5.5.2019 | 11:43
Akademía Norwich City
Norwich City vann hina erfiðu EFL Championship-deild eftir glæsilegan endasprett og tryggði sér sæti í Úrvalsdeildinni á næsta keppnistímabili
Norwich hefur ekki úr miklum peningum úr að spila og treystir mikið á unglingastarfið. Liðið er eitt af 24 liðum sem uppfyllir kröfur Englendinga og eru í Category One flokknum á knattspurnuakademíum. En til að vera í efsta flokki þarf að bjóða upp á fimm hluti: árangur í framleiðni leikmanna í aðallið, góða æfingaaðstöðu, góða þjálfun, menntun og velferð leikmanna. Nýlega var hópfjármögnun hjá stuðningsmönnum Norwich til að fjármagna nýtt hús fyrir æfingaaðstöðuna.
Æfingaaðstaða Norwich, Colney Training Ground, er í úthverfi borgarinnar og þar er akademía liðsins einnig til húsa. Skógur liggur að hluta að svæðinu.
Unglingalið Norwich komu á Rey Cup og höfðu tengingu við Ísland og buðu efnilegum leikmönnum á reynslu. Tveir Íslendingar eru á mála hjá Norwich, Ísak Snær Þorvaldsson og Atli Barkarson. Áður hafði Ágúst Hlynsson verið með samning við liðið. Með komu Farke, þá hafa áherslur breyst og horfa þeir meira til Þýskalands. Þjálfarateymið breyttist einnig og þekktir men eins og Darren Huckerby hurfu á braut.
Ísak Snær Þorvaldsson
Nokkrir leikmenn Kanarífuglanna hafa komið úr akademíunni og orðnir lykilleikmenn má þar nefna Max Aarons, Ben Godfrey, Jamal Lewis og Todd Cantwell.
Helstu afrek unglingaliðs Norwich eru sigur í FA Youth Cup 2013 en þá báru Murphy bræður upp leik liðsins. Áður hafði liðið unnið bikarinn 1983 og helsta nafnið sem men þekkja úr því liðið er Danny Mills.
Fyrsti milljón punda maðurinn sem þeir ólu upp og seldu var Justin Fashanu til Nottingham Forest árið 1981.
Norwich er lítið félag þar sem allir skipta máli. Leikmenn, unglingalið, þjálfarateymi, stjórn og stuðningsmenn.
Það verður gaman að fylgjast með Norwich í Úrvalsdeildinni á næsta leiktímabili og sjá hvernig drengirnir úr akademíunni standa sig. Kannski fáum við að sjá ísak og Atla í úrvalsdeildinni á næstu árum í gulu treyjunum og grænu buxunum.
On The Ball City
Enski boltinn | Breytt 11.8.2019 kl. 13:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.4.2019 | 15:14
Norwich City
Þeir fljúga hátt kanarífuglarnir frá Norfolk í Championship-deildinni.Liðið er efst og allar líkur á að liðið spili í Úrvalsdeildinni á næsta ári.
Ekki bjóst ég við þessari stöðu í upphafi tímabils en þá fóru þrír lykilmenn til annarra liða í Úrvalsdeild en hinn klóki stjóri Daniel Farke úr smiðju Dortmund hefur snúið hlutunum liðinu í hag.
Norwich hefur ekki úr digrum sjóðum að spila og hin nægusama Delia Smith stjörnukokkur hefur stjórn á hlutunum rétt eins og í eldhúsinu.
Áður en tímabilið hófst þá seldi Norwich James Maddison til Leicester fyrir 22 milljónir punda sem er félagsmet og hefur hann staðið sig vel. Josh Murpy var seldur til Cardiff City fyrir 11 milljónir. Einnig fór marvörðurinn Angus Gunn sem var að láni til Southampton. Þrír lykilmenn farnir.
Í staðin fann Farke lekmenn sem voru með lausa samninga en stefnan er að eyða ekki meira en 2 milljónum punda í leikmenn. Finninn Teemu Pukki sem nýlega var kosinn leikmaður Champions-deildarinnar kom á frjálsri sölu frá Bröndby sem og hinn leikreyndi Tim Krul frá Brighton. Kúbaninn með þýska vegabréfið Onel Hernández á kantinum og kom fyrir 1,7 milljónir punda. Mögnuð skipti og engin sóun á fjármagni.
Norwich hefur einnig gefið leikmönnum úr Norwich-akademíunni tækifæri og má þar nefna Maximillian Aarons, Jamal Lewis og Todd Cantwell sem hafa leikið stórt hlutverk í vetur.
Arons, Farke og Pukki
Lykillinn að árangri liðsins er seigla en margir leikir hafa unnist í lok leiks og hefur Pukki verið laginn við að skora sigurmörk í viðbótartíma. Einnig hefur Farke horft til þýskalands og fundið ódýra og samningslausa leikmenn. Fjórir þýskir leikmenn eru í lykilhlutverkum liðsins. Norwich er lítið félag þar sem allir skipta máli, leikmenn, stjórn og stuðningsmenn. Vasar ekki djúpir, enginn aðgangur að mengandi olíu.
Eitt leynivopn hefur Fark notað en eftir leik eru leikmenn frystir í frystiklefa. Fara þeir tveir til þrír inn í hjólhýsi og varðir á höndum og fótum. Einnig eru þeir með vörn um höfuðið. Þeir eru inni í kuldanum í 2 til 3 mínútur og koma út aftur. Fara svo aftur inn í kuldann.
Í dag á föstudaginn langa á Norwich leik á Carrow Road við miðvikudagsdrengina í Sheffield og jafnframt er þetta 100 leikur Norwich undir stjórn Farke. Sigur í leiknum mun styrkja stöðuna um sæti í Úrvalsdeild mikið. Stjóri Wednesday er gömul Norwich hetja, Steve Bruce en hann lék 141 leik á árunum 1984-1987.
Besti árangur Norwich í efstu deild er þriðja sætið á fyrsta tímabili ensku Úrvalsdeildarinnar. 1992-1993. Liðið hefur tvisvar unnið deildarbikarinn 1962 og 1985.
Stuðningsmennirnir á Carrow Road syngja enn baráttusönginn "On the Ball, City" fyrsta og elsta stuðningslag knattspyrnusögunnar. Norfolk men eru stoltir af framlagi sínu til knattspyrnusögunnar og skammstöfunin #OTBC er algeng í efni frá þeim á samfélagsmiðlum.
Norwich er vinaleg borg sem telur tæplega 300 þúsund manns og þekktasta kennileiti Norwich kastali frá tímum Vilhjálms sigurvegara og er hann að verða þúsund ára gamall.
Helsti andstæðingur Norwich City er Ipswich Town en staða þeirra er allt önnur, þeir eru lang neðstir í deildinni og fallnir kætir það einhverja stuðningsmenn kanarífuglanna.
Það verður gaman að fylgjast með Norwich í Úrvalsdeildinni á næsta leiktímabili. En liðið hefur hoppað á milli deilda á öldinni,hefur verið of lítið fyrir stóru deildina en of stórt fyrir litlu deildina.
On The Ball City
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.12.2018 | 11:42
Einbreiðar brýr í ríki Vatnajökuls
Þegar ég heimsótti átthagana um páskana árið 2016 var ég skelkaður vegna mikillar umferðar og hættum sem einbreiðar brýr skapa. Þá voru 21 einbreið brú, svartblettir í umferðinni á leiðinni. Ég ákvað að taka myndir af öllum brúm og senda alþingismönnum Suðurlands ábendingar með áhættumati sem ég framkvæmdi.
Einnig sendi ég umsögn til Umhverfis- og samgöngunefndar vegna Samgönguáætlunar 2015 - 2018. Þar komu fram nokkrar tillögur til úrbóta. Læt þær fylgja hér:
Úrbætur
- Draga úr ökuhraða þegar einbreið brú er framundan í tíma
- Hraðamyndavélar.
- Blikkljós á allar brýr, aðeins við fjórar brýr og blikkljós verða að virka allt árið.
- Útbúa umferðarmerki á ensku
- Fjölga umferðamerkum, kröpp vinstri- og hægri beygja, vegur mjókkar
- Setja tilmælaskilti um hraða í tíma við einbreiðar brýr og aðra svartbletti, t.d. 70, 50, 30 km hraði.
- Skoða útfærslu á vegriðum
- Fræðsla fyrir erlenda ferðamenn
- Virkja markaðsfólk í ferðaþjónustu, fá það til að ná athygli erlendu ferðamannanna á hættunni án þess að hræða ökumenn
- Nýta SMS smáskilaboð eða samfélagsmiðla
- Betra viðhald
- Bæta göngubrú norðan megin við Jökulsárlón á Breiðamerkursandi
- Styrkja þarf brýr, sú veikasta, Steinavötn tekur aðeins 20 tonn
Þegar erlend áhættumöt eru lesin, þá hafa brúarsmiðir mestar áhyggjur af hryðjuverkum á brúm en við Íslendingar höfum mestar áhyggjur af erlendum ferðamönnum á einbreiðum brúm.
Mér finnst gaman að lesa yfir úrbótalistann tæpum þrem árum eftir að hann var gerður og áhugavert að sjá minnst á brúna yfir Steinavötn en hún varð úrskurðuð ónýt um haustið 2017 eftir stórrigningu.
Það virðist vera stemming núna að lækka hámarkshraðann en hraðinn drepur. Vegrið á Núpsvatnabrúnni uppfylla ekki staðla og fræðsla hefur verið fyrir erlenda ferðamenn hjá Samgöngustofu.
Um sumarið 2016 voru gerðar úrbætur. Fjárveiting fékkst og fór nokkrar milljónir í að laga aðgengi að einbreiðum brúm. Blikkljós voru sett við allar einbreiðar brýr í Ríki Vatnajökuls og málaðar þrengingar að brúm en sumar sjást illa í dag. Umferðamerkjum var fjölgað og merking samræmd.
Við það minnkaði áhættan nokkuð og alvarlegum slys urðu ekki fyrr en á fimmtudaginn er 3 erlendir ferðamenn fórust í hörmulegu slysi á brúnni yfir Núpsvötn.
Það er loks komin áætlun en það var markmið með erindi mínu til Umhverfis- og samgöngunefndar. Í samgönguáætlun 2019 -2023 er gert ráð fyrir að átta einbreiðar brýr verði eftir á vegkaflanum milli Reykjavíkur og austur fyrir Jökulsárlón í lok árs 2023.
Þá sé í tillögu að samgönguáætlun fram til ársins 2033 áætlað að skipta út sex brúm í viðbót, þannig að í lok þess árs verði tvær einbreiðar brýr eftir á vegkaflanum. Það er annars vegar brúin yfir Núpsvötn og brúin á Jökulsá á Breiðamerkursandi.
Það þarf að setja brúna yfir Núpsvötn í hærri forgang eftir atburði síðustu daga. Uppræta þarf ógnina. Bæta öryggi á íslenskum vegum og þannig fækka slysum.
Kostaður samfélagsins af umferðarslysum síðustu tíu árin er rúmir fimm hundruð milljarðar króna eða að meðaltali um fimmtíu milljarðar árlega. Á sama tíma hefur Vegagerðin fengið um 144 milljarða króna til nýframkvæmda. Hér er vitlaust gefið.
En þetta er áætlun á blaði og vonandi heldur hún betur en samningurinn um heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar sem getið var í stjórnarsáttmálaunum og ætla Sjálfstæðismenn svíkja það loforð.
Heimildir
Umferðarslys á Íslandi 2017 - Samgöngustofa
29.12.2018 | 14:49
Ferðin yfir Núpsvötn
Ég hef verið baráttumaður fyrir útrýmingu einbreiðra brúa í Ríki Vatnajökuls. Þann 5. ágúst 2016 fór ég yfir einbreiðu brúna yfir Núpsvötn á leið til vesturs og tók upp myndband sem sett var á facebook baráttusíðuna Einbreiðar brýr. Myndbandið er 30 sekúndna langt og ekki átti ég von á því að það yrði notað í heimsfréttir þegar það var tekið.
Á fimmtudaginn 27. desember varð hörmulegt slys á brúnni yfir Núpsvötn við Lómagnúp. Þrír erlendir ferðamenn frá Bretlandi létust en fjórir komust lífs af er bifreið þeirra fór yfir handrið og féll niður á sandeyri.
Breskir fjölmiðlar höfðu eðlilega mikinn áhuga á að segja frá slysinu og fundu þeir myndbandið af ferðinni fyrir rúmum tveim árum. Það hafði að þeirra mati mikið fréttagildi.
Fyrst hafði BBC One samband við undirritaðan um miðjan dag og gaf ég þeim góðfúslega leyfi til að nota myndbandið til að sýna aðstæður á brúnni og til að áhorfendur myndu ekki fá kolranga mynd af innviðum á Íslandi. Minnugur þess er ég var að vinna hjá Jöklaferðum árið 1996 þegar Grímsvatnagosið kom með flóðinu yfir Skeiðarársand þá voru fréttir í erlendum fjölmiðlum mjög ýkar. Fólk sem hafði verið í ferðum með okkur höfðu þungar áhyggjur af stöðunni.
Síðan bættust Sky News, ITV og danska blaðið BT í hópinn og fengu sama jákvæða svarið frá mér. Innlendi fjölmiðilinn Viljinn.is hafði einnig samband og tók viðtal við undirritaðan.
Miðlarnir hafa bæði lifandi fréttir og setja fréttir á vefsíðu. Hjá BBC One var myndbandið spilað í heild sinni seinnihluta fimmtudagsins með fréttinni og á ITV var bútur úr því í morgunútsendingu.
Ég fylgdi einnig eftir fréttinni og benti fréttamönnunum eða framleiðslustjórum fréttamiðlanna á að það væri áætlun í gangi um úrbætur í samgöngumálum.
Mynd af fréttavef ITV
Heimildir
BBC One - https://www.bbc.com/news/uk-46703315
Sky News - https://news.sky.com/story/three-british-tourists-killed-in-iceland-jeep-crash-11592671
ITV - https://www.itv.com/news/2018-12-27/iceland-land-cruiser-crash/
Viljinn.is - https://viljinn.is/frettaveita/varadi-vid-daudagildrum-a-sudurlandi-fyrir-tveimur-arum/
Samgöngur | Breytt 1.1.2019 kl. 12:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.10.2018 | 13:42
Hvítárbrú og áætlanir
Langafi minn Sigurður Sigurðsson (1883-1962) trésmiður vann að öllum líkindum við byggingu Hvítárbrúar árið 1928. Í einkabréfi sem hann skrifar 1948 telur hann upp helstu byggingarverk sem hann hefur komið að en hleypur yfir árið 1928. Í myndasafni sem hann átti er jólakort með mynd af Hvítárbrú.
Hann hefur lært af meistaraverkinu við Hvítárbrú og í bréfi frá 1935 sem varðveitt er hjá Vegagerðinni eru samskipti milli Sigurðar snikkara og brúarverkfræðings Vegamálastjóra til, en þá stóð bygging Kolgrímubrúar í Suðursveit sem hæst. Grípum niður í Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar:
Bréf til Sigurðar brúasmiðs. Afritið sem varðveitt er í skjalasafni Vegagerðarinnar er ekki undirritað en miklar líkur eru á að Árni Pálsson brúarverkfræðingur hafi skrifað þessar línur. Þetta er athyglisverð lýsing á vinnubrögðum við bogabrýr.
29. maí 1935
Herra verkstjóri Sigurður Sigurðsson Hornafirði
Viðvíkjandi steypu í bogabrúna á Kolgrímu skal það
tekið fram, að áður en að byrjað er að steypa bogann,
skal gengið að fullu frá því að leggja bogajárnin, - bæði
efri og neðri járnin - og binda þau saman með krækjum
og þverjárnum í samfellt net, sem sýnt er á uppdrætti. Að
því loknu verður boginn steyptur og er hér heppilegast að
steypa bogann í fimm köflum, - með raufum á milli - svo
missig bogagrindar verði sem minnst; verður til þessa að
hólfa sundur með sérstökum uppslætti þvert yfir bogann.
Á meðfylgjandi uppdrætti er sýnt hvar heppilegast er
að setja þverhólfin og verður þá fyrst steyptur kafli nr.
1 um bogamiðju, síðan kafli nr. 2 við ásetur, loks kaflar
nr. 3 á milli ásetu og bogamiðju og að síðustu er steypt í
raufarnar nr. 4.
Eins og þér sjáið af þessu er hér að öllu leyti farið að,
eins og við bogana á Hvítá hjá Ferjukoti.
Samsetning steypunnar í boga er að sjálfsögðu
1:2:3, en að öðru leyti skal í öllu fylgt þeim góðu
byggingarvenjum er þér hafið vanist við brúargerðir.
Virðingarfyllst.
Bréfritari vísar í byggingu bogabrúar yfir Hvítá í Borgarfirði svo líklega hefur Sigurður komið þar að verki sem smiður og bréfritara verið kunnugt um það.
Steypublandan 1:2:3 eru hlutföll sements, sands og malar sem algengust voru við brúargerð.
Brúargerð á Hvítá hjá Ferjukoti 1928 stendur á bakhlið myndarinnar. Eigandi Sigurður Sigurðsson, trésmiður frá Hornafirði.
Ég hef heyrt það að annað sem hafi verð merkilegt fyrir utan glæsilega hönnun og mikla fegurð brúarinnar er að verkið stóðst fjárhagsáætlun upp á krónu. Ekki voru Microsoft forritin Excel eða Project til þá. Heldur hyggjuvitið notað.
Í bréfi langafa frá 1948 segir ennfremur:
"1926 Eftirlitsmaður við Lýðskólabygginguna á Eiðum." Og aðeins neðar: "1927 var ég einnig eftirlitsmaður á Hólum í Hjaltadal. Einnig voru þar byggð fjárhús og hlaða fyrir um 300 fjár. Ég var svo hygginn að þessar byggingar fóru ekkert fram úr áætlunum og því ekkert blaðamál út af þeim. Þess vegna enginn frægur fyrir að verja eða sækja það mál þar sem hvorki var þakkað eða vanþakkað."
Við getum lært mikið af þessu verkefnum og verkefnastjórnun fyrir rúmum 90 árum. Fjárhagsáætlanir hafa því í gegnum tíðina verið í skotlínu fólks.
Til hamingju með afmælið, Hvítárbrú.
Póstkort af Hvítárbrú frá 1928
Heimild:
Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar, 3. tbl. 2018. Bls. 6
Bogabrúin yfir Hvítá 90 ára | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.10.2018 | 15:30
Litli-Meitill (467 m) og Stóri-Meitill (521 m)
Meitillinn var stórt fiskvinnslufyrirtæki í Þorlákshöfn en endaði í hagræðingu kvótakerfisins. Fyrirtækið átti tvo togara, kennda við biskupana Þorlák og Jón Vídalín. Til er veitingastaður í bænum sem heitir Meitillinn veitingahús. Meitlarnir tveir, Stóri og Litli hafa því mikil ítök í sjálfsmynd sveitarfélagsins Ölfus.
Það var fallegur haustdagur þegar gengið var á Meitlana við Þrengslaveg. Valin var skemmtileg leið sem hófst sunnan við Meitilstagl og þaðan gengið á Litla-Meitil. Á leiðinni upp taglið sáum við í Eldborgarhrauni fólk sem var við myndatöku. Eftir áreynslulausa göngu, 2 km á rúmum klukkutíma, var komið á topp Litla-Meitils og sá þá vel yfir Ölfusið. Næst okkur í norðri var stóri bróðir og sást í gíginn fallega. Í vestri voru Krossfjöll, Geitafell, Litla-Sandfell, Heiðin há, Bláfjöll með sínum fjallgarði. Skálafell í Hellisheiði bar af í austri. Nær sáust Stóra-Sandfell og Eldborgir tvær sem hraunið er kennt við sem rann fyrir 2.000 árum.
Meitlarnir eru úr móbergi og hefur smá minni ekki náð upp úr jökulskildinum en sá stærri hefur náð í gegn enda skilur hann eftir sig fallegan gíg, leyndarmál sem er um 500 metrar á lengd og 350 metrar á breidd.
Næst var að ganga á Stóra-Meitil og þá tapaðist hæð en farið var um Stórahvamm, landið milli Meitla, eftir mosavöxnu hrauni. Það er skylda göngumanna að ganga kringum gíginn og best að halda áfram réttsælis. Tilvalið að taka nestisstopp í miðjum gígnum. Af gígbarminum sér vel í sundurtætt Lambafell og Hveradali með sín fjöll og virkjun. Stakihnúkur sést vel úr gígopinu en margir sem ganga bara á Stóra-Meitil fara á hann í leiðinni. En hann mun vera erfiður viðureignar.
Þegar könnun á gígnum var lokið var haldið til baka og farið niður gróið gil til austur í Stórahvammi og gengið milli Eldborgarhrauns og fjallsins. Þegar við nálguðumst upphafsstað, þá sáum við kvikmyndafólkið í hrauninu og fyrirsætur. Það er krefjandi vinna að vera í þessum bransa. Líklega var verð að taka upp auglýsingu fyrir útivistarframleiðandann 66° Norður. Ekki fékk ég boð um hlutverk en skelin sem ég var í ber þeirra merki.
Á leiðinni er trjálundur sem Einar Ólafsson fjallamaður ræktaði og vekja grenitrén eftirtekt út af því að ekki sést í nein tré á löngu svæði, hér er ríki mosans.
Fari fólk vestan megin Litla-Meitils í Meitlistaglinu er áhugaverður bergfláki, Votaberg en þar seytlar vant niður bergveggina. Hrafnaklettur er norðar.
Toppur Litla-Meitils
Dagsetning: 30. september 2018
Hæð: 521 metrar
Hæð í göngubyrjun: 211 metrar við Meitlistagl (N:63.57.730 - W:21.26.963)
Litli Meitill (467 m): (N:63.58.544 W:21.26.261)
Stóri Meitill (521 m): (N:64.00.024 - W:21.25.940)
Hækkun: 310 metrar
Uppgöngutími Stóri Meitill: 100 mín (09:00 - 12:00) 5,0 km
Heildargöngutími: 300 mínútur (09:00 - 14:00)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 11,1 km
Veður kl. 11.00 - Hellisheiði: Skýjað, SV 2 m/s, 2,0 °C, raki 82% næturfrost
Þátttakendur: Fjallkonur 7 þátttakendur
GSM samband: Já
Gestabók: Nei
Gönguleiðalýsing: Ganga í mosavöxnu landslagi. Greiðfærir melar og gróði land neðantil. Auðvelt uppgöngu og áhugaverð náttúrusmíð.
Facebook-status: Endalaust þakklát fyrir að geta þetta, takk fyrir Meitla-gönguna elsku fjallafélagar 😘Báðir toppaðir í yndislegu veðri og haustlitum
Heimild:
Íslensk fjöll. Gönguleiðir á 151 tind.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.9.2018 | 11:49
Geitafell (509 m)
Geitafell er 509 metrar á hæð og klætt fallegri mosakápu. Það er vestan Þrengslavegar. Fellið stendur stakt og á góðum degi er afar víðsýnt af því. Það var bjart í norðri þegar lagt var í gönguna en blikur á lofti í suðurátt.
Geitafell er móbergsstapi og hefur myndast við gos undir jökli, en gosið hefur ekki náð upp úr ísaldarjöklinum. Misgengi liggur eftir endilöngu fellinu frá suðvestri til norðausturs. Austurhlutinn hefur sigið nokkuð og sést það vel á loftmyndum.
Geitafellin eru fjögur víða um landið skv. Kortabók Íslands og hafa forfeður okkar fundið geitur eða haft geitur á beit í fellunum. En geitarstofninn á Íslandi er í útrýmingarhættu en fjöllin hverfa ekki. Og þó. Mikið malarnám er í Lambafelli og sótt hart að efni úr norður og suðurátt.
Gengið frá malarnáminu í Litla-Sandfell yfir Þúfnavelli að rótum Geitafells en þar er vegvísir. Eftir hálftíma göngu er komið að honum og um 200 metra brött hækkun tekur við. Eftir það er létt hækkun að Landmælingavörðu á hæsta punkti.
Þegar á toppinn var komið var skollið á mikið óveður, úrkoma og rok úr austri, því var snúið strax til baka og leitað að skjóli fyrir nestispásu. Það munaði mikið á 50 metra lækkun en veðrið lagaðist mikið þegar neðar dró.
Útsýni á góðum degi er gott yfir Ölfusið og hraunin í kring. Bláfjöll, Heiðin há í vestri. Laskað Lambafell eftir malarnám, Meitlarnir tveir, Litla-Sandfell, Ingólfsfjall, Skálafell, Krossfjöll og Hekla. Þorlákshöfn sást í þokumóðunni og var draugaleg að sjá. Ölfusá og Flói voru áberandi í landslaginu.
Hægt er að halda áfram í suður niður af fjallinu og lengist gangan þá í 12-13 km. Einnig er hægt að ganga hringinn í kringum Geitafellið og tekur sú ganga um 4 klst. og er 11,5 km löng.
Þegar göngu var lokið við Litla-Sandfell sáum við mikið af forhlöðum, plasthylkjum frá haglskotum en greinilegt að þarna er skotsvæði Ölfusinga. Mikil sjónmengun og vont að sjá. Plastmengun í plastlausum september var áfall og skemmdi upplifunina. Bæjaryfirvöld í Ölfusi eiga að hreinsa svæðið fyrir fyrsta snjó vetrarins.
Geitafell í Ölfusi klætt fallegri mosakápu. Ganga þarf um 2 km yfir grasi gróna velli að rótum fellsins.
Dagsetning: 15. september 2018
Hæð: 509 metrar
Hæð í göngubyrjun: 225 metrar við Litla-Sandfell (N:63.57.368 - W:21.28.243)
Vegamót: 247 m við Geitafell (N:63.57.368 W:21.30.516)
Geitafell (509 m): Landmælingavarða (N:63.56.365 - W:21.31.516)
Hækkun: 284 metrar
Uppgöngutími Geitafell: 100 mín (08:40 - 10:20) 4,0 km
Heildargöngutími: 200 mínútur (08:40 - 12:00)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 8,8 km
Veður kl. 10.00 - Hellsheið: Alskýjað, A 6 m/s, 4,0 °C, raki 94%
Þátttakendur: Fjallkonur 5 þátttakendur, 2 hundar.
GSM samband: Já
Gestabók: Nei
Gönguleiðalýsing: Ganga í mosavöxnu landslagi. Auðvelt uppgöngu og hentar vel fyrir byrjendur í fjallamennsku.
Heimildir
Íslensk fjöll. Gönguleiðir á 151 tind.
Kortabók Ísland
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.8.2018 | 12:37
Arcade Fire og Ísbúð Vesturbæjar
Það voru stórmagnaðir og orkumiklir tónleikar hjá kanadísku indí rokkbandinu Arcade Fire í Nýju Laugardalshöllinni á þriðjudagskvöldið. Um 4.300 gestir mættu og upplifðu kraftinn á AB-svæði. Stórmerkilegt að ekki skyldi vera uppselt en þarna eru tónlistarmenn í þungavigt á ferð.
Mikil umræða hefur verið um sölu og svæðaskiptingu á tónleikunum en ég var einn af þeim rúmlega fjögur þúsund manns sem keypti miða í A-svæði. Því kom það mér á óvart þegar gengið var inn í salinn að enginn svæðaskipting var. Ég var ekki að svekkja mig á því að hafa ekki keypt B-miða. Hugsaði til ferðalaga í flugvélum eða strætó, þar ferðast menn á misjöfnum gjöldum en sitja svo saman í einni kös. Ég skil vel ákvörðunartöku tónleikahaldara um AB-svæði, sérstaklega ef þetta hafa verið 79 miðar.
Ég kynntist Arcade Fire góðærisárið 2007 en þá gaf sveitin út diskinn Neon Bible og var það eini diskurinn sem ég keypti það árið. Var hann víða talinn einn besti gripur ársins af álistgjöfum í tónlist. Ég get tekið undir það og hlustaði mikið á hann í iPod-inum mínum. Síðan hef ég lítið fylgst með sveitinni og missti af þrem síðustu plötum sveitarinnar, The Suburbs, Reflektor og Everyting Now.
Sviðsframkoman var stórbrotin og fagmannleg. Fyrst hittust meðlimir á réttum tíma fyrir framan sviðið, tóku hópknús eins og íþróttalið gera og fóru í gegnum áhorfendaskarann og gáfu fimmur. Margir símar sáust á lofti. Síðan hófst tónlistarveislan með titillaginu Everything Now. Lagið er undir ABBA-áhrifum í byrjun, það fór rólega af stað en svo bættust öll möguleg hljóðfæri sem leikið var á af gleði og innlifun og krafturinn varð hrikalegur. Tónninn var sleginn!
Söngvarinn stæðilegi og stofnandi sveitarinnar Win Butler fór fyrir liðinu og steig á stokk í rauðu skónum sínum og reif gítar hátt á loft. Ekki ósvipað og kyndilberi á Ólympíuleikum sem er að fara að tendra eldinn. Bróðir hans William Butler fór hamförum á sviðinu og var gaman að fylgjast með honum. Hann hoppaði á milli hljóðfæra, spilaði á hljómborð, barði á trommu og spilaði á gítar og stóð upp á hljómborðum. Hann ferðaðist kófsveittur um sviðið eins og api en kom ávallt inn á réttum stöðum. Magnað.
Alls voru níu liðsmenn Arcade Fire á sviðinu sem þakið var hljóðfærum. Mörg hljómborð og hljóðgervlar voru og tvö trommusett. Skiptust þeir reglulega á að spila á hljóðfæri af innlifun og minntu mig á Ljótu hálfvitana frá Húsavík.
Krafturinn og hljómurinn var mikill í byrjun og fjögur fyrstu lögin spiluð í einum rykk á háu tempói. Aðdáendur tóku vel við enda þekktir slagarar. Svo kom þakkarræðan um Ísland og hrósaði hann Björk mikið. Hún hafði mikil áhrif á bandið.
Sviðið og ljósin komu vel út í Höllinni og mynduðu stórbrotna umgjörð um tónleikana og gaman að bera saman þegar vinalega upphitunarhljómsveitin Kiriyama Family spilaði raftónlist fyrr um kvöldið. En þá voru ljós og myndræn framsetning ekki notuð. Tónleikagestir voru hrifnir og dönsuðu, sungu og klöppuðu taktfast í hitanum og svitanum.
Ég komst að því að vera illa lesin því síðari hluti tónleikanna var með nýjum lögum og þekkti ég þau ekki en fólkið í salnum tók vel undir. Ég hef síðustu daga verið að hlusta á lög af skífunni Everyting Now og líkar þau betur og betur. Margar laglínur hljóma nú fallega í hausnum á mér. Einna helst hefur enduruppgötvun mín á lögum Electric Blue og Sprawl II (Mountains Beyond Mountains) sem Régine Chassagne söng vaxið mjög en ég tengdi ekki við þau þegar hún flutti þau á sviðinu. Eina lagið sem ég saknaði var Intervention.
Þetta var skemmtilegt kvöld og gaf manni mikinn eldmóð fyrir veturinn.
Daginn eftir tónleikana átti ég leið í Ísbúð Vesturbæjar í Vesturbænum og var þá ekki stórsöngvarinn í Arcade Fire, Win Butler staddur þar og að kaupa sér bragðaref. Hann var klæddur í gallajakka merktum NOW-tónleikaferðinni. Það var töluverður fjöldi krakka að versla sér ís og létu þau hinn heimsfræga tónlistarmann algjörlega í friði. Kurteist fólk, Íslendingar. Líklegast er að þau hafi ekki vitað af því hver þetta var en landi hans Justin Bieber hefði ekki fengið að vera í friði. Svona er kynslóðabilið í tónlistinni.
Enginn gestur leið fyrir ákvörðunina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Breytt s.d. kl. 13:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.7.2018 | 12:47
Endurskoðað áhættumat - einbreiðar brýr í Ríki Vatnajökuls
Áhættumat frá 24. júní 2018. Öll blikkljós virkuðu en mála má merkið vegur mjókkar á veg, eru víða afmáðar. Framkvæmdir við Hólá og Stigá virðast ganga vel. Sér í veg fyrir nýja brú yfir Hornafjarðarfljót. Áhættumat því óbreytt frá síðustu úttekt.
Í haust verða einbreiðu brýrnar orðnar 18. Vonandi tekst stjórnvöldum að minnka áhættu fyrir ferðamenn með því að útrýma einbreiðum brúm á þjóðveginum.
Um 2.200 bílar fóru yfir brýrnar þennan dag eða 11 sinnum meiri umferð en markmiðið sem sett var í samgönguáætlun 2011 um að útrýma einbreiðum brúm með umferð meira en 200 bíla á dag.
Umferðin laugardaginn 21. júlí á milli Reykjavíkur og Akureyrar var 2.495 bílar hjá Gauksmýri sem er skammt frá Miðfjarðarbrú. Hjá Kvískerjum fóru á sama tíma 2.283 bílar. Litlu færri. Enn eru 20 einbreiðar brýr á leiðinni á milli Reykjavíkur og Hornafjarðar.
Tökum norðurleiðina til fyrirmyndar. Gerum metnaðarfulla áætlun um útrýmingu einbreiðra brúa á hringveginum.
Áhættumat óbreytt frá fyrri úttekt. Þó má mála merkið vegur mjókkar á vegi en víða eru merkingar afmáðar vegna mikillar umferðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.7.2018 | 15:59
Nelson Mandela tíræður
Fyrir rúmlega áratug fór ég á árlegan bókamarkað í Perlunni. Þar voru þúsundir bókatitla til sölu. Ég vafraði um svæðið og fann grænleita bók sem bar af öllum. Hún kostaði aðeins fimmhundruð krónur. Þetta var eina bókin sem ég keypti það árið. Hún hét Leiðin til frelsis, sjálfsævisaga Nelson Mandela.
Fjölvi gaf út bókina árið 1996 og er ágætlega þýdd af Jóni Þ. Þór og Elínu Guðmundsóttur. Bókin hafði góð áhrif á mig. Hún sýndi stórbrotinn mann í nýju ljósi.
Thembumaðurinn Rolihlahla sem fæddist fyrir öld er síðar nefndur Nelson á fyrsta skóladegi var bráðvel gefinn drengur. Nafnið Rolihlahla merkir á máli Xhosa "sá sem dregur trjástofn", en í daglegu máli er það notað yfir þá, sem valda vandræðum. Nelson Mandela átti eftir að valda hvíta meirihlutanum í S-Afríku miklum vandræðum í baráttunni við aðskilnaðarstefnuna, Apartheid.
Þegar Nelson var 38 ára var bannfæringu létt af léttvigtarmanninum. Hann fór í frí til átthaganna. Þar er áhrifamikil frásögn.
"Þegar kom framhjá Humansdorp varð skógurinn þéttari og í fyrsta skipti á ævinni sá ég fíla og bavíana. Stór bavíani fór yfir veginn fyrir framan mig og ég stöðvaði bílinn. Hann stóð og starði á mig, eins og hann væri leynilögreglumaður úr sérdeildinni. Það var grátbroslegt að ég, Afríkumaðurinn, var að sjá þá Afríku, sem lýst er í sögum, í fyrsta sinn. Þetta fallega land, hugsaði ég, allt utan seilingar, í eigu hinna hvítu og forboðið svörtum. Það var jafn óhugsandi að ég gæti búið í þessu fallega héraði og að ég gæti boðið mig fram til þings."
Mæli með að fólk lesi sem mest um Nelson Mandela í dag og næstu daga. Það er mannbætandi.
Það er einnig vert að bera saman gildi Mandela og danska þingforsetan Piu Kjærsgaard sem ávarpaði Alþingi á þessum sögulega degi, aldarafmæli Mandela og fullveldisins. Mannúð eða rasismi. Hvort velja menn.
Þetta voru mjög vel heppnuð bókarkaup. Blessuð sé minning, Rolihlahla Mandela.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 6
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 60
- Frá upphafi: 233598
Annað
- Innlit í dag: 6
- Innlit sl. viku: 51
- Gestir í dag: 6
- IP-tölur í dag: 6
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar