ISO 27001 öryggisvottun

Eftirlit á Íslandi er í rúst. Nærtækasta dæmið er hrunið, en þá brugðust eftirlitsstofnanir.

Öflugur miðill ætti nú að kanna hve mörg af 100 stærstu fyrirtækjum Íslands hafa öryggisstefnu og fylgja henni eftir með mælingum. Einnig athyga hvort áhættumat hafi verið framkvæmt, námskeið í öryggisvitnd og þjálfun starfsmanna.

Á Íslandi eru 20 fyrirtæki með ISO27001 öryggisvottun. En öll fyrirtæki í upplýsingatækni eiga að vera með þá vottun.

ISO 27001 


mbl.is Viðurkenna „skelfileg“ mistök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrakvirði

Mikið var gaman á landsleiknum í gær. Íslendingar voru vel klæddir í fánalitunum og studdu íslensku leikmennina á vellinum vel.  Annað eins hefur ekki sést í Laugardalnum. Svo mikil var stemmingin í Austur-stúkunnu að fólk stóð allan leikinn.

Við inngang að vellinum var boðið upp á húfur og trefla. Sérstakur trefill var hannaður út af leiknum mikilvæga. Íslensku litirnir voru á öðrum helmingnum og rauðir og hvítir, köflóttir litir Króatíu meginn. Dagsetning leiksins kom einnig fyrir. Svona til að minna eigandann á leikinn og vekja nostalgíu síðar meir.

Trefillinn kostaði kr. 3.000 á leikvellinum og var það heldur hátt verðlag. Við feðgar féllum ekki fyrir freistingunni.  En dauðlangaði í enn einn trefilinn.

 Stuðningstrefill

Þegar leiknum lauk sneri fólk heim á leið. Tæplega tíu þúsund manns í einni röð. Á fjölförnum leiðum voru sölumenn, erlendir, líklega Króatar og buðu trefla til kaups. Nú var verðið komið niður í tvö þúsund og við 98 metrum frá Laugardalsvelli.  Okkur dauðlangaði í enn einn trefilinn.

Við héldum áfram með straumnum. Fólk spjallaði um leikinn. Fannst dómarinn slakur.  Modric lítill en snöggur, rauða spjaldið harður dómur og Kristján í markinu góður.  Þegar við nálguðumst Suðurlandsbrautina var einn einn útlendingurinn hlaðinn treflum. En nú var verðið komið niður í eitt þúsund og við 313 metrum frá Laugardalsvellinum.  Eftirspurnin var ekki mikil.  En á rúmum 200 metrum hafði verðið lækkað mikið. Við feðgar vorum loks orðnir sáttir við verðið og keyptum einn trefil til minningar.

Þarna lærði Ari um hrakvirði.  Treflarnir verða verðlausir eftir leikinn.

Ekki voru fleiri erlendir sölumenn en trúlega hafa treflarnir verið framleiddir í Kína og klókir sölumenn tekið áhættuna.

En allt í einu kom upp í hugann Ragnheiður Elín Árnadóttir, af öllum mönum eftir þetta óvænta hrakvirðisnámskeið. Nú vill iðnaðar- og viðskiptaráðherra selja dýrmæta orku okkar á hrakvirði rétt eins og fyrri Ríkisstjórnir. Bara til að koma af stað einhverri bólu í kjördæminu og tryggja mögulegt endurkjör.  Til að selja fleiri eignir landsmanna á hrakvirði og láta flokksfélagana mata krókinn.

Vilhjálmur Þorsteinsson, skrifaði ágætis grein um raforkusamninga og sá ég hann þegar heim var komið.  Dýrasti samningur Íslandssögunnar nefnist hún og er um raforkusamning við Alcoa.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, fv. Aðstoðarmaður Geirs H. Haarde er ekki að standa sig. Snurpar vel rekna Landsvirkjun.

Við þurfum góða ráðherra. Kjósendur bera ábyrgð.


Hringsjá

Landslag yrði lítið virði ef það héti ekki neitt.

Eitt athyglisvert snjallforrit (app) Heitir Hringsjá og er kjörið fyrir göngumanninn. Fyrirtækið Seiður ehf er framleiðandi. Í þessari fyrstu útgáfu er hægt að skoða nöfn 4000 fjalla, jökla, hóla og hæða um allt land.

Ef opið er fyrir GPS-staðsetningu göngumanns, þá er hægt að sjá í snjallsímanum fjöllin í næsta nágrenni og fjarlægð að fjallinu. Hér opnast mikill möguleiki fyrir göngumann að læra ný örnefni og uppfræða aðra göngumenn og auka virði landslagsins.

Í síðustu gönguferð minni prófaði ég snjallforritið. Ekki viðraði vel á hæsta punkti og því nýtti ég mér tæknina ekki en tími Hringsjárinnar mun koma.

Mæli með þessu snjallforriti. Snjöll hugmynd. En verst hversu oft það varð óvirkt og lengi að ræsast. 

Frá Hellisheiði

Svona lítur sjóndeildarhringurinn út frá Hellisheiði séð í norður. Ofan á það bætast svo örnefni fjallanna, hæð og fjarlægð. Loksins er hægt að finna út hvað tindurinn þarna heitir!


Fræðst um Hengilssvæðið

Það er ekki oft sem fjallganga hefst í hæsta punkti. Það blés köldum norðan vindi þegar komið var að bílastæði við Himnaríki á Skarðsmýrarfjalli en göngumenn vissu að ástandi ætti bara eftir að batna.

Einar Gunnlaugsson leiðsögumaður með 30 ára reynslu af svæðinu og  Rannveig Magnúsdóttir farastjóri frá Landvernd stýrðu hópnum. Einar gjörþekkti svæðið og var gaman að heyra um sögu hraunanna sem runnu fyrir 1000, 2000 og 5000 árum er við fórum framhjá þeim. Einnig var hann á heimavelli er steina með útfellingar bar fyrir augu.

Í ferðinni sáum við að það var búið að fjarlægja nokkra gíga úr gosröðinni fyrir 2000 árum og er efnið í þeim í veginum yfir Hellisheiði. Okkur var hugsað til Hraunavina í Gálgahrauni.

Í Miðdal sást jarðhiti vel. Hann hafði brætt snjóinn og grænn mosinn skar sig úr. Einnig eru nokkrir hverir og litlir heitir lækir sem renna í Hengladalsá. Líffræðingar eru að rannsaka þá en hitakærar örverur lifa þar.

Í lokin kíktu við á eina af 25 virkum borholum á Hengilssvæðinu sem Hellisheiðarvirkjun nýtir og gefa af sér um 300 MW af orku. Holurnar eru að jafnaði að jafnaði 2000 metra djúpar. Við höfðum gengið yfir svæðið sem gaf af sér nokkrar af bestu borholunum. Hitinn í borholuskýlinu var þægilegur er úr kuldanum var komið en sum rörin eru 200 gráðu heit.

Rannsóknir í Miðdal

 Líffræðingar að rannsaka hitakærar örverur í Miðdal.

Dagsetning: 26. október 2013
Mesta hæð: 566 m,  bílastæði v/Himnaríki
GPS hnit Himnaríki: 566 m (N:64.02.997 - W:21.21.009)
GPS hnit borholur:  386 m (N:64.02.402 – W:21.19.999)
Heildarlækkun: 377 metrar         
Heildargöngutími: 2,5 klst, 149 mínútur (10:59 - 13:28)
Erfiðleikastig:  2 skór
Vegalengd:  5,6 km
Skref: 7,912  og 565 kkal
Veður kl. 12 Skarðsmýrarfjall: Skýjað, ANA 17 m/s,  -2.5 °C.  Raki 79%
Þátttakendur: Ferðafélag Íslands og Landvernd, 18 félagar
GSM samband:  Já, enda háhitasvæði með dýrmætum borholum. Stöðugt 3G-samband.
 
Gönguleiðalýsing: Gengið eftir vegarslóða niður Skarðsmýrarfjall eftir misgengi í Þrengsli norðan við fjallið og niður Miðdal. Þar er jarðhiti og mosagróinn dalur. Ganga þarf tvisvar yfir meinlitla Hengladalsá á leið meðfram fjallinu.  Létt ganga í snjóföl, mest niðurávið um stórmerkilegt háhitasvæði.

Þetta var ekki mikil útsýnisferð. Kalt og hvasst á hæsta punkti, þar sem útsýni átti að vera mest. Hér getur að líta algengustu sýn okkar í suðurátt en þetta er skjamynd úr hinu skemmtilega appi frá Seiði, Hringsjá nefnist það.

Hringsjá


Fegurðin að Fjallabaki

Skallar og hattar voru áberandi í óhefðbundinni ferð um Friðlandið með Ferðafélagi Árnesinga.

Gengið frá Landmannalaugum inn Litla Brandsgil og upp á hrygginn Milli Brandsgilja (921 m). Þaðan haldið vestan undir  Skalla á sléttuna. Þaðan sá vel til Hofsjökuls og Hágögur voru glæsilegar austan við jökulinn. Þegar upp var komið opnaðist glæsileg sýn á hinn leyndardómsfulla Torfajökul. Öll þessi marglitu, einkennilegu fjöll blöstu við. Gengið niður á Suður-skalla (921 m).   Þaðan haldið niður að Hattveri, framhjá tignarlegum Hatti og nesti snætt undir honum.  Nokkrir klifruðu upp á Hatt og upplifðu ljóst  líparítið á kollinum. 

Eftir gott stopp var gengið eftir Jökulgilsbotni. Þaðan haldið í vestur upp hrygginn Milli Hamragilja og stefnan sett á Gráskalla.  Á leiðinni sá ofan í Stóra Hamragil. Strýta ein nafnlaus er á fjallinu þar sem gengið var upp og minnti hún á Lóndranga á Snæfellsnesi  undir ákveðnu sjónarhorni.  Á leiðinni sá ofan í Stóra Hamragil. Þar sást frumgerð af Hatti en skaparinn hefur æft sig vel fyrir hinn fullkomna Hatt.

Undir Gráskalla sá til Vatnajökuls með mikið landslag og með tignarlegan Sveinstind sem bar af í forgrunni,  Grímsvötn, svart Pálsfjall og Þórðarhyrnu.  Farið niður af sléttunni niður í Grænagil en þar var brattasta brekkan um 100 metrar og minnti á ferð niður í Víti í Ösku. Þaðan gengið eftir kolsvörtu Laugahrauni en þar er torleiði og virtist ætla að hrynja yfir okkur en áhugaverð ganga.


Á leiðinni úr Landmannalaugum sá til Þóristinds og minnti hann á hið lögulega Matterhorn.

 

Syðri-skalli

Syðri-skalli og hryggur að honum og leyndardómsfullur Torfajökull í fjarska.

Hattur og Hattarhryggur

Hattur í Hattveri er glæsileg náttúrusmíð. "Hattarhryggur" liggur að kynlega stuðlaða ríólítnúpnum Hatti.

Dagsetning: 17. ágúst 2013 
Mesta hæð: 960 m,  barmur undir Skalla

GPS hnit Hattver: 704 m (N:63.56.020 - W:19.03.398)
Hæð í göngubyrjun:  600 metrar (
N:63.59.385 – W:19.03.464) við rútuplan.
Heildarhækkun: 1.200 metrar           
Heildargöngutími: 8,5 klst, 510 mínútur (11:15 - 19:45) 

Erfiðleikastig:  3 skór
Vegalengd:  22,8 km 

Skref: 30,034
Veður kl. 15 Laufbali: Léttskýjað, NA 3 m/s,  12,1 °C.
Þátttakendur: Ferðafélag Árnesinga, 71 félagi
GSM samband:  Nei, en við skála FÍ og á nokkrum háum hæðum, 3G samband úti.


Gönguleiðalýsing
: Lagt frá rútustæði við skála FÍ í Landmannalaugum. Krefjandi ganga, gengið eftir mjóum hryggjum. Ómótstæðileg litadýrð. Gengin Skallahringur. Torfajökulsaskja, stærsta líparítnáma landsins. Gimsteinasafn.

Myndir úr ferðinni

Sigurpáll Ingibergsson:

https://www.facebook.com/sigurpall.ingibergsson/media_set?set=a.10201201339228620.1073741830.1624936523&type=1

Jón Hartmannsson:

https://skydrive.live.com/?cid=4D4A7F61F1D7F547&id=4D4A7F61F1D7F547%2116639&v=3

Einar Bjarnason:

https://plus.google.com/photos/110610845439861884745/albums/5913450375417426353?banner=pwa

Daði Garðason, Ferðafélag Árnesinga:

http://www.flickr.com/photos/ferdafelag_arnesinga/sets/72157635118871371/

Roar Aagestad

https://www.facebook.com/photo.php?fbid=4627706551052&set=pcb.568001316579884&type=1&theater

Ragnar Hólm Gíslason:

https://www.facebook.com/photo.php?fbid=10201846230907534&set=oa.567910189922330&type=1&theater

Ágúst Rúnarsson

https://www.facebook.com/agust.runarsson/media_set?set=a.10201626584176644.1073741852.1539905831&type=1

Heimildir

Friðland að Fjallabaki, Ábók Ferðafélags Íslands 2010.

Umhverfisstofnun, http://www.ust.is/library/Skrar/utgefid-efni/Baeklingar/Fjallabak_IS.pdf


Flateyjardalur

Flateyjardalur er 33 km langur dalur sem gengur inn í landið vestan Víknafjalla og  Kinnarfjalla. Sú  málvenja hefur þó verið um langan aldur að kalla einungis nyrsta hlutann, byggðina með sjónum Flateyjardal en telja mestan hluta dalsins til Flateyjardalsheiðar (220 m). Fimm sjálfstæð býli voru í dalnum  sem öll eru  komin í eyði, hið síðasta, Brettingsstaðir árið 1953. Undirlendi er þar allmikið og grösugt og rekar voru nokkrir. Vetrarríki er í Flateyjardal enda fyrir norðan 66 gráður og stutt frá Heimskautsbaugnum. Um dalinn lykja há fjöll og hlíðar þeirra eru vaxnar lyngi og öðrum gróðri, að minnsta kosti hið neðra.

Í Flateyjardal var sögusvið Finnbogasögu ramma, þar fæddist hann, var borinn út en síðar fóstraður til fullorðinsára á Eyri eða Knarrareyri. Rústir af bænum og fjárhúsum eru austan vatnsmikillar Dalsár.

Brettingsstaðir voru mest jörð í Flateyjardal og kirkjustaður um skeið, frá 1897 til 1960. En mikill jarðskjálfti skók Flatey 1872 laskaði kirkjuna. Í kjölfarið var ákveðið að flytja hana í land var og að Brettingsstöðum.

Gaman að upplifa lífsbaráttu íbúa dalsins í gegnum einfaldar og góðar merkingar á eyðibílum og ártal fylgir með.  Allt aftur til 1600.  Nokkuð fór í eyði þegar Öskjugosið var 1875 og mikil atvinna á stríðsárunum hefur frelsað restina af bæjunum undan harðindum.

Margir slæðufossar sáust í fjallshlíðunum og trölla- og mannamyndir meitlaðar í stein. Mikil kyrrð og berjaland gott. Sannkallað land göngumannsins.

 

Brettingsstaðir efri, frá 1928

Virðing - Tvennir tímar. Stórkostlegt að sjá fornminjar og vel viðhöldnu húsi, líklega frá 1928 á Brettingsstöðum.

Flateyjarsund

Flatey, Víkurhöfði og Flateyjarsund séð frá gróinni heimreið að Brettingsstöðum. Flateyjarsund, þar eru talin ein mestu hrognkelsamið við strendur Íslands.

Dagsetning: 6. ágúst 2013 
Hæð Flateyjardalsheiðar: 220 m 
Lengd Flateyjardals, F899:  33 km 
GSM samband:  Já, gott við ströndina.

Ökuleiðalýsing: Lagt frá hliði við Þverá í Fnjóskadal.  Ágætis fjallvegur og lítið mál fyrir fjórhjóladrifsbíla með mikið af vöðum, pollum og lækjum en mikill snjór í fjallshlíðum enda heitt í veðri. Helst að passa sig á að festa bílinn ekki í sandi við ströndina. Gaman að sjá vatnaskil á heiðinni en glöggir ferðamenn geta séð þegar Dalsá fer að renna í norður eftir 6 km akstur.

Heimildir

Landið þitt Ísland, Þorsteinn Jósepsson og Steindór Steindórsson, 1987.

Íslendingasögur, Finnbogasaga ramma

Magnús Már Magnússon  http://magnus.betra.is/sida.php?id=82&preview=1


Steinhleðsla Þorvalds Thoroddsens

Í Hálendishandbók Páls Ásgeirs segir:  "Ofarlega í fjallinu þykir mögrum sérstætt að rekast á tóft eins og af litlum leitarmannakofa. Þetta munu vera rústir eftir bækistöðvar manna í einum af könnunarleiðöngrum Þorvalds Thoroddsen vísindamanns."

Mér var hugsað til Þorvaldar og félaga. Einnig til Fjalla Eyvindar og Höllu. Hvílík elja í Þorvaldi að leggja á sig tíu ára landkönnunarferðalag án flísfatnaðar og svefnpoka upp að -20. Það er þrekvirki að reisa vísindabúðir í 1000 metra hæð en á þessum árum var mjög kalt á Íslandi.

Ég skildi bakpoka minn eftir í vísindabúðunum og nýtti mér fagmannlegt handafl Þorvalds og félaga til að skýla honum og létta á mér fyrir toppun eða tindun.

Ég tel að myndirnar hér fyrir neðan sýni steinhleðsluna sem hlaðnar voru fyrir rúmri öld en Þorvaldur Thoroddsen fór í tvo landkönnunarleiðangra um svæðið, 1889 og 1893.

GPS hnit steinhleðslu: (N:64.06.306   W:18.25.349)

Hæð steinhleðslu: 1.016 metrar

Mannviki á Sveinstindi

Steinhleðsla, líklega eftir Þorvald Thoroddsen og félaga. Grænifjallgarður í bakgrunn.

Steinhleðsla Þorvalds Thoroddsen

Snjór enn á tindinum og ferðamenn á leiðinni. Steinhleðslan sést við enda snjóskaflsins. Víkurskarð liggur frá veginum F235 vestan Hrútabjarga.


Fagralón

Fagralón er eitt af a.m.k. níu lónum í Fögrufjöllum við Langasjó.  Fagralón er við Sveinstind og hefur margoft verið myndað með tindinum. 

Fögrufjöll eru tvöfaldur, örmjór fjallgarður, alsettur hnjúkum. Milli þeirra hafa lón víða orðið innlyksaFögrufjöll nær algróin til að sjá, klædd mosa og háplönum á stangli. Stingur það í stúf við auðnina norðvestur af Laka.

Til er skemmtileg gönguleið frá Sveinstindi umhverfis lónið eftir hryggjum og ströndinni.  Einnig er hægt að ganga frá veiðihúsinu við Langasjó, meðfram ströndinni.  Fara upp stíg upp einn hrygginn eftir augljósri slóð og þá blasir vestari endi lónsins við. Halda áfram í austur en á smá kafla er laus skriða. Þegar hún er yfirstigin birtist svartur lágreistur háls, Þröskuldur kallast hann. Hægt er að fara vogskorna ströndina til baka.  Tekur hringferð þessi tvo og hálfan tíma til þrjá.

Eyjarnar í Langasjó njóta sín vel í þessari gönguferð. Gengið er meðfram vatnsendanum og lítur slóðin ekki vel út í fjarlægð en þegar á hólminn er komið þá er gangan einföld og hættulaus. 

Sé haldið áfram yfir í næsta lón, þá er skemmtilegt örnefni á leiðinni, Tanngarður en sagan segir að leitarmaður einn hafi týnt tönnum sínum þar og ekki hefur hann enn fundist. Það eru mörg örnefni í þessum dúr þarna en landið er svo ósnortið nema af göngumönnum.  Fæst af örnefnunum eru skráð og sum verða eflaust ekki samþykkt.

Rúmlega 5 km löng ganga önnur leiðin. Hringurinn er um 10 km, stikuð að hluta frá Sveinstind.  

GPS:  Eystri endi Fagralóns:  N:64.08.067, W:18.21.210   (704 m)

Göngukort

Glæsilegt göngukort er á leiðinni að Sveinstindi við Langasjó.  Leiðin vel merkt og vegprestar benda á helstu örnefni.

Þröskuldur

Dökkur þröskuldur í Fögrufjöllum framundan og tengist Langanesi. Eystri endi Fagralóns í fjarska og Fagralón til hægri umvafið fjallafegurð. 

Göngumenn við Fagralón

Göngumenn við eystri enda Fagralóns með Sveinstind í bakgrunn. Vegalengdin að tindinum er um 5 km. 


Sveinstindur (1.090 m)

Það var ljúft að anda að sér tæru fjallaloftinu þegar maður steig út úr tjaldinu hjá veiðihúsinu við Langasjó. Umhverfi sem þetta á engan sinn líka, upphafið, eyðilegt og hljótt. Framundan var spennandi ganga á Sveinstind í Fögrufjöllum.

Ég hafði reynt göngu á Sveinstind fyrir fjórum árum í ferð með Augnablik en þá var mikil þoka á tindinum.

Langisjór var einn best varðveitti leyndardómur við jaðar Vatnajökuls. Það var fyrst árið 1878 að skaftfellskir leitarmenn fengu veður  af stöðuvatni handan fjalla sem þeir gáfu nafnið Skaftárvatn og fjallgarðinum Skaftárfjallgarður, síðar kallað Fögrufjöll.  Hæsta tindi í fjallgarðinum gáfu þeir nafnið Bjarnatindur eftir Bjarna [Bjarnasyni] í Hörgsdal á Síðu.  

Þegar Þorvaldur Thoroddsen landkönnuður kom að Langasjó á árunum 1889 og 1893 skapaði hann örnefnin Sveinstind og Langasjó.  Hvarf þá nafnið Bjarnatindur en lægri tindur í fjallinu ber nafn Bjarna.

Sveinstindur nefndur eftir Sveini Pálssyni (1762-1840) lækni og náttúrufræðingi. Hann er eitt flottasta útsýnisfjall landsins ef skyggni er gott.

Gangan er nokkuð auðveld þó að bratt sé og greinilegur slóði alla leið. Á tveim stöðum hafa verið settar stálplötur í gönguleiðina til að koma í veg fyrir smáskriður.

Útsýni af toppi Sveinstind er víðsýnt og stórbrotið.  Langisjór blátær ber af með sína fallegu liti. Einstök Fögrufjöll eru tvöfaldur, örmjór fjallgarður, alsettur hnjúkum. Milli þeirra hafa lón víða orðið innlyksa. Þau eru hulin grænum mosa og háplöntum á stangli. Norðan við Langasjó eru gróðurlaus Tungnaárfjöll. Skaftá breiðir úr sér sunnan Fögrufjalla og ber mest á Stakafelli. Risinn Vatnajökull sýndi hvítar breiðurnar með Kerlingar og svart Pálsfjall og snævi þakin Þórðarhyrna ber af í austri. Landmannaafréttur, Veiðivötn og Kerlingarfjöll eru í norðri og Hekla áberandi í vestur.  

Lakagígaröðin í suðri er stórfengleg og með Þjórsárhraun getur orðið glæsilegur Eldfjallagarður. Grænifjallgarður glæsilegur í auðninni. 

Fyrir neðan tindinn í rúmlega þúsund metra hæð eru vegamót en hægt er að ganga niður í skála Útivistar og halda þaðan í Skælinga. Stutt þar frá er steinhleðsla. Talið er að Þorvaldur Thoroddsen hafi hlaðið hana til varnar tjaldi sínu.

Sveinstindur í vesturenda Fögrufjalla. Næst hæsti tindurinn heitir Fagra (923 m) og er í austurenda fjallgarðsins. Fögruvellir, Fagralón og Fagrifjörður með eyjunni Ást eru fögur örnefni þarna.

Gönguleið á Sveinstind

Gönguleið á Sveinstind. Fylgt er hryggnum til vinsti, alla leið á topp.  Hækkun 413 metrar.

Ægifegurð 

Á toppi Sveinstinds í 1.090 metra hæð.  Göngufólk umkringt ægifegurð. 

Dagsetning: 27. júlí 2013 
Hæð Sveinstinds: 1.090 m 

GPS hnit varða á toppi Sveinstinds: (N:64.06.346 - W:18.25.088)
Hæð í göngubyrjun:  677 metrar (N:64.06.163- W:18.26.672) við bílaplan.
Hækkun: 413 metrar           
Uppgöngutími: 81 mín (09:36 – 10:57)
Heildargöngutími: 180 mínútur (09:36 - 12:30)  Gott stopp á Sveinstindi

Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd:  5 km 
Veður kl. 12 Vatnsfell: Heiðskýrt, SV 4 m/s,  16,3 °C. Raki 54%
Þátttakendur: Skál(m), 7 manns.
GSM samband:  Já, á köflum.

Sveinstindar:  (2) Sveinstindur í Öræfajökli (2.044 m)


Gönguleiðalýsing: Lagt frá bílastæði undir Sveinstind. Gengið eftir stikaðri leið yfir gróðurlítið svæði en  klædd mosa og háplöntum á stangli.  Traust undirlag eftir hálsum og hryggjum að vörðu á toppi og við blasir ægifegurð.

Heimildir

Leyndardómur Vatnajökuls, Hjörleifur Guttormsson og Oddur Sigurðsson, 1997.

Ísafold,  1878  bls. 69 - http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=273166&pageId=3939780&lang=is&q=Vatnaj%F6kli

Náttúrufræðingurinn, 1958.  http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=4269151&issId=291007&lang=da 


Pollamótið í Vestmannaeyjum hjá leikmönnum HK

Þrítugasta Shellmóti í Vestmannaeyjum var haldið síðustu helgina í júní. Frábært mót, vel skipulagt og flottasta mót frá upphafi að sögn móthaldara. Ekta íslenskt veður var mótsdagana. Ferðadaginn var bræla, fyrsta keppnisdaginn var úrkoma, síðan stytti upp með vind úr vestri en lokadagurinn var stórgóður.

HK sendi 4 lið til keppni, 34 leikmenn og allir af eldra ári eða pollar fæddir árið 2003.

Liðin fjögur stóðu sig mjög vel.  Öll spiluðu þau 10 leiki (2 x 15 mín) á þrem dögum og gekk öllum liðum vel og voru HK til mikils sóma.


Elliðaeyjarbikarinn og Heimaklettsbikarinn í Fagralund
Skipulag Eyjamanna er til mikillar fyrirmyndar. Þeir hafa þróað flott kerfi fyrir 104 lið sem tóku þátt og er keppt um 13 bikara. En 32 félög víðs vegar af landinu sendu lið til keppni. Helsti bikarinn er Shellmótsbikarinn en hann unnu HK í fyrra.  Ekki tókst að verja hann en uppskeran var engu að síður stórgóð.  Því tveir bikarar bættust í bikarskápinn í Fagralundi.

HK-1 vann Elliðaeyjarbikarinn eftir öruggan sigur á ÍR.

HK-3 vann Heimaklettsbikarinn eftir dramatískan leik við Skallagrím frá Borgarnesi. En sá leikur er sá lengsti í sögu mótsins og náðu engar reglur um hann.

Eftir venjulegan leiktíma var staðan jöfn 0-0 og hver taug þanin hjá leikmönnum og stuðningsmönnum. Eftir framlengingu var enn markalaust.  Þá var gripið til vítaspyrnukeppni og þegar umferðinni var lokið var enn jafnt, 3-3.  Þá var gripið til þess ráðs að kasta upp hlutkesti og féll gullið HK í skaut en silfrið bættist í safn  Egils Skallagrímsmanna.

HK-2 stóð sig einnig vel, þó enginn dolla hafi fylgt þeim heim. Þeir enduðu með 60% vinningshlutfall.

HK-4 stóð sig mjög vel, ósigrað eftir tvo fyrstu dagana, og endaði með 75% vinningshlutfall.

Eyjamenn bjóða upp á ýmsar uppákomur meðan mótið stendur yfir. Fastur liður undanfarin ár er leikur Landsliðs Shellmótsins við Pressulið. Ívar Orri Gissurarson fór fyrir hönd HK og stóð sig mjög vel í hjarta varnarinnar. Stoppuðu margar sóknir Pressuliðsins á jaxlinum með rauðu HK-húfuna á kollinum.

Þjálfarar, Ómar Ingi Guðmundsson og Ragnar Mar Sigrúnarson stóðu sig frábærlega og náðu öllu því besta út úr strákunum.  

Fjöldi sjálfboðaliða hjálpaði til við að gera mótið að stórkostlegri minningu fyrir drengina. Það er það sem upp úr stendur eftir ævintýraferð sem þessa.
 
HK-ÍR
 
Ari leiðir HK-inga út á völlin í úrslitaleik gegn ÍR um Elliðaeyjarbikarinn. Eliot, Felix, Ólafur Örn, Ívar Orri, Baldur Logi, Konráð Elí, Vilbert Árni og Reynir Örn fylgja á eftir og lögðu sadda ÍR-inga að velli 5-0.
 
Tenglar:


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 51
  • Frá upphafi: 233613

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 47
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband