Færsluflokkur: Ferðalög
31.8.2017 | 08:50
Sandsheiði (488 m)
Sandsheiði er gömul alfaraleið á milli Barðastrandar og Rauðsands. Gatan liggur upp frá Haukabergsrétt við norðanverðan Haukabergsvaðal um Akurgötu, Hellur, Þverárdal, Systrabrekkur að Vatnskleifahorni.
Þar eru vötn og ein tjörnin heitir Átjánmannabani en hún var meinlaus núna. Níu manna gönguhópurinn hélt áfram upp á Hvasshól, hæsta punkt og horfði niður í Patreksfjörð og myndaðist alveg nýtt sjónarhorn á fjörðinn. Uppalinn Patreksfirðingur í hópnum varð uppnuminn af nostalgíu. Nafnið Hvasshóll er mögulega komið af því að hvasst getur verið þarna en annað nafn er Hvarfshóll en þá hefur Rauðasandur horfið sjónum ferðamanna. Það var gaman að horfa yfir fjörðinn hafið og fjallahringinn og rifja upp örnefni.
Þegar horft var til baka af Akurgötu skildi maður örnefnið vaðall betur, svæði fjöru sem flæðir yfir á flóði en hreinsast á fjöru, minnir á óbeislaða jökulá.
Áfram lá leiðin frá Hvasshól,um Gljá og niður í Skógardal á Rauðasand. Á leið okkar um dalinn gengum við fram á Gvendarstein (N:65.28.154 - W:23.55.537), stóran steinn með mörgum smáum steinum ofaná. Steinninn er kenndur við Guðmund góða Hólabiskup. Sú blessun fylgir steininum að leggi menn þrjá steina á hann áður en lagt er upp í för komast þeir heilir á leiðarenda um villugjarna heiði. Endað var við Móberg á Rauðasandi eftir 16 km. göngu. Algengara er að hefja gönguna þaðan.
Góður hluti háheiðinnar er svo til á jafnsléttu, heitir Gljá. Það sér í Molduxavötn sem bera nafn sitt af stökum grjóthólum eða klettastöpum er nefnast Molduxar. Molduxi þýðir stuttur, þrekvaxinn maður.
Á leiðinni yfir heiðina veltu göngumenn fyrir sér hvenær Sandsheiðin hafi verið gengin fyrst. Skyldi hún hafa verið notuð af Geirmundi heljarskinni og mönnum hans í verstöðinni á Vestfjörðum? Ekki er leiðin teiknuð inn á kort í bókinni Leitin að svarta víkingnum eftir Bergsvein Birgisson.
Sandsheiðin er einstaklega skemmtileg leið í fótspor genginna kynslóða.
Þegar á Rauðasand er komið verðlaunaði gönguhópurinn sig með veitingum í Franska kaffihúsinu en bílar höfðu verið ferjaðir daginn áður. Landslagið á staðnum er einstakt,afmarkast af Stálfjalli í austri og Látrabjargi í vestri og fyllt upp með gylltri fjöru úr skeljum hörpudisks.
Síðan var haldið að Sjöundá og rifjaðir upp sögulegir atburðir sem gerðust fyrir 215 árum þegar Bjarni Bjarnason og Steinunn Sveinsdóttir myrtu maka sína.
Að lokum var heitur Rauðasandur genginn á berum fótum og tekið í strandblak.
Dagsetning: 1. Ágúst 2017
Hæð: 488 metrar
Hæð í göngubyrjun: 16 metrar við Haukabergsrétt (N:65.28.833 - W:23.40.083)
Hvasshóll (488 m): (N:65.29.892 - W:23.46.578)
Móberg upphaf/endir (29 m): (N:65.28.194 - W:23.56.276)
Hækkun: 462 metrar
Uppgöngutími Hvasshóll: 180 mín (09:30 - 12:30) 8 km
Heildargöngutími: 360 mínútur (09:30 - 15:30)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 16 km
Veður kl. 12.00: Léttskýjað, ANA 3 m/s, 12,4 °C
Þátttakendur: Villiendurnar 9 þátttakendur
GSM samband: Já, mjög gott
Gestabók: Nei
Gönguleiðalýsing: Vel gróið land í upphafi og enda með mosavöxnum mel á milli um vel varðaða þjóðleið
Heimild:
Barðastrandarhreppur göngubók, Elva Björg Einarsdóttir, 2016
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.7.2017 | 16:27
Móskarðshnjúkur (807 m)
Eitt markmið hjá mér er að ganga á bæjarfjallið Esjuna að lágmarki einu sinni á ári. Í ár var haldið á Móskarðshnjúka en þeir eru áfastir Esjunni. Tekinn var Móskarðshringur frá austri til vesturs á hnjúkana þrjá.
Aðeins austasti hnjúkurinn hét Móskarðshnjúkur, hinir voru nafnlausir, en Móskörð var nafn á hnjúkaröðinni allri. Víst er að austasti hnjúkurinn er tignarlegastur, enda afmarkaður af djúpum skörðum á báða vegu. Þessir hnjúkar eru úr líparíti og virðist ævinlega skína á þá sól vegna þeirra ljósa litar.
Lagt var á Móskarðshnúk frá Skarðsá og haldið upp Þverfell og stefnan tekin fyrir ofan Bláhnjúk. Það var þoka á austustu tindunum en veðurspá lofaði jákvæðum breytingum. Leiðin er stikuð og vel sýnileg göngufólki. Reyndir göngumenn á Móskörð segja að leiðin sé greinilegri á milli ára.
Eftir að hafa gengið í rúma þrjá kílómetra á einum og hálfum tíma, þá var toppi Móskarðshnjúks náð en skýin ferðuðust hratt. Á leiðinni á toppinn á hnjúknum var stakur dökkur drangur sem gladdi augað. Það var hvasst á toppnum skýin ferðuðust hratt.
Útsýni gott yfir Suðvesturland, mistur yfir höfuðborginni. Fellin í Mosfellsbæ glæsileg, Haukafjöll og Þrínhnúkar. Vötnin á Mosfellsheiði sáust og hveralykt fannst, líklega frá Nesjavöllum. Skálafell, nágranni í austri með Svínaskarð sem var þjóðleið norður í land. Í norðri var Trana og Eyjadalur og í vestri voru Móskarðsnafnarnir, Laufskörð og Kistufell.
Glæsileg fjallasýn eða eins og Jón Kalmann Stefánsson skrifar í Himnaríki og Helvíti: "Fjöllin eru ekki hluti af landslaginu, þau eru landslagið."
Haldið var af toppnum niður í skarðið og leitað skjóls og nesti snætt. Síðan var haldið á miðhnjúkinn (787 m), síðan á þann austasta (732 m) og niður með Grjáhnjúk (Hrútsnef).
Þórbergur Þórðarson á skemmtilega lýsingu af líparítinu í Móskarðshnjúkum sem eru hluti af 1-2 milljón ára gamalli eldstöð (Stardalseldstöðinni) í Ofvitanum. En rigningarsumarið 1913 ætlaði hann að afla sér tekna með málningarvinnu. Það var ekkert sólskin á tindunum. Það var grjótið í þeim, sem var svona á litinn. Náðu Móskarðshnjúkar að blekkja meistarann í úrkominni.
Tignarlegur Móskarðshnjúkur, 807 metrar. Trana (743 m) tranar sér inn á myndina til vinstri og Skálafell með Svínaskarð á milli er til hægri.
Dagsetning: 25. júlí 2017
Hæð: 807 metrar
Hæð í göngubyrjun: 130 metrar við Skarðsá
Hækkun: 677 metrar, heildarhækkun 814 metrar
Heildargöngutími: 240 mínútur (11:00 - 15:00)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 8 km
Veður kl. 12.00 Þingvellir: Skýjað, S 3 m/s, 15,4 °C og 69% raki
Þátttakendur: Skál(m), 3 þátttakendur
GSM samband: Já, mjög gott
Gönguleiðalýsing: Gróið land og brattar skriður
Heimildir
Íslensk fjöll, Gönguleiðir á 151 tind, Ari Trausti Guðmundsson og Pétur Þorleifsson
Morgunblaðið, Bæjarfjallið Esja, Sigrún Huld Þorgrímsdóttir, 25. nóvember 2000.
Ferðalög | Breytt 26.8.2017 kl. 21:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.6.2017 | 16:23
Land föður míns
Ich bin ein Berliner!
Ég heimsótti Berlín í vor yfir helgi, naut lífsins og kynntist sorglegri sögu borgarinnar. Hótelið var á Alexanderplatz stutt frá helsta stolti Austur-Þýskalands, 368 m háum sjónvarpsturni milli Maríukirkjunnar og rauða ráðhússins, en hverfið tilheyrði Austur-Berlín og því sáust styttur af Karl Marx og Friedrich Engels í almenningsgörðum. Húsin í hverfinu voru í austurblokkarstíl en þegar gengið var eftir skemmtigötunni: Unter den Linden", sem er veglegasta gatan í Berlín tók glæsileikinn við.
Þar var Humboldt háskólinn sem hefur alið 29 nóbelsverðlaunahafa, Dómkirkjan, DDR-safnið, safnaeyjan, glæsileg sendiráð, áin Speer með fljótabátinn Captain Morgan. Trabantar í öllum litum vöktu athygli og við enda götunnar er helsta kennileiti Berlínar, Brandenborgarhliðið. Skammt frá hliðinu er Þinghús Þýskalands með sína nýtísku glerkúlu.
Íslenska sendiráðið í Berlín var einnig heimsótt en það er sameiginlegt með Norðmönnum, Svíum, Finnum og Dönum. Flott hönnun, sameiginleg móttaka en sjálfstæðar sendiráðsbyggingar. Vatnið milli sendiráðanna á reitnum táknar hafið á milli landanna.
Í mat og drykk var þýskt þema. Hofbrau-Berlin var heimsótt, ekta þýskur bjórgarður og snætt svína schnitzel með Radler bjór. Síðar var Weihnstephan veitingastaðurinn heimsóttur og snætt hlaðborð frá Ölpunum sem vakti mismikla lukku.
Í borgarferðum er nauðsynlegt að fara í skipulagða skoðunarferð og þá bættist við sagan um 17. júní strætið, leifar af Berlínarmúrnum sem klauf borgina í tvennt, nýbyggingar á dauða svæðinu á Potsdamer Platz, Neukölln, Tempelhof flugvöllurinn, Bessastaði Þýskalands, Bellevue Palace eða forsetahöllina, tómt heimili kanslarans en núverandi kanslari, Angela Merkel býr í eigin íbúð, umhverfisvænt umhverfisráðuneyti, Checkpoint-charlie, Zoo Station sem minnti á Actung Baby plötu U2, heimili Bowie á Berlínarárum hans, höfuðstöðvar Borgarlínu Berlínar, HB, kebab, aspars og Berliner weissbier.
Hjá Zoo Station mættust gamli og nýi kirkjutíminn. Hálfsprengd minningarkirkja Vilhjálms keisara minnti á heimsstyrjöldina síðari en hryðjuverk voru framin þarna 19. desember 2016 þegar 11 létust er vörubifreið var ekið á fólk á jólamarkaði.
Minningarreitur um Helförina var heimsóttur. 2.711 misstórar gráar steinblokkir sem minna á líkkistur. Aldrei aftur kom í hugann. Kaldhæðnislegt að jarðhýsi Hitlers var stutt frá.
Áhrifamikill staður var minningarreitur í Treptower Park um sovéska hermenn sem féllu í orrustunni um Berlín í apríl-maí 1945. Um 80.000 féllu og eru 5.000 hermenn Rauða hersins grafnir þarna.
Á leiðinni að stærsta minnismerkinu, 12 metra styttu af hermanni með sverð og brotinn hakakross, haldandi á barni voru steinblokkir sem táknuðu eitt af ráðstjórnarríkjunum.
Land föður míns
Þegar hugurinn reikaði um orrustuna um Berlín í Treptower garðinum þá rifjaðist upp að hafa heyrt um bók, Land föður míns eftir þýsku blaða- og sjónvarpskonuna Wibke Bruhns. Ég varð ákveðinn í að kaupa þessa bók og lesa strax við heimkomu.
Bókin er stórmerkileg og mjög áhrifamikil eftir stutta Berlínarferð. Maður lifði sig betur inn í söguna og hápunkturinn er þegar Wibke lýsir gönguferð föður síns eftir götunni Unter den Linden eftir loftárás bandamanna. Flestar byggingar hrundar og eldur logaði víða. Vatnslaust og rústir þriðja ríkisins blasa við. Þetta kallaði á gæsahúð.
Lesandinn fær beint í æð í einum pakka sögu Þýskalands allt frá því það var keisaradæmi, atburðarás tveggja styrjalda og hina undarlegu sögu millistríðsáranna með uppgangi Nasista. Um leið og höfundurinn rekur sögu fjölskyldu sinnar reynir hún að greina afstöðu þeirra og þátttöku í voðaverkum stríðsins.
Wibke hefur úr miklu magni af skjölum föður síns og ættar sinnar Klamrothanna í Halberstadt sem voru efnamiklir kaupsýslumenn og iðnjöfrar. Hún nær að kynnast foreldrum sínum upp á nýtt og miðla okkur af heiðarleika, ekkert er dregið undan.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.2.2017 | 14:01
Einbreiðar brýr í Ríki Vatnjaökuls - endurskoðað áhættumat
Undirritaður endurskoðaði áhættumat fyrir einbreiðar brýr í Ríki Vatnajökuls um síðustu helgi og greindi umbætur frá áhættumati sem framkvæmt var fyrir tæpu ári síðan. í ágúst 2016 var framkvæmt endurmat og hélst það óbreytt. Þingmönnum Suðurkjödæmis, Vegagerðinni og fjölmiðlum var sent áhættumaið ásamt myndum af öllum einbreiðum brúm.
1) Það eru komin blikkljós á allar 21 einbreiðu brýrnar í Ríki Vatnajökuls, blikkljós voru aðeins fjögur fyrir ári síðan.
2) Undirmerki undir viðvörun: 500 m fjarlægð að hættu. Þetta merki er komið á allar einbreiðar brýr í Ríki Vatnajökuls.
3) Lækkun á hraða á Skeiðarárbrú.
Snjór og hálkublettir voru á vegi svo ekki sá vel á málaðar aðvaranir á veg, þrengingar og vegalínur.
Það er mikil framför að hafa blikkljós, þau sjást víða mög vel að, sérstaklega þegar bein aðkoma er að vegi.
Því breyttist áhættumatið á 8 einbreiðum brúm. Sjö fóru úr áhættuflokknum "Dauðagildra" í áhættuflokkinn "Mjög mikil áhætta".
Ein einbreið brú, Fellsá fór í mikil áhætta en blikkljós sést vel.
Hins vegar þarf að huga að því að hafa tvö blikkljós eins og á Jökulsá á Sólheimasandi en öryggi eykst, t.d. ef peran springur eða verður fyrir hnjaski en fylgjast þarf með uppitíma blikkljósanna.
Því ber að fagna að þessi einfalda breyting sem kostar ekki mikið hefur skilað góðum árangri. Ekkert alvarlegt slys hefur orðið síðan blikkljósin voru sett upp en umferð ferðamanna, okkar verðmætasta auðlind, hefur stóraukist og mikið er um óreynda ferðamenn á bílaleigubílum á einum hættulegasta þjóðveg Evrópu.
T.d. var svo mikið af ferðamönnum við Jökulsárlón að bílastæði við þjónustuhús var fullt og bílum lagt alveg að veg og þurftu sumir að leggja á bakkanum vestan meginn og ganga yfir Jökulsárbrú með allri þeirri hættu sem því fylgir.
ROI eða arðsemi fjárfestingar í blikkljósum er stórgott. Merkilegt að það blikkljósin hafi ekki komið fyrr.
En til að Þjóðvegur #1 komist af válista, þá þarf að útrýma öllum einbreiðum brúm. Þær eru 21 í Ríki Vatnajökuls en 39 alls á hringveginum.
Nú þarf metnaðarfulla áætlun um að útrýma þeim, komast úr "mjög mikil áhætta" í "ásættanlega áhætta", en kostnaður er áætlaður um 13 milljarðar og hægt að setja tvo milljarða á ári í verkefnið. Þannig að einbreiðu brýrnar verða horfnar árið 2025!
Útbúin hefur verið síða á facebook með myndum og umsög um allar einbreiðu brýrnar, 21 alls í Ríki Vatnajökuls.
https://www.facebook.com/EinbreidarBryr/
Fleiri mögulegar úrbætur á meðan einbreitt ástand varir:
- Draga úr ökuhraða þegar einbreið brú er framundan í tíma
- Hraðamyndavélar.
- Útbúa umferðarmerki á ensku
- Fræðsla fyrir erlenda ferðamenn
- Virkja markaðsfólk í ferðaþjónustu, fá það til að ná athygli erlendu ferðamannana á hættunni án þess að hræða það
- Nýta SMS smáskilaboð eða samfélagsmiðla
- Betra viðhald
Akstur og áfengi
Akstur og áfengi fer ekki saman. Nú fer öll orka í svokallað áfengisfrumvarp. Í frétt frá Landlækni á ruv.is kemur í ljós að samfélagslegur kostnaður á ári getið orðið 30 milljarðar á ári sverði meingallað áfengisfrumvarp að lögum.
Hér er frétt á ruv.is: Samfélagskostnaður yfir 30 milljörðum á ári.
"Rafn [hjá Landlækni] segir að rannsóknirnar sýni að kostnaður þjóðarinnar yrði ekki eingöngu heilsufarslegur, heldur líka einfaldlega efnahagslegur. Hann gæti numið yfir þrjátíu milljörðum króna á ári."
En það kostar 13 milljarða að útrýma einbreiðum brúm á þjóðveginum. Rúmlega tvöfalt meiri kostnaður verði áfengisfrumvarp að lögum!
Upp með skóflurnar og hellum niður helv... áfengisfrumvarpinu. Annars má hrósa þingmönnum Suðurkjördæmis, sýnist hlutfallið endurspegla þjóðina en um 75% landsmanna eru á móti áfengisfrumvarpinu, svipað hlutfall og hjá þingmönnum Suðurkjördæmis.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.10.2016 | 20:38
Mjóifjörður
Sum örnefni eru augljós. Hér er eitt.
Mjóifjörður, 18 km langur og veðursæll, á milli Norðfjarðarflóa og Seyðisfjarðar. Þorp með 24 íbúa í Brekkuþorpi, eitt minnsta þorp landsins. Heiðin lokuð yfir veturinn. Kilfbrekkufossar, rygðaður landgönguprammi, hvalveiðistöð og gamli tíminn heilla mann.
Hvalveiðistöð Ellefsens var á Asknesi og var byggð af Norðmönnum um aldamótin 1900 og var ein stærsta í heimi. Sem betur fer er tími hvalveiða liðinn.
Malarvegur liggur niður í fjörðinn, inn Slenjudal, yfir Mjóafjarðarheið og alveg út á Dalatanga. Það var gaman að keyra niður í Mjóafjörð. Á hlykkjóttri leiðinni sást Prestagil, þar bjó tröllskessa sem tældi til sín presta í Mjóafirði og í Sólbrekku var hægt að fá frægar vöfflur. Í kirkjugarðinum er eitt veglegsta grafhýsi fyrir einstakling sem til er á landinu. Þar hvílir Konráð Hjálmarsson (1858-1939).
Einnig var bókin "Hann er sagður bóndi" æviferisskýrsla Vilhjálms Hjálmarssonar keypt með vöfflunni og lesin er heim var komið. Gaf það meiri dýpt í sögu fjarðarins og bóndans!
Mjóifjörður séður ofan af Mjóafjarðarheiði með Fjarðará fyrir miðju.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
4.9.2016 | 17:57
Hvítserkur (771 m)
Á leið í Húsavík eystra var keyrt framhjá Hvítserk. Bar fjallið af öðrum fjöllum með sínum frumlega svip. Litasamsetning og berggangar gera það næstum fullkomið. En Hvítserkur er ekki bara fegurðin heldur stórmerkilegt fjall.
Merking orðsins hvítserkur er hvítur kyrtill (ermalaus eða ermastuttur). Hvítserkur sem örnefni er notað um eitthvað sem líkist slíku fati. Þannig heita eftirfarandi náttúrufyrirbæri Hvítserkur. Hvítserkir eru þrír á landinu: Foss í Fitjaá í Skorradal í Borgarfirði, klettur í sjó við vestanverðan botn Húnafjarðar í Vestur-Húnavatnssýslu (hann er hvítur af fugladriti) og síðan fyrrgreint fjall. Það hefur einnig verið nefnt Röndólfur. Fjallið er myndað úr ljósu súru bergi, rýólíti/líparíti með svörtum göngum úr blágrýti á milli.
Ljósa efnið sem myndar meginhluta fjallsins er flikruberg (ignimbrit), hluti af yfir 300 m þykku jarðlagi sem myndast hefur af eldskýi við gjóskuhlaup úr Breiðvíkureldstöð litlu norðar. Gegnum ljóst og rauðbleikt flikrubergið hríslast dökkir basaltsgangar eða innskot sem sum tengjast dökkri basaltshúfu efst á tindi fjallsins, en hann er hluti af bólstrabergi og móbergi sem varð til í öskjuvatni í Breiðvíkureldstöð. Fjall sem myndaðist í setskál.
Flikrubergið í Hvítserki er samansett af mismikið ummynduðum vikri, basaltmolum og öðrum framandsteinum. Þar á meðal eru zirkon-steindir. Með aldursgreiningu reyndist aldur sumra á bilinu 126-242 milljón ár. Bendir það til að djúpt undir Austfjörðum eða hluta þeirra sé til staðar meginlandsskorpa og hafi flikrubergið rutt með sér til yfirborðsins allnokkru af fornu grannbergi gosrásarinnar og zirkon-steindir hafi síðan kristallast út úr kviku í hólfi undir eldstöðinni.
Það hefur gengið mikið á þegar fjöllin sunnan og austan Borgarfjarðar eystri mynduðust. Verði þetta staðfest með ítarlegri rannsóknum þarf að hugsa myndun Íslands upp á nýtt, en til þessa hefur verið talið að Íslands sé ekki eldra en um 16 milljón ára.
Þetta er stórmerkilegt. Það verður því gengið á Hvítserk, mögulega elsta fjall landsins við næsta tækifæri.
Hvítserkur með rauðbleikt flikruberg og bergganga, mögulega elsta berg landsins sem inniheldur zirkon-steindir og gætu verið 126-242 milljón ára og tengst myndum Grænlands eða hugsanlega flís úr meginlandsskorpu.
Heimildir
Ferðafélag Íslands árbók 2008, Úthérað eftir Hjörleif Guttormsson
Glettingur, Dyrfjallablaðið, 55-56 tölublað 2011
Ferlir.is - Borgarfjörður - Breiðavík - Húsavík - Loðmundarfjörður
Ferðalög | Breytt 7.6.2017 kl. 13:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.8.2016 | 11:03
Húsavík eystra
Þær eru í það minnsta þrjár Húsavíkurnar á Íslandi. Eitt stórt þorp sem er höfuðborg hvalaskoðunar og hýsir einnig kísilmálmverksmiðju á Bakka. Önnur í Strandasýslu og sú þriðja á Víknaslóðum.
Húsavík eystra er stærst víkna milli Borgarfjarðar og Loðmundarfjarðar. Landnáma segir að Þorsteinn kleggi hafi numið land og út af honum séu Húsvíkingar komnir. Inn af víkinni gengur grösugur dalur sem skiptist síðan í þrjá minni dali.
Húsavík fór í eyði 1974. Eyðibyggðir búa yfir sérstakri og átakanlegri sögu. Íbúar Húsavíkur urðu flestir 65 undir lok 19. aldar en fækkað mikið eftir aldamótin 1900.
Ekki fundust baggalútar né mannabein úr kirkjugarðinum. En mögulegt er að finna baggalúta eða hreðjasteina í Álftavíkurtindi og Húsavíkurmegin í Suðurfjalli. Atlantshafið nagar í landið. Bakkarnir eru háir og eyðast stöðugt. Í byrjun 20. aldar hafði um fjórðipartur af Gamla kirkjugarði hrunið niður fyrir og var þá nýr garður vígður neðst í túni.
Jeppaslóði var ruddur 1958 frá Borgarfiðri um Húsavíkurheiði sem liggur um Vetrarbrekkur sunnan undir Hvítserk (771 m), niður eftir Gunnhildardal. Bar Hvítserkur (771 m) af og litirnir komu margbreytilegir fram eftir úrkomu dagsins. Líparítfjöllin eru hvergi litríkari og fjölbreyttari en á þessu svæði. Vegurinn versnaði eftir því sem sunnar dró en jepplingur komst án vandræða til Húsavíkur eystra. Þó þurfti hann að glíma við eina áskorun og stóðst RAV4 hana. Framhald af jeppaslóðanum liggur um Nesháls til Loðmundarfjarðar. Myndalegur skáli Ferðafélags Fljótsdalshéraðs stendur þar við veginn. Hinn formfagri Skælingur, kínverska musterið, sást ekki nógu vel í þokunni.
Það var gaman að ferðast til Húsavíkur eystra, keyra rúmlega 20 km jeppaslóða og reyna að skilja landið sitt.
Áhugavert aðgengi að Húsavíkurkirkju sem er bændakirkja sem byggð var 1937 og höfuðbólið Húsavík handan. Öllu vel viðhaldið.
Heimildir
Ferðafélag Íslands árbók 2008, Úthérað eftir Hjörleif Guttormsson
Borgarfjöður eystri borgarfjordureystri.is
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.8.2016 | 23:09
Svartfell (510 m) í Borgarfirði eystra
Ekki gaf gott veður í gönguferð í Loðmundarfjörð um Kækjuskörð. Því var ákveðið að ganga á Svartfell í Borgarfirði eystri en það var bjart yfir firðinum.
Tilvalið enda er ég að safna litafellum. Mörg örnefni á Íslandi tengjast litum, t.d. Rauðhólar, Rauðisandur og Rauðifoss, og eru rauðir litir í örnefnum oftast skýrðir með lit berggrunns eða jarðefna. Hins vegar tengist blár litur í örnefni oftast fjarlægð og skýrist af áhrifum andrúmsloftsins á ljós. Grænn litur tengist yfirleitt gróðri.
Hér eru fellin: Rauðafell, Grænafell, Bláfell, Svartafell/Svartfell, Hvítafell/Hvítfell og Gráfell.
Gengið er eftir vegslóðanum sem liggur til Brúnavíkur en þegar á gönguna leið færðist úrkoma yfir og þoka huldi Goðaborgina. Því var gengið í kringum fellið.
En göngulýsing segir: Gengið upp á tind Svartfells (510m) Brúnavíkurmegin. Fallegt útsýni er af toppnum yfir Borgarfjörð og Brúnavík. Á toppnum er að finna gestabók sem allir eiga að skrifa í. Farið er sömu leið niður af fjallinu en gengið á Hofstarndarmælinn sem er í fjallinu miðju. Svartfellshlíðarnar eru fallegt framhlaup sem hefur myndast einhvern tímann eftir síðastliðna ísöld. Þetta er leið 25 í ágætu göngukorti um Víknaslóðir.
Gjá ein mikil efst í Svartfelli heitir Klukknagjá og komu heiðnir þar fyrir klukkum sem hringja fyrir stórtíðindum og í ofsaveðrum. Sló í brýnu milli kristinna og heiðingja og höfðu þeir kristnu betur. Heiðingjar sem ekki féllu voru skírðir í Helgá en hinir dauðu voru huslaðir í Dysjarhvammi skemmt sunnan bæjar.
Bakkagerði með 82 íbúa og Svartfell í bak.
Dagsetning: 3. ágúst 2016
Hæð Svartfells: 510 m
Hæð í göngubyrjun: 15 metrar (N:65.31.152 - W:13.46.585) Hofströnd að Brúnavík. Leið 20
Heildargöngutími: 240 mínútur (09:20 - 13:20)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: Um 7,0 km
Veður kl. 12 Vatnsskarð: Skýjað, ASA 6 m/s, 6,5 °C. Raki 97%
Þátttakendur: Skál(m), 9 göngumenn.GSM samband: 3G/4G gott
GSM samband: 3G/4G gott
Gestabók: Já
Gönguleiðalýsing: Gengið eftir vegaslóða í Brúnavík, leið #20 um Hofstrandarskarð og austur fyrir Svartfell við Engidal. Farið upp skarð og komið niður inn á leið #25 og sótt á Breiðuvíkurveg.
Tenglar
http://www.borgarfjordureystri.is/ferdathjonusta/gongusvaedid-viknaslodir/gps-trokk
http://www.wildboys.is/blog/record/482593/
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.8.2016 | 18:03
Stórurð - Undraveröld í ríki Dyrfjalla
Orðið ægifegurð kemur í hugann þegar maður er staddur í Stórurð með reisulega Dyrfjöll yfir höfði sér og innan um stórbrotið þursabergið í Urðardal.
Stórurð er stórgrýtt urð sem geymir slétta fagurgræna grasbala og hyldjúpar grænbláar tjarnir innan um stór björg á hæð við fjölbýlishús. Urðardalsá rennur í gengum Urðardalinn og grænn mosinn fullkomnar verkið. Fyrsta nafnið á urðinn var Hrafnabjargarurð en nýja nafið er stórbrotnara.
Gengin var algengasta leiðin í Stórurð. Lagt af stað frá Vatnsskarðsvatni, leið 9 og komið til baka leið 10 en bíll var skilinn eftir þar. Alls 17,4 km.
Dyrnar á Dyrfjöllum sáust vel milli standbjarganna beggja vegna en þoka dansaði á efstu tindum Dyrfjalla. Talið er að Stórurð hafi myndast við hreyfingu skriðjökla utan í Dyrfjöllum. Við það féll mikið af bergi af ýmsum stærðum og gerðum niður á þá. Sum stykki eru á stærð við heila blokk. Stykkin færðust með jöklum niður þrjá dali sem allir heita Urðardalir og liggja frá Dyrfjöllum. Langstærstu stykkin finnast í Stórurð.
Grænbláa tjörnin kallaði á söng vaskra göngukvenna og gerði hann áhrifameiri. Lagið Vikivaki (Sunnan yfir sæinn breiða) var valið af lagalistanum en það er eftir Austfirðinginn Valgeir Guðjónsson og texti eftir Jóhannes í Kötlum. Græni grasbalinn sýndi kyrrðina í öllu sínu veldi, tilvalinn þingstaður.
Dyrfjöll eru svipmikil klettafjöll og var eitt sinn askja og megineldstöð en ísaldajökullinn hefur brotið allt niður.
Ferðamálahópur Borgarfjarðar á hrós skilið fyrir Víknaslóðir. Stikun leiða er til fyrirmyndar og upplýsingaskilti víða. Svæðið er eitt allra best skipulagða göngusvæði á Íslandi.
Þursabergið í Stórurð, Dyrnar í Dyrfjöllum með Urðardalsá og grænn mosi.
Dagsetning: 2. ágúst 2016
Hæð Stórurðar: 451 m
GPS hnit Stórurð: (N:65.30.974 - W:13.59.413)
Hæð í göngubyrjun: 428 metrar (N:65.33.718 - W:13.59.505) við vatnið á Vatnsskarði. Leið 9.
Hæsti hæðarpunktur: 654 metrar, við Geldingafell og þá opnast sýn til Dyrfjalla og yfir Dyrfjalladal
Göngutími niður að Stórurð: 170 mín (10:15 - 13:20) um 7 km ganga.
Heildargöngutími: 375 mínútur (10:15 - 16:30)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 17,4 km
Veður kl. 12 Vatnsskarð: Léttkýjað, ANA 6 m/s, 8,3 °C. Raki 91%.
Þátttakendur: Skál(m), 12 göngumenn.
GSM samband: Ekki stöðugt en meirihluti leiðar í 3G/4G.
Gönguleiðalýsing: Gengið eftir vel stikaðri leið, #9 um Geldingaskörð að Urðardal, gengið niður í Stórurð 76 m hæðarmunur og hringur tekin í þursaberginu í Stórurð. Gengið eftir leið #10 til baka yfir Mjóadalsvarp og niður Dyrfjalladal. Gott og vel stikað gönguland með upplýsingaskiltum víða.
Heimildir
Víknaslóðir, Göngukort Ferðamálahópur Borgarfjarðar
Ferðafélag Íslands árbók 2008, Úthérað eftir Hjörleif Guttormsson
Glettingur, Dyrfjallablaðið, 55-56 tölublað 2011
Borgarfjörður eystri, vefur, Göngusvæðið Víknalsóðir
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.8.2016 | 11:32
Einbreiðar brýr í ríki Vatnajökuls - endurskoðað áhættumat
Fagna mjög nýjustu fréttum frá fjárlaganefnd um breytta forgangsröð á innviðum landsins og að einbreiðum brúm verði útrýmt á næstu árum.
"Það krefjist mikilla samgöngubóta með fækkun einbreiðra brúa svo dæmi sé tekið." - segir í frétt á ruv.is
Það þokast í umferðaröryggismálum. Því ber að fagna.
Í vor framkvæmdi undirritaður úttekt á einbreiðum brúm í Ríki Vatnajökuls, tók myndir og sendi niðurstöður víða, m.a. til Innanríkisráðuneytisins, fjölmiðla og þingmanna.
Undirritaður tók myndir af öllum 21 einbreiðum brúm í fyrri ferð og einnig í ferð í síðust viku. Niðurstaða, óbreytt áhættumat!
- Engar breytingar eru varðandi blikkljós, aðeins eru fjögur.
- Lækkaður hámarkshraði er aðeins á tveim brúm, Jökulsárbrú (70-50-30 km) og Hornafjarðarfljóti (50 km).
- Leiðbeinandi hámarkshraði er hvergi.
- Upplýsingar til erlendra ferðamanna eru ekki sjáanlegar
Eina breytingin sem sjáanleg er að við nokkrar brýr hafa yfirborðsmerkingar verið málaðar. Línur hafa verið málaðar og alls staðar eru málaðar þrengingar, vegur mjókkar, á veg en sú merking er ekki til í reglugerð. Spurning um hverju þetta breytir þegar snjór og hálka sest á vegina í vetur.
Niðurstaðan er að áhættumatið er óbreytt milli úttekta.
Nú er spurningin til innanríkisráðherra, þegar vika er liðin af ágúst: er fjármagnið búið eða koma fleiri umferðarskilti með hámarkshraða eða leiðbeinandi hraða í ágúst og blikkljós en þau eru stórlega vanmetin?
Yfirlit yfir einbreiðar brýr í Ríki Vatnajökuls, 21 alls og niðurstaða úr endurskoðuðu áhættumati.
Vefur sem safnar upplýsingum um einbreiðu brýrnar.
https://www.facebook.com/EinbreidarBryr/?ref=aymt_homepage_panel
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.8.): 13
- Sl. sólarhring: 17
- Sl. viku: 123
- Frá upphafi: 237853
Annað
- Innlit í dag: 10
- Innlit sl. viku: 84
- Gestir í dag: 10
- IP-tölur í dag: 9
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar