar af bestu borholunum. Hitinn í borholuskýlinu var þægilegur er úr kuldanum var komið en sum rörin eru 200 gráðu heit.
Líffræðingar að rannsaka hitakærar örverur í Miðdal.
Dagsetning: 26. október 2013
Mesta hæð: 566 m, bílastæði v/Himnaríki
GPS hnit Himnaríki: 566 m (N:64.02.997 - W:21.21.009)
GPS hnit borholur: 386 m (N:64.02.402 W:21.19.999)
Heildarlækkun: 377 metrar
Heildargöngutími: 2,5 klst, 149 mínútur (10:59 - 13:28)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 5,6 km
Skref: 7,912 og 565 kkal
Veður kl. 12 Skarðsmýrarfjall: Skýjað, ANA 17 m/s, -2.5 °C. Raki 79%
Þátttakendur: Ferðafélag Íslands og Landvernd, 18 félagar
GSM samband: Já, enda háhitasvæði með dýrmætum borholum. Stöðugt 3G-samband.
Gönguleiðalýsing: Gengið eftir vegarslóða niður Skarðsmýrarfjall eftir misgengi í Þrengsli norðan við fjallið og niður Miðdal. Þar er jarðhiti og mosagróinn dalur. Ganga þarf tvisvar yfir meinlitla Hengladalsá á leið meðfram fjallinu. Létt ganga í snjóföl, mest niðurávið um stórmerkilegt háhitasvæði.
Þetta var ekki mikil útsýnisferð. Kalt og hvasst á hæsta punkti, þar sem útsýni átti að vera mest. Hér getur að líta algengustu sýn okkar í suðurátt en þetta er skjamynd úr hinu skemmtilega appi frá Seiði, Hringsjá nefnist það.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.8.2013 | 17:38
Fegurðin að Fjallabaki
Skallar og hattar voru áberandi í óhefðbundinni ferð um Friðlandið með Ferðafélagi Árnesinga.
Gengið frá Landmannalaugum inn Litla Brandsgil og upp á hrygginn Milli Brandsgilja (921 m). Þaðan haldið vestan undir Skalla á sléttuna. Þaðan sá vel til Hofsjökuls og Hágögur voru glæsilegar austan við jökulinn. Þegar upp var komið opnaðist glæsileg sýn á hinn leyndardómsfulla Torfajökul. Öll þessi marglitu, einkennilegu fjöll blöstu við. Gengið niður á Suður-skalla (921 m). Þaðan haldið niður að Hattveri, framhjá tignarlegum Hatti og nesti snætt undir honum. Nokkrir klifruðu upp á Hatt og upplifðu ljóst líparítið á kollinum.
Eftir gott stopp var gengið eftir Jökulgilsbotni. Þaðan haldið í vestur upp hrygginn Milli Hamragilja og stefnan sett á Gráskalla. Á leiðinni sá ofan í Stóra Hamragil. Strýta ein nafnlaus er á fjallinu þar sem gengið var upp og minnti hún á Lóndranga á Snæfellsnesi undir ákveðnu sjónarhorni. Á leiðinni sá ofan í Stóra Hamragil. Þar sást frumgerð af Hatti en skaparinn hefur æft sig vel fyrir hinn fullkomna Hatt.
Undir Gráskalla sá til Vatnajökuls með mikið landslag og með tignarlegan Sveinstind sem bar af í forgrunni, Grímsvötn, svart Pálsfjall og Þórðarhyrnu. Farið niður af sléttunni niður í Grænagil en þar var brattasta brekkan um 100 metrar og minnti á ferð niður í Víti í Ösku. Þaðan gengið eftir kolsvörtu Laugahrauni en þar er torleiði og virtist ætla að hrynja yfir okkur en áhugaverð ganga.
Á leiðinni úr Landmannalaugum sá til Þóristinds og minnti hann á hið lögulega Matterhorn.
Syðri-skalli og hryggur að honum og leyndardómsfullur Torfajökull í fjarska.
Hattur í Hattveri er glæsileg náttúrusmíð. "Hattarhryggur" liggur að kynlega stuðlaða ríólítnúpnum Hatti.
Dagsetning: 17. ágúst 2013
Mesta hæð: 960 m, barmur undir Skalla
GPS hnit Hattver: 704 m (N:63.56.020 - W:19.03.398)
Hæð í göngubyrjun: 600 metrar (N:63.59.385 W:19.03.464) við rútuplan.
Heildarhækkun: 1.200 metrar
Heildargöngutími: 8,5 klst, 510 mínútur (11:15 - 19:45)
Erfiðleikastig: 3 skór
Vegalengd: 22,8 km
Skref: 30,034
Veður kl. 15 Laufbali: Léttskýjað, NA 3 m/s, 12,1 °C.
Þátttakendur: Ferðafélag Árnesinga, 71 félagi
GSM samband: Nei, en við skála FÍ og á nokkrum háum hæðum, 3G samband úti.
Gönguleiðalýsing: Lagt frá rútustæði við skála FÍ í Landmannalaugum. Krefjandi ganga, gengið eftir mjóum hryggjum. Ómótstæðileg litadýrð. Gengin Skallahringur. Torfajökulsaskja, stærsta líparítnáma landsins. Gimsteinasafn.
Myndir úr ferðinni
Sigurpáll Ingibergsson:
Jón Hartmannsson:
https://skydrive.live.com/?cid=4D4A7F61F1D7F547&id=4D4A7F61F1D7F547%2116639&v=3
Einar Bjarnason:
https://plus.google.com/photos/110610845439861884745/albums/5913450375417426353?banner=pwa
Daði Garðason, Ferðafélag Árnesinga:
http://www.flickr.com/photos/ferdafelag_arnesinga/sets/72157635118871371/
Roar Aagestad
https://www.facebook.com/photo.php?fbid=4627706551052&set=pcb.568001316579884&type=1&theater
Ragnar Hólm Gíslason:
https://www.facebook.com/photo.php?fbid=10201846230907534&set=oa.567910189922330&type=1&theater
Ágúst Rúnarsson
Heimildir
Friðland að Fjallabaki, Ábók Ferðafélags Íslands 2010.
Umhverfisstofnun, http://www.ust.is/library/Skrar/utgefid-efni/Baeklingar/Fjallabak_IS.pdf
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (9.7.): 10
- Sl. sólarhring: 10
- Sl. viku: 301
- Frá upphafi: 236827
Annað
- Innlit í dag: 10
- Innlit sl. viku: 248
- Gestir í dag: 9
- IP-tölur í dag: 9
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar