13.6.2017 | 16:23
Land föður míns
Ich bin ein Berliner!
Ég heimsótti Berlín í vor yfir helgi, naut lífsins og kynntist sorglegri sögu borgarinnar. Hótelið var á Alexanderplatz stutt frá helsta stolti Austur-Þýskalands, 368 m háum sjónvarpsturni milli Maríukirkjunnar og rauða ráðhússins, en hverfið tilheyrði Austur-Berlín og því sáust styttur af Karl Marx og Friedrich Engels í almenningsgörðum. Húsin í hverfinu voru í austurblokkarstíl en þegar gengið var eftir skemmtigötunni: Unter den Linden", sem er veglegasta gatan í Berlín tók glæsileikinn við.
Þar var Humboldt háskólinn sem hefur alið 29 nóbelsverðlaunahafa, Dómkirkjan, DDR-safnið, safnaeyjan, glæsileg sendiráð, áin Speer með fljótabátinn Captain Morgan. Trabantar í öllum litum vöktu athygli og við enda götunnar er helsta kennileiti Berlínar, Brandenborgarhliðið. Skammt frá hliðinu er Þinghús Þýskalands með sína nýtísku glerkúlu.
Íslenska sendiráðið í Berlín var einnig heimsótt en það er sameiginlegt með Norðmönnum, Svíum, Finnum og Dönum. Flott hönnun, sameiginleg móttaka en sjálfstæðar sendiráðsbyggingar. Vatnið milli sendiráðanna á reitnum táknar hafið á milli landanna.
Í mat og drykk var þýskt þema. Hofbrau-Berlin var heimsótt, ekta þýskur bjórgarður og snætt svína schnitzel með Radler bjór. Síðar var Weihnstephan veitingastaðurinn heimsóttur og snætt hlaðborð frá Ölpunum sem vakti mismikla lukku.
Í borgarferðum er nauðsynlegt að fara í skipulagða skoðunarferð og þá bættist við sagan um 17. júní strætið, leifar af Berlínarmúrnum sem klauf borgina í tvennt, nýbyggingar á dauða svæðinu á Potsdamer Platz, Neukölln, Tempelhof flugvöllurinn, Bessastaði Þýskalands, Bellevue Palace eða forsetahöllina, tómt heimili kanslarans en núverandi kanslari, Angela Merkel býr í eigin íbúð, umhverfisvænt umhverfisráðuneyti, Checkpoint-charlie, Zoo Station sem minnti á Actung Baby plötu U2, heimili Bowie á Berlínarárum hans, höfuðstöðvar Borgarlínu Berlínar, HB, kebab, aspars og Berliner weissbier.
Hjá Zoo Station mættust gamli og nýi kirkjutíminn. Hálfsprengd minningarkirkja Vilhjálms keisara minnti á heimsstyrjöldina síðari en hryðjuverk voru framin þarna 19. desember 2016 þegar 11 létust er vörubifreið var ekið á fólk á jólamarkaði.
Minningarreitur um Helförina var heimsóttur. 2.711 misstórar gráar steinblokkir sem minna á líkkistur. Aldrei aftur kom í hugann. Kaldhæðnislegt að jarðhýsi Hitlers var stutt frá.
Áhrifamikill staður var minningarreitur í Treptower Park um sovéska hermenn sem féllu í orrustunni um Berlín í apríl-maí 1945. Um 80.000 féllu og eru 5.000 hermenn Rauða hersins grafnir þarna.
Á leiðinni að stærsta minnismerkinu, 12 metra styttu af hermanni með sverð og brotinn hakakross, haldandi á barni voru steinblokkir sem táknuðu eitt af ráðstjórnarríkjunum.
Land föður míns
Þegar hugurinn reikaði um orrustuna um Berlín í Treptower garðinum þá rifjaðist upp að hafa heyrt um bók, Land föður míns eftir þýsku blaða- og sjónvarpskonuna Wibke Bruhns. Ég varð ákveðinn í að kaupa þessa bók og lesa strax við heimkomu.
Bókin er stórmerkileg og mjög áhrifamikil eftir stutta Berlínarferð. Maður lifði sig betur inn í söguna og hápunkturinn er þegar Wibke lýsir gönguferð föður síns eftir götunni Unter den Linden eftir loftárás bandamanna. Flestar byggingar hrundar og eldur logaði víða. Vatnslaust og rústir þriðja ríkisins blasa við. Þetta kallaði á gæsahúð.
Lesandinn fær beint í æð í einum pakka sögu Þýskalands allt frá því það var keisaradæmi, atburðarás tveggja styrjalda og hina undarlegu sögu millistríðsáranna með uppgangi Nasista. Um leið og höfundurinn rekur sögu fjölskyldu sinnar reynir hún að greina afstöðu þeirra og þátttöku í voðaverkum stríðsins.
Wibke hefur úr miklu magni af skjölum föður síns og ættar sinnar Klamrothanna í Halberstadt sem voru efnamiklir kaupsýslumenn og iðnjöfrar. Hún nær að kynnast foreldrum sínum upp á nýtt og miðla okkur af heiðarleika, ekkert er dregið undan.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.4.2017 | 13:36
Þórbergur í Tjarnarbíó
Sá sem veitir mannkyninu fegurð er mikill velgerðarmaður þess. Sá sem veitir því speki er meiri velgerðarmaður þess. En sá sem veitir því hlátur er mestur velgerðarmaður þess. - Þórbergur Þórðarson
Öll þrjú boðorð Þórbergs eru uppfyllt í þessari sýningu, Þórbergur í Tjarnarbíó. Maður sá meiri fegurð í súldinni, maður var spakari og maður varð glaðari eftir kvöldstund með Þórbergi.
Er ungur ég var á menntaskólaárunum, þá fór ég á Ofvitann í Iðnó og skemmti mér vel. Man mjög vel eftir frábærum samleik Jóns Hjartarsonar og Emils Guðmundssonar. Nýja leikritið ristir ekki eins djúpt.
Ef hægt er að tala um sigurvegara í leiksýningunni er það Mamma Gagga sem leikin er af Maríu Hebu Þorkelsdóttur. Hún fær sitt pláss og skilar því vel. Á eftir verður ímynd hennar betri. Líklega er það út af því að með nýlegum útgáfum bóka hefur þekking á hlutverki hennar aukist og svo er verkið í leikgerð Eddu Bjargar Eyjólfsdóttur og þaðan kemur femínísk tenging.
Leikmynd er stílhrein og einföld. Viðtal í byggt á frægum viðtalsþætti, Maður er nefndur og spurningar sóttar í viðtalsbók, í kompaní við allífið. Sniðug útfærsla. Sveinn Ólafur Gunnarsson skilar Magnúsi spyrli og vel og verður ekki þurrausinn. Friðrik Friðriksson á ágæta spretti sem Þórbergur. Sérstaklega fannst mér hann góður þegar hann tók skorpu í Umskiptingastofunni með Lillu Heggu í Sálminum um blómið. Stórmerkar hreyfimyndir af Þórbergi að framkvæma Mullersæfingar lyfta sýningunni upp á æðra plan.
Mannbætandi sýning og ég vona að fleiri sýningar verði fram eftir ári. Meistari Þórbergur og listafólkið á það skilið.
28.2.2017 | 14:01
Einbreiðar brýr í Ríki Vatnjaökuls - endurskoðað áhættumat
Undirritaður endurskoðaði áhættumat fyrir einbreiðar brýr í Ríki Vatnajökuls um síðustu helgi og greindi umbætur frá áhættumati sem framkvæmt var fyrir tæpu ári síðan. í ágúst 2016 var framkvæmt endurmat og hélst það óbreytt. Þingmönnum Suðurkjödæmis, Vegagerðinni og fjölmiðlum var sent áhættumaið ásamt myndum af öllum einbreiðum brúm.
1) Það eru komin blikkljós á allar 21 einbreiðu brýrnar í Ríki Vatnajökuls, blikkljós voru aðeins fjögur fyrir ári síðan.
2) Undirmerki undir viðvörun: 500 m fjarlægð að hættu. Þetta merki er komið á allar einbreiðar brýr í Ríki Vatnajökuls.
3) Lækkun á hraða á Skeiðarárbrú.
Snjór og hálkublettir voru á vegi svo ekki sá vel á málaðar aðvaranir á veg, þrengingar og vegalínur.
Það er mikil framför að hafa blikkljós, þau sjást víða mög vel að, sérstaklega þegar bein aðkoma er að vegi.
Því breyttist áhættumatið á 8 einbreiðum brúm. Sjö fóru úr áhættuflokknum "Dauðagildra" í áhættuflokkinn "Mjög mikil áhætta".
Ein einbreið brú, Fellsá fór í mikil áhætta en blikkljós sést vel.
Hins vegar þarf að huga að því að hafa tvö blikkljós eins og á Jökulsá á Sólheimasandi en öryggi eykst, t.d. ef peran springur eða verður fyrir hnjaski en fylgjast þarf með uppitíma blikkljósanna.
Því ber að fagna að þessi einfalda breyting sem kostar ekki mikið hefur skilað góðum árangri. Ekkert alvarlegt slys hefur orðið síðan blikkljósin voru sett upp en umferð ferðamanna, okkar verðmætasta auðlind, hefur stóraukist og mikið er um óreynda ferðamenn á bílaleigubílum á einum hættulegasta þjóðveg Evrópu.
T.d. var svo mikið af ferðamönnum við Jökulsárlón að bílastæði við þjónustuhús var fullt og bílum lagt alveg að veg og þurftu sumir að leggja á bakkanum vestan meginn og ganga yfir Jökulsárbrú með allri þeirri hættu sem því fylgir.
ROI eða arðsemi fjárfestingar í blikkljósum er stórgott. Merkilegt að það blikkljósin hafi ekki komið fyrr.
En til að Þjóðvegur #1 komist af válista, þá þarf að útrýma öllum einbreiðum brúm. Þær eru 21 í Ríki Vatnajökuls en 39 alls á hringveginum.
Nú þarf metnaðarfulla áætlun um að útrýma þeim, komast úr "mjög mikil áhætta" í "ásættanlega áhætta", en kostnaður er áætlaður um 13 milljarðar og hægt að setja tvo milljarða á ári í verkefnið. Þannig að einbreiðu brýrnar verða horfnar árið 2025!
Útbúin hefur verið síða á facebook með myndum og umsög um allar einbreiðu brýrnar, 21 alls í Ríki Vatnajökuls.
https://www.facebook.com/EinbreidarBryr/
Fleiri mögulegar úrbætur á meðan einbreitt ástand varir:
- Draga úr ökuhraða þegar einbreið brú er framundan í tíma
- Hraðamyndavélar.
- Útbúa umferðarmerki á ensku
- Fræðsla fyrir erlenda ferðamenn
- Virkja markaðsfólk í ferðaþjónustu, fá það til að ná athygli erlendu ferðamannana á hættunni án þess að hræða það
- Nýta SMS smáskilaboð eða samfélagsmiðla
- Betra viðhald
Akstur og áfengi
Akstur og áfengi fer ekki saman. Nú fer öll orka í svokallað áfengisfrumvarp. Í frétt frá Landlækni á ruv.is kemur í ljós að samfélagslegur kostnaður á ári getið orðið 30 milljarðar á ári sverði meingallað áfengisfrumvarp að lögum.
Hér er frétt á ruv.is: Samfélagskostnaður yfir 30 milljörðum á ári.
"Rafn [hjá Landlækni] segir að rannsóknirnar sýni að kostnaður þjóðarinnar yrði ekki eingöngu heilsufarslegur, heldur líka einfaldlega efnahagslegur. Hann gæti numið yfir þrjátíu milljörðum króna á ári."
En það kostar 13 milljarða að útrýma einbreiðum brúm á þjóðveginum. Rúmlega tvöfalt meiri kostnaður verði áfengisfrumvarp að lögum!
Upp með skóflurnar og hellum niður helv... áfengisfrumvarpinu. Annars má hrósa þingmönnum Suðurkjördæmis, sýnist hlutfallið endurspegla þjóðina en um 75% landsmanna eru á móti áfengisfrumvarpinu, svipað hlutfall og hjá þingmönnum Suðurkjördæmis.
7.2.2017 | 09:18
Frá monopoly til duopoly
Sjálfstæðismenn eru hugmyndasnauðir eins og áður fyrr og enn dúkkar áfengisfrumvarp upp en skoðanakannanir Maskínu og Fréttablaðsins sýna að Íslendingar vilja ekki áfengi í matvöruverslanir. Áfengisfrumvarpið, er eins og allir vita smjörklípa sem sjálfstæðismenn grípa til og leggja fram á Alþingi þegar vond mál skekja flokkinn.
Auk þess sýna rannsóknir vísindamanna að aukið aðgengi hefur neikvæð áhrif á samfélagið.
Hér er t.d. rannsókn frá Washington:
(2014) Alcohol Deregulation by Ballot Measure in Washington State
Afleiðingar þess að hafa lagt niður einkaleyfi ríkis á sölu áfengis í Washington-fylki árið 2011
Niðurstaða:
- Ávinningur íbúa Washington fylkis var rýr. Áfengisverð hækkaði strax um 12%.
- Of snemmt að meta samfélagsleg áhrif.
- Þeir sem hafa hagnast á nýju reglugerðinni eru Costco og aðrar stórar verslunarkeðjur.
- Minni búðir gátu ekki keppt við stóru verslunarkeðjurnar. Margar vínverslanir urðu gjaldþrota.
- Reglugerðin leiddi til þess að markaðinum er stjórnað af stóru verslunarkeðjunum (monopoly to a duopoly).
- Reglugerðin samin þannig að gjöld voru lögð á heildsala en ekki smásala, þ.a. stóru verslunarkeðjurnar sluppu.
- Minni áfengisframleiðendur eiga erfiðara uppdráttar.
- Þjófnaður jókst.
...og svo var gerð könnun tveimur árum seinna um hvort kjósendur myndu kjósa öðruvísi eftir að vita afleiðingarnar (Aflögn einkaleyfis fór sem sagt í þjóðaratkvæðagreiðslu).
(2016) Opinions on the Privatization of Distilled-Spirits Sales in Washington State: Did Voters Change Their Minds?
http://www.jsad.com/doi/abs/10.15288/jsad.2016.77.568
Myndu kjósendur kjósa öðruvísi í I-1183 ef þeir hefðu séð inn í framtíðina?
Niðurstaða:
- Þeir sem kusu já eru átta sinnum líklegri til að kjósa öðruvísi núna heldur en þeir sem kusu nei.
- Það er ekki fylgni á milli þessara breytinga og skoðanir kjósenda á sköttunum.
- Mikilvægt fyrir lönd/ríki sem íhuga einkavæðingu að skoða þessa niðurstöðu.
4.12.2016 | 16:00
Hlýindi á Dalatanga
Hitamet eru slegin á Dalatanga núna í vetur. Núna í desember er 16,2 stiga hiti og í nóvember fór hitinn yfir 20 gráður. Loftslagsbreytingar eru orsökin. Ekki grunaði mig að heyra þessar hitatölur er ég heimsótti Dalatanga í sumar.
Eftir að hafa heimsótt Mjóafjörð er tilvalið að heimsækja Dalatanga. Leiðin út á Dalatanga liggur eftir mjóum slóða sem fikrar sig út eftir Mjóafirði, 15 km löng. Ekið er meðfram skriðum og hamrabrúnum, framhjá fossum og dalgilum. Maður fagnaði því að umferð var lítil. Er Dalatangi birtist, er því líkast sem sé maður staddur á eyju inn í landi. Austar er ekki hægt að aka. Við Dalatangavita opnast mikið útsýni til norðurs allt að Glettingi og inn í mynni Loðmundarfjarðar og Seyðisfjarðar. Í suðri sér inn í minni Norðfjarðar.
Vitarnir tveir sem standa á Dalatanga eiga sér merka sögu, sá eldri reistur að frumkvæði norska útgerðar- og athafnamannsins Ottos Wathne 1895. Hann er hlaðinn úr blágrýti og steinlím á milli. Yngri vitinn sem er enn í notkun, reistur 1908. Á Dalatanga er fallegt býli og túnjaðrar býlisins nema við sjávarbrúnir.
Krúttlegi gamli vitinn á Dalatanga, Dalatangaviti. Byggður 1895 úr grjóti að frumkvæði Otto Wathne. Einn elsti viti landsins. Seyðisfjörður í bakgrunni.
![]() |
Kólnar en áfram milt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 22.12.2016 kl. 15:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.10.2016 | 20:38
Mjóifjörður
Sum örnefni eru augljós. Hér er eitt.
Mjóifjörður, 18 km langur og veðursæll, á milli Norðfjarðarflóa og Seyðisfjarðar. Þorp með 24 íbúa í Brekkuþorpi, eitt minnsta þorp landsins. Heiðin lokuð yfir veturinn. Kilfbrekkufossar, rygðaður landgönguprammi, hvalveiðistöð og gamli tíminn heilla mann.
Hvalveiðistöð Ellefsens var á Asknesi og var byggð af Norðmönnum um aldamótin 1900 og var ein stærsta í heimi. Sem betur fer er tími hvalveiða liðinn.
Malarvegur liggur niður í fjörðinn, inn Slenjudal, yfir Mjóafjarðarheið og alveg út á Dalatanga. Það var gaman að keyra niður í Mjóafjörð. Á hlykkjóttri leiðinni sást Prestagil, þar bjó tröllskessa sem tældi til sín presta í Mjóafirði og í Sólbrekku var hægt að fá frægar vöfflur. Í kirkjugarðinum er eitt veglegsta grafhýsi fyrir einstakling sem til er á landinu. Þar hvílir Konráð Hjálmarsson (1858-1939).
Einnig var bókin "Hann er sagður bóndi" æviferisskýrsla Vilhjálms Hjálmarssonar keypt með vöfflunni og lesin er heim var komið. Gaf það meiri dýpt í sögu fjarðarins og bóndans!
Mjóifjörður séður ofan af Mjóafjarðarheiði með Fjarðará fyrir miðju.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
8.10.2016 | 13:06
Vindmyllur við Þykkvabæ
Það var áhugaverð aðkoma að Þykkvabæ. Sjálfbær ímynd sem hrífur mann og færist yfir á kartöfluþorpið. Rafmagnið sem myllurnar framleiða er selt inn á kerfi Orku náttúrunnar. Nú vilja Biokraft eigendur vindmyllnanna fjölga myllum og búa til vindmyllugarð. Íbúar Þykkvabæjar eru á móti. Sjónmengun og hljóðmengun eru þeirra helstu rök, þeir vilja búa í sveit en ekki í raforkuveri.
Framleiðslan á að geta fullnægt raforkuþörf um þúsund heimila. Samanlagt afl þeirra 1,2 megavött og áætluð framleiðsla allt að þrjár gígavattstundir á ári.
Mér fannst töff að sjá vindmyllurnar tvær. Við þurfum að nýta öll tækifæri til að framleiða endurnýjanlega orku.
Vindmyllurnar tvær eru danskar, af tegundinni Vestas. Þeir eru festir á 53 metra háa turna. Það þýðir að í hæstu stöðu er hvor mylla liðlega 70 metra há, eða jafnhá Hallgrímskirkju.
4.9.2016 | 17:57
Hvítserkur (771 m)
Á leið í Húsavík eystra var keyrt framhjá Hvítserk. Bar fjallið af öðrum fjöllum með sínum frumlega svip. Litasamsetning og berggangar gera það næstum fullkomið. En Hvítserkur er ekki bara fegurðin heldur stórmerkilegt fjall.
Merking orðsins hvítserkur er hvítur kyrtill (ermalaus eða ermastuttur). Hvítserkur sem örnefni er notað um eitthvað sem líkist slíku fati. Þannig heita eftirfarandi náttúrufyrirbæri Hvítserkur. Hvítserkir eru þrír á landinu: Foss í Fitjaá í Skorradal í Borgarfirði, klettur í sjó við vestanverðan botn Húnafjarðar í Vestur-Húnavatnssýslu (hann er hvítur af fugladriti) og síðan fyrrgreint fjall. Það hefur einnig verið nefnt Röndólfur. Fjallið er myndað úr ljósu súru bergi, rýólíti/líparíti með svörtum göngum úr blágrýti á milli.
Ljósa efnið sem myndar meginhluta fjallsins er flikruberg (ignimbrit), hluti af yfir 300 m þykku jarðlagi sem myndast hefur af eldskýi við gjóskuhlaup úr Breiðvíkureldstöð litlu norðar. Gegnum ljóst og rauðbleikt flikrubergið hríslast dökkir basaltsgangar eða innskot sem sum tengjast dökkri basaltshúfu efst á tindi fjallsins, en hann er hluti af bólstrabergi og móbergi sem varð til í öskjuvatni í Breiðvíkureldstöð. Fjall sem myndaðist í setskál.
Flikrubergið í Hvítserki er samansett af mismikið ummynduðum vikri, basaltmolum og öðrum framandsteinum. Þar á meðal eru zirkon-steindir. Með aldursgreiningu reyndist aldur sumra á bilinu 126-242 milljón ár. Bendir það til að djúpt undir Austfjörðum eða hluta þeirra sé til staðar meginlandsskorpa og hafi flikrubergið rutt með sér til yfirborðsins allnokkru af fornu grannbergi gosrásarinnar og zirkon-steindir hafi síðan kristallast út úr kviku í hólfi undir eldstöðinni.
Það hefur gengið mikið á þegar fjöllin sunnan og austan Borgarfjarðar eystri mynduðust. Verði þetta staðfest með ítarlegri rannsóknum þarf að hugsa myndun Íslands upp á nýtt, en til þessa hefur verið talið að Íslands sé ekki eldra en um 16 milljón ára.
Þetta er stórmerkilegt. Það verður því gengið á Hvítserk, mögulega elsta fjall landsins við næsta tækifæri.
Hvítserkur með rauðbleikt flikruberg og bergganga, mögulega elsta berg landsins sem inniheldur zirkon-steindir og gætu verið 126-242 milljón ára og tengst myndum Grænlands eða hugsanlega flís úr meginlandsskorpu.
Heimildir
Ferðafélag Íslands árbók 2008, Úthérað eftir Hjörleif Guttormsson
Glettingur, Dyrfjallablaðið, 55-56 tölublað 2011
Ferlir.is - Borgarfjörður - Breiðavík - Húsavík - Loðmundarfjörður
Ferðalög | Breytt 7.6.2017 kl. 13:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.8.2016 | 11:03
Húsavík eystra
Þær eru í það minnsta þrjár Húsavíkurnar á Íslandi. Eitt stórt þorp sem er höfuðborg hvalaskoðunar og hýsir einnig kísilmálmverksmiðju á Bakka. Önnur í Strandasýslu og sú þriðja á Víknaslóðum.
Húsavík eystra er stærst víkna milli Borgarfjarðar og Loðmundarfjarðar. Landnáma segir að Þorsteinn kleggi hafi numið land og út af honum séu Húsvíkingar komnir. Inn af víkinni gengur grösugur dalur sem skiptist síðan í þrjá minni dali.
Húsavík fór í eyði 1974. Eyðibyggðir búa yfir sérstakri og átakanlegri sögu. Íbúar Húsavíkur urðu flestir 65 undir lok 19. aldar en fækkað mikið eftir aldamótin 1900.
Ekki fundust baggalútar né mannabein úr kirkjugarðinum. En mögulegt er að finna baggalúta eða hreðjasteina í Álftavíkurtindi og Húsavíkurmegin í Suðurfjalli. Atlantshafið nagar í landið. Bakkarnir eru háir og eyðast stöðugt. Í byrjun 20. aldar hafði um fjórðipartur af Gamla kirkjugarði hrunið niður fyrir og var þá nýr garður vígður neðst í túni.
Jeppaslóði var ruddur 1958 frá Borgarfiðri um Húsavíkurheiði sem liggur um Vetrarbrekkur sunnan undir Hvítserk (771 m), niður eftir Gunnhildardal. Bar Hvítserkur (771 m) af og litirnir komu margbreytilegir fram eftir úrkomu dagsins. Líparítfjöllin eru hvergi litríkari og fjölbreyttari en á þessu svæði. Vegurinn versnaði eftir því sem sunnar dró en jepplingur komst án vandræða til Húsavíkur eystra. Þó þurfti hann að glíma við eina áskorun og stóðst RAV4 hana. Framhald af jeppaslóðanum liggur um Nesháls til Loðmundarfjarðar. Myndalegur skáli Ferðafélags Fljótsdalshéraðs stendur þar við veginn. Hinn formfagri Skælingur, kínverska musterið, sást ekki nógu vel í þokunni.
Það var gaman að ferðast til Húsavíkur eystra, keyra rúmlega 20 km jeppaslóða og reyna að skilja landið sitt.
Áhugavert aðgengi að Húsavíkurkirkju sem er bændakirkja sem byggð var 1937 og höfuðbólið Húsavík handan. Öllu vel viðhaldið.
Heimildir
Ferðafélag Íslands árbók 2008, Úthérað eftir Hjörleif Guttormsson
Borgarfjöður eystri borgarfjordureystri.is
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.8.2016 | 23:09
Svartfell (510 m) í Borgarfirði eystra
Ekki gaf gott veður í gönguferð í Loðmundarfjörð um Kækjuskörð. Því var ákveðið að ganga á Svartfell í Borgarfirði eystri en það var bjart yfir firðinum.
Tilvalið enda er ég að safna litafellum. Mörg örnefni á Íslandi tengjast litum, t.d. Rauðhólar, Rauðisandur og Rauðifoss, og eru rauðir litir í örnefnum oftast skýrðir með lit berggrunns eða jarðefna. Hins vegar tengist blár litur í örnefni oftast fjarlægð og skýrist af áhrifum andrúmsloftsins á ljós. Grænn litur tengist yfirleitt gróðri.
Hér eru fellin: Rauðafell, Grænafell, Bláfell, Svartafell/Svartfell, Hvítafell/Hvítfell og Gráfell.
Gengið er eftir vegslóðanum sem liggur til Brúnavíkur en þegar á gönguna leið færðist úrkoma yfir og þoka huldi Goðaborgina. Því var gengið í kringum fellið.
En göngulýsing segir: Gengið upp á tind Svartfells (510m) Brúnavíkurmegin. Fallegt útsýni er af toppnum yfir Borgarfjörð og Brúnavík. Á toppnum er að finna gestabók sem allir eiga að skrifa í. Farið er sömu leið niður af fjallinu en gengið á Hofstarndarmælinn sem er í fjallinu miðju. Svartfellshlíðarnar eru fallegt framhlaup sem hefur myndast einhvern tímann eftir síðastliðna ísöld. Þetta er leið 25 í ágætu göngukorti um Víknaslóðir.
Gjá ein mikil efst í Svartfelli heitir Klukknagjá og komu heiðnir þar fyrir klukkum sem hringja fyrir stórtíðindum og í ofsaveðrum. Sló í brýnu milli kristinna og heiðingja og höfðu þeir kristnu betur. Heiðingjar sem ekki féllu voru skírðir í Helgá en hinir dauðu voru huslaðir í Dysjarhvammi skemmt sunnan bæjar.
Bakkagerði með 82 íbúa og Svartfell í bak.
Dagsetning: 3. ágúst 2016
Hæð Svartfells: 510 m
Hæð í göngubyrjun: 15 metrar (N:65.31.152 - W:13.46.585) Hofströnd að Brúnavík. Leið 20
Heildargöngutími: 240 mínútur (09:20 - 13:20)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: Um 7,0 km
Veður kl. 12 Vatnsskarð: Skýjað, ASA 6 m/s, 6,5 °C. Raki 97%
Þátttakendur: Skál(m), 9 göngumenn.GSM samband: 3G/4G gott
GSM samband: 3G/4G gott
Gestabók: Já
Gönguleiðalýsing: Gengið eftir vegaslóða í Brúnavík, leið #20 um Hofstrandarskarð og austur fyrir Svartfell við Engidal. Farið upp skarð og komið niður inn á leið #25 og sótt á Breiðuvíkurveg.
Tenglar
http://www.borgarfjordureystri.is/ferdathjonusta/gongusvaedid-viknaslodir/gps-trokk
http://www.wildboys.is/blog/record/482593/
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (11.7.): 13
- Sl. sólarhring: 15
- Sl. viku: 140
- Frá upphafi: 236849
Annað
- Innlit í dag: 10
- Innlit sl. viku: 107
- Gestir í dag: 10
- IP-tölur í dag: 10
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar