11.10.2017 | 12:54
Siglunes á Barðaströnd
Frá Siglunesi var róið um aldir og sagt er: Sá sem frá Siglunesi rær landi nær.
Siglunes er úrvörður Barðastrandar til vesturs og lífhöfn sjófarenda en útvörður í austri er Vatnsfjörður.
Siglunes liggur yst á Barðaströnd við opinn Breiðafjörðinn og andspænis Snæfellsnesi krýndu samnefndum jökli.
Siglunesið býður upp á fjöruferð, ferð upp til fossa og að fjárrétt undir sjávarbökkum. Siglunesá rennur niður fjallið og gengum við upp með ánni og geymir hún fjóra fossa Hæstafoss, Undirgöngufoss, Háafoss og Hundafoss. Útsýni mjög gott yfir hluta Barðastrandarinnar.
Síðan var farið út á Ytranes og svæði þar sem verbúðir voru um aldir. Við sáum fimm seli og nokkur úrgang, mest frá nútíma útgerð. Dásamlegt að ganga berfættur í gylltum heitum sandinum til baka með stórkostlegt útsýni út og yfir Breiðafjörð á jökulinn sem logar.
Þegar komið var aftur að Siglunesi var komið að Naustum, bær Erlendar Marteinssonar. Austurhliðin hefur látið á sjá en er inn var komið þá sást eldavél. Ekki gerðu menn miklar kröfur til þæginda. Bærinn var byggður 1936 og bjó Erlendur til ársins 1962. Innviðin í bæinn komu úr kaupfélaginu í Flatey - það leiddi okkur á aðrar slóðir og þær hvernig alfaraleiðir lágu um Breiðafjörðinn. Þetta er hrein endalaus uppspretta heillandi sögu og ummerkja um það hvernig fólkið okkar komst af hér á öldum áður.
Að endingu var komið við að gestabók og minnisvarða um síðust hjónin sem bjuggu að Siglunesi.
Að Naustum, bær Erlendar Marteinssonar, austurhliðin hefur látið á sjá. Erlendur bjó þarna til ársins 1962.
Dagsetning: 31. júlí 2017
Gestabók: Já
Heimild:
Barðastrandarhreppur göngubók, Elva Björg Einarsdóttir, 2016
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.10.2017 | 12:26
Duglegir ríkisstarfsmenn, brúarsmiðir á Steinavötnum
Stórt hrós til Vegagerðarinnar. Þeir eru duglegir ríkisstarfsmennirnir. Byggðu upp bráðabirgðabrú yfir Steinavötn í Suðursveit á mettíma. Magnað.
Nú þurfa þessir duglegu ríkisstarfsmenn bara að fá almennilega yfirmenn. Tveir síðustu yfirmenn þeirra, jarðýtan Jón Gunnarsson og Ólöf Nordal höfðu ekki mikinn áhuga á úrbótum og uppbyggingu innviða. Það kom fram í fjárlögum fyrir árið 2017 að það tæki hálfa öld ár að útrýma einbreiðum brúm. Flokkurinn hafnaði auðveldum tekjum og innviðir fúnuðu fyrir vikið. Vegatollar er nýjasta lykilorðið.
Það þarf að útrýma einbreiðum brúm, svartblettum í umferðinni og gera metnaðarfulla áætlun. Í samgönguáætlun 2011 sagði: "Útrýma einbreiðum brúm á vegum með yfir 200 bíla á sólarhring". Í sumar voru tæplega 2.500 bílar á sólarhring á hringveginum í Ríki Vatnajökuls, eða 12 sinnum meira.
Í bloggi frá apríl 2016 eru taldar upp ógnir, manngerðar og náttúrulegar sem snúa að brúm og áhættustjórnun. Það þarf að fjarlæga þær og byggja traustari brýr í staðin. Brýr sem þola mikið áreiti og fara ekki í næstu skúr. Ferðaþjónustuaðilar í Skaftafellssýslu töldu að 50 milljónir hafi tapast á dag við rof hringvegarins við Steinavötn. Tjónið er komið í heila öfluga tvíbreiða brú.
Mynd af 102 metra langri og 53 ára brúni yfir Steinavötn tekin um páskana 2016. Það er lítið vatn í ánni og allir stöplar á þurru og í standa teinréttir í beinni línu.
![]() |
Nýja brúin opnuð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.9.2017 | 20:52
Einbreiða brúin yfir Steinavötn fórnarlamb loftslagsbreytinga
Loftslagið er að breytast með fordæmalausum hraða. Úrkoman í Ríki Vatnajökuls er afsprengi loftslagsbreytinga.
September hefur skapað af sér öflugustu hvirfilbili í langan tíma á Atlantshafi. Irma, Jose og María eru sköpuð í mánuðinum í hafinu. Rigningin sem dynur á okkur er erfingi þeirra. Allir þekkja Harvey og Irmu sem gerðu árásá Texas, Flórida og nálægar eyjar nýlega.
Eina jákvæða við þetta er að náttúran sér annars um að losa okkur við þessar einbreiðu brýr, ekki gera stórnmálamenn það. Í dag eru 20 einbreiðar brýr í Ríki Vatnajökuls, svartblett í umferðinni. Nú verða þær 19!
Brú yfir Steinavötn var ekki á Samgönguáætlun og svo hefur samgönguráðherra, Jón Gunnarsson vill lækka skatta í kosningaloforðum en setja veggjöld á alla staði. Það er ekkert annað en dulbúin skattheimta sem kemur ósanngjarnt niður. Rukki Jón 300 fyrir hverja einbreiða brú, þá kostar ferðalagið 5.700 kall í aukna skatta.
Bæjaryfirvöld í Ríki Vatnajökuls og hagsmunaðilar í ferðaþjónustinni hafa ekki verið nógu beitt við að krefjast úrbóta. Enda flestir í flokknum. Þeir mættu taka Eyjamenn og Reyknesinga sér til fyrirmyndar.
En hvað geta Skaftelleingar og fólk á jörðinni gert best gert til að minnka áhrif loftslagsbreytinga? Í rannsókn hjá IPO fyrr á árinu kom fram: Til þess að hafa raunveruleg áhrif á loftslagsbreytingar þarf komandi kynslóð að taka upp bíllausan lífsstíl, eignast færri börn, draga úr flugferðum og leggja meiri áherslu mataræði sem byggir á grænmeti. Sá sem neytir fyrst og fremst grænmetisfæðis leggur fjórum sinnum meira af mörkum til minnkunar losunar en sá sem aðeins flokkar og endurvinnur rusl. Þetta eru þær aðferðir sem skila mestu, bæði þegar horft er til losunar og áhrifa á stefnumörkun.
Ég á myndir af hættulegustu stöðum landsins.
Brúin yfir Steinavötn er einn af þeim. Nú löskuð og búið að loka henni. Einbreið 102 m löng, byggð 1964.Loftslagsbreytingar eru orsök úrkomunnar. Öfgar í veðri aukast.
![]() |
Bygging bráðabirgðabrúar hefst á morgun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Samgöngur | Breytt 30.9.2017 kl. 00:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.9.2017 | 22:31
Einbreiðar brýr í Ríki Vatnajökuls - endurskoðað áhættumat í ágúst 2017
Þann 13. ágúst sl. var farið yfir 21 einbreiða brú í Ríki Vatnajökuls, áhættumat var endurskoðað í þriðja sinn. En minnka má áhættu með áhættustjórnun.
Engar breytingar frá síðasta mati fyrir hálfu ári.
En hrósa má Vegagerðinni fyrir að:
- öll blikkljós loguðu og aðvaranir sýnilegar
- 500 metra aðvörunarskilti og málaðar þrengingar voru sýnileg.
En engin leiðbeinandi hámarkshraði.
Morsárbrú var tekin í notkun í lok ágúst og því ber að fagna. Nú eru hættulegu einbreiðu brýrnar 20.
Forvarnir
Ekkert banaslys hefur orðið á árinu og ekkert alvarlegt slys. Árið 2015 varð banaslys á Hólárbrú og mánuði síðar alvarlegt slys á Stigárbrú. Síðan var farið í úrbætur og blikkljósum fjölgað úr 4 í 21.
Forvarnir virka.
Bílaumferð hefur rúmlega tvöfaldast frá páskum 2016. Umferð þá var um 1.000 bílar á dag en fer í 2.300 núna. Aukning á umferð milli ágúst 2016 og 2017 er 8%.
Á facebook-síðu verkefnisins er haldið um niðurstöður.
https://www.facebook.com/EinbreidarBryr/?ref=aymt_homepage_panel
Haldi ökumaður áfram austur á land, þá eru nokkrar einbreiðar brýr og þar vantar blikkljós en umferð er minni. Það má setja blikkljós þar.
Áhættumat sem sýnir einbreiðar brýr í Ríki Vatnajökuls, 21 alls. 21 of margar!
20.9.2017 | 14:37
Hólárjökull 2017
Jöklarannsóknir mínar halda áfram. Ávallt þegar ég keyri framhjá Hólárjökli sem var einn af tignarlegum skriðjöklum úr Öræfajökli, þá smelli ég ljósmynd af honum. Hólárjökull er rétt austan við Hnappavelli. Hólá kemur frá honum.
Efri samsetta myndin var tekin 5. ágúst 2016 í súld og 13. ágúst 2017 í fallegu veðri. Tungan hefur aðeins styst á milli ára. Neðri myndin er samsett og sú til vinstri tekin 16. júlí 2006 en hin þann 5. ágúst 2015. Það sést glöggt að jökultungan hefur styst og jökullin þynnst, nánast horfið. Rýrnun jöklanna er ein afleiðingin af hlýnun jarðar.
Árið 2006 voru íslenskir jöklar útnefndir meðal sjö nýrra undra veraldar af sérfræðingadómstól þáttarins Good Morning America á bandarísku sjónvarpsstöðinni ABC. Íslensku jöklarnir urðu fyrir valinu vegna samspils síns við eldfjöllin sem leynast undir íshellunni.
Jöklarnir vita svo margt. Við erum að tapa þeim með ósjálfbærri hegðun okkar.
En hvað getur almenningur best gert til að minnka sótsporið? Í rannsókn hjá IPO fyrr á árinu kom fram: Til þess að hafa raunveruleg áhrif á loftslagsbreytingar þarf komandi kynslóð að taka upp bíllausan lífsstíl, eignast færri börn, draga úr flugferðum og leggja meiri áherslu mataræði sem byggir á grænmeti. Sá sem neytir fyrst og fremst grænmetisfæðis leggur fjórum sinnum meira af mörkum til minnkunar losunar en sá sem aðeins flokkar og endurvinnur rusl. Þetta eru þær aðferðir sem skila mestu, bæði þegar horft er til losunar og áhrifa á stefnumörkun.
Loftslagsbreytingar eru staðreynd og hitastig breytist með fordæmalausum hraða. Við þurfum að hafa miklar áhyggjur, jöklarnir bráðna og sjávarstaða hækkar með hækkandi hita og höfin súrna.
Fyrirtæki og almenningur þarf úr útblæstri jarðefnaeldsneytis og á meðan breytingarnar ganga yfir, þá þarf að kolefnisjafna. Annað hvort með gróðursetningu trjáa eða endurheimt votlendis.Einnig þarf að þróa nýja tækni.
Jökulsporðurinn er nær horfinn. En hann hefur í fyrndinni náð að ryðja upp jökulruðningi og mynda garð.
Sjá:
Hólárjökull 2007 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/259538/
Hólárjökull 2008 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/611572/
Hólárjökull 2009 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/911196/
Hólárjökull 2011 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1192311/
Hólárjökull 2012 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1253486/
Hólárjökull 2015 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1920380/
Hólárjökull 2016 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/2177752/?t=1470576153
16.9.2017 | 17:23
Hafnarmúli (um 300 m)
Hafnarmúli er snarbrattur með flughömrum milli Mosdals og Örlygshafnar í Patreksfirði gengt þorpinu.
Neðan við veg númer 612 er hægt að leggja bílum og hefja göngu inn Mosdal, upp hálsinn og ganga eftir toppnum að vörðu á fremsta hluta Hafnarmúla. Gangan upp tekur einn knattspyrnuleik og það borgar sig ekki að reyna að stytta sér leið upp fjallshlíðina, heldur fylgja slóða upp hálsinn að vörðu fremst á fjallinu.
Á leiðinni er tilvalið að stoppa við Garðar BA64, elsta stálbát Íslendinga í fjörunni í Skápadal og koma við í Sauðlauksdal. Eftir gönguferð er sniðugt að koma við á Minjasafni Egils Ólafssonar að Hnjóti.
Magdalena Thoroddsen lýsir svo bjarginu:
Flestum gæðum foldar rúinn
fjalladjásn með klettaskörð.
Hafnarmúlinn hömrum búinn
heldur vörð um Patreksfjörð.
Útsýni af Hafnarmúla er stórgott yfir Patreksfjörð. Þorpið með bæjarfjallið Brellur á ská á móti. Núpurinn Tálkni beint á móti með ekta vestfirska fjallabyggingu. Dýrðin er að horfa niður í Örlygshöfn, sjá litadýrðina í vaðlinum, gyllta sanda, græn tún, grænan sjó og blátt haf. Ógleymanlegt.
Hafnarmúli er helst þekktur fyrir hörmulegt sjóslys. Í ofviðri 1. desember 1948, fórst enski togarinn Sargon undir Hafnarmúla í Patreksfirði og fórust með honum 11 manns en 6 tókst að bjarga.
Í Lýsing Íslands eftir Þorvald Thoroddsen segir um Hafnarmúla: "austan við vaðalinn í Örlygshöfn er Hafnarmúli, snarbrattur og hvass að ofan einsog saumhögg," Ekki skil ég alveg hvað Þorvaldur á við með lýsingunni "að ofan eins og saumhögg" en að ofan er fjallið jafnslétt og mosagróið þó laust grjót sé en saumhögg er hvass þrístrendur hryggur.
Eftir göngu á Hafnarmúla var farið í sund í Barmahlíð á Patreksfirði. Úr heitu pottinum sér göngumaður að múlinn sker sig aðeins úr fjallasalnum með gylltar fjörur sunnan fjarðar.
Varða nálægt fremsta hluta Hafnarmúla, á móti er hinn bratti núpur Tálkni, hann skilur Patreksfjörð frá Tálknafirði. Selárdalshlíðar sjást handan Tálkna.
Dagsetning: 2. ágúst 2017 Yfirdráttardagurinn
Hæð: Um 300 metrar
Hæð í göngubyrjun: 12 metrar við bílastæði við Mosá
Hafnarmúli varða (282 m): (N:65.34.862 - W:24.05.474)
Hækkun: 270 metrar
Uppgöngutími Hafnarmúli: 100 mín (09:50 - 11:30) 4,2 km
Heildargöngutími: 190 mínútur (09:50 - 13:00)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 8,4 km
Veður kl. 12.00: Skýjað, S 1 m/s, 11°C
Þátttakendur: Villiendurnar, 8 þátttakendur
GSM samband: Já
Gestabók: Nei
Gönguleiðalýsing: Vel sýnileg leið með stórgrýti í uppgöngu. Mosavaxið að ofan.
Heimild:
Lýsing Íslands: Þorvaldur Thoroddsen
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 17:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.9.2017 | 22:33
Lónfell (752 m)
og nefndu landið Ísland.
"Þá gekk Flóki upp á fjall eitt hátt og sá norður yfir fjöllin fjörð fullan af hafísum. Því kölluðu þeir landið Ísland, sem það hefir síðan heitið."
Fyrir fjallgöngufólk er ganga á Lónfell skylduganga á fornfrægt fell. Héðan var landinu gefið nafnið Ísland. Fjörðurinn er Arnarfjörður sem blasir við af toppnum. Göngumenn trúa því.
Fjallið er formfagurt og áberandi úr Vatnsfirðinum, ekki síst frá Grund þar sem Hrafna-Flóki byggði bæ sinn og dvaldi veturlangt við illan kost.
Lagt var á Lónfell frá Flókatóftum í Vatnsfirði, upp Penningsdal frá skilti sem á stendur Lómfell og er vel merkt leið á toppinn. Gangan hófst í 413 m hæð og hækkun um 339 metrar. Töluvert stórgrýti er þegar nær dregur fjallinu.
Ofar, í Helluskaði nær vegamótum er annað skilti og hægt að ganga hryggjaleið en mér sýndist hún ekki stikuð og aðstaða fyrir bíla léleg.
Eftir 90 mínútna göngu var komið á toppinn og tók á móti okkur traust varða og gestabók. Við heyrðum í lómi og sáum nokkur lón á heiðinni. Langur tími var tekinn við að snæða nesti og nokkrar jógaæfingar teknar til að hressa skrokkinn.
Á leiðinni rifjuðu göngumenn upp deilur á milli manna á tímum vesturferða og ortu sumir níðvísur um landi og kölluðu það hrafnfundið land en einn af þrem hröfnum Flóka fann landið. Aðrir skrifuðu og ortu um sveitarómantíkina.
Franskt par úr Alpahéruðum Frakklands fylgdi okkur og þekkti söguna um nafngiftina. Þeim fannst gangan áhrifamikil. Ekkert svona sögulegt fjall í Frakklandi.
Af Lónfelli er víðsýnt og þar sér um alla Vestfirði og Vatnsfjörðurinn, Arnarfjörðurinn og Breiðafjörðurinn með sínar óteljandi eyjar lá að fótum okkar.
Lómfell
Á skiltinu við upphaf göngu stóð Lómfell og vakti það athygli okkar. Einnig hafði vinur minn á facebook gengið á fellið daginn áður og notaði orðið Lómfell. Ég taldi að hann hefði gert prentvillu. Hann hélt nú ekki! Er hér Hverfjall/fell deila í uppsiglingu?
Ég spurði höfund göngubókar um Barðaströnd, Elvu Björg Einarsdóttur um örnefnin en hún ólst upp við að fjallið héti Lónfell og um það töluðu og tala flestir sveitungar hennar. En eftir að björgunarsveitin Lómur var stofnuð um miðjan 9. áratug síðustu aldar fór að bera á Lómfells-heitinu og þá var nafnið skírskotun í fellið - enda mynd af fellinu í merki sveitarinnar og kallmerkið "Lómur."
"Á kortum kemur alls staðar fram Lónfell, nema e.t.v. á þeim yngstu. Örnefnaskrár fyrir Barðaströnd tala einnig um Lónfell en á einum stað í örnefnaskrá fyrir bæ í Arnarfirði sá ég talað um Lómfell. Ég hef rætt málið við stofnun Árna Magnússonar (Örnefnastofnun) og þar segja þau mér að vera sæla með að svo mikill hljómgrunnur sé í heimildum fyrir "Lónfelli" en fyrst að fólk nefni fjallið einnig "Lómfell" sé ekki hægt að skera úr um hvort sé réttast - svo sé oft um örnefni og að þau breytist - það vitum við.
Margir Barðstrendingar voru hvumsa við að sjá nafnið á skiltinu og ég held að mikilvægt sé að setja upp annað skilti þar sem nafnið ,,Lónfell" kemur fram - líklega er réttast að þau standi bæði :)"
Upplifun við söguna er engu líki og vel áreynslunnar virði.
Stórgrýtt leið. Ýsufell, Breiðafell, Klakkur og Ármannsfell rísa upp. Norðan þessara fjalla lá hinn forni vegur Hornatær milli Arnarfjarðar og Vattarfjarðar.
Hér sér niður í Arnarfjörð sem er fullur af eldislaxi, hefði landið fengið nafnið Laxaland!
Dagsetning: 3. Ágúst 2017
Hæð: 752 metrar
Hæð í göngubyrjun: 413 metrar við skilti (N:65.37.431 - W:23.13.728)
Lónfell (752 m): (N:65.38.386 - W:23.11.871)
Hækkun: 339 metrar
Uppgöngutími Lónfell: 90 mín (09:40 - 11:10) 3,3 km
Heildargöngutími: 370 mínútur (09:40 - 12:50)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 6,6 km
Veður kl. 12.00: Skýjað, NNA 2 m/s, 12°C
Þátttakendur: Villiendurnar 7 þátttakendur
GSM samband: Já
Gestabók: Já
Gönguleiðalýsing: Mjög vel stikuð leið með stórgrýti er á gönguna líður
Heimild:
Barðastrandarhreppur göngubók, Elva Björg Einarsdóttir, 2016
Ferðalög | Breytt 15.9.2017 kl. 14:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.8.2017 | 08:50
Sandsheiði (488 m)
Sandsheiði er gömul alfaraleið á milli Barðastrandar og Rauðsands. Gatan liggur upp frá Haukabergsrétt við norðanverðan Haukabergsvaðal um Akurgötu, Hellur, Þverárdal, Systrabrekkur að Vatnskleifahorni.
Þar eru vötn og ein tjörnin heitir Átjánmannabani en hún var meinlaus núna. Níu manna gönguhópurinn hélt áfram upp á Hvasshól, hæsta punkt og horfði niður í Patreksfjörð og myndaðist alveg nýtt sjónarhorn á fjörðinn. Uppalinn Patreksfirðingur í hópnum varð uppnuminn af nostalgíu. Nafnið Hvasshóll er mögulega komið af því að hvasst getur verið þarna en annað nafn er Hvarfshóll en þá hefur Rauðasandur horfið sjónum ferðamanna. Það var gaman að horfa yfir fjörðinn hafið og fjallahringinn og rifja upp örnefni.
Þegar horft var til baka af Akurgötu skildi maður örnefnið vaðall betur, svæði fjöru sem flæðir yfir á flóði en hreinsast á fjöru, minnir á óbeislaða jökulá.
Áfram lá leiðin frá Hvasshól,um Gljá og niður í Skógardal á Rauðasand. Á leið okkar um dalinn gengum við fram á Gvendarstein (N:65.28.154 - W:23.55.537), stóran steinn með mörgum smáum steinum ofaná. Steinninn er kenndur við Guðmund góða Hólabiskup. Sú blessun fylgir steininum að leggi menn þrjá steina á hann áður en lagt er upp í för komast þeir heilir á leiðarenda um villugjarna heiði. Endað var við Móberg á Rauðasandi eftir 16 km. göngu. Algengara er að hefja gönguna þaðan.
Góður hluti háheiðinnar er svo til á jafnsléttu, heitir Gljá. Það sér í Molduxavötn sem bera nafn sitt af stökum grjóthólum eða klettastöpum er nefnast Molduxar. Molduxi þýðir stuttur, þrekvaxinn maður.
Á leiðinni yfir heiðina veltu göngumenn fyrir sér hvenær Sandsheiðin hafi verið gengin fyrst. Skyldi hún hafa verið notuð af Geirmundi heljarskinni og mönnum hans í verstöðinni á Vestfjörðum? Ekki er leiðin teiknuð inn á kort í bókinni Leitin að svarta víkingnum eftir Bergsvein Birgisson.
Sandsheiðin er einstaklega skemmtileg leið í fótspor genginna kynslóða.
Þegar á Rauðasand er komið verðlaunaði gönguhópurinn sig með veitingum í Franska kaffihúsinu en bílar höfðu verið ferjaðir daginn áður. Landslagið á staðnum er einstakt,afmarkast af Stálfjalli í austri og Látrabjargi í vestri og fyllt upp með gylltri fjöru úr skeljum hörpudisks.
Síðan var haldið að Sjöundá og rifjaðir upp sögulegir atburðir sem gerðust fyrir 215 árum þegar Bjarni Bjarnason og Steinunn Sveinsdóttir myrtu maka sína.
Að lokum var heitur Rauðasandur genginn á berum fótum og tekið í strandblak.
Dagsetning: 1. Ágúst 2017
Hæð: 488 metrar
Hæð í göngubyrjun: 16 metrar við Haukabergsrétt (N:65.28.833 - W:23.40.083)
Hvasshóll (488 m): (N:65.29.892 - W:23.46.578)
Móberg upphaf/endir (29 m): (N:65.28.194 - W:23.56.276)
Hækkun: 462 metrar
Uppgöngutími Hvasshóll: 180 mín (09:30 - 12:30) 8 km
Heildargöngutími: 360 mínútur (09:30 - 15:30)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 16 km
Veður kl. 12.00: Léttskýjað, ANA 3 m/s, 12,4 °C
Þátttakendur: Villiendurnar 9 þátttakendur
GSM samband: Já, mjög gott
Gestabók: Nei
Gönguleiðalýsing: Vel gróið land í upphafi og enda með mosavöxnum mel á milli um vel varðaða þjóðleið
Heimild:
Barðastrandarhreppur göngubók, Elva Björg Einarsdóttir, 2016
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.7.2017 | 16:27
Móskarðshnjúkur (807 m)
Eitt markmið hjá mér er að ganga á bæjarfjallið Esjuna að lágmarki einu sinni á ári. Í ár var haldið á Móskarðshnjúka en þeir eru áfastir Esjunni. Tekinn var Móskarðshringur frá austri til vesturs á hnjúkana þrjá.
Aðeins austasti hnjúkurinn hét Móskarðshnjúkur, hinir voru nafnlausir, en Móskörð var nafn á hnjúkaröðinni allri. Víst er að austasti hnjúkurinn er tignarlegastur, enda afmarkaður af djúpum skörðum á báða vegu. Þessir hnjúkar eru úr líparíti og virðist ævinlega skína á þá sól vegna þeirra ljósa litar.
Lagt var á Móskarðshnúk frá Skarðsá og haldið upp Þverfell og stefnan tekin fyrir ofan Bláhnjúk. Það var þoka á austustu tindunum en veðurspá lofaði jákvæðum breytingum. Leiðin er stikuð og vel sýnileg göngufólki. Reyndir göngumenn á Móskörð segja að leiðin sé greinilegri á milli ára.
Eftir að hafa gengið í rúma þrjá kílómetra á einum og hálfum tíma, þá var toppi Móskarðshnjúks náð en skýin ferðuðust hratt. Á leiðinni á toppinn á hnjúknum var stakur dökkur drangur sem gladdi augað. Það var hvasst á toppnum skýin ferðuðust hratt.
Útsýni gott yfir Suðvesturland, mistur yfir höfuðborginni. Fellin í Mosfellsbæ glæsileg, Haukafjöll og Þrínhnúkar. Vötnin á Mosfellsheiði sáust og hveralykt fannst, líklega frá Nesjavöllum. Skálafell, nágranni í austri með Svínaskarð sem var þjóðleið norður í land. Í norðri var Trana og Eyjadalur og í vestri voru Móskarðsnafnarnir, Laufskörð og Kistufell.
Glæsileg fjallasýn eða eins og Jón Kalmann Stefánsson skrifar í Himnaríki og Helvíti: "Fjöllin eru ekki hluti af landslaginu, þau eru landslagið."
Haldið var af toppnum niður í skarðið og leitað skjóls og nesti snætt. Síðan var haldið á miðhnjúkinn (787 m), síðan á þann austasta (732 m) og niður með Grjáhnjúk (Hrútsnef).
Þórbergur Þórðarson á skemmtilega lýsingu af líparítinu í Móskarðshnjúkum sem eru hluti af 1-2 milljón ára gamalli eldstöð (Stardalseldstöðinni) í Ofvitanum. En rigningarsumarið 1913 ætlaði hann að afla sér tekna með málningarvinnu. Það var ekkert sólskin á tindunum. Það var grjótið í þeim, sem var svona á litinn. Náðu Móskarðshnjúkar að blekkja meistarann í úrkominni.
Tignarlegur Móskarðshnjúkur, 807 metrar. Trana (743 m) tranar sér inn á myndina til vinstri og Skálafell með Svínaskarð á milli er til hægri.
Dagsetning: 25. júlí 2017
Hæð: 807 metrar
Hæð í göngubyrjun: 130 metrar við Skarðsá
Hækkun: 677 metrar, heildarhækkun 814 metrar
Heildargöngutími: 240 mínútur (11:00 - 15:00)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 8 km
Veður kl. 12.00 Þingvellir: Skýjað, S 3 m/s, 15,4 °C og 69% raki
Þátttakendur: Skál(m), 3 þátttakendur
GSM samband: Já, mjög gott
Gönguleiðalýsing: Gróið land og brattar skriður
Heimildir
Íslensk fjöll, Gönguleiðir á 151 tind, Ari Trausti Guðmundsson og Pétur Þorleifsson
Morgunblaðið, Bæjarfjallið Esja, Sigrún Huld Þorgrímsdóttir, 25. nóvember 2000.
Ferðalög | Breytt 26.8.2017 kl. 21:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.7.2017 | 16:10
Elon Musk
Elon Musk er enginn venjulegur maður. Fremstur frumkvöðla í dag og er að skapa framtíð sem er í anda gullaldar vísindaskáldskaparins.
Var að klára vel skrifaða kilju um forstjóra SpaceX, milljarðamæringinn, frumkvöðulinn, fjárfestinn, verkfræðinginn og uppfinningamanninn Elon Musk eftir Ashlee Vance. En nafnið Musk hefur oft heyrst í sambandi við nýsköpun, sjálfbærni og frumkvöðlastarfsemi undanfarið.
Ævi
Elon Musk fæddist í Pretoríu í Suður Afríku 28. júní 1971 og er því 46 ára gamall. Hann átti erfiða æsku, lenti í einelti og foreldrar hans skildu. Bjó hann hjá föður sínum en foreldrar hans og afar og ömmur voru ævintýragjarnt fólk. Hann virðist hafa verið á einhverfurófi. Elon var einfari og nörd, öfugt við systkini sín, hann las mikið og mundi allt sem hann las. Þegar allar bækur á bókasafninu höfðu verið lesnar, sérstaklega ævintýrabækur, sci-fi og teiknimyndasögur fór hann að lesa Encyclopaedia Britannica alfræðiorðabókina.
Forritunarhæfileikar fylgdu í vöggugjöf og 10 ára gamall lærði hann upp á eigin spýtur forritun. Tólf ára gamall skrifaði hann tölvuleikinn Blastar og seldi tölvutímariti. Hann var nörd!
Þegar hann útskrifaðist úr menntaskóla 18 ára ákvað hann að fara til Kanada en móðurætt hans kom þaðan. Aðskilnaðarstefnan í Suður Afríku og vandamál tengd henni gerðu landið ekki spennandi fyrir snilling.
Í Kanada vann hann fyrir sér og gekk í háskóla en draumurinn var að flytja til Bandaríkjanna og upplifa drauminn þar í Silicon Valley. Eftir háskólanám í Pennsylvaniu hóf hann árið 1995 doktorsnám í Stanford University í Kaliforníu og stofnaði með bróður sínum nýsköpunarfyrirtæki sem vann að netlausninni Zip2. Eftir mikla vinnu þá var fyrirtækið selt til Compaq fyrir gott verð. Var hann þá orðinn milljónamæringur. Þá var ráðist í næsta sprotaverkefni sem var X.com, rafrænn banki sem endaði í PayPal. Fyrirtækið var síðan selt eBay uppboðsfyrirtækinu og söguhetjan orðinn yngsti milljarðamæringur heims.
Næsta skref var að láta æskudraum rætast,nýta auðæfin og helga sig geimnum. Árið 2002 stofnaði hann geimferðafyrirtækið SpaceX sem hannar endurnýtanlegar geimflaugar. Markmiðið er að flytja vörur út í heim og hefja landnám á reikistjörnunni Mars. Þegar geimævintýrið var komið vel á veg þá stofnaði hann rafbílafyrirtækið Tesla sem og markmiðið sjálfbærir og sjálfkeyrandi bílar.
Einnig er hann stjórnarformaður í SolarCity, ráðgjafarfyrirtæki sem innleiðir sjálfbærar lausnir fyrir húseigendur.
Það er áhugavert að sjá hvað Musk lagði mikið á sig til að koma netfyrirtækjum sínum áfram, stanslaus vinna og uppskeran er ríkuleg.
Musk telur að lykillinn að sköpunargáfu sinni hafi komið frá bókalestri í æsku, sérstaklega teiknimyndasögunum en þar er ímyndunaraflið óheft.
Stjórnunarstíll
Í bókinni er stjórnunarstíll Musk ekki skilgreindur en hann lærði á hverju nýsköpunarfyrirtæki sem hann stofnaði og hefur þróað sinn eigin stjórnunarstíl. En Musk er kröfuharður og gerir mestar kröfur til sjálfs sín. Einnig byggði hann upp öflugt tengslanet fjárfesta og uppfinningamanna sem hentar vel í skapandi umhverfi Silicon Valley.
Ég fann grein á netmiðlinum Business Insider um stjórnunarstíl Musk og kallar hann sjálfur aðferðina nanó-stjórnun. En hún er skyld ofstjórnun (e. micro-management) þar sem stjórnandi andar stöðugt ofan í hálsmál starfsfólks og krefur það jafnvel um að bera allt undir sig sem það þarf að gera. Musk segir að hann sé ennþá meira ofan í hálsmáli starfsfólks! (more hands-on).
Þessi stjórnunarstíll byggist á að sögn Musk: "I always see what's ... wrong. Would you want that? When I see a car or a rocket or spacecraft, I only see what's wrong."
"I never see what's right," he continued. "It's not a recipe for happiness."
Framtíðarsýn Musk
Er að endurskilgreina flutninga á jörðinni og í geimnum.
Lykilinn að góðu gengi fyrirtækja Musk er skýr framtíðarsýn. Hjá SpaceX er framtíðarsýnin: Hefja landnám á reikistjörnunni Mars og hvetur það starfsmenn áfram og fyllir eldmóði. Þeir eru að vinna að einstöku markmiði.
Framtíðarsýnin hjá Tesla er sjálfbær orka og að ferðast í bíl verður eins og að fara í lyftu. Þú segir honum hvert þú vilt fara og hann kemur þér á áfangastað á eins öruggan hátt og hægt er.
Musk hefur skýra sýn með framleiðslu rafbíla, sjálfbærni í samgöngum. Í hönnun er Gigafactory verksmiður sem framleiða liþíum rafhlöður sem knýja mun Tesla bílana í framtíðinni.
Fyrir vikið hefur Musk náð að safna að sér nördum, fólki sem var afburða snjallt á yngri árum og með svipaðan sköpunarkraft hann sjálfur.
Það gengur vel hjá fyrirtækjum Musk núna en það hefur gengið á ýmsu. Á því kunnuga ári 2008 urðu fyrirtækin næstum gjaldþrota.
Í nýlegri frétt um SpaceX er sagt frá metári en níu geimförum hefur verið skotið á loft og Tesla hefur hafið framleiðslu á Model 3 af rafbílnum og eru á undan áætlun.
Einkaleyfi Tesla á uppfinningum tengdum rafbílunum hafa verið gefin frjáls. Fyrirtækið er rekið af meiri hugsjón en gróðavon.
Bækur | Breytt 10.7.2017 kl. 08:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (11.7.): 14
- Sl. sólarhring: 15
- Sl. viku: 141
- Frá upphafi: 236850
Annað
- Innlit í dag: 11
- Innlit sl. viku: 108
- Gestir í dag: 11
- IP-tölur í dag: 11
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar