Færsluflokkur: Samgöngur
26.8.2012 | 12:10
Armstrong og Nautagil
Nú er Neil Armstrong geimfari allur. Blessuð sé minning hans.
Þegar fréttin um andlát hans barst þá reikaði hugurinn til Öskju en ég gekk Öskjuveginn árið 2006 og komu geimfarar NASA til sögunnar í þeirri ferð.
Gil eitt ber nafnið Nautagil en hvað voru naut að gera á þessum slóðum?
Svarið kom á leiðinni í Nautagil. Geimfarar NASA sem unnu að Appolo geimferðaáætluninni komu tvisvar til Íslands til æfinga fyrir fyrstu tunglferðina en þeir töldu aðstæður í Öskju líkjast mjög aðstæðum á tunglinu. Þeir komu fyrst í Öskju árið 1965 og tveim árum síðar með minni hóp.
Nafngiftin er komin frá jarðfræðingunum og húmoristunum Sigurði Þórainssyni og Guðmundi Sigvaldasyni. Geimfari er astroNAUT á ensku og framhaldið er augljóst.
Margt bar fyrir augu í Nautagili, m.a. vel falin bergrós ofarlega í mynni gilsins.
Hér er mynd af Eyvindi Barðasyni við Bergrósina í Nautagili árið 2006
Hér eru geimfararnir að skoða sömu bergrós. Mynd af goiceland.is eftir Sverrir Pálsson og NASA.
Eitt par, náttúrufræðingarnir, í hópnum ákváðu að sofa úti um eina nóttina og tengjast náttúrunni betur. Þau fetuð í spor ekki ómerkari manna en geimfarana Anders og Armstrong er lögðust í svefnpoka sína úti undir berum himni þegar þeir voru í Öskju fyrir 45 árum. Neil Armstrong átti í kjölfarið eftir að stíga fyrstur manna á tunglið og segja setninguna frægu, Þetta er lítið skref fyrir einn mann en risastökk fyrir mankynið.
Eit
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 12:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.8.2012 | 14:22
Rafbíll
Hann var rafmagnaður vinnudagurinn í dag.
Ég kom keyrandi í vinnuna í rafbíl sem Iðnaðarráðuneytið lánaði. Rafbíllinn er af gerðinni Mitsubishi MiEV, er fjögurra manna og hefur um 50-70 km drægni i einni hleðslu. Gengur bíllinn undir nafninu Jarðarberið.
Vinnufélagar voru ánægðir með bílinn og fljótir að læra á hann þótt stýrið væri öfugu megin. Hann rúmaði fólkið vel, þótt smágerður og léttur sé. Rafbíllinn er mjög hljóðlátur og kom það flestum á óvart. Ekkert hljóð þegar hann var ræstur. Einnig kom á óvart hversu fljótt tæmdist af rafgeyminum en það munaði miklu hvort bíllin var í D eða Eco drifi.
Þetta er liður í verkefninu Græn orka, orkuskipti í samgöngum sem Iðnarðarráðuneytið stendur fyrir og markmiðið með verkefninu er að kynna fyrir fyritækjum og starfsfólki nýja valkosti í orkugjöfum.
Í framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar sem sett er fram í stefnuskjalinu, Ísland 2020, eru kynnt eftirfarandi markmið:
- Í samgöngum og sjávarútvegi verði að minnsta kosti 10% orkugjafa af endurnýjanlegum uppruna árið 2020
- Árið 2020 gangi 75% nýskráðra bifreiða, undir fimm tonnum að þyngd, fyrir endurnýjanlegum orkugjöfum.
En þess má geta að árið 2010 var Ísland með hæstu skráðu CO2 meðaltalslosun nýskráðra fólksbíla af öllum löndum á evrópska efnahagssvæðinu.
Ísland býr yfir þeirri sérstöðu að allt rafmagn í landinu er af endurnýjanlegum uppruna, úr vatnsaflsvirkjunum og jarðvarmavirkjunum, og raforka er þess vegna mjög hentugur orkugjafi fyrir samgöngur hér á landi.
Ljóst er að ríkisvaldið þarf að stíga ákveðið fram til að orkuskiptin verði að veruleika og hefur Alþingi samþykkja ný lög sem kveða á um að virðisaukaskattur af raf- og vetnisbílum sem kosta innan við sex milljónir falli niður.
Í kjölfarið má búast við því að flest bílaumboðin fari að bjóða raf- og tvinntengibíla.
Frétt: http://www.idnadarraduneyti.is/frettir/frettatilkynningar/nr/3571
17.8.2012 | 11:34
Hólárjökull 2012
Jöklarannsóknir mínar halda áfram. Ávallt þegar ég keyri framhjá Hólárjökli sem var einn af tignarlegum skriðjöklum úr Öræfajökli, þá smelli ég ljósmynd af honum. Hólárjökull er rétt austan við Hnappavelli. Hólá kemur frá honum.
Fyrri myndin var tekin þann 16. júlí 2006 og sú nýjasta þann 14. ágúst 2012. Það sést glöggt að jökultungan hefur styst og jökullin þynnst. Rýrnun jöklanna er ein afleiðingin af hlýnun jarðar. Ég spái því að jökultungan verði horfin innan fjögurra ára. Hlutirnir gerast svo hratt.
Hólárjökull, 16. júlí 2006. Jökulsporðurinn þykkur og teygir sig niður í gilið.
Hólárjökull, 14. ágúst 2012 í þokusúld. Augljós rýrnun á 6 árum. Jökulsporðurinn hefur bæði styst og þynnst.
Sjá:
Hólárjökull 2007 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/259538/
Hólárjökull 2008 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/611572/
Hólárjökull 2009 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/911196/
Hólárjökull 2011 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1192311/
29.7.2012 | 12:21
Skipulag á Siglufirði
Þegar gengið er fyrir ofan snjóflóðagarðinn eftir slóðanum að Hvanneyrarskál þá sést bæjarskipulagið vel á Siglufirði og þá er augljóst að menn hafa hugsað fram í tímann.
Ég get tekið undir með Birni þegar hann segir að: "Siglufjörður er einn fárra bæja á Íslandi sem hafa raunverulegan miðbæjarkjarna. Göturnar liggja eftir Hvanneyri eftir reglustikumynstri og þeim hugmyndum sem sr. Bjarni Þorsteinsson setti fram."
Fyrir vikið er Siglufjörður fallegur bær og á stórmekilega sögu sem speglast í Síldarminjasafninu. Ég skil vel að Birni líki vel við Aðalgötu í Siglufirði. Þar var gott mannlíf í sumar. Ágætir matsölustaðir, kaffihús, Sportvöruverslun og tískuverslun. Allur bragur bar vott um gamalt stórveldi.
Að sjá yfir Hvanneyrina minnti mig á borgina la Laguna á Tenerife en hún var notuð sem módel af Kólumbusi fyrir margar borgir í Ameríku.
Aðalgata frá fjöru til fjalla. Siglufjarðarkirkja (anno 1932) í öndvegi. Snjóflóðavarnargarðar í forgrunni.
Strákagöng rufu einangrun Siglufjarðar en nú hafa Héðinsfjarðargöng opnað allt upp á gátt. Hér er stutt heimildarmynd um hjólaferðalag um 830 metra Strákagöng.
Gatan mín: Aðalgata á Siglufirði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 17:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.7.2012 | 13:52
Hrafnabjargafoss og Ingvararfoss í Skjálfandafljóti
Í gær var frétt á Stöð 2 og henni fylgt eftir á visir.is um að Jón Ármann Héðinsson, fyrrverandi alþingismaður vilji verja Hrafnabjargarfoss.
Í byrjun ágúst 2004 heimsótti ég fossana í Skjálfandafljóti, þá Ingvararfoss og Hrafnabjargafoss. Einnig hina heimsþekktu fossa fljótsins mikla, Goðafoss og Aldeyjarfoss. Þetta var fossadagurinn mikli.
Aðgengi að efri fossunum er ekki gott og átti Toyota RAV4 í mestu erfiðleikum með að komast að Hrafnabjargafossi. En komst þó eftir að hafa rekið pústið og gírkassa nokkrum sinnum niður með tilfallandi áhyggjum eiganda.
Ingvararfossar eru lítt þekktir en fallegir fossar rétt ofan við Aldeyjarfoss. Ingvararfossar minntu mig mjög mikið á Aldeyjarfoss enda ruglaðist ég á þeim í andartak. En ég kveikti á perunni, það vantaði svo marga stuðla. Eflaust hefur skaparinn notað hann sem frumgerð að Aldeyjarfossi.
Ég man hvað það var gaman að ganga um gamlan farveg Skjálfandafljóts í meitluðu hrauninu að fossinum. En áin hefur breytt sér í tímans rás. Þetta var mjög skemmtilegur og eftirminnilegur dagur. Tveir krakkar, 7 ára voru með og var minnsta mál að ganga með þau að Ingvararfossi frá bifreið.
Hér eru fossarnir óþekktu sem eru í hættu út af Hrafnabjargavirkjun.
Hrafnabjargafoss í Skjálfandafljóti. Virkjun kæmi við Hrafnabjörg í 404 metra hæð.
Ingvararfossar í Skjálfandafljóti. Minna á Aldeyjarfoss. Ekki eins stuðlaðir. Það fer lítið fyrir fossum þessum og ekki minnst á þá í umræðunni um Hrafnabjargavirkjun.
17.7.2012 | 23:16
Hvanneyrarskál
Þegar maður er staddur á Siglufirði, þá verður maður að ganga í Hvanneyrarskál. Hvanneyrarskál er stór skál í Hafnarfjall fyrir ofan Siglufjörð. Hún varð fræg á síldarárunum sem sérstakur unaðsstaður elskenda sem ekki áttu í neitt hús að venda.
Þegar slóðinn er fundinn við snjóflóðavarnargarðana er gengið eftir vegslóða upp bratt Hafnarfjall sem gnæfir yfir bænum. Húsin minnka og skipulag bæjarins og varnargarða opnast eins og opin bók. Lúpína er að nema land í fjallshlíðum og á eftir kemur fínlegri gróður. Á leiðinni upp sáust einnig betur og betur stoðviki í Gróuskarðshnúk.
Strengisgil sjást einnig en þar voru fyrstu snjóflóðavarnargarðarnir byggðir. Garðarnir eru kallaðir Stóri og Litli Boli eftir gömlum skíðastökkpöllum sem þar voru en eru nú horfnir.
Þegar í skálina var komið sá til göngufólks við Gjár en þar var fjallvegur yfir í Engidal á Úlfsdölum, snarbrött leið.
Ef göngumenn taka gönguferðina skrefi lengra, þá eru nokkrir góðir toppar. Nyrsti og hæsti hluti Hafnarfjalls er Hafnarhyrna (687 m) auðgeng. Skráma var tröllkerling sem bjó í helli þarna í grennd og er Skrámhyrna nokkru utar kennd við hana. Norðan skálarinnar er Hvanneyrarhyrna (640 m).
Hvanneyrarskál varð fræg á síldarárunum sem sérstakur unaðsstaður elskenda sem ekki áttu í neitt hús að venda. Norðan skálarinnar er Hvanneyrarhyrna (640 m).
Að lokum má geta þess að á veitingastaðnum Höllinni á Ólafsfirði eru pizzurnar kenndar við fjallstinda í nágrenningu. Það er betra að panta Miðdegishyrnu heldur en Napólí pizzu.
Ekki fannst gestabók í Hvanneyrarskál en þetta er fín heilsurækt að ganga upp að Hvanneyrarskál.
Dagsetning: 13. Júlí 2012 - Hundadagur
Hæð Hvanneyrarskálar: 250-300 m
Erfiðleikastig: 1 skór
Þátttakendur: Fjölskylduferð, tveir meðlimir
Veðurlýsing Sauðanesviti kl. 15:00: VSV 10 m/s skýjað, 12,3 °C hiti, raki 65 %, skyggni 65 km, sjólítið.
Gönguleiðalýsing: Lagt af stað frá snjóflóðavarnargarði fyrir miðjum bæ. Gengið eftir vegslóða upp Hafnarfjall að endurvarpsstöð. Glæsilegt útsýni yfir sögufrægan síldarbæ og mikil snjóflóðamannvirki.
Hluti af Hvanneyrarskál. Gjár eru norðvestur úr Hvanneyrarskál og Gróuskarðshnúkur lokar skálinni til austurs.
Stoðvirki í Gróuskarðshnúk hafa áhrif á umhverfið. Mestar framkvæmdir á árinu 2004 og 2005.
Snjóflóðavarnargarðarnir eru mikil mannvirki og leyna á sér. Heildarkostnaður 2.000 milljónir á verðlagi ársins 2002.
Heimildir:
Árbók Ferðafélags Íslands, 2000, Í strandbyggðum norðan lands og vestan.
Framkvæmdasýsla ríkisins, Snjóflóðavarnir Siglufirði
Snokur.is
Ferðafélag Siglfirðinga
11.7.2012 | 21:28
Flugöryggismál
Það var mikið áfall að heyra fréttina um flóttamennina sem komust yfir öryggishliðið og læstu sig inn á klósetti flugvélar. Þetta atvik er mjög alvarlegur öryggisbrestur og svar ISAVIA sem er ábyrgt fyrir öryggismálum er ekki mjög traustvekjandi.
Þegar ég var í upplýsingaöryggismálum las ég helling af efni um öryggismál og fékk reglulega póst frá Bruce Schneier en hann er virtur ráðgjafi og fyrirlesari í öryggismálum. Ég get tekið undir margt af því sem hann hefur lagt til málanna.
Hann hefur deilt á tröllaukið öryggi á flugvöllum og telur hann að ávinningurinn af öryggisráðstöfunum svari ekki kostnaði. Hann hefur einnig verið duglegur að benda á vandamál sem eru "bakdyrameginn" á flugvöllum. Rétt eins og atvikið á Keflavíkurflugvelli.
Vonum að þetta atvik verið til þess að tekið verði til "bakdyrameginn" og öryggið eflist á Keflavíkurflugvelli, nóg er af kröfum á flugfarþega í dag.
22.6.2012 | 20:27
Hvalhnúkur (522 m)
Ekki grunaði mig að ég myndi hitta gamlan félaga þegar ég lagði af stað í ferð með Útivistarræktinni, þeirri fyrstu á árinu hjá mér. Ég hafði fyrir nokkrum árum gengið Selvogsgötu og mundi eftir fjalli og skarði kennt við hval. Þetta var því óvænt ánægja.
Til að flækja málin, þá eru til Eystri Hvalhnúkur og Vestari Hvalhnúkur. Við gengum á þann vestari.
Hvalhnúkur er áberandi þegar að er komið, mjór og allhár (46 m). En hvað er Hvalnhúkur að gera uppi í miðju landi?
Þjóðsagan kveður á um nafngiftina að tröllkona norðan af fjalli hafi farið til fanga í Selvog og komið þar á hvalfjöru og haft þaðan með sér það, sem hún treysti sér til að komast með, en til hennar sást og hún elt. Varð henni allerfið undankoman, og náðist hún í skarði því, sem síðan er nefnt Hvalskarð og hnúkurinn þar suður af Hvalhnúkur.
Ágætis útsýni frá Heiðinni háu og Hvalhnúk yfir á Vörðufell, Brennisteinsfjöll, með Eldborg, Kistufell og Hvirfil. Fallegir Bollarnir sem geyma Grindarskörð og í bjarmanum á bak við þá sá í Snæfellsjökul og Snæfellsnesið. Þríhnúkagígar og Stóra Kóngsfell eru áberandi og Bláfjöll í norðri.
Dagsetning: 20. júní 2012 - sumarsólstöður
Hæð Hvalnhúks: 522 m (477 m rætur hnúks, 45 m hækkun)
GPS hnit Hvalhnúks: (N:63.56.511 - W:21.42.237)
Hæsta gönguhæð: 545 m, hryggur á miðri leið (N:63.58.456 - W:21.39.552)
Hæð í göngubyrjun: 506 metrar við efsta bílastæði í Bláfjöllum, (N:63.58.810 - W:21.39.163)
Hækkun: 16 metrar
Uppgöngutími: 120 mín (19:05 - 21:05) - 5,25 km
Heildargöngutími: 210 mínútur (19:05 - 22:35)
Erfiðleikastig: 1 skór
Vegalengd: 10,5 km
Veður kl. 21 Bláfjallaskáli: Skýjað, SSA 4 m/s, 5,8 °C. Raki 92% - Skúrir nýafstaðnar
Þátttakendur: Útivistarræktin, 40 þátttakendur
GSM samband: Já, nokkrar hringingar
Gönguleiðalýsing: Létt ganga yfir mosavaxið helluhraun yfir Heiðina háu. Haldið frá bílastæði, framhjá Strompum og þaðan eftir heiðarhrygg sem hækkar og lækkar lítillega í suðurátt. Gróðursælli leið neðan hrygg um Stóra-Leirdal á bakaleið.
Útivistarræktin með Hvalhnúk í sigtinu. Hann var sveipaður þoku mínútu áður en myndin var tekin. Selvogur er handan hnúksins. Hvalnhúkatagl er í nágrenni. Myndin er tekin hjá Eystri-Hvalhnúk.
Heimildir:
Ferlir - Selvogsgata - Kristjánsdalir - tóftir - Hlíðarvatn
Rammaáætlun - kort
Samgöngur | Breytt 23.6.2012 kl. 11:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.12.2011 | 14:37
Örugg fram í maí 2012
Gott að fá þetta vísindalega staðfest með spennu í berginu. Afkomumælingar sýna að 9 til 12 metrar bætast ofan á Mýrdalsjökul yfir veturinn.
Vísindamennirnir sem skrifa í ScienceNews telja umdeildu gosin með sem komu öll í júlí, óróann árið 1955, 1999 og núna í ár en gosið 1918 var alvöru.
Kíkjum á síðustu eldgos í Kötlugjánni.
Ár | Dagsetning | Goslengd | Hlaup | Athugasemd |
1918 | 12. október | 3 vikur + | 24 | Meiriháttar gos |
1860 | 8. maí | 3 vikur | 20 | Minniháttar |
1823 | 26. júní | 2 vikur + | 28 | Minniháttar |
1755 | 17. október | 4 mánuðir | 120 | Risagos |
1721 | 11. maí | Fram á haust | >100 | Mikið öskugos |
1660 | 3. nóvember | Fram á næsta ár | >60 | Öskufall tiltölulega lítið |
1625 | 2. september | 2 vikur | 13 | Minniháttar, flóð frá 2.-14. sept. |
1612 | 12. október | Minniháttar | ||
1580 | 11. ágúst | Öflugt, Urðu þytir í lofti |
En talið er að um 15 önnur eldgos hafi orðið í Kötlugjánni frá landnámi.
Allt stemmir þetta og því getum við sofið róleg yfir Kötlu framí maí 2012. Október er líklegastur.
Heimildir:
Katla, saga Kötluelda, Werner Schutzbach, 2005
Jöklar á Íslandi, Helgi Björnsson, 2009
Katla virkari á sumrin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 14:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.12.2011 | 19:56
Senn bryddir á Kötlu
BBC hefur áhyggjur af Kötlugosi. Fjölluðu þeir um komandi eldgos í grein í gær, "New Icelandic volcano eruption could have global impact". Eru þeir minnugir Eyjafjallagosinu í maí 2010 og áhrif þess á flugumferð.
Fjölmiðar víða um heim hafa vitnað í fréttina og endurómað áhyggjur sínar.
Jarðeðlisfræðingar eru hógværir og gefa yfirlitt loðin svör þegar þeir eru beðnir um að spá fyrir um næsta gos eða hve lengi gosið muni standa yfir sé það í gangi. En ég man eftir einni undantekningu.
Spáir Kötlugosi innan fimm ára
Árið 2004 kom góður greinarflokkur í Morgunblaðinu um Kötlu og spáði Freysteinn Sigmundsson, jarðeðlisfræðingur og forstöðumaður á Norrænu eldfjallastöðinni, því að Katla myndi gjósa eftir 2-3 ár eða í mesta lagi eftir 5 ár. Hann segir þrjú merki benda til þess að Kötlugos verði á næstu árum.
"Viðvarandi landris, aukin jarðskjálftavirkni og aukinn jarðhiti á undanförnum árum. Þessi þrjú merki hafa verið viðvarandi frá árinu 1999 og það virðist ekki draga neitt úr atburðarásinni. Þess vegna tel ég að fjallið sé komið að þeim mörkum að það bresti á allra næstu árum,"
Nú er árið 2012 að og ekki bólar á gosi sem senn kemur en mikill órói hefur verið og í október mældust 512 skjálftar í Mýrdalsjökli. Þrjú ár fram yfir gosspá eru heldur ekki langur tími þegar jarðsagan er undir.
Það er því gott að gefa ekki upp tíma í jarðvísindaspám. Dæmin sanna það.
Katla - Saga Kötluelda
Í bókinnk Katla - Saga Kötluelda eftir Svisslendinginn Werner Schutzbach er saga Kötluelda rakin frá landnámi. En eiga Kötlugos að koma okkur í opna skjöldu? Um Kötlugos 12. október 1918 segir:
"Kötlugosið haustið 1918 telst til hinna meiri háttar gosa og það stóð yfir í rúmar þrjár vikur. Aska sem kom upp, dreifðist yfir stór svæði, en einkum til norðausturs."
Aðdragandi Kötluelda"Þegar nokkru fyrir gosið veittu menn því athygli, að austurhluti Mýrdalsjökuls lyftist lítt eitt, en vesturhlutinn, sem sýr að Mýrdal, seig svo að klettar komu í ljós, sem áður voru huldir ís. Allt sumarið var Múlakvísl nær vatnslaus og af ám, sem falla til austurs, var óvenjuleg brennisteinslykt. Mönnum kom því ekki í hug, að Katla kynni að fara að gjósa.
Rúmri klukkustund eftir hádegi hinn 12. október 1918, það var laugardagur, fannst í Mýrdal stuttur og snarpur jarðskjálftakippur, svo að hrikti í húsum. Lausir smámunir duttu úr hillum og af veggjum. Voru svo í hálftíma sífelldar smáhræringar og titringur, og mönnum sýndist jörðin ganga í bylgjum. Skömmu síðar sást öskumökkur stíga upp yfir jöklinum. Hann var að sjá frá Vík rétt fyrir vestan fjallið Höttu. Hann var hvítur í fyrstu, en dökknaði fljótt. Um kvöldið var hann kolsvartur. Veður var rólegt og hægur vestanvindur, svo að öskumökkurinn hallaðist dálítið til austurs."
Um Kötluhlaup segir:"Rétt eftir að öskustólpinn steig upp, ruddist jökulhlaup fram. Menn sem gengu á fjallið Höttu nálægt Vík, þegar gosið var nýbyrjað, sáu geysimikinn ljósbrúnan massa vella fram. Hann þyrlaði upp miklum sandi og ryki. Flóðið streymdi bæði í farveg Múlakvíslar og yfir Sandinn í átt til Sandvatns og ruddi með sér feiknum af grjóti, möl og ísblökkum. Þegar þessi flóðalda sjatnaði um fimmleytið, geystist enn meira flóð með ótrúlegum hraða yfir Mýrdalssand og kaffærði hann allan vestanverðan."
Kötlugosið 1918 koma því mönnum á óvart og flóðið æddi öflugt fram í byrjun hamfaranna. Því eru mælingar í dag nauðsynlegar og stórfrlóðlegt lærdómsferli fyrir jarðvísindamenn okkar. Vonandi verða spárnar nákvæmari í kjölfarið.
Látum Kötlu húsráðskonu enda færsluna með sínum fleyga muldri er sýran fór að þrotna í kerinu í Þykkvabæjarklaustri: "Senn bryddir á Barða"
Laufskálavörður á Mýrdalssandi með Kötlu í baksýn. Litlu vörðurar sem ferðamenn hafa hlaðið eiga að boða gæfu fyrir ferðalagið yfir sandinn. Í öflugu Kötluhlaupi gætu þessar vörður hofið í sandinn.
Víða fjallað um Kötlu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Samgöngur | Breytt 4.12.2011 kl. 15:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 3
- Sl. sólarhring: 7
- Sl. viku: 56
- Frá upphafi: 233602
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 48
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar