Færsluflokkur: Ferðalög

Af stöðumælum í náttúrunni

Hann Halldór, teiknari Fréttablaðsins kann að setja fréttir í sérstakt samhengi. Góður teiknari og húmoristi.  Hér er mynd sem birtist 24. febrúar um æðið í ferðaþjónustunni.

Halldór

En hér er mynd sem ég tók á Hlöðufelli og sýnir gjörning sem tók á móti okkur þreyttum göngumönnum er toppnum var náð.

Hlöðufell

Stöðumælir í 1.186 m hæð í víðerninu og ægifegurð. Kálfatindur og Högnhöfði á bakvið.

Sami húmor!


Tækifærin liggja í loftinu

Það var gleðileg frétt á visir.is í morgun um ákvörðun Bæjarráðs Hornafjarðar: "Yfirlýsing um loftslag".

„Með yfirlýsingunni ábyrgist sveitarfélagið að vinna ötullega að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í starfsemi sinni og hvetja jafnframt íbúa og fyrirtæki til þátttöku,“ bókaði bæjarráðið og fól bæjarstjóranum að ganga frá samningnum við Landvernd.

Þetta er mjög gott grænt skref enda eru jöklarnir að hverfa fyrir framan nefið á Hornfirðingum og landið að lyftast um 10 mm á ári. Stóru skipin gætu lent í vandamálum í innsiglingunni innan fárra áratuga.

Með þessu verðar skaftfellsk fyrirtæki umhverfisvænni, þau munu innleiða umhverfisstefnu og huga að sjálfbærum rekstri. En eins og staðan er í dag þá sést umhverfisstefna hjá mjög fáum ferðaþjónustufyrirtækjum á Hornafirði.

Ef þú ætlar að breyta heiminum verður þú að byrja á því að breyta sjálfum þér. 

Á loftslagssýningu COP21 í Frakklandi var snjóbíll sem notaður var á Suðurskautslandinu en hann var rafknúinn. Veit ekki hvort hann henti fyrir ævintýraferðir á Vatnajökli en ég hugsaði heim er ég sá hann. Sótspor á jöklinum myndi minnka mjög mikið með sjálfbærri tækni. Rafmagn frá Smyrlu rétt fyrir neðan Jöklasel.

Snjóbíll

Snjóbíll á 8 hjólum eða beltum sem notaður var á Suðurskautslandinu. Í eigu Venturi. Drægni 40 km og hámarkshraði 25 km/klst.


Everest ****

Fyrir nokkrum árum fór ég á bókamarkað í Perlunni. Um tíuþúsund titlar voru í boð en aðeins ein bók náði að heilla mig en það var bókin Á fjalli lífs og dauða (Into Thin Air) eftir Jon Krakauer.  Kostaði hún aðeins 500 kall. Voru það góð kaup.

a_fjalli_lifs_og_daudaÉg var stórhrifinn af bókinni og vakti hún margar spurningar um háfjallamennsku. Krakauer veltir upp mörgum steinum og sér litla dýrð í háfjallaklifri nútímans. En margir fjallgöngumenn hafa ekkert þangað að gera. Það er ávísun á slys. Einnig upplifði ég bókina betur því íslensku fjallamennirnir þrír sem náðu toppi Everest í maí 1997 fléttuðu sögusvið myndarinnar inn í söguna. 

Auk þess hafa fjallamennirnir Peter Habeler, Ed Viesturs og David Breashears komið hingað til lands á vegum FÍFL og haldið góða fyrirlestra.

Því var ég spenntur fyrir stórmyndinni í þrívídd, Everest sem stjórnað er að Baltasar Kormák.

EverestMargar áhugaverðar persónur og góðar persónulýsingar í bókinni sem er vel skrifuð. Skyldi myndin ná að  skila því?

Stórmyndin er sögð frá sjónarhorni Rob Hall (Jason Clarke) en hann sýndi mikið ofdramb, hafði komið mörgum óþjálfuðum ferðamönnum á toppinn. Aðrar áhugaverðar persónur eru: Bréfberinn Doug Hansen (John Hawkes) sem var að fara í annað sinn og besti klifrarinn. Beck Weathers, (Josh Brolin) sem er óhóflega kumpánalegur meinafræðingur frá Dallas í Texas. Rússneski leiðsögumaðurinn Anatoli Boukreev, leikinn af Ingvari Sigurðssyni. Hann þurft ekkert súrefni. Scott Fisher (Jake Gyllendal) hinum leiðangursstjóranum sem er lýst sem kærulausum og veikum leiðsögumanni. Kona Halls,Jan Arnold (Keira Knightley) kemur inn á mikilvægu augnabliki en myndin er ekki bara fjallamynd, heldur um samskipti fólks. Hafa eflaust margir fellt tár þegar síðasta samtal þeirra hjóna fór fram. Sögumaðurinn í bókinni Krakauer (Michael Kelly) kemur lítið við sögu, er áhorfandi.

Mér fannst meistaralega vel gert hvernig Baltasar notar Krakauer í myndinni en hann varpar fram spurningunni: "Til hvers ertu að fara á toppinn", og leiðangursmenn svara af hreinskylni. Áhrifaríkast er svar bréfberans Doug en hann vildi vera fyrirmynd skólakrakkanna í Sunrise-grunnskólanum, dreyma stóra og litla drauma og þunglyndið hjá Beck.

Sjerparnir fá litla athygli í myndinni en vega þyngra í bókinni. Enda markaður fyrir myndina Vesturlandabúar.

Eflaust á myndin eftir að fá tilnefningar fyrir grafík og tæknibrellur en ég sat framarlega og naut myndin sín ekki á köflum í gegnum gleraugun. Mér fannst sumt mega gera betur. 

Í 8000 metra hæð hafa menn ekki efni á að sýna samúð. Það kom í ljós í myndinni. Hver þarf að sjá um sjálfan sig því fjallið, vonda aflið í sögunni á alltaf síðasta orðið.

Ekki er farið djúpt ofan í orsök slyssins en Krakauer kafaði djúpt í bókinni. Göngumenn áttu að snúa kl. 14.00 en virtu það ekki. Fyrir vikið lágu 8 manns í valnum eftir storm. Hefðu menn virt reglur, þá hefði þessi saga ekki verið sögð.

Balti þekkir storma, rétt eins og í Djúpinu þá var stúdíóið yfirgefið og haldið út í storminn. Það gefur myndinni trúverðugleika.

Hljóð og tónlist spilar vel inní en það þarf að horfa aftur á myndina til að stúdera hana. Þrívíddarbrellur koma nokkrum sinnum vel út og gera menn lofthrædda. Gott atriði þegar klaki fór út í sal í einu snjóflóðinu. Margir gestir viku sér undan klakastykkinu.

Ágætis stórslysamynd sem sendir mann um stund til Himalaya og næsta skref er að lesa bók ofurmennisins Boukreev, The Climb.

#everestmovie


Hvannalindir

Lífskraftur er fyrsta orðið sem manni dettur í hug þegar maður sér rústirnar í Hvannalindum en þær eru umkringdar hálendiseyðimörk. Hvílík ofurmenni hafa Fjalla-Eyvindur og Halla verið, að geta lifað veturinn af. En þau söguð sig úr lögum við samfélagið eða samfélagið grimmt við þau.

Hún er athyglisverð fréttin á ruv.is vefnum en Minjastofnun Íslands tók í sumar þrjú bein úr gömlum rústum af vistarverum fólks sem hafðist við í Hvannalindum.

"Kolefnisgreining á beinum sem fundust í Hvannalindum rennir stoðum undir þá kenningu að dularfullur mannabústaður þar hafi verið skjól Fjalla-Eyvindar og Höllu eða annarra útilegumanna sem höfðu sagt sig úr lögum við samfélagið á 18. öld."

Samkvæmt greiningunni séu beinin líklegast frá um 1750 en skekkjumörkin séu 33 ár.

Upplýsingasteinar

Upplýsingasteinar í Hvannalindum

"Hvannalindir eru gróðurvin í um 640 metra hæð undir Lindahrauni í skjóli af Lindafjöllum og Krepputunguhraunum að vestan og Kreppuhrygg að austan."

Rústir

Séð inn í rústirnar. Kristján Eldjárns rannskaði þær sumarið 1941 og taldi þær hafa verið einangraðar með gærum.

Í rústunum fundust, útihúss, mosavaxinn eldiviðarköstur, steinpottur og ausa úr hrossherðablaði. 

Heimildir

Rúv. Bein styrkja tilgátu um bú Fjalla-Eyvindar


Fláajökull

Fláajökull, sem er skriðjökull og gengur úr suðausturhluta Vatnajökuls niður á Mýrar í Hornafirði hefur lengi verið uppáhaldsjökull minn en ég horfði nær daglega á hann í æsku ofan af Fiskhól og hef í gegnum tíðina séð Jökulfell sem er í jökulsporði hans stækka.  Þegar myndir frá byrjun síðustu aldar eru skoðaðar þá sést Jökulfell ekki. Það er hulið ísstáli.

Umgjörð Suðursveitar, Mýra og Nesja í Hornafirði er mjög óvenjuleg og á sér kannski hvergi hliðstæðu, hvorki hér á landi né annarsstaðar. Stutt til sjávar og hver skiðjökullinn eftir annan steypist niður frá Vatnajökli og breiðir úr sér. Það er ótrúlega stutt frá grænu sveitinni upp í meginhvel Vatnajökuls, aðeins 15 km. Ferðamönnum nútímans finnst þetta einnig heillandi sýn og tilbúnir að greiða hátt gjald fyrir upplifunina sem er einstök: Voldugur jökullinn seilist niður í byggð í gegnum fjallaskörð og dali niður á græna og votlenda byggðina.  En fyrr á öldum háðu bændur mika baráttu við vötnin. Skaftfellsk þrautseigja sem hélt lífinu í byggðinni.

Fláajökull

Fláajökull frá þjóðvegi. Jökulfell sækkar á hverju ári.

Ég heimsótti vin minn Fláajökul 3. ágúst 2015 og velti því um leið fyrir mér þegar ég gekk yfir traustra göngubrúnna yfir kolmórauða jökulánna Hólmsá að einhvern tíma í framtíðinni gætu ísjakar og jöklar heyrt sögunni til og aðeins verið til á myndum. Það er ein afleiðing hnattrænnar hlýnunnar. 

Jöklar vita svo margt. Jöklar geyma ótrúlegt magn upplýsinga um veður og loftslag.

Á síðasta mælingarári hörfaði sporður Fláajökuls um 78 metra. Hörfunin frá 1995-2000 var að meðaltali 10-25 m/ári en hefur verið 50-78 m/ári síðan þá.

Í fróðlegri ritgerð, Hörfunargarðar við Fláajökul: Landlögun, dreifing, setgerð og bygging eftir Heimi Ingimarsson er fjallað um hörfunargarða og dembigarða jafngangsjökla. Einnig hörfun jökulsporðsins.

Fláajökull og Hólmsá

Hólmsá, sem rennur undan Fláajökli, hefur lengi ógnað byggð á Mýrum

Áægtis upplýsingar eru um baráttu Mýramanna og jökulsins víða nálægt bílastæðinu. Árið 1937 voru miklar framkvæmdir og einnig 2002. Densilegur kamar tekur á móti ferðamönnum og smá mátti geitur frá Húsdýragarðinum í Hólmi. 

Fláajökull hefur einnig borið nafnið Hólmsárjökull en Hólmsá kemur frá honum en einnig Djúpá sem fellur í Hornafjarðarfljót. Einnig hafa nöfnin Mýrajökull og Hólsárjökull verið notuð yfir skriðjökulinn.

Heimildir:
Hörfunargarðar við Fláajökul: Landlögun, dreifing, setgerð og bygging, Heimir Ingimarsson, 2013
Við rætur Vatnajökuls, Árbók FÍ 1993, Hjörleifur Guttormsson
Jöklar á Íslandi, Helgi Björnsson, 2009.
Geographic Names of Iceland‘s Glaciers: Historic and Modern, Oddur Sigurðsson og Richard S. Williams jr, 2008.


mbl.is Tveir í sjálfheldu við Fláajökul
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrossaborg (441 m)

Hrossaborg (441 m)á Mývatnsöræfum er annar tveggja þekktra, samkynja gjóskugíga á Norðausturlandi. Hinn er Hverfjall (Hverfell) í Mývatnssveit. Báðir eru myndaðir í tengslum við þeytigos í vatni eða við miklar grunnvatnsbirgðir. Hrossaborg er eldri, u.þ.b. 10.000 ára, en Hverfjall 2500 ára.

Veðrun hefur sorfið úr Hrossaborg og er hún því ekki eins vel formuð og Hverfjall.

Mývetningar beittu hrossum sínum gjarnan á þessu svæði og notuðu gíginn sem aðhald fyrir þau á meðan leitum var haldið áfram. Að þeim loknum var allt stóðið rekið niður í Mývatnssveit. Vegur liggur alla leið inn í gíginn, sem lítur út eins og stórt hringleikahús, þegar inn er komið. Leiðin inn í Herðubreiðarlindir (#F88) liggur steinsnar austan Hrossaborgar.

Til eru tvær aðrar Hrossaborgir, á Skarðsströnd.

Hrossaborg

Séð niður í Hrossaborg. Rúta SBA-Norðurleið sést til hægri.Fylgt er slóða upp á gígbarminn. Þaðan er mikið útsýni yfir Mývatnsöræfi.

Dagsetning: 17. júlí 2015
Hæð vörðu: 441 m
GPS-hnit vörðu: (N:65.36.820 – W:16.15.731)
Hæð rútu: 380 m (N:65.36.924 – W:16.15.488)
Hækkun: 60 m
Erfiðleikastig: 2 skór
Þátttakendur: Ferðafélag Íslands, 20 manns

 

Heimildir
Ódáðahraun, Ólafur Jónsson
nat.is - Hrossaborgir


Hólárjökull 2015

Jöklarannsóknir mínar halda áfram. Ávallt þegar ég keyri framhjá Hólárjökli sem var einn af tignarlegum skriðjöklum úr Öræfajökli, þá smelli ég ljósmynd af honum. Hólárjökull er rétt austan við Hnappavelli. Hólá kemur frá honum.

Fyrri myndin var tekin þann 16. júlí 2006 og sú nýjasta þann 5. ágúst 2015.  Það sést glöggt að jökultungan hefur styst og jökullin þynnst, nánast horfið.  Rýrnun jöklanna er ein afleiðingin af hlýnun jarðar. Ég spái því að jökultungan verði horfin innan fjögurra ára. Hlutirnir gerast svo hratt.

Árið 2006 voru íslenskir jöklar útnefndir meðal sjö nýrra undra veraldar af sérfræðingadómstól þáttarins Good Morning America á bandarísku sjónvarpsstöðinni ABC. Íslensku jöklarnir urðu fyrir valinu vegna samspils síns við eldfjöllin sem leynast undir íshellunni.

Jöklarnir vita svo margt. Við erum að tapa þeim með ósjálfbærri hegðun okkar.

160707

Hólárjökull, 16. júlí 2006. Jökulsporðurinn þykkur og teygir sig niður í gilið.

Hólárjökull 05.08.2015

Hólárjökull, 5. ágúst 2015. Augljós rýrnun á 9 árum. Jökulsporðurinn er nær horfinn. En hann hefur í fyrndinni náð að ryðja upp jökulruðningi og mynda garð.

Sjá:
Hólárjökull 2007 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/259538/
Hólárjökull 2008 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/611572/
Hólárjökull 2009 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/911196/
Hólárjökull 2011 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1192311/

Hólárjökull 2012 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1253486/


Ísjakar í fjörunni við Jökulsárlón

Það var mikið af jökum og ferðamönnum í fjörunni við Jökulsárlón í gær. Mikið af ís streymdi úr Jökulsárlóni út á haf og sunnanáttin skutlað þeim upp í fjöru. Geysimargar myndir voru teknar og flugu um samfélagsmiðla. Jöklarnir eru að hverfa.

Jakar við Jökulsárlón

Til­komu­mik­il upp­lif­un get­ur fal­ist í að skoða ísjakana í fjörunni. En eftir nokkra áratugi verður Jökulsárlón orðið að firði og jakaburður hættir fari fram sem horfir.


mbl.is Á sér hvergi hliðstæðu í sögunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íshellar og áin Volga í Kverkfjöllum

Eitt af undrum Kverkfjalla eru íshellar í Kverkjökli og áin Volga. Volga er ein af fyrstu kvíslum Jökulsár á Fjöllum, næst lengstu á landsins 206 km. En hvernig varð nafnið Volga til?

Sumarið 1963 fóru nokkrir menn í Jöklarannsóknarfélaginu í Kverkfjöll. Þeir hugðust kanna gróður og ganga á fjöll, en eins og oft vill verða á þessum slóðum tók veðrið af þeim völdin og varð þeim ekki annað til dundurs en að kanna íshella Kverkjökuls. Um hellisgöngin streymdi 13°C heit á og henni var gefið nafnið Volga. Aðal íshvelfing undirheimanna reyndist 15-20 metra há og 330 metra löng. Hún þrengdist inn á við og endaði háum fossi. Þar var skuggsýnt og mikið gufukóf. En Volguhellar eru að breytast. Volga stendur ekki lengur undir nafni og á meðan hún streymir ísköld viðheldur hún ekki hvelfingunum. Jökullinn skríður fram og við hellisopið hrynja ísflykki af og til. (bls. 276)

Á sumrin gætir ekki hitans í Volgu því leysingavatn gerir hana að ískaldri jökulá.

Við merktan göngustíg í átt að íshellinum eru skilti sem banna skoðunarferðir inn í íshellinn enda er þar slysahætta af völdum íshruns. Hópur af erlendum ferðamönnum fór samt inn í íshellinn og virti aðvaranir ekki að vettugi. Þegar við vorum búin að vera í nokkurn tíma að fræðast um íshellinn og samspil elds og ísa þá komu tveir erlendir ferða menn út úr hellinum. Þeir hafa eflaust farið lengra inn í hann en hópurinn. Þeim til happs var að vorið og sumarið var kalt og íshellinn stöðugri en í meðalári.

Fréttamaðurinn Ómar Ragnarsson er mjög hrifinn af Kverkfjöllum og hefur kynnt íshellin, Volgu og Kverkfjöll fyrir Íslendingum. Hann hefur lent í háskalegum atburðum og náð á kvikmynd. Í ljóðinu Kóróna landsins eftir Ómar er þessi fallega lína um Volgu:  Í Kverkfjöllum glóðvolg á íshellinn þvær.

íshellirinn í Kverkjökli

Íshellirinn í Kverkjökli þann 18. júlí 2015. Hann má muna fífil sinn fegurri. En hiti frá Volgu hefur minnkað og framskrið Kverkjökuls hefur dregið úr tignarleik hellisins.

Heimildir:
Perlur í náttúru Íslands, Guðmundur Páll Ólafsson, 5. prentun 2005.


Kverkfjöll - Hveradalir

Kverkfjöll eru önnur hæsta eldstöð landsins, næst á eftir Öræfajökli. Kverkfjöll rísa meira en 1.000 metra yfir umhverfi sitt og eru að hluta til hulin ís. Hæst rís Skarphéðinstindur á austanverðu fjallinu (1.933 m). Skipta má Kverkfjöllum í eystri og vestari hluta um Kverk sem er mikið skarð í fjöllin norðanverð með geysiháum þverhníptum hamraveggjum. Út um Kverk skríður Kverkjökull til norðvesturs niður undir hásléttuna í um 950 metra hæð.

En markmiðið með gönguferðinni var að heimsækja Hveradal í 1.600-1.700 m hæð með miklum gufu- og leirhverum, um 3 km langur og allt að 1 km breiður. Þetta er eitt öflugasta háhitasvæði landsins. Bergið er sundursoðið af jarðhita.

Lagt var frá Sigurðarskála (840 m) rétt eftir dagrenningu og íshellinn skoðaður úr fjarlægð. Jarðhiti er undir Kverkjökli, og undan honum fellur stærsti hveralækur landsins, sem bræðir ísgöng fyrir farveginn. Erlendir ferðamenn fóru inn í hellinn og virtu aðvaranir að vettugi.

Síðan voru mannbroddar settir undir fætur og lagt af stað, úr 950 m hæð. Gengið yfir Kverkjökul og snæviþakta Löngufönn. Á leiðinni var fallegt sprungusvæði og drýli röðuð sér skipulega upp. Spáin var óhagstæð. Kuldapollur frá heimskautinu skaust inn á landið og vetur konungur var að ganga í garð á hálendinu um miðjan júlí.

Gönguhópurinn fór í rúmlega 1.500 metra hæð en sneri við vegna snjóa. Lítið að sjá og fylgja ráðum háfjallagöngumannsins Ed Viesturs, að snúa við áður en það er orðið og seint. En skjótt skipast veður í lofti í mikilli hæð.

En tilhugsunin um Hveradali efri og neðri er stórbrotin og alltaf mögulegt að reyna aftur. Félag íslenskra fjallalækna, FÍFL fóru í ferð á síðasta ári og tóku frábærar myndir, þá lék veðrið við félaga.

Kverkjökull- ganga

Gengið á mannbroddum yfir Kverkjökul en undir honum er jarðhiti.

Göngukort

Mynd sem skýrir ferðina en hún er tekin af skilti á Sigurðarskála. Lagt af stað frá stað vinstra megin við Volgu og sést hann ekki.

Dagsetning: 18. júlí 2015
Erfiðleikastig: 4 skór
Þátttakendur: Ferðafélag Íslands, 20 manns

Heimildir
Jöklar á Íslandi, Helgi Björnsson, 2009. Bls. 343.
Vatnajokulsthjodgardur.is


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 53
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband