16.8.2016 | 18:03
Stórurð - Undraveröld í ríki Dyrfjalla
Orðið ægifegurð kemur í hugann þegar maður er staddur í Stórurð með reisulega Dyrfjöll yfir höfði sér og innan um stórbrotið þursabergið í Urðardal.
Stórurð er stórgrýtt urð sem geymir slétta fagurgræna grasbala og hyldjúpar grænbláar tjarnir innan um stór björg á hæð við fjölbýlishús. Urðardalsá rennur í gengum Urðardalinn og grænn mosinn fullkomnar verkið. Fyrsta nafnið á urðinn var Hrafnabjargarurð en nýja nafið er stórbrotnara.
Gengin var algengasta leiðin í Stórurð. Lagt af stað frá Vatnsskarðsvatni, leið 9 og komið til baka leið 10 en bíll var skilinn eftir þar. Alls 17,4 km.
Dyrnar á Dyrfjöllum sáust vel milli standbjarganna beggja vegna en þoka dansaði á efstu tindum Dyrfjalla. Talið er að Stórurð hafi myndast við hreyfingu skriðjökla utan í Dyrfjöllum. Við það féll mikið af bergi af ýmsum stærðum og gerðum niður á þá. Sum stykki eru á stærð við heila blokk. Stykkin færðust með jöklum niður þrjá dali sem allir heita Urðardalir og liggja frá Dyrfjöllum. Langstærstu stykkin finnast í Stórurð.
Grænbláa tjörnin kallaði á söng vaskra göngukvenna og gerði hann áhrifameiri. Lagið Vikivaki (Sunnan yfir sæinn breiða) var valið af lagalistanum en það er eftir Austfirðinginn Valgeir Guðjónsson og texti eftir Jóhannes í Kötlum. Græni grasbalinn sýndi kyrrðina í öllu sínu veldi, tilvalinn þingstaður.
Dyrfjöll eru svipmikil klettafjöll og var eitt sinn askja og megineldstöð en ísaldajökullinn hefur brotið allt niður.
Ferðamálahópur Borgarfjarðar á hrós skilið fyrir Víknaslóðir. Stikun leiða er til fyrirmyndar og upplýsingaskilti víða. Svæðið er eitt allra best skipulagða göngusvæði á Íslandi.
Þursabergið í Stórurð, Dyrnar í Dyrfjöllum með Urðardalsá og grænn mosi.
Dagsetning: 2. ágúst 2016
Hæð Stórurðar: 451 m
GPS hnit Stórurð: (N:65.30.974 - W:13.59.413)
Hæð í göngubyrjun: 428 metrar (N:65.33.718 - W:13.59.505) við vatnið á Vatnsskarði. Leið 9.
Hæsti hæðarpunktur: 654 metrar, við Geldingafell og þá opnast sýn til Dyrfjalla og yfir Dyrfjalladal
Göngutími niður að Stórurð: 170 mín (10:15 - 13:20) um 7 km ganga.
Heildargöngutími: 375 mínútur (10:15 - 16:30)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 17,4 km
Veður kl. 12 Vatnsskarð: Léttkýjað, ANA 6 m/s, 8,3 °C. Raki 91%.
Þátttakendur: Skál(m), 12 göngumenn.
GSM samband: Ekki stöðugt en meirihluti leiðar í 3G/4G.
Gönguleiðalýsing: Gengið eftir vel stikaðri leið, #9 um Geldingaskörð að Urðardal, gengið niður í Stórurð 76 m hæðarmunur og hringur tekin í þursaberginu í Stórurð. Gengið eftir leið #10 til baka yfir Mjóadalsvarp og niður Dyrfjalladal. Gott og vel stikað gönguland með upplýsingaskiltum víða.
Heimildir
Víknaslóðir, Göngukort Ferðamálahópur Borgarfjarðar
Ferðafélag Íslands árbók 2008, Úthérað eftir Hjörleif Guttormsson
Glettingur, Dyrfjallablaðið, 55-56 tölublað 2011
Borgarfjörður eystri, vefur, Göngusvæðið Víknalsóðir
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.8.2016 | 11:32
Einbreiðar brýr í ríki Vatnajökuls - endurskoðað áhættumat
Fagna mjög nýjustu fréttum frá fjárlaganefnd um breytta forgangsröð á innviðum landsins og að einbreiðum brúm verði útrýmt á næstu árum.
"Það krefjist mikilla samgöngubóta með fækkun einbreiðra brúa svo dæmi sé tekið." - segir í frétt á ruv.is
Það þokast í umferðaröryggismálum. Því ber að fagna.
Í vor framkvæmdi undirritaður úttekt á einbreiðum brúm í Ríki Vatnajökuls, tók myndir og sendi niðurstöður víða, m.a. til Innanríkisráðuneytisins, fjölmiðla og þingmanna.
Undirritaður tók myndir af öllum 21 einbreiðum brúm í fyrri ferð og einnig í ferð í síðust viku. Niðurstaða, óbreytt áhættumat!
- Engar breytingar eru varðandi blikkljós, aðeins eru fjögur.
- Lækkaður hámarkshraði er aðeins á tveim brúm, Jökulsárbrú (70-50-30 km) og Hornafjarðarfljóti (50 km).
- Leiðbeinandi hámarkshraði er hvergi.
- Upplýsingar til erlendra ferðamanna eru ekki sjáanlegar
Eina breytingin sem sjáanleg er að við nokkrar brýr hafa yfirborðsmerkingar verið málaðar. Línur hafa verið málaðar og alls staðar eru málaðar þrengingar, vegur mjókkar, á veg en sú merking er ekki til í reglugerð. Spurning um hverju þetta breytir þegar snjór og hálka sest á vegina í vetur.
Niðurstaðan er að áhættumatið er óbreytt milli úttekta.
Nú er spurningin til innanríkisráðherra, þegar vika er liðin af ágúst: er fjármagnið búið eða koma fleiri umferðarskilti með hámarkshraða eða leiðbeinandi hraða í ágúst og blikkljós en þau eru stórlega vanmetin?
Yfirlit yfir einbreiðar brýr í Ríki Vatnajökuls, 21 alls og niðurstaða úr endurskoðuðu áhættumati.
Vefur sem safnar upplýsingum um einbreiðu brýrnar.
https://www.facebook.com/EinbreidarBryr/?ref=aymt_homepage_panel
7.8.2016 | 13:22
Hólárjökull hörfar
Jöklarannsóknir mínar halda áfram. Ávallt þegar ég keyri framhjá Hólárjökli sem var einn af tignarlegum skriðjöklum úr Öræfajökli, þá smelli ég ljósmynd af honum. Hólárjökull er rétt austan við Hnappavelli. Hólá kemur frá honum.
Efri myndin var tekin 5. ágúst 2016 í súld. Neðri myndin er samsett og sú til vinstri tekin 16. júlí 2006 en hin þann 5. ágúst 2015. Það sést glöggt að jökultungan hefur styst og jökullin þynnst, nánast horfið. Rýrnun jöklanna er ein afleiðingin af hlýnun jarðar.
Árið 2006 voru íslenskir jöklar útnefndir meðal sjö nýrra undra veraldar af sérfræðingadómstól þáttarins Good Morning America á bandarísku sjónvarpsstöðinni ABC. Íslensku jöklarnir urðu fyrir valinu vegna samspils síns við eldfjöllin sem leynast undir íshellunni.
Jöklarnir vita svo margt. Við erum að tapa þeim með ósjálfbærri hegðun okkar.
Loftslagsbreytingar eru staðreynd og hitastig breytist með fordæmalausum hraða. Við þurfum að hafa miklar áhyggjur, jöklarnir bráðna og sjávarstaða hækkar með hækkandi hita og höfin súrna.
Draga þarf úr útblæstri jarðefnaeldsneytis og á meðan breytingarnar ganga yfir, þá þarf að kolefnisjafna. Annað hvort með gróðursetningu trjáa eða endurheimt votlendis.Einnig þarf að þróa nýja tækni.
Hólárjökull 5. ágúst 2016.
Jökulsporðurinn er nær horfinn. En hann hefur í fyrndinni náð að ryðja upp jökulruðningi og mynda garð.
Sjá:
Hólárjökull 2007 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/259538/
Hólárjökull 2008 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/611572/
Hólárjökull 2009 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/911196/
Hólárjökull 2011 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1192311/
Hólárjökull 2012 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1253486/
Hólárjökull 2015 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1920380/
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 13:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.8.2016 | 00:01
Kolufoss í Víðidal
Fólki liggur svo á í dag. En ef fólk slakar á leið norður eða suður, á milli Blönduós og Hvammstanga, þá er tilvalið að heimsækja Kolufoss í Víðidal. Mjög áhugavert gljúfur Kolugljúfur hýsir fossinn. Glæsilegur foss með sex fossálum sést vel af brú yfir ána. Gljúfrin eru 6 km frá þjóðveginum. Tröllskessan Kola gróf gljúfrið sem skóp fossinn í Víðidalsá.
Í gljúfrum þessum er sagt að búið hafi í fyrndinni kona ein stórvaxin er Kola hét og sem gljúfrin eru kennd við. Á vesturbakka gljúfranna er graslaut ein sem enn í dag er kölluð Kolurúm, og er sagt að Kola hafi haldið þar til á nóttunni þegar hún vildi sofa. Að framanverðu við lautina eða gljúframegin eru tveir þunnir klettastöplar sem kallaðir eru Bríkur, og skarð í milli, en niður úr skarðinu er standberg ofan í Víðidalsá sem rennur eftir gljúfrunum.
Þegar Kola vildi fá sér árbita er sagt hún hafi seilst niður úr skarðinu ofan í ána eftir laxi.
Kolufoss í Víðidalsá, og fellur í nokkrum þrepum.
Heimild
Mánudagsblaðið, 3 ágúst 1981
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.4.2016 | 16:02
Einbreiðar brýr í Ríki Vatnajökuls - Áhættustjórnun
Ég geri mér grein fyrir að einbreiðu brýrnar 21, verða ekki allar teknar úr umferð strax með því að breikka þær eða byggja nýja en það má efla forvarnir stórlega. Markmiðið hjá okkur öllum hlýtur að vera að enginn slasist eða láti lífið. Takist það þá er það mikið afrek.
Erlendum ferðamönnum hefur fjölgað gífurlega og ferðast flestir í leigubifreiðum. Slys á ferðamönnum hefur tvöfaldast frá árinu 2008.
Á Páskadag voru um 2.500 bifreiðar við Seljalandsfoss, um 1.000 í Ríki Vatnajökuls og 250 fyrir austan Höfn. - vegagerdin.is
Í samgönguáætlun 2011 segir: Útrýma einbreiðum brúm á vegum með yfir 200 bíla á sólarhring.
En markmið áhættustjórnunar er að ákvarða nauðsynlegar aðgerðir til að fjarlægja, minnka eða stjórna áhættu.
Ógnir
Náttúrulegar
- Ægifegurð í Ríki vatnajökuls - erlendir ferðamenn horfa á landslag og missa einbeitningu
- Niðurbrot byggingarefnis. Meðalaldur einbreiðra brúa í Ríki Vatnajökuls er tæp 50 ár.
- Hálka
- Viðvörunarskylti sjást stundum ekki vegna snjólaga um vetur
- Sól lágt á lofti
- Lélegt skyggni, þoka eða skafrenningur, skyndilega birtist hætta og ekkert svigrúm
- Jarðskjálftar, hitabreytingar, jökulhlaup eða flóð geta skapað hættu
Manngerðar ógnir
- Óreyndir ökumenn, sérstaklega frá Asíu
- Krappar beygjur að brúm
- Umferðarmerkið Einbreið brú - aðeins á íslensku
- Umferðarmerki við einbreiðar brýr séríslensk, aðrar merkingar erlendis
- Brýr stundum á hæsta punkti, ekki sér yfir, blindhæð
- Einbreiðar brýr, svartblettir í umferðinni
- Lélegt viðhald á brúm. Ryðgaðar og sjúskuð vegrið. Ósléttar.
- Hált brúargólf
- Beinir vegakaflar, býður upp á hraðakstur
- Flestir ferðamenn koma akandi frá höfuðborginni og byrja á tvíbreiðum brúm (68 alls) en svo koma slysagildrur, jafnvel dauðagildrur
- Hringvegurinn lokast um langan tíma verði óhapp á brú.
- Litlu eða stuttu brýrnar eru hættulegri en lengri, þær sjást verr, lengri brýrnar gefa meira svigrúm og ökuhraði hefur minnkað
- Lítill áhugi Alþingismanna og ráðherra á öryggismálum á innviðum landsins
Úrbætur
- Draga úr ökuhraða þegar einbreið brú er framundan í tíma
- Hraðamyndavélar.
- Blikkljós á allar brýr, aðeins við fjórar brýr og blikkljós verða að virka allt árið.
- Útbúa umferðarmerki á ensku
- Fjölga umferðamerkum, kröpp vinsri- og hægri beygja, vegur mjókkar.
- Skoða útfærslu á vegriðum
- Fræðsla fyrir erlenda ferðamenn
- Virkja markaðsfólk í ferðaþjónustu, fá það til að ná athygli erlendu ferðamannana á hættunni án þess að hræða það
- Nýta SMS smáskilaboð eða samfélagsmiðla
- Betra viðhald
- Bæta göngubrú norðanmeginn við Jökulsárlón á Breiðarmerkursandi
- Styrkja þarf brýr, sú veikasta, Steinavötn tekur aðeins 20 tonn
Þegar erlend áhættumöt eru lesin, þá hafa brúarsmiðir mestar áhyggjur af hryðjuverkum á brúm en við Íslendingar höfum mestar áhyggjur af erlendum ferðamönnum á einbreiðum brúm. Jarðskjálftar og flóð eru náttúrlegir áhættuþættir en hryðjuverk og erlendir ferðamenn ekki.
Þingmenn í Suðurlandskjördæmi og stjórnarþingmenn verða að taka fljótt á málunum. Einhverjir hafa þó sent fyrirspurnir á Alþingi og ber að þakka það. Auka þarf fjármagn í forvarnir og öryggismál. Arðsemi fjárfestingarinnar (ROI) er mikið.
Útbúin hefur verið síða á facebook með myndum og umsög um allar einbreiðu brýrnar, 21 alls í Ríki Vatnajökuls.
https://www.facebook.com/EinbreidarBryr/
Í haust verður gerð samskonar úttekt áhugamanns um aukið umferðaröryggi. Vonast undirritaður til að jákvæðar breytingar verði í vor og sumar og ekkert slys verði í kjördæminu og landinu öllu. Það er til núllslysamarkmið.
En hafið í huga fræga setningu úr myndinni Schindlers List meðan manngerða Tortóla fárviðrið gengur yfir: "Hver sem bjargar mannslífi bjargar mannkyninu"
Brúin yfir Jökulsárlón á Breiðamerkusandi, hengibrú byggð 1967, 108 m löng, 4,2 m breið og 34 tonna vagnþungi. Mjög mikil áhætta.
Ferðalög | Breytt 22.7.2016 kl. 14:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.4.2016 | 16:05
Einbreiðar brýr í Ríki Vatnajökuls - áhættumat
Ég átti leið um Suðurland um Páskana, ferðaðist í bíl á milli Hornafjarðar og Reykjavíkur og það var geysileg umferð erlendra ferðamanna. Vandræði að fá bílastæði á vinsælum ferðamannastöðum. Enda ferðaþjónustan orðin stærsta atvinnugrein á Íslandi og ferðamenn eiga góða þjónustu og tryggt öryggi skilið. En mest af þessu ágætu ferðamönnum hefur litla ökureynslu. Sumir hverjir eru nýbúnir að fá bílpróf fyrir Íslandsferð.
Vegagerðin mældi 83% aukningu á bílaumferð um Mýrdalssand milli marsmánaða. Er hræddur um að það fjármagn sem áætlað er í merkingar á einbreiðum brúm sé allt of naumt skammtað. Það þarf að gera þetta vel meðan brýrnar, svartblettir í umferðinni eru á Hringveginum.
Í Ríki Vatnajökuls er hættuástand vegna 21 einbreiðra brúa. Einbreiðar brýr voru ódýrari í byggingu, það er ástæðan fyrir tilveru þeirra. Nú er öldin önnur. Ég tók mynd af öllum einbreiðu brúnum og framkvæmdi áhættumat og læt það fylgja með, ókeypis. Það er mín samfélagsleg ábyrgð.
Allar einbreiðu brýrnar lenda í hættuflokknum og 7 brýr eða þriðjungur lendir í flokknum dauðagildra.
Áhættumat sem sýnir einbreiðar brýr í Ríki Vatnajökuls, 21 alls.
26.2.2016 | 23:15
Af stöðumælum í náttúrunni
Hann Halldór, teiknari Fréttablaðsins kann að setja fréttir í sérstakt samhengi. Góður teiknari og húmoristi. Hér er mynd sem birtist 24. febrúar um æðið í ferðaþjónustunni.
En hér er mynd sem ég tók á Hlöðufelli og sýnir gjörning sem tók á móti okkur þreyttum göngumönnum er toppnum var náð.
Stöðumælir í 1.186 m hæð í víðerninu og ægifegurð. Kálfatindur og Högnhöfði á bakvið.
Sami húmor!
20.2.2016 | 17:47
#Ófærð
Á sunnudagskvöld verður uppgjörið í #Ófærð. Tveir síðustu þættirnir sýndir í beit. Þetta verður gott sjónvarpskvöld.
Ég er með kenningu um skúrkinn. Læt hana flakka svona rétt fyrir opnun. Einnig mögulegar fléttur.
Geirmundur er ekki dauður. Hann er skúrkurinn, hann kveikti elda. Líkið er af óheppnum Litháa. Niðurstöður DNA eiga eftir að leiða það í ljós. Einnig að blóðið á vélsöginni sé af hreindýri ekki líkinu sem Siggi hurðaskellir flutti á haf út.
Eiríkur sem Þorsteinn Gunnarsson leikur er arkitektinn á bakvið brunann í frystihúsinu, hann og Geirmundur tendruðu elda til að svíkja út tryggingabætur. Dóttir Eiríks var óvænt inni.
Hótelstjórinn, Guðni hefur tekjur af mannsali rétt eins og fatasaumarinn í Vík. Frystihúsastjórinn Leifur er óheppin að tengjast því sem og Dvalinn, sá færeyski sem er ekki góður pappír.
Kolbrún kona Hrafns er arkitektinn á bakvið nýhafnarspillinguna ásamt fermingarsystkinum.
Trausti SAS-rannsóknarlögreglumaður á þátt í hvarfi Önnu í málinu sem Andri átti að hafa klúðrað.
Bárður hasshaus á eftir að áreita eldri stúlkuna.
Sigvaldi nýi kærastinn og Ásgeir lögga hafa of mikla fjarvistarsönnun að mínu mati. Ásgeir á eitt lekamál á samviskunni en þarf ekki að segja af sér.
Friðrik alþingismaður, leikinn af Magga glæp, er bara spilltur alþingismaður.
Maggi litli gæti verið Hrafnsson.
Ég trúi engu vondu upp á Steinunni Ólínu (Aldís) þó hún hafi haldið aðeins tekið hliðarspor með Hjálmari og hinn meinlausa Rögnvald sjóræningja.
Gaman að erlendar stöðvar taka spennuþáttaröðinni vel. Íslenskur vetur er alveg ný upplifun fyrir þá. Merkilegt að útlendingar skuli geta munað nöfnin, ég er enn að læra nöfn sögupersóna. Kuldinn selur. Snjallt hjá Baltasar og Sigurjóni Kjartanssyni og félögum að nota íslenskan vetur í krimma í anda Agötu Christie.
Það eru svo margir boltar á lofti. En í könnun á ruv.is eru 3% með Geirmund grunaðann.
Sé þetta allt kolvitlaust, þá er hér kominn hugmynd að fléttu í næstu þáttaröð af #Ófærð II
Guð blessi Ófærð.
11.2.2016 | 14:37
Að deyja úr frjálshyggju
Þær safnast undirskriftirnar hjá endurreisn.is. Það styttist í 70 þúsund manna múrinn verði rofinn.
Ég lenti í lífsreynslu í sumar og þurfti að leita á náðir heilbirgðiskerfisins og eru það ný lífsreynsla fyrir mér en hef náð áratug án þess að þurfa að leita læknis.
Skrifaði grein á visir.is: Frá Kverkfjöllum til Tambocor, þriggja mánaða krefjandi ferðalag.
Að leggja fjármagn í heilbirgðiskerfið er fjárfesting en ekki útgjöld. Hvert mannslíf er verðmætt. Um hálfur milljarður!
Hér á landi vantar lækna. Það vantar hjúkrunarfólk. Það vantar fjármagn, kærleik og skilvirkt heilbrigðiskerfi. Það vantar góða stjórnmálamenn. Það vantar rétta forgangsröðun. Það er vísvitandi verið að brjóta heilbrigðiskerfið niður innanfrá. Það er verið að undirbúa innrás frjálshyggjunnar.
Heilbrigðiskerfið á Íslandi er eflaust á heimsmælikvarða fyrir heilbrigt fólk, en þegar reynir á kerfið eru biðlistarnir langir. Þeir eru í boði stjórnvalda. Þau bera ábyrgð á stöðunni. Fagfólkið á spítalanum gerir sitt bezta.
Við skulum von að okkur Íslendingum takist að endurreisa heilbrigðiskerfið og hafa sambærilegt heilbrigðiskerfi og hin Norðurlöndin búa við til að vernda okkar mikilvægust eign, heilsuna.
Vonandi deyr enginn úr frjálshyggju.
30.12.2015 | 11:28
Sýndarveruleiki
Nokkrir spá því að næsta ár, 2016, verði ár sýndarveruleikans, (virtual reality - VR). Hér er mynd af fólki með sýndarveruleikagleraugu að skoða lausn við loftslagsbreytingum með því að bjóða fólki að útiloka raunveruleikann. Sýndarveruleiki gefur notandanum þá hugmynd að hann sé staddur í allt öðrum heimi en hann er í raun staddur í.
Til eru sýndarveruleikagleraugu sem passa fyrir alla smartsíma og breyta símanum í t.d. 3D bíóhús eða þrívíða leikjahöll.
Það er næsta víst að sýndarveruleiki mun skipa stóran sess í afþreygingariðnaði framtíðarinnar.
Verður 2016 svona? Venjulegur maður sker sig úr?
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (11.7.): 4
- Sl. sólarhring: 12
- Sl. viku: 131
- Frá upphafi: 236840
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 101
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar