Færsluflokkur: Umhverfismál

Tækifærin liggja í loftinu

Það var gleðileg frétt á visir.is í morgun um ákvörðun Bæjarráðs Hornafjarðar: "Yfirlýsing um loftslag".

„Með yfirlýsingunni ábyrgist sveitarfélagið að vinna ötullega að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í starfsemi sinni og hvetja jafnframt íbúa og fyrirtæki til þátttöku,“ bókaði bæjarráðið og fól bæjarstjóranum að ganga frá samningnum við Landvernd.

Þetta er mjög gott grænt skref enda eru jöklarnir að hverfa fyrir framan nefið á Hornfirðingum og landið að lyftast um 10 mm á ári. Stóru skipin gætu lent í vandamálum í innsiglingunni innan fárra áratuga.

Með þessu verðar skaftfellsk fyrirtæki umhverfisvænni, þau munu innleiða umhverfisstefnu og huga að sjálfbærum rekstri. En eins og staðan er í dag þá sést umhverfisstefna hjá mjög fáum ferðaþjónustufyrirtækjum á Hornafirði.

Ef þú ætlar að breyta heiminum verður þú að byrja á því að breyta sjálfum þér. 

Á loftslagssýningu COP21 í Frakklandi var snjóbíll sem notaður var á Suðurskautslandinu en hann var rafknúinn. Veit ekki hvort hann henti fyrir ævintýraferðir á Vatnajökli en ég hugsaði heim er ég sá hann. Sótspor á jöklinum myndi minnka mjög mikið með sjálfbærri tækni. Rafmagn frá Smyrlu rétt fyrir neðan Jöklasel.

Snjóbíll

Snjóbíll á 8 hjólum eða beltum sem notaður var á Suðurskautslandinu. Í eigu Venturi. Drægni 40 km og hámarkshraði 25 km/klst.


Rafbílavæðing Íslands

Eftir góða niðurstöðu á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (COP21) þá er tími jarðefnaeldsneytis og kola liðinn. 

Nú er stórt tækifæri fyrir nýsköpun í samgöngum. Á SolutionsCOP21 sýningunni í Grande Palace glerhöllinni voru margar lausnir í boði. Rafmagn, vetni, metan og lífrænt gas. 

Maður gekk út bjartsýnni á framtíðina eftir að hafa hitt fólkið sem var fullt af eldmóð að kynna frantíðarlausnir. Vonandi upphaf að nýrri franskri byltingu.

Einfaldast er að innleiða rafmagn hér á landi og hlutfallseg sala rafbíla næst mest í heiminum. Uppbygging hraðhleðslustöðva er þegar hafin hjá ON. Innan skamms verða 13 hleðslustöðvar tilbúnar. Því miður hefur bílaframleiðendum ekki tekist að hafa sömu hraðhleðslutengi á bílum sínum. Japanir nota svokallaðan CHAdeMO-staðal á meðan flestir evrópsku bílaframleiðendurnir nota Combo. Enn eitt tengið er svo AC43 sem Renault Zoe notar og Tesla sem var mjög vinsælt á sýningunni er með enn aðra gerð tengja. ON var með Chademo-staðalinn en verið að útvíkka fyrir önnur tengi. 

Þetta er því mikil kjarabót fyrir fjölskyldur. Meðan dagurinn af jarðefnaeldsneyti er á þúsund krónur, þá er dagurinn með raforku á hundrað kall. Stórkostleg kjarabót og sparar gjaldeyri og minnkar útblástur.

 

Hleðslustöð Renault Zoe

Hér eru hleðslulausnir hjá Renault Zoe, AC43. Þrjár mismunandi hleðslueiningar og hægt að sjá hleðslutíma á myndinni.

Annars var hönnun á rafbílum mjög listræn.

Toyota með frúar eða herrabíl á þrem hjólum

Toyota með frúar eða herrabíl á þrem hjólum

Rafskutla

Rafskutla notuð í Strasbourg

Heimild:

700 rafbílar á Íslandi, eftir Jón Björn Skúlason og Sigurð Inga Friðleifsson. Morgunblaðið, desember 2015.


Dómsdagsklukkan

Í dag ber að fagna. Nýr loftslagssamningur verður undirritaður í París sem byggir á trausti.

Ólafur Elíasson og grænlenski jarðfræðingurinn Minik Rosing settu upp listaverkið Ice Watch á Place du Panthéon. 12 grænlenskum ísjökum var komið fyrir á á Place du Panthéon og mynda vísa á „Dómsdagsklukku“. 

Það var áhrifaríkt að sjá ísklukkuna. Þarna var fólk af öllum aldri og öllum kynþáttum alls staðar úr heiminum. Margir hverjir að sjá ísjaka í fyrsta skipti og gaman að upplifa viðbrögð þeirra, ungra sem aldna. Þarna fræðir listin fólk á áþreifanlegan hátt og kemur vonandi hreyfingu á hlutina. En Hólárjökull og Dómsdagsklukkan eiga margt sameiginlegt, bæði að hverfa inn í tómið.

Ólafur Elíasson vonast til að listaverkið nái að brúa bilið milli gagna, vísindamanna, stjórnmálamana og þjóðhöfðingja og venjulegs fólks.

Við skulum grípa þetta einstaka tækifærir, við – heimurinn- getum og verðum að grípa til aðgerða nú. Við verðum að umbreyta þekkingu á loftslaginu í aðgerðir í þágu loftslagsins,“ segir Ólafur Elíasson. „Listin getur breytt skynjun okkar og heildarsýn á heiminum og Ice Watch er ætlað að gera loftslagsbreytingar áþreifanlegar. Ég vona að verkið geti orðið mönnum innblástur til að takast á hendur sameiginlegar skuldbindingar og grípa til loftslagsaðgerða.“

12068673_10207010540495021_5931083496929781539_o

80 tonnum af ísjökum frá Grænlandi og mynda þeir vísana á klukku


Chauvet hellarnir á Íslandi

Sá mjög áhugaverða heimildarmynd um Chauvet hellana í Suður-Frakklandi. Myndin var gerð af Werner Herzog árði 2010.  Hellirinn fannst árið 1994 af Jean-Marie Chauvet og tveim félögum og geymir ómetanlegar dýramyndir sem gerðar voru fyrir 32.000 árum.

ChauvethorsesÞað sem mér fannst áhugavert var að sjá hversu föstum tökum frönsk stjórnvöld hafa tekið á aðgengi að kalkhellinum. En hellarnir eru lokaðir allri umferð í verndunarskyni. Rammgerð hurð er fyrir hellisopinu og mjög strangar reglur um takmarkaða umgengni vísindamanna og tímalengd og tíðni heimsókna. Skófatnaður er sótthreinsaður og búið að gera palla á viðkvæmum stöðum.

Ég fór því að velta því fyrir mér hvernig íslensk stjórnvöld myndu taka á málum ef ég fyndi sambærilegan helli.

Það fyrsta sem núverandi stjórnvöld myndu gera er að stofna nefnd og væntanlega yrði Eyþór Arnalds fengin til að skálda hana. KOM myndi sjá um almannatengsl. Á meðan nefndin væri að störfum myndi vera athugða hvort Engeyingar gætu eignast hellinn eða landið sem hann væri í. Væntanlega myndi menntamálaráðherra fá verkefnið í sínar hendur og hann myndi strax athuga hvort Orka Energy myndi hafa hag af hellinum. 

Ragnheiður Elín atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra myndi fá aðgengismál og þá yrði pælt í náttúrupassa, hvort það myndi virka eða ekki. Á meðan gætu ferða menn gengið um hann að vild.  Notað hellinn sem salerni og gert þarfir sínar þar. Ekki væri splæst í kamar fyrir utan. 

Andri Snær og Björk væru fyrir utan með vikulega blaðamannafundi og segðu þjóðinni og heiminum hversu merkilegt þetta væri og takmarka þyrfti aðgengi. Gætum hellana fyrir komandi kynslóðir.

Loksins þegar Engeyingar væru búnir að eignast hellinn og náttúrupassi kominn, þá myndi koma í ljós að mygla frá andadrætti manna hefði fært ómetanleg listaverk forfeðra okkar í kaf. Svona erum við langt á eftir.  Ósjálfbær stjórnsýsla og spillt.  32 þúsund ára saga hyrfi á altari frjálshyggjunar.

Það var heppilegt að hellarnir fundust á Frakklandi en ekki Íslandi.


Ice and the Sky ***1/2

Sá þessa áhugaverðu heimildarmynd, Ísinn og himininn (e. Ice and the Sky) um jöklafræðinginn Claude Lorius eftir franska leikstórann Luc Jacquet í Bíó Paradís á föstudaginn en sýningin var í tengslum við Arctic Circle ráðstefnuna. En Lorius og samstarfsmenn unnu frækileg vísindaafrek í kuldanum á Suðurskautslandinu og náðu að lesa hitastig jarðar 800 þúsund ár aftur í tímann með því að bora niður í jökulinn og lesa upplýsingar úr ískjörnum. Frakkar unnu með Bandaríkjamönnum og síðar Sovétmönnum að vísindarannsókum í kalda stríðinu. Friður og vísindi.

Ísinn og himininnÞetta er köld mynd og sýnir hversu mikinn viljastyrk og mikla fróðleiksfýsn Lorius og vísindamennirnir sem unnu með honum höfðu. Mér kom i hug bókin Himnaríki og helvíti eftir Jón Kalman við áhorfið. Vísindamenn að skrá upplýsingar og bora niður í jökulinn meðan pósturinn glímdi við íslenskar heiðar.

Heimildarmyndin er byggð upp með efni sem leiðangursmenn tóku á eigin upptökuvélar og svo er Lorius á sama stað og horfir yfir sviðið, bæði á Suðurskautslandinu og í brenndum skógi. Hann talar ekkert en þulur þylur spekina sem greindarlegt andlit aldna vísindamannsins gefur frá sér.

Maðurinn hefur áhrif allsstaðar og daglegar gjörðir okkar hafa áhrif um allan heim. Líka á Antartíku þar sem aðeins örfáir menn stíga niður fæti.

Eftir sýninguna sagði Jacquet frá gerð myndarinnar og markmiðum hennar. Fræða fólk, sérstaklega unga fólkið. Þegar hann var spurður um hvað almenningur gæti gert til að minnka loftslagsbreytingar svaraði Luc: Almenningur að kjósa umhverfisvænt fólk á þing út um allan heim og fólk þarf að finna hamingjuna í öðru en glæsibifreiðum og flatskjám.

Áhugaverð mynd um loftslagsbreytingar og framlag merkilegs vísindamanns.


Fláajökull

Fláajökull, sem er skriðjökull og gengur úr suðausturhluta Vatnajökuls niður á Mýrar í Hornafirði hefur lengi verið uppáhaldsjökull minn en ég horfði nær daglega á hann í æsku ofan af Fiskhól og hef í gegnum tíðina séð Jökulfell sem er í jökulsporði hans stækka.  Þegar myndir frá byrjun síðustu aldar eru skoðaðar þá sést Jökulfell ekki. Það er hulið ísstáli.

Umgjörð Suðursveitar, Mýra og Nesja í Hornafirði er mjög óvenjuleg og á sér kannski hvergi hliðstæðu, hvorki hér á landi né annarsstaðar. Stutt til sjávar og hver skiðjökullinn eftir annan steypist niður frá Vatnajökli og breiðir úr sér. Það er ótrúlega stutt frá grænu sveitinni upp í meginhvel Vatnajökuls, aðeins 15 km. Ferðamönnum nútímans finnst þetta einnig heillandi sýn og tilbúnir að greiða hátt gjald fyrir upplifunina sem er einstök: Voldugur jökullinn seilist niður í byggð í gegnum fjallaskörð og dali niður á græna og votlenda byggðina.  En fyrr á öldum háðu bændur mika baráttu við vötnin. Skaftfellsk þrautseigja sem hélt lífinu í byggðinni.

Fláajökull

Fláajökull frá þjóðvegi. Jökulfell sækkar á hverju ári.

Ég heimsótti vin minn Fláajökul 3. ágúst 2015 og velti því um leið fyrir mér þegar ég gekk yfir traustra göngubrúnna yfir kolmórauða jökulánna Hólmsá að einhvern tíma í framtíðinni gætu ísjakar og jöklar heyrt sögunni til og aðeins verið til á myndum. Það er ein afleiðing hnattrænnar hlýnunnar. 

Jöklar vita svo margt. Jöklar geyma ótrúlegt magn upplýsinga um veður og loftslag.

Á síðasta mælingarári hörfaði sporður Fláajökuls um 78 metra. Hörfunin frá 1995-2000 var að meðaltali 10-25 m/ári en hefur verið 50-78 m/ári síðan þá.

Í fróðlegri ritgerð, Hörfunargarðar við Fláajökul: Landlögun, dreifing, setgerð og bygging eftir Heimi Ingimarsson er fjallað um hörfunargarða og dembigarða jafngangsjökla. Einnig hörfun jökulsporðsins.

Fláajökull og Hólmsá

Hólmsá, sem rennur undan Fláajökli, hefur lengi ógnað byggð á Mýrum

Áægtis upplýsingar eru um baráttu Mýramanna og jökulsins víða nálægt bílastæðinu. Árið 1937 voru miklar framkvæmdir og einnig 2002. Densilegur kamar tekur á móti ferðamönnum og smá mátti geitur frá Húsdýragarðinum í Hólmi. 

Fláajökull hefur einnig borið nafnið Hólmsárjökull en Hólmsá kemur frá honum en einnig Djúpá sem fellur í Hornafjarðarfljót. Einnig hafa nöfnin Mýrajökull og Hólsárjökull verið notuð yfir skriðjökulinn.

Heimildir:
Hörfunargarðar við Fláajökul: Landlögun, dreifing, setgerð og bygging, Heimir Ingimarsson, 2013
Við rætur Vatnajökuls, Árbók FÍ 1993, Hjörleifur Guttormsson
Jöklar á Íslandi, Helgi Björnsson, 2009.
Geographic Names of Iceland‘s Glaciers: Historic and Modern, Oddur Sigurðsson og Richard S. Williams jr, 2008.


mbl.is Tveir í sjálfheldu við Fláajökul
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

#mittframlag

Hann var ánægjulegur föstudagurinn 4.september en þá fékk ég boð um að mæta í franska sendiráðið og taka á móti verðlaunum í ljósmyndakeppninni #mittframlag. Sendiherra Frakka og starfsfólk ásamt samstarfsaðilum verkefnisins voru mjög viðkunnanleg og hjálpleg enda ætla Frakkar að ná árangri á COP21 fundinum í byrjun desember. Verðlaunin voru ferð fyrir tvo til Parísar meðan fundurinn, sem gæti orðið mikivægasti fundur mannkyns, stendur yfir.

Eftir að hafa æft mig í frönsku yfir daginn var tekinn strætó, leið 5 niður í bæ. Farið út hjá BSÍ og gengið eftir Fríkirkjuveginum og meðfram Tjörninni. Ég var klæddur svörtum fötum, samt ekki á leið í jarðarför heldur í umhverfisvænstu litunum.

Hornfirðingar eru að upplifa loftslagsbreytingar með eigin augum. Jöklarnir sem hafa vakað yfir okkur í þúsund ár eru að hverfa. Fyrir nokkru voru þeir taldi ásamt eldfjöllum undir þeim til 7 undur veraldar. Píramídar okkar eru að hverfa fyrir framan nefið á okkur. Ég lagði mitt af mörkum til að stöðva þróunina í Ríki Vatnajökuls. Verðum að halda hitabreytingum undir 2 gráðum. Ég sendi inn mynd af Hólárjökli en ávallt þegar ég keyri framhjá honum tek ég mynd af skriðjöklinum hverfandi.

Ljósmyndin sem vann er verkefni sem ég hef unnið síðastliðin 9 ár og gæti talist sem endurljósmyndun. Aðferð sem gengur út á að taka gömul verk og endurvinna sömu sjónarhorn.

Hólárjökull - Vatnajökull

Mynd af Hólárjökli vinnur ljósmyndaleik. Samsett mynd af Hólarjökli frá 2006 til 2015.

Dómnefnd ljósmyndaleiksins Mitt framlag hefur valið mynd Sigurpáls Ingibergssonar af Hólarjökli sigurvegara í ljósmyndaleiknum #MittFramlag. Dómnefndin taldi að samsettar myndir Sigurpáls af Hólarjökli sem teknar eru með tíu ára millibili sýni í hnotskurn áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi.
Vísindamenn telja að 80 af jöklum á Íslandi muni bráðna fyrir lok þessarar aldar. Því er spáð að Langjökull, næststærsti jökull landsins, hverfi innan hálfrar annarar aldar.
Sigurvegarinn í vali dómnefndar hlýtur ferð fyrir tvo til Parísar á meðan COP21, Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna, stendur yfir í desember. Icelandair og franska sendiráðið á Íslandi gáfu vinninginn og hefur Sigurpáll og gestur hans tök á að heimsækja ýmsa viðburði í tengslum við loftslagsráðstefnuna.
Alls bárust 154 ljósmyndir í ljósmyndaleikinn. Tilgangurinn var að vekja almenning til vitundar um lofslagsbreytingar. Engin skilyrði voru um val á myndefni að öðru leyti en því að myndirnar skyldu minna með einum eða öðrum hætti á loftslagsbreytingar.
Myndum var hlaðið inn á á netið með Instagram, Twitter og Facebook og á vefsíðu leiksins, www.mittframlag.is
Ljósmyndaleikurinn var haldinn í samvinnu Evrópustofu, Náttúruverndarsamtaka Íslands, Umhverfisstofnunar, Sendiráðs Fraklands á Íslandi, Reykjavíkurborgar, Kapals - markaðsráðgjafar og UNRIC, Upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna.

Ég er ákaflega stoltur að því að hafa unnið ljósmyndakeppnina og þarna náð að sameina tvö áhugamál mín, ljósmyndum og umhverfismál. Veit að myndin hefur haft áhrif á fólk og vakið upp umræðu. Gef allan höfundarétt og vonandi fá komandi kynslóðir að njóta þess. 

Tæknilega séð er myndin ekki mikið afrek, það má ýmislegt finna að henni en sagan sem hún geymir er áhrifarík. Segir meira en þúsund orð.


Hólárjökull 2015

Jöklarannsóknir mínar halda áfram. Ávallt þegar ég keyri framhjá Hólárjökli sem var einn af tignarlegum skriðjöklum úr Öræfajökli, þá smelli ég ljósmynd af honum. Hólárjökull er rétt austan við Hnappavelli. Hólá kemur frá honum.

Fyrri myndin var tekin þann 16. júlí 2006 og sú nýjasta þann 5. ágúst 2015.  Það sést glöggt að jökultungan hefur styst og jökullin þynnst, nánast horfið.  Rýrnun jöklanna er ein afleiðingin af hlýnun jarðar. Ég spái því að jökultungan verði horfin innan fjögurra ára. Hlutirnir gerast svo hratt.

Árið 2006 voru íslenskir jöklar útnefndir meðal sjö nýrra undra veraldar af sérfræðingadómstól þáttarins Good Morning America á bandarísku sjónvarpsstöðinni ABC. Íslensku jöklarnir urðu fyrir valinu vegna samspils síns við eldfjöllin sem leynast undir íshellunni.

Jöklarnir vita svo margt. Við erum að tapa þeim með ósjálfbærri hegðun okkar.

160707

Hólárjökull, 16. júlí 2006. Jökulsporðurinn þykkur og teygir sig niður í gilið.

Hólárjökull 05.08.2015

Hólárjökull, 5. ágúst 2015. Augljós rýrnun á 9 árum. Jökulsporðurinn er nær horfinn. En hann hefur í fyrndinni náð að ryðja upp jökulruðningi og mynda garð.

Sjá:
Hólárjökull 2007 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/259538/
Hólárjökull 2008 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/611572/
Hólárjökull 2009 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/911196/
Hólárjökull 2011 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1192311/

Hólárjökull 2012 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1253486/


Íshellar og áin Volga í Kverkfjöllum

Eitt af undrum Kverkfjalla eru íshellar í Kverkjökli og áin Volga. Volga er ein af fyrstu kvíslum Jökulsár á Fjöllum, næst lengstu á landsins 206 km. En hvernig varð nafnið Volga til?

Sumarið 1963 fóru nokkrir menn í Jöklarannsóknarfélaginu í Kverkfjöll. Þeir hugðust kanna gróður og ganga á fjöll, en eins og oft vill verða á þessum slóðum tók veðrið af þeim völdin og varð þeim ekki annað til dundurs en að kanna íshella Kverkjökuls. Um hellisgöngin streymdi 13°C heit á og henni var gefið nafnið Volga. Aðal íshvelfing undirheimanna reyndist 15-20 metra há og 330 metra löng. Hún þrengdist inn á við og endaði háum fossi. Þar var skuggsýnt og mikið gufukóf. En Volguhellar eru að breytast. Volga stendur ekki lengur undir nafni og á meðan hún streymir ísköld viðheldur hún ekki hvelfingunum. Jökullinn skríður fram og við hellisopið hrynja ísflykki af og til. (bls. 276)

Á sumrin gætir ekki hitans í Volgu því leysingavatn gerir hana að ískaldri jökulá.

Við merktan göngustíg í átt að íshellinum eru skilti sem banna skoðunarferðir inn í íshellinn enda er þar slysahætta af völdum íshruns. Hópur af erlendum ferðamönnum fór samt inn í íshellinn og virti aðvaranir ekki að vettugi. Þegar við vorum búin að vera í nokkurn tíma að fræðast um íshellinn og samspil elds og ísa þá komu tveir erlendir ferða menn út úr hellinum. Þeir hafa eflaust farið lengra inn í hann en hópurinn. Þeim til happs var að vorið og sumarið var kalt og íshellinn stöðugri en í meðalári.

Fréttamaðurinn Ómar Ragnarsson er mjög hrifinn af Kverkfjöllum og hefur kynnt íshellin, Volgu og Kverkfjöll fyrir Íslendingum. Hann hefur lent í háskalegum atburðum og náð á kvikmynd. Í ljóðinu Kóróna landsins eftir Ómar er þessi fallega lína um Volgu:  Í Kverkfjöllum glóðvolg á íshellinn þvær.

íshellirinn í Kverkjökli

Íshellirinn í Kverkjökli þann 18. júlí 2015. Hann má muna fífil sinn fegurri. En hiti frá Volgu hefur minnkað og framskrið Kverkjökuls hefur dregið úr tignarleik hellisins.

Heimildir:
Perlur í náttúru Íslands, Guðmundur Páll Ólafsson, 5. prentun 2005.


Fossaganga í Skjálfandafljóti

Skjálfandafljót er fjórða lengsta á landsins, lengd fljótsins er 178 km. Það var því ákveðið að ganga rúma 20 km með eystri bakka Skjálfandafljóts. Gangan hófst við Réttartorfu og endaði við stuðlaðan Aldeyjarfoss.

Á leiðinni var hugsað til mögulegrar virkjunar, Hrafnabjargavirkjunar en á teikniborðinu eru þrír kostir, A, B og C. Við gengum eftir Fljótsdalnum sunnan við Hrafnabjörg og værum á kafi væri búið að virkja.

Með virkjun myndi stóru gróðursvæði á hálendinu vera sökkt með 25 km löngu miðlunarlóni og Aldeyjarfoss myndi þorna upp.

Í Skjálfandafljóti eru margir fallegir fossar með söguleg nöfn: Ullarfoss, Barnafoss, Goðafoss, Aldeyjarfoss, Hrafnabjargafossar og minna þekktir eru, Geitafoss, Ingvararfossar, og syðst er Gjallandi, en þeir eru fleiri.  Við ákváðum að heimsækja Hrafnabjargafossa, Ingvararfossa og Aldeyjarfoss í ferðinni.

Ferðin gekk vel frá Réttartorfu en ein á er á leiðinni, Sandá og vorum við ferjuð yfir.

"Hljóðlítið fljótið safnar enn í sig sopum úr ótal lænum áður en það fossar tignarlegt af stöllum Hrafnabjarga og nokkru neðar fram af hamraskrúði Aldeyjarfoss." (bls. 327, Hálendið í náttúru Íslands).

Það er gaman að ganga í gamla árfarvegi Skjálfandafljóts og finna fyrir pússuðu hrauninu og virða fyrir sér skessukatlana. Leiðin eftir gamla fljótsfarveginum er vel gróin við Stórutungu og mjög falleg. 

Það má ekki hrófla við fossunum, þeir eiga aðeins eftir að skapa tekjur fyrir komandi kynslóðir. Ég rifja oft upp þegar fyrstu hvalaskoðunarferðirnar voru farnar fyrir 22 árum, þá fóru 200 manns í ferð en í dag hefur talan þúsundfaldast!

Hrafnabjargafossar

Hrafnabjargafossar, margslungnir, minna á Goðafoss og fleiri fagra fossa.

Ingvararfossar

Kraftmiklir Ingvararfossar, frumgerð að Aldeyjarfossi eða Hjálparfossi í Þjórsá.

Aldeyjarfoss

Aldeyjarfoss er myndrænn vegna samspils svarts basalts og hvíts vatns.

Dagsetning: 10. júlí 2015 
Göngutími: 330 mín (12:30 - 18:00)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd:  20 km 
Veður kl. 15 Mývatn: Alskýjað, NV 4 m/s,  7,2 °C. Raki 71%. 
Þátttakendur: Frænku-gönguhópur, 7 manns og trúss.
GSM samband:  Lélegt á köflum.

Gönguleiðalýsing: Gengið í hrauni eftir mögulegu miðlunarlóni, Fljótsdalnum og eftir vegaslóða.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 42
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband