26.8.2019 | 12:45
Sköflungsvegur
Mosfellsheiði hefur gegnt merkilegu hlutverki í sögu samgangna milli Innnesja og Árnessýslu frá upphafi og lumar á ótal skemmtilegum gönguleiðum. Mosfellsheiði er víðlent heiðarflæmi sem rís hæst 410 metra yfir sjávarmál í Borgarhólum en þeir eru kulnuð eldstöð.
Sköflungsvegur er ein af gönguleiðunum og liggur frá Draugatjörn við Húsmúla norður með hlíðum Hengils og Sköflungs og endar í Vilborgarkeldu, skammt frá Þingvallavegi.
Rúta keyrði göngumenn að Draugatjörn en vegurinn er lokaður skammt frá henni. Gengið var að réttinni, hlaðna garða frá tímum búskapar á Kolviðarhóli og þaðan að rústum sæluhússins og lesnar sögur úr nýprentaðri Árbókinni. Leiðsögumenn voru höfundar Árbókar FÍ, þau Margrét Sveinbjörnsdóttir, Bjarki Bjarnason og Jón Svanþórsson. Miðluðu þau fróðleik til göngufólks af mikilli þekkingu og innlifun.
Síðan var gengið undir Húsmúla en örnefnið kemur af sæluhúsinu sem var þarna. Lítið fell er í suðvestur og heitir Lyklafell. Maður tekur varla eftir því þegar Hellisheiðin er ekin en þegar maður fer öld aftur í tímann þá skilur maður af hverju nafnið er dregið. Það er lykill í samgöngum yfir Hellisheiði og yfir Mosfellsheiði. Í raun stór varða. Fóelluvötn eru skammt frá fellinu og skiptir vatn öllu máli í hestaferðum.
Í grænum Engidal var tekið kaffi. Skeggi í Henglinum dró að sér mikla athygli en undir honum voru kynjamyndir úr sorfnu móbergi. Má þar nefna dularfullt gil nefnt Kolsgil en vatnið hefur sorfið móbergið í tímanna rás. Þjófahlaup en sögur voru um útilegumenn undir Henglinum. Marardalur er stutt frá gönguleiðinni en þangað fóru ungir menn í helgarreisur. Einn af þeim var Matthías Jochumsson, og mögulega hafa þessar ferðir vakið hugmyndir að leikritinu Útilegumennirnir eða Skugga-Sveini árið 1861.
Farið vestan megin við Sköflung en horft yfir glæsilegan Grafning og Þingvallavatn frá Sköflungshálsi en Grafningsvegur liggur þar um. Gönguferðin endaði við Vilborgarkeldu en þar komust hestar og menn í vatn. Það er áhugavert að konur eru kenndar við keldur en karlar við fjöll.
Á leiðinni mættum við hestamönnum, motocross-hjólum, reiðhjólafólki og öðru göngufólki. Farastjórar hafa unnið við undirbúning bókanna í 7 ár og hafa tekið eftir að gróður hefur tekið við sér, bæði vegna minni beitar og hlýrra loftslags. Áður fyrr voru naut á beit og hreindýr á þessum slóðum. Kolviður áformar að kolefnisjafna útblástur með því að planta trjám á heiðinni. En taka verður tillit til náttúruminja.
Þjóðleiðir eru auðlind sem við verðum að varðveita. Besta leiðin er að koma þeim í notkun á ný.
Eftir að hafa gengið Sköflungsveg og skilið vegakerfið eftir frábæra leiðsögn frá Bjarka, Margréti og Jóni þá verður að koma upplýsingum á framfæri á leiðinni. En heiðin var orðin heillandi víðátta. Gera þarf góð upplýsingaspjöld á lykilstöðum og koma fyrir upplýsingum og vegprestum á leiðinni. Mosfellingar eiga að kunna þetta en fellin sjö eru vel merkt hjá þeim. Einnig hefur Ferðamálahópur Borgarfjarðar gert góða hluti með Víknaslóðir.
Gönguleiðir yfir Mosfellsheiði er góð viðbót fyrir göngufólk við fótskör höfuðborgarsvæðisins. Nú þarf ekki að leita langt yfir skammt en merkilegast er að skilja betur lífsstíl forfeðra okkar.
Á leiðinni var lesið úr árbókinni og komu þá hlutir í samhengi. Áhugavert var að heyra ferðalýsingar en ferðamenn fyrr á tímum áttu leið yfir heiðina. Margir þeirra lýstu heiðinni sem endalausu flæmi af grjóti og þótti hún heldur tilbreytingalaus en aðrir nutu kyrrðarinnar og þótti víðáttan heillandi.
Jón Svanþórsson farastjóri vann merkilegt verk en hann hnitsetti allar vörður á Mosfellsheiðinni og eru þær um 800 talsins og um 100 fylgja Þingvallaveginum gamla.
Í kjölfar árbókarinnar kemur síðan út göngu- og reiðleiðabókin Mosfellsheiðarleiðir eftir sömu höfunda, þar sem 23 leiðir á heiðinni eru kortlagðar og þeim lýst í máli og myndum.
Nú fara ekki lengur þreyttir baggahestar um Mosfellsheiði, heldur fer þar orka í raflínum austan úr sveitum. Hér er göngufólk að nálgast Vilborgarkeldu og Sköflungur er handan.
Dagsetning: 6. júlí 2019
Hæð í göngubyrjun: 271 metrar við Draugatjörn (N: 64.03.058 W: 21.24.969)
Engidalur: 253 m (N: 64.04.821 W: 21.22.598)
Kolsgil: 313 m (N: 64.06.419 W:21.19.731)
Frakkastígur varða (Jónsvarða) staur 198: 324 m (N: 64.07.711. W: 21.20.197)
Sköflungsháls: 315 m (N: 64.09.366 W: 21.18.271)
Hæð í göngulok: 221 metrar við Vilborgarkeldu (N: 64.11.996 W: 21.16.415)
Lækkun göngufólks: 50 metrar
Heildargöngutími: 540 mínútur (09:15 18:15)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 23 km
Veður: Heiðskýrt, N 4 m/s, 14,1 °C
Þátttakendur: Ferðafélag Íslands, 20 þátttakendur í einni rútu.
GSM samband: Já
Gestabók: Nei
Gönguleiðalýsing: Gengið eftir gamalli þjóðleið. Vel grafin á köflum og sýnileg.
Facebook-status: Stórfróðleg Árbókarferð um Sköflungsveg. Það er magnað hvað forfeður okkar hafa byggt öflugt vegakerfi um Mosfellsheiðina.
Heimild:
Árbók F.Í. 2019 Mosfellsheiði - landslag, leiðir og saga
Kort úr Árbók FÍ á bls. 103 sem sýnir Sköflungsveg og Draugatjörn sem lykilstað.
2.8.2019 | 21:53
Kvígindisfell (783 m) á Uxahryggjaleið
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, þjóðfræðingur hefur leitt kvöldgöngur á föstudagaskvöldum sem kallast sumarnætur og eru í samvinnu við Ferðafélag Íslands. Í þeim eru þekktir staðir heimsóttir og sagnir og þjóðlegur fróðleikur dreginn fram.
Ég skellti mér í ferða á Kvígindisfell á Uxahryggjaleið en þar erum við komin á slóðir Skúlaskeiðs sem Grímur Thomsen orti svo fagurlega um.
Haldið er af stað í gönguna frá Biskupsbrekku, norðan Víðikera og austan Hvannadala á Uxahryggjaleið og gengin auðveld leið upp á Kvígindisfellið.
Þegar vel viðrar er geysivíðsýnt til allra átta, bæði jöklasýn og til fjalla, allt norður í Húnavatnssýslu þegar best lætur. Þarna fengum við að upplifa landslag eins og inni á reginöræfum, samhliða mikilli fjallasýn.
Kvígindisfell er fornt móbergsfjall, frá síðkvarter, skorið giljum, 783 m hátt. Mikið útsýni er af fellinu. Nafnið vafðist fyrir mönnum og eru til frá síðustu öldum skýringarheitin Kvigyndisfell, Kvikfénaðaryndisfell, Kvikféyndisfell, Kvíindisfell ofl. Kvígindi eru ungir nautgripir eða geldneyti, sem þarna munu hafa verið á afrétti. (bls. 262)
Nokkur örnefni og bæjanöfn á landinu hafa kvígindi að forlið, Kvígindisá, Kvígindisdalur, Kvígindisfell og Kvígindisfjöll. Þessi nöfn er að finna í öllum landshlutum.
Smalaland Lunddæla suður fyrir Kvígindisfell er kallað Suðurfjall (afrétturinn norðan Grímsár er Norðurfjall) (bls. 260)
Snjólaus Skjalabreiður, ógnarskjöldur bungubreiður fylgdi göngufólki alla leið. Snjóleysið má skrifa á hamfarahlýnun af mannavöldum. Þoka lág yfir Þórisjökli og Ok en hin þekktu fjöll í kringum Þingvallavatn skörtuðu sínu fegursta. Þegar toppur Kvígindisfells nálgaðist skall á þoka og því ekki farið alla leið.
Á heimleiðinni las Ólína hestavísuna Skúlaskeið eftir Grím Thomsen og var gaman að heyra hrynjandann og tengja við örnefnin á leiðinni, Tröllaháls, Víðiker og Ok. Skúlaskeið er torfær og stórgrýttur kafli á Kaldadalsvegi. Skúli nokkur var dæmdur til lífláts á Alþingi, en komst undan vegna afbragðshests, Sörla, sem hann reið. Aldrei hefur enn í manna minni meira riðið nokkur Íslendingur.
Þeir eltu hann á átta hófahreinum
og aðra tvenna höfðu þeir til reiðar
en Skúli gamli sat á Sörla einum
svo að heldur þótti gott til veiðar.
Kvígindisfell séð frá Biskupsbrekku
Dagsetning: 19. júlí 2019
Hæð Kvígindisfells: 783 metrar
Hæð í göngubyrjun: 330 metrar við Biskupsbrekku (N:64.25.252 - W:20.59.086)
Kvígindisfell næsti efsti pallur (724 m): (N:64.24.441 W: 21.02.983)
Hækkun göngufólks: 394 metrar
Uppgöngutími: 150 mínútur (19:15 - 21:45)
Heildargöngutími: 225 mínútur (19:15 23:00)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 10 km
Veður kl. 21.00 - Þingvellir: Skýjað, N 4 m/s, 14,1 °C, raki 67%
Þátttakendur: Ferðafélag Íslands, 50 þátttakendur í einni rútu.
GSM samband: Nei
Gestabók: Líklega ekki
Gönguleiðalýsing: Gengið eftir gömlum veg, síðan stefnt á norðaustur hluta fellsins og stikum fylgt. Leiðin er gróin fyrst og greiðfær. Fremur auðveld leið á ágætis útsýnisfell.
Facebook-status: Fínasta ganga i kvöld með Ferðafélagi Íslands á Kvígindisfell à Uxahryggjaleið
Heimildir:
Árbók F.Í. 2004 - Borgarfjarðarhérað
Vísindavefurinn - Hvað merkir nafnið Kvígindisfjörður
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 22:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.7.2019 | 11:30
Tunglið og Nautagil
Í dag, 20. júlí, er slétt hálf öld liðin frá því Apollo 11 lenti á tunglinu og í kjölfarið urðu Neil Armstrong og Buzz Aldrin stigu fyrstir manna fæti á tunglið. Í undirbúningi fyrir leiðangurinn komu kandídatar NASA til Íslands í æfingaskyni og dvöldust þá meðal annars í Dyngjufjöllum við Öskju.
Ég gekk Öskjuveginn sumarið 2006 og skoðaði sömu staði og geimfarar NASA. Rifjast þessi gönguferð því upp í tilefni dagsins.
Geimfarar NASA sem unnu að Apollo geimferðaáætluninni komu tvisvar til Íslands til æfinga fyrir fyrstu tunglferðina en þeir töldu aðstæður í Öskju líkjast mjög aðstæðum á tunglinu. Þeir komu fyrst í Öskju árið 1965 og tveim árum síðar með minni hóp. Kíkjum á frásögn Óla Tynes í Morgunblaðinu 4. júlí 1967.
"Frá skálanum [Þorsteinsskála] var haldið inn að Öskju og fyrst farið í eitthvert nafnlaust gil sunnan megin við Drekagilið og þar héldu þeir Sigurður Þórarinsson og Guðmundur Sigvaldson jarðfræðifyrirlestur, sem fór fyrir ofan garð og neðan hjá fréttamönnum. Geimfararnir hinsvegar voru fullir af áhuga og hjuggu steina lausa úr berginu til nánari rannsókna. "
Hér er átt við Nautagil og er nafngiftin komin frá jarðfræðihúmoristunum Sigurði og Guðmundi. Geimfari er astroNAUT á ensku og framhaldið er augljóst.
Nafngiftin er ekkert nema gargandi snilld. Eftir að hafa heyrt sögu þessa jókst virðing mín mikið fyrir Nautagili mikið en ég hef haft mikinn áhuga á geimferðakapphlaupinu á Kaldastríðsárunum.
Nautagil átti eftir að heilla enn meira. Hvert sem litið var, mátti sjá eitthvert nýtt jarðfræðilegt fyrirbrigði. Fyrst var boðið upp á innskot, bólstraberg og sandstein, síðan móbergsveislu. Mikilfenglegur móbergsveggur sem sorfinn var í toppinn og stóðu kollar uppúr sem minnti á tanngarð eða höggmyndir í Rushmore-fjalli af forsetum Bandaríkjanna. Maður lét hugann reika, þarna er George Washington, síðan Thomas Jefferson, Theodore Roosvelt og Abraham Lincoln. Svo kom pælingin, hvar eru styttur af forsetum Íslands? Svar: Hvergi, bara til styttur af athafnaskáldum.
Fleira bar við augu. Lítill lækur spratt undan hrauninu og dökk hraunspýja sem talið er minnsta hraun á Íslandi var næst. Rósin í hnappagatinu var svo vel falin bergrós ofarlega í mynni gilsins. Þetta var óvænt ánægja og Nautagil kom mér mest á óvart í gönguferðinni. Það var augljóst að fáir hafa komið í gilið í sumar en með öflugri markaðssetningu væri hægt að dæla fólki í Nautagil. Lækur rennur fyrir framan gilið vel skreyttur breiðum af eyrarrós og hægt væri að hafa speisaða brú yfir hann. Nota geimfarana og NASA-þema sem umgjörð og hafa eftirlíkingu af Apollo 11 í gilinu. Þá væri hægt að bjóða upp á tunglferðir til Öskju!
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 12:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.6.2019 | 11:43
Hvalárvirkjun - eitthvað annað
Takk, takk Tómas, Ólafur og Dagný fyrir að opna Ísland fyrir okkur á #LifiNatturan. Alltaf kemur Ísland mér á óvart. Stórbrotnar myndir sem sýna ósnortið víðerni sem á eftir að nýtast komandi kynslóðum. Við megum ekki ræna þau tækifærinu.
En hvað skyldu Hvalárvirkjun og hvalaskoðun eiga sameiginlegt?
Mér kemur í hug tímamótamyndir sem ég tók í fyrstu skipulögðu hvalaskoðunarferðunum með Jöklaferðum árið 1993. Þá fóru 150 manns í hvalaskoðunarferðir frá Höfn í Hornafirði. Á síðasta ári fóru 354.000 manns í hvalaskoðunarferðir. Engan óraði fyrir að þessi grein ætti eftir að vaxa svona hratt. Hvalaskoðun er ein styrkasta stoðin í ferðaþjónustunni sem heldur hagsæld uppi í dag á Íslandi. Hvalaskoðun fellur undir hugtakið "eitthvað annað" í atvinnusköpun í stað mengandi stóriðu og þungaiðnaði.
Vestfirðingar geta nýtt þetta ósnortna svæði með tignarlegum fossum í Hvalá og Rjúkanda til að sýna ferðamönnum og er nauðsynlegt að finna þolmörk svæðisins. Umhverfisvæn og sjálfbær ferðaþjónusta getur vaxið þarna rétt eins og hvalaskoðun. Fari fossarnir í ginið á stóriðjunni, þá rænum við komandi kynslóðum arðbæru tækifæri. Það megum við ekki gera fyrir skammtímagróða vatnsgreifa.
Ég ferðaðist um Vestfirði í sumar. Dvaldi í nokkra daga á Barðaströnd og gekk Sandsheiði, heimsótti Lónfell hvar Ísland fékk nafn, Hafnarmúla, Látrabjarg og Siglunes. Það var fámennt á fjöllum og Vestfirðingar eiga mikið inni. Þeir verða einnig að hafa meiri trú á sér og fjórðungnum. Hann býður upp á svo margt "eitthvað annað".
Við viljum unaðsstundir í stað kílóvattstunda.
Fyrstu myndir sem teknar voru í hvalaskoðun á Íslandi 1993 og birtust í fjölmiðlum. Þá fóru um 150 manns í skipulagðar hvalaskoðunarferðir. Í dag fara 354.000 manns á ári. Það er eitthvað annað.
![]() |
Erum himinlifandi yfir þessu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.5.2019 | 09:02
Loftslagsbreytingar: Þróun lausna og bætt nýting auðlinda
Mál nr. S-103/2019
Hagrænir hvatar
Lífsferilsgreiningar sýna að byggingar eiga um þriðjung af heildar kolefnisspori jarðarinnar.
Stjórnarráðið á að setja stefnu um að allar stofnanir verði í vistvæntu vottuðum byggingum fyrir árið 2030. Einnig eiga fyrirtæki og einstaklingar að geta fengið skattaafslátt hafi þau vistvænar vottanir. Hagrænir hvatar eru lykilinn í að breyta hegðun. Sveitarfélög geta gefið afslátt af fasteignagjöldum. Hús Náttúrufræðistofnunar í Urriðaholti er ágætis fyrirmynd en hún er í BREEAM vottunarferli. New York með metnaðarfull verkefni. Einnig hefur Kaliforníuríki útfært vistvænar lausnir í byggingum.
Stjórnvöld eiga að nota hagræna hvata á öllum þeim stöðum sem hægt er að koma þeim á til að stuðla að sjálfbærni og hækka álög á alla sóun og mengun. Stuðla að því að fara inn í hringrásarhagkerfi, úr línulega hagkerfinu með allri sinni sóun.
Kolefnisskattar
Kolefnisspor flugs er 12% af samgöngum og er fyrir utan mörg losunarkerfi. Íslensk stjórnvöld eiga að vera í fararbroddi og setja kolefnisskatt á allt flug til og frá landinu og nýta fjármagnið í kolefnisjöfnun með gróðursetningu, endurheimt votlendis, landgræðslu og í nýsköpun. Alls ekki niðurgreiða flug, það er í mótsögn við umhverfisáhrifin.
Vistvænir bílar verði með lágmarks álögur en jarðefnabílar skattaðir í botn. Brennsla á jarðefnaeldsneyti er ekkert annað en glæpur gegn mannkyni.
Kolefnisspor á umbúðir vöru
Fæða á um þriðjung af heildar kolefnissporinu. Matarsóun er mikil í hinum vestræna heimi og einn liður í að sporna við henni er að kolefnisspor matvöru sé reiknuð og gefið upp á umbúðum. Einnig á vörulýsingu og verðmiðum. Styðja við nýsköpun á framsetningu kolefnisspors.
Einingin er kg CO2/kg. https://www.oatly.com/se/products/havredryck-deluxe
Fólksfækkun
Hver einstaklingur skilur eftir sig kolefnisspor og því fleiri einstaklingar því meira álag verður á jörðina. Fæðingarhlutfall íslenskra kvenna er þó jákvætt, 1,7 barn á hverja konu. Yfirleitt er miðað við að frjósemi þurfi að vera um 2,1 barn til þess að viðhalda mannfjöldanum til lengri tíma litið. Tryggja þarf að úrelt hagfræðilíkön sem ganga út á endalausa fólksfjölgun fái ekki að ráða ferðinni. Fólksfækkun skapar vandamál en fólksfjölgun skapar enn stærra vandamál. Stjórnvöld eiga ekki að hvetja til barneigna með ívilnunum. Taka þarf tillit til umhverfisþátta í hagvexti.
Neyðarástand
Ísland á að lýsa yfir neyðarástandi vegna loftslagsmála tafarlaust.
Ísland á um 0,02% af heildarlosun CO2 og er lítill leikari á sviðinu þó kolefnissporið á einstakling sé með því stærsta í heimi. En takist Íslandi að innleiða djarfar og áhrifaríkar sjálfbærar lausnir sem virka og verði kolefnishlutlaust fyrir 2040 þá verður landið góð fyrirmynd fyrir heimsbyggðina.
Á meðan hiti á jörðinni eykst, jöklar bráðna, höfin súrna og loðnan hverfur þá er þessi umsögn skrifuð.
Heimildir:
https://architecture2030.org/buildings_problem_why/
https://www.nature.com/news/one-third-of-our-greenhouse-gas-emissions-come-from-agriculture-1.11708
https://www.hagstofa.is/utgafur/frettasafn/mannfjoldi/faedingar-2017/
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 09:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.5.2019 | 11:43
Akademía Norwich City
Norwich City vann hina erfiðu EFL Championship-deild eftir glæsilegan endasprett og tryggði sér sæti í Úrvalsdeildinni á næsta keppnistímabili
Norwich hefur ekki úr miklum peningum úr að spila og treystir mikið á unglingastarfið. Liðið er eitt af 24 liðum sem uppfyllir kröfur Englendinga og eru í Category One flokknum á knattspurnuakademíum. En til að vera í efsta flokki þarf að bjóða upp á fimm hluti: árangur í framleiðni leikmanna í aðallið, góða æfingaaðstöðu, góða þjálfun, menntun og velferð leikmanna. Nýlega var hópfjármögnun hjá stuðningsmönnum Norwich til að fjármagna nýtt hús fyrir æfingaaðstöðuna.
Æfingaaðstaða Norwich, Colney Training Ground, er í úthverfi borgarinnar og þar er akademía liðsins einnig til húsa. Skógur liggur að hluta að svæðinu.
Unglingalið Norwich komu á Rey Cup og höfðu tengingu við Ísland og buðu efnilegum leikmönnum á reynslu. Tveir Íslendingar eru á mála hjá Norwich, Ísak Snær Þorvaldsson og Atli Barkarson. Áður hafði Ágúst Hlynsson verið með samning við liðið. Með komu Farke, þá hafa áherslur breyst og horfa þeir meira til Þýskalands. Þjálfarateymið breyttist einnig og þekktir men eins og Darren Huckerby hurfu á braut.
Ísak Snær Þorvaldsson
Nokkrir leikmenn Kanarífuglanna hafa komið úr akademíunni og orðnir lykilleikmenn má þar nefna Max Aarons, Ben Godfrey, Jamal Lewis og Todd Cantwell.
Helstu afrek unglingaliðs Norwich eru sigur í FA Youth Cup 2013 en þá báru Murphy bræður upp leik liðsins. Áður hafði liðið unnið bikarinn 1983 og helsta nafnið sem men þekkja úr því liðið er Danny Mills.
Fyrsti milljón punda maðurinn sem þeir ólu upp og seldu var Justin Fashanu til Nottingham Forest árið 1981.
Norwich er lítið félag þar sem allir skipta máli. Leikmenn, unglingalið, þjálfarateymi, stjórn og stuðningsmenn.
Það verður gaman að fylgjast með Norwich í Úrvalsdeildinni á næsta leiktímabili og sjá hvernig drengirnir úr akademíunni standa sig. Kannski fáum við að sjá ísak og Atla í úrvalsdeildinni á næstu árum í gulu treyjunum og grænu buxunum.
On The Ball City
Enski boltinn | Breytt 11.8.2019 kl. 13:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.4.2019 | 15:14
Norwich City
Þeir fljúga hátt kanarífuglarnir frá Norfolk í Championship-deildinni.Liðið er efst og allar líkur á að liðið spili í Úrvalsdeildinni á næsta ári.
Ekki bjóst ég við þessari stöðu í upphafi tímabils en þá fóru þrír lykilmenn til annarra liða í Úrvalsdeild en hinn klóki stjóri Daniel Farke úr smiðju Dortmund hefur snúið hlutunum liðinu í hag.
Norwich hefur ekki úr digrum sjóðum að spila og hin nægusama Delia Smith stjörnukokkur hefur stjórn á hlutunum rétt eins og í eldhúsinu.
Áður en tímabilið hófst þá seldi Norwich James Maddison til Leicester fyrir 22 milljónir punda sem er félagsmet og hefur hann staðið sig vel. Josh Murpy var seldur til Cardiff City fyrir 11 milljónir. Einnig fór marvörðurinn Angus Gunn sem var að láni til Southampton. Þrír lykilmenn farnir.
Í staðin fann Farke lekmenn sem voru með lausa samninga en stefnan er að eyða ekki meira en 2 milljónum punda í leikmenn. Finninn Teemu Pukki sem nýlega var kosinn leikmaður Champions-deildarinnar kom á frjálsri sölu frá Bröndby sem og hinn leikreyndi Tim Krul frá Brighton. Kúbaninn með þýska vegabréfið Onel Hernández á kantinum og kom fyrir 1,7 milljónir punda. Mögnuð skipti og engin sóun á fjármagni.
Norwich hefur einnig gefið leikmönnum úr Norwich-akademíunni tækifæri og má þar nefna Maximillian Aarons, Jamal Lewis og Todd Cantwell sem hafa leikið stórt hlutverk í vetur.
Arons, Farke og Pukki
Lykillinn að árangri liðsins er seigla en margir leikir hafa unnist í lok leiks og hefur Pukki verið laginn við að skora sigurmörk í viðbótartíma. Einnig hefur Farke horft til þýskalands og fundið ódýra og samningslausa leikmenn. Fjórir þýskir leikmenn eru í lykilhlutverkum liðsins. Norwich er lítið félag þar sem allir skipta máli, leikmenn, stjórn og stuðningsmenn. Vasar ekki djúpir, enginn aðgangur að mengandi olíu.
Eitt leynivopn hefur Fark notað en eftir leik eru leikmenn frystir í frystiklefa. Fara þeir tveir til þrír inn í hjólhýsi og varðir á höndum og fótum. Einnig eru þeir með vörn um höfuðið. Þeir eru inni í kuldanum í 2 til 3 mínútur og koma út aftur. Fara svo aftur inn í kuldann.
Í dag á föstudaginn langa á Norwich leik á Carrow Road við miðvikudagsdrengina í Sheffield og jafnframt er þetta 100 leikur Norwich undir stjórn Farke. Sigur í leiknum mun styrkja stöðuna um sæti í Úrvalsdeild mikið. Stjóri Wednesday er gömul Norwich hetja, Steve Bruce en hann lék 141 leik á árunum 1984-1987.
Besti árangur Norwich í efstu deild er þriðja sætið á fyrsta tímabili ensku Úrvalsdeildarinnar. 1992-1993. Liðið hefur tvisvar unnið deildarbikarinn 1962 og 1985.
Stuðningsmennirnir á Carrow Road syngja enn baráttusönginn "On the Ball, City" fyrsta og elsta stuðningslag knattspyrnusögunnar. Norfolk men eru stoltir af framlagi sínu til knattspyrnusögunnar og skammstöfunin #OTBC er algeng í efni frá þeim á samfélagsmiðlum.
Norwich er vinaleg borg sem telur tæplega 300 þúsund manns og þekktasta kennileiti Norwich kastali frá tímum Vilhjálms sigurvegara og er hann að verða þúsund ára gamall.
Helsti andstæðingur Norwich City er Ipswich Town en staða þeirra er allt önnur, þeir eru lang neðstir í deildinni og fallnir kætir það einhverja stuðningsmenn kanarífuglanna.
Það verður gaman að fylgjast með Norwich í Úrvalsdeildinni á næsta leiktímabili. En liðið hefur hoppað á milli deilda á öldinni,hefur verið of lítið fyrir stóru deildina en of stórt fyrir litlu deildina.
On The Ball City
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.12.2018 | 11:42
Einbreiðar brýr í ríki Vatnajökuls
Þegar ég heimsótti átthagana um páskana árið 2016 var ég skelkaður vegna mikillar umferðar og hættum sem einbreiðar brýr skapa. Þá voru 21 einbreið brú, svartblettir í umferðinni á leiðinni. Ég ákvað að taka myndir af öllum brúm og senda alþingismönnum Suðurlands ábendingar með áhættumati sem ég framkvæmdi.
Einnig sendi ég umsögn til Umhverfis- og samgöngunefndar vegna Samgönguáætlunar 2015 - 2018. Þar komu fram nokkrar tillögur til úrbóta. Læt þær fylgja hér:
Úrbætur
- Draga úr ökuhraða þegar einbreið brú er framundan í tíma
- Hraðamyndavélar.
- Blikkljós á allar brýr, aðeins við fjórar brýr og blikkljós verða að virka allt árið.
- Útbúa umferðarmerki á ensku
- Fjölga umferðamerkum, kröpp vinstri- og hægri beygja, vegur mjókkar
- Setja tilmælaskilti um hraða í tíma við einbreiðar brýr og aðra svartbletti, t.d. 70, 50, 30 km hraði.
- Skoða útfærslu á vegriðum
- Fræðsla fyrir erlenda ferðamenn
- Virkja markaðsfólk í ferðaþjónustu, fá það til að ná athygli erlendu ferðamannanna á hættunni án þess að hræða ökumenn
- Nýta SMS smáskilaboð eða samfélagsmiðla
- Betra viðhald
- Bæta göngubrú norðan megin við Jökulsárlón á Breiðamerkursandi
- Styrkja þarf brýr, sú veikasta, Steinavötn tekur aðeins 20 tonn
Þegar erlend áhættumöt eru lesin, þá hafa brúarsmiðir mestar áhyggjur af hryðjuverkum á brúm en við Íslendingar höfum mestar áhyggjur af erlendum ferðamönnum á einbreiðum brúm.
Mér finnst gaman að lesa yfir úrbótalistann tæpum þrem árum eftir að hann var gerður og áhugavert að sjá minnst á brúna yfir Steinavötn en hún varð úrskurðuð ónýt um haustið 2017 eftir stórrigningu.
Það virðist vera stemming núna að lækka hámarkshraðann en hraðinn drepur. Vegrið á Núpsvatnabrúnni uppfylla ekki staðla og fræðsla hefur verið fyrir erlenda ferðamenn hjá Samgöngustofu.
Um sumarið 2016 voru gerðar úrbætur. Fjárveiting fékkst og fór nokkrar milljónir í að laga aðgengi að einbreiðum brúm. Blikkljós voru sett við allar einbreiðar brýr í Ríki Vatnajökuls og málaðar þrengingar að brúm en sumar sjást illa í dag. Umferðamerkjum var fjölgað og merking samræmd.
Við það minnkaði áhættan nokkuð og alvarlegum slys urðu ekki fyrr en á fimmtudaginn er 3 erlendir ferðamenn fórust í hörmulegu slysi á brúnni yfir Núpsvötn.
Það er loks komin áætlun en það var markmið með erindi mínu til Umhverfis- og samgöngunefndar. Í samgönguáætlun 2019 -2023 er gert ráð fyrir að átta einbreiðar brýr verði eftir á vegkaflanum milli Reykjavíkur og austur fyrir Jökulsárlón í lok árs 2023.
Þá sé í tillögu að samgönguáætlun fram til ársins 2033 áætlað að skipta út sex brúm í viðbót, þannig að í lok þess árs verði tvær einbreiðar brýr eftir á vegkaflanum. Það er annars vegar brúin yfir Núpsvötn og brúin á Jökulsá á Breiðamerkursandi.
Það þarf að setja brúna yfir Núpsvötn í hærri forgang eftir atburði síðustu daga. Uppræta þarf ógnina. Bæta öryggi á íslenskum vegum og þannig fækka slysum.
Kostaður samfélagsins af umferðarslysum síðustu tíu árin er rúmir fimm hundruð milljarðar króna eða að meðaltali um fimmtíu milljarðar árlega. Á sama tíma hefur Vegagerðin fengið um 144 milljarða króna til nýframkvæmda. Hér er vitlaust gefið.
En þetta er áætlun á blaði og vonandi heldur hún betur en samningurinn um heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar sem getið var í stjórnarsáttmálaunum og ætla Sjálfstæðismenn svíkja það loforð.
Heimildir
Umferðarslys á Íslandi 2017 - Samgöngustofa
29.12.2018 | 14:49
Ferðin yfir Núpsvötn
Ég hef verið baráttumaður fyrir útrýmingu einbreiðra brúa í Ríki Vatnajökuls. Þann 5. ágúst 2016 fór ég yfir einbreiðu brúna yfir Núpsvötn á leið til vesturs og tók upp myndband sem sett var á facebook baráttusíðuna Einbreiðar brýr. Myndbandið er 30 sekúndna langt og ekki átti ég von á því að það yrði notað í heimsfréttir þegar það var tekið.
Á fimmtudaginn 27. desember varð hörmulegt slys á brúnni yfir Núpsvötn við Lómagnúp. Þrír erlendir ferðamenn frá Bretlandi létust en fjórir komust lífs af er bifreið þeirra fór yfir handrið og féll niður á sandeyri.
Breskir fjölmiðlar höfðu eðlilega mikinn áhuga á að segja frá slysinu og fundu þeir myndbandið af ferðinni fyrir rúmum tveim árum. Það hafði að þeirra mati mikið fréttagildi.
Fyrst hafði BBC One samband við undirritaðan um miðjan dag og gaf ég þeim góðfúslega leyfi til að nota myndbandið til að sýna aðstæður á brúnni og til að áhorfendur myndu ekki fá kolranga mynd af innviðum á Íslandi. Minnugur þess er ég var að vinna hjá Jöklaferðum árið 1996 þegar Grímsvatnagosið kom með flóðinu yfir Skeiðarársand þá voru fréttir í erlendum fjölmiðlum mjög ýkar. Fólk sem hafði verið í ferðum með okkur höfðu þungar áhyggjur af stöðunni.
Síðan bættust Sky News, ITV og danska blaðið BT í hópinn og fengu sama jákvæða svarið frá mér. Innlendi fjölmiðilinn Viljinn.is hafði einnig samband og tók viðtal við undirritaðan.
Miðlarnir hafa bæði lifandi fréttir og setja fréttir á vefsíðu. Hjá BBC One var myndbandið spilað í heild sinni seinnihluta fimmtudagsins með fréttinni og á ITV var bútur úr því í morgunútsendingu.
Ég fylgdi einnig eftir fréttinni og benti fréttamönnunum eða framleiðslustjórum fréttamiðlanna á að það væri áætlun í gangi um úrbætur í samgöngumálum.
Mynd af fréttavef ITV
Heimildir
BBC One - https://www.bbc.com/news/uk-46703315
Sky News - https://news.sky.com/story/three-british-tourists-killed-in-iceland-jeep-crash-11592671
ITV - https://www.itv.com/news/2018-12-27/iceland-land-cruiser-crash/
Viljinn.is - https://viljinn.is/frettaveita/varadi-vid-daudagildrum-a-sudurlandi-fyrir-tveimur-arum/
Samgöngur | Breytt 1.1.2019 kl. 12:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.10.2018 | 13:42
Hvítárbrú og áætlanir
Langafi minn Sigurður Sigurðsson (1883-1962) trésmiður vann að öllum líkindum við byggingu Hvítárbrúar árið 1928. Í einkabréfi sem hann skrifar 1948 telur hann upp helstu byggingarverk sem hann hefur komið að en hleypur yfir árið 1928. Í myndasafni sem hann átti er jólakort með mynd af Hvítárbrú.
Hann hefur lært af meistaraverkinu við Hvítárbrú og í bréfi frá 1935 sem varðveitt er hjá Vegagerðinni eru samskipti milli Sigurðar snikkara og brúarverkfræðings Vegamálastjóra til, en þá stóð bygging Kolgrímubrúar í Suðursveit sem hæst. Grípum niður í Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar:
Bréf til Sigurðar brúasmiðs. Afritið sem varðveitt er í skjalasafni Vegagerðarinnar er ekki undirritað en miklar líkur eru á að Árni Pálsson brúarverkfræðingur hafi skrifað þessar línur. Þetta er athyglisverð lýsing á vinnubrögðum við bogabrýr.
29. maí 1935
Herra verkstjóri Sigurður Sigurðsson Hornafirði
Viðvíkjandi steypu í bogabrúna á Kolgrímu skal það
tekið fram, að áður en að byrjað er að steypa bogann,
skal gengið að fullu frá því að leggja bogajárnin, - bæði
efri og neðri járnin - og binda þau saman með krækjum
og þverjárnum í samfellt net, sem sýnt er á uppdrætti. Að
því loknu verður boginn steyptur og er hér heppilegast að
steypa bogann í fimm köflum, - með raufum á milli - svo
missig bogagrindar verði sem minnst; verður til þessa að
hólfa sundur með sérstökum uppslætti þvert yfir bogann.
Á meðfylgjandi uppdrætti er sýnt hvar heppilegast er
að setja þverhólfin og verður þá fyrst steyptur kafli nr.
1 um bogamiðju, síðan kafli nr. 2 við ásetur, loks kaflar
nr. 3 á milli ásetu og bogamiðju og að síðustu er steypt í
raufarnar nr. 4.
Eins og þér sjáið af þessu er hér að öllu leyti farið að,
eins og við bogana á Hvítá hjá Ferjukoti.
Samsetning steypunnar í boga er að sjálfsögðu
1:2:3, en að öðru leyti skal í öllu fylgt þeim góðu
byggingarvenjum er þér hafið vanist við brúargerðir.
Virðingarfyllst.
Bréfritari vísar í byggingu bogabrúar yfir Hvítá í Borgarfirði svo líklega hefur Sigurður komið þar að verki sem smiður og bréfritara verið kunnugt um það.
Steypublandan 1:2:3 eru hlutföll sements, sands og malar sem algengust voru við brúargerð.
Brúargerð á Hvítá hjá Ferjukoti 1928 stendur á bakhlið myndarinnar. Eigandi Sigurður Sigurðsson, trésmiður frá Hornafirði.
Ég hef heyrt það að annað sem hafi verð merkilegt fyrir utan glæsilega hönnun og mikla fegurð brúarinnar er að verkið stóðst fjárhagsáætlun upp á krónu. Ekki voru Microsoft forritin Excel eða Project til þá. Heldur hyggjuvitið notað.
Í bréfi langafa frá 1948 segir ennfremur:
"1926 Eftirlitsmaður við Lýðskólabygginguna á Eiðum." Og aðeins neðar: "1927 var ég einnig eftirlitsmaður á Hólum í Hjaltadal. Einnig voru þar byggð fjárhús og hlaða fyrir um 300 fjár. Ég var svo hygginn að þessar byggingar fóru ekkert fram úr áætlunum og því ekkert blaðamál út af þeim. Þess vegna enginn frægur fyrir að verja eða sækja það mál þar sem hvorki var þakkað eða vanþakkað."
Við getum lært mikið af þessu verkefnum og verkefnastjórnun fyrir rúmum 90 árum. Fjárhagsáætlanir hafa því í gegnum tíðina verið í skotlínu fólks.
Til hamingju með afmælið, Hvítárbrú.
Póstkort af Hvítárbrú frá 1928
Heimild:
Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar, 3. tbl. 2018. Bls. 6
![]() |
Bogabrúin yfir Hvítá 90 ára |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (12.7.): 1
- Sl. sólarhring: 16
- Sl. viku: 113
- Frá upphafi: 236854
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 81
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar