Færsluflokkur: Samgöngur
19.3.2014 | 16:43
Fellaþrenna: Helgafell (340 m) Valahnúkar (205 m) Húsfell (295 m)
Rétt innan við Hafnarfjörð standa nokkur fell úti í hrauni. Lagt var frá Kaldárseli og gengið sem leið lá upp á Helgafellið. Þaðan var haldið niður á við og gengið á Valahnjúka. Komum við í Valabóli og Músahelli áður en Húsfell var gengið.
Þegar gengið var upp Helgafell um gilið í miðju fellinu, þá heyrðist í þyrlu frá Norðurflugi. Þegar á toppinn var komið, þá var þyrlan lent á sléttum toppnum og mynduðu ferðamenn sig í bak og fyrir. Vakti hún verðskuldaða athygli en það blés vel um toppinn.
Mjög eftirminnilegt atvik í fjallgöngusögu minni en maður veltir fyrir sér reglum um lendingar hjá þyrlu í fólkvangi og kyrrð og ró fjallgöngumannsins. Það geta skapast hættur á fjöllum.
Eftir uppákomuna á Helgafelli var lagt á Valahnúka en þeir eru í beinni línu milli Helgafells og Húsfells.
Toppurinn á Valahnúkum er klettur og vaggaði hann en Valahnúkar eru taldir hafa myndast í gosi fyrir um 120 þúsund árum.
Frá vaggandi Valahnúk var haldið að Valabóli og orku safnað fyrir síðasta fellið, Húsfell.
Margt sér á miðju Húsfelli, Búrfellsgjá blá. Húsfell er umkringt hrauni sem er komið ofan úr Rjúpnadyngjum og á að hafa myndast á tímabilinu 900 - 1500.
Á toppi Helgafells í Hafnarfirði. Þyrla með fjallgöngufólk!
Dagsetning: 1. febrúar 2014
Kaldársel upphaf: 84 m (N:64.01.374 W:21.52.066)
Helgafell: 340 m - hækkun: 200 m
Húsfell: 306 m (N:64.01.591 W:21.47.947)
Valahnúkar: 205 m (N:64.01.192 W:21.50.118)
Heildarlækkun: Um 400 metrar
Heildargöngutími: 2,5 klst, 263 mínútur (10:07 - 14:30)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 14,1 km
Skref: 18,874 og 1,257 kkal
Veður kl. 12 Bláfjallaskáli: Skýjað, austan 10 m/s. 4,5 °C hiti og 64% raki. Skyggni 50 km.
Þátttakendur: Ferðafélag Árnesinga, 32 félagar
GSM samband: Já, enda í útjaðri Hafnarfjarðar. Stöðugt 3G-samband.
Gönguleiðalýsing: Gengið eftir vel gengnu hrauni milli fella. Flott fellaþrenna.
Séð frá Helgafelli, yfir Valahnúka og yfir á Helgafell.
26.8.2013 | 17:38
Fegurðin að Fjallabaki
Skallar og hattar voru áberandi í óhefðbundinni ferð um Friðlandið með Ferðafélagi Árnesinga.
Gengið frá Landmannalaugum inn Litla Brandsgil og upp á hrygginn Milli Brandsgilja (921 m). Þaðan haldið vestan undir Skalla á sléttuna. Þaðan sá vel til Hofsjökuls og Hágögur voru glæsilegar austan við jökulinn. Þegar upp var komið opnaðist glæsileg sýn á hinn leyndardómsfulla Torfajökul. Öll þessi marglitu, einkennilegu fjöll blöstu við. Gengið niður á Suður-skalla (921 m). Þaðan haldið niður að Hattveri, framhjá tignarlegum Hatti og nesti snætt undir honum. Nokkrir klifruðu upp á Hatt og upplifðu ljóst líparítið á kollinum.
Eftir gott stopp var gengið eftir Jökulgilsbotni. Þaðan haldið í vestur upp hrygginn Milli Hamragilja og stefnan sett á Gráskalla. Á leiðinni sá ofan í Stóra Hamragil. Strýta ein nafnlaus er á fjallinu þar sem gengið var upp og minnti hún á Lóndranga á Snæfellsnesi undir ákveðnu sjónarhorni. Á leiðinni sá ofan í Stóra Hamragil. Þar sást frumgerð af Hatti en skaparinn hefur æft sig vel fyrir hinn fullkomna Hatt.
Undir Gráskalla sá til Vatnajökuls með mikið landslag og með tignarlegan Sveinstind sem bar af í forgrunni, Grímsvötn, svart Pálsfjall og Þórðarhyrnu. Farið niður af sléttunni niður í Grænagil en þar var brattasta brekkan um 100 metrar og minnti á ferð niður í Víti í Ösku. Þaðan gengið eftir kolsvörtu Laugahrauni en þar er torleiði og virtist ætla að hrynja yfir okkur en áhugaverð ganga.
Á leiðinni úr Landmannalaugum sá til Þóristinds og minnti hann á hið lögulega Matterhorn.
Syðri-skalli og hryggur að honum og leyndardómsfullur Torfajökull í fjarska.
Hattur í Hattveri er glæsileg náttúrusmíð. "Hattarhryggur" liggur að kynlega stuðlaða ríólítnúpnum Hatti.
Dagsetning: 17. ágúst 2013
Mesta hæð: 960 m, barmur undir Skalla
GPS hnit Hattver: 704 m (N:63.56.020 - W:19.03.398)
Hæð í göngubyrjun: 600 metrar (N:63.59.385 W:19.03.464) við rútuplan.
Heildarhækkun: 1.200 metrar
Heildargöngutími: 8,5 klst, 510 mínútur (11:15 - 19:45)
Erfiðleikastig: 3 skór
Vegalengd: 22,8 km
Skref: 30,034
Veður kl. 15 Laufbali: Léttskýjað, NA 3 m/s, 12,1 °C.
Þátttakendur: Ferðafélag Árnesinga, 71 félagi
GSM samband: Nei, en við skála FÍ og á nokkrum háum hæðum, 3G samband úti.
Gönguleiðalýsing: Lagt frá rútustæði við skála FÍ í Landmannalaugum. Krefjandi ganga, gengið eftir mjóum hryggjum. Ómótstæðileg litadýrð. Gengin Skallahringur. Torfajökulsaskja, stærsta líparítnáma landsins. Gimsteinasafn.
Myndir úr ferðinni
Sigurpáll Ingibergsson:
Jón Hartmannsson:
https://skydrive.live.com/?cid=4D4A7F61F1D7F547&id=4D4A7F61F1D7F547%2116639&v=3
Einar Bjarnason:
https://plus.google.com/photos/110610845439861884745/albums/5913450375417426353?banner=pwa
Daði Garðason, Ferðafélag Árnesinga:
http://www.flickr.com/photos/ferdafelag_arnesinga/sets/72157635118871371/
Roar Aagestad
https://www.facebook.com/photo.php?fbid=4627706551052&set=pcb.568001316579884&type=1&theater
Ragnar Hólm Gíslason:
https://www.facebook.com/photo.php?fbid=10201846230907534&set=oa.567910189922330&type=1&theater
Ágúst Rúnarsson
Heimildir
Friðland að Fjallabaki, Ábók Ferðafélags Íslands 2010.
Umhverfisstofnun, http://www.ust.is/library/Skrar/utgefid-efni/Baeklingar/Fjallabak_IS.pdf
13.8.2013 | 14:23
Flateyjardalur
Flateyjardalur er 33 km langur dalur sem gengur inn í landið vestan Víknafjalla og Kinnarfjalla. Sú málvenja hefur þó verið um langan aldur að kalla einungis nyrsta hlutann, byggðina með sjónum Flateyjardal en telja mestan hluta dalsins til Flateyjardalsheiðar (220 m). Fimm sjálfstæð býli voru í dalnum sem öll eru komin í eyði, hið síðasta, Brettingsstaðir árið 1953. Undirlendi er þar allmikið og grösugt og rekar voru nokkrir. Vetrarríki er í Flateyjardal enda fyrir norðan 66 gráður og stutt frá Heimskautsbaugnum. Um dalinn lykja há fjöll og hlíðar þeirra eru vaxnar lyngi og öðrum gróðri, að minnsta kosti hið neðra.
Í Flateyjardal var sögusvið Finnbogasögu ramma, þar fæddist hann, var borinn út en síðar fóstraður til fullorðinsára á Eyri eða Knarrareyri. Rústir af bænum og fjárhúsum eru austan vatnsmikillar Dalsár.
Brettingsstaðir voru mest jörð í Flateyjardal og kirkjustaður um skeið, frá 1897 til 1960. En mikill jarðskjálfti skók Flatey 1872 laskaði kirkjuna. Í kjölfarið var ákveðið að flytja hana í land var og að Brettingsstöðum.
Gaman að upplifa lífsbaráttu íbúa dalsins í gegnum einfaldar og góðar merkingar á eyðibílum og ártal fylgir með. Allt aftur til 1600. Nokkuð fór í eyði þegar Öskjugosið var 1875 og mikil atvinna á stríðsárunum hefur frelsað restina af bæjunum undan harðindum.
Margir slæðufossar sáust í fjallshlíðunum og trölla- og mannamyndir meitlaðar í stein. Mikil kyrrð og berjaland gott. Sannkallað land göngumannsins.
Virðing - Tvennir tímar. Stórkostlegt að sjá fornminjar og vel viðhöldnu húsi, líklega frá 1928 á Brettingsstöðum.
Flatey, Víkurhöfði og Flateyjarsund séð frá gróinni heimreið að Brettingsstöðum. Flateyjarsund, þar eru talin ein mestu hrognkelsamið við strendur Íslands.
Dagsetning: 6. ágúst 2013
Hæð Flateyjardalsheiðar: 220 m
Lengd Flateyjardals, F899: 33 km
GSM samband: Já, gott við ströndina.
Ökuleiðalýsing: Lagt frá hliði við Þverá í Fnjóskadal. Ágætis fjallvegur og lítið mál fyrir fjórhjóladrifsbíla með mikið af vöðum, pollum og lækjum en mikill snjór í fjallshlíðum enda heitt í veðri. Helst að passa sig á að festa bílinn ekki í sandi við ströndina. Gaman að sjá vatnaskil á heiðinni en glöggir ferðamenn geta séð þegar Dalsá fer að renna í norður eftir 6 km akstur.
Heimildir
Landið þitt Ísland, Þorsteinn Jósepsson og Steindór Steindórsson, 1987.
Íslendingasögur, Finnbogasaga ramma
Magnús Már Magnússon http://magnus.betra.is/sida.php?id=82&preview=1
7.8.2013 | 14:55
Steinhleðsla Þorvalds Thoroddsens
Í Hálendishandbók Páls Ásgeirs segir: "Ofarlega í fjallinu þykir mögrum sérstætt að rekast á tóft eins og af litlum leitarmannakofa. Þetta munu vera rústir eftir bækistöðvar manna í einum af könnunarleiðöngrum Þorvalds Thoroddsen vísindamanns."
Mér var hugsað til Þorvaldar og félaga. Einnig til Fjalla Eyvindar og Höllu. Hvílík elja í Þorvaldi að leggja á sig tíu ára landkönnunarferðalag án flísfatnaðar og svefnpoka upp að -20. Það er þrekvirki að reisa vísindabúðir í 1000 metra hæð en á þessum árum var mjög kalt á Íslandi.
Ég skildi bakpoka minn eftir í vísindabúðunum og nýtti mér fagmannlegt handafl Þorvalds og félaga til að skýla honum og létta á mér fyrir toppun eða tindun.
Ég tel að myndirnar hér fyrir neðan sýni steinhleðsluna sem hlaðnar voru fyrir rúmri öld en Þorvaldur Thoroddsen fór í tvo landkönnunarleiðangra um svæðið, 1889 og 1893.
GPS hnit steinhleðslu: (N:64.06.306 W:18.25.349)
Hæð steinhleðslu: 1.016 metrar
Steinhleðsla, líklega eftir Þorvald Thoroddsen og félaga. Grænifjallgarður í bakgrunn.
Snjór enn á tindinum og ferðamenn á leiðinni. Steinhleðslan sést við enda snjóskaflsins. Víkurskarð liggur frá veginum F235 vestan Hrútabjarga.
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 15:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.7.2013 | 15:49
Snæfellsjökull (1.446 m)
Hverfandi jöklar er frábært framtak hjá Útivist. Fyrsta jöklaferðin í þemanu var á konung íslenskra fjalla, Snæfellsjökul sunnudaginn 7. júlí 2013.
Snæfellsjökull (10 km2) hefur mikið látið á sjá á síðustu árum. Hann er 13. stærsti jökull landsins en þriðji vinsælasti íslenski jökullinn á Google með 394 þúsund leitarniðurstöður. En sögur um kraft jökulsins, Bárð Snæfellsás og glæsileg keilulögun og bloggfærslur á sólríkum dögum í höfuðborginni afla honum vinsælda.
Hverfandi jökull
Samkvæmt nýjum mælingum hefur Snæfellsjökull lækkað um einn og hálfan metra að meðaltali síðustu tíu ár. Mest þynnist hann á jöðrunum, sums staðar um 30-40 metra, minna á hákollinum en þar hefur hann þynnst um nokkra metra.
Á sama tíma hefur flatarmál hans minnkað um rúman ferkílómetra í um 10 ferkílómetra. Ef horft er aftur til byrjunar síðustu aldar þá er Snæfellsjökull helmingi minni nú en hann var að flatarmáli og ekki nema þriðjungur að rúmmáli. Ef ekki verður mikil breyting á tíðarfari þá hverfur Snæfellsjökull á næstu áratugum.
Göngumenn höfðu fylgst vel með veðurspám og von var á lægð en síðdegis. En spár gerðu ráð fyrir björtu veðri fram eftir degi.
Þegar lagt var af stað kl. 8 frá BSÍ sást til sólar en þegar kom á Snæfellsnesið var þungt yfir. Þó sá í sólarglennu á Arnarstapa. Gaf það göngumönnum von. Í hópnum voru 5 útlendingar, fjórðungur göngumanna og misvel búnir. Höfðu þeir mikinn áhuga á krafti Snæfellsjökuls og bráðnun jökla vegna hækkandi lofthita.
Þegar komið var á Jökulhálsinn, F570 keyrðum við inn í þoku og vonuðust bjartsýnustu menn eftir því að komast upp úr skýjunum, í sólina sem var í veðurkortunum. Undirbúningur hófst í rútunni og drukku menn fyrir ókomnum þorsta og komu orku í kroppinn. En þegar lagt var í gönguna kl. 11.40 sást að þokan var að þéttast. Fararstjórinn, Guðjón Benfield klæddist gulum buxum og vonuðust menn til að þetta væri ekki eina gula sjónin í ferðinni.
Gengið var eftir gljúpu hjarni alla leið og þegar komið var í 1.000 metra hæð þá mættu fyrstu rigningardroparnir okkur. Áfram var haldið og bætti í vindinn og úrkomuna. Svöruðu göngumenn því með betri klæðnaði. Ákveðið var að ganga aðeins lengur en sífellt bætti í. Því tók leiðangursstóri þá réttu ákvörðun að snúa við. Stundum þarf meira hugrekki til að snúa við en ana upp. Göngumenn voru þá í 1.071 metra hæð og 1,4 km eftir.
Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson
Þeir félagar Eggert og Bjarni gengu á Snæfellsjökul 1. júlí 1753 en til forna hét jökulinn einungis Snjófell og talinn vera hæsta fjall á Íslandi. Þeir höfðu með sér loftvogir, áttavita kvikasilfursmæli. Einnig sterka taug og slæður fyrir augun og njarðarvött.
"$422. Menn töldu fyrirætlun okkar, að ganga á jökulinn, fullkomna fífldirfsku. Það var meira að segja talið með öllu ókleyft af ýmsum sökum. Í fyrsta langi væri leiðin svo löng og fjallið bratt, svo að ókleyft væri, í öðru lagi væru sprungurnar í jöklinum ófærar yfirferðar öllum mönnum, og loks var fullyrt, að menn yrðu blindir af hinu sterka endurskini sólarljóssins á jöklinum"
Ekki urðum við blind eða hringluð en hundblaut og köld.
Göngumenn á niðurleið og hafði veður aðeins batnað. Það sér móta fyrir förum eftir snjóbil og vélsleða frá ferðaþjónustu Snjófells Arnarstapa.
Dagsetning: 7. júlí 2013
Hæð Miðþúfu: 1.446 m
GPS hnit á snúning: (N:64.48.643 - W:23.45.619) í 1.071 metra hæð.
Hæð í göngubyrjun: 561 metrar (N:64.48.253- W:23.41.954) hjá snjósleðaleigu.
Hækkun: 510 metrar (885 metrar)
Uppgöngutími: 120 mín (11:40 - 13:40) 3 km loftlína
Heildargöngutími: 180 mínútur (11:40 - 14:40) 3,6 km
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 7,2 km
Veður kl. 12 Gufuskálar: Alskýjað, S 9 m/s (10-13 m/s), 9,4 °C. Raki 73%
Veður kl. 12 Bláfeldur: Alskýjað, S 5 m/s (6-7 m/s), 9,2 °C. Raki 82%, skyggni 30 km.
Þátttakendur: Útivistarræktin, 20 manns með fararstjórum.
GSM samband: Nei, ekki hægt að senda SMS í byrjun.
Gönguleiðalýsing: Lagt frá snjósleðaleigu á Jökulháls. Gengið inn Hyrningsdal og stefnt á Þríhyrning. Þaðan tekin stefna á Jökulþúfur. Hjarn alla leið frá vegi og sökk fótur ofaní. Þungt færi. Ekki sást í jökulsprungur.
Heimildir
Ferðadagbók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar - http://handrit.is/is/manuscript/view/IB02-0008
RÚV - http://www.ruv.is/frett/snaefellsjokull-ad-hverfa
Snjófell - http://www.snjofell.is
Vatnajokull.com - http://www.vatnajokull.com/Snaefellsjokull/
Vísindavefur.is - http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=4704
Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull - http://ust.is/snaefellsjokull/
4.7.2013 | 21:47
Húsmúli (440 m)
Húsmúli er dyngja sem allir sjá á leið yfir Hellisheiði en fæstir vita um af því að múlinn fellur svo vel inn í umhverfið. Húsmúli er fell sem gengur suðvestur úr Henglinum og er í raun helmingur af fornri dyngju. Á kortum lítur Húsmúli út eins og skel á hvolfi.
Ekið eftir Suðurlandsvegi og beygt við Stóra-Reykjafell að virkjanasvæðinu. Farið frá innsta skála við Sleggjubeinsskarð að Þjófagili og því fylgt upp á Húsmúla. Í bakaleiðinni var komið við hjá Draugatjörn.
Eftir rúmlega háltíma göngu upp Þjófagil var komið upp á topp Húsmúla. Þaðan sást vel yfir dyngjuna. Gengin var hringur og eftir 5 km göngu komum við niður af múlanum að Draugatjörn. Við rústir sæluhússins var nestið tekið upp.
Draugatjörn og Húsmúlarétt er ein merkilegustu kennileiti á þessu svæði. Hin forna þjóðleið yfir Hellisheiði lá hér um og í árdaga var hér sæluhús sem var mjög reimt í. Sökum reimleika var sæluhúsið síðar flutt að Kolviðarhól árið 1844.
Ágætis sýn yfir Svínahraun og Hellisheiðarfjöll. Má nefna Skarðasmýrarfjall, Stóra-Sandfell, Geitafell, Lambafell, Blákoll og Vífilsfell. Einnig rafmagnslínur sem skera hraunið.
Útivistarrækin á toppi Húsmúla. Slegga til vinstri og hið orkumikla Stóra-Reykjafell til hægri.
Dagsetning: 3. júlí 2013
Hæð Húsmúla: 440 m
GPS hnit á kolli Húsmúla: (N:64.03.371 - W:21.22.647)
Lægsta gönguhæð: 265 metrar við Draugatjörn (N:64.03.020 - W:21.24.621)
Hæð í göngubyrjun: 315 metrar (N:64.02.898 - W:21.22.394) við Sleggjubeinsskarð
Hækkun: 125 metrar
Uppgöngutími: 35 mín (19:15 - 19:50) 900 loftlína
Heildargöngutími: 155 mínútur (19:15 - 21:50)
Erfiðleikastig: 1 skór
Vegalengd: 8 km
Veður kl. 21 Hellisheiði: Skýjað, SSA 4 m/s, 7,0 °C. Raki 78%
Þátttakendur: Útivistarræktin, 69 manns á 24 bílum.
GSM samband: Já, gott.
Gönguleiðalýsing: Lagt frá innsta skála við Sleggjubeinsskarð að Þjófagili og því fylgt upp á Húsmúla. Þægileg ganga á dyngjunni enda vel stikuð. Tilkomulítill múli með þjóðleiðir á aðra hönd og orkubú á hina. Hljóðmengun, sjónmengun og brennisteinsmengun á gönguleiðinni.
Heimildir:
Húsmúli - http://www.centrum.is/~ate/husmuli.htm
OR - http://www.or.is/sites/default/files/velkomin_a_hengilssvaedid_gonguleidir.pdf
Toppatrítl - http://www.toppatritl.org/ganga20100505.htm
Samgöngur | Breytt 5.7.2013 kl. 11:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.5.2013 | 11:32
Fagradalsfjall (391 m)
Fagradalsfjall (391 m), vestasta fjallið í Reykjanesfjallgarðinum var heimsótt á baráttudegi verkalýðsins. Í fjallinu eru þrjú flugvélaflök frá seinni heimsstyrjöld. Markmiðið var að finna þau og minnast þess hversu vitlaus stríð eru.
Fagradalsfjall er fyrir norðaustan Grindavík. Það er fjalllendi með mörgum fjöllum af öllum stærðum og gerðum. Á kortum er það merkt mjög greinilega sem Fagradalsfjall en það fjall má telja sem kjarnann í þessu fjalllendi. Þau fjöll sem ganga út úr því bera einnig sín eigin nöfn.
Fagradalsfjall er myndað við gos undir jökli og flokkast undir s.k. stapa því gosið hefur á endanum náð upp úr íshellunni og náð að mynda hraun. Megingígurinn er nyrst á fjallinu þar sem það rís hæst. Þaðan hefur svo hraunið runnið til suðurs og er fjallið um 100 metrum lægra þar. Hæsti hlutinn heitir Langhóll og gægist 40 metra yfir hásléttuna.
Á föstudaginn, 3. maí kl. 16.20 verða 70 ár síðan B24D sprengiflugvél fórst í fjallinu. Í henni var æðsti yfirmaður herafla Bandríkjanna í Evrópu, hershöfðinginn Frank M. Andrews. Hann fórst þarna ásamt ásamt þrettán öðrum félögum sínum. Einn komst af.
Kastið vestan við Fagradalsfjall. Þar hafnaði B-24D "Hot Stuff" sprengiflugvélin. Sandhóll lúrir á bakvið.
Því leikur Fagradalsfjall, þó lágreist sé, nokkra sögu í heimssögunni. Síðar tók Dwight D. Eisenhower við yfirmannsstöðunni. Stjórnaði aðgerðum í Normandy og varð í kjölfarið 34. forseti Bandaríkjanna.
Menn hafa velt því fyrir sér hvernig Kalda stríðið hefði litið út ef Andrews hefði lifað af heimsóknina til Íslands og Fagradalsfjall verið aðeins lægra. Hann var miklu mildari maður, ekki eins kaldur og Ike.
Því er viðeigandi að ganga á Fagradalsfjall á köldum baráttudeginum, fyrsta maí, og minnast í kuldanum hermanna 28 sem létust þar í hildarleiknum.
Ekki gekk okkur vel að finna flugvélaflökin þrjú. En það mætti klárlega gera upplýsingaskilti á Suðurstrandarvegi fyrir framan fjallið sem segir þessa merkilegu sögu. Einnig gefa upp staðsetningarpunkta svo göngufólk geti fundið það sem eftir er af flökunum og rifjað upp atburði þessa og tilgangsleysi stríða.
Göngufólk getur fylgst með krafti náttúrunnar. Orðið vitni að því hvernig hún brytjar flökin niður í tímans tönn.
Útsýni yfir Reykjanesskagann er mjög gott af toppi Fagradalsfjalls, ofan af Langhól. Körfuboltabæirnir, Grindavík og Keflavík sjást vel ásamt minni þorpum. Einnig sér til höfuðborgarinnar og austur til Eyjafjallajökuls. Fjallaröðin, Keilir, Litlihrútur, Kistufell og Stórihrútur er glæsileg í návígi.
Dagsetning: 1. maí 2013
Hæð Fagradalsfjalls: 391 m
GPS hnit á Landmælingastöpli á toppi Fagradalsfjalls: (N:63.54.280 - W:22.16.379)
Hæð í göngubyrjun: 86 metrar (N:63.51.985 - W:22.19.162) við Suðurstrandarveg
Hækkun: 305 metrar
Uppgöngutími: 154 mín (11:58 - 14:32) 6 km loftlína, með leit að braki
Heildargöngutími: 320 mínútur (11:58 - 17:18)
Erfiðleikastig: 1 skór
Vegalengd: 14 km
Veður kl. 15 Grindavík: NNA 7 m/s, 1,2 °C. Raki 44%
Veður kl. 12 Grindavík: NNA 8 m/s, 0,5 °C. Raki 47%
Þátttakendur: Rannsóknar- og friðarferð, 4 alls í föruneyti
GSM samband: Já, en óstöðugt í dölum
Gönguleiðalýsing: Lagt frá Suðurstrandarvegi með stefnu á Kastið (2,2 km). Leitað að flugvélarflaki B-24. Síðan haldið upp á hásléttuna með stefnu á toppinn um mosavaxið móberg. Þaðan haldið niður í Drykkjarsteinsdal með stefnu á Stórahrút. Mikill uppblástur.
Heimildir:
Illugi Jökulsson: http://www.pressan.is/Frettir/Lesa_Illuga_utlondum/breytti-fagradalsfjall-ekki-bara--gangi-seinni-heimsstyrjaldar-heldur-lika-kalda-stridsins
Ferlir: http://www.ferlir.is/?id=6506
Ferlir: http://www.ferlir.is/?id=4185
Grétar William: http://gretarwilliam.wordpress.com/2007/10/24/fagradalsfjall-21-oktober-fundum-tvo-flugvelaflok-af-thremur/
Keilir: http://www.keilir.net/is/keilir/frettir/minningarathofn-um-andrews-hershofdingja
Heimildarmynd um B-24 Liberator, Andrews og flugslysið á Fagradalsfjalli [YouTube]
Toppatrítl: http://www.toppatritl.org/ganga20020501.htm
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 11:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.3.2013 | 11:38
Ísland og The Taking of Pelham 1 2 3 (5/10)
The Taking of Pelham 1 2 3 er Hollywood kvikmynd frá 2009. Leikstjóri er Tony Scott heitinn og helstu leikarar eru John Travolta og Denzel Washington. Þessi mynd er endurgerð eftir mynd frá 1974 og var sýnd á Ríkissjónvarpinu í gærkveldi.
Ísland kemur óvænt við sögu í gíslatökumáli en þá segir aðal söguhetjan frá ferðalagi til landsins árið 1998 með litháenskri rassfyrirsætu og jöklaferð á hundasleðum.
Ekki áttaði ég mig á samhenginu.
Í mistakasögu myndarinnar er sagt frá nokkrum mistökum í kvikmyndinni.
"Character mistake: Ryder says it takes 6 hours to fly to Iceland from New York. It takes less than 4."
Svo er hægt að sjá söguna um ferðalagið til Íslands á imdb. Ekki fannst mér myndin tilkomumikil og gef fimm stjörnur af tíu mögulegum. Sagan dularfulla um Ísland gerir hana minnisstæða.
8.9.2012 | 21:07
Súrrealískt landslag
Græni hryggur í Sveinsgili í Friðlandi að Fjallabaki er einstök náttúrusmíð. Hann verður að vernda.
Í ólýsanlegri ferð um Friðland að Fjallabaki með Ferðafélagi Árnesinga var ég svo heppinn að berja náttúruundrið augum. Græni hryggurinn, sem fáir vissu um þar til fyrir örfáum árum, liggur eins og risastór gota, wasabi grænn og við hliðina á honum er annar minni hryggur, kanil litaður.
Sú hugsun skýtur upp hvort þessi undur og stórmerki væru enn til ef svæðið væri ekki svo afskekkt og fáfarið sem raunin er. Fyrir aðeins þremur árum voru það aðeins fjársmalar sem höfðu barið hann augum, en engir ferðamenn áttu leið um þetta torfæra og vandrataða svæði.
Ég kenndi í brjóst um ósnortið landið. Fáir höfðu verið á göngu þarna og ekki sást móta fyrir göngustígum. Því sáust spor okkar á leiðinni upp í Hattver. Við vorum því eins og tunglfarar. Sú hugsun skaut upp í kollinum að takmarka þurfi aðgang og fá leyfi rétt eins og í þjóðgörðum víða um heim.
Skaparinn hefur verið í stuði þegar hann mótaði landslag í Friðlandinu. En náttúruvísindamenn hafa líta á hlutina með öðrum augum. Hér er efnafræðileg skýring á jarðmyndununum og er hún miklu órómantískari.
"Litskrúð og form fjallana er aðall Landmannalauga og umhverfi þeirra. Hvergi á landinu eru víðáttumeiri líparítmyndanir og hvergi kraumar jarðhitinn af meiri ákafa, nema ef vera skyldi undir íshellu Grímsvatna. Líparít og ummyndað berg spanna í sameiningu allt litróf hinna mildu jarðarlita. Kolsvört hrafntinna og hvítur líparítvikur, sama efnið í tveimur myndunum, eru skörpustu andstæðurnar. Á milli eru gulir, grænir, grábláir, brúnir og rauðir litir ummyndaðia bergsins og kringum gufuaugun er hveraleirinn í mörgum litatónum.
Litadýrðin við hverina stafar af því að í vatninu og gufunni er koltvísýringur (CO2) og brennisteinsvetni (H2S) og þegar brennisteinsvetnið tekur til sín súrefni myndast brennisteinssýra. Hitinn og sýran moðsjóða bergið og þá verður til leir en ýmis tilfallandi efnasambönd kalla litina fram. Hvítar útfellingar eru hverahrúður og gips en þær gulu eru brennisteinn. Brúnn og rauðleitur leir tekur lit sinn af járnoxíðum en sá grái af samböndum járns og brennisteins." (362)
Einstök litaflóra. Efast um að súrrealískir landslagsmálarar hafi dottið niður á þessa litasamsetningu.
Íslensk göngumær á leið yfir kalda jökulá. Helsta hindrunin að Græna hrygg er köld jökulá sem á uppruna sinn í Torfajökli. Hún getur orðið mikið forað í sumarhitum. Það þurfi að fara fimm sinnum yfir ána á leiðinni frá Kirkjufelli í gegnum Halldórsgil. Vegalengd 7 km.
Heimildir:
Perlur í náttúru Íslands, Guðmundur Páll Ólafsson
3.9.2012 | 14:02
Sandfell (390 m) í Kjós
Það lætur ekki mikið yfir sér Sandfellið í Kjós. Helst að maður taki eftir því þegar maður ekur Mosfellsdal og inn Kjósarskarð.
Fellið er dæmigert Sandfell en þau eru mörg fellin sem bera þetta nafn.
Sandfell rís um 130 metra yfir umhverfið og hefur myndast við gos undir jökli fyrir um 50.000 árum eða svo. Er það móbergsfjall sem hefur haldið nokkuð lögun sinni þrátt fyrir að hafa myndast á tímum elds og ísa.
Á leiðinni sér í gamla þjóðleið, Svínaskarðsveg sem liggur úr Kollafirði og yfir í Hvalfjörð.
Það sem er heillandi við ágústgöngur eru berin. Berjaspretta var ágæt í Kjósinni. Bláber og krækiber töfðu göngufólk og voru göngumenn fullir af andoxunarefnum eftir að hafa tínt í sig ofurfæði úr náttúru Íslands.
Bláberin verja frumur líkamans fyrir skemmdum af völdum sindurefna. Lífið er stöðug barátta góðs og ills.
Lítið útsýnisfjall. Víðsýnt er yfir Kjósina. Meðalfell er helsta fjallið í austurátt og falleg Laxáin sem rennur í bugðum í Hvalfjörðinn. Síðan sér í Hvalfjörð, lágreist Írafell sem þekkt er fyrir drauginn Írafellsmóra, Skálafell og Trana í suðri. Esjan norðanverð tekur mikið pláss. Hægt að sjá hæstu tinda Skarðsheiðar.
Dagsetning: 22. ágúst 2012
Hæð Sandfells: 390 m
GPS hnit varða á toppi Sandfells: (N:64.18.462 - W:21.27.602)
Hæð í göngubyrjun: 63 metrar (N:64.18.699 - W:21.29.920) við Vindás
Hækkun: 327 metrar
Uppgöngutími: 60 mín (19:22 - 21:22) 2 km loftlína
Heildargöngutími: 128 mínútur (19:22 - 21:30)
Erfiðleikastig: 1 skór
Vegalengd: 4,5 km
Veður kl. 21 Þingvellir: Skúrir, áttleysa 0 m/s, 11,7 °C. Raki 86%
Þátttakendur: Útivist, 26 þátttakendur
GSM samband: Já
Sandfell: (23) M.a. Sandfell við Þingvallavatn og Sandfell við Sandskeið.
Gönguleiðalýsing: Lagt af stað frá Kjósarvegi rétt sunnan við bæinn Víndás og gengið yfir mýri upp á kjarri vaxinn stall sem skyggir á Sandfellið. Þegar upp á stallinn er komið sér í fellið og gengið að rótum þess. Hækkun frá rótum að toppi um 130 metrar. Létt uppganga en ber að varast lausagrjót á móbergsklöppinni.
Við rætur Sandfells í Kjós. Fellið gnæfir 130 metra yfir umhverfið.
Myndaleg varða á toppi Sandfells. Skálafell og Trana í baksýn.
Heimildir
Toppatrítl, Sandfell í Kjós 25. maí 2005
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 14:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 53
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 46
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar