200 ár frá fæðingu Sölva Helgasonar - Sólon Íslandus

Líkt og Kristur forðum
varstu krossfestur af lýðnum
sem til leti taldi heimspeki og list
Hög var hönd og hugur þinn
og að þér hændust börnin
og marga heita konu fékkstu kysst (Magnús Eiríksson)

Þann 16. ágúst eru 200 ár síðan Sölvi Helgason, flakkari, listamaður og spekingur fæddist á bænum Fjalli í Sléttuhlíð í Skagafirði, á ströndinni við ysta haf.

Ég hafði helst heyrt um Sölva í gengum lagið Sölvi Helgason flutt af hljómsveitinni Mannakorn.  Í fyrrasumar fór ég á Kjarvalsstaði en þar voru þrjár sýningar. Ein af þeim var Blómsturheimar sem tileinkuð var verkum Sölva. Listfræðingur lóðsaði okkur um sýningarnar og sagði frá 18 nýjum verkum Sölva frá Danmörku. Mér fundust blómamyndirnar ekkert sérlega spennandi, mikil endurtekning en blöð sem Sölvi hafði skrifað á vöktu athygli mína. Það voru örsmáir stafir með fallegri rithönd á þéttskrifuðu blaði, allt gjörnýtt.  Listfræðingurinn var spurður út í þetta og svarið var augljóst.

Skrift Sölva var frábær, og kunni hann margbreytta leturgerð. Venjulega skrifaði hann svo smátt, að ólæsislegt var með berum augum. Gerði hann það bæði til að spara blek og pappír og eins til að sýna yfirburði sína í því sem öðru. Þá gat fólkið, sem alltaf var á þönum í kringum hann, síður lesið úr penna hans, því að ekki skorti það forvitnina. Annars var það víst litlu nær, þótt það gæti stafað sig fram úr nokkrum línum. Það svimaði um stund af ofurmagni vizku hans. Það var allt og sumt.   (Sólon Íslandus II, bls. 286.)

Minnisvarðinn

Eftir þessa sýningu vissi ég aðeins meira um Sölva en fyrir aðra tilviljun kynntist ég lífshlaupi Sölva eða Sólon Íslandus í sumar er ég heimsótti Skagafjörð.  Ég heimsótti minnisvarða um Sölva við bæinn Lónkot í Sléttuhlíð og lagði rauða rós við minnisvarðann.  Þar frétti ég að til væri bók um hann, Sólon Íslandus eftir Davíð Stefánsson frá Fagraskógi.  Því var ákveðið að fá hana lánaða og lesa bindin tvö eftir farsæla dvölina nálægt Sléttuhlíð.

Minnisvarði  Sölvi Helgason

Ég sé Sölva Helgason fyrir mér þar sem hann situr á skýjahnoðra yfir Sléttuhlíð í Skagafirði. Augu hans flökta en staðnæmast við minnisvarðan í Lónkoti. Rósin þín og styttan mynna okkur á að einu sinni fyrir löngu var förumaður á Íslandi sem lifði í eigin heimi. Hann reyndi að opna augu samferða fólks síns á sjálfum sér í máli og myndum. Engin skildi hann fyrr en eilífðin hafði sléttað yfir sporin hans.”  -GT

 

Sólon Íslandus

Ég hafði gaman af lestri bókarinnar og hjálpaði dvöl mín mikið og gaf nýtt sjónarhorn. Ég áttaði mig miklu betur á landinu, heiðunum og kraftinum í hafinu sem Davíð lýsir svo meistaralega vel.  Skáldsagan segir á sannfærandi hátt frá lífshlaupi Sölva sem tekur sér nafnið Sólon Íslandus og er spegill á 19. öldina. Það kom á óvart þegar fréttist að Davíð væri að skrifa bók um Sölva  sem kom út árið 1940 en það er snjallt hjá höfundi að nota förumann til að ferðast um Ísland á þessum hörmungar tímum þar sem vistarbönd voru við lýði og alþýðufólk mátti ekki ferðast á milli sýslna án reisupassa.  Sagan er listilega vel skrifuð með mikið af fallegum gömlum orðum  sem sýnir hvað Davíð hefur mikið vald yfir tungumálinu og lifði ég mig vel inn í tímann fyrir 200 árum. Gagnrýnendum finnst hann draga ókosti Sölva meira fram en kosti í sögulega skáldverkinu. Persónusköpun er góð og margar persónur mjög eftirminnilegar.

Erfiðri æsku sem mótaði hann er lýst mjög sannfærandi og fallegu sambandi hans við móður hans en hún lést er hann var á unglingsaldri. Faðir hans ofdekraði hann en lést er Sölvi var fjögurra ára.  Samband stjúpföður hans var byggt á hatri.  Eftir að hann varð munaðarlaus fór hann á flakk eða gerðist landhlaupari. Mögulegt er að þessi áföll hafi gert hann sinnisveikan.

Frelsið

En Sólon Íslandus lét ekkert stöðva sig. Örlögin höfðu synjað honum þeirrar náðar, að stunda  bókvísi á skólabekk. Líkamlegt strit var honum ósamboðið. Hann barðist fyrir frelsis. Frjálsborinn maður,  hann vari hvorki hreppakerling né glæpamaður, heldur frjálsborinn höfðingi og spekingur, sjálfráður ferða sinna.  Jarðhnötturinn var hans heimili.

Þessi afstaða hans kostaði sitt og eyðilagði bestu ár lífs hans. Þegar Sölvi var 23 ára var hann handtekinn og ákærður fyrir flæking og að falsa yfirnáttúrlegan  reisupassa. Hann fékk dóm upp á 27 vandarhögg.  Nokkrum árum síðar var hann aftur ákærður fyrir lausamennsku og flakk. Hann uppskar  fleiri vandarhögg . Árið  1854 var hann síðan dæmdur til þriggja ára betrunarvistar í Danmörku. Sölvi stóð með sjálfum sér.

Þegar hann kom til Íslands  hélt hann flakkinu samt áfram og helgaði sig enn meir málaralistinni. En lífið var barátta og sýn bænda var sú að fólk hafði annað að gera í fjallkotunum en að góna út í loftið. Lifði ekki af fegurð, heldur striti.

En Sölvi svaraði: Er það ekki vinna að ferðast um landið og gera af því uppdrætti og kort? Er það ekki vinna að stunda vísindi og listir?

Í fari hans fór saman brengluð sjálfsímynd, lituð af oflæti, en jafnframt ókyrrð og stefnuleysi, sem þóttu almennt vera ógæfumerki. Sumir kölluðu hann loddara en aðrir snilling. (bls. 120 FÍ árbók 2016)

Allt eru þetta sjálfsögð réttindi í dag, að geta ferðast um landið og einstök barátta hans við embættismannakerfið. Aldri gafst hann upp.   Þarna rannsökuðu og dæmdu sýslumenn í sama málinu, mannréttindabrot voru framin.

Saga Sölva á vel við í dag, blökkumenn í Bandaríkjunum eru í sömu baráttu, samkynhneigðir og fleiri. En Sölvi var einn í baráttunni, ólíkt Rosa Parks sem neitaði að standa upp fyrir kúgurum sínum. Enginn skildi hann.

Eins dáist ég af sjálfstrausti hans og seiglu, standa upp í hárinu á embættismönnum og geta lifað á heiðum Íslands en veður voru oft slæm.

Sölvi lést 20. október 1895, 75 ára að aldri á Ysahóli í sömu sveit og hann fæddist. Vistarbandið sem hélt honum föngnum hættir á þessum tíma.

En hver er arfleið Sölva?  Mannréttindabarátta og listaverk. En hann er frumkvöðull í málaralist á Íslandi. Frjáls og sjálflærður listamaður með nýja stefnu sem fólk skildi ekki. Honum var ýtt til hliðar, hann er naivisti, en það sem hann gerði spratt úr hans eigin hugarheimi. Blómin eru ekki íslensk fjallablóm heldur úr hans fantasíu heimi. 

Einnig er óútgefið efni á Þjóðminjasafninu. Þar á meðal Saga Frakklands en hann var undir áhrifum frá frelsandi Frakklandi.

Eftir að hafa fræðst um Sölva, þá hefur hann vaxið mikið í áliti hjá mér þó hann hafi verið erfiður í samskipum og blómamyndirnar verða áhugaverðari og fallegri. Mæli með lesti á bókinni Sólon Íslandus, það er skemmtileg lesning. 

En best er að enda þetta á lokaorðum Ingunnar Jónsdóttur í Eimreiðinni 1923 en hún kynntist Sölva á efri árum en þá voru enn miklir fordómar út í lífsstíl Sölva: “En alt fyrir það hefir mér ekki gengið betur en öðrum að ráða þá gátu, hvort hann var heimspekingur eða heimskingi.”

Listaverk Sölvi Helgason

Heimildir:
Árbók Ferðafélags Íslands, 2016
Eimreiðin, tímarit 1923.
Harpa Björnsdóttir, ruv.is 2019.
Sólon Íslandus, Davíð Stefánsson 1940.
Sölvi Helgason, listamaður á hrakningi, Jón Óskar 1984.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Sölvi sagðist vera okkar fyrsti heimspekingur og ég hallast að því að það hafi verið rétt hjá honum. Takk fyrir að heiðra minningu hans.

Guðjón E. Hreinberg, 14.8.2020 kl. 12:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 17
  • Sl. sólarhring: 17
  • Sl. viku: 86
  • Frá upphafi: 226326

Annað

  • Innlit í dag: 14
  • Innlit sl. viku: 72
  • Gestir í dag: 13
  • IP-tölur í dag: 13

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband