Litli-Meitill (467 m) og Stóri-Meitill (521 m)

Meitillinn var stórt fiskvinnslufyrirtæki í Þorlákshöfn en endaði í hagræðingu kvótakerfisins. Fyrirtækið átti tvo togara, kennda við biskupana Þorlák og Jón Vídalín. Til er veitingastaður í bænum sem heitir Meitillinn veitingahús. Meitlarnir tveir, Stóri og Litli hafa því mikil ítök í sjálfsmynd sveitarfélagsins Ölfus.

Það var fallegur haustdagur þegar gengið var á Meitlana við Þrengslaveg. Valin var skemmtileg leið sem hófst sunnan við Meitilstagl og þaðan gengið á Litla-Meitil. Á leiðinni upp taglið sáum við í Eldborgarhrauni fólk sem var við myndatöku.  Eftir áreynslulausa göngu, 2 km á rúmum klukkutíma, var komið á topp Litla-Meitils og sá þá vel yfir Ölfusið. Næst okkur í norðri var stóri bróðir og sást í gíginn fallega. Í vestri voru Krossfjöll, Geitafell, Litla-Sandfell, Heiðin há, Bláfjöll með sínum fjallgarði. Skálafell í Hellisheiði bar af í austri. Nær sáust Stóra-Sandfell og Eldborgir tvær sem hraunið er kennt við sem rann fyrir 2.000 árum.

Meitlarnir eru úr móbergi og hefur smá minni ekki náð upp úr jökulskildinum en sá stærri hefur náð í gegn enda skilur hann eftir sig fallegan gíg, leyndarmál sem er um 500 metrar á lengd og 350 metrar á breidd.

Næst var að ganga á Stóra-Meitil og þá tapaðist hæð en farið var um Stórahvamm, landið milli Meitla, eftir mosavöxnu hrauni. Það er skylda göngumanna að ganga kringum gíginn og best að halda áfram réttsælis.  Tilvalið að taka nestisstopp í miðjum gígnum.  Af gígbarminum  sér vel í sundurtætt Lambafell og Hveradali með sín fjöll og virkjun. Stakihnúkur sést vel úr gígopinu en margir sem ganga bara á Stóra-Meitil fara á hann í leiðinni. En hann mun vera erfiður viðureignar.

Þegar könnun á gígnum var lokið var haldið til baka og farið niður gróið gil til austur í Stórahvammi og gengið milli Eldborgarhrauns og fjallsins. Þegar við nálguðumst upphafsstað, þá sáum við kvikmyndafólkið í hrauninu og fyrirsætur. Það er krefjandi vinna að vera í þessum bransa. Líklega var verð að taka upp auglýsingu fyrir útivistarframleiðandann 66° Norður. Ekki fékk ég boð um hlutverk en skelin sem ég var í ber þeirra merki.

Á leiðinni er trjálundur sem Einar Ólafsson fjallamaður ræktaði og vekja grenitrén eftirtekt út af því að ekki sést í nein tré á löngu svæði, hér er ríki mosans.

Fari fólk vestan megin Litla-Meitils í Meitlistaglinu er áhugaverður bergfláki, Votaberg en þar seytlar vant niður bergveggina.  Hrafnaklettur er norðar.

Litli-Meitill   tindur

Toppur Litla-Meitils

Dagsetning: 30. september 2018
Hæð: 521 metrar
Hæð í göngubyrjun: 211 metrar við Meitlistagl (N:63.57.730  - W:21.26.963)

Litli Meitill (467 m): (N:63.58.544 – W:21.26.261)
Stóri Meitill (521 m): (N:64.00.024 - W:21.25.940)
Hækkun: 310 metrar
Uppgöngutími Stóri Meitill: 100 mín (09:00 - 12:00) 5,0 km
Heildargöngutími: 300 mínútur (09:00 - 14:00)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 11,1 km
Veður kl. 11.00 - Hellisheiði: Skýjað, SV 2 m/s, 2,0 °C, raki 82%   næturfrost
Þátttakendur: Fjallkonur 7 þátttakendur 
GSM samband: Já
Gestabók: Nei
Gönguleiðalýsing: Ganga í mosavöxnu landslagi.  Greiðfærir melar og gróði land neðantil. Auðvelt uppgöngu og áhugaverð náttúrusmíð.

Facebook-status: Endalaust þakklát fyrir að geta þetta, takk fyrir Meitla-gönguna elsku fjallafélagar ðŸ˜˜Báðir toppaðir í yndislegu veðri og haustlitum

 

Heimild:

Íslensk fjöll. Gönguleiðir á 151 tind.


Geitafell (509 m)

Geitafell er 509 metrar á hæð og klætt fallegri mosakápu. Það er vestan Þrengslavegar. Fellið stendur stakt og á góðum degi er afar víðsýnt af því. Það var bjart í norðri þegar lagt var í gönguna en blikur á lofti í suðurátt.

Geitafell er móbergsstapi og hefur myndast við gos undir jökli, en gosið hefur ekki náð upp úr ísaldarjöklinum. Misgengi liggur eftir endilöngu fellinu frá suðvestri til norðausturs. Austurhlutinn hefur sigið nokkuð og sést það vel á loftmyndum.

Geitafellin eru fjögur víða um landið skv. Kortabók Íslands og hafa forfeður okkar fundið geitur eða haft geitur á beit í fellunum. En geitarstofninn á Íslandi er í útrýmingarhættu en fjöllin hverfa ekki. Og þó. Mikið malarnám er í Lambafelli og sótt hart að efni úr norður og suðurátt.

Gengið frá malarnáminu í Litla-Sandfell yfir Þúfnavelli að rótum Geitafells en þar er vegvísir. Eftir hálftíma göngu er komið að honum og um 200 metra brött hækkun tekur við. Eftir það er létt hækkun að Landmælingavörðu á hæsta punkti.

Þegar á toppinn var komið var skollið á mikið óveður, úrkoma og rok úr austri, því var snúið strax til baka og leitað að skjóli fyrir nestispásu.  Það munaði mikið á 50 metra lækkun en veðrið lagaðist mikið þegar neðar dró.

Útsýni á góðum degi er gott yfir Ölfusið og hraunin í kring. Bláfjöll, Heiðin há í vestri. Laskað Lambafell eftir malarnám, Meitlarnir tveir, Litla-Sandfell, Ingólfsfjall, Skálafell, Krossfjöll og Hekla.  Þorlákshöfn sást í þokumóðunni og var draugaleg að sjá. Ölfusá og Flói voru áberandi í landslaginu.

Hægt er að halda áfram í suður niður af fjallinu og lengist gangan þá í 12-13 km.  Einnig er hægt að ganga hringinn í kringum Geitafellið og tekur sú ganga um 4 klst. og er 11,5 km löng.

Þegar göngu var lokið við Litla-Sandfell sáum við mikið af forhlöðum, plasthylkjum frá haglskotum en greinilegt að þarna er skotsvæði Ölfusinga. Mikil sjónmengun og vont að sjá. Plastmengun í plastlausum september var áfall og skemmdi upplifunina.  Bæjaryfirvöld í Ölfusi eiga að hreinsa svæðið fyrir fyrsta snjó vetrarins.

Geitafell

Geitafell í Ölfusi klætt fallegri mosakápu. Ganga þarf um 2 km yfir grasi gróna velli að rótum fellsins.

Dagsetning: 15. september 2018
Hæð: 509 metrar
Hæð í göngubyrjun: 225 metrar við Litla-Sandfell (N:63.57.368  - W:21.28.243)

Vegamót: 247 m við Geitafell (N:63.57.368 – W:21.30.516)
Geitafell (509 m): Landmælingavarða (N:63.56.365 - W:21.31.516)
Hækkun: 284 metrar
Uppgöngutími Geitafell: 100 mín (08:40 - 10:20) 4,0 km
Heildargöngutími: 200 mínútur (08:40 - 12:00)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 8,8 km
Veður kl. 10.00 - Hellsheið: Alskýjað, A 6 m/s, 4,0 °C, raki 94%
Þátttakendur: Fjallkonur 5 þátttakendur, 2 hundar. 
GSM samband: Já
Gestabók: Nei
Gönguleiðalýsing: Ganga í mosavöxnu landslagi. Auðvelt uppgöngu og hentar vel fyrir byrjendur í fjallamennsku.

 

Heimildir

Íslensk fjöll. Gönguleiðir á 151 tind.
Kortabók Ísland


Arcade Fire og Ísbúð Vesturbæjar

Það voru stórmagnaðir og orkumiklir tónleikar hjá kanadísku indí rokkbandinu Arcade Fire í Nýju Laugardalshöllinni á þriðjudagskvöldið.  Um 4.300 gestir mættu og upplifðu kraftinn á AB-svæði. Stórmerkilegt að ekki skyldi vera uppselt en þarna eru tónlistarmenn í þungavigt á ferð.

Mikil umræða hefur verið um sölu og svæðaskiptingu á tónleikunum en ég var einn af þeim rúmlega fjögur þúsund manns sem keypti miða í A-svæði. Því kom það mér á óvart þegar gengið var inn í salinn að enginn svæðaskipting var.  Ég var ekki að svekkja mig á því að hafa  ekki keypt B-miða. Hugsaði til ferðalaga í flugvélum eða strætó, þar ferðast menn á misjöfnum gjöldum en sitja svo saman í einni kös. Ég skil vel ákvörðunartöku tónleikahaldara um AB-svæði, sérstaklega ef þetta hafa verið 79 miðar.

Ég kynntist Arcade Fire góðærisárið 2007 en þá gaf sveitin út diskinn Neon Bible og var það eini diskurinn sem ég keypti það árið. Var hann víða talinn einn besti gripur ársins af álistgjöfum í tónlist. Ég get tekið undir það og hlustaði mikið á hann í iPod-inum mínum.  Síðan hef ég lítið fylgst með sveitinni og missti af þrem síðustu plötum sveitarinnar, The Suburbs, Reflektor og Everyting Now.

Arcade Fire

Sviðsframkoman var stórbrotin og fagmannleg. Fyrst hittust meðlimir á réttum tíma fyrir framan sviðið, tóku hópknús eins og íþróttalið gera og fóru í gegnum áhorfendaskarann og gáfu fimmur. Margir símar sáust á lofti. Síðan hófst tónlistarveislan með titillaginu Everything Now. Lagið er undir ABBA-áhrifum í byrjun, það fór rólega af stað en svo bættust öll möguleg hljóðfæri sem leikið var á af gleði og innlifun og krafturinn varð hrikalegur. Tónninn var sleginn!  

Söngvarinn stæðilegi og stofnandi sveitarinnar Win Butler fór fyrir liðinu og steig á stokk í rauðu skónum sínum og reif gítar hátt á loft. Ekki  ósvipað og kyndilberi á Ólympíuleikum sem er að fara að tendra eldinn. Bróðir hans William Butler fór hamförum á sviðinu og var gaman að fylgjast með honum. Hann hoppaði á milli hljóðfæra, spilaði á hljómborð, barði á trommu og spilaði á gítar og stóð upp á hljómborðum. Hann ferðaðist kófsveittur um sviðið eins og api en kom ávallt inn á réttum stöðum. Magnað. 

Alls voru níu liðsmenn Arcade Fire á sviðinu sem þakið var hljóðfærum. Mörg hljómborð og hljóðgervlar voru og tvö trommusett. Skiptust þeir reglulega á að spila á hljóðfæri af innlifun og minntu mig á Ljótu hálfvitana frá Húsavík.

Krafturinn og hljómurinn var mikill í byrjun og fjögur fyrstu lögin spiluð í einum rykk á háu tempói. Aðdáendur tóku vel við enda þekktir slagarar. Svo kom þakkarræðan um Ísland og hrósaði hann Björk mikið. Hún hafði mikil áhrif á bandið.

Sviðið og ljósin komu vel út í Höllinni og mynduðu stórbrotna umgjörð um tónleikana og gaman að bera saman þegar vinalega upphitunarhljómsveitin Kiriyama Family spilaði raftónlist fyrr um kvöldið. En þá voru ljós og myndræn framsetning ekki notuð. Tónleikagestir voru hrifnir og dönsuðu, sungu og klöppuðu taktfast í hitanum og svitanum.

Ég komst að því að vera illa lesin því síðari hluti tónleikanna var með nýjum lögum og þekkti ég þau ekki en fólkið í salnum tók vel undir. Ég hef síðustu daga verið að hlusta á lög af skífunni Everyting Now og líkar þau betur og betur. Margar laglínur hljóma nú fallega í hausnum á mér. Einna helst hefur enduruppgötvun mín á lögum Electric Blue og Sprawl II (Mountains Beyond Mountains) sem Régine Chassagne söng vaxið mjög en ég tengdi ekki við þau þegar hún flutti þau á sviðinu. Eina lagið sem ég saknaði var Intervention.

Þetta var skemmtilegt kvöld og gaf manni mikinn eldmóð fyrir veturinn.

Win Butler

Daginn eftir tónleikana átti ég leið í Ísbúð Vesturbæjar í Vesturbænum og var þá ekki stórsöngvarinn í Arcade Fire, Win Butler staddur þar og að kaupa sér bragðaref. Hann var klæddur í gallajakka merktum NOW-tónleikaferðinni.  Það var töluverður fjöldi krakka að versla  sér ís og létu þau hinn heimsfræga tónlistarmann algjörlega í friði. Kurteist fólk, Íslendingar. Líklegast er að þau hafi ekki vitað af því hver þetta var en landi hans Justin Bieber hefði ekki fengið að vera í friði. Svona er kynslóðabilið í tónlistinni.


mbl.is Enginn gestur leið fyrir ákvörðunina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endurskoðað áhættumat - einbreiðar brýr í Ríki Vatnajökuls

Áhættumat frá 24. júní 2018. Öll blikkljós virkuðu en mála má merkið vegur mjókkar á veg, eru víða afmáðar. Framkvæmdir við Hólá og Stigá virðast ganga vel. Sér í veg fyrir nýja brú yfir Hornafjarðarfljót. Áhættumat því óbreytt frá síðustu úttekt.

Í haust verða einbreiðu brýrnar orðnar 18. Vonandi tekst stjórnvöldum að minnka áhættu fyrir ferðamenn með því að útrýma einbreiðum brúm á þjóðveginum. 
Um 2.200 bílar fóru yfir brýrnar þennan dag eða 11 sinnum meiri umferð en markmiðið sem sett var í samgönguáætlun 2011 um að útrýma einbreiðum brúm með umferð meira en 200 bíla á dag.

Umferðin laugardaginn 21. júlí á milli Reykjavíkur og Akureyrar var 2.495 bílar hjá Gauksmýri sem er skammt frá Miðfjarðarbrú. Hjá Kvískerjum fóru á sama tíma 2.283 bílar. Litlu færri. Enn eru 20 einbreiðar brýr á leiðinni á milli Reykjavíkur og Hornafjarðar.
Tökum norðurleiðina til fyrirmyndar. Gerum metnaðarfulla áætlun um útrýmingu einbreiðra brúa á hringveginum.

Áhættumat 2018

Áhættumat óbreytt frá fyrri úttekt. Þó má mála merkið vegur mjókkar á vegi en víða eru merkingar afmáðar vegna mikillar umferðar.


Nelson Mandela tíræður

Fyrir rúmlega áratug fór ég á árlegan bókamarkað í Perlunni. Þar voru þúsundir bókatitla til sölu. Ég vafraði um svæðið og fann grænleita bók sem bar af öllum. Hún kostaði aðeins fimmhundruð krónur. Þetta var eina bókin sem ég keypti það árið.  Hún hét Leiðin til frelsis, sjálfsævisaga Nelson Mandela.

NelsonMandelaFjölvi gaf út bókina árið 1996 og er ágætlega þýdd af Jóni Þ. Þór og Elínu Guðmundsóttur. Bókin hafði góð áhrif á mig. Hún sýndi stórbrotinn mann í nýju ljósi.

Thembumaðurinn Rolihlahla sem fæddist fyrir öld er síðar nefndur Nelson á fyrsta skóladegi var bráðvel gefinn drengur.  Nafnið Rolihlahla merkir á máli Xhosa "sá sem dregur trjástofn", en í daglegu máli er það notað yfir þá, sem valda vandræðum.  Nelson Mandela átti eftir að valda hvíta meirihlutanum í S-Afríku miklum vandræðum í baráttunni við aðskilnaðarstefnuna, Apartheid.

Þegar Nelson var 38 ára var bannfæringu létt af léttvigtarmanninum. Hann fór í frí til átthaganna. Þar er áhrifamikil frásögn. 

"Þegar kom framhjá Humansdorp varð skógurinn þéttari og í fyrsta skipti á ævinni sá ég fíla og bavíana. Stór bavíani fór yfir veginn fyrir framan mig og ég stöðvaði bílinn. Hann stóð og starði á mig, eins og hann væri leynilögreglumaður úr sérdeildinni. Það var grátbroslegt að ég, Afríkumaðurinn, var að sjá þá Afríku, sem lýst er í sögum, í fyrsta sinn. Þetta fallega land, hugsaði ég, allt utan seilingar, í eigu hinna hvítu og forboðið svörtum. Það var jafn óhugsandi að ég gæti búið í þessu fallega héraði og að ég gæti boðið mig fram til þings."

Mæli með að fólk lesi sem mest um Nelson Mandela í dag og næstu daga. Það er mannbætandi.

Það er einnig vert að bera saman gildi Mandela og danska þingforsetan Piu Kjærs­ga­ard sem ávarpaði Alþingi á þessum sögulega degi, aldarafmæli Mandela og full­veld­is­ins. Mannúð eða rasismi. Hvort velja menn.

Þetta voru mjög vel heppnuð bókarkaup.   Blessuð sé minning, Rolihlahla Mandela.


Hornafjarðarmanni - Íslandsmót

Íslandsmót í Hornafjarðarmanna verður haldið síðasta vetrardag í Breiðfirðingabúð. Keppt hefur verið um titilinn frá árinu 1998 og hefur Albert Eymundsson verið guðfaðir keppninnar. Nú tekur Skaftfellingafélagið í Reykjavík við keflinu.

HumarManniÞað er mikill félagsauður í Hornafjarðarmanna. Hann tengir saman kynslóðir en Hornafjarðarmanninn hefur lengi verið spilaður eystra og breiðst þaðan út um landið, meðal annars með sjómönnum og því hefur nafnið fest við spilið.

Talið er að séra Eiríkur Helgason í Bjarnanesi (1892-1954) hafi verið höfundur þess afbrigðis af manna sem nefnt hefur verið Hornafjarðarmanni.

Til eru nokkur afbrigði af Manna, hefðbundinn manni, Trjámanni, Laugarvatnsmanni og Hornafjarðarmanni og sker sá síðastnefndi sig úr þegar dregið er um hvað spilað verður. En mögulegir samningar eru sex talsins:  nóló, grand, hjarta, spaði, tígull og lauf.

Spilareglurnar eru einfaldar og lærist spilið mjög fljótt. Það er hentugt keppnisform fyrir mismunandi fjölda spilara. Fyrst er forkeppni og eftir hana er útsláttarkeppni.  Eftir stendur einn sigurvegari, sá sem fær flest prik. Hornafjarðarmanni er samt sem áður meira leikur en keppni.

Albert Eymundsson endurvakti Hornarfjarðarmanna til vegs og virðingar þegar Hornafjörður hélt upp á 100 ára afmæli bæjarins 1997 og hefur síðan verið keppt um Hornafjarðarmeistara-, Íslandsmeistara- og Heimsmeistaratitil árlega.  

Síðasta vetrardag, 18. apríl, verður haldið Íslandsmeistaramót í Hornafjarðarmanna og eru allir velkomnir. Spilað verður í Breiðfirðingabúð, Faxafeni 14 og hefst keppnin kl. 20.00. Góðir vinningar. Aðgangseyrir kr. 1.000, innifalið kaffi og kruðerí, þar á meðal flatkökur með reyktum Hornafjarðarsilungi.

Sigurvegarinn fær sértakan farandverðlaunagrip sem Kristbjörg Guðmundsdóttir hannaði og hýsir í ár.


Refurinn ***

Refurinn eftir Sólveigu Pálsdóttur er fjórða saga höfundar.  Sögusvið bókarinnar er í Höfn í Hornafirði og Lóninu.  Þetta er því áhugaverð bók fyrir Hornfirðinga og nærsveitarmenn.

Höfundur hefur kynnt sér umhverfið ágætlega. Ýmsum raunverulegum hlutum er fléttað inn í söguna. Flugvöllurinn, Kaffihornið, herstöðin á Stokksnesi og landsmálablaðið Eystrahorn koma við sögu. Einnig  Hafnarbraut,  Náttúrustígurinn og í lokin einbreiða brúin yfir Hornafjarðarfljót.

Einangrun en meginþemað.  Einangrun bæjarins Bröttuskriður austast í Lóni nálægt Hvalnesskriðum. Einangrun söguhetjunnar vegna ólíks menningarlæsis og einangrun löggunnar Guðgeirs.

Hafnarbúar koma vel út, eru hjálpsamir, sérstaklega flugafgreiðslumaðurinn enda líta innfæddir Hornfirðingar á ferðaþjónustuna sem þjónustu en ekki iðnað.

En söguhetjurnar eru ekki fullkomnar frekar en annað fólk. Söguhetjan Sajee er frá Sri Lanka og skilur íslenskt talmál bærilega en er með lélegan lesskilning.  Hún kemur fljúgandi til Hornfjarðar og átti að hefja vinnu við snyrtistofu Hornafjarðar en það var blekking. Hjálpsamur hóteleigandi finnur ræstingarvinnu fyrir hana á Bröttuskriðum undir hrikalegu Eystrahorni í nábýli við álfa og huldufólk. Þar búa mæðgin sem eru einöngruð og sérkennileg. Sajee leiðist vistin og vill fara en er haldið fanginni. Engin saknar hennar því hún á ekki sterkt bakland á Íslandi.

Fyrrverandi lögregluþjónn sem vinnur hjá Öryggisþjónustu Hornafjarðar fær þó áhuga á afdrifum erlendu konunnar og hefur eigin rannsókn. Þá hefst óvænt flétta sem kom á óvart en bókarhöfundur hafði laumað nokkrum upplýsingum fyrr í sögunni.  Það er því gaman að sjá hvernig kapallinn gengur upp.

Ágætis krimmi með #metoo boðskap, saga sem batnar þegar á bókina líður.

Refurinn 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Tenglar:

Salka bókaútgáfa: https://cdn.shopify.com/s/files/1/1090/3582/products/Refurinn_web_1024x1024.jpg?v=1509525051

Kiljan: 

http://www.ruv.is/sarpurinn/klippa/solveig-palsdottir-segir-fra-bok-sinni-refurinn

Skáld.is: 

https://www.skald.is/single-post/2017/10/27/Hva%C3%B0-getur-gerst-%C3%BEegar-%C3%B6rv%C3%A6nting-og-%C3%B3tti-tekur-v%C3%B6ldin---Vi%C3%B0tal-vi%C3%B0-S%C3%B3lveigu-P%C3%A1lsd%C3%B3ttur


Myrkrið veit ****

Bókin Myrkrið veit eftir Arnald Indriðason er áhugaverð bók enda varð hún söluhæsta bók ársins.

Í þessari glæpasögu er kynntur nýr rannsóknarlögreglumaður til leiks, Konráð heitir hann og kynnist maður honum betur með hverri blaðsíðu. Hann er nokkuð traustur og áhugaverður, flókinn æska og með brotinn bakgrunn, visna hönd og persónuleg vandamál eins og allir norrænir rannsóknarlögreglumenn.  Í lok sögunnar kemur skemmtilega útfært tvist á karakter Konráðs.

Það sem er svo áhugavert við bækur Arnaldar er persónusköpun hans og hvernig hann kynnir hverja og eina persónu til leiks.  Einnig er tækni höfundar góð við að setja lesandann niður í tíðarandann. Fólk sem komið er á miðjan aldur kannast við mörg atriði sem fjallað er um og getur samsamað sér við söguna. 

Dæmi um það er Óseyrarbrúin og Keiluhöllin í Öskjuhlíð. Þessi mannvirki koma við sögu og fléttast inn í sögusviðið og gera söguna trúverðugri.  Ég fletti upp hvenær mannvirkin voru tekin í notkun og stenst það allt tímalega séð.  Keiluhöllin var tekin í notkun 1. febrúar 1985 og Óseyrarbrú 3. september 1988. Stafandi forsætisráðherrar voru aðal mennirnir við vígsluathafnirnar.

En í sögunni eru þrjú tímabil,  morðið á Sigurvin árið 1985, bílslys árið 2009 og sagan lokarannsókn Konráðs sem kominn er á eftirlaun árið 2016.

Einnig er falleg sena um Almyrka á tungli á köldum morgni á vetrarsólstöðum árið 2010 en þá yfirgefur eiginkona Konráðs jarðlífið. Allt gengur þetta upp. Annað sem er tákn í sögum Arnaldar er bíómyndir en þær koma ávallt við sögu, rétt eins og jarðarfarir í myndum Friðrik Þórs.

Sögusviðið þarf að vera nákvæmt fyrir Íslendinga. Eða eins og Ari Eldjárn orðaði svo skemmtilega í spaugi um kvikmyndina Ófærð:  „Hvernig eiga Íslendingar að geta skilið myndina þegar maður gengur inn í hús á Seyðisfirði og kemur út úr því á Siglufirði.“

Toppurinn í nostalgíunni er innslagið um rauðvínið The Dead Arm, Shiraz  frá Ástralíu.   (bls. 186)  - Sniðug tengin við visnu höndina og lokasenuna en vínið er staðreynd.

Eini gallinn í sögunni og gerir hana ósannfærandi er að Arnaldur hefur gleymt verðbólgudraugnum, peningar sem finnast í íbúð virðast ekkert hafa tapað verðgildi sínu.

Ég var einnig hrifin af elementum sem koma við sögu í bókinni en jökull, brýr loftslagsbreytingar, léttvín og kvótakerfið koma við sögu. Einnig minnir líkfundurinn í Langjökli mann á Geirfinns og Guðmundarmál, endurupptaka en jöklarnir vita svo margt.

Myndlíkingin við Ölfusá er tær skáldasnilld hjá Arnaldi, þegar ein sögupersónan situr þar og horfir í fljótið en jökullin sem er að bráðna geymdi líkið í 30 ár.

Það er einnig húmor og léttleiki í sögunni, meiri en ég hef átta að venjast frá Arnaldi.

Sem sagt vel skrifuð og fléttuð bók en glæpurinn og lausn hans er frekar óspennandi og liggur stundum í dvala.

Myrkrið veit

Hönnun á bókarkápu er glæsileg, form andlit í jöklinum. Vel gert.

 

Tenglar:

Óseyrarbrú - http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=122021&pageId=1688158&lang=is&q=%D3seyrarbr%FA

Keiluhöllin - http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=119930&pageId=1605489&lang=is&q=KEILUH%D6LLIN%20Keiluh%F6llin

Almyrkvi tungls - http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=339641&pageId=5343991&lang=is&q=tungl%20tungl


Grábrók (170 m) 2017

Það var gaman að ganga upp á Grábrók í sumar og hafa einstakt útsýni yfir Borgarfjarðarhérað og Norðurárdalinn. Sjá Baulu í öllu sínu veldi, Hrauns­nef­söxl, Hreðavatn, Bifröst og Norðurá. Það sem vakti mesta athygli er göngustigar sem stýrir umferð um viðkvæmt fjallið eða fellið.

Mér finnst vel hafa tekist til með gerð göngustigana og merkinga til að stýra umferð gangandi og auka öryggi, en svona inngrip er umdeilt en eitthvað þarf að gera til að vernda óvenjulega viðkvæmt svæði þar sem hraun og mosi er undir fótum

Grábrók er einn af þremur gígum í stuttri gígaröð. Þeir heita Grábrók (Stóra – Grábrók), Smábrók (litla Grábrók) og Grábrókarfell (Rauðabrók). Úr þeim rann Grábrókarhraun fyrir 3.200 árum og myndaði meðal annars umgjörð Hreðavatns. Efni í vegi var tekið úr Smábrók á sjötta áratugnum og tókst að stoppa þá eyðileggingu.

Daginn eftir var gengin hringur sem Grábrókarhraun skóp, gengið frá Glanna, niður í Paradísarlaut og meðfram Norðurá og kíkt á þetta laxveiðistaði. Það var mikil sól og vont að gleyma sólarvörninni. Mæli með bók eftir Reyni Ingibjartsson, 25 gönguleiðir í Borgarfirði og Dölum fyrir stuttar upplifunarferðir.

Dagsetning: 24.júní 2017
Hæð: Um 170 metrar
Hæð í göngubyrjun: Um 100 m (N:64° 46' 17.614" W:21° 32' 23.370")
Hækkun: 70 metrar
Heildargöngutími: 30 mínútur (20:00 - 20:30)
Erfiðleikastig: 1 skór 
Þátttakendur: Fjölskylduferð, 6 manns 
GSM samband: Já
Gestabók: Nei
Gönguleiðalýsing: Létt ganga mest upp eða niður göngustiga

Grábrók júní 2017

Hér sér ofan í gíginn í Grábrók sem gaus fyrir 3.200 árum. Manngerðir göngustigar sem minnka álag og falla ágætlega að umhverfinu liggja upp og niður fjallið.


Hvalárvirkjun - eitthvað annað

Takk, takk Tómas,  Ólafur og Dagný fyrir að opna Ísland fyrir okkur á #LifiNatturan. Alltaf kemur Ísland mér á óvart. Stórbrotnar myndir sem sýna ósnortið víðerni sem á eftir að nýtast komandi kynslóðum. Við megum ekki ræna þau tækifærinu.

En hvað skyldu Hvalárvirkjun og hvalaskoðun eiga sameiginlegt?

Mér kemur í hug tímamótamyndir sem ég tók í fyrstu skipulögðu hvalaskoðunarferðunum með Jöklaferðum árið 1993. Þá fóru 150 manns í hvalaskoðunarferðir frá Höfn í Hornafirði.  Á síðasta ári fóru 354.000 manns í hvalaskoðunarferðir. Engan óraði fyrir að þessi grein ætti eftir að vaxa svona hratt.  Hvalaskoðun er ein styrkasta stoðin í ferðaþjónustunni sem heldur hagsæld uppi í dag á Íslandi. Hvalaskoðun fellur undir hugtakið "eitthvað annað" í atvinnusköpun í stað mengandi stóriðu og þungaiðnaði.

Vestfirðingar geta nýtt þetta ósnortna svæði með tignarlegum fossum í Hvalá og  Rjúkanda til að sýna ferðamönnum og er nauðsynlegt að finna þolmörk svæðisins. Umhverfisvæn og sjálfbær ferðaþjónusta getur vaxið þarna rétt eins og hvalaskoðun. Fari fossarnir í ginið á stóriðjunni, þá rænum við komandi kynslóðum arðbæru tækifæri. Það megum við ekki gera fyrir skammtímagróða vatnsgreifa.

Ég ferðaðist um Vestfirði í sumar. Dvaldi í nokkra daga á Barðaströnd og gekk Sandsheiði, heimsótti Lónfell hvar Ísland fékk nafn, Hafnarmúla, Látrabjarg og Siglunes. Það var fámennt á fjöllum og Vestfirðingar eiga mikið inni. Þeir verða einnig að hafa meiri trú á sér og fjórðungnum. Hann býður upp á svo margt "eitthvað annað".

Við viljum unaðsstundir í stað kílóvattstunda.

Hvalaskoðun 1993

Fyrstu myndir sem teknar voru í hvalaskoðun á Íslandi 1993 og birtust í fjölmiðlum. Þá fóru um 150 manns í skipulagðar hvalaskoðunarferðir. Í dag fara 354.000 manns á ári. Það er eitthvað annað.


mbl.is Marga þyrstir í heiðarvötnin blá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 16
  • Sl. viku: 112
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 80
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband