Losunarsvið 3

COP 28 ráðstefnan í Dubai lauk í vikunni, það er því tilefni að skoða losunarsvið 3 í loftslagsbókhaldi fyrirtækja en áður hefur verið fjallað um losun og hagnað í byrjun ráðstefnu.

Losunarsvið 3 (e. scope3) sýnir losun í virðiskeðju fyrirtækja. Bæði ílag og frálag. Losunarmælingar í virðiskeðjunni eru nauðsynlegar til að fyrirtæki skilji rekstur sinn og ábyrgð og lykilatriði til að ná kolefnishlutleysi (Net Zero emissions).

Í  GHG staðlinum eru skilgreindir upp 15 losunarþættir. Þeir hafa verið valkvæðir en mun verða skylda á komandi árum með auknum kröfum alþjóðasamfélagsins. En ábyrgð stóru losunarfyrirtækjanna er mikil og þau verða að axla hana með því að kortleggja losunarsvið 3 vandlega.

Í rannsókn sem gerð á sjálfbærniskýrslum 3.200 fyrirtækja sem eru í MSCI World vísitölunni þá var niðurstaðan: 88% losunar er í losunarsviði 3. GHG Protocol hefur gefið út að 79% af losun sé í umfangi 3 og Carbon Trust research áætlar að losunin sé 65-95% í umfangi 3.

Mikilvægi losunarsviðs 3 felst í því að þar er stærsti hluti í heildar kolefnisfótspori fyrirtækis. Þó að losun sé mismunandi eftir atvinnugreinum. Með því að kortleggja losunarsvið 3 geta fyrirtæki haft yfirgripsmeiri og heildstæðari nálgun til að draga úr heildar umhverfisáhrifum sínum. Helstu kostir aðrir en að ná markmiði um kolefnishlutleysi eru: Alhliða áhrif, draga úr áhættu, þátttaka hagsmunaaðila og nýsköpunartækifæri.

Skoðum stöðuna í losunarsviðum hjá íslenskum fyrirtækjum sem losa meira en 20 þúsund tonn CO2.

Losunarsvið 3 - staðan í dag

Rauður litur í losunarsviðum segir að losunarbókhald er óviðunandi. Grænt þýðir að losunartala er rétt. Gulur litur er nálægt markmiði. Blár litur hjá Samherja er áætlun en fyrirtækið hefur ekki birt loftslagsbókhald sitt opinberlega.

Niðurstaðan er að aðeins rúm 100 þúsund tonn CO2 eða 2% losunar er í losunarsviði 3, virðiskeðjunni og það er mjög slök útkoma. Þegar öll fyrirtæki á Íslandi eru skoðuð, þá hækkar talan í 9%. Litlu fyrirtæki eru að standa sig miklu betur. Flugfélagið Play er með nokkuð gott loftslagsbókhald og eina sem uppfyllir alþjóðlega kröfur. Orkufyrirtækin geta gert betur en á góðri leið. Landsvirkjun er með vottun frá CDP en skv. gögnum frá CDP þá lítur út að eitthvað sé enn vantalið. Sjávarútvegsfyrirtækin sýna framfarir á hverju ári. Álfyrirtækin þrjú skila núll í losunarsviðið 3, það sýnir algert áhuga- og metnaðarleysi. Þó má hrósa ÍSAL fyrir að gera vel í losunarsviði 2, orkunotkun.

Hellnasker, hugveita í sjálfbærni, hefur reiknað út líklega niðurstöðu úr losunarsviðunum þrem og telur að svona eigi loftslagsbókhald fyrirtækjanna að vera.

Losunarsvið 3 - rétt staða

Losun í virðiskeðjunni er áætluð tæplega 9 milljón tonn CO2 eða 66% hlutfall af losunarsviði 3. Álfyrirtækin skulda að gefa upp rúmlega 5 milljón tonn. Kísiliðjurnar tvær, Elkem og PCC Bakki Silicon skulda 2,2 milljón tonn CO2 en mest óvissa er með þessa tölu.

Það er krafa um að lönd og stórfyrirtæki fylgi markmiðum Parísarsamkomulagsins og dragi úr losun um 50% fyrir 2030. Hefðu þessi fyrirtæki kortlagt losun í losunarsviði 3, þá væru þau að vinna að því að draga úr losun um tæplega 4,5 milljón tonn en þegar ekkert er gefið upp, þá þurfa menn ekki að greiða skatt. Vissulega er megnið af losuninni erlendis en allt tengist og neikvæðu áhrifin koma niður á okkur öllum.

Eins og sjá má þá getur hlutfall losunar verið breytilegt á milli atvinnugeira. Í flugi eru 80% losunar í losunarsviði 1 en 77% í losunarsviði 3 hjá álframleiðendum.

Stóru losunarfyrirtækin á Íslandi eru ekki að standa sig og sýna litla ábyrgð, stjórnvöld þurfa að taka frumkvæðið með réttlátum umskiptum í loftslagsmálum, setja þarf neyðarlög (herlög) og skylda fyrirtækin til að gera metnaðarfulla aðgerðaráætlun sem stjórnvöld fylgja eftir.

Ljóst er að Íslendingar þurfa að taka sig verulega á ef Parísarsamkomulagið 2030 og markmiði kolefnishlutleysi 2040 á að nást.

Það er allt of ódýrt að menga!


Menga á daginn og grilla á kvöldin

COP28 loftslagsráðstefnan í Dubai hófst 30. nóvember 2023 og því er nauðsynlegt að skoða frammistöðu Íslenskra fyrirtækja sem losa meira en 20 þúsund tonn af CO2 á síðasta ári. En berjast þarf að krafti við að draga úr losun því hvert hitametið á fætur öðru hefur verið slegið á þessu ári. Haldi þessi þróun áfram mun hún hafa skelfi­legar afleið­ingar fyrir jarð­ar­búa, líf­ríki og vist­kerfi á jörð­inn­i.

Niðurstaðan úr loftslagsbókhaldi er sorgleg. Eins sést í töflunni þá sést að fyrirtækin juku losunina um 759 þúsund tonn CO2 eða 17%. Ef flugið er aðskilið þá er aukningin 4%. Þessi 22 fyrirtæki losa 4,4 milljón tonn CO2 og ábyrg fyrir 2/3 af losun Íslands fyrir utan landnotkun. Til að berjast gegn hlýnun jarðarinnar og ná markmiði að halda hlýnun jarðarinnar undir 1,5°C. og ná lögbundnum markmiðum Íslands 2030 þá þurfa fyrirtækin að draga losun saman um 8% árlega. Losun er losun sama úr hvaða losunarkerfi eða atvinnugeira hún kemur.

Sobril

Flugfélögin þrjú juku losun um tæp 600 þúsund tonn af CO2 eða eins og 300 þúsund nýir jarðefnabílar hafi bæst í bílaflotann. Allt stefnir í að þau losi enn meira á þessu ári.

Losun frá stóriðjunni jókst vegna aukinnar framleiðslu og ljóst að hún muni verða svipuð komandi ár.

Skipafélögin tvö losuðu um 600 þúsund tonn CO2 og ánægjulegt að heyra að þau ætli að taka sig á og hagræða í flutningum vegna losunarheimilda í stað þess að biðja um undanþágu.

Orkufyrirtækin þrjú bættu öll vel við sig vegna aukinnar framleiðslu. Ljóst er að losun mun aukast frá þeim með aukinni orkuframleiðslu.

Sjávarútvegsfyrirtækin bættu öll við sig og helsta ástæðan er að notuð voru 22 þúsund tonna af olíu til að bræða uppsjávarfisk en ekki var næg raforka í landi hinnar hreinu orku fyrir fiskimjölsverksmiðjurnar. Aukningin vegna bræðslunnar er eins og þrjú ár af rafbílavæðingu hafi verið þurrkuð út. Aukning hjá Síldarvinnslunni er vegna sameiningar við Vísi og 7,4 þúsund tonna af olíu til bræðslu sem losar 19 þúsund tonn CO2 eða ávinning af rafbílavæðingu í eitt ár!

Nú berast fréttir um orkuskerðingu frá Landsvirkjun og öfug orkuskipti framundan. Spurning er hvort gáfulegt sé að veiða loðnu beint til bræðslu þegar ástandið er svona.

Samherji er eina fyrirtækið á listanum sem ekki hefur gefið út sjálfbærniskýrslur og ekki viljað gefa losunartölur upp.

Gífurlegur hagnaður

Sjáið þið ekki veisluna? Hagnaður fyrirtækjanna fyrir skatta árið 2021 er gífurlegur eða 164 milljarðar. Beðið er eftir afkomutölum úr tímaritinu 300 stærstu en allt stefnir í að síðasta ár hafi gefið svipaða niðurstöðu. Þegar horft er á hlutina með augum sjálfbærni þá er mikið ójafnvægi á milli þriggja stoða, efnahags, samfélags og umhverfis en efnahagur trompar allt og fyrirtækin sýnt lítinn metnað í að bæta sig í umhverfismálum. Sorglegt að sjá að fyrirtækin fjárfesti ekki meira í grænum fjárfestingum, orkuskiptum, hringrásarhugsun, þekkingaröflun og nýsköpun í loftslagsmálum í góðærinu. Einnig hafa fyrirtækin verið dugleg að sækja um í opinberum sjóðum og keppa við fátæka námsmenn og nýsköpunarfyrirtæki. Það má því segja að fyrirtækin mengi á daginn og grilli á kvöldin!

Þegar fleiri þættir eru skoðaðir kemur í ljós að aðeins 1% af losuninni er bundið eða fangað en til að ná kolefnishlutleysi þarf losun og binding að vara jöfn. Landsvirkjun dregur hér vagninn.

Flest fyrirtækin eru með umhverfis- eða sjálfbærnistefnur og þar kemur fram að þau ætli að draga úr losun en þegar þessar rauðu tölur eru skoðaðar þá er eftirfylgni engin. Það er eins og stefnurnar séu til skrauts.

Losun í losunarsviði 3 (e. scope 3) er aðeins 2% hjá fyrirtækjunum en talið er að 88% losunar séu í virðiskeðjunni og ábyrgða fyrirtækjanna er mikil. Hellnasker hugveita hefur þegar kortlagt losun og niðurstaðan er að 9 milljón tonn af CO2 eru vantalin

Í gögnum frá Hagstofu Íslands kemur fram að 90% af losun kemur frá fyrirtækjum og 10% frá heimilum. En 60% af umhverfissköttum kemur frá heimilum og restin frá fyrirtækjum. Fyrirtækin losa en almenningur borgar brúsann. Þetta eru ekki réttlát umskipti.

Þegar þessi upptalning er skoðuð þá er eins og stjórnvöld hafa slegið skjaldborg um losunarfyrirtækin.

Neyðarlög

Til að ná árangri þá þurfa stjórnvöld að setja neyðarlög á þessi 22 fyrirtæki sem eiga 2/3 af losun landsins og setja í gjörgæslu. Skyldi þau til að gefa út staðfestar kolefnislosunartölur fyrir öll losunarsvið og fylgja Science Based Targets aðferðafræðinni. Þau þurfa að setja sér raunhæf markmið og metnaðarfulla aðgerðaráætlun í loftslagsmálum.

Stjórnvöld þurfa að spyrja þriggja spurninga í anda agile aðferðafræðinnar:

  • Hvað ætlið þið að gera í dag í loftslagsmálum?
  • Hvað gerðu þig í gær í loftslagsmálum?
  • Eru einhverjar hindranir?

 

Höfundur er félagi í Hellnaskeri, hugveitu um sjálfbærni.

Greinin birtist fyrst 30. nóvember í Skoðun á visir.is


Afrekssund gæðingsins Laufa

Þegar ég las fréttina um að hestur hafi slitið sig lausan í flugvél Air Atlanta þá rifjaðist upp fyrir mér svipað atvik um lausan hest en það gerðist ekki í háloftunum. Páll Imsland jarðfræðingur ritaði grein í tímaritið Skaftfelling um Ævintýraferð í Lónsöræfin 1990 á hestum. 

"Afrek Laufa fólst í því að hann sleit sig lausan á skipsdekki utan við Hornafjarðarós fyrir einum sextíu árum og stökk fyrir borð og synt af hafi upp á Þinganessker, þaðan upp á Austurfjörur og þaðan upp í Lambhelli og svo þaðan upp í Ósland og loks upp í Hafnarvíkina án þess að hafa  óþarfar viðstöður á þurrlendinu. Alls mun hann hafa synt um 1700 til 1800 metra og alla sprettina í sjó, öldum og straumi. Laufi átti þá heima á Fiskhól á Höfn en var ættaður frá Uppsölum í Suðursveit frá Gísla Bjarnasyni. Laufi var ekki bara sundkappi heldur líka viljugur alhliða gæðingur. Það var ekki til einskis að Gísli kenndi Laufa sundið, en það gerði hann með því að ríða út á Hestgerðislónð með móður Laufa í taumi þegar hann gekk undir henni folald og fylgdi hann móður sinn vel eftir."

Kjartan Kristinn Halldórsson (1896-1956) átti hestinn Laufa og bjó á Sólstöðum, Fiskhól 5. Þetta sundafrek hefur átt sé stað um 1930 eða fyrir tæpri öld. 


mbl.is Flugvél Air Atlanta snúið við eftir að hestur losnaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Upphaf hvalaskoðunarferða á Íslandi

Fjórum langreiðum var landað í Hvalfirði í dag. Þá birtast tvær minningar í kollinum,prósi sem Kristín Helga Gunnarsdóttir skrifaði þegar hvalveiðar voru endurræstar og pistill sem ég skrifaði fyrir 20 árum um upphaf hvalaskoðunarferða á Íslandi.

Kristín Helga skrifaði: "Baráttan fyrir lífi langreyða meitlar svo sterkt framtíð sem mætir fortíð. Gamall og langreiður fauskur sem neitar að mæta framtíðinni og nýjum viðhorfum til samspils manns og náttúru og neitar að viðurkenna að við þurfum að taka okkur á, bæta okkur gagnvart náttúrunni, hafinu ... en heldur áfram að marka sína blóðugu slóð allt til enda."

Upphaf hvalaskoðunarferða á Íslandi

Til að átta okkur á upphafi hvalaskoðunarferða er gott að hafa í huga að árið 1985 voru hvalveiðar í atvinnuskyni bannaðar af Alþjóðahvalveiðiráðinu en vísindaveiðar á langreyð og sandreyð leyfðar á sumrunum 1986 til 1989. Hrefnuveiðar sem stundaðar höfðu verið með hléum frá 1914 lögðust af árið 1984. Hvalveiðibannið átti upphaflega að standa í fjögur ár en stendur enn. Andstæðingar hvalveiða, bentu á að hægt væri að hafa tekjur af því að skoða hvali í stað þess að veiða þá.

Upphaf hvalaskoðunarferða frá Hornafirði má rekja til Nýheima tuttugustu aldarinnar, kaffistofunnar í Hafnarbúðinni þar sem Tryggvi Árnason réð ríkjum um miðjan níunda ártuginn. Gefum Tryggva orðið: „Trillukarlarnir og humarsjómennirnir voru stundum að segja frá hvölum sem þeir voru að rekast á fyrir utan Hornafjörð og við Ingólfshöfða. Ein sagan var sérlega áhugaverð. Mig minnir að það hafi verið Torfi Friðfinns eða Frissi, Friðrik Snorrason, sem var að veiða á trillu fyrir utan Jökulsárlónið eða Ingólfshöfða. Kemur þá stór hnúfubakur syndandi að bátnum og fer að leika sér við hann. Mikil hræðsla greip um sig hjá karlinum og setti hann í gang og sigldi á fullri ferð í burtu. Hvalurinn elti hann og varð úr nokkur eltingarleikur. Það endaði með því að karlinn sigldi í land. Í framhaldi af þessu fór ég að hugsa um hvort ekki væri hægt að bjóða upp á hvalaskoðunarferðir fyrir ferðamenn til að auka starfsemi Jöklaferða.”

Það er ekki auðvelt að vera frumherji og koma nýrri vöru á markað þótt við Íslendingar teljum okkur vera nýjungagjarna þjóð. Hvernig tóku menn þessum nýja markhóp? Tryggvi svarar því svona: „Fór ég að nefna þetta við ferðaskrifstofur og ferðaþjónustuaðila. Áhuginn var ekki mikill hjá þeim þar sem það passaði ekki inn í hringferðirnar. Einhvernvegin hafði þessi hugmynd samt komist í erlenda ferðabæklinga þar sem sagt var frá því að Jöklaferðir væru með hvalaskoðunarferðir frá Höfn.”

Þegar vara er komin í ferðabæklinga sem dreifast út um allan heim má búast við fyrirspurnum. Alltaf eru til einstaklingar sem ferðast á eigin vegum og hafa áhuga á að prófa eitthvað nýtt. Á árinu 1990 komu nokkrir ferðamenn og vísuðu í ferðabæklingana. Því voru leigðar trillur tvisvar eða þrisvar og fóru þær með tvo til fjóra farþega. Árið eftir kom pöntun frá erlendri ferðaskrifstofu fyrir 20 manna spánskan hóp og fór Lúlli, Lúðvík Jónsson, á gömlu Æskunni í ferðina. Um haustið voru farnar tvær eða þrjár ferðir með hvataferðahópa og var þá boðið upp á sjóstangarveiði í ferðunum.

Eftir þetta fór Tryggvi að spá í alvöru að hefja hvalaskoðunarferðir. Hann útbjó skýrslublöð og lét eigendur fiskibátanna hafa til útfyllingar en þar átti að skrá dagsetningar, hvar verið var að veiðum, hvort sæist til hvala, hvaða tegund, hve margir, veðurfar o.fl. Þessi skýrslugerð stóð yfir í um 18 mánuði og fékk hann til baka möppur frá átta bátum með gagnlegum upplýsingum. Þetta var gert í samráði við Hafrannsóknastofnunina.

En hvernig var staðið að markaðsstarfinu hjá Jöklaferðum eftir að gagnasöfnun lauk og útlit fyrir að grundvöllur væri fyrir nýjung í ferðaþjónustunni. Gefum Tryggva aftur orðið:

„Á þessum tíma var ég í góðu sambandi við Clive Stacey hjá bresku ferðskrifsofunni Arctic Experience og hafði sagt honum frá þessum hugmyndum. Hófst hann þegar handa um að setja upp ferðir til Íslands með hvalaskoðun sem aðalmarkmið, ásamt því að fara á jökul.

Setti hann fyrst upp ferð í nafni Arctic Experience og var heldur dræm sala en síðan fór hann í samstarf við dýraverndunarsamtökin World Wildlife Found sem vinnur að brýnni verndun villidýra og lands eða hafsvæða um alla veröld. Sett var upp ferð sem sló í gegn. Vandinn hjá mér fólst í því að ekki var hægt að fá báta nema á haustin að lokinni humarvertíð og áður en síldarvertíðin hófst.”

Skortur á bátaflota hjá Jöklaferðum var því orsök fyrir því að ekki var hægt að taka við hópum fyrr en síðari hluta sumars. Kosturinn við það var að hægt var að lengja ferðatímabilið en ókosturinn að besti tíminn var ekki nýttur. Markaðurinn var hins vegar fyrir hendi. Taflan hér fyrir neðan sýnir vöxtinn í hvalaskoðun á Íslandi.

Ár
Staðir
Fyrirtæki
Farþegar
1990
1
1
6
1991
1
1
100
1992
0
0
0
1993
1
1
150
1994
3
4
200
1995
6
8
2.200
1996
8
9
9.700
1997
10
13
20.540
1998
8
12
30.330
1999
7
10
35.250
2000
9
12
44.000
2001
10
12
60.550
2002
10
12
 



Source: Björgvinsson, 1999; Hoyt, 1994b; Hoyt, 1995a; Gögn í fórum höfundar.

Sumir hvalveiðimenn hafa dregið þessar tölur í efa og eins tekjur sem myndast hafa en Ásbjörn Björgvinsson hefur fært rök fyrir því að tekjur árið 2000 hafi verð rúmur milljarður. Því ættu tekjur árið 2001 að vera einn og hálfur milljarður. Eftir að hafa skoðað gögn frá Ferðamálaráði úr nýrri ferðakönnun þá er ég sannfærður um að talan 60.000 er nærri lagi en 36% erlendra ferðamanna fóru í hvalaskoðun í júní, júlí og ágúst 2002. Rannsaka þarf tekjurnar betur. Ásbjörn hefur hvatt ferðamálayfirvöld til þess en einhver tregða er þar í gangi. Á vormánuðum 1995 var haldið námskeið í Keflavík á vegum W.D.C.S. sem eru umhverfissamtök í Bretlandi. Enskir sérfræðingar í hvalaskoðunarferðamennsku, Mark Carwardine, Alison Smith og Erich Hoyt, komu þar fram með hugmyndir sem ruddu brautina fyrir hvalaskoðunarferðir á Íslandi. Framhaldið hjá Jöklaferðum var svo á þá leið að þegar nýja Æskan kom um sumarið 1991 datt hún úr skaftinu og því var leitað til Braga Bjarnasonar. Síðan kom Sigurður Ólafsson SF-44 inn í spilið 1993 og var í þessum ferðum til 1996 að eigendurnir vildu ekki halda áfram. Árið eftir var tekinn á leigu bátur úr Reykjavík, en eftir það gáfust Jöklaferðir upp þar sem enginn fékkst í þetta á staðnum. Í töflunni árið 1998 lækkar fjöldi fyrirtækja úr 13 í 12 og er mismunurinn Jöklaferðir.

Hvalaskoðunarferðir eru stundaðar frá fleiri stöðum en Íslandi. Þær voru stundaðar í 87 löndum árið 1998, fjöldi farþega 9 milljónir frá 492 stöðum og var veltan áætluð um 80 milljarðar króna.

Að lokum er hér listi yfir fyrirtæki í hvalaskoðun 2002.
Norðursigling, Húsavík, www.nordursigling.is
Hvalaferðir, Húsavík, www.hvalaferdir.is
Ferðaþjónustan Áki, Breiðdalsvík
Víking bátaferðir, Vestmannaeyjum, www.boattours.is
Elding, Hafnarfirði, www.islandia.is/elding
Höfrunga- og hvalaskoðun, Reykjanesbæ, www.arctic.ic/itn/whale
Hvalastöðin, Reykjavík/Reykjanesbæ, www.whalewatching.is
Húni, Hafnarfirði, www.islandia.is/huni
Bátsferðir Arnarstapa/Snjófell, Snæfellsnesi, www.snjofell.is
Sæferðir, Stykkishólmi/Ólafsvík, www.saeferdir.is
Sjóferðir, Dalvík, www.isholf.is/sjoferdir/
Níels Jónsson, Hauganesi, www.niels.is
Hvalaminjasafnið, Húsavík, www.icewhale.is

Legg ég því til að Íslendingar fari í hvalaskoðunarferðir næsta sumar, hver veit nema það verði hægt frá Hornafirði? Kíki á Hvalamiðstöðina á Húsavík og skoði hnúfubakinn sem þeir borðuðu á þorrablótinu.

Auk þess legg ég til að kvótakerfið í núverandi mynd verði lagt í eyði.


Hvalaskoðun, hvalreki í Hornafirði - pistill eftir Sigurpál Ingibergsson

Hvalaskoðun frá Hornafirði árið 1993 - myndasyrpa

Heimildir:
Tryggvi Árnason, tölvupóstur 16. október 2002

Ifaw.org, www.ifaw.org/press/press/2000report.doc, Björgvinsson, 1999; Hoyt, 1994b; Hoyt, 1995a.

Ásbjörn Björgvinsson, „Hvalaskoðun á Íslandi árið 2000” http://um.margmidlun.is/um/ ferdamalarad/vefsidur.nsf/index/19.14?open

Könnun Ferðamálaráðs júní-ágúst 2002, „Tafla 2.18: Hvaða afþreying var nýtt? (%)”http://www.now2003.is/Kannanir/toflsumar/Tafla%202.18%20-%20sumar2002.pdf


Hvalaskoðun, hvalreki í Hornafirði

Nú berast fréttir af því að þrjár langreyðar hafa verið veiddar og séu komnar í verstöðina í Hvalfirði. Rifjast þá upp fyrir mér hvalaskoðunarferð sem ég fór í fyrir 30 árum 

Fyrir 30 árum fór hópur danskra fuglaáhugamanna í hvalaskoðunarferð frá Höfn með Jöklaferðum. Eitt af afsprengjum Jöklaferða voru hvalaskoðunarferðir en þar vann fyrirtækið algert brautryðjendastarf. Ég fór óvænt í mína fyrstu hvalaskoðunarferð með Sigurði Ólafssyni SF 44 með danskan hóp í júlí sumarið 1993 og er sú ferð mér ógleymanleg. Hópurinn samanstóð af 24 fuglaáhugamönnum og höfðu þeir frétt af því að hægt væri að komast í hvalaskoðunarferð frá Hornafirði. Áhöfnin á Sigurði Ólafssyni var tilbúin að fara í ferðina þótt humarvertíð stæði yfir. Það hafði sést til hnúfubaka við Hrollaugseyjar og voru skipstjórar á öðrum bátum fúsir að veita upplýsingar. Síðar á árinu fóru fjórir hópar frá Discover The World í hvalaskoðunarferðir og heildarfjöldi 1993 var 150 manns. Hornafjörður var höfuðborg hvalaskoðunar á Íslandi á þessum árum.

Á síðasta ári fóru 360.000 manns í hvalaskoðun á Íslandi en enginn frá Höfn.

Hér á eftir er grein sem skrifuð var á horn.is 2003.

Á hvalaslóð
Þegar ég vann hjá Jöklaferðum hf á árunum 1993-1996 var ekkert sem takmarkaði fyrirtækið nema stærð alheimsins. Jöklaferðir eru að öllum líkindum fyrsta sérhæfða afþreyingarfyrirtækið í ferðaþjónustu hér á landi en það var stofnað í maí 1985. Markmið félagsins var að standa fyrir ævintýraferðum á Vatnajökul og nágrenni. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins var hinn umdeildi sölumaður af guðs náð, Tryggvi Árnason.

Eitt af afsprengjum Jöklaferða voru hvalaskoðunarferðir en þar vann fyrirtækið algert brautryðjendastarf. Ég fór óvænt í mína fyrstu hvalaskoðunarferð með Sigurði Ólafssyni SF-44 með danskan hóp í júlí sumarið 1993 og er sú ferð mér ógleymanleg. Hópurinn samanstóð af 24 fuglaáhugamönnum og höfðu þeir frétt af því að hægt væri að komast í hvalaskoðunarferð frá Hornafirði. Áhöfnin á Sigurði Ólafssyni var tilbúin að fara í ferðina þótt humarvertíð stæði yfir. Það hafði sést til hnúfubaka við Hrollaugseyjar og voru skipstjórar á öðrum bátum fúsir að veita upplýsingar. Stímið þangað var um fjórir tímar. Töluverð kvika var í straumhörðum Ósnum og þegar Óli Björn keyrði á 10 mílunum var mikill veltingur. Hver fuglaáhugamaðurinn á fætur öðrum varð grænn og þegar ég hafði talið 12, varð ég líka sjóveikinni að bráð og sá mikið eftir því að hafa gefið kost á mér í þessa ferð. Þó höfðu menn tekið inn sjóveikistöflur. Loks sáust Hrollaugseyjar og við komin á hvalaslóð, sjólag var orðið gott.

Á leiðinni sáum við hnísur, minnstu hvalategund hér við land. Skyndilega kom höfrungavaða, (hnýðingur og stökkull) og lék listir sínar fyrir okkur, 5-10 dýr í hóp. Þeir eru afar hraðsyndir og koma oft stökkvandi á fleygiferð í átt að skipinu til þess að leika sér í bárunni sem kinnungurinn ryður frá sér. Sjóveikin var horfin og ég sá ekki lengur eftir því að hafa farið í þessa ferð. Næsta atriði var stórfenglegt en þá vorum við komin í hóp hnúfubaka, fjöldi á annan tug og var magnað að fylgjast með þeim koma upp úr sjónum og undirbúa köfun. Þessi ferlíki, hvítskellótt af hrúðurkörlum, geta orðið 17 metrar á lengd og 40 tonn að þyngd og ná háum aldri, lífslíkur 95 ár. Þegar þeir fara í djúpköfun lyfta þeir nánast alltaf sporðinum úr sjónum og sést þá litamynstur neðan á sporðblöðkunni en engir tveir einstaklingar hafa sömu áferð. Við sigldum á milli þeirra í dágóða stund og var magnað að fylgjast með atferli hvalanna og fólksins sem var á dekki. Það má segja að þarna hafi verið mikill bægslagangur því eitt sérkenni tegundarinnar eru gríðarlöng bægsli sem geta orðið allt að sex metra löng. Á heimleiðinni bauð Bugga, Sigurbjörg Karlsdóttir humarkokkur, upp á humar, matreiddan á marga vegu. Sumir þátttakendur voru svo mikil náttúrubörn að þeir borðuðu aðeins grænmeti. Í september fór ég svo aftur í ferð með nærri 30 manna hóp frá bresku ferðaskrifstofunni Discover The World sem voru í helgarferð. Annar dagurinn fór í hvalaskoðun og hinn í jöklaferð. Í þessari ferð voru einnig kvikmyndatökumenn frá Saga Film (en þeir bjuggu til 15 mínútna kynningarmyndband), Mark Carwardine leiðsögumaður en hann er heimskunnur hvalasérfræðingur og rithöfundur, Gunnþóra Gunnarsdóttir frá Eystrahorni og Jón Sveinsson apótekari. Stefnt var á Hrollaugseyjar. Á leiðinni sáum við hrefnu sem fylgdi okkur áleiðis en líkur á að sjá þær eru mjög miklar eða um 90%. Tvær hnísur sáust skyndilega en stundum getur verið erfitt að koma auga á þessi smáhveli, bakugginn sést í smástund og hún getur horfið eins og hendi sé veifað. Kapteinn Óli Björn var í stöðugu sambandi við trillukarlana sem voru dýpra en þeir höfðu enga hvali séð. Stutt frá Tvískerjum sást svo stórhveli, hnúfubakur, og hann skemmti okkur mikið. Strákarnir hjá Saga Film fóru út í hraðbát sem var um borð og nálguðust hnúfubakinn og eltu hann. Þeir náðu mögnuðum skotum af honum. Veislunni var ekki lokið því þegar við vorum á heimstíminu komu höfrungar og léku sér við bátinn. Þarna voru færri dýr á ferð enda komið haust en samneytið við Öræfajökul bætti það upp. Þetta var því nokkuð merkileg ferð eins og lesa má á greinunum „Hvalaskoðun” í Eystrahorni eftir Gunnþóru og „Sporðaköst undir jökli” eftir Ara Trausta Guðmundsson sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins 12. mars 1994. Síðar í mánuðinum fóru þrír hópar í hvalaskoðunar- og jöklaferð og alls komu 150 manns í hvalaskoðunarferðirnar þetta árið.
Það er gaman að lesa yfir greinarnar tæpum 10 árum eftir að þær voru skrifaðar. Blaðamenn eru hógværir á framtíð þessarar nýju greinar í ferðaþjónustu og enginn hefði þorað að spá að rúmlega 60.000 manns ættu eftir að fara í hvalaskoðunarferðir tæpum áratug síðar. Boðið var upp á sjóstangaveiði í ferðunum en ekki var mikill áhugi á þeim hjá ferðafólkinu, ekki í þeirra eðli að stunda veiðar. Flestir þeirra hafa mikinn áhuga á náttúruvernd, þ.á m. hvalafriðun. Í þeirra huga eru hvalir ekki nytjadýr heldur hluti náttúrunnar, eingöngu til að skoða og dást að. Því myndi líklega draga mikið úr aðsókn í hvalaskoðunarferðir ef hvalveiðar hæfust við Ísland. Eða eins og Flateyringurinn Ásbjörn Björgvinsson, forstöðumaður Hvalamiðstövarinnar á Húsavík, orðar það: „Það gengur aldrei upp að sýna hval á stjórnborða og skjóta hann á bakborða”. Auk þess eru þessar ferðir meira en hvalaskoðun, þetta er náttúruskoðun í hæsta gæðaflokki þar sem landið er skoðað frá öðru sjónarhorni

Markaðsstarfið gekk vel hjá Clive Stacey og félögum hjá Discover the World, dótturfyrirtæki Arctic Experience í Englandi, og næsta ár seldist í mun fleiri ferðir. Var Ásbjörn fararstjóri í þeim ferðum næstu ár. Hann smitaðist þarna af hvalabakteríunni stóru og hefur byggt upp starfsemi Hvalamiðstöðvarinnar á Húsavík frá árinu 1997. Getur Húsavík kallast með réttu “hvalaskoðunarhöfuðborg Evrópu” en 25.000 manns fóru í ferðir þaðan á síðasta ári og er bærinn orðin stærsti einstaki hvalaskoðunarstaðurinn í Evrópu.

Hvalreki
Ég rifja þetta upp af því að á síðasta ári komu hvalir mikið við sögu á Hornafirði. Í vor rak hnúfubak inn í Hornafjörð, í lok ágúst strandaði kálffull hrefna í Skarðsfirði og háhyrningur fannst í vetur við Stokksnes. Hvalir eru stærstu dýr jarðarinnar og vekja því mikla eftirtekt. Ef hvalir lenda í ógöngum komast þeir á forsíður íslensku blaðanna og jafnvel í heimspressuna.

Það fyrsta sem hornfirsku náttúrubörnin, hvalaskurðarmenn, gerðu þegar búið var að skera hvalkjötið var að hringja til Húsavíkur og bjóða beinin og hrefnufóstrið til Hvalamiðstöðvarinnar. Ásbjörn Björgvinsson sagði í viðtali við DV í sumar að hann hefði orðið húkt á hvali eftir ferðirnar með Jöklaferðum og Discover the World fyrir tæpum áratug.
Mér finnst nú þarft að benda mönnum á að Hornfirðingar voru brautryðjendur í þessari afþreyingu og einnig þá staðreynd að árið 2001 fóru 60.550 manns í hvalaskoðunarferðir með 12 fyrirtækum en enginn frá Hornafirði! Það mætti svo sem geyma eitt beinasett á Hornafirði, þó ekki nema til að minnast uppruna hvalaskoðunarferða á Íslandi.

Á þessari stundu fer um hugann upphafserindi í kvæði Davíðs Stefánssonar:
“Til eru fræ, sem fengu þennan dóm:
Að falla í jörð, en verða aldrei blóm.
Eins eru skip, sem aldrei landi ná.”

Kafteinn Óli Björn Þorbjörnsson og Páfinn, Baldur Bjarnason vélstjóri, komu skipinu Sigurði Ólafssyni allaf í land með brosandi fólki en hvalaskoðunarferðir frá Höfn urðu ekki blóm þótt Jöklaferðir hafi sáð mörgum fræjum.

Því er vert að spyrja, af hverju er ekki boðið upp á hvalaskoðunarferðir frá Höfn? Ein skýringin er sú að langt er á góð hvalaskoðunarmið, því verða ferðir þaðan dýrari og lýjandi. Enginn Hornfirðingur treystir sér til að reka hvalaskoðunarbát sem þó gæti nýst í fleira, t.d. sjóstangaveiði, skemmtiferðir og skoðunarferðir um Ósinn.

Svo ég haldi hugarfluginu áfram fyrst ég er kominn í stuð, þá mætti huga að hvalasafni tengdu byggðasafninu. Ég vil minna á að í Grindavík var opnað Saltfisksetur í september síðastliðinn sem á að höfða til erlendra ferðamanna. En ég minni á að Hornfirðingar eru margfaldir Íslandsmeistarar í saltfiskverkun með EHD merkið heimsfræga. Hví ekki að stofna Humarsetur, þar eigum við heimsmeistaratitil, eða Síldarsetur með áherslu á reknetaveiðar. Væri ekki hægt að spyrða þessi söfn einhvernvegin saman? Svo væri hægt að tengja söfnin við Kaldastríðið með því að varðveita ratsjárstöðina og skermana á Stokksnesi. Þetta er kallað menningartengd ferðaþjónusta og gæti hún dafnað vel eins og hvalaskoðunarferðirnar.

Legg ég því til að næsti hvalur sem strandar á Hornafirði verði verkaður af náttúrubörnunum, Gústa Tobba, Kidda í Sauðanesi og hvalskurðarmönnum staðarins. Beinagrindin verði hengd upp í Nýheimum og hvalurinn verði nefndur Tryggvi Árnason í höfuðið á frumkvöðli hvalaskoðunarferða á Íslandi.

Auk þess legg ég til að kvótakerfið í núverandi mynd verði lagt í eyði.


Þakka Arnþóri Gunnarssyni fyrir faglega ráðgjöf og Tryggva Árnasyni fyrir upplýsingar við gerð pistilsins.


Hvalaskoðun II - pistill eftir Sigurpál Ingibergsson

Hvalaskoðun frá Hornafirði árið 1993 - myndasyrpa

Heimildir:
DV, 21. júní 1993, „Hvalaskoðunarferðir frá Höfn: Hnúfubakar blása og höfrungar stökkva”, Ari Sigvaldason
Eystrahorn, 31. tölublað , 9. september 1993, „Hvalaskoðun”, Gunnþóra Gunnarsdóttir
Hvalaskoðun við Ísland, JPV-útgáfa 2002, Ásbjörn Björgvinsson & Helmut Lugmayr
Morgunblaðið, 26. september 1993, „Á hvalaslóð”, Guðmundur Guðjónsson
Morgunblaðið, 12. mars 1994, „Sporðaköst undir jökli”, Ari Trausti Guðmundsson


mbl.is Hvalirnir komnir til hafnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Topphóll séður með augum sjálfbærni

Steinarnir tala

Í síðasta mánuði var mikil fjölmiðlaumræða um álfakirkjuna í Topphól í Hornafirði.  Ekki virðist vera hægt að bjarga stuðlabergshólnum því nýr vegur mun liggja yfir hólinn og verður hann sprengdur í loft upp.  

Bæjarstjórn Hornafjarðar harmar ákvörðum Vegagerðarinnar enda hefur hann mikið tilfinningalegt gildi fyrir marga Hornfirðinga og ferðamenn. Trú á álfa, huldufólk og tröll hefur verið hluti af sjálfsmynd Íslendinga.

Vegagerðin segir að ekki sé hægt að hnika veginum, ábendingin hafi komið of seint, því fylgi aukinn kostnaður og verkið tefjist. Ferlið við vegalagninguna hefur tekið fimmtán ár og einhver hefur sofnað á verðinum.

Völvan Ísvöld Ljósbera nær kjarnanum í umræðunni en hún mótmælti aðförinni:  „Álfatrú er hluti af okkar þjóðarhjarta. Hún er dýrmæt og komandi kynslóðir eiga skilið að fá að upplifa hana líka.“

Hvað ætla hornfirskir leiðsögumenn að sýna ferðamönnum eftir hundrað ár þegar jökullinn verður nær horfinn, íshellarnir og Topphóll?  Álfasögunar horfnar og tengslin við landið.

Þá verða sagðar sögur af sprengdum álfaborgum rétt eins og Úkraínskir leiðsögumenn munu segja um borgirnar Bakhmut og Mariupol.  Pútin er víða.

 

Tröllið Þorlákur

Þegar umræðan um Topphól var í hámarki, var ég staddur í sumarbústaðalandi í Hraunborgum, Álfasteinssundi í Grímsnesi og þar er steinn, Þorlákur heitir hann eftir tröllkarli sem varð að steini þegar sólin kom upp. Vegagerðarmenn fundu sniðuga lausn, lögðu veg er beggja vegna Þorláks og virðist hann vera nokkuð sáttur og sagan lifir.  Hornfirðingar höfðu gæfu að bjarga vatnstanknum á Fiskhól frá niðurrifi á síðustu öld og er hann orðinn tákn fyrir staðinn. Ekki er hægt að bjarga Topphól með þessari sniðugu lausn. 

Álfasteinssund

Hér var ekki sprengt með dínamíti í Álfasteinssundi, heldur fundin lausn. Allir sáttir, ferðamenn, álfar, tröll, leiðsögumenn, framkvæmdaraðilar og aðrir hagaðilar.  Virðing er lykilorðið!

 

Sjálfbærni

Sjálfbærni og sjálfbær þróun eru lykilhugtök fyrir framtíð Jarðar og velsæld okkar og komandi kynslóða. Sjálfbær þróun hefur verið skilgreind sem þróun sem mætir þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til þess að mæta sínum þörfum. Hugtakið byggir á þrem stoðum, náttúru og umhverfi og hinar stoðirnar eru efnahagslíf og samfélagslegir þættir s.s. jafnrétti, heilsa, velferð og menning. Þessar þrjár stoðir tengjast innbyrðis og spila saman.

Þegar Topphóll er skoðaður með augum sjálfbærni, þá erum  við, freka kynslóðin búin að stroka Topphól út af hinu rómaða Skaftfellska landslagi og skemma allar álfasögurnar sem hefðu fylgt fyrir næstu kynslóðir. Peningarnir hafa trompað umhverfið og samfélagið, þeir ráða því miður oftast ferðinni.

En til að bæta okkur í sjálfbærni, þá skora ég á bekkjarbróður minn, hugvitsmanninn Einar Björn Einarsson sem rekur Jökulsárlón ehf með myndarbrag að taka stórt skref í orkuskiptum. Skipta út jarðefnaeldsneyti á bátaflotanum á Lóninu sem fyrst en Einar veit hvað er best, allt gangverk lifnar við í höndunum á honum. Vetni, metan, metanól, rafmagn, repjuolía, ammóníak, lífdísill eða etanól. Allt er þetta betra en mengandi olía sem er að steikja okkur.

Þegar stór aðili tekur stóra skrefið í sjálfbærni, þá sendir hann jákvæð skilaboð til allra í hinni mengandi ferðaþjónustu og verður góð fyrirmynd í umhverfismálum og fleiri fylgja á eftir.

Það að vera sjálfbær snýst því um að búa til félagsleg og efnahagsleg kerfi sem eru ekki skaðleg náttúrunni og tryggja þannig lífsgæði okkar og framtíðarkynslóða.


Geirólfsgnúpur (433 m)

Gnúpagönguferð við rætur Drangajökuls

Það hafði verið úrkoma dagana áður en spáin lofaði breytingum. Þegar kíkt var út um gluggann um morguninn þá lágu ský niður í miðjar hlíðar gnúpanna tveggja, Geirólfsgnúps og Sigluvíkurgnúps.

Eftir teygjuæfingar fyrir göngu dagsins brutust fyrstu sólargeislar í gegnum skýin og það lofaði góðu. 

Fyrst var gengið í gegnum kríuvarp og þaðan þvert yfir 600 metra flugvöll sem duglegir Reykjafjarðarbændur hafa byggt til að rjúfa einangrun. Ryðgaður valtari beið við vallarendann og blóm stungu upp kollinum á flugbrautinni. Nýtt landnám hafið.

Reykjarfjarðarós var helsta áskorun dagsins en hann er jökulá sem á upptök í Drangajökli. Reykjarfjarðarjökull, skriðjökull úr Drangajökli hefur hopað frá ósnum og jökuláin lengist en nafnið breytist ekki.

Ólína farastjóri fann bestu leiðina yfir Ósinn og allir göngumenn komust klakklaust yfir en trikkið er að horfa ekki í strauminn og taka stutt skref og þreifa fyrir sér með göngustöfum. 

Þegar komið var yfir jökulána stutt frá rústum af bænum Sæbóli þá var sagan af biskupnum Guðmundi góða sögð en hann fótbrotnaði illa og náði heilsu í bænum yfir veturinn.

Síðan var gengið meðfram Sigluvíkurnúp eftir manna og kindaslóð að Sigluvík. Á smá kafla var bratt  niður að sjó. Þá sáust vel skilin á milli jökulvatnsins og hafsins en mikil næringarefni eru í framburði jökuláa. Fjörðurinn við Ósinn var jökullitaður en liturinn þynntist út þegar lengra kom.

Rekaviður í víkum og plastrusl frá sjávarútvegnum. Gular netakúlur, netahringir og net mest áberandi.

Drangajökull rís yfir landinu í vestri með björtu hveli móti himni og með skerin sín sem sífellt eru að stækka, Hrolleifsborg (851 m), Reyðarbungu og Hljóðabungu (825 m). Jökulbunga hæst. 

Þegar ofar kom upp í hálsinn þá sá yst í fjarðaröðinni í Kálfatinda á Hornbjargi, glæsilegt horn sem við misstum af í þokunni daginn áður.

Gengið upp á milli gnúpanna upp á lágan háls sem nefnist ýmist Sigluvíkurháls (223 m) eða Skjaldarvíkurháls og þá opnaðist útsýni yfir í Skjaldabjarnarvík með glæsileg Drangaskörð sem minntu á hala á risaeðlu. Mögnuð sýn. Síðan var hægt að rekja tinda í Strandasýslu.

Geirólfsgnúpur hækkar í ávala bungu sem hæst er 433 m. er kallast Geirhólmur. Þar er varða og endaði uppgangan þar.

Sýslumörk N-Ísafjarðarsýslu og Strandarsýslu liggja um Geirólfsgnúp. Við hoppuðum á milli sýslumanna.

Þrjár kenningar um nafnið á Geirmundargnúp.  Sú fyrsta er úr Landnámu en Geirólfur braut skip sitt við Geirólfsgnúp. Önnur er náttúrunafnakenningin, að nafni tengist "geirr eða spjóti". Haft um fjöll og kletta, sem skaga fram eða eru oddhvassir en gnúpurinn gengur út í hafið. Sú þriðja er sett fram í Árbók FÍ 1994 en hún gengur út að geirfugl hafi verið í gnúpnum og hann dragi nafnið af því en Strandamenn gáfu bæjum og kennileitum nöfn eftir landnytjum.

Þetta var fullkominn dagur, þrír sjónrænir gimsteinar í náttúru Íslands negldir á einum degi. Drangajökull, Hornbjarg og Drangaskörð við ysta haf.

Heimleiðin gekk vel, gengin sama leið og það hafði minnkað í jökulánni en merkilegt hvað göngufólk var ánægt með að fá óvænt fótabað. Því leið betur á eftir.

Að endingu var hin frábæra og þrifalega sundlaug í Reykjarfirði heimsótt, stórkostlegt mannvirki í tóminu. þar var slakað á í kvöldsólinni og hlustað á gargið í kríunni.

Gnúparnir tveir voru komnir með ský niður í miðjar hlíðar. Við nýttum gluggann vel.

Hornstrandir

Næst er jökullitaður Reykjarfjörður, þá Þaralátursnes og Þaralátursfjörður handan, Furufjörður og ein af Bolungarvíkum á Vestfjörðum. Síðan sér í Straumnes og handan þeirra Barðsvík og Smiðjuvík. Látravík er fyrir framan glæsilega Kálfatinda. 

Geirhólmur: 433 m (N: 66.15.610 – W: 21.58.671)
Göngubyrjun: Reykjarfjörður 4 m (N: 66.15.473 – W: 22.05.282)
Uppsöfnuð hækkun: 627 m
Uppgöngutími: 120 mín (13:30 - 15:15)
Heildargöngutími: 540 mín (10:20 - 19:20)
Erfiðleikastig: 1 skór
Sigluvíkurháls: 223 m (N: 66.15.098 - W: 21.59.709)
Vegalengd: 16,1 km
Veður: NA og léttskýjað, hiti um 8 gráður
Þátttakendur: Ferðafélag Íslands, sumarleyfisferð – Við rætur Drangajökuls,  10 göngumenn. Fararstjórar Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir og Sigurður Pétursson, traust og fróðleg.
GSM samband: Já, á Geirhólmi

Gönguleiðalýsing: Þjóðleið yfir jökulá, Reykjafjarðaós. Gengið eftir slóða meðfram Sigluvíkurnúp og upp hálsinn. Þaðan haldið á Geirhólm og útsýni yfir ysta haf frá Hornbjargi að Drangaskörðum.


Plastrusl í hafinu

Ábyrgð á plastrusli

Sá færslu frá SÞ Ísland um plastrusl í hafinu á samfélagsmiðli. Aðeins er minnst á plastrusl frá almenning, rör, plastflöskur og matarumbúðir en í nýlegri rannsókn á hafsvæði Íslands þá er 94% af úrgangi í hafinu veiðarfæri sem með tímanum breytist í örplast.

"Alls var 94,1% af rusl­inu sem fannst veiðarfæri, megnið fiskilína eða 80,5%. Al­mennt rusl eins og til að mynda plast­pok­ar, plast­film­ur og áldós­ir var aðeins 5,9% af því sem fannst."


Hér er verið að varpa ábyrgðinni á almenning en freki karlinn, sjávarútvegurinn sleppur algerlega.


Stjórnvöld og hagsmunasamtök verða að ráðast á garðinn þar sem hann er hæstur.
Það þarf að fjarlægja plastruslið og þeir eiga að borga sem menga. 

Ég gekk um Hornstrandir í byrjun mánaðar og það var sorglegt að sjá netakúlur og fleira frá sjávarútveginum innan um náttúlegan rekaviðinn.

 

SÞ - plastrusl í hafinu


Vörðufell (391 m) á Skeiðum

Vörðufell á Skeiðum er allmikið þríhyrningslaga fjall, um sjö km á lengd en tæpir fjórir km á breidd þar sem það er breiðast, en mjókkar mikið til norðurs. Hvítá rennur vestan við fjallið. Allmörg gil ganga niður fellinu.

Fellið er úr móbergi og grágrýti og hvassasta horn þess er nyrst og var gengið þar upp og beygt hjá skilti sem á stóð Vörðufell. Bílastæði er fyrir göngufólk.

Gangan er nokkuð greið og slóða fylgt upp á fellið um misgróna mela. Sauðfé á beit og mófuglar skemmtu okkur með söng sínum og lóan söng dirrindí og fannst okkur vera þó nokkurt vit í því.

Margar vörður eru á leiðinni á fellinu og eru landamerki jarða sem eiga hlut í fellinu en líklega hefur Vörðufell sjálft verið varða í umhverfinu fyrir ferðamenn fyrr á öldum er þeir áttu leið í hið merka Skálholt og nágrenni.

Nokkrar hæðir eru á Vörðufelli og bera þau nöfn. Birnustaðaskyggnir (378 m) er einn áberandi ás en smáfell eru dreifð um sléttuna. Jarðskjálftar hafa markað fellið.

Fyrir okkur varð fallegt stöðuvatn, sem Úlfsvatn heitir, greinilega gamall eldgígur og vatnsforðabúr sveitarinnar. Úlfsvatn var ekki hringað. Rennur smálækur suður úr því niður í Úlfsgil sem er mikið hamragil. Reynt var að rækta silung í vatninu og gekk það ekki.

Rádýrt útsýni allan hringinn.  Nær var Skálholt og Laugarás með  brúna yfir Iðu, Mosfell, Hestfjall og Hestvatn. Síðan jöklarnir glæsilegu Langjökull, Hofsjökull, Tindfjallajökull Mýrdalsjökull og Eyjafjallajökull.  Vestmannaeyjar tignarlega úti í hafi. Hekla, Ingólfsfjall og Hrútfell svo einhver þekkt fjöll séu nefnd.

Áhugavert er að sjá Tungufljót og Stóru Laxá falla í Hvítá fyrir ofan Iðu og Brúará þar sem hún fellur í Hvítá örskammt vestan Vörðufells og þá átta menn sig á því að það eru árnar sem með framburði sínum hafa skapað þetta fagra gróðurlendi

Vörðufell á Skeiðum

Ágætur staður til að hefja göngu á Vörðufell. Landeigendur ekki sáttir við að gengið sé um þeirra land.

Dagsetning: 11. júlí 2023
Vörðufell: 391 m 
Göngubyrjun: Norður undir Vörðufelli
Erfiðleikastig: 1 skór
Veður: lék við okkur, bjart og hlýtt. NNA 6 m/s, 18 stiga hiti og 44% raki.
GSM samband: Já

Gönguleiðalýsing: Létt og þægileg ganga á gott útsýnisfjall með útsýni yfir Suðurland

 

Heimildir

Fjöll á Fróni, Pétur Þorleifsson, 2010

Nafnid.is - Örnefnaskrá


Kolefnislosun og hagnaður

Þorskstofninn í hættu vegna loftslagsbreytinga en möguleg tækifæri í sardínum og makríl er frétt á forsíðu Fréttablaðsins 9. desember 2022.  Ráðast þarf að rót vandamálsins, stoppa losun GHL.

Slæmu fréttirnar þegar mælingar á losun í virðiskeðju fyrirtækja eru að risarnir í losun eru ekki að vinna neitt í losunarsviði 3, nema orkufyrirtækin tvö, LV or OR. Hlutfallið í losunarsviði 3 er 5% en viðmið MSCI vísitölunnar er 88%.

Mælingar í virðiskeðjunni eru nauðsynlegar til að fyrirtæki skilji rekstur sinn og ábyrgð. Lykilatriði til að ná kolefnishlutleysi (Net Zero emissions).  Staðan eða kortlagning  hjá fyrirtækjunum minnir mig á landakort sem Christopher Columbus hafði árið 1492 þegar hann ætlaði að sigla til Asíu en endaði í Ameríku!

Enginn losun reiknuð við flutning hráefnis og vöru hjá álverum. Einnig hvernig hráefnis er aflað. Það vantar fallega framtíðarsýn eins og CarbFix hefur um að fanga CO2 úr andrúmslofti og farga neðanjarðar sé flutt  í skipum með vistvænu eldsneyti.

Sobril taflan

Í töflunni eru stærstu kolefnislosunarvaldar Íslands og raðað eftir beinni losun (grái dálkurinn).  Fyrsti dálkurinn er hagnaður fyrir skatta 2021 og fengin úr bókinni 300 stærstu. Síðan koma losunarsviðin og mótvægisaðgerðin, kolefnisbinding.  Athygli vekur að hagnaður gráu fyrirtækjanna 18 er 136 milljarðar fyrir skatta og ef þau væru skylduð skv. mengunarbótareglunni til að kolefnisjafna losun í dag og greiða þrjú þúsund krónur (20 EUR) fyrir tonnið af CO2 væri kostnaður um 10 milljarðar eða rúm 7% af hagnaði fyrir skatta.   Sorglegt að sjá að fyrirtækin fjárfesti ekki meira í grænum fjárfestingum, orkuskiptum, hringrásarhugsun, þekkingaröflun og nýsköpun í loftslagsmálum í góðærinu.

Heildarlosun gráu fyrirtækjanna er 3,3 milljón tonn CO2 eða rúmlega 73% af losun landsins fyrir utan landnotkun. Almenningur, sveitarfélög og hin 20.000 fyrirtækin eiga 27%! Til samanburðar er losun gróðurhúsalofttegunda sem er á beinni ábyrgð Íslands 2,7 milljón tonn.

Orkufyrirtækin með yfirburði í kolefnisbindingu en margt spennandi í farvatninu á komandi árum ef staðið verður við farmtíðarsýn fyrirtækjanna í sjálfbærniskýrslum. En aðeins rúmlega 1% af losun er kolefnisjöfnuð.

Aðeins Landsvirkjun nær að uppfylla kröfur um kolefnishlutleysi en búið að að lögfesta að Ísland ætlar að ná markmiði um kolefnishlutleysi eigi síðar en 2040.

Einnig er í hættu að Ísland ná markmiði Parísarsamkomulagsins 2030 með þessu aðgerðaleysi.

Stóru losunarfyrirtækin eru ekki að standa sig og sýna litla ábyrgð, stjórnvöld þurfa að taka frumkvæðið með réttlátum umskiptum í loftslagsmálum, setja þarf neyðarlög og skylda fyrirtækin til að gera metnaðarfulla neyðaráætlun.

ETS – Viðskiptakerfi ESB heldur um iðnað, flug og sjóflutninga. Um kerfið gilda sérstakar reglur en þrátt fyrir það þá öndum við að okkur sama loftinu og við þurfum að gera strangar kröfur til risanna í losun. Mögulegt er að að losunartölurnar sem álverin birta í sjálfbærniskýrslum eru mun lægri en losunin er í raun og veru.

Nú er að hefjast nýtt uppgjörsár og vonandi verða þessar upplýsingar til þess að fyrirtæki setji meiri metnað í mælingar á virðiskeðjunni. Það skiptir miklu máli að finna hvaða losunarþáttur og hvar mest ábyrgðin liggur. Forgangsraða og setja mestan tíma í stærstu loftslagsvænu aðgerðina.

Íslensk fyrirtæki þurfa að spýta í lófana og vera góð fyrirmynd, til að sviðmyndin - þorskstofninn hverfur úr lögsögunni - raungerist ekki.

          Greinin birtist fyrst í dálknum Skoðun í Fréttablaðinu 12. febrúar 2023


Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 15
  • Sl. viku: 57
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 50
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband