Færsluflokkur: Umhverfismál
9.9.2017 | 22:33
Lónfell (752 m)
og nefndu landið Ísland.
"Þá gekk Flóki upp á fjall eitt hátt og sá norður yfir fjöllin fjörð fullan af hafísum. Því kölluðu þeir landið Ísland, sem það hefir síðan heitið."
Fyrir fjallgöngufólk er ganga á Lónfell skylduganga á fornfrægt fell. Héðan var landinu gefið nafnið Ísland. Fjörðurinn er Arnarfjörður sem blasir við af toppnum. Göngumenn trúa því.
Fjallið er formfagurt og áberandi úr Vatnsfirðinum, ekki síst frá Grund þar sem Hrafna-Flóki byggði bæ sinn og dvaldi veturlangt við illan kost.
Lagt var á Lónfell frá Flókatóftum í Vatnsfirði, upp Penningsdal frá skilti sem á stendur Lómfell og er vel merkt leið á toppinn. Gangan hófst í 413 m hæð og hækkun um 339 metrar. Töluvert stórgrýti er þegar nær dregur fjallinu.
Ofar, í Helluskaði nær vegamótum er annað skilti og hægt að ganga hryggjaleið en mér sýndist hún ekki stikuð og aðstaða fyrir bíla léleg.
Eftir 90 mínútna göngu var komið á toppinn og tók á móti okkur traust varða og gestabók. Við heyrðum í lómi og sáum nokkur lón á heiðinni. Langur tími var tekinn við að snæða nesti og nokkrar jógaæfingar teknar til að hressa skrokkinn.
Á leiðinni rifjuðu göngumenn upp deilur á milli manna á tímum vesturferða og ortu sumir níðvísur um landi og kölluðu það hrafnfundið land en einn af þrem hröfnum Flóka fann landið. Aðrir skrifuðu og ortu um sveitarómantíkina.
Franskt par úr Alpahéruðum Frakklands fylgdi okkur og þekkti söguna um nafngiftina. Þeim fannst gangan áhrifamikil. Ekkert svona sögulegt fjall í Frakklandi.
Af Lónfelli er víðsýnt og þar sér um alla Vestfirði og Vatnsfjörðurinn, Arnarfjörðurinn og Breiðafjörðurinn með sínar óteljandi eyjar lá að fótum okkar.
Lómfell
Á skiltinu við upphaf göngu stóð Lómfell og vakti það athygli okkar. Einnig hafði vinur minn á facebook gengið á fellið daginn áður og notaði orðið Lómfell. Ég taldi að hann hefði gert prentvillu. Hann hélt nú ekki! Er hér Hverfjall/fell deila í uppsiglingu?
Ég spurði höfund göngubókar um Barðaströnd, Elvu Björg Einarsdóttur um örnefnin en hún ólst upp við að fjallið héti Lónfell og um það töluðu og tala flestir sveitungar hennar. En eftir að björgunarsveitin Lómur var stofnuð um miðjan 9. áratug síðustu aldar fór að bera á Lómfells-heitinu og þá var nafnið skírskotun í fellið - enda mynd af fellinu í merki sveitarinnar og kallmerkið "Lómur."
"Á kortum kemur alls staðar fram Lónfell, nema e.t.v. á þeim yngstu. Örnefnaskrár fyrir Barðaströnd tala einnig um Lónfell en á einum stað í örnefnaskrá fyrir bæ í Arnarfirði sá ég talað um Lómfell. Ég hef rætt málið við stofnun Árna Magnússonar (Örnefnastofnun) og þar segja þau mér að vera sæla með að svo mikill hljómgrunnur sé í heimildum fyrir "Lónfelli" en fyrst að fólk nefni fjallið einnig "Lómfell" sé ekki hægt að skera úr um hvort sé réttast - svo sé oft um örnefni og að þau breytist - það vitum við.
Margir Barðstrendingar voru hvumsa við að sjá nafnið á skiltinu og ég held að mikilvægt sé að setja upp annað skilti þar sem nafnið ,,Lónfell" kemur fram - líklega er réttast að þau standi bæði :)"
Upplifun við söguna er engu líki og vel áreynslunnar virði.
Stórgrýtt leið. Ýsufell, Breiðafell, Klakkur og Ármannsfell rísa upp. Norðan þessara fjalla lá hinn forni vegur Hornatær milli Arnarfjarðar og Vattarfjarðar.
Hér sér niður í Arnarfjörð sem er fullur af eldislaxi, hefði landið fengið nafnið Laxaland!
Dagsetning: 3. Ágúst 2017
Hæð: 752 metrar
Hæð í göngubyrjun: 413 metrar við skilti (N:65.37.431 - W:23.13.728)
Lónfell (752 m): (N:65.38.386 - W:23.11.871)
Hækkun: 339 metrar
Uppgöngutími Lónfell: 90 mín (09:40 - 11:10) 3,3 km
Heildargöngutími: 370 mínútur (09:40 - 12:50)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 6,6 km
Veður kl. 12.00: Skýjað, NNA 2 m/s, 12°C
Þátttakendur: Villiendurnar 7 þátttakendur
GSM samband: Já
Gestabók: Já
Gönguleiðalýsing: Mjög vel stikuð leið með stórgrýti er á gönguna líður
Heimild:
Barðastrandarhreppur göngubók, Elva Björg Einarsdóttir, 2016
Umhverfismál | Breytt 15.9.2017 kl. 14:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.7.2017 | 16:27
Móskarðshnjúkur (807 m)
Eitt markmið hjá mér er að ganga á bæjarfjallið Esjuna að lágmarki einu sinni á ári. Í ár var haldið á Móskarðshnjúka en þeir eru áfastir Esjunni. Tekinn var Móskarðshringur frá austri til vesturs á hnjúkana þrjá.
Aðeins austasti hnjúkurinn hét Móskarðshnjúkur, hinir voru nafnlausir, en Móskörð var nafn á hnjúkaröðinni allri. Víst er að austasti hnjúkurinn er tignarlegastur, enda afmarkaður af djúpum skörðum á báða vegu. Þessir hnjúkar eru úr líparíti og virðist ævinlega skína á þá sól vegna þeirra ljósa litar.
Lagt var á Móskarðshnúk frá Skarðsá og haldið upp Þverfell og stefnan tekin fyrir ofan Bláhnjúk. Það var þoka á austustu tindunum en veðurspá lofaði jákvæðum breytingum. Leiðin er stikuð og vel sýnileg göngufólki. Reyndir göngumenn á Móskörð segja að leiðin sé greinilegri á milli ára.
Eftir að hafa gengið í rúma þrjá kílómetra á einum og hálfum tíma, þá var toppi Móskarðshnjúks náð en skýin ferðuðust hratt. Á leiðinni á toppinn á hnjúknum var stakur dökkur drangur sem gladdi augað. Það var hvasst á toppnum skýin ferðuðust hratt.
Útsýni gott yfir Suðvesturland, mistur yfir höfuðborginni. Fellin í Mosfellsbæ glæsileg, Haukafjöll og Þrínhnúkar. Vötnin á Mosfellsheiði sáust og hveralykt fannst, líklega frá Nesjavöllum. Skálafell, nágranni í austri með Svínaskarð sem var þjóðleið norður í land. Í norðri var Trana og Eyjadalur og í vestri voru Móskarðsnafnarnir, Laufskörð og Kistufell.
Glæsileg fjallasýn eða eins og Jón Kalmann Stefánsson skrifar í Himnaríki og Helvíti: "Fjöllin eru ekki hluti af landslaginu, þau eru landslagið."
Haldið var af toppnum niður í skarðið og leitað skjóls og nesti snætt. Síðan var haldið á miðhnjúkinn (787 m), síðan á þann austasta (732 m) og niður með Grjáhnjúk (Hrútsnef).
Þórbergur Þórðarson á skemmtilega lýsingu af líparítinu í Móskarðshnjúkum sem eru hluti af 1-2 milljón ára gamalli eldstöð (Stardalseldstöðinni) í Ofvitanum. En rigningarsumarið 1913 ætlaði hann að afla sér tekna með málningarvinnu. Það var ekkert sólskin á tindunum. Það var grjótið í þeim, sem var svona á litinn. Náðu Móskarðshnjúkar að blekkja meistarann í úrkominni.
Tignarlegur Móskarðshnjúkur, 807 metrar. Trana (743 m) tranar sér inn á myndina til vinstri og Skálafell með Svínaskarð á milli er til hægri.
Dagsetning: 25. júlí 2017
Hæð: 807 metrar
Hæð í göngubyrjun: 130 metrar við Skarðsá
Hækkun: 677 metrar, heildarhækkun 814 metrar
Heildargöngutími: 240 mínútur (11:00 - 15:00)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 8 km
Veður kl. 12.00 Þingvellir: Skýjað, S 3 m/s, 15,4 °C og 69% raki
Þátttakendur: Skál(m), 3 þátttakendur
GSM samband: Já, mjög gott
Gönguleiðalýsing: Gróið land og brattar skriður
Heimildir
Íslensk fjöll, Gönguleiðir á 151 tind, Ari Trausti Guðmundsson og Pétur Þorleifsson
Morgunblaðið, Bæjarfjallið Esja, Sigrún Huld Þorgrímsdóttir, 25. nóvember 2000.
Umhverfismál | Breytt 26.8.2017 kl. 21:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.7.2017 | 16:10
Elon Musk
Elon Musk er enginn venjulegur maður. Fremstur frumkvöðla í dag og er að skapa framtíð sem er í anda gullaldar vísindaskáldskaparins.
Var að klára vel skrifaða kilju um forstjóra SpaceX, milljarðamæringinn, frumkvöðulinn, fjárfestinn, verkfræðinginn og uppfinningamanninn Elon Musk eftir Ashlee Vance. En nafnið Musk hefur oft heyrst í sambandi við nýsköpun, sjálfbærni og frumkvöðlastarfsemi undanfarið.
Ævi
Elon Musk fæddist í Pretoríu í Suður Afríku 28. júní 1971 og er því 46 ára gamall. Hann átti erfiða æsku, lenti í einelti og foreldrar hans skildu. Bjó hann hjá föður sínum en foreldrar hans og afar og ömmur voru ævintýragjarnt fólk. Hann virðist hafa verið á einhverfurófi. Elon var einfari og nörd, öfugt við systkini sín, hann las mikið og mundi allt sem hann las. Þegar allar bækur á bókasafninu höfðu verið lesnar, sérstaklega ævintýrabækur, sci-fi og teiknimyndasögur fór hann að lesa Encyclopaedia Britannica alfræðiorðabókina.
Forritunarhæfileikar fylgdu í vöggugjöf og 10 ára gamall lærði hann upp á eigin spýtur forritun. Tólf ára gamall skrifaði hann tölvuleikinn Blastar og seldi tölvutímariti. Hann var nörd!
Þegar hann útskrifaðist úr menntaskóla 18 ára ákvað hann að fara til Kanada en móðurætt hans kom þaðan. Aðskilnaðarstefnan í Suður Afríku og vandamál tengd henni gerðu landið ekki spennandi fyrir snilling.
Í Kanada vann hann fyrir sér og gekk í háskóla en draumurinn var að flytja til Bandaríkjanna og upplifa drauminn þar í Silicon Valley. Eftir háskólanám í Pennsylvaniu hóf hann árið 1995 doktorsnám í Stanford University í Kaliforníu og stofnaði með bróður sínum nýsköpunarfyrirtæki sem vann að netlausninni Zip2. Eftir mikla vinnu þá var fyrirtækið selt til Compaq fyrir gott verð. Var hann þá orðinn milljónamæringur. Þá var ráðist í næsta sprotaverkefni sem var X.com, rafrænn banki sem endaði í PayPal. Fyrirtækið var síðan selt eBay uppboðsfyrirtækinu og söguhetjan orðinn yngsti milljarðamæringur heims.
Næsta skref var að láta æskudraum rætast,nýta auðæfin og helga sig geimnum. Árið 2002 stofnaði hann geimferðafyrirtækið SpaceX sem hannar endurnýtanlegar geimflaugar. Markmiðið er að flytja vörur út í heim og hefja landnám á reikistjörnunni Mars. Þegar geimævintýrið var komið vel á veg þá stofnaði hann rafbílafyrirtækið Tesla sem og markmiðið sjálfbærir og sjálfkeyrandi bílar.
Einnig er hann stjórnarformaður í SolarCity, ráðgjafarfyrirtæki sem innleiðir sjálfbærar lausnir fyrir húseigendur.
Það er áhugavert að sjá hvað Musk lagði mikið á sig til að koma netfyrirtækjum sínum áfram, stanslaus vinna og uppskeran er ríkuleg.
Musk telur að lykillinn að sköpunargáfu sinni hafi komið frá bókalestri í æsku, sérstaklega teiknimyndasögunum en þar er ímyndunaraflið óheft.
Stjórnunarstíll
Í bókinni er stjórnunarstíll Musk ekki skilgreindur en hann lærði á hverju nýsköpunarfyrirtæki sem hann stofnaði og hefur þróað sinn eigin stjórnunarstíl. En Musk er kröfuharður og gerir mestar kröfur til sjálfs sín. Einnig byggði hann upp öflugt tengslanet fjárfesta og uppfinningamanna sem hentar vel í skapandi umhverfi Silicon Valley.
Ég fann grein á netmiðlinum Business Insider um stjórnunarstíl Musk og kallar hann sjálfur aðferðina nanó-stjórnun. En hún er skyld ofstjórnun (e. micro-management) þar sem stjórnandi andar stöðugt ofan í hálsmál starfsfólks og krefur það jafnvel um að bera allt undir sig sem það þarf að gera. Musk segir að hann sé ennþá meira ofan í hálsmáli starfsfólks! (more hands-on).
Þessi stjórnunarstíll byggist á að sögn Musk: "I always see what's ... wrong. Would you want that? When I see a car or a rocket or spacecraft, I only see what's wrong."
"I never see what's right," he continued. "It's not a recipe for happiness."
Framtíðarsýn Musk
Er að endurskilgreina flutninga á jörðinni og í geimnum.
Lykilinn að góðu gengi fyrirtækja Musk er skýr framtíðarsýn. Hjá SpaceX er framtíðarsýnin: Hefja landnám á reikistjörnunni Mars og hvetur það starfsmenn áfram og fyllir eldmóði. Þeir eru að vinna að einstöku markmiði.
Framtíðarsýnin hjá Tesla er sjálfbær orka og að ferðast í bíl verður eins og að fara í lyftu. Þú segir honum hvert þú vilt fara og hann kemur þér á áfangastað á eins öruggan hátt og hægt er.
Musk hefur skýra sýn með framleiðslu rafbíla, sjálfbærni í samgöngum. Í hönnun er Gigafactory verksmiður sem framleiða liþíum rafhlöður sem knýja mun Tesla bílana í framtíðinni.
Fyrir vikið hefur Musk náð að safna að sér nördum, fólki sem var afburða snjallt á yngri árum og með svipaðan sköpunarkraft hann sjálfur.
Það gengur vel hjá fyrirtækjum Musk núna en það hefur gengið á ýmsu. Á því kunnuga ári 2008 urðu fyrirtækin næstum gjaldþrota.
Í nýlegri frétt um SpaceX er sagt frá metári en níu geimförum hefur verið skotið á loft og Tesla hefur hafið framleiðslu á Model 3 af rafbílnum og eru á undan áætlun.
Einkaleyfi Tesla á uppfinningum tengdum rafbílunum hafa verið gefin frjáls. Fyrirtækið er rekið af meiri hugsjón en gróðavon.
Umhverfismál | Breytt 10.7.2017 kl. 08:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.10.2016 | 13:06
Vindmyllur við Þykkvabæ
Það var áhugaverð aðkoma að Þykkvabæ. Sjálfbær ímynd sem hrífur mann og færist yfir á kartöfluþorpið. Rafmagnið sem myllurnar framleiða er selt inn á kerfi Orku náttúrunnar. Nú vilja Biokraft eigendur vindmyllnanna fjölga myllum og búa til vindmyllugarð. Íbúar Þykkvabæjar eru á móti. Sjónmengun og hljóðmengun eru þeirra helstu rök, þeir vilja búa í sveit en ekki í raforkuveri.
Framleiðslan á að geta fullnægt raforkuþörf um þúsund heimila. Samanlagt afl þeirra 1,2 megavött og áætluð framleiðsla allt að þrjár gígavattstundir á ári.
Mér fannst töff að sjá vindmyllurnar tvær. Við þurfum að nýta öll tækifæri til að framleiða endurnýjanlega orku.
Vindmyllurnar tvær eru danskar, af tegundinni Vestas. Þeir eru festir á 53 metra háa turna. Það þýðir að í hæstu stöðu er hvor mylla liðlega 70 metra há, eða jafnhá Hallgrímskirkju.
4.9.2016 | 17:57
Hvítserkur (771 m)
Á leið í Húsavík eystra var keyrt framhjá Hvítserk. Bar fjallið af öðrum fjöllum með sínum frumlega svip. Litasamsetning og berggangar gera það næstum fullkomið. En Hvítserkur er ekki bara fegurðin heldur stórmerkilegt fjall.
Merking orðsins hvítserkur er hvítur kyrtill (ermalaus eða ermastuttur). Hvítserkur sem örnefni er notað um eitthvað sem líkist slíku fati. Þannig heita eftirfarandi náttúrufyrirbæri Hvítserkur. Hvítserkir eru þrír á landinu: Foss í Fitjaá í Skorradal í Borgarfirði, klettur í sjó við vestanverðan botn Húnafjarðar í Vestur-Húnavatnssýslu (hann er hvítur af fugladriti) og síðan fyrrgreint fjall. Það hefur einnig verið nefnt Röndólfur. Fjallið er myndað úr ljósu súru bergi, rýólíti/líparíti með svörtum göngum úr blágrýti á milli.
Ljósa efnið sem myndar meginhluta fjallsins er flikruberg (ignimbrit), hluti af yfir 300 m þykku jarðlagi sem myndast hefur af eldskýi við gjóskuhlaup úr Breiðvíkureldstöð litlu norðar. Gegnum ljóst og rauðbleikt flikrubergið hríslast dökkir basaltsgangar eða innskot sem sum tengjast dökkri basaltshúfu efst á tindi fjallsins, en hann er hluti af bólstrabergi og móbergi sem varð til í öskjuvatni í Breiðvíkureldstöð. Fjall sem myndaðist í setskál.
Flikrubergið í Hvítserki er samansett af mismikið ummynduðum vikri, basaltmolum og öðrum framandsteinum. Þar á meðal eru zirkon-steindir. Með aldursgreiningu reyndist aldur sumra á bilinu 126-242 milljón ár. Bendir það til að djúpt undir Austfjörðum eða hluta þeirra sé til staðar meginlandsskorpa og hafi flikrubergið rutt með sér til yfirborðsins allnokkru af fornu grannbergi gosrásarinnar og zirkon-steindir hafi síðan kristallast út úr kviku í hólfi undir eldstöðinni.
Það hefur gengið mikið á þegar fjöllin sunnan og austan Borgarfjarðar eystri mynduðust. Verði þetta staðfest með ítarlegri rannsóknum þarf að hugsa myndun Íslands upp á nýtt, en til þessa hefur verið talið að Íslands sé ekki eldra en um 16 milljón ára.
Þetta er stórmerkilegt. Það verður því gengið á Hvítserk, mögulega elsta fjall landsins við næsta tækifæri.
Hvítserkur með rauðbleikt flikruberg og bergganga, mögulega elsta berg landsins sem inniheldur zirkon-steindir og gætu verið 126-242 milljón ára og tengst myndum Grænlands eða hugsanlega flís úr meginlandsskorpu.
Heimildir
Ferðafélag Íslands árbók 2008, Úthérað eftir Hjörleif Guttormsson
Glettingur, Dyrfjallablaðið, 55-56 tölublað 2011
Ferlir.is - Borgarfjörður - Breiðavík - Húsavík - Loðmundarfjörður
Umhverfismál | Breytt 7.6.2017 kl. 13:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.8.2016 | 11:03
Húsavík eystra
Þær eru í það minnsta þrjár Húsavíkurnar á Íslandi. Eitt stórt þorp sem er höfuðborg hvalaskoðunar og hýsir einnig kísilmálmverksmiðju á Bakka. Önnur í Strandasýslu og sú þriðja á Víknaslóðum.
Húsavík eystra er stærst víkna milli Borgarfjarðar og Loðmundarfjarðar. Landnáma segir að Þorsteinn kleggi hafi numið land og út af honum séu Húsvíkingar komnir. Inn af víkinni gengur grösugur dalur sem skiptist síðan í þrjá minni dali.
Húsavík fór í eyði 1974. Eyðibyggðir búa yfir sérstakri og átakanlegri sögu. Íbúar Húsavíkur urðu flestir 65 undir lok 19. aldar en fækkað mikið eftir aldamótin 1900.
Ekki fundust baggalútar né mannabein úr kirkjugarðinum. En mögulegt er að finna baggalúta eða hreðjasteina í Álftavíkurtindi og Húsavíkurmegin í Suðurfjalli. Atlantshafið nagar í landið. Bakkarnir eru háir og eyðast stöðugt. Í byrjun 20. aldar hafði um fjórðipartur af Gamla kirkjugarði hrunið niður fyrir og var þá nýr garður vígður neðst í túni.
Jeppaslóði var ruddur 1958 frá Borgarfiðri um Húsavíkurheiði sem liggur um Vetrarbrekkur sunnan undir Hvítserk (771 m), niður eftir Gunnhildardal. Bar Hvítserkur (771 m) af og litirnir komu margbreytilegir fram eftir úrkomu dagsins. Líparítfjöllin eru hvergi litríkari og fjölbreyttari en á þessu svæði. Vegurinn versnaði eftir því sem sunnar dró en jepplingur komst án vandræða til Húsavíkur eystra. Þó þurfti hann að glíma við eina áskorun og stóðst RAV4 hana. Framhald af jeppaslóðanum liggur um Nesháls til Loðmundarfjarðar. Myndalegur skáli Ferðafélags Fljótsdalshéraðs stendur þar við veginn. Hinn formfagri Skælingur, kínverska musterið, sást ekki nógu vel í þokunni.
Það var gaman að ferðast til Húsavíkur eystra, keyra rúmlega 20 km jeppaslóða og reyna að skilja landið sitt.
Áhugavert aðgengi að Húsavíkurkirkju sem er bændakirkja sem byggð var 1937 og höfuðbólið Húsavík handan. Öllu vel viðhaldið.
Heimildir
Ferðafélag Íslands árbók 2008, Úthérað eftir Hjörleif Guttormsson
Borgarfjöður eystri borgarfjordureystri.is
21.8.2016 | 23:09
Svartfell (510 m) í Borgarfirði eystra
Ekki gaf gott veður í gönguferð í Loðmundarfjörð um Kækjuskörð. Því var ákveðið að ganga á Svartfell í Borgarfirði eystri en það var bjart yfir firðinum.
Tilvalið enda er ég að safna litafellum. Mörg örnefni á Íslandi tengjast litum, t.d. Rauðhólar, Rauðisandur og Rauðifoss, og eru rauðir litir í örnefnum oftast skýrðir með lit berggrunns eða jarðefna. Hins vegar tengist blár litur í örnefni oftast fjarlægð og skýrist af áhrifum andrúmsloftsins á ljós. Grænn litur tengist yfirleitt gróðri.
Hér eru fellin: Rauðafell, Grænafell, Bláfell, Svartafell/Svartfell, Hvítafell/Hvítfell og Gráfell.
Gengið er eftir vegslóðanum sem liggur til Brúnavíkur en þegar á gönguna leið færðist úrkoma yfir og þoka huldi Goðaborgina. Því var gengið í kringum fellið.
En göngulýsing segir: Gengið upp á tind Svartfells (510m) Brúnavíkurmegin. Fallegt útsýni er af toppnum yfir Borgarfjörð og Brúnavík. Á toppnum er að finna gestabók sem allir eiga að skrifa í. Farið er sömu leið niður af fjallinu en gengið á Hofstarndarmælinn sem er í fjallinu miðju. Svartfellshlíðarnar eru fallegt framhlaup sem hefur myndast einhvern tímann eftir síðastliðna ísöld. Þetta er leið 25 í ágætu göngukorti um Víknaslóðir.
Gjá ein mikil efst í Svartfelli heitir Klukknagjá og komu heiðnir þar fyrir klukkum sem hringja fyrir stórtíðindum og í ofsaveðrum. Sló í brýnu milli kristinna og heiðingja og höfðu þeir kristnu betur. Heiðingjar sem ekki féllu voru skírðir í Helgá en hinir dauðu voru huslaðir í Dysjarhvammi skemmt sunnan bæjar.
Bakkagerði með 82 íbúa og Svartfell í bak.
Dagsetning: 3. ágúst 2016
Hæð Svartfells: 510 m
Hæð í göngubyrjun: 15 metrar (N:65.31.152 - W:13.46.585) Hofströnd að Brúnavík. Leið 20
Heildargöngutími: 240 mínútur (09:20 - 13:20)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: Um 7,0 km
Veður kl. 12 Vatnsskarð: Skýjað, ASA 6 m/s, 6,5 °C. Raki 97%
Þátttakendur: Skál(m), 9 göngumenn.GSM samband: 3G/4G gott
GSM samband: 3G/4G gott
Gestabók: Já
Gönguleiðalýsing: Gengið eftir vegaslóða í Brúnavík, leið #20 um Hofstrandarskarð og austur fyrir Svartfell við Engidal. Farið upp skarð og komið niður inn á leið #25 og sótt á Breiðuvíkurveg.
Tenglar
http://www.borgarfjordureystri.is/ferdathjonusta/gongusvaedid-viknaslodir/gps-trokk
http://www.wildboys.is/blog/record/482593/
7.8.2016 | 13:22
Hólárjökull hörfar
Jöklarannsóknir mínar halda áfram. Ávallt þegar ég keyri framhjá Hólárjökli sem var einn af tignarlegum skriðjöklum úr Öræfajökli, þá smelli ég ljósmynd af honum. Hólárjökull er rétt austan við Hnappavelli. Hólá kemur frá honum.
Efri myndin var tekin 5. ágúst 2016 í súld. Neðri myndin er samsett og sú til vinstri tekin 16. júlí 2006 en hin þann 5. ágúst 2015. Það sést glöggt að jökultungan hefur styst og jökullin þynnst, nánast horfið. Rýrnun jöklanna er ein afleiðingin af hlýnun jarðar.
Árið 2006 voru íslenskir jöklar útnefndir meðal sjö nýrra undra veraldar af sérfræðingadómstól þáttarins Good Morning America á bandarísku sjónvarpsstöðinni ABC. Íslensku jöklarnir urðu fyrir valinu vegna samspils síns við eldfjöllin sem leynast undir íshellunni.
Jöklarnir vita svo margt. Við erum að tapa þeim með ósjálfbærri hegðun okkar.
Loftslagsbreytingar eru staðreynd og hitastig breytist með fordæmalausum hraða. Við þurfum að hafa miklar áhyggjur, jöklarnir bráðna og sjávarstaða hækkar með hækkandi hita og höfin súrna.
Draga þarf úr útblæstri jarðefnaeldsneytis og á meðan breytingarnar ganga yfir, þá þarf að kolefnisjafna. Annað hvort með gróðursetningu trjáa eða endurheimt votlendis.Einnig þarf að þróa nýja tækni.
Hólárjökull 5. ágúst 2016.
Jökulsporðurinn er nær horfinn. En hann hefur í fyrndinni náð að ryðja upp jökulruðningi og mynda garð.
Sjá:
Hólárjökull 2007 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/259538/
Hólárjökull 2008 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/611572/
Hólárjökull 2009 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/911196/
Hólárjökull 2011 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1192311/
Hólárjökull 2012 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1253486/
Hólárjökull 2015 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1920380/
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 13:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.8.2016 | 00:01
Kolufoss í Víðidal
Fólki liggur svo á í dag. En ef fólk slakar á leið norður eða suður, á milli Blönduós og Hvammstanga, þá er tilvalið að heimsækja Kolufoss í Víðidal. Mjög áhugavert gljúfur Kolugljúfur hýsir fossinn. Glæsilegur foss með sex fossálum sést vel af brú yfir ána. Gljúfrin eru 6 km frá þjóðveginum. Tröllskessan Kola gróf gljúfrið sem skóp fossinn í Víðidalsá.
Í gljúfrum þessum er sagt að búið hafi í fyrndinni kona ein stórvaxin er Kola hét og sem gljúfrin eru kennd við. Á vesturbakka gljúfranna er graslaut ein sem enn í dag er kölluð Kolurúm, og er sagt að Kola hafi haldið þar til á nóttunni þegar hún vildi sofa. Að framanverðu við lautina eða gljúframegin eru tveir þunnir klettastöplar sem kallaðir eru Bríkur, og skarð í milli, en niður úr skarðinu er standberg ofan í Víðidalsá sem rennur eftir gljúfrunum.
Þegar Kola vildi fá sér árbita er sagt hún hafi seilst niður úr skarðinu ofan í ána eftir laxi.
Kolufoss í Víðidalsá, og fellur í nokkrum þrepum.
Heimild
Mánudagsblaðið, 3 ágúst 1981
30.12.2015 | 11:28
Sýndarveruleiki
Nokkrir spá því að næsta ár, 2016, verði ár sýndarveruleikans, (virtual reality - VR). Hér er mynd af fólki með sýndarveruleikagleraugu að skoða lausn við loftslagsbreytingum með því að bjóða fólki að útiloka raunveruleikann. Sýndarveruleiki gefur notandanum þá hugmynd að hann sé staddur í allt öðrum heimi en hann er í raun staddur í.
Til eru sýndarveruleikagleraugu sem passa fyrir alla smartsíma og breyta símanum í t.d. 3D bíóhús eða þrívíða leikjahöll.
Það er næsta víst að sýndarveruleiki mun skipa stóran sess í afþreygingariðnaði framtíðarinnar.
Verður 2016 svona? Venjulegur maður sker sig úr?
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring: 7
- Sl. viku: 46
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 42
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar