Færsluflokkur: Samgöngur
12.8.2015 | 13:48
Hólárjökull 2015
Jöklarannsóknir mínar halda áfram. Ávallt þegar ég keyri framhjá Hólárjökli sem var einn af tignarlegum skriðjöklum úr Öræfajökli, þá smelli ég ljósmynd af honum. Hólárjökull er rétt austan við Hnappavelli. Hólá kemur frá honum.
Fyrri myndin var tekin þann 16. júlí 2006 og sú nýjasta þann 5. ágúst 2015. Það sést glöggt að jökultungan hefur styst og jökullin þynnst, nánast horfið. Rýrnun jöklanna er ein afleiðingin af hlýnun jarðar. Ég spái því að jökultungan verði horfin innan fjögurra ára. Hlutirnir gerast svo hratt.
Árið 2006 voru íslenskir jöklar útnefndir meðal sjö nýrra undra veraldar af sérfræðingadómstól þáttarins Good Morning America á bandarísku sjónvarpsstöðinni ABC. Íslensku jöklarnir urðu fyrir valinu vegna samspils síns við eldfjöllin sem leynast undir íshellunni.
Jöklarnir vita svo margt. Við erum að tapa þeim með ósjálfbærri hegðun okkar.
Hólárjökull, 16. júlí 2006. Jökulsporðurinn þykkur og teygir sig niður í gilið.
Hólárjökull, 5. ágúst 2015. Augljós rýrnun á 9 árum. Jökulsporðurinn er nær horfinn. En hann hefur í fyrndinni náð að ryðja upp jökulruðningi og mynda garð.
Sjá:
Hólárjökull 2007 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/259538/
Hólárjökull 2008 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/611572/
Hólárjökull 2009 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/911196/
Hólárjökull 2011 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1192311/
Hólárjökull 2012 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1253486/
6.8.2015 | 23:58
Ísjakar í fjörunni við Jökulsárlón
Það var mikið af jökum og ferðamönnum í fjörunni við Jökulsárlón í gær. Mikið af ís streymdi úr Jökulsárlóni út á haf og sunnanáttin skutlað þeim upp í fjöru. Geysimargar myndir voru teknar og flugu um samfélagsmiðla. Jöklarnir eru að hverfa.
Tilkomumikil upplifun getur falist í að skoða ísjakana í fjörunni. En eftir nokkra áratugi verður Jökulsárlón orðið að firði og jakaburður hættir fari fram sem horfir.
Á sér hvergi hliðstæðu í sögunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.7.2015 | 16:11
Kverkfjöll - Hveradalir
Kverkfjöll eru önnur hæsta eldstöð landsins, næst á eftir Öræfajökli. Kverkfjöll rísa meira en 1.000 metra yfir umhverfi sitt og eru að hluta til hulin ís. Hæst rís Skarphéðinstindur á austanverðu fjallinu (1.933 m). Skipta má Kverkfjöllum í eystri og vestari hluta um Kverk sem er mikið skarð í fjöllin norðanverð með geysiháum þverhníptum hamraveggjum. Út um Kverk skríður Kverkjökull til norðvesturs niður undir hásléttuna í um 950 metra hæð.
En markmiðið með gönguferðinni var að heimsækja Hveradal í 1.600-1.700 m hæð með miklum gufu- og leirhverum, um 3 km langur og allt að 1 km breiður. Þetta er eitt öflugasta háhitasvæði landsins. Bergið er sundursoðið af jarðhita.
Lagt var frá Sigurðarskála (840 m) rétt eftir dagrenningu og íshellinn skoðaður úr fjarlægð. Jarðhiti er undir Kverkjökli, og undan honum fellur stærsti hveralækur landsins, sem bræðir ísgöng fyrir farveginn. Erlendir ferðamenn fóru inn í hellinn og virtu aðvaranir að vettugi.
Síðan voru mannbroddar settir undir fætur og lagt af stað, úr 950 m hæð. Gengið yfir Kverkjökul og snæviþakta Löngufönn. Á leiðinni var fallegt sprungusvæði og drýli röðuð sér skipulega upp. Spáin var óhagstæð. Kuldapollur frá heimskautinu skaust inn á landið og vetur konungur var að ganga í garð á hálendinu um miðjan júlí.
Gönguhópurinn fór í rúmlega 1.500 metra hæð en sneri við vegna snjóa. Lítið að sjá og fylgja ráðum háfjallagöngumannsins Ed Viesturs, að snúa við áður en það er orðið og seint. En skjótt skipast veður í lofti í mikilli hæð.
En tilhugsunin um Hveradali efri og neðri er stórbrotin og alltaf mögulegt að reyna aftur. Félag íslenskra fjallalækna, FÍFL fóru í ferð á síðasta ári og tóku frábærar myndir, þá lék veðrið við félaga.
Gengið á mannbroddum yfir Kverkjökul en undir honum er jarðhiti.
Mynd sem skýrir ferðina en hún er tekin af skilti á Sigurðarskála. Lagt af stað frá stað vinstra megin við Volgu og sést hann ekki.
Dagsetning: 18. júlí 2015
Erfiðleikastig: 4 skór
Þátttakendur: Ferðafélag Íslands, 20 manns
Heimildir
Jöklar á Íslandi, Helgi Björnsson, 2009. Bls. 343.
Vatnajokulsthjodgardur.is
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 16:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.7.2015 | 23:59
ísöldin og hornfirskir jöklar
Nýlega var opnuð ný gönguleið um Breiðarármörk en hún er fyrsti hluti af Jöklastíg, frá Öræfum og yfir í Lón. Fyrsti hluti er um fimmtán kílómetra og tengir saman þrjú jökullón, Jökulsárlón, Breiðárlón og Fjallsárlón.
Þetta er falleg gönguleið fyrir augað og á leiðinni eru fræðsluskilti með ýmiss konar gagnlegum, fróðlegum og skemmtilegum upplýsingum meðal annars um gróðurfar, fuglalíf og sambýli manns og jökuls.
Þá dettur manni í hug fyrstu rannsóknir á ísaldarkenningunni en hún kom fyrst fram 1815. Nokkrir leiðangar vor farnir til Íslands til að rannsaka náttúruna. Í bókinni ÍSLANDSFERÐ SUMARIÐ 1857, úr minnisblöðum og bréfum frá Nils O:son Gadde, segir frá fyrstu rannsóknarferð Svía undir stjórn Otto Torell. Aðalviðfangsefni var áhrif ísaldarjökla á myndun landsins
"Heiðurinn af því að leiða kenningar um ísöldina til sigurs í Evrópu og brjóta niður trúna á syndaflóðið og öll afbrigði hennar, á Svíinn Otto Torell, sem með reynslunni úr ferðum sínum á sjötta og sjöunda tug nítjándu aldar á Íslandi, Grænlandi og Spitsbergen, sannfærðist og sannaði að ekki einungis okkar land, heldur líka Norður-Þýskaland, hafi einhvertímann verið þakið jökli. -
Svo skrifar Hans W:son Ahlmann, Pa skidor och till hast i Vatnajokulls rike
Svo segir í bókinni:
Úr skýrslu Torrels Svínafell við Öræfajökul þann 5. Ágúst
Heinabergsjökull rennur saman við Skálafellsjökul og snertir hérumbil annan jökul austar. Framan jökulsins var bergið núið og rákað með álagshliðina að jöklinum, en stefna rákanna kom ekki heim við jökulinn eins og hann er nú, heldur við það sem verið hefði ef jökullinn hefði verið stærri og runnið saman við eystri jökulinn. Ruðningur á ísnum var í framhaldi af Hafrafelli sem stendur á milli Heinabergs- og Skálafellsjökuls. Er ég fór upp með Hafrafelli heinabergsmeginn fann ég ekki rákir við jökulinn, en greinilegar og vel afmarkaðar rákir úti í stóru gili sem náði frá hliðarruðningi jökulsins skáhallt gegnum neðri hluta bergsins. Þegar ég kom aftur fór ég hinsvegar meðfram þeirri hlið hins jökulsins (Skálafells) sem lá að fjallshlíðinni og fann þar víða hinar fallegustu rákir, ýmist fast við ísinn eða við jökulruðninginn. Þó undarlegt megi virðast mynduðust rákir á kletti einum horn hver við aðra, en í því er einmitt fólgin röksemd Waltershausens geng því að hinar íslensku rákir haf myndast af jöklum.
Sporðurðirnar eru yfirleitt úr smáhnullungum, möl og sandi og gegnbleyttar af jökulánni, en jarðarurðingar eru aftur á móti miklu meira úr stórgrýti og björgum."
Svo er merkilegt hér:
Milli Heinabergs- og Breiðamerkjurjökuls fór ég upp þrjá fjalldali sem lokuðust í botninn af jöklum uppi í fjöllunum sem ganga út úr Klofajökli. Þeir voru ákaflega forvitnilegir, þar sem greinilegt var að þeir voru botnar gamalla jökla. Þvert yfir dalbotninn fjalla á milli lágu nunir bergstallar með rákum sem lágu inn dalina, samsíða stefnu þeirra. Sumstaðar hafði núningurinn grafið skálar í bergið í dölunum. (bls. 160)
Einnig framkvæmdu leiðangursmenn skriðhraðamælingar á Svínafellsjökli í Öræfum, þær fyrstu hér á landi.
Hér eru líklega Birnudalur, Kálfafellsdalur og Hvanndalur sem Torell hefur heimsótt. Það væri gaman að finna bergstallana með rákum og skálar í berginu.
Því má segja að hornfirskir jöklar hafi átt þátt í að staðfesta ísaldarkenninguna. Vonandi verður minnst á þetta á upplýsingaskiltunum. Gott innlegg fyrir menningartengda ferðaþjónustu.
19.4.2015 | 22:20
Maríuhöfn - Búðasandur
Þegar keyrt er inn langan Hvalfjörðinn gengur nes út í fjörðinn. Nefnist það Hálsnes í Kjósinni. Á nesinu er merkur staður Maríuhöfn á Búðasandi. Gengin var hringur í eftir Búðasandi og fjörunni en þar eru fallegir steinar og mikið fuglalíf.
Maríuhöfn mun hafa verið mesti kaupstaður landsins á miðöldum, fram á 15. öld. Rústir staðarins eru ofan við Búðasand og er Maríuhöfn við suðausturenda sandsins. Skip sem þangað komu voru dregin inn á poll inn af sandinum. Þarna er talið að haffær skip hafi verið smíðuð á landnámsöld, enda viður tiltækur. Árið 1402 kom skip (Hvala-) Einars Herjólfssonar í Maríuhöfn og flutti með sér svartadauða.
Staðsetning náttúrulegrar Maríuhafnar var ákjósanleg til að koma vörum beint á markað á Þingvöllum.
Við norðanverðan Búðasand sáust tóftir Hálsbúða greinilega. Þær hafa legið nokkuð þétt saman í einni samfellu. Byggður hefur verið sumarbústaður í nyrsta hluta tóftanna og trjám plantað utan og ofan í þær. Búðirnar virðast hafa verið margar, en erfitt er að greina fjölda þeirra af nákvæmni. Veggir standa víða grónir og dyr hafa gjarnan vísað að hafi.
Sunnarlega í röðinni hefur farið fram fornleifauppgröftur. Er hann dæmigerður fyrir slíka framkvæmd hér á landi; allt skilið eftir ófrágengið og öðrum einskis nýt. Auðvitað á ekki að leifa fornleifauppgröft nema gera ráð fyrir frágangi svæðisins að honum loknum, þ.e. með viðhlítandi minjaskiljum, merkingum og upplýsingaskiltum. Sumir segja, grafendum til vorkunnar, að uppgröfturinn hafi verið stöðvaður í miðjum klíðum af ótta við þarna kynnu að hafa verið grafin lík frá tímum svartadauða.
Stóriðjuver góndu á okkur allan tíman og það var táknrænt að sjá merki samtakanna Sólar í Hvalfirði þegar komið var upp úr fjörunni í hringferðinni.
Dagsetning: 15. apríl 2015
Hæð göngu: Lægst: 0 m, fjaran og hæst: 20 m.
GPS hnit - Google: (N:64.345221 W:21.666158)
Heildargöngutími: 120 mínútur (18:50 - 20:50)
Erfiðleikastig: 1 skór
Vegalengd: 5.5 km
Skref: 7.250
Orka: 400 kkal.
Veður kl. 20: Skýjað, 2 m/s, 6,0 °C, suð-suð-austan, raki 75%,skyggni 50 km.
Þátttakendur: Útivistarræktin, 14 manns.
GSM samband: Gott 4G samband.
Gönguleiðalýsing: Gengið frá Hálsabúðum eftir Búðasandi að Maríuhöfn og eftir léttri fjörunni framhjá Hlein og komið upp hjá Stömpum.
Heimildir
Ferlir: Maríuhöfn-Búðasandur-Steðji
Kjósin: Maríuhöfn
Wikipedia: Maríuhöfn
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 22:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.12.2014 | 13:28
Héðinshöfði og Tungulending
Héðinshöfði og Tungulending, 31. júlí.
Fyrirhugaðri ferð um Tunguheiði var frestað vegna úrhellis. Það rigndi svo hressilega við Fjöllin.
Við Tungulendingu er hægt að sjá Tjörneslögin og var það mikil upplifun, þó ekki hafi fundist loðfíll en mikið um skeljar. Athyglisvert verkefni sem grásleppuskúrinn er að fá, breyting í gistiheimili, hvað annað.
Síðan var gengið um Héðinshöfða og horft á hvalafriðunarskipin sigla með ferðamenn. Einnig skoðuð eyðibýli sem sjórinn er að ná. Hlúð að særðri kind sem flæktist í neti og rætt um lundaveiði í Lundey. Tekin fyrir nokkur stökk úr Njálu. Að lokum var minnisvarði um Einar Benediktsson, skáld og athafnamann heimsóttur en hann bjó með föður sínum á bænum Héðinshöfða í nokkur ár. Síðan var haldið til Húsavíkur og Gamli Baukur styrktur meðan fylgst var með hvalafriðunarbátum koma og leggja frá bryggjunni. Skemmtileg vísindaferð um Tjörnes.
Tungulending. Endurbygging í gangi. Mjög svalur staður.
Héðinshöfði og háflóð. Fínt fyrir "surfing". Brimbrettið gleymdist.
31.12.2014 | 12:11
Inn yfir fjall: Fnjóskadalur Bárðardalur
Inn yfir fjall: Fnjóskadalur - Bárðardalur, 30. júlí
Gekk inn yfir fjall í dag. Frá Sörlastöðum í Fnjóskadal að Stóruvöllum í Bárðardal. 16 km ganga, 21.072 skref og 1.240 kkal brenndar eða 10 bananar. Gangan hófst í 250 m í 600 m og endað í 214 m. Vel vörðuð leið.
Bárðardalur er einhver lengsti byggði dalur á Íslandi. Hann er fremur mjór, með allbröttum, grónum, klettalausum hlíðum
Dætur Bárðardals við lykilvörðu á Vallnafjalli vestan megin í Bárðardal. Skjálfandafljót rennur eftir dalnum og Valley í Fljótinu. Hlíðskógar er bærinn.
Holuhraun
Héðan sést til Holuhrauns en það var göngumönnum algerlega óþekkt enda hálfur mánuður í að jarðskjálftar hæfust í Bárðarbungu og mánuður í eldgos í Holuhrauni.
Vallnafjall er slétt að ofan og greiðfært. Lá alfaraleið yfir það frá Stóru-Völlum í Bárðardal og að Sörlastöðum í Fnjóskadal. Var hún allmikið farin áður, hæð þar um 600 m y.s., og komið niður i Hellugnúpsskarð að norðan, allnokkru innan við Sörlastaði. Leið þessi er um 15 km milli bæja og ágætlega fær á hestum. (bls. 22, Landið þitt Ísland, U-Ö)
31.12.2014 | 10:46
Hrísey
Hrísey gengin frá suðri til norðus. Eyjan leynir á sér og breytilegt veðurfar í norðanáttinni. Fleiri bílar í eyjunni en maður átti von á. Gaman að sjá fólk vera að tína hvannarlauf. Geysi mikil berjaspretta nyrst á Hrísey, krækiber og bláber. Flottur taxi.
Arkaði 15,5 km eða rúmlega 20 þúsund skref og 1.200 kkal brenndar.
Skemmtileg og fróðleg ferð.
Gönguhópurinn, 18 manns. Frænkuhittingur í Hrísey.
Hrísey er önnur stærsta eyja við Ísland, 11.5 km2. Hrísey er um 7 km löng, breiðust sunnan til, um 2,5 km, en nyrðri helmingurinn er allt að helmingi mjórri.
Hvönnin nýtt. Hér er hópur fólks að tína hvannarlauf. Einangrunarstöðin í baksýn.
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 10:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.8.2014 | 16:48
Á Fjórðungsöldu
Það eru miklir atburðir að gerast í Bárðarbungu, Dyngjujökli og Öskju um þessar mundir. Ferlið hófst 16. ágúst og hefur heimurinn fylgst með óvæntri framvindu og ýmsum uppákomum. Berggangurinn eða kvikugangurinn er að nálgast Öskju á sínum 4 km hraða og vatnsstaða Grímsvatna hækkar.
Jarðskjálftar verða öflugri og það sér á Holuhrauni og sigkatlar hafa myndast suðaustan við Bárðarbungu. Stórbrotið lærdómsferli fyrir jarðfræðinga.
Ég fór norður Kjöl og suður Sprengisand fyrir átta árum og þar var stórbrotin sýn alla leið. Veður var dásamlegt á Sprengisandi. Á Fjórðungsöldu sá maður umtöluðustu staði á Íslandi í dag, Bárðarbungu og Dyngjujökul. Ekki grunaði mig að rúmum átta árum síðar myndi Bárðarbunga láta í sér heyra. Kannski verður svæðið á myndunum umflotið jökulvatni? Kannski verður komið nýtt fell? Kannski gýs sprengigosi í Öskju og Víti hverfur? Kannski gerist ekkert, myndast aðeins nýr berggangur neðanjarðar?
Það var lítil umferð yfir hálendið, ég grét það ekki en fannst að fleiri hefðu mátt njóta stundarinnar. Skráði þetta á blað um ferðina:
23. júlí 2006
Frábært ferðaveður, heiðskírt og 15 gráðu hiti.
Keyrðum 50 km frá Kiðagili í Bárðardal að Kiðagili á Sprengisandi, þá hófst Sprengisandur. Komum við hjá Aldeyjarfossi.
Á Fjórðungsöldu var magnað útsýni. Hofsjökull, Tungnafellsjökull, Bárðarbunga og Trölladyngja.
Fórum yfir tvö vöð hjá Tungnafellsjökli og eitt við Höttóttardyngju.
Keyrðum 204 km á möl og 160 km á malbiki í bæinn og enduðum ferðina á Sprengisandi við Reykjanesbraut.
Mættum 19 bílum á norðurleið og 2 hjólreiðamönnum. Aðeins fleiri á suðurleið þar af einn hjólreiðamaður.
#Hagakvísl, #Nýjadalsá, #Skrokkalda og #Svartá.
Hef trú á að það eigi fleiri eftir að ferðast yfir Sprengisand á komandi árum eftir þetta ævintýr.
Tungnafellsjökull og Bárðarbunga frá Fjórðungsöldu. Kistufell og Dyngjujökull handan.
20.3.2014 | 23:24
Um fjöll og hveri í Krýsuvík
Gangan hófst við Grænavatn sem er vatnsfylltur sprengigígur, friðað náttúruvætti rétt við veginn. Þar hófst saga náttúruverndar á Íslandi. Þaðan var gengið upp að Austurengjahver sem er með stærstu hverum á suðvesturlandi. Síðsumars 1924 lifnaði Austurengjahver (Stórahver) við jarðskjálfta, var áður lítilfjörlegur.
Frá hverasvæðinu var gegnið á Stóra-Lambafell til þess að njóta útsýnis yfir hið dularfulla Kleifarvatn bústað skrímsla og heimkynni hvera. Á bakaleiðinni var komið við á Litla-Lambafelli sem er litlu lægra en minna um sig. Á meðan gengið var upp Litla Lambafell, þá var Gísli Marteinn að þjarma að Sigmundi forsætisráðherra í þættinum sínum, Sunnudagsmorgunn. Frægt viðtal.
Síðan var haldið niður að Grænavatni á ný og nú arkað til suðurs að Bæjarfelli og gengið á það. Undir fellinu eru rústir hins forna kirkjustaðar í Krýsuvík og þar settust göngumenn niður og fengu sér nesti og rifjuðu upp merka sögu staðarins.
Listmálarinn Sveinn Björnsson bjó lengi þarna og hvílir hann þar.
Frá Bæjarfelli er steinsnar yfir að Arnarfelli og var þessum netta hring lokað með því að ganga á það áður en haldið var að Grænavatni á ný. Arnarfell er formfegurst fellana enda leikmynd í stórmyndinni Flags of Our Fathers and Letters from Iwo Jima frá 2006. Arnarfell er eitt þeirra örnefna sem ber dýraheiti, s.s. Geitafell, Grísafell, Hafursfell, Hestfjall, Hrútafjöll, Rjúpnafell og Sauðafell.
Þegar komið er á topp Arnarfells er lítil varða, og þar er hægt að sjá hlaðna garða mjög forna en mikil eldvirkni var á Reykjanesi um 1100 og gæti nýtt tímabil verið að hefjast. Gestabók er á Arnarfelli og hvernig væri að reisa fána þar? Hvað um skjöld um Hollywood kvikmyndirnar?
Alls er þetta 13 km löng ganga með viðkomu á fjórum lágum fellum og en samanlögð hækkun um 350 metrar.
Vagga ferðaþjónustu hófst á svæðinu á 19. öld en ferðamenn fóru dagleið frá Reykjavik að hverunum í Seltúni og Hveradölum í Krýsuvík.
Göngufólk á Bæjarfelli. Arnarfell, Krýsuvíkurhraun, Eldborg og Geitahlíða sjást.
Dagsetning: 16. febrúar 2014
Mesta hæð: 239 m, Stóra-Lambafell
GPS hnit Grænavatn: 166 m (N:63.53.155 W:22.03.441)
GPS hnit Stóra-Lambafell: 239 m (N:63.53.923 - W:22.01.848)
GPS hnit Litla-Lambafell: 237 m (N:63.53.481 W:22.02.095)
GPS hnit Bæjarfell: 221 m (N:63.52.226 W:22.04.170)
GPS hnit Arnarfell: 205 m (N:63.51.857 W:22.03.126)
Heildarlækkun: 350 metrar
Heildargöngutími: 5,5 klst, 330 mínútur (10:00 - 15:30)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 13,0 km
Skref: 18,631 og 1.087 kkal
Veður kl. 12 Bláfjallaskáli: Heiðskýrt, A 13 m/s, -7.5 °C. Raki 64%
Veður kl. 12 Selvogur: Heiðskýrt, NA 9 m/s, -2,8 °C. Raki 51%
Þátttakendur: Ferðafélag Íslands, gengið á góða spá, 66 félagar
GSM og 3G samband: Já, enda mikið ferðasvæði. Stöðugt 3G-samband.
Gönguleiðalýsing: Gengið að hluta eftir merktum stíg, Dalaleið að hverum og Lambafellum. Síðan eftir þýfði Krýsuvíkurmýri að Bæjarfelli og Arnarfelli. Fallegur fjögra fella hringur.
Heimildir:
Ferlir.is - Grænavatn-Austurengjahver-Krýsuvíkurbjarg-Arnarfell-Augun
Ferlir.is - Örnefnið Krýsuvík
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 6
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 60
- Frá upphafi: 233598
Annað
- Innlit í dag: 6
- Innlit sl. viku: 51
- Gestir í dag: 6
- IP-tölur í dag: 6
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar