Færsluflokkur: Ferðalög

Ferðin yfir Núpsvötn

Ég hef verið baráttumaður fyrir útrýmingu einbreiðra brúa í Ríki Vatnajökuls. Þann 5. ágúst 2016 fór ég yfir einbreiðu brúna yfir Núpsvötn á leið til vesturs og tók upp myndband sem sett var á facebook baráttusíðuna Einbreiðar brýr.  Myndbandið er 30 sekúndna langt og ekki átti ég von á því að það yrði notað í heimsfréttir þegar það var tekið.

Á fimmtudaginn 27. desember varð hörmulegt slys á brúnni yfir Núpsvötn við Lómagnúp. Þrír erlendir ferðamenn frá Bretlandi létust en fjórir komust lífs af er bifreið þeirra fór yfir handrið og féll niður á sandeyri.

Breskir fjölmiðlar höfðu eðlilega mikinn áhuga á að segja frá slysinu og fundu þeir myndbandið af ferðinni fyrir rúmum tveim árum.  Það hafði að þeirra mati mikið fréttagildi.

Fyrst hafði BBC One samband við undirritaðan um miðjan dag og gaf ég þeim góðfúslega leyfi til að nota myndbandið til að sýna aðstæður á brúnni og til að áhorfendur myndu ekki fá kolranga mynd af innviðum á Íslandi. Minnugur þess er ég var að vinna hjá Jöklaferðum árið 1996 þegar Grímsvatnagosið kom með flóðinu yfir Skeiðarársand þá voru fréttir í erlendum fjölmiðlum mjög ýkar.  Fólk sem hafði verið í ferðum með okkur höfðu þungar áhyggjur af stöðunni.

Síðan bættust Sky News, ITV og danska blaðið BT í hópinn og fengu sama jákvæða svarið frá mér. Innlendi fjölmiðilinn Viljinn.is hafði einnig samband og tók viðtal við undirritaðan.

Miðlarnir hafa bæði lifandi fréttir og setja fréttir á vefsíðu. Hjá BBC One var myndbandið spilað í heild sinni seinnihluta fimmtudagsins með fréttinni og á ITV var bútur úr því í morgunútsendingu.

Ég fylgdi einnig eftir fréttinni og benti fréttamönnunum eða framleiðslustjórum fréttamiðlanna á að það væri áætlun í gangi um úrbætur í samgöngumálum.

Hér er slóð í myndbandið.

ITV

Mynd af fréttavef ITV

Heimildir

BBC One - https://www.bbc.com/news/uk-46703315

Sky News  - https://news.sky.com/story/three-british-tourists-killed-in-iceland-jeep-crash-11592671

ITV - https://www.itv.com/news/2018-12-27/iceland-land-cruiser-crash/

BT - https://www.bt.dk/udland/tragisk-doedsulykke-i-island-ti-maaneder-gammelt-barn-draebt?fbclid=IwAR1aeX4XV3bjksyHyTj1ETdbUbsIGXPv8zr92QOHMqIzmSSZC_u0UBtFYIo

Viljinn.is - https://viljinn.is/frettaveita/varadi-vid-daudagildrum-a-sudurlandi-fyrir-tveimur-arum/


Hvítárbrú og áætlanir

Langafi minn Sigurður Sigurðsson (1883-1962) trésmiður vann að öllum líkindum við byggingu Hvítárbrúar árið 1928. Í einkabréfi sem hann skrifar 1948 telur hann upp helstu byggingarverk sem hann hefur komið að en hleypur yfir árið 1928. Í myndasafni sem hann átti er jólakort með mynd af Hvítárbrú.

Hann hefur lært af meistaraverkinu við Hvítárbrú og í bréfi frá 1935 sem varðveitt er hjá Vegagerðinni eru samskipti milli Sigurðar snikkara og brúarverkfræðings Vegamálastjóra til, en þá stóð bygging Kolgrímubrúar í Suðursveit sem hæst. Grípum niður í Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar:

Bréf til Sigurðar brúasmiðs. Afritið sem varðveitt er í skjalasafni Vegagerðarinnar er ekki undirritað en miklar líkur eru á að Árni Pálsson brúarverkfræðingur hafi skrifað þessar línur. Þetta er athyglisverð lýsing á vinnubrögðum við bogabrýr.

29. maí 1935
Herra verkstjóri Sigurður Sigurðsson Hornafirði

Viðvíkjandi steypu í bogabrúna á Kolgrímu skal það
tekið fram, að áður en að byrjað er að steypa bogann,
skal gengið að fullu frá því að leggja bogajárnin, - bæði
efri og neðri járnin - og binda þau saman með krækjum
og þverjárnum í samfellt net, sem sýnt er á uppdrætti. Að
því loknu verður boginn steyptur og er hér heppilegast að
steypa bogann í fimm köflum, - með raufum á milli - svo
missig bogagrindar verði sem minnst; verður til þessa að
hólfa sundur með sérstökum uppslætti þvert yfir bogann.

Á meðfylgjandi uppdrætti er sýnt hvar heppilegast er
að setja þverhólfin og verður þá fyrst steyptur kafli nr.
1 um bogamiðju, síðan kafli nr. 2 við ásetur, loks kaflar
nr. 3 á milli ásetu og bogamiðju og að síðustu er steypt í
raufarnar nr. 4.

Eins og þér sjáið af þessu er hér að öllu leyti farið að,
eins og við bogana á Hvítá hjá Ferjukoti.
Samsetning steypunnar í boga er að sjálfsögðu
1:2:3, en að öðru leyti skal í öllu fylgt þeim góðu
byggingarvenjum er þér hafið vanist við brúargerðir.

Virðingarfyllst.

Bréfritari vísar í byggingu bogabrúar yfir Hvítá í Borgarfirði svo líklega hefur Sigurður komið þar að verki sem smiður og bréfritara verið kunnugt um það.
Steypublandan 1:2:3 eru hlutföll sements, sands og malar sem algengust voru við brúargerð.

Hvítárbrú í smíðum

 

Brúargerð á Hvítá hjá Ferjukoti 1928 stendur á bakhlið myndarinnar. Eigandi Sigurður Sigurðsson, trésmiður frá Hornafirði.

Ég hef heyrt það að annað sem hafi verð merkilegt fyrir utan glæsilega hönnun og mikla fegurð brúarinnar er að verkið stóðst fjárhagsáætlun upp á krónu. Ekki voru Microsoft forritin Excel eða Project til þá. Heldur hyggjuvitið notað.

Í bréfi langafa frá 1948 segir ennfremur:

"1926 Eftirlitsmaður við Lýðskólabygginguna á Eiðum." Og aðeins neðar: "1927 var ég einnig eftirlitsmaður á Hólum í Hjaltadal. Einnig voru þar byggð fjárhús og hlaða fyrir um 300 fjár. Ég var svo hygginn að þessar byggingar fóru ekkert fram úr áætlunum og því ekkert blaðamál út af þeim. Þess vegna enginn frægur fyrir að verja eða sækja það mál þar sem hvorki var þakkað eða vanþakkað."

Við getum lært mikið af þessu verkefnum og verkefnastjórnun fyrir rúmum 90 árum. Fjárhagsáætlanir hafa því í gegnum tíðina verið í skotlínu fólks.

Til hamingju með afmælið, Hvítárbrú.

Póstkort Hvítárbrú 1928

Póstkort af Hvítárbrú frá 1928

Heimild:

Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar, 3. tbl. 2018.  Bls. 6 


mbl.is Bogabrúin yfir Hvítá 90 ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Litli-Meitill (467 m) og Stóri-Meitill (521 m)

Meitillinn var stórt fiskvinnslufyrirtæki í Þorlákshöfn en endaði í hagræðingu kvótakerfisins. Fyrirtækið átti tvo togara, kennda við biskupana Þorlák og Jón Vídalín. Til er veitingastaður í bænum sem heitir Meitillinn veitingahús. Meitlarnir tveir, Stóri og Litli hafa því mikil ítök í sjálfsmynd sveitarfélagsins Ölfus.

Það var fallegur haustdagur þegar gengið var á Meitlana við Þrengslaveg. Valin var skemmtileg leið sem hófst sunnan við Meitilstagl og þaðan gengið á Litla-Meitil. Á leiðinni upp taglið sáum við í Eldborgarhrauni fólk sem var við myndatöku.  Eftir áreynslulausa göngu, 2 km á rúmum klukkutíma, var komið á topp Litla-Meitils og sá þá vel yfir Ölfusið. Næst okkur í norðri var stóri bróðir og sást í gíginn fallega. Í vestri voru Krossfjöll, Geitafell, Litla-Sandfell, Heiðin há, Bláfjöll með sínum fjallgarði. Skálafell í Hellisheiði bar af í austri. Nær sáust Stóra-Sandfell og Eldborgir tvær sem hraunið er kennt við sem rann fyrir 2.000 árum.

Meitlarnir eru úr móbergi og hefur smá minni ekki náð upp úr jökulskildinum en sá stærri hefur náð í gegn enda skilur hann eftir sig fallegan gíg, leyndarmál sem er um 500 metrar á lengd og 350 metrar á breidd.

Næst var að ganga á Stóra-Meitil og þá tapaðist hæð en farið var um Stórahvamm, landið milli Meitla, eftir mosavöxnu hrauni. Það er skylda göngumanna að ganga kringum gíginn og best að halda áfram réttsælis.  Tilvalið að taka nestisstopp í miðjum gígnum.  Af gígbarminum  sér vel í sundurtætt Lambafell og Hveradali með sín fjöll og virkjun. Stakihnúkur sést vel úr gígopinu en margir sem ganga bara á Stóra-Meitil fara á hann í leiðinni. En hann mun vera erfiður viðureignar.

Þegar könnun á gígnum var lokið var haldið til baka og farið niður gróið gil til austur í Stórahvammi og gengið milli Eldborgarhrauns og fjallsins. Þegar við nálguðumst upphafsstað, þá sáum við kvikmyndafólkið í hrauninu og fyrirsætur. Það er krefjandi vinna að vera í þessum bransa. Líklega var verð að taka upp auglýsingu fyrir útivistarframleiðandann 66° Norður. Ekki fékk ég boð um hlutverk en skelin sem ég var í ber þeirra merki.

Á leiðinni er trjálundur sem Einar Ólafsson fjallamaður ræktaði og vekja grenitrén eftirtekt út af því að ekki sést í nein tré á löngu svæði, hér er ríki mosans.

Fari fólk vestan megin Litla-Meitils í Meitlistaglinu er áhugaverður bergfláki, Votaberg en þar seytlar vant niður bergveggina.  Hrafnaklettur er norðar.

Litli-Meitill   tindur

Toppur Litla-Meitils

Dagsetning: 30. september 2018
Hæð: 521 metrar
Hæð í göngubyrjun: 211 metrar við Meitlistagl (N:63.57.730  - W:21.26.963)

Litli Meitill (467 m): (N:63.58.544 – W:21.26.261)
Stóri Meitill (521 m): (N:64.00.024 - W:21.25.940)
Hækkun: 310 metrar
Uppgöngutími Stóri Meitill: 100 mín (09:00 - 12:00) 5,0 km
Heildargöngutími: 300 mínútur (09:00 - 14:00)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 11,1 km
Veður kl. 11.00 - Hellisheiði: Skýjað, SV 2 m/s, 2,0 °C, raki 82%   næturfrost
Þátttakendur: Fjallkonur 7 þátttakendur 
GSM samband: Já
Gestabók: Nei
Gönguleiðalýsing: Ganga í mosavöxnu landslagi.  Greiðfærir melar og gróði land neðantil. Auðvelt uppgöngu og áhugaverð náttúrusmíð.

Facebook-status: Endalaust þakklát fyrir að geta þetta, takk fyrir Meitla-gönguna elsku fjallafélagar ðŸ˜˜Báðir toppaðir í yndislegu veðri og haustlitum

 

Heimild:

Íslensk fjöll. Gönguleiðir á 151 tind.


Geitafell (509 m)

Geitafell er 509 metrar á hæð og klætt fallegri mosakápu. Það er vestan Þrengslavegar. Fellið stendur stakt og á góðum degi er afar víðsýnt af því. Það var bjart í norðri þegar lagt var í gönguna en blikur á lofti í suðurátt.

Geitafell er móbergsstapi og hefur myndast við gos undir jökli, en gosið hefur ekki náð upp úr ísaldarjöklinum. Misgengi liggur eftir endilöngu fellinu frá suðvestri til norðausturs. Austurhlutinn hefur sigið nokkuð og sést það vel á loftmyndum.

Geitafellin eru fjögur víða um landið skv. Kortabók Íslands og hafa forfeður okkar fundið geitur eða haft geitur á beit í fellunum. En geitarstofninn á Íslandi er í útrýmingarhættu en fjöllin hverfa ekki. Og þó. Mikið malarnám er í Lambafelli og sótt hart að efni úr norður og suðurátt.

Gengið frá malarnáminu í Litla-Sandfell yfir Þúfnavelli að rótum Geitafells en þar er vegvísir. Eftir hálftíma göngu er komið að honum og um 200 metra brött hækkun tekur við. Eftir það er létt hækkun að Landmælingavörðu á hæsta punkti.

Þegar á toppinn var komið var skollið á mikið óveður, úrkoma og rok úr austri, því var snúið strax til baka og leitað að skjóli fyrir nestispásu.  Það munaði mikið á 50 metra lækkun en veðrið lagaðist mikið þegar neðar dró.

Útsýni á góðum degi er gott yfir Ölfusið og hraunin í kring. Bláfjöll, Heiðin há í vestri. Laskað Lambafell eftir malarnám, Meitlarnir tveir, Litla-Sandfell, Ingólfsfjall, Skálafell, Krossfjöll og Hekla.  Þorlákshöfn sást í þokumóðunni og var draugaleg að sjá. Ölfusá og Flói voru áberandi í landslaginu.

Hægt er að halda áfram í suður niður af fjallinu og lengist gangan þá í 12-13 km.  Einnig er hægt að ganga hringinn í kringum Geitafellið og tekur sú ganga um 4 klst. og er 11,5 km löng.

Þegar göngu var lokið við Litla-Sandfell sáum við mikið af forhlöðum, plasthylkjum frá haglskotum en greinilegt að þarna er skotsvæði Ölfusinga. Mikil sjónmengun og vont að sjá. Plastmengun í plastlausum september var áfall og skemmdi upplifunina.  Bæjaryfirvöld í Ölfusi eiga að hreinsa svæðið fyrir fyrsta snjó vetrarins.

Geitafell

Geitafell í Ölfusi klætt fallegri mosakápu. Ganga þarf um 2 km yfir grasi gróna velli að rótum fellsins.

Dagsetning: 15. september 2018
Hæð: 509 metrar
Hæð í göngubyrjun: 225 metrar við Litla-Sandfell (N:63.57.368  - W:21.28.243)

Vegamót: 247 m við Geitafell (N:63.57.368 – W:21.30.516)
Geitafell (509 m): Landmælingavarða (N:63.56.365 - W:21.31.516)
Hækkun: 284 metrar
Uppgöngutími Geitafell: 100 mín (08:40 - 10:20) 4,0 km
Heildargöngutími: 200 mínútur (08:40 - 12:00)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 8,8 km
Veður kl. 10.00 - Hellsheið: Alskýjað, A 6 m/s, 4,0 °C, raki 94%
Þátttakendur: Fjallkonur 5 þátttakendur, 2 hundar. 
GSM samband: Já
Gestabók: Nei
Gönguleiðalýsing: Ganga í mosavöxnu landslagi. Auðvelt uppgöngu og hentar vel fyrir byrjendur í fjallamennsku.

 

Heimildir

Íslensk fjöll. Gönguleiðir á 151 tind.
Kortabók Ísland


Grábrók (170 m) 2017

Það var gaman að ganga upp á Grábrók í sumar og hafa einstakt útsýni yfir Borgarfjarðarhérað og Norðurárdalinn. Sjá Baulu í öllu sínu veldi, Hrauns­nef­söxl, Hreðavatn, Bifröst og Norðurá. Það sem vakti mesta athygli er göngustigar sem stýrir umferð um viðkvæmt fjallið eða fellið.

Mér finnst vel hafa tekist til með gerð göngustigana og merkinga til að stýra umferð gangandi og auka öryggi, en svona inngrip er umdeilt en eitthvað þarf að gera til að vernda óvenjulega viðkvæmt svæði þar sem hraun og mosi er undir fótum

Grábrók er einn af þremur gígum í stuttri gígaröð. Þeir heita Grábrók (Stóra – Grábrók), Smábrók (litla Grábrók) og Grábrókarfell (Rauðabrók). Úr þeim rann Grábrókarhraun fyrir 3.200 árum og myndaði meðal annars umgjörð Hreðavatns. Efni í vegi var tekið úr Smábrók á sjötta áratugnum og tókst að stoppa þá eyðileggingu.

Daginn eftir var gengin hringur sem Grábrókarhraun skóp, gengið frá Glanna, niður í Paradísarlaut og meðfram Norðurá og kíkt á þetta laxveiðistaði. Það var mikil sól og vont að gleyma sólarvörninni. Mæli með bók eftir Reyni Ingibjartsson, 25 gönguleiðir í Borgarfirði og Dölum fyrir stuttar upplifunarferðir.

Dagsetning: 24.júní 2017
Hæð: Um 170 metrar
Hæð í göngubyrjun: Um 100 m (N:64° 46' 17.614" W:21° 32' 23.370")
Hækkun: 70 metrar
Heildargöngutími: 30 mínútur (20:00 - 20:30)
Erfiðleikastig: 1 skór 
Þátttakendur: Fjölskylduferð, 6 manns 
GSM samband: Já
Gestabók: Nei
Gönguleiðalýsing: Létt ganga mest upp eða niður göngustiga

Grábrók júní 2017

Hér sér ofan í gíginn í Grábrók sem gaus fyrir 3.200 árum. Manngerðir göngustigar sem minnka álag og falla ágætlega að umhverfinu liggja upp og niður fjallið.


Hvalárvirkjun - eitthvað annað

Takk, takk Tómas,  Ólafur og Dagný fyrir að opna Ísland fyrir okkur á #LifiNatturan. Alltaf kemur Ísland mér á óvart. Stórbrotnar myndir sem sýna ósnortið víðerni sem á eftir að nýtast komandi kynslóðum. Við megum ekki ræna þau tækifærinu.

En hvað skyldu Hvalárvirkjun og hvalaskoðun eiga sameiginlegt?

Mér kemur í hug tímamótamyndir sem ég tók í fyrstu skipulögðu hvalaskoðunarferðunum með Jöklaferðum árið 1993. Þá fóru 150 manns í hvalaskoðunarferðir frá Höfn í Hornafirði.  Á síðasta ári fóru 354.000 manns í hvalaskoðunarferðir. Engan óraði fyrir að þessi grein ætti eftir að vaxa svona hratt.  Hvalaskoðun er ein styrkasta stoðin í ferðaþjónustunni sem heldur hagsæld uppi í dag á Íslandi. Hvalaskoðun fellur undir hugtakið "eitthvað annað" í atvinnusköpun í stað mengandi stóriðu og þungaiðnaði.

Vestfirðingar geta nýtt þetta ósnortna svæði með tignarlegum fossum í Hvalá og  Rjúkanda til að sýna ferðamönnum og er nauðsynlegt að finna þolmörk svæðisins. Umhverfisvæn og sjálfbær ferðaþjónusta getur vaxið þarna rétt eins og hvalaskoðun. Fari fossarnir í ginið á stóriðjunni, þá rænum við komandi kynslóðum arðbæru tækifæri. Það megum við ekki gera fyrir skammtímagróða vatnsgreifa.

Ég ferðaðist um Vestfirði í sumar. Dvaldi í nokkra daga á Barðaströnd og gekk Sandsheiði, heimsótti Lónfell hvar Ísland fékk nafn, Hafnarmúla, Látrabjarg og Siglunes. Það var fámennt á fjöllum og Vestfirðingar eiga mikið inni. Þeir verða einnig að hafa meiri trú á sér og fjórðungnum. Hann býður upp á svo margt "eitthvað annað".

Við viljum unaðsstundir í stað kílóvattstunda.

Hvalaskoðun 1993

Fyrstu myndir sem teknar voru í hvalaskoðun á Íslandi 1993 og birtust í fjölmiðlum. Þá fóru um 150 manns í skipulagðar hvalaskoðunarferðir. Í dag fara 354.000 manns á ári. Það er eitthvað annað.


mbl.is Marga þyrstir í heiðarvötnin blá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siglunes á Barðaströnd

Frá Siglunesi var róið um aldir og sagt er: Sá sem frá Siglunesi rær – landi nær.

Siglunes er úrvörður Barðastrandar til vesturs og lífhöfn sjófarenda en útvörður í austri er Vatnsfjörður.

Siglunes liggur yst á Barðaströnd við opinn Breiðafjörðinn og andspænis Snæfellsnesi krýndu samnefndum jökli.

Siglunesið býður upp á fjöruferð, ferð upp til fossa og að fjárrétt undir sjávarbökkum. Siglunesá rennur niður fjallið og gengum við upp með ánni og geymir hún fjóra fossa Hæstafoss, Undirgöngufoss, Háafoss og Hundafoss. Útsýni mjög gott yfir hluta Barðastrandarinnar.

Síðan var farið út á Ytranes og  svæði þar sem verbúðir voru um aldir. Við sáum fimm seli og nokkur úrgang, mest frá nútíma útgerð.  Dásamlegt að ganga berfættur í gylltum heitum sandinum til baka með stórkostlegt útsýni út og yfir Breiðafjörð á jökulinn sem logar.

Þegar komið var aftur að Siglunesi var komið að Naustum, bær Erlendar Marteinssonar. Austurhliðin hefur látið á sjá en er inn var komið þá sást eldavél. Ekki gerðu menn miklar kröfur til þæginda. Bærinn var byggður 1936 og bjó Erlendur til ársins 1962. Innviðin í bæinn komu úr kaupfélaginu í Flatey - það leiddi okkur á aðrar slóðir og þær hvernig alfaraleiðir lágu um Breiðafjörðinn. Þetta er hrein endalaus uppspretta heillandi sögu og ummerkja um það hvernig fólkið okkar komst af hér á öldum áður.

Að endingu var komið við að gestabók og minnisvarða um síðust hjónin sem bjuggu að Siglunesi.

Hús Erlendar

Að Naustum, bær Erlendar Marteinssonar, austurhliðin hefur látið á sjá. Erlendur bjó þarna til ársins 1962.

Dagsetning: 31. júlí 2017
Gestabók: Já

Heimild:
Barðastrandarhreppur göngubók, Elva Björg Einarsdóttir, 2016


Duglegir ríkisstarfsmenn, brúarsmiðir á Steinavötnum

Stórt hrós til Vegagerðarinnar. Þeir eru duglegir ríkisstarfsmennirnir. Byggðu upp bráðabirgðabrú yfir Steinavötn í Suðursveit á mettíma. Magnað.

Nú þurfa þessir duglegu ríkisstarfsmenn bara að fá almennilega yfirmenn. Tveir síðustu yfirmenn þeirra, jarðýtan Jón Gunnarsson og Ólöf Nordal höfðu ekki mikinn áhuga á úrbótum og uppbyggingu innviða. Það kom fram í fjárlögum fyrir árið 2017 að það tæki hálfa öld ár að útrýma einbreiðum brúm. Flokkurinn hafnaði auðveldum tekjum og innviðir fúnuðu fyrir vikið. Vegatollar er nýjasta lykilorðið.

Það þarf að útrýma einbreiðum brúm, svartblettum í umferðinni og gera metnaðarfulla áætlun. Í samgönguáætlun 2011 sagði: "Útrýma einbreiðum brúm á vegum með yfir 200 bíla á sólarhring".  Í sumar voru tæplega 2.500 bílar á sólarhring á hringveginum í Ríki Vatnajökuls, eða 12 sinnum meira.

Í bloggi frá apríl 2016 eru taldar upp ógnir, manngerðar og náttúrulegar sem snúa að brúm og áhættustjórnun. Það þarf að fjarlæga þær og byggja traustari brýr í staðin. Brýr sem þola mikið áreiti og fara ekki í næstu skúr. Ferðaþjónustuaðilar í Skaftafellssýslu töldu að 50 milljónir hafi tapast á dag við rof hringvegarins við Steinavötn. Tjónið er komið í heila öfluga tvíbreiða brú.

Steinavötn

Mynd af 102 metra langri og 53 ára brúni yfir Steinavötn tekin um páskana 2016. Það er lítið vatn í ánni og allir stöplar á þurru og í standa teinréttir í beinni línu. 


mbl.is Nýja brúin opnuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hafnarmúli (um 300 m)

Hafnarmúli er snarbrattur með flughömrum milli Mosdals og Örlygshafnar í Patreksfirði gengt þorpinu. 

Neðan við veg númer 612 er hægt að leggja bílum og hefja göngu inn Mosdal, upp hálsinn og ganga eftir toppnum að vörðu á fremsta hluta Hafnarmúla. Gangan upp tekur einn knattspyrnuleik og það borgar sig ekki að reyna að stytta sér leið upp fjallshlíðina, heldur fylgja slóða upp hálsinn að vörðu fremst á fjallinu.

Á leiðinni er tilvalið að stoppa við Garðar BA64, elsta stálbát Íslendinga í fjörunni í Skápadal og koma við í Sauðlauksdal. Eftir gönguferð er sniðugt að koma við á Minjasafni Egils Ólafssonar að Hnjóti.

Magdalena Thoroddsen lýsir svo bjarginu:

Flestum gæðum foldar rúinn
fjalladjásn með klettaskörð.
Hafnarmúlinn hömrum búinn
heldur vörð um Patreksfjörð.

Útsýni af Hafnarmúla er stórgott yfir Patreksfjörð. Þorpið með bæjarfjallið Brellur á ská á móti. Núpurinn Tálkni beint á móti með ekta vestfirska fjallabyggingu. Dýrðin er að horfa niður í Örlygshöfn, sjá litadýrðina í vaðlinum, gyllta sanda, græn tún, grænan sjó og blátt haf. Ógleymanlegt.

Hafnarmúli er helst þekktur fyrir hörmulegt sjóslys. Í ofviðri 1. desember 1948, fórst enski togarinn Sargon undir Hafnarmúla í Patreksfirði og fórust með honum 11 manns en 6 tókst að bjarga.

Í Lýsing Íslands eftir Þorvald Thoroddsen segir um Hafnarmúla: "austan við vaðalinn í Örlygshöfn er Hafnarmúli, snarbrattur og hvass að ofan einsog saumhögg,"    Ekki skil ég alveg hvað Þorvaldur á við með lýsingunni "að ofan eins og saumhögg" en að ofan er fjallið jafnslétt og mosagróið þó laust grjót sé en saumhögg er hvass þrístrendur hryggur.  

Eftir göngu á Hafnarmúla var farið í sund í Barmahlíð á Patreksfirði. Úr heitu pottinum sér göngumaður að múlinn sker sig aðeins úr fjallasalnum með gylltar fjörur sunnan fjarðar.

Hafnarmúli

Varða nálægt fremsta hluta Hafnarmúla, á móti er hinn bratti núpur Tálkni, hann skilur Patreksfjörð frá Tálknafirði. Selárdalshlíðar sjást handan Tálkna.

Dagsetning: 2. ágúst 2017 – Yfirdráttardagurinn
Hæð: Um 300 metrar
Hæð í göngubyrjun: 12 metrar við bílastæði við Mosá
Hafnarmúli varða (282 m): (N:65.34.862 - W:24.05.474)
Hækkun: 270 metrar
Uppgöngutími Hafnarmúli: 100 mín (09:50 - 11:30) 4,2 km
Heildargöngutími: 190 mínútur (09:50 - 13:00)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 8,4 km
Veður kl. 12.00: Skýjað, S 1 m/s, 11°C 
Þátttakendur: Villiendurnar, 8 þátttakendur 
GSM samband: Já
Gestabók: Nei
Gönguleiðalýsing: Vel sýnileg leið með stórgrýti í uppgöngu. Mosavaxið að ofan.

Heimild:

Lýsing Íslands:  Þorvaldur Thoroddsen  


Lónfell (752 m)

„og nefndu landið Ísland.“

"Þá gekk Flóki upp á fjall eitt hátt og sá norður yfir fjöllin fjörð fullan af hafísum. Því kölluðu þeir landið Ísland, sem það hefir síðan heitið." 

Fyrir fjallgöngufólk er ganga á Lónfell skylduganga á fornfrægt fell. Héðan var landinu gefið nafnið Ísland. Fjörðurinn er Arnarfjörður sem blasir við af toppnum. Göngumenn trúa því.

Fjallið er formfagurt og áberandi úr Vatnsfirðinum, ekki síst frá Grund þar sem Hrafna-Flóki byggði bæ sinn og dvaldi veturlangt við illan kost. 

Lagt var á Lónfell frá Flókatóftum í Vatnsfirði, upp Penningsdal frá skilti sem á stendur Lómfell og er vel merkt leið á toppinn. Gangan hófst í 413 m hæð og hækkun um 339 metrar. Töluvert stórgrýti er þegar nær dregur fjallinu. 

Ofar, í Helluskaði nær vegamótum er annað skilti og hægt að ganga hryggjaleið en mér sýndist hún ekki stikuð og aðstaða fyrir bíla léleg.

Eftir 90 mínútna göngu var komið á toppinn og tók á móti okkur traust varða og gestabók. Við heyrðum í lómi og sáum nokkur lón á heiðinni. Langur tími var tekinn við að snæða nesti og nokkrar jógaæfingar teknar til að hressa skrokkinn.

Á leiðinni rifjuðu göngumenn upp deilur á milli manna á tímum vesturferða og ortu sumir níðvísur um landi og kölluðu það hrafnfundið land en einn af þrem hröfnum Flóka fann landið. Aðrir skrifuðu og ortu um sveitarómantíkina.

Franskt par úr Alpahéruðum Frakklands fylgdi okkur og þekkti söguna um nafngiftina. Þeim fannst gangan áhrifamikil. Ekkert svona sögulegt fjall í Frakklandi.

Lónfell-Vatnsfjörður

Af Lónfelli er víðsýnt og þar sér um alla Vestfirði og Vatnsfjörðurinn, Arnarfjörðurinn og Breiðafjörðurinn með sínar óteljandi eyjar lá að fótum okkar.

Lómfell
Á skiltinu við upphaf göngu stóð Lómfell og vakti það athygli okkar. Einnig hafði vinur minn á facebook gengið á fellið daginn áður og notaði orðið Lómfell. Ég taldi að hann hefði gert prentvillu. Hann hélt nú ekki! Er hér Hverfjall/fell deila í uppsiglingu?

Ég spurði höfund göngubókar um Barðaströnd, Elvu Björg Einarsdóttur um örnefnin en hún ólst upp við að fjallið héti Lónfell og um það töluðu og tala flestir sveitungar hennar. En eftir að björgunarsveitin Lómur var stofnuð um miðjan 9. áratug síðustu aldar fór að bera á Lómfells-heitinu og þá var nafnið skírskotun í fellið - enda mynd af fellinu í merki sveitarinnar og kallmerkið "Lómur." 

"Á kortum kemur alls staðar fram Lónfell, nema e.t.v. á þeim yngstu. Örnefnaskrár fyrir Barðaströnd tala einnig um Lónfell en á einum stað í örnefnaskrá fyrir bæ í Arnarfirði sá ég talað um Lómfell. Ég hef rætt málið við stofnun Árna Magnússonar (Örnefnastofnun) og þar segja þau mér að vera sæla með að svo mikill hljómgrunnur sé í heimildum fyrir "Lónfelli" en fyrst að fólk nefni fjallið einnig "Lómfell" sé ekki hægt að skera úr um hvort sé réttast - svo sé oft um örnefni og að þau breytist - það vitum við.

Margir Barðstrendingar voru hvumsa við að sjá nafnið á skiltinu og ég held að mikilvægt sé að setja upp annað skilti þar sem nafnið ,,Lónfell" kemur fram - líklega er réttast að þau standi bæði :)"

Upplifun við söguna er engu líki og vel áreynslunnar virði.

Fjallasýn

Stórgrýtt leið. Ýsufell, Breiðafell, Klakkur og Ármannsfell rísa upp. Norðan þessara fjalla lá hinn forni vegur Hornatær milli Arnarfjarðar og Vattarfjarðar.

Arnarfjörður

Hér sér niður í Arnarfjörð sem er fullur af eldislaxi, hefði landið fengið nafnið Laxaland!

Dagsetning: 3. Ágúst 2017
Hæð: 752 metrar
Hæð í göngubyrjun: 413 metrar við skilti (N:65.37.431  - W:23.13.728)
Lónfell (752 m): (N:65.38.386 - W:23.11.871)
Hækkun: 339 metrar
Uppgöngutími Lónfell: 90 mín (09:40 - 11:10) 3,3 km
Heildargöngutími: 370 mínútur (09:40 - 12:50)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 6,6 km
Veður kl. 12.00: Skýjað, NNA 2 m/s, 12°C 
Þátttakendur: Villiendurnar 7 þátttakendur 
GSM samband: Já
Gestabók: Já
Gönguleiðalýsing: Mjög vel stikuð leið með stórgrýti er á gönguna líður

Heimild:
Barðastrandarhreppur göngubók, Elva Björg Einarsdóttir, 2016


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.8.): 5
  • Sl. sólarhring: 15
  • Sl. viku: 115
  • Frá upphafi: 237845

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 79
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband