29.6.2008 | 15:21
Náttúran
Gærdagurinn var þétt pakkaður í náttúrunni.
Fyrst var tekið þátt í Esjudögum FÍ og SPRON við Esjurætur. Það var fjölmenni mætt á svæðið og margt skemmtilegt í boði. Við Ari fórum í skemmtilegan og þjóðlegan ratleik upp að brúnni yfir Mógilsá. Það voru fimm spurningar sem við leituðum uppi og fundum svörin við þeim. En verið var að leita að fjársjóði Egils Skallagrímssonar. Við keifuðum upp rætur Esju og mættum mikið af fólki á öllum aldri. Fyrir vikið misstum við af Jónsa, Karíus og Baktus og Júróbandinu. En það var nú allt í lagi.
Ari var sportklæddur. Hann var í stuttbuxum en féll á niðurleið og rispaðist á hné. Það blæddi úr sárinu en hann bar sig vel. Á leiðinni niður mættum við góðu fólki. Mamman í hópnum átti plástur í fórum sínum og bauðst til að hjálpa Ara litla. Hann þáði boðið og leið betur á eftir. Það er annars gaman að upplifa hvað fólk er kurteist á Esju og hjálpsamt. Allir bjóða góðan daginn og eintóm hamingja. Vandamálin eru skilin eftir niðri í borg.
Um kvöldið var boð Bjarkar og Sigur Rósar þekkst og mætt á tónleikana Náttúru. Víð náðum restinni af tónum Ólafar Arnalds en tónleikagestir voru rólegir og sátu flestir og hlýddu á. Eftir 20 mínútna pásu komu snillingarnir í Sigur Rós og spiluðu í 100 mínútur. Þeir hófu tónleikana á gömlu góðu lögunum en svo komu þrjú lög af nýju plötunni, Með suð í eyrum við spilum endalaust, inn á milli. Nýju lögin koma vel út. Bassinn var áberandi og meiri stemming. Lagið með frumlega nafninu Gobbledigook er fínt stemmingalag og tóku áhorfendur vel undir með klappi. Það var gaman að heyra í söngvaranum Jónsa, en hann virkar allaf eins og hann sé mjög feiminn þegar hann talar til áhorfenda.
Þegar Sigur Rósarmenn höfðu lokað dagskránni sinni með Popplaginu en það er magnað að sjá lúðrasveitamennina og strengjasveitina Amiinu enda lagið, kom 50 mínútna pása vegna uppsetningar á sviði fyrir Björk. Það fjölgaði í Dalnum á meðan og var frægasta Íslendingnum vel tekið. Við hlustuðum á fyrstu lögin en Ari var orðinn þreyttur og kuldinn farinn að segja til sín, því kvöddum við Björk og voru þakklát fyrir góða stund. Frábært framtak hjá listamönnunum. Vonandi verður hugarfarsbreyting hjá ráðamönnum í kjölfarið. Á leiðinni úr þvögunni gengum við yfir margar bjórdósir en ástandið hefði etv. verið betra ef tunnur hefðu verið í þvögunni.
Það má segja að Björk og Sigur Rós séu Bono og Geldof okkar Íslendinga, þau hafa göfugar hugsjónir og berjast fyrir þeim.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 15:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.6.2008 | 10:21
Fabregas gegn Lehmann
Það verður gaman að fylgjast með úrslitaleiknum á vel heppnuðu Evrópumóti í knattspyrnu annað kvöld. Þá mun spænski flotinn glíma við þýska stálið í Vín.
Ég mun horfa á leikinn með Arsenal-augum og fylgjast vel með leikmanni númer 10 hjá Spánverjum, snillingi sendinganna, Cesc Fabregas. Í markinu hjá þýska liðinu er leikmaður með númer 1, reynsluboltinn Jens Lehmann en hann er á förum frá Lundúnafélaginu. Það verður því skemmtileg barátta á milli flotaforingjans og stálmarkmannsins.
Flestar umræður um úrslitaleikinn á morgun eru um það hvort hinn 21 ára gamli Fabregas verði í byrjunarliðinu eða ekki. Hann hefur komið inná í fjórum leikjum af fimm og við það hefur leikur spænska liðsins breyst og orðið markvissari. Hann finnur ávallt mismunandi vinkla á sendingum, finnur ný svæði og sendingarnar eru hárnákvæmar. Það kemur ný vídd í spænska liðið. Spánverjar hafa ekki efni á því að geyma frumlegasta miðjumann veraldar á bekknum í úrslitaleiknum á Evrópumótinu. Skori Þjóðverjar mark snemma leiks er erfitt að ná því til baka.
Hinn 38 ára gamli markvörður Jens Lehmann hefur spilað alla leiki þýska liðsins en er nokkuð ryðgaður eftir setu á varamannabekknum í vetur. Hann leit frekar illa út í mörkunum sem Tyrkir skoruðu í undanúrslitum. En stóra spurningin er hvort reynslan fleyti honum alla leið?
Áður en mótið í Sviss og Austurríki hófst, hafði ég spáði Spánverjum sigri og ég stend heilshugar við þá spá. Ég hef verið farsæll í spádómum í þessu móti og búinn að vinna rauðvínspott upp á níu flöskur. Spánn hefur færri veikleika og fleiri styrkleika en þýska liðið. Þeir eiga frábæran markvörð. Sókndjarfan Ramos í hægra bakverði, brasilískan miðjumann að nafni Senna sem hefur mikla yfirferð og er stoppari góður. Skæða sóknarmenn og hugmyndaríka miðjumenn. Einnig eiga þeir geðvondan þjálfara, Luis Aragonés sem þeir hlýða. Auk þess voru Spánverjar með Íslandi í riðli í undankeppninni en rétt mörðu okkur í rigningarleik á Mallorca 0-1 og náðu 1-1 jafntefli í Laugardalnum en Ísland komst í 1-0 með marki frá Emil Hallfreðssyni. Þeir hafa því eitthvað lært af okkur Spánverjar.
Þjóðverjar hafa örlítið forskot á Spánverja hvað hvíld varðar. Á miðvikudag spiluðu þeir við Tyrki en Spánverjar degi síðar við Rússa. Skyldi muna um þennan auka hvíldardag hjá Þjóðverjum?
Það verður gaman að fylgjast með baráttu Fabregas og Lehmann's á morgun og bónusinn verður leikur Þýskalands og Spánverja.
Fabregas og Lehmann á góðri stundu. Mynd fengin að láni á Veraldarvefnum.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 11:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.6.2008 | 20:42
Video Lock Error
Þetta er nú ekki góð frammistaða hjá RÚV. Sífelldar truflanir sendingum frá gerfihnettinum. Villumeldingin "Video Lock Error" kom allt of oft. Hvar eru varaleiðirnar?
Einnig má spyrja hví spekingarnir hafi ekki nettengingu. Það er hægt að uppfræða menn um stöðuna, t.d. með því að skoða mbl.is
En Þjóðverjar seigir. Innbyrða sigur án þess að spila með glans og felldu baráttuglaða Tyrki á eigin bragði, með marki í blálokin.
![]() |
Þjóðverjar unnu Tyrki 3:2 og leika til úrslita |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
25.6.2008 | 00:23
Aðeins 2 mínútur með forystu
Þeir eru alveg stórmagnaðir Tyrkirnir. Ekki var þeim spáð góðu gengi á EM en þeir hafa sýnt gríðarlega baráttu og unnið Evrópubúa á sitt band.
Það er athyglisvert og hreint út sagt ótrúlegt að lið Tyrklands sé að spila í undanúrslitum á EM og aðeins búnir að hafa forystu í 2 mínútur í leikjunum fjórum. Aðeins tvær mínútur af 390 mínútum.
Fyrsti leikurinn við Portúgal tapaðist 0-2.
Annar leikurinn, var við Sviss og vannst 2-1 sigur en þá skoraði Arda Turan mark í blálokin, eða á 90+2 mínútu.
Nihat Kahveci sá svo um að slá Tékkana út með glæsimarki á 89. mínútu í 3-2 sigri.
Þriðja hetjan, Semih Serturk skoraði svo magnaðasta mark EM á 30+2 í viðbótartíma.
Sem sagt, uppsöfnuð forysta í tvær mínútur. Alveg magnað.
Hvernig fer svo laskað lið Tyrkjana út úr leiknum við Þjóðverja? Tja, ég er hræddur um að ævintýrið sé á enda runnið og öll kraftaverkin búin eða hvað? Hefur Tyrkneska þjóðin taugar í fleiri leiki?
![]() |
Tyrkir með þrettán útispilara |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 00:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.6.2008 | 23:42
Langbrók
"Þá skal eg nú muna þér kinnhestinn og hirði eg aldrei hvort þú verð þig lengur eða skemur." Svo mælti Hallgerður Langbrók er Gunnar á Hlíðarenda, eiginmaður hennar bað hana um að gera sér greiða í hremmingum sínum.
Ég varði síðustu helgi í útilegu í tjaldi á tjaldstæði Langbrók í Fljótshlíðinni. Það er varla hægt að kalla tjaldstæði, tjaldstæði í dag, því eintómir húsbílar, tjaldvagnar og fellihýsi voru á túninu. Við "tjaldstæðið" er Kaffi Langbrók sem er notalegt kaffihús í sveitinni fögru þar sem Gunnar snéri aftur. Meyjarhof eða sólarhof er á tjalsvæðinu og er notað fyrir ferðahópa. Hundar voru ekki bannaðir og var mikið um hunda og ekki urðu þeir til neinna vandræða. Fín aðstaða og mikil afþreying er í boði í Fljósthlíðinni.
Fjallið Þríhyrningur gnæfir yfir Fljótshlíðina og Landeyjar, þó aðeins 667 metra hátt sé. Sást vel lögunin og nafngift fjallsins er augljós. Frá grunnbúðunum sást vel inn Flosadal milli tindanna þriggja. En eftir brunann á Bergþórshvoli héldu brennumenn, með Svínfellinginn Flosa Þórðarson í broddi fylkingar þar fyrir og dvöldu þar í þrjá sólarhringa þar til þeir sáu að þeim stóð ekki lengur hætta af eftirleitarmönnum. Hvort sem þessi felustaður hafi verið notaður eða ekki, þá má hinn óþekkti höfundur Njálu eiga það að hann hefur valið góðan felustað fyrir söguna. Þríhyrningur togaði í augað alla helgina.
Það var margt brallað í útilegunni. Ari litli er með veiðidellu og fórum við feðgar í veiðiferð í líflausan læk. Ekki veiddist branda. Við fórum í skemmtilegt og fjölskylduvænt spil sem er frá víkingaöld, Kubb heitir það og er einfalt og spennandi. Keyrt var inn Fljótshlíðina en ekki sáust bleikir akrar, hins vegar skörtuðu Eyjafjallajökull, Mýrdalsjökull og Tindfjallajökull sínu fegursta. Þrumur og eldingar komu á sunnudeginum og vöktu mikla athygli en sólin og skúrir tókust á.
Ari veiðimaður staddur á hofstað með Þríhyrning í bak.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.6.2008 | 11:25
Sagan af dollurunum
Ég átti nokkra bandaríska dollara. Hafði átt um nokkurt skeið og geymt undir koddanum mínum og sofið vært á þeim. Ég ákvað á miðvikudaginn síðasta að selja þá. Markmiðið var að lækka örlítið yfirdráttinn á tékkareikningnum enda borgum við Íslendingar eina hæstu vexti í heimi. Einnig var markmiðið að minnka áhættu á því að dollararnir dýrmætu týndust ekki eða yrði stolið.
Ég fylgdist lítið með fréttum þennan umrædda dag. Ég tölti upp í banka og seldi. Gerði ágæta sölu. Þegar ég hlustaði á fjármálafréttir síðar um daginn var aðalfréttin um fall krónunnar. Þrjúkommaátta prósent. Hún hefði ekki verið veikari í átta ár. Ég velt því fyrir mér hvort ég hefði gert stór mistök. Hefði ég átt að bíða lengur?
Ég ákvað að pirra mig ekki á þessu flökti krónunnar.
Daginn eftir, í gær kl. 11.00, heyrði ég í fréttum er ég keyrði eftir Bústaðaveginum að krónan hefði fallið um 3.5% við opnun markaða um morguninn. Ég varð frekar pirraður en ók yfirvegað áfram. Þegar í vinnuna var komið greindi ég nokkrum samstarfsmönnum frá þessum meintu mistökum mínum. Þau hughreystu mig og sögðu að ég ætti að gleðjast yfir góðri sölu á dollurunum. Síðan leið dagurinn. Ríkisstjórnin fór að sýna að hún væri með lífsmarki og ákvað að hleypa lífi í íbúðamarkaðinn með því að nota digra sjóði Íbúðalánasjóðs. Í lok dags hafði dæmið snúist við hjá krónunni okkar. Hún hafði styrkst um 1.5%.
Salan hjá mér var sú besta í átta ár! - Vantar góðu fjármálafyrirtæki góðan sölumann?
Hér er kort yfir gengi íslensku krónunnar gagnvart bandarískum dal síðasta ár. Þar sem toppurinn er hæstur, það er dagurinn sem ég seldi dollarana mína.
17.6.2008 | 19:47
Friðhelgi Þjóðhátíðardagsins rofin
Friðhelgi Þjóðhátíðardagsins dugði sjávarbirninum (Ursus maritimus) frá norðurpólnum ekki. Þetta eru slæmar fréttir. En hann lifnar nú ekki við blessaður, þrátt fyrir þessa bloggfærslu.
Hefði Daninn hitt betur skotmark sitt, þá hefði birnan etv. komist til sinna heimkynna. Ég er að velta því fyrir mér hvort sendi hefði ekki verið komið á bangsa, hefði aðgerðin heppnast. Síðan hefðum við getað fylgst með ferðum hans í gegnum Netið, t.d. á vefnum ursus.is - Þar hefði einnig verið hægt að setja inn ýmsan fróðleik um ísbirni eða hvítabirni.
Bannar persónuvernd það nokkuð?
![]() |
Ísbjörninn að Hrauni dauður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.6.2008 | 13:10
Leggjabrjótur
Hvað er þjóðlegra en að ganga frá Þingvöllum yfir Leggjabrjót í Botnsdal í Hvalfirði. Ég ákvað að halda upp á Þjóðhátíð á með því að fara þessa leið.
Lagt var af stað frá Þingvöllum kl. 19. í gærkveldi í austan strekkingi. Við vorum því á lensi. Í ferðinni voru 23 garpar, flestir starfsmenn Brimborgar. Auðvitað ferðuðumst við með Brimborgarbílum á Þingvöll. Gengið var eftir vel varðari leið, 16 km í Stórabotn. Farið var inn Öxarárdal, yfir Leggjabrjót, framhjá Sandvatni og nokkrum Biskupsörnefnum. Komið var niður í fallega Botnsdal og á áfangastað kl. 23. Vindurinn hélt okkur vel við efnið í kraftgöngunni. Á leiðinni hlupu fjórir hraustir Boot Camp kappar. Það var gaman að fylgja þeim. Þegar í Botn var komið, sáum við að fjölgað hafði í hópum. Kom í ljós að 50 önnur ofurmenni höfðu lagt í sömu för. Útvistarfólk fór einnig sína árlegu leið en hófu göngu klukkutíma síðar.
Meðalhraði okkar var 4.4 km/klst. Við vorum á hreyfingu í 3 tíma og 35 mínútur. Stopp í 25 mínútur. Mesti hraði sem ég náði var 11,5 km en þá fauk Arsenalhúfa mín af kollinum en ég náði henni að lokum. Skemmtileg ferð með góðu fólki á þjóðlegum tíma.
Ari litli er þjóðlegur. Við vorum að horfa á Hátíðarhöldin frá Austurvelli í Sjónvarpinu í morgun. Þegar karlakórinn Fóstbræður hóf að syngja þjóðsönginn og hann komst að því hvaða söngur þetta var þá mælti sá stutti íþróttaálfur er hann sá Ólaf Ragnar og Geir H. Haarde. "Þetta er ekki handboltamenn eða fótboltamenn!".
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.6.2008 | 22:59
Brúarsmíði yfir Sultartungnaá
Þeir eru öflugir verkfræðingar Vegagerðarinnar. Þeir gerðu sér lítið fyrir og hlutu alþjóðlega viðurkenningu norræan vegasambandsins fyrir Þjórsárbrúnna og voru hlutskarpari en sjálf Eyrarsundsbrúin.
Ég átti leið upp í Jöklasel í vikunni og sá til brúarsmiða við smíði brúar yfir Sultartungnaá á veginum upp að Jöklaseli við Skálafellsjökul, einn skriðjökla Vatnajökuls. Gamla brúin skemmdist mikið í miklum vatnavöxtum sl. haust. Áætlað er að brúarsmíðinni ljúki í enda mánaðar eða byrjun júlí. Nýja brún verður um 23 metra löng, einbreið og með timburgólfi. Að hluta er hún smíðuð úr brúnni yfir Sæluhúsavötn á Skeiðarársandi en hún var tekin af á síðasta ári.
Nú er stóra spurningin hvort nýja brúin, hönnuð af verðlaunuðum brúarverkfræðingum, standist áhlaup Sultartungnajökuls í framtíðinni en brúarsmiðir eru öfundsverðir af hrjóstrugu og hrikalegu landslaginu.
Vinna við brúarstöpla í fullum gangi. Þeir eru 5-7 metra háir. Hörfandi jökulsporður Sultartungnajökuls gnæfir fyrir ofan en jökullinn teygði sig um aldarmótin 1900 og fram eftir 20. öld niður í Staðardal og hefur skilið eftir sig gróðurlítið far og jökulurðir. Sultartungnaá fossar nú niður um mikið gljúfur, Sultartungnagil, sem áður var jökli hulið, og gefur hún Staðará vott af jökullit.
Vegagerðarmenn voru einnig önnum kafnir við að laga fjallveginn, F985, upp í Jöklasel og fer hann batnandi með hverju árinu en þetta er einn tilkomumesti fjallvegur landsins. Vegalengdin frá vegamótum og upp í skála er 16 km og tekur um hálftíma að þræða hann.
Heimild:
Árbók Ferðafélags Íslands 1993. Við rætur Vatnajökuls e. Hjörleif Guttormsson.
![]() |
Þjórsárbrúin verðlaunuð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 23:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.6.2008 | 23:33
Nýtt Arsenal-lúkk
Á meðan margir leikmenn Arsenal eru að spila fyrir þjóð sína á velheppnuðu Evrópumóti, þá mallar markaðsdeildin hjá Arsenal.
Sá í dag nýja Arsenal-búninginn. Er ekki alveg nógur sáttur við nýja útlitið. Hvítu ermarnar horfnar og strik komið í staðin.
Búningahönnuðir hafa legið lengi yfir verkefninu. Hann er hannaður með V-hálsmáli en þarna undir er mestur hitinn í líkamanum og því getur hann leitað fljótt út.
Einnig á búningurinn að endurspegla gildi liðsins. Victoria Concordia Crescit, eru einkunnarorð Arsenal á latínu. Til sigurs með samstillingu eða Victory through Harmony.
Ég er samt ekki alveg að kaupa búninginn.
Cesc, Emmanuel og Theo í nýja gallanum.
Enski boltinn | Breytt s.d. kl. 23:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (16.7.): 1
- Sl. sólarhring: 22
- Sl. viku: 100
- Frá upphafi: 236928
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 85
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar