Færsluflokkur: Umhverfismál
20.10.2019 | 19:11
Loftmengun - orðaskortur í byrjun bílaaldar
Fyrsti bíllinn kom til Hafnar árið 1927 en Hornfirðingar voru ekki sammála um ágæti þessa fyrsta faratækis [...] og bóndi nokkur vildi láta banna notkun þess því að það eyðilegði alla hesta og svo færi það svo illa með vegi. 95
En ef skaftfellski bóndinn sem vitnað er í hér að ofan hefði einnig minnst á mengunina sem kemur frá bifreiðunum þá hefði hans verið getið í annálum og öðlast mikla frægð fyrir víðsýni og gáfur. Orðið annar Skaftfellskur ofviti. En orðið var ekki til. Eða er eftir honum rétt haft?
Andri Snær Magnason sem nýlega gaf út meistaraverkið Um tímann og vatnið hefur fjallað um orðanotkun og hugtök.
Súrnun sjávar er stærsta breyting á efnafræði jarðar í 50 milljón ár ásamt því sem er gerast í andrúmsloftinu. Það hlýtur að koma mér við. En hvernig á ég að segja frá þessu í bók? Orðið súrnun er ekki þrungið merkingu eins og kjarnorkusprengja. Ég þarf að gera lesandanum ljóst að orðið sé risavaxið en hafi allt of litla merkingu. Það er meðal þess sem ég reyni í þessari bók. Fréttablaðið 4. október 2019
Sama henti skaftfellska bóndann í byrjun bílaaldar, það var ekki til orð yfir mengandi útblásturinn frá bílnum. Orðaforðinn kemur á eftir tækninni. Hefði bóndinn nefnt orð sem tengdist útblæstrinum hefði þessi neikvæða setning um hann ekki verið jafn neyðarleg. Ef hann hefði notað orð eins og loftmengun, olíumengun, útblástur eða sótagnir þá hefðu þau orðið nýyrði og merki um mikla visku.
Vefurinn timarit.is er merkilegur vefur og leitaði ég eftir fimm mengandi orðum sem getið er ofar.
Orðið loftmengun kemur fyrst fyrir í byrjun árs 1948 í Morgunblaðinu. Um 20 árum eftir að fyrsti bíllinn kemur til Hornafjarðar: Ekki var þó gert ráð fyrir að hjer yrði um svo mikla loftmengun að ræða, að hætta stafaði af. Segir í fréttinni.
Árið 1934 er fyrst minnst á útblástur gufu en áður notaði í merkingunni stækkun, eða úrás. Fyrsti útblástur mótorvélar í Siglfirðingi 25. janúar 1942.
Olíumengun kemur fyrst fyrir 1955,
Sótagnir koma fyrst fyrir í krossgátu 1953 en í tímaritinu Veðrið 1956 Auk þess hrífa droparnir með sé í fallinu sótagnir þær, sem kunna að vera svífandi i loftinu fyrir neðan skýin
Orðið mengun er þó fyrir bílaöld á Íslandi en notað um skemmd. mengun af ormarúg, Norðanfari, 20. desember 1879.
En skyldi skaftfellski bóndinn skilja orðið hamfarahlýnun og áttað sig á orsökum hennar ef samband næðist við hann í gegnum miðil í dag?
Heimildir
95 Arnþór Gunnarsson. 1997:285 Saga Hafnar I
Fréttablaðið 4. október 2019
Timarit.is
26.8.2019 | 12:45
Sköflungsvegur
Mosfellsheiði hefur gegnt merkilegu hlutverki í sögu samgangna milli Innnesja og Árnessýslu frá upphafi og lumar á ótal skemmtilegum gönguleiðum. Mosfellsheiði er víðlent heiðarflæmi sem rís hæst 410 metra yfir sjávarmál í Borgarhólum en þeir eru kulnuð eldstöð.
Sköflungsvegur er ein af gönguleiðunum og liggur frá Draugatjörn við Húsmúla norður með hlíðum Hengils og Sköflungs og endar í Vilborgarkeldu, skammt frá Þingvallavegi.
Rúta keyrði göngumenn að Draugatjörn en vegurinn er lokaður skammt frá henni. Gengið var að réttinni, hlaðna garða frá tímum búskapar á Kolviðarhóli og þaðan að rústum sæluhússins og lesnar sögur úr nýprentaðri Árbókinni. Leiðsögumenn voru höfundar Árbókar FÍ, þau Margrét Sveinbjörnsdóttir, Bjarki Bjarnason og Jón Svanþórsson. Miðluðu þau fróðleik til göngufólks af mikilli þekkingu og innlifun.
Síðan var gengið undir Húsmúla en örnefnið kemur af sæluhúsinu sem var þarna. Lítið fell er í suðvestur og heitir Lyklafell. Maður tekur varla eftir því þegar Hellisheiðin er ekin en þegar maður fer öld aftur í tímann þá skilur maður af hverju nafnið er dregið. Það er lykill í samgöngum yfir Hellisheiði og yfir Mosfellsheiði. Í raun stór varða. Fóelluvötn eru skammt frá fellinu og skiptir vatn öllu máli í hestaferðum.
Í grænum Engidal var tekið kaffi. Skeggi í Henglinum dró að sér mikla athygli en undir honum voru kynjamyndir úr sorfnu móbergi. Má þar nefna dularfullt gil nefnt Kolsgil en vatnið hefur sorfið móbergið í tímanna rás. Þjófahlaup en sögur voru um útilegumenn undir Henglinum. Marardalur er stutt frá gönguleiðinni en þangað fóru ungir menn í helgarreisur. Einn af þeim var Matthías Jochumsson, og mögulega hafa þessar ferðir vakið hugmyndir að leikritinu Útilegumennirnir eða Skugga-Sveini árið 1861.
Farið vestan megin við Sköflung en horft yfir glæsilegan Grafning og Þingvallavatn frá Sköflungshálsi en Grafningsvegur liggur þar um. Gönguferðin endaði við Vilborgarkeldu en þar komust hestar og menn í vatn. Það er áhugavert að konur eru kenndar við keldur en karlar við fjöll.
Á leiðinni mættum við hestamönnum, motocross-hjólum, reiðhjólafólki og öðru göngufólki. Farastjórar hafa unnið við undirbúning bókanna í 7 ár og hafa tekið eftir að gróður hefur tekið við sér, bæði vegna minni beitar og hlýrra loftslags. Áður fyrr voru naut á beit og hreindýr á þessum slóðum. Kolviður áformar að kolefnisjafna útblástur með því að planta trjám á heiðinni. En taka verður tillit til náttúruminja.
Þjóðleiðir eru auðlind sem við verðum að varðveita. Besta leiðin er að koma þeim í notkun á ný.
Eftir að hafa gengið Sköflungsveg og skilið vegakerfið eftir frábæra leiðsögn frá Bjarka, Margréti og Jóni þá verður að koma upplýsingum á framfæri á leiðinni. En heiðin var orðin heillandi víðátta. Gera þarf góð upplýsingaspjöld á lykilstöðum og koma fyrir upplýsingum og vegprestum á leiðinni. Mosfellingar eiga að kunna þetta en fellin sjö eru vel merkt hjá þeim. Einnig hefur Ferðamálahópur Borgarfjarðar gert góða hluti með Víknaslóðir.
Gönguleiðir yfir Mosfellsheiði er góð viðbót fyrir göngufólk við fótskör höfuðborgarsvæðisins. Nú þarf ekki að leita langt yfir skammt en merkilegast er að skilja betur lífsstíl forfeðra okkar.
Á leiðinni var lesið úr árbókinni og komu þá hlutir í samhengi. Áhugavert var að heyra ferðalýsingar en ferðamenn fyrr á tímum áttu leið yfir heiðina. Margir þeirra lýstu heiðinni sem endalausu flæmi af grjóti og þótti hún heldur tilbreytingalaus en aðrir nutu kyrrðarinnar og þótti víðáttan heillandi.
Jón Svanþórsson farastjóri vann merkilegt verk en hann hnitsetti allar vörður á Mosfellsheiðinni og eru þær um 800 talsins og um 100 fylgja Þingvallaveginum gamla.
Í kjölfar árbókarinnar kemur síðan út göngu- og reiðleiðabókin Mosfellsheiðarleiðir eftir sömu höfunda, þar sem 23 leiðir á heiðinni eru kortlagðar og þeim lýst í máli og myndum.
Nú fara ekki lengur þreyttir baggahestar um Mosfellsheiði, heldur fer þar orka í raflínum austan úr sveitum. Hér er göngufólk að nálgast Vilborgarkeldu og Sköflungur er handan.
Dagsetning: 6. júlí 2019
Hæð í göngubyrjun: 271 metrar við Draugatjörn (N: 64.03.058 W: 21.24.969)
Engidalur: 253 m (N: 64.04.821 W: 21.22.598)
Kolsgil: 313 m (N: 64.06.419 W:21.19.731)
Frakkastígur varða (Jónsvarða) staur 198: 324 m (N: 64.07.711. W: 21.20.197)
Sköflungsháls: 315 m (N: 64.09.366 W: 21.18.271)
Hæð í göngulok: 221 metrar við Vilborgarkeldu (N: 64.11.996 W: 21.16.415)
Lækkun göngufólks: 50 metrar
Heildargöngutími: 540 mínútur (09:15 18:15)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 23 km
Veður: Heiðskýrt, N 4 m/s, 14,1 °C
Þátttakendur: Ferðafélag Íslands, 20 þátttakendur í einni rútu.
GSM samband: Já
Gestabók: Nei
Gönguleiðalýsing: Gengið eftir gamalli þjóðleið. Vel grafin á köflum og sýnileg.
Facebook-status: Stórfróðleg Árbókarferð um Sköflungsveg. Það er magnað hvað forfeður okkar hafa byggt öflugt vegakerfi um Mosfellsheiðina.
Heimild:
Árbók F.Í. 2019 Mosfellsheiði - landslag, leiðir og saga
Kort úr Árbók FÍ á bls. 103 sem sýnir Sköflungsveg og Draugatjörn sem lykilstað.
7.5.2019 | 09:02
Loftslagsbreytingar: Þróun lausna og bætt nýting auðlinda
Mál nr. S-103/2019
Hagrænir hvatar
Lífsferilsgreiningar sýna að byggingar eiga um þriðjung af heildar kolefnisspori jarðarinnar.
Stjórnarráðið á að setja stefnu um að allar stofnanir verði í vistvæntu vottuðum byggingum fyrir árið 2030. Einnig eiga fyrirtæki og einstaklingar að geta fengið skattaafslátt hafi þau vistvænar vottanir. Hagrænir hvatar eru lykilinn í að breyta hegðun. Sveitarfélög geta gefið afslátt af fasteignagjöldum. Hús Náttúrufræðistofnunar í Urriðaholti er ágætis fyrirmynd en hún er í BREEAM vottunarferli. New York með metnaðarfull verkefni. Einnig hefur Kaliforníuríki útfært vistvænar lausnir í byggingum.
Stjórnvöld eiga að nota hagræna hvata á öllum þeim stöðum sem hægt er að koma þeim á til að stuðla að sjálfbærni og hækka álög á alla sóun og mengun. Stuðla að því að fara inn í hringrásarhagkerfi, úr línulega hagkerfinu með allri sinni sóun.
Kolefnisskattar
Kolefnisspor flugs er 12% af samgöngum og er fyrir utan mörg losunarkerfi. Íslensk stjórnvöld eiga að vera í fararbroddi og setja kolefnisskatt á allt flug til og frá landinu og nýta fjármagnið í kolefnisjöfnun með gróðursetningu, endurheimt votlendis, landgræðslu og í nýsköpun. Alls ekki niðurgreiða flug, það er í mótsögn við umhverfisáhrifin.
Vistvænir bílar verði með lágmarks álögur en jarðefnabílar skattaðir í botn. Brennsla á jarðefnaeldsneyti er ekkert annað en glæpur gegn mannkyni.
Kolefnisspor á umbúðir vöru
Fæða á um þriðjung af heildar kolefnissporinu. Matarsóun er mikil í hinum vestræna heimi og einn liður í að sporna við henni er að kolefnisspor matvöru sé reiknuð og gefið upp á umbúðum. Einnig á vörulýsingu og verðmiðum. Styðja við nýsköpun á framsetningu kolefnisspors.
Einingin er kg CO2/kg. https://www.oatly.com/se/products/havredryck-deluxe
Fólksfækkun
Hver einstaklingur skilur eftir sig kolefnisspor og því fleiri einstaklingar því meira álag verður á jörðina. Fæðingarhlutfall íslenskra kvenna er þó jákvætt, 1,7 barn á hverja konu. Yfirleitt er miðað við að frjósemi þurfi að vera um 2,1 barn til þess að viðhalda mannfjöldanum til lengri tíma litið. Tryggja þarf að úrelt hagfræðilíkön sem ganga út á endalausa fólksfjölgun fái ekki að ráða ferðinni. Fólksfækkun skapar vandamál en fólksfjölgun skapar enn stærra vandamál. Stjórnvöld eiga ekki að hvetja til barneigna með ívilnunum. Taka þarf tillit til umhverfisþátta í hagvexti.
Neyðarástand
Ísland á að lýsa yfir neyðarástandi vegna loftslagsmála tafarlaust.
Ísland á um 0,02% af heildarlosun CO2 og er lítill leikari á sviðinu þó kolefnissporið á einstakling sé með því stærsta í heimi. En takist Íslandi að innleiða djarfar og áhrifaríkar sjálfbærar lausnir sem virka og verði kolefnishlutlaust fyrir 2040 þá verður landið góð fyrirmynd fyrir heimsbyggðina.
Á meðan hiti á jörðinni eykst, jöklar bráðna, höfin súrna og loðnan hverfur þá er þessi umsögn skrifuð.
Heimildir:
https://architecture2030.org/buildings_problem_why/
https://www.nature.com/news/one-third-of-our-greenhouse-gas-emissions-come-from-agriculture-1.11708
https://www.hagstofa.is/utgafur/frettasafn/mannfjoldi/faedingar-2017/
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 09:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.9.2018 | 11:49
Geitafell (509 m)
Geitafell er 509 metrar á hæð og klætt fallegri mosakápu. Það er vestan Þrengslavegar. Fellið stendur stakt og á góðum degi er afar víðsýnt af því. Það var bjart í norðri þegar lagt var í gönguna en blikur á lofti í suðurátt.
Geitafell er móbergsstapi og hefur myndast við gos undir jökli, en gosið hefur ekki náð upp úr ísaldarjöklinum. Misgengi liggur eftir endilöngu fellinu frá suðvestri til norðausturs. Austurhlutinn hefur sigið nokkuð og sést það vel á loftmyndum.
Geitafellin eru fjögur víða um landið skv. Kortabók Íslands og hafa forfeður okkar fundið geitur eða haft geitur á beit í fellunum. En geitarstofninn á Íslandi er í útrýmingarhættu en fjöllin hverfa ekki. Og þó. Mikið malarnám er í Lambafelli og sótt hart að efni úr norður og suðurátt.
Gengið frá malarnáminu í Litla-Sandfell yfir Þúfnavelli að rótum Geitafells en þar er vegvísir. Eftir hálftíma göngu er komið að honum og um 200 metra brött hækkun tekur við. Eftir það er létt hækkun að Landmælingavörðu á hæsta punkti.
Þegar á toppinn var komið var skollið á mikið óveður, úrkoma og rok úr austri, því var snúið strax til baka og leitað að skjóli fyrir nestispásu. Það munaði mikið á 50 metra lækkun en veðrið lagaðist mikið þegar neðar dró.
Útsýni á góðum degi er gott yfir Ölfusið og hraunin í kring. Bláfjöll, Heiðin há í vestri. Laskað Lambafell eftir malarnám, Meitlarnir tveir, Litla-Sandfell, Ingólfsfjall, Skálafell, Krossfjöll og Hekla. Þorlákshöfn sást í þokumóðunni og var draugaleg að sjá. Ölfusá og Flói voru áberandi í landslaginu.
Hægt er að halda áfram í suður niður af fjallinu og lengist gangan þá í 12-13 km. Einnig er hægt að ganga hringinn í kringum Geitafellið og tekur sú ganga um 4 klst. og er 11,5 km löng.
Þegar göngu var lokið við Litla-Sandfell sáum við mikið af forhlöðum, plasthylkjum frá haglskotum en greinilegt að þarna er skotsvæði Ölfusinga. Mikil sjónmengun og vont að sjá. Plastmengun í plastlausum september var áfall og skemmdi upplifunina. Bæjaryfirvöld í Ölfusi eiga að hreinsa svæðið fyrir fyrsta snjó vetrarins.
Geitafell í Ölfusi klætt fallegri mosakápu. Ganga þarf um 2 km yfir grasi gróna velli að rótum fellsins.
Dagsetning: 15. september 2018
Hæð: 509 metrar
Hæð í göngubyrjun: 225 metrar við Litla-Sandfell (N:63.57.368 - W:21.28.243)
Vegamót: 247 m við Geitafell (N:63.57.368 W:21.30.516)
Geitafell (509 m): Landmælingavarða (N:63.56.365 - W:21.31.516)
Hækkun: 284 metrar
Uppgöngutími Geitafell: 100 mín (08:40 - 10:20) 4,0 km
Heildargöngutími: 200 mínútur (08:40 - 12:00)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 8,8 km
Veður kl. 10.00 - Hellsheið: Alskýjað, A 6 m/s, 4,0 °C, raki 94%
Þátttakendur: Fjallkonur 5 þátttakendur, 2 hundar.
GSM samband: Já
Gestabók: Nei
Gönguleiðalýsing: Ganga í mosavöxnu landslagi. Auðvelt uppgöngu og hentar vel fyrir byrjendur í fjallamennsku.
Heimildir
Íslensk fjöll. Gönguleiðir á 151 tind.
Kortabók Ísland
31.12.2017 | 01:14
Myrkrið veit ****
Bókin Myrkrið veit eftir Arnald Indriðason er áhugaverð bók enda varð hún söluhæsta bók ársins.
Í þessari glæpasögu er kynntur nýr rannsóknarlögreglumaður til leiks, Konráð heitir hann og kynnist maður honum betur með hverri blaðsíðu. Hann er nokkuð traustur og áhugaverður, flókinn æska og með brotinn bakgrunn, visna hönd og persónuleg vandamál eins og allir norrænir rannsóknarlögreglumenn. Í lok sögunnar kemur skemmtilega útfært tvist á karakter Konráðs.
Það sem er svo áhugavert við bækur Arnaldar er persónusköpun hans og hvernig hann kynnir hverja og eina persónu til leiks. Einnig er tækni höfundar góð við að setja lesandann niður í tíðarandann. Fólk sem komið er á miðjan aldur kannast við mörg atriði sem fjallað er um og getur samsamað sér við söguna.
Dæmi um það er Óseyrarbrúin og Keiluhöllin í Öskjuhlíð. Þessi mannvirki koma við sögu og fléttast inn í sögusviðið og gera söguna trúverðugri. Ég fletti upp hvenær mannvirkin voru tekin í notkun og stenst það allt tímalega séð. Keiluhöllin var tekin í notkun 1. febrúar 1985 og Óseyrarbrú 3. september 1988. Stafandi forsætisráðherrar voru aðal mennirnir við vígsluathafnirnar.
En í sögunni eru þrjú tímabil, morðið á Sigurvin árið 1985, bílslys árið 2009 og sagan lokarannsókn Konráðs sem kominn er á eftirlaun árið 2016.
Einnig er falleg sena um Almyrka á tungli á köldum morgni á vetrarsólstöðum árið 2010 en þá yfirgefur eiginkona Konráðs jarðlífið. Allt gengur þetta upp. Annað sem er tákn í sögum Arnaldar er bíómyndir en þær koma ávallt við sögu, rétt eins og jarðarfarir í myndum Friðrik Þórs.
Sögusviðið þarf að vera nákvæmt fyrir Íslendinga. Eða eins og Ari Eldjárn orðaði svo skemmtilega í spaugi um kvikmyndina Ófærð: Hvernig eiga Íslendingar að geta skilið myndina þegar maður gengur inn í hús á Seyðisfirði og kemur út úr því á Siglufirði.
Toppurinn í nostalgíunni er innslagið um rauðvínið The Dead Arm, Shiraz frá Ástralíu. (bls. 186) - Sniðug tengin við visnu höndina og lokasenuna en vínið er staðreynd.
Eini gallinn í sögunni og gerir hana ósannfærandi er að Arnaldur hefur gleymt verðbólgudraugnum, peningar sem finnast í íbúð virðast ekkert hafa tapað verðgildi sínu.
Ég var einnig hrifin af elementum sem koma við sögu í bókinni en jökull, brýr loftslagsbreytingar, léttvín og kvótakerfið koma við sögu. Einnig minnir líkfundurinn í Langjökli mann á Geirfinns og Guðmundarmál, endurupptaka en jöklarnir vita svo margt.
Myndlíkingin við Ölfusá er tær skáldasnilld hjá Arnaldi, þegar ein sögupersónan situr þar og horfir í fljótið en jökullin sem er að bráðna geymdi líkið í 30 ár.
Það er einnig húmor og léttleiki í sögunni, meiri en ég hef átta að venjast frá Arnaldi.
Sem sagt vel skrifuð og fléttuð bók en glæpurinn og lausn hans er frekar óspennandi og liggur stundum í dvala.
Hönnun á bókarkápu er glæsileg, form andlit í jöklinum. Vel gert.
Tenglar:
Óseyrarbrú - http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=122021&pageId=1688158&lang=is&q=%D3seyrarbr%FA
Keiluhöllin - http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=119930&pageId=1605489&lang=is&q=KEILUH%D6LLIN%20Keiluh%F6llin
Almyrkvi tungls - http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=339641&pageId=5343991&lang=is&q=tungl%20tungl
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 01:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.11.2017 | 14:51
Grábrók (170 m) 2017
Það var gaman að ganga upp á Grábrók í sumar og hafa einstakt útsýni yfir Borgarfjarðarhérað og Norðurárdalinn. Sjá Baulu í öllu sínu veldi, Hraunsnefsöxl, Hreðavatn, Bifröst og Norðurá. Það sem vakti mesta athygli er göngustigar sem stýrir umferð um viðkvæmt fjallið eða fellið.
Mér finnst vel hafa tekist til með gerð göngustigana og merkinga til að stýra umferð gangandi og auka öryggi, en svona inngrip er umdeilt en eitthvað þarf að gera til að vernda óvenjulega viðkvæmt svæði þar sem hraun og mosi er undir fótum.
Grábrók er einn af þremur gígum í stuttri gígaröð. Þeir heita Grábrók (Stóra Grábrók), Smábrók (litla Grábrók) og Grábrókarfell (Rauðabrók). Úr þeim rann Grábrókarhraun fyrir 3.200 árum og myndaði meðal annars umgjörð Hreðavatns. Efni í vegi var tekið úr Smábrók á sjötta áratugnum og tókst að stoppa þá eyðileggingu.
Daginn eftir var gengin hringur sem Grábrókarhraun skóp, gengið frá Glanna, niður í Paradísarlaut og meðfram Norðurá og kíkt á þetta laxveiðistaði. Það var mikil sól og vont að gleyma sólarvörninni. Mæli með bók eftir Reyni Ingibjartsson, 25 gönguleiðir í Borgarfirði og Dölum fyrir stuttar upplifunarferðir.
Hæð: Um 170 metrar
Hæð í göngubyrjun: Um 100 m (N:64° 46' 17.614" W:21° 32' 23.370")
Hækkun: 70 metrar
Heildargöngutími: 30 mínútur (20:00 - 20:30)
Erfiðleikastig: 1 skór
Þátttakendur: Fjölskylduferð, 6 manns
GSM samband: Já
Gestabók: Nei
Gönguleiðalýsing: Létt ganga mest upp eða niður göngustiga
Hér sér ofan í gíginn í Grábrók sem gaus fyrir 3.200 árum. Manngerðir göngustigar sem minnka álag og falla ágætlega að umhverfinu liggja upp og niður fjallið.
14.10.2017 | 15:43
Hvalárvirkjun - eitthvað annað
Takk, takk Tómas, Ólafur og Dagný fyrir að opna Ísland fyrir okkur á #LifiNatturan. Alltaf kemur Ísland mér á óvart. Stórbrotnar myndir sem sýna ósnortið víðerni sem á eftir að nýtast komandi kynslóðum. Við megum ekki ræna þau tækifærinu.
En hvað skyldu Hvalárvirkjun og hvalaskoðun eiga sameiginlegt?
Mér kemur í hug tímamótamyndir sem ég tók í fyrstu skipulögðu hvalaskoðunarferðunum með Jöklaferðum árið 1993. Þá fóru 150 manns í hvalaskoðunarferðir frá Höfn í Hornafirði. Á síðasta ári fóru 354.000 manns í hvalaskoðunarferðir. Engan óraði fyrir að þessi grein ætti eftir að vaxa svona hratt. Hvalaskoðun er ein styrkasta stoðin í ferðaþjónustunni sem heldur hagsæld uppi í dag á Íslandi. Hvalaskoðun fellur undir hugtakið "eitthvað annað" í atvinnusköpun í stað mengandi stóriðu og þungaiðnaði.
Vestfirðingar geta nýtt þetta ósnortna svæði með tignarlegum fossum í Hvalá og Rjúkanda til að sýna ferðamönnum og er nauðsynlegt að finna þolmörk svæðisins. Umhverfisvæn og sjálfbær ferðaþjónusta getur vaxið þarna rétt eins og hvalaskoðun. Fari fossarnir í ginið á stóriðjunni, þá rænum við komandi kynslóðum arðbæru tækifæri. Það megum við ekki gera fyrir skammtímagróða vatnsgreifa.
Ég ferðaðist um Vestfirði í sumar. Dvaldi í nokkra daga á Barðaströnd og gekk Sandsheiði, heimsótti Lónfell hvar Ísland fékk nafn, Hafnarmúla, Látrabjarg og Siglunes. Það var fámennt á fjöllum og Vestfirðingar eiga mikið inni. Þeir verða einnig að hafa meiri trú á sér og fjórðungnum. Hann býður upp á svo margt "eitthvað annað".
Við viljum unaðsstundir í stað kílóvattstunda.
Fyrstu myndir sem teknar voru í hvalaskoðun á Íslandi 1993 og birtust í fjölmiðlum. Þá fóru um 150 manns í skipulagðar hvalaskoðunarferðir. Í dag fara 354.000 manns á ári. Það er eitthvað annað.
Marga þyrstir í heiðarvötnin blá | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 20:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.9.2017 | 20:52
Einbreiða brúin yfir Steinavötn fórnarlamb loftslagsbreytinga
Loftslagið er að breytast með fordæmalausum hraða. Úrkoman í Ríki Vatnajökuls er afsprengi loftslagsbreytinga.
September hefur skapað af sér öflugustu hvirfilbili í langan tíma á Atlantshafi. Irma, Jose og María eru sköpuð í mánuðinum í hafinu. Rigningin sem dynur á okkur er erfingi þeirra. Allir þekkja Harvey og Irmu sem gerðu árásá Texas, Flórida og nálægar eyjar nýlega.
Eina jákvæða við þetta er að náttúran sér annars um að losa okkur við þessar einbreiðu brýr, ekki gera stórnmálamenn það. Í dag eru 20 einbreiðar brýr í Ríki Vatnajökuls, svartblett í umferðinni. Nú verða þær 19!
Brú yfir Steinavötn var ekki á Samgönguáætlun og svo hefur samgönguráðherra, Jón Gunnarsson vill lækka skatta í kosningaloforðum en setja veggjöld á alla staði. Það er ekkert annað en dulbúin skattheimta sem kemur ósanngjarnt niður. Rukki Jón 300 fyrir hverja einbreiða brú, þá kostar ferðalagið 5.700 kall í aukna skatta.
Bæjaryfirvöld í Ríki Vatnajökuls og hagsmunaðilar í ferðaþjónustinni hafa ekki verið nógu beitt við að krefjast úrbóta. Enda flestir í flokknum. Þeir mættu taka Eyjamenn og Reyknesinga sér til fyrirmyndar.
En hvað geta Skaftelleingar og fólk á jörðinni gert best gert til að minnka áhrif loftslagsbreytinga? Í rannsókn hjá IPO fyrr á árinu kom fram: Til þess að hafa raunveruleg áhrif á loftslagsbreytingar þarf komandi kynslóð að taka upp bíllausan lífsstíl, eignast færri börn, draga úr flugferðum og leggja meiri áherslu mataræði sem byggir á grænmeti. Sá sem neytir fyrst og fremst grænmetisfæðis leggur fjórum sinnum meira af mörkum til minnkunar losunar en sá sem aðeins flokkar og endurvinnur rusl. Þetta eru þær aðferðir sem skila mestu, bæði þegar horft er til losunar og áhrifa á stefnumörkun.
Ég á myndir af hættulegustu stöðum landsins.
Brúin yfir Steinavötn er einn af þeim. Nú löskuð og búið að loka henni. Einbreið 102 m löng, byggð 1964.Loftslagsbreytingar eru orsök úrkomunnar. Öfgar í veðri aukast.
Bygging bráðabirgðabrúar hefst á morgun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Umhverfismál | Breytt 30.9.2017 kl. 00:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.9.2017 | 14:37
Hólárjökull 2017
Jöklarannsóknir mínar halda áfram. Ávallt þegar ég keyri framhjá Hólárjökli sem var einn af tignarlegum skriðjöklum úr Öræfajökli, þá smelli ég ljósmynd af honum. Hólárjökull er rétt austan við Hnappavelli. Hólá kemur frá honum.
Efri samsetta myndin var tekin 5. ágúst 2016 í súld og 13. ágúst 2017 í fallegu veðri. Tungan hefur aðeins styst á milli ára. Neðri myndin er samsett og sú til vinstri tekin 16. júlí 2006 en hin þann 5. ágúst 2015. Það sést glöggt að jökultungan hefur styst og jökullin þynnst, nánast horfið. Rýrnun jöklanna er ein afleiðingin af hlýnun jarðar.
Árið 2006 voru íslenskir jöklar útnefndir meðal sjö nýrra undra veraldar af sérfræðingadómstól þáttarins Good Morning America á bandarísku sjónvarpsstöðinni ABC. Íslensku jöklarnir urðu fyrir valinu vegna samspils síns við eldfjöllin sem leynast undir íshellunni.
Jöklarnir vita svo margt. Við erum að tapa þeim með ósjálfbærri hegðun okkar.
En hvað getur almenningur best gert til að minnka sótsporið? Í rannsókn hjá IPO fyrr á árinu kom fram: Til þess að hafa raunveruleg áhrif á loftslagsbreytingar þarf komandi kynslóð að taka upp bíllausan lífsstíl, eignast færri börn, draga úr flugferðum og leggja meiri áherslu mataræði sem byggir á grænmeti. Sá sem neytir fyrst og fremst grænmetisfæðis leggur fjórum sinnum meira af mörkum til minnkunar losunar en sá sem aðeins flokkar og endurvinnur rusl. Þetta eru þær aðferðir sem skila mestu, bæði þegar horft er til losunar og áhrifa á stefnumörkun.
Loftslagsbreytingar eru staðreynd og hitastig breytist með fordæmalausum hraða. Við þurfum að hafa miklar áhyggjur, jöklarnir bráðna og sjávarstaða hækkar með hækkandi hita og höfin súrna.
Fyrirtæki og almenningur þarf úr útblæstri jarðefnaeldsneytis og á meðan breytingarnar ganga yfir, þá þarf að kolefnisjafna. Annað hvort með gróðursetningu trjáa eða endurheimt votlendis.Einnig þarf að þróa nýja tækni.
Jökulsporðurinn er nær horfinn. En hann hefur í fyrndinni náð að ryðja upp jökulruðningi og mynda garð.
Sjá:
Hólárjökull 2007 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/259538/
Hólárjökull 2008 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/611572/
Hólárjökull 2009 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/911196/
Hólárjökull 2011 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1192311/
Hólárjökull 2012 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1253486/
Hólárjökull 2015 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1920380/
Hólárjökull 2016 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/2177752/?t=1470576153
16.9.2017 | 17:23
Hafnarmúli (um 300 m)
Hafnarmúli er snarbrattur með flughömrum milli Mosdals og Örlygshafnar í Patreksfirði gengt þorpinu.
Neðan við veg númer 612 er hægt að leggja bílum og hefja göngu inn Mosdal, upp hálsinn og ganga eftir toppnum að vörðu á fremsta hluta Hafnarmúla. Gangan upp tekur einn knattspyrnuleik og það borgar sig ekki að reyna að stytta sér leið upp fjallshlíðina, heldur fylgja slóða upp hálsinn að vörðu fremst á fjallinu.
Á leiðinni er tilvalið að stoppa við Garðar BA64, elsta stálbát Íslendinga í fjörunni í Skápadal og koma við í Sauðlauksdal. Eftir gönguferð er sniðugt að koma við á Minjasafni Egils Ólafssonar að Hnjóti.
Magdalena Thoroddsen lýsir svo bjarginu:
Flestum gæðum foldar rúinn
fjalladjásn með klettaskörð.
Hafnarmúlinn hömrum búinn
heldur vörð um Patreksfjörð.
Útsýni af Hafnarmúla er stórgott yfir Patreksfjörð. Þorpið með bæjarfjallið Brellur á ská á móti. Núpurinn Tálkni beint á móti með ekta vestfirska fjallabyggingu. Dýrðin er að horfa niður í Örlygshöfn, sjá litadýrðina í vaðlinum, gyllta sanda, græn tún, grænan sjó og blátt haf. Ógleymanlegt.
Hafnarmúli er helst þekktur fyrir hörmulegt sjóslys. Í ofviðri 1. desember 1948, fórst enski togarinn Sargon undir Hafnarmúla í Patreksfirði og fórust með honum 11 manns en 6 tókst að bjarga.
Í Lýsing Íslands eftir Þorvald Thoroddsen segir um Hafnarmúla: "austan við vaðalinn í Örlygshöfn er Hafnarmúli, snarbrattur og hvass að ofan einsog saumhögg," Ekki skil ég alveg hvað Þorvaldur á við með lýsingunni "að ofan eins og saumhögg" en að ofan er fjallið jafnslétt og mosagróið þó laust grjót sé en saumhögg er hvass þrístrendur hryggur.
Eftir göngu á Hafnarmúla var farið í sund í Barmahlíð á Patreksfirði. Úr heitu pottinum sér göngumaður að múlinn sker sig aðeins úr fjallasalnum með gylltar fjörur sunnan fjarðar.
Varða nálægt fremsta hluta Hafnarmúla, á móti er hinn bratti núpur Tálkni, hann skilur Patreksfjörð frá Tálknafirði. Selárdalshlíðar sjást handan Tálkna.
Dagsetning: 2. ágúst 2017 Yfirdráttardagurinn
Hæð: Um 300 metrar
Hæð í göngubyrjun: 12 metrar við bílastæði við Mosá
Hafnarmúli varða (282 m): (N:65.34.862 - W:24.05.474)
Hækkun: 270 metrar
Uppgöngutími Hafnarmúli: 100 mín (09:50 - 11:30) 4,2 km
Heildargöngutími: 190 mínútur (09:50 - 13:00)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 8,4 km
Veður kl. 12.00: Skýjað, S 1 m/s, 11°C
Þátttakendur: Villiendurnar, 8 þátttakendur
GSM samband: Já
Gestabók: Nei
Gönguleiðalýsing: Vel sýnileg leið með stórgrýti í uppgöngu. Mosavaxið að ofan.
Heimild:
Lýsing Íslands: Þorvaldur Thoroddsen
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 17:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 3
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 57
- Frá upphafi: 233595
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 48
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar