16.9.2017 | 17:23
Hafnarmúli (um 300 m)
Hafnarmúli er snarbrattur með flughömrum milli Mosdals og Örlygshafnar í Patreksfirði gengt þorpinu.
Neðan við veg númer 612 er hægt að leggja bílum og hefja göngu inn Mosdal, upp hálsinn og ganga eftir toppnum að vörðu á fremsta hluta Hafnarmúla. Gangan upp tekur einn knattspyrnuleik og það borgar sig ekki að reyna að stytta sér leið upp fjallshlíðina, heldur fylgja slóða upp hálsinn að vörðu fremst á fjallinu.
Á leiðinni er tilvalið að stoppa við Garðar BA64, elsta stálbát Íslendinga í fjörunni í Skápadal og koma við í Sauðlauksdal. Eftir gönguferð er sniðugt að koma við á Minjasafni Egils Ólafssonar að Hnjóti.
Magdalena Thoroddsen lýsir svo bjarginu:
Flestum gæðum foldar rúinn
fjalladjásn með klettaskörð.
Hafnarmúlinn hömrum búinn
heldur vörð um Patreksfjörð.
Útsýni af Hafnarmúla er stórgott yfir Patreksfjörð. Þorpið með bæjarfjallið Brellur á ská á móti. Núpurinn Tálkni beint á móti með ekta vestfirska fjallabyggingu. Dýrðin er að horfa niður í Örlygshöfn, sjá litadýrðina í vaðlinum, gyllta sanda, græn tún, grænan sjó og blátt haf. Ógleymanlegt.
Hafnarmúli er helst þekktur fyrir hörmulegt sjóslys. Í ofviðri 1. desember 1948, fórst enski togarinn Sargon undir Hafnarmúla í Patreksfirði og fórust með honum 11 manns en 6 tókst að bjarga.
Í Lýsing Íslands eftir Þorvald Thoroddsen segir um Hafnarmúla: "austan við vaðalinn í Örlygshöfn er Hafnarmúli, snarbrattur og hvass að ofan einsog saumhögg," Ekki skil ég alveg hvað Þorvaldur á við með lýsingunni "að ofan eins og saumhögg" en að ofan er fjallið jafnslétt og mosagróið þó laust grjót sé en saumhögg er hvass þrístrendur hryggur.
Eftir göngu á Hafnarmúla var farið í sund í Barmahlíð á Patreksfirði. Úr heitu pottinum sér göngumaður að múlinn sker sig aðeins úr fjallasalnum með gylltar fjörur sunnan fjarðar.
Varða nálægt fremsta hluta Hafnarmúla, á móti er hinn bratti núpur Tálkni, hann skilur Patreksfjörð frá Tálknafirði. Selárdalshlíðar sjást handan Tálkna.
Dagsetning: 2. ágúst 2017 Yfirdráttardagurinn
Hæð: Um 300 metrar
Hæð í göngubyrjun: 12 metrar við bílastæði við Mosá
Hafnarmúli varða (282 m): (N:65.34.862 - W:24.05.474)
Hækkun: 270 metrar
Uppgöngutími Hafnarmúli: 100 mín (09:50 - 11:30) 4,2 km
Heildargöngutími: 190 mínútur (09:50 - 13:00)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 8,4 km
Veður kl. 12.00: Skýjað, S 1 m/s, 11°C
Þátttakendur: Villiendurnar, 8 þátttakendur
GSM samband: Já
Gestabók: Nei
Gönguleiðalýsing: Vel sýnileg leið með stórgrýti í uppgöngu. Mosavaxið að ofan.
Heimild:
Lýsing Íslands: Þorvaldur Thoroddsen
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 17:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.9.2017 | 22:33
Lónfell (752 m)
og nefndu landið Ísland.
"Þá gekk Flóki upp á fjall eitt hátt og sá norður yfir fjöllin fjörð fullan af hafísum. Því kölluðu þeir landið Ísland, sem það hefir síðan heitið."
Fyrir fjallgöngufólk er ganga á Lónfell skylduganga á fornfrægt fell. Héðan var landinu gefið nafnið Ísland. Fjörðurinn er Arnarfjörður sem blasir við af toppnum. Göngumenn trúa því.
Fjallið er formfagurt og áberandi úr Vatnsfirðinum, ekki síst frá Grund þar sem Hrafna-Flóki byggði bæ sinn og dvaldi veturlangt við illan kost.
Lagt var á Lónfell frá Flókatóftum í Vatnsfirði, upp Penningsdal frá skilti sem á stendur Lómfell og er vel merkt leið á toppinn. Gangan hófst í 413 m hæð og hækkun um 339 metrar. Töluvert stórgrýti er þegar nær dregur fjallinu.
Ofar, í Helluskaði nær vegamótum er annað skilti og hægt að ganga hryggjaleið en mér sýndist hún ekki stikuð og aðstaða fyrir bíla léleg.
Eftir 90 mínútna göngu var komið á toppinn og tók á móti okkur traust varða og gestabók. Við heyrðum í lómi og sáum nokkur lón á heiðinni. Langur tími var tekinn við að snæða nesti og nokkrar jógaæfingar teknar til að hressa skrokkinn.
Á leiðinni rifjuðu göngumenn upp deilur á milli manna á tímum vesturferða og ortu sumir níðvísur um landi og kölluðu það hrafnfundið land en einn af þrem hröfnum Flóka fann landið. Aðrir skrifuðu og ortu um sveitarómantíkina.
Franskt par úr Alpahéruðum Frakklands fylgdi okkur og þekkti söguna um nafngiftina. Þeim fannst gangan áhrifamikil. Ekkert svona sögulegt fjall í Frakklandi.
Af Lónfelli er víðsýnt og þar sér um alla Vestfirði og Vatnsfjörðurinn, Arnarfjörðurinn og Breiðafjörðurinn með sínar óteljandi eyjar lá að fótum okkar.
Lómfell
Á skiltinu við upphaf göngu stóð Lómfell og vakti það athygli okkar. Einnig hafði vinur minn á facebook gengið á fellið daginn áður og notaði orðið Lómfell. Ég taldi að hann hefði gert prentvillu. Hann hélt nú ekki! Er hér Hverfjall/fell deila í uppsiglingu?
Ég spurði höfund göngubókar um Barðaströnd, Elvu Björg Einarsdóttur um örnefnin en hún ólst upp við að fjallið héti Lónfell og um það töluðu og tala flestir sveitungar hennar. En eftir að björgunarsveitin Lómur var stofnuð um miðjan 9. áratug síðustu aldar fór að bera á Lómfells-heitinu og þá var nafnið skírskotun í fellið - enda mynd af fellinu í merki sveitarinnar og kallmerkið "Lómur."
"Á kortum kemur alls staðar fram Lónfell, nema e.t.v. á þeim yngstu. Örnefnaskrár fyrir Barðaströnd tala einnig um Lónfell en á einum stað í örnefnaskrá fyrir bæ í Arnarfirði sá ég talað um Lómfell. Ég hef rætt málið við stofnun Árna Magnússonar (Örnefnastofnun) og þar segja þau mér að vera sæla með að svo mikill hljómgrunnur sé í heimildum fyrir "Lónfelli" en fyrst að fólk nefni fjallið einnig "Lómfell" sé ekki hægt að skera úr um hvort sé réttast - svo sé oft um örnefni og að þau breytist - það vitum við.
Margir Barðstrendingar voru hvumsa við að sjá nafnið á skiltinu og ég held að mikilvægt sé að setja upp annað skilti þar sem nafnið ,,Lónfell" kemur fram - líklega er réttast að þau standi bæði :)"
Upplifun við söguna er engu líki og vel áreynslunnar virði.
Stórgrýtt leið. Ýsufell, Breiðafell, Klakkur og Ármannsfell rísa upp. Norðan þessara fjalla lá hinn forni vegur Hornatær milli Arnarfjarðar og Vattarfjarðar.
Hér sér niður í Arnarfjörð sem er fullur af eldislaxi, hefði landið fengið nafnið Laxaland!
Dagsetning: 3. Ágúst 2017
Hæð: 752 metrar
Hæð í göngubyrjun: 413 metrar við skilti (N:65.37.431 - W:23.13.728)
Lónfell (752 m): (N:65.38.386 - W:23.11.871)
Hækkun: 339 metrar
Uppgöngutími Lónfell: 90 mín (09:40 - 11:10) 3,3 km
Heildargöngutími: 370 mínútur (09:40 - 12:50)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 6,6 km
Veður kl. 12.00: Skýjað, NNA 2 m/s, 12°C
Þátttakendur: Villiendurnar 7 þátttakendur
GSM samband: Já
Gestabók: Já
Gönguleiðalýsing: Mjög vel stikuð leið með stórgrýti er á gönguna líður
Heimild:
Barðastrandarhreppur göngubók, Elva Björg Einarsdóttir, 2016
Ferðalög | Breytt 15.9.2017 kl. 14:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.8.2017 | 08:50
Sandsheiði (488 m)
Sandsheiði er gömul alfaraleið á milli Barðastrandar og Rauðsands. Gatan liggur upp frá Haukabergsrétt við norðanverðan Haukabergsvaðal um Akurgötu, Hellur, Þverárdal, Systrabrekkur að Vatnskleifahorni.
Þar eru vötn og ein tjörnin heitir Átjánmannabani en hún var meinlaus núna. Níu manna gönguhópurinn hélt áfram upp á Hvasshól, hæsta punkt og horfði niður í Patreksfjörð og myndaðist alveg nýtt sjónarhorn á fjörðinn. Uppalinn Patreksfirðingur í hópnum varð uppnuminn af nostalgíu. Nafnið Hvasshóll er mögulega komið af því að hvasst getur verið þarna en annað nafn er Hvarfshóll en þá hefur Rauðasandur horfið sjónum ferðamanna. Það var gaman að horfa yfir fjörðinn hafið og fjallahringinn og rifja upp örnefni.
Þegar horft var til baka af Akurgötu skildi maður örnefnið vaðall betur, svæði fjöru sem flæðir yfir á flóði en hreinsast á fjöru, minnir á óbeislaða jökulá.
Áfram lá leiðin frá Hvasshól,um Gljá og niður í Skógardal á Rauðasand. Á leið okkar um dalinn gengum við fram á Gvendarstein (N:65.28.154 - W:23.55.537), stóran steinn með mörgum smáum steinum ofaná. Steinninn er kenndur við Guðmund góða Hólabiskup. Sú blessun fylgir steininum að leggi menn þrjá steina á hann áður en lagt er upp í för komast þeir heilir á leiðarenda um villugjarna heiði. Endað var við Móberg á Rauðasandi eftir 16 km. göngu. Algengara er að hefja gönguna þaðan.
Góður hluti háheiðinnar er svo til á jafnsléttu, heitir Gljá. Það sér í Molduxavötn sem bera nafn sitt af stökum grjóthólum eða klettastöpum er nefnast Molduxar. Molduxi þýðir stuttur, þrekvaxinn maður.
Á leiðinni yfir heiðina veltu göngumenn fyrir sér hvenær Sandsheiðin hafi verið gengin fyrst. Skyldi hún hafa verið notuð af Geirmundi heljarskinni og mönnum hans í verstöðinni á Vestfjörðum? Ekki er leiðin teiknuð inn á kort í bókinni Leitin að svarta víkingnum eftir Bergsvein Birgisson.
Sandsheiðin er einstaklega skemmtileg leið í fótspor genginna kynslóða.
Þegar á Rauðasand er komið verðlaunaði gönguhópurinn sig með veitingum í Franska kaffihúsinu en bílar höfðu verið ferjaðir daginn áður. Landslagið á staðnum er einstakt,afmarkast af Stálfjalli í austri og Látrabjargi í vestri og fyllt upp með gylltri fjöru úr skeljum hörpudisks.
Síðan var haldið að Sjöundá og rifjaðir upp sögulegir atburðir sem gerðust fyrir 215 árum þegar Bjarni Bjarnason og Steinunn Sveinsdóttir myrtu maka sína.
Að lokum var heitur Rauðasandur genginn á berum fótum og tekið í strandblak.
Dagsetning: 1. Ágúst 2017
Hæð: 488 metrar
Hæð í göngubyrjun: 16 metrar við Haukabergsrétt (N:65.28.833 - W:23.40.083)
Hvasshóll (488 m): (N:65.29.892 - W:23.46.578)
Móberg upphaf/endir (29 m): (N:65.28.194 - W:23.56.276)
Hækkun: 462 metrar
Uppgöngutími Hvasshóll: 180 mín (09:30 - 12:30) 8 km
Heildargöngutími: 360 mínútur (09:30 - 15:30)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 16 km
Veður kl. 12.00: Léttskýjað, ANA 3 m/s, 12,4 °C
Þátttakendur: Villiendurnar 9 þátttakendur
GSM samband: Já, mjög gott
Gestabók: Nei
Gönguleiðalýsing: Vel gróið land í upphafi og enda með mosavöxnum mel á milli um vel varðaða þjóðleið
Heimild:
Barðastrandarhreppur göngubók, Elva Björg Einarsdóttir, 2016
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.7.2017 | 16:27
Móskarðshnjúkur (807 m)
Eitt markmið hjá mér er að ganga á bæjarfjallið Esjuna að lágmarki einu sinni á ári. Í ár var haldið á Móskarðshnjúka en þeir eru áfastir Esjunni. Tekinn var Móskarðshringur frá austri til vesturs á hnjúkana þrjá.
Aðeins austasti hnjúkurinn hét Móskarðshnjúkur, hinir voru nafnlausir, en Móskörð var nafn á hnjúkaröðinni allri. Víst er að austasti hnjúkurinn er tignarlegastur, enda afmarkaður af djúpum skörðum á báða vegu. Þessir hnjúkar eru úr líparíti og virðist ævinlega skína á þá sól vegna þeirra ljósa litar.
Lagt var á Móskarðshnúk frá Skarðsá og haldið upp Þverfell og stefnan tekin fyrir ofan Bláhnjúk. Það var þoka á austustu tindunum en veðurspá lofaði jákvæðum breytingum. Leiðin er stikuð og vel sýnileg göngufólki. Reyndir göngumenn á Móskörð segja að leiðin sé greinilegri á milli ára.
Eftir að hafa gengið í rúma þrjá kílómetra á einum og hálfum tíma, þá var toppi Móskarðshnjúks náð en skýin ferðuðust hratt. Á leiðinni á toppinn á hnjúknum var stakur dökkur drangur sem gladdi augað. Það var hvasst á toppnum skýin ferðuðust hratt.
Útsýni gott yfir Suðvesturland, mistur yfir höfuðborginni. Fellin í Mosfellsbæ glæsileg, Haukafjöll og Þrínhnúkar. Vötnin á Mosfellsheiði sáust og hveralykt fannst, líklega frá Nesjavöllum. Skálafell, nágranni í austri með Svínaskarð sem var þjóðleið norður í land. Í norðri var Trana og Eyjadalur og í vestri voru Móskarðsnafnarnir, Laufskörð og Kistufell.
Glæsileg fjallasýn eða eins og Jón Kalmann Stefánsson skrifar í Himnaríki og Helvíti: "Fjöllin eru ekki hluti af landslaginu, þau eru landslagið."
Haldið var af toppnum niður í skarðið og leitað skjóls og nesti snætt. Síðan var haldið á miðhnjúkinn (787 m), síðan á þann austasta (732 m) og niður með Grjáhnjúk (Hrútsnef).
Þórbergur Þórðarson á skemmtilega lýsingu af líparítinu í Móskarðshnjúkum sem eru hluti af 1-2 milljón ára gamalli eldstöð (Stardalseldstöðinni) í Ofvitanum. En rigningarsumarið 1913 ætlaði hann að afla sér tekna með málningarvinnu. Það var ekkert sólskin á tindunum. Það var grjótið í þeim, sem var svona á litinn. Náðu Móskarðshnjúkar að blekkja meistarann í úrkominni.
Tignarlegur Móskarðshnjúkur, 807 metrar. Trana (743 m) tranar sér inn á myndina til vinstri og Skálafell með Svínaskarð á milli er til hægri.
Dagsetning: 25. júlí 2017
Hæð: 807 metrar
Hæð í göngubyrjun: 130 metrar við Skarðsá
Hækkun: 677 metrar, heildarhækkun 814 metrar
Heildargöngutími: 240 mínútur (11:00 - 15:00)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 8 km
Veður kl. 12.00 Þingvellir: Skýjað, S 3 m/s, 15,4 °C og 69% raki
Þátttakendur: Skál(m), 3 þátttakendur
GSM samband: Já, mjög gott
Gönguleiðalýsing: Gróið land og brattar skriður
Heimildir
Íslensk fjöll, Gönguleiðir á 151 tind, Ari Trausti Guðmundsson og Pétur Þorleifsson
Morgunblaðið, Bæjarfjallið Esja, Sigrún Huld Þorgrímsdóttir, 25. nóvember 2000.
Ferðalög | Breytt 26.8.2017 kl. 21:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.7.2017 | 16:10
Elon Musk
Elon Musk er enginn venjulegur maður. Fremstur frumkvöðla í dag og er að skapa framtíð sem er í anda gullaldar vísindaskáldskaparins.
Var að klára vel skrifaða kilju um forstjóra SpaceX, milljarðamæringinn, frumkvöðulinn, fjárfestinn, verkfræðinginn og uppfinningamanninn Elon Musk eftir Ashlee Vance. En nafnið Musk hefur oft heyrst í sambandi við nýsköpun, sjálfbærni og frumkvöðlastarfsemi undanfarið.
Ævi
Elon Musk fæddist í Pretoríu í Suður Afríku 28. júní 1971 og er því 46 ára gamall. Hann átti erfiða æsku, lenti í einelti og foreldrar hans skildu. Bjó hann hjá föður sínum en foreldrar hans og afar og ömmur voru ævintýragjarnt fólk. Hann virðist hafa verið á einhverfurófi. Elon var einfari og nörd, öfugt við systkini sín, hann las mikið og mundi allt sem hann las. Þegar allar bækur á bókasafninu höfðu verið lesnar, sérstaklega ævintýrabækur, sci-fi og teiknimyndasögur fór hann að lesa Encyclopaedia Britannica alfræðiorðabókina.
Forritunarhæfileikar fylgdu í vöggugjöf og 10 ára gamall lærði hann upp á eigin spýtur forritun. Tólf ára gamall skrifaði hann tölvuleikinn Blastar og seldi tölvutímariti. Hann var nörd!
Þegar hann útskrifaðist úr menntaskóla 18 ára ákvað hann að fara til Kanada en móðurætt hans kom þaðan. Aðskilnaðarstefnan í Suður Afríku og vandamál tengd henni gerðu landið ekki spennandi fyrir snilling.
Í Kanada vann hann fyrir sér og gekk í háskóla en draumurinn var að flytja til Bandaríkjanna og upplifa drauminn þar í Silicon Valley. Eftir háskólanám í Pennsylvaniu hóf hann árið 1995 doktorsnám í Stanford University í Kaliforníu og stofnaði með bróður sínum nýsköpunarfyrirtæki sem vann að netlausninni Zip2. Eftir mikla vinnu þá var fyrirtækið selt til Compaq fyrir gott verð. Var hann þá orðinn milljónamæringur. Þá var ráðist í næsta sprotaverkefni sem var X.com, rafrænn banki sem endaði í PayPal. Fyrirtækið var síðan selt eBay uppboðsfyrirtækinu og söguhetjan orðinn yngsti milljarðamæringur heims.
Næsta skref var að láta æskudraum rætast,nýta auðæfin og helga sig geimnum. Árið 2002 stofnaði hann geimferðafyrirtækið SpaceX sem hannar endurnýtanlegar geimflaugar. Markmiðið er að flytja vörur út í heim og hefja landnám á reikistjörnunni Mars. Þegar geimævintýrið var komið vel á veg þá stofnaði hann rafbílafyrirtækið Tesla sem og markmiðið sjálfbærir og sjálfkeyrandi bílar.
Einnig er hann stjórnarformaður í SolarCity, ráðgjafarfyrirtæki sem innleiðir sjálfbærar lausnir fyrir húseigendur.
Það er áhugavert að sjá hvað Musk lagði mikið á sig til að koma netfyrirtækjum sínum áfram, stanslaus vinna og uppskeran er ríkuleg.
Musk telur að lykillinn að sköpunargáfu sinni hafi komið frá bókalestri í æsku, sérstaklega teiknimyndasögunum en þar er ímyndunaraflið óheft.
Stjórnunarstíll
Í bókinni er stjórnunarstíll Musk ekki skilgreindur en hann lærði á hverju nýsköpunarfyrirtæki sem hann stofnaði og hefur þróað sinn eigin stjórnunarstíl. En Musk er kröfuharður og gerir mestar kröfur til sjálfs sín. Einnig byggði hann upp öflugt tengslanet fjárfesta og uppfinningamanna sem hentar vel í skapandi umhverfi Silicon Valley.
Ég fann grein á netmiðlinum Business Insider um stjórnunarstíl Musk og kallar hann sjálfur aðferðina nanó-stjórnun. En hún er skyld ofstjórnun (e. micro-management) þar sem stjórnandi andar stöðugt ofan í hálsmál starfsfólks og krefur það jafnvel um að bera allt undir sig sem það þarf að gera. Musk segir að hann sé ennþá meira ofan í hálsmáli starfsfólks! (more hands-on).
Þessi stjórnunarstíll byggist á að sögn Musk: "I always see what's ... wrong. Would you want that? When I see a car or a rocket or spacecraft, I only see what's wrong."
"I never see what's right," he continued. "It's not a recipe for happiness."
Framtíðarsýn Musk
Er að endurskilgreina flutninga á jörðinni og í geimnum.
Lykilinn að góðu gengi fyrirtækja Musk er skýr framtíðarsýn. Hjá SpaceX er framtíðarsýnin: Hefja landnám á reikistjörnunni Mars og hvetur það starfsmenn áfram og fyllir eldmóði. Þeir eru að vinna að einstöku markmiði.
Framtíðarsýnin hjá Tesla er sjálfbær orka og að ferðast í bíl verður eins og að fara í lyftu. Þú segir honum hvert þú vilt fara og hann kemur þér á áfangastað á eins öruggan hátt og hægt er.
Musk hefur skýra sýn með framleiðslu rafbíla, sjálfbærni í samgöngum. Í hönnun er Gigafactory verksmiður sem framleiða liþíum rafhlöður sem knýja mun Tesla bílana í framtíðinni.
Fyrir vikið hefur Musk náð að safna að sér nördum, fólki sem var afburða snjallt á yngri árum og með svipaðan sköpunarkraft hann sjálfur.
Það gengur vel hjá fyrirtækjum Musk núna en það hefur gengið á ýmsu. Á því kunnuga ári 2008 urðu fyrirtækin næstum gjaldþrota.
Í nýlegri frétt um SpaceX er sagt frá metári en níu geimförum hefur verið skotið á loft og Tesla hefur hafið framleiðslu á Model 3 af rafbílnum og eru á undan áætlun.
Einkaleyfi Tesla á uppfinningum tengdum rafbílunum hafa verið gefin frjáls. Fyrirtækið er rekið af meiri hugsjón en gróðavon.
Bækur | Breytt 10.7.2017 kl. 08:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.6.2017 | 16:23
Land föður míns
Ich bin ein Berliner!
Ég heimsótti Berlín í vor yfir helgi, naut lífsins og kynntist sorglegri sögu borgarinnar. Hótelið var á Alexanderplatz stutt frá helsta stolti Austur-Þýskalands, 368 m háum sjónvarpsturni milli Maríukirkjunnar og rauða ráðhússins, en hverfið tilheyrði Austur-Berlín og því sáust styttur af Karl Marx og Friedrich Engels í almenningsgörðum. Húsin í hverfinu voru í austurblokkarstíl en þegar gengið var eftir skemmtigötunni: Unter den Linden", sem er veglegasta gatan í Berlín tók glæsileikinn við.
Þar var Humboldt háskólinn sem hefur alið 29 nóbelsverðlaunahafa, Dómkirkjan, DDR-safnið, safnaeyjan, glæsileg sendiráð, áin Speer með fljótabátinn Captain Morgan. Trabantar í öllum litum vöktu athygli og við enda götunnar er helsta kennileiti Berlínar, Brandenborgarhliðið. Skammt frá hliðinu er Þinghús Þýskalands með sína nýtísku glerkúlu.
Íslenska sendiráðið í Berlín var einnig heimsótt en það er sameiginlegt með Norðmönnum, Svíum, Finnum og Dönum. Flott hönnun, sameiginleg móttaka en sjálfstæðar sendiráðsbyggingar. Vatnið milli sendiráðanna á reitnum táknar hafið á milli landanna.
Í mat og drykk var þýskt þema. Hofbrau-Berlin var heimsótt, ekta þýskur bjórgarður og snætt svína schnitzel með Radler bjór. Síðar var Weihnstephan veitingastaðurinn heimsóttur og snætt hlaðborð frá Ölpunum sem vakti mismikla lukku.
Í borgarferðum er nauðsynlegt að fara í skipulagða skoðunarferð og þá bættist við sagan um 17. júní strætið, leifar af Berlínarmúrnum sem klauf borgina í tvennt, nýbyggingar á dauða svæðinu á Potsdamer Platz, Neukölln, Tempelhof flugvöllurinn, Bessastaði Þýskalands, Bellevue Palace eða forsetahöllina, tómt heimili kanslarans en núverandi kanslari, Angela Merkel býr í eigin íbúð, umhverfisvænt umhverfisráðuneyti, Checkpoint-charlie, Zoo Station sem minnti á Actung Baby plötu U2, heimili Bowie á Berlínarárum hans, höfuðstöðvar Borgarlínu Berlínar, HB, kebab, aspars og Berliner weissbier.
Hjá Zoo Station mættust gamli og nýi kirkjutíminn. Hálfsprengd minningarkirkja Vilhjálms keisara minnti á heimsstyrjöldina síðari en hryðjuverk voru framin þarna 19. desember 2016 þegar 11 létust er vörubifreið var ekið á fólk á jólamarkaði.
Minningarreitur um Helförina var heimsóttur. 2.711 misstórar gráar steinblokkir sem minna á líkkistur. Aldrei aftur kom í hugann. Kaldhæðnislegt að jarðhýsi Hitlers var stutt frá.
Áhrifamikill staður var minningarreitur í Treptower Park um sovéska hermenn sem féllu í orrustunni um Berlín í apríl-maí 1945. Um 80.000 féllu og eru 5.000 hermenn Rauða hersins grafnir þarna.
Á leiðinni að stærsta minnismerkinu, 12 metra styttu af hermanni með sverð og brotinn hakakross, haldandi á barni voru steinblokkir sem táknuðu eitt af ráðstjórnarríkjunum.
Land föður míns
Þegar hugurinn reikaði um orrustuna um Berlín í Treptower garðinum þá rifjaðist upp að hafa heyrt um bók, Land föður míns eftir þýsku blaða- og sjónvarpskonuna Wibke Bruhns. Ég varð ákveðinn í að kaupa þessa bók og lesa strax við heimkomu.
Bókin er stórmerkileg og mjög áhrifamikil eftir stutta Berlínarferð. Maður lifði sig betur inn í söguna og hápunkturinn er þegar Wibke lýsir gönguferð föður síns eftir götunni Unter den Linden eftir loftárás bandamanna. Flestar byggingar hrundar og eldur logaði víða. Vatnslaust og rústir þriðja ríkisins blasa við. Þetta kallaði á gæsahúð.
Lesandinn fær beint í æð í einum pakka sögu Þýskalands allt frá því það var keisaradæmi, atburðarás tveggja styrjalda og hina undarlegu sögu millistríðsáranna með uppgangi Nasista. Um leið og höfundurinn rekur sögu fjölskyldu sinnar reynir hún að greina afstöðu þeirra og þátttöku í voðaverkum stríðsins.
Wibke hefur úr miklu magni af skjölum föður síns og ættar sinnar Klamrothanna í Halberstadt sem voru efnamiklir kaupsýslumenn og iðnjöfrar. Hún nær að kynnast foreldrum sínum upp á nýtt og miðla okkur af heiðarleika, ekkert er dregið undan.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.4.2017 | 13:36
Þórbergur í Tjarnarbíó
Sá sem veitir mannkyninu fegurð er mikill velgerðarmaður þess. Sá sem veitir því speki er meiri velgerðarmaður þess. En sá sem veitir því hlátur er mestur velgerðarmaður þess. - Þórbergur Þórðarson
Öll þrjú boðorð Þórbergs eru uppfyllt í þessari sýningu, Þórbergur í Tjarnarbíó. Maður sá meiri fegurð í súldinni, maður var spakari og maður varð glaðari eftir kvöldstund með Þórbergi.
Er ungur ég var á menntaskólaárunum, þá fór ég á Ofvitann í Iðnó og skemmti mér vel. Man mjög vel eftir frábærum samleik Jóns Hjartarsonar og Emils Guðmundssonar. Nýja leikritið ristir ekki eins djúpt.
Ef hægt er að tala um sigurvegara í leiksýningunni er það Mamma Gagga sem leikin er af Maríu Hebu Þorkelsdóttur. Hún fær sitt pláss og skilar því vel. Á eftir verður ímynd hennar betri. Líklega er það út af því að með nýlegum útgáfum bóka hefur þekking á hlutverki hennar aukist og svo er verkið í leikgerð Eddu Bjargar Eyjólfsdóttur og þaðan kemur femínísk tenging.
Leikmynd er stílhrein og einföld. Viðtal í byggt á frægum viðtalsþætti, Maður er nefndur og spurningar sóttar í viðtalsbók, í kompaní við allífið. Sniðug útfærsla. Sveinn Ólafur Gunnarsson skilar Magnúsi spyrli og vel og verður ekki þurrausinn. Friðrik Friðriksson á ágæta spretti sem Þórbergur. Sérstaklega fannst mér hann góður þegar hann tók skorpu í Umskiptingastofunni með Lillu Heggu í Sálminum um blómið. Stórmerkar hreyfimyndir af Þórbergi að framkvæma Mullersæfingar lyfta sýningunni upp á æðra plan.
Mannbætandi sýning og ég vona að fleiri sýningar verði fram eftir ári. Meistari Þórbergur og listafólkið á það skilið.
28.2.2017 | 14:01
Einbreiðar brýr í Ríki Vatnjaökuls - endurskoðað áhættumat
Undirritaður endurskoðaði áhættumat fyrir einbreiðar brýr í Ríki Vatnajökuls um síðustu helgi og greindi umbætur frá áhættumati sem framkvæmt var fyrir tæpu ári síðan. í ágúst 2016 var framkvæmt endurmat og hélst það óbreytt. Þingmönnum Suðurkjödæmis, Vegagerðinni og fjölmiðlum var sent áhættumaið ásamt myndum af öllum einbreiðum brúm.
1) Það eru komin blikkljós á allar 21 einbreiðu brýrnar í Ríki Vatnajökuls, blikkljós voru aðeins fjögur fyrir ári síðan.
2) Undirmerki undir viðvörun: 500 m fjarlægð að hættu. Þetta merki er komið á allar einbreiðar brýr í Ríki Vatnajökuls.
3) Lækkun á hraða á Skeiðarárbrú.
Snjór og hálkublettir voru á vegi svo ekki sá vel á málaðar aðvaranir á veg, þrengingar og vegalínur.
Það er mikil framför að hafa blikkljós, þau sjást víða mög vel að, sérstaklega þegar bein aðkoma er að vegi.
Því breyttist áhættumatið á 8 einbreiðum brúm. Sjö fóru úr áhættuflokknum "Dauðagildra" í áhættuflokkinn "Mjög mikil áhætta".
Ein einbreið brú, Fellsá fór í mikil áhætta en blikkljós sést vel.
Hins vegar þarf að huga að því að hafa tvö blikkljós eins og á Jökulsá á Sólheimasandi en öryggi eykst, t.d. ef peran springur eða verður fyrir hnjaski en fylgjast þarf með uppitíma blikkljósanna.
Því ber að fagna að þessi einfalda breyting sem kostar ekki mikið hefur skilað góðum árangri. Ekkert alvarlegt slys hefur orðið síðan blikkljósin voru sett upp en umferð ferðamanna, okkar verðmætasta auðlind, hefur stóraukist og mikið er um óreynda ferðamenn á bílaleigubílum á einum hættulegasta þjóðveg Evrópu.
T.d. var svo mikið af ferðamönnum við Jökulsárlón að bílastæði við þjónustuhús var fullt og bílum lagt alveg að veg og þurftu sumir að leggja á bakkanum vestan meginn og ganga yfir Jökulsárbrú með allri þeirri hættu sem því fylgir.
ROI eða arðsemi fjárfestingar í blikkljósum er stórgott. Merkilegt að það blikkljósin hafi ekki komið fyrr.
En til að Þjóðvegur #1 komist af válista, þá þarf að útrýma öllum einbreiðum brúm. Þær eru 21 í Ríki Vatnajökuls en 39 alls á hringveginum.
Nú þarf metnaðarfulla áætlun um að útrýma þeim, komast úr "mjög mikil áhætta" í "ásættanlega áhætta", en kostnaður er áætlaður um 13 milljarðar og hægt að setja tvo milljarða á ári í verkefnið. Þannig að einbreiðu brýrnar verða horfnar árið 2025!
Útbúin hefur verið síða á facebook með myndum og umsög um allar einbreiðu brýrnar, 21 alls í Ríki Vatnajökuls.
https://www.facebook.com/EinbreidarBryr/
Fleiri mögulegar úrbætur á meðan einbreitt ástand varir:
- Draga úr ökuhraða þegar einbreið brú er framundan í tíma
- Hraðamyndavélar.
- Útbúa umferðarmerki á ensku
- Fræðsla fyrir erlenda ferðamenn
- Virkja markaðsfólk í ferðaþjónustu, fá það til að ná athygli erlendu ferðamannana á hættunni án þess að hræða það
- Nýta SMS smáskilaboð eða samfélagsmiðla
- Betra viðhald
Akstur og áfengi
Akstur og áfengi fer ekki saman. Nú fer öll orka í svokallað áfengisfrumvarp. Í frétt frá Landlækni á ruv.is kemur í ljós að samfélagslegur kostnaður á ári getið orðið 30 milljarðar á ári sverði meingallað áfengisfrumvarp að lögum.
Hér er frétt á ruv.is: Samfélagskostnaður yfir 30 milljörðum á ári.
"Rafn [hjá Landlækni] segir að rannsóknirnar sýni að kostnaður þjóðarinnar yrði ekki eingöngu heilsufarslegur, heldur líka einfaldlega efnahagslegur. Hann gæti numið yfir þrjátíu milljörðum króna á ári."
En það kostar 13 milljarða að útrýma einbreiðum brúm á þjóðveginum. Rúmlega tvöfalt meiri kostnaður verði áfengisfrumvarp að lögum!
Upp með skóflurnar og hellum niður helv... áfengisfrumvarpinu. Annars má hrósa þingmönnum Suðurkjördæmis, sýnist hlutfallið endurspegla þjóðina en um 75% landsmanna eru á móti áfengisfrumvarpinu, svipað hlutfall og hjá þingmönnum Suðurkjördæmis.
7.2.2017 | 09:18
Frá monopoly til duopoly
Sjálfstæðismenn eru hugmyndasnauðir eins og áður fyrr og enn dúkkar áfengisfrumvarp upp en skoðanakannanir Maskínu og Fréttablaðsins sýna að Íslendingar vilja ekki áfengi í matvöruverslanir. Áfengisfrumvarpið, er eins og allir vita smjörklípa sem sjálfstæðismenn grípa til og leggja fram á Alþingi þegar vond mál skekja flokkinn.
Auk þess sýna rannsóknir vísindamanna að aukið aðgengi hefur neikvæð áhrif á samfélagið.
Hér er t.d. rannsókn frá Washington:
(2014) Alcohol Deregulation by Ballot Measure in Washington State
Afleiðingar þess að hafa lagt niður einkaleyfi ríkis á sölu áfengis í Washington-fylki árið 2011
Niðurstaða:
- Ávinningur íbúa Washington fylkis var rýr. Áfengisverð hækkaði strax um 12%.
- Of snemmt að meta samfélagsleg áhrif.
- Þeir sem hafa hagnast á nýju reglugerðinni eru Costco og aðrar stórar verslunarkeðjur.
- Minni búðir gátu ekki keppt við stóru verslunarkeðjurnar. Margar vínverslanir urðu gjaldþrota.
- Reglugerðin leiddi til þess að markaðinum er stjórnað af stóru verslunarkeðjunum (monopoly to a duopoly).
- Reglugerðin samin þannig að gjöld voru lögð á heildsala en ekki smásala, þ.a. stóru verslunarkeðjurnar sluppu.
- Minni áfengisframleiðendur eiga erfiðara uppdráttar.
- Þjófnaður jókst.
...og svo var gerð könnun tveimur árum seinna um hvort kjósendur myndu kjósa öðruvísi eftir að vita afleiðingarnar (Aflögn einkaleyfis fór sem sagt í þjóðaratkvæðagreiðslu).
(2016) Opinions on the Privatization of Distilled-Spirits Sales in Washington State: Did Voters Change Their Minds?
http://www.jsad.com/doi/abs/10.15288/jsad.2016.77.568
Myndu kjósendur kjósa öðruvísi í I-1183 ef þeir hefðu séð inn í framtíðina?
Niðurstaða:
- Þeir sem kusu já eru átta sinnum líklegri til að kjósa öðruvísi núna heldur en þeir sem kusu nei.
- Það er ekki fylgni á milli þessara breytinga og skoðanir kjósenda á sköttunum.
- Mikilvægt fyrir lönd/ríki sem íhuga einkavæðingu að skoða þessa niðurstöðu.
4.12.2016 | 16:00
Hlýindi á Dalatanga
Hitamet eru slegin á Dalatanga núna í vetur. Núna í desember er 16,2 stiga hiti og í nóvember fór hitinn yfir 20 gráður. Loftslagsbreytingar eru orsökin. Ekki grunaði mig að heyra þessar hitatölur er ég heimsótti Dalatanga í sumar.
Eftir að hafa heimsótt Mjóafjörð er tilvalið að heimsækja Dalatanga. Leiðin út á Dalatanga liggur eftir mjóum slóða sem fikrar sig út eftir Mjóafirði, 15 km löng. Ekið er meðfram skriðum og hamrabrúnum, framhjá fossum og dalgilum. Maður fagnaði því að umferð var lítil. Er Dalatangi birtist, er því líkast sem sé maður staddur á eyju inn í landi. Austar er ekki hægt að aka. Við Dalatangavita opnast mikið útsýni til norðurs allt að Glettingi og inn í mynni Loðmundarfjarðar og Seyðisfjarðar. Í suðri sér inn í minni Norðfjarðar.
Vitarnir tveir sem standa á Dalatanga eiga sér merka sögu, sá eldri reistur að frumkvæði norska útgerðar- og athafnamannsins Ottos Wathne 1895. Hann er hlaðinn úr blágrýti og steinlím á milli. Yngri vitinn sem er enn í notkun, reistur 1908. Á Dalatanga er fallegt býli og túnjaðrar býlisins nema við sjávarbrúnir.
Krúttlegi gamli vitinn á Dalatanga, Dalatangaviti. Byggður 1895 úr grjóti að frumkvæði Otto Wathne. Einn elsti viti landsins. Seyðisfjörður í bakgrunni.
Kólnar en áfram milt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 22.12.2016 kl. 15:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 2
- Sl. sólarhring: 8
- Sl. viku: 55
- Frá upphafi: 233601
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 47
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar