Færsluflokkur: Íþróttir

Santi Cazorla

Þeir hlógu mikið frændurnir Ari Sigurpálsson og Ingiberg Ólafur Jónsson þegar leikmaður númer 19, Spánverjinn Santi Cazorla hljóp inn Emirates völlin fyrir leik gegn QPR.  „Hann er eins og álfur“, sögðu þeir enda sérfróðir um álfa. Búnir að vera í Álfhólsskóla og annar í leikskólanum Álfaheiði. Auk þess hafa þeir búið í Álfaheiði.

Santi CazorlaSanti hefur ekki mikla hæð (1.65 m) en bætir það upp á öðrum sviðum.  Í síðasta leik gegn Aston Villa skoraði hann tvö mörk og tryggði mikilvægan sigur. Seinna markið var Malaga-mark, en nýi vinstri bakvörðurinn nýkominn frá Malaga, Nacho Monreal gaf góða sendingu inn í teig og Santi stýrði knettinum í hornið.  Hann slökkti á Aston Villa og sendi í fallsæti. Einnig létti sigurinn á pressunni á Wenger en gengi Arsenal hefur verið lélegt í bikar og Meistaradeild. 

"Oh santi cazorla, oh santi cazorla", sungu stuðningsmenn Arsenal í megnið af leiknum.

Santiago Cazorla González kom til Arsenal í júlí frá Malaga fyrir 16 milljón pund en liðið þurfti að selja leikmenn til að grynnka á skuldum. Vakti hann strax athygli stuðningsmanna frá fyrstu mínútu fyrir hugmyndaríki í sendingum og öflug markskot.

Hann hafði orðið Evrópumeistari með Spáni 2012 og 2008 en miðjumennirnir Xavi, Fabregas og Iniesta skyggðu svo á hann að menn tóku ekki vel ekki eftir honum.  Santi er leikmaðurinn sem kemur til með að fylla skarðið sem Fabregas skyldi eftir sig er hann hélt heim til Barcelona.

Hann fæddist í borginni Llanera í sjálfsstjórnarhéraðinu Asturias á norður Spáni 13. desember 1984 og er því 28 ára en það er góður knattspyrnualdur. Hann hóf ungur knattspyrnuferilinn með Oviedo sem er aðal liðið í héraðinu. Þaðan fór hann til  Villarreal.  Í millitíðinni lék hann með Recreativo de Huelva og var kosinn leikmaður ársins á Spáni. Þaðan hélt hann aftur til Gulu kafbátanna og á síðasta leiktímabili lék hann með Malaga Andalúsíu og náði liðið fyrsta skipti Meistaradeildarsæti.

Helsti styrkleiki Cazorla er að hann er jafnvígur á báðar fætur. Hann gefur hárnákvæmar sendingar og í hornspyrnum og aukaspyrnum er nákvæmni skota mikil. Hann hefur verið á báðum köntum og einnig sóknartengiliður. Hann er fimur,  með mikla knattspyrnugreind og skapandi leikmaður. Hraði hans og fjölhæfni var þyrnir í augum varnarleikmanna í spænsku deildinni í 8 ár og nú hrellir hann enska varnarmenn stuðningsmönnum Arsenal til mikillar ánægju.

Þegar Ari Sigurpálsson heimsótti Emirates Stadium í haust var hann búinn að velja leikmann ársins.

Santi Cazorla og Ari

Ari á japanskri sessu hjá sínum leikmanni#19, S. Cazorla.


Ísland komið í 8-landa úrslit í Bermuda Bowl

BermudaBowl2011

Fyrsta markmiðinu náð í dag hjá Íslenska landsliðinu á 40. heimsmeistaramótinu í bridge. Liðið hélt sjó gegn USA 2 og uppskar 12 stig og dugði það til að komast áfram.

Það var gaman að fylgjast með lokaumferðinni á vefsíðu mótsins,  http://www.worldbridge1.org/tourn/Veldhoven.11/Veldhoven.htm

Einnig hefur Bridgesamband Íslands, brige.is haldið út öflugum fréttaflutningi og gefið upplýsingar um beinar útsendingar á BBO. 

En bridge er skrítin íþrótt, keppendur vita ekki hvernig staðan er, allir aðrir. 

Ítalir fá að velja sér andstæðing úr sætum 5 til 8 í 8-landa úrslitum. Nú stendur það hugarflug yfir. Velji þeir ekki Ísland, þá er talið líklegt að Hollendingar velji okkur en spilamennska hefst á morgun, alls 96 spil.


Nikulásarmótið á Ólafsfirði

Stórskemmtilegt Nikulásarmót, það 21. í röðinni var haldið á Ólafsfirði um helgina. Keppt er í 5., 6. og 7. flokki.
 
HK sendi tvö lið yngstu flokkana. En alls kepptu 62 lið frá 14 félögum og keppendur voru um 500.
 
NikulasÁ föstudag, eftir glæsilega skrúðgöngu og setningarathöfn var A og B liðum í 7. flokk blandað saman í þrjá riðla og komust tvö efstu lið áfram í A-liða keppnina. Hin kepptu í B-keppni.
HK-ingum gekk vel að tryggja sig áfram, unnu alla þrjá leikina og markatalan mjög hagstæð, 20-0.
 
Á laugardeginum voru leiknir fjórir leikir:
HK - KF    7-0
HK-  Fjarðabyggð 6-2
HK - KA     5-1
 
Svo rann úrslitaleikurinn upp við Þór en góður 3-0 sigur hafði unnist gegn þeim daginn áður.  Norðanvindur hafði læðst inn fjörðinn er leikurinn hófst. Þórsarar voru lágvaxnari en Kópavogsdrengir en hlupu þindarlaust út um allan völl. Minnti leikaðferð og vinnusemi þeirra á japönsku heimsmeistarana. Ávallt voru komnir tveir Þórsarar í leikmenn HK til að trufla spilið. HK náði ekki að nýta sér meðvindinn í fyrri hálfleik en boltinn fór nokkuð oft úr leik en leiktími var 2 x 10 mínútur.  Í síðari hálfleik var mikil barátta en skyndilega opnaðist traust HK vörn og Þórsarar náðu að skora. Ekki náðist að jafna leika.  Eini möguleiki HK-inga á sigri í mótinu var að klára sinn leik á sunnudag við Dalvík og vona að nágrannar Þórs, KA næðu að stríða þeim. Gekk það ekki eftir.  Jafntefli hefði dugað HK til sigurs í mótinu og til að verja titilinn frá síðasta ári.
 
Á sunnudag var hörku leikur við Dalvíkinga og var uppskeran 2-1 sigur.   Síðan var haldið í gengum Héðinsfjarðargöng norður á Siglufjörð og sigldi einn pabbinn með liðsmenn í Zodiak-bát í Siglufjarðarhöfn. Höfðu drengirnir mjög gaman af sjóferð þeirri.  Liðsmenn 7. flokks leigðu íbúð á Ólafsfirði og gistu flestir þar en boðið var upp á gistiaðstöðu á nokkrum stöðum. Var allt skipulag á mótinu og móttökur Ólafsfirðinga til mikilla fyrirmyndar. Flott dagskrá yfir helgina með tveim kvöldvökum.
 
Uppskeran í sumar hefur verið góð hjá drengjaliði HK í 7. flokki.
Liðið vann sinn riðil í Faxaflóamóinu og öflugu VÍS-móti Þróttar.  Þriðja sætið á Skagamóti og nú silfur á Nikulásarmóti.
Þessi árangur á ekki að koma á óvart. Þegar mikill áhugi, vel er æft, góðir þjálfarar, góðir stuðningsmenn, góð stórn  og góð aðstaða, en börn og unglingar í Kópavogi búa við bestu æfingaaðstöðu norðan Alpafjalla.  Þá hlýtur útkoman að vera jákvæð.
 
Strákarnir í 6. flokki stóðu sig einnig vel en þeir voru flestir á yngra ári unnu alla leikina í A-úrslitakeppni nema einn, við Þór, og lönduðu silfrinu.
 
En úrslitin eru ekki allt, það er stórskemmtilegt að fylgjast með drengjunum þroskast í góðum leik og hafa foreldrar náð vel saman.   
 
Kíkjum á eina facebook-stöðu:
"Komin heim af Nikulásarmótinu - flottir HK strákar og skemmtilegir foreldrar :)"
 
 
Heimasíða mótsins:  www.nikulasarmot.is
 
Nikulas2011
 
Efri röð: Ívar Orri Gissurarson, Ólafur Örn Ásgeirsson, Ari Sigurpálsson, Sigurður Heiðar Guðjónsson
Neðri röð: Reynir Örn Guðmundsson, Konráð Elí Kjartansson, Marvin Jónasson, Felix Már Kjartansson

Skálafell við Mosfellsheiði (774 m)

Skálafell við Mosfellsheiði er einkum þekkt fyrir tvennt, endurvarpsmöstur og skíðasvæði. Verkefni dagsins var að kanna þessi mannvirki.

Leiðalýsing:
Ekið eftir Vesturlandsvegi, beygt upp í Mosfellsdal og síðan í átt að skíðasvæðinu. Vegalengd 3 km. Hækkun 400 m.

Facebook færsla:
Fín ganga á Skálafell (790 m) ásamt 40 öðrum göngugörpum, dásamlegt veður en smá þokubólstrar skyggðu á útsýnið en rættist nú ótrúlega úr því samt...

Skálafellið var feimið og huldi sig þegar okkur bar að garði. Þegar niður var komið tók deildarmyrkvi á sólu á móti okkur. Gott GSM-samband á toppnum.

Gengið var frá skíðaskála, hægra megin við gil nokkurt og síðan stefna tekin á efstu lyftuna en KR á hana. Þegar þangað var komið sást í snjó í 670 metra hæð og náði hann að mannvirkjum á toppnum. Skálafellið gerðist feimið er okkur bar að garði og gengum við í þokuna þar sem við mættum snjónum. Á uppleiðinni voru helstu kennileiti í suðri, Hengillinn, Búrfell í Grímsnesi, Leirvogsvatn og Þingvallavatn.

Þegar upp var komið tók á móti okkur veðurbarið hús en vindasamt er þarn. Veðurstöð er í byggingunni en hún bilaði fyrr um daginn.

Nafnið, Skálafell er pælingarinnar virði. Ein kenning er að skáli hafi verið við fjallið við landnám en útsýni frá því yfir helstu þjóðleiðir gott. Amk. 6 Skálafell og ein Skálafellshnúta eru til á landinu og ef fólki vantar gönguþema, þá má safna Skálafellum.

Skalafell-lyftur

 

Dagsetning: 1. júní 2011
Hæð: 774 metrar
Hæð í göngubyrjun:  379 metrar, Skíðasvæði í Skálafelli, (N:64.13.929 - W:21.25.922)
Hækkun: Um 400 metrar         
Uppgöngutími:  70 mín (19:05 - 20:15)  2,05 km
Heildargöngutími: 115 mínútur  (19:08 - 21:00), 4,1 km
Erfiðleikastig: 2 skór
GPS-hnit möstur:  N:64.14.442 - W:21.27.782
Vegalengd:  4,1 km
Veður kl. 20 Þingvellir: Bjart, NV  7 m/s, 9,8 gráður. Raki 65%  (minni vindur á felli)

Þátttakendur: Útivistarræktin, 41 þátttakandi af ýmsum þjóðernum, 12 bílar   

GSM samband:  Já  - Dúndurgott, sérstaklega undir farsímamöstrum.

Gönguleiðalýsing: Lagt af stað frá fyrsta bílastæði við skíðalyftur og gengið hægra (austan) megin við gilið. Síðan fylgt hæstu lyftu í 670 m hæð. Þá tók snjór og þoka við. Þaðan er stuttur spölur að fjarskiptamöstrum. Gengin sama leið til baka en hægt að halda í vestur, ganga út á nef fellsins, líta til Móskarðshnúka og halda til baka. Góð gönguleið hjá ónotuðu skíðasvæði. Skál fyrir góðri ferð!

Mostur

Stundum eru mannvirki á fjöllum listræn að sjá.

Skidalyfta

 Með hækkandi hita á jörðinni hefur notkun skíðamannvirkja í Skálafelli lagst af. Stólarnir hanga og bíða örlaga sinna.


El Clásico

Veisla framundan. Fjórir El Clásico, en það eru leikir Barcelona og Real Madrid. Sá fyrsti verður í kvöld í Madrid. Barcelona má tapa honum 4-0 enda staða þeirra í spænsku deildinni mjög góð. Í desember áttust þessi stórlið við og hafði Barcelona 5-0 sigur í einum besta leik sem sést hefur. Staðan í spænsku deildinni:

Barcelona    31 85:16 84 
Real Madrid 31 72:22 76

Sjö leikir eftir og Barcelona með góða forystu sem þeir munu ekki láta af hendi. Spáin er naumur sigur hjá Real Madrid.

Leikið verður í spænska bikarnum á miðvikudaginn, 20. apríl og þá á Real Madrid heimaleik sem þeir gætu álpast til að vinna.

Síðan koma tveir leikir í Meistaradeildinni. Sá fyrri verður 27. apríl í Madrid og síðari leikurinn þann 3. maí í Barcelona. Reikna ég með að Barcelona fari í úrslit Meistaradeildarinnar úr þeirri rimmu. 

Jú, maður tekur þátt í veislunni og fylgist vel með í kvöld og næstu kvöld.

Leikir Barcelona og Real Madrid er miklu meira en fótboltaleikur. Hann er um þjóðernishyggju, sjálfstæðisbaráttu, völd og frelsi. Menningarmunur á milli Katalóníu og Kastilía. (Castile). Ég var svo lánsamur að komast á leik milli liðanna 21. október árið 2000 en þess leiks verður ávallt minnst sem leiksins þegar Luis Figo fór yfir til Madrídar. Það voru landráð.

Hér fyrir neðan er miðinn sem ég náði að kaupa rétt fyrir leik, á besta stað, beint fyrir ofan harða stuðningsmenn Barcelona. Var stórmagnað að fylgjast með þeim, mun athyglisverðara en leiknum sjálfum. Einkunnarorð stuðningsmanna Barcelona eru:  "Catalonia is a nation and FC Barcelona its army".

NouCamp2000


VíkingLeaks

Það er athyglisverð umræðan um knattspyrnufélagið Víking vegna upplýsingaleka um leikmenn en þjálfarinn hafði skjalfest mat sitt á þeim og var það sent út til allra leikmanna fyrir slysni. En eflaust framkvæma flestir þjálfarar mat á leikmönum en eflaust er það oftast í kollinum á þeim.

Meginþættir í öryggi upplýsinga

Upplýsingar eru verðmætar eignir og þurfa því viðeigandi vernd. Þær geta verið í margs konar formi, t.d. prentaðar eða ritaðar á pappír, geymdar með rafrænum hætti, birtar á filmu eða látnar í ljós í mæltu máli. Ávallt ætti að vernda upplýsingar á viðeigandi hátt óháð þeim leiðum sem farnar eru til að nýta þær eða geyma. Upplýsingaöryggi felur í sér að upplýsingar eru verndaðar fyrir margs konar ógnum í því skyni að tryggja samfelldan rekstur, lágmarka tjón og hámarka árangur. Upplýsingaöryggi má líta á sem leið til að varðveita:

  • Leynd (e. confidentiality), þ.e. tryggingu þess að upplýsingar séu aðeins aðgengilegar þeim sem hafa heimild. Vernda þarf viðkvæmar upplýsingar fyrir óleyfilegri birtingu, aðgangi eða hlerun.
  • Réttleika (e. integrity), þ.e. að viðhalda nákvæmni og heilleika upplýsinga og vinnsluaðferða. Tryggja þarf að upplýsingar séu réttar og óskemmdar og að hugbúnaður vinni rétt.
  • Tiltækileika (e. availability), þ.e. trygging þess að upplýsingar og þjónusta séu aðgengilegar fyrir notendur með aðgangsheimild, þegar þeirra er þörf.

Upplýsingaöryggi er einnig varðveisla á öðrum eiginleikum s.s. rekjanleika upplýsinga, áreiðanleika, óhrekjanleika og ábyrgð

LRTÍ dæmi Víkinga hefur leynd upplýsinga verið rofin og það hefur skapað úflúð. En þar sem knattspyrna er leikur í aðra röndina, þá hefur náðst að ræða málin og líklega bæta skaðann. En ef þetta hefðu verið viðkvæmar upplýsingar hvað persónuvernd eða trúnað þá hefði málið orðið alvarlegra.

Fyrirtæki ættu því að innleiða staðla um upplýsingaöryggi er leitast við að tryggja alla ofangreinda þætti með úttekt og endurskoðun á vinnutilhögun viðkomandi fyrirtækis eða stofnunar. ISO/IEC 27001 er eini staðallinn sem tekur á upplýsingaöryggi.


Arsenal-Barcelona á Wembley 1999

Það var ekki hægt að sleppa þessum leik á Wembley leikvanginum, Arsenal-Barcelona, 19. október 1999.  Rifjast upp minningar vegna stórleiksins Arsenal-Barcelona í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar í kvöld.

arsbar99 Arsenal-klúbburinn með Kjartan Björnsson í öndvegi var með hópferð og ég stökk strax á ferðin en hún hófst á föstudegi og heimkoma var á miðvikudegi. Á laugardegi var boðið upp á leik Arsenal gegn Everton sem endaði 4-1 en stórleikurinn í Meistaradeildinni á Wembley var aðal takmarkið.

Gamli Wembley var sveipaður dýrðarljóma og var stór hluti af knattspyrnusögunni. Því varð maður að fara í pílagrímsför og sjá turnana tvo. Fyrst maður var búinn að eyða svo miklum tíma í að fylgjast með knattspyrnu.

Það var mikil stemming í rútunni og gaman að ferðast um London á leikdegi. Þegar Wembley völlurinn nálgaðist sáust fánar og vel klætt fólk á leið á leikinn. Góð aðstaða var fyrir framan völlinn fyrir rútur og þurftu menn að leggja staðin vel á minnið. Í gögu stutt frá leikvanginum var mikið um búðir og sölubása. Indverskir sölumenn voru í miklum meirihluta. Það var ágætis sala í bjór hjá þeim. Þegar komið var inn á leikvanginn, og þegar maður nálgaðist klósettin tók á móti manni megn ammoníakslykt.

En þegar í stúkuna var komið blasti glæsilegur hringur við okkur. Spánverjarnir voru í hólfi á móti okkur og voru hávaðasamir en það fylgir íþróttinni. Baráttusöngvar voru sungnir og mátti heyra slagara eins og: "Vo-o-ó Vieira, vo-o-ó Vieira!" einnig langt gól til stuðnings "Kanuuuuuuuuu". Henry var ekki búin að finna fjöllina sína á þessum árum enda nýlega kominn til liðsins.

Leikurinn við Barcelona var í fjórðu umferð og í Barcelona náðust hagstæð úrslit, 1-1 en þessi eftirminnilegi leikur endaði með stórsigri Barcelona, 2-4. Hollendingurinn flughræddi, Dennis Bergkamp skoraði fyrra mark heimamanna og hollendingurinn fljúgandi, Marc Overmars hið síðara. Mörk Barcelona skoruðu: Brasilíumaðurinn Rivaldo sem var allt í öllu úr víti, Luis Enrique, Luis Figo og Philip Cocu.  Arsenal endaði í þriðja sæti í riðlinum. Barcelona og Fiorentina fóru áfram í Meistarakeppninni. Arsenal fór í úrslitaleikinni í litlu Evrópukeppninni en tapaði fyrir Galatasaray í úrslitaleik.

Scan-110215-0001

Ferðafélagi minn, Einar Jóhannes Einarsson, var vel tengdur inn í eigandahóp Arsenal og fékk hann tvo miða á hóf eftir leikinn. Við þökkuðum fyrir okkur og klæddum okkur upp snyrtilega. Partíið var í syðri turninum og þurftum við að sýna boðsmiðann 20 sinnum á leiðinni.

Það var jarðafarastemming í turninum. Fámennt en góðmenn og fólk af ýmsu þjóðerni. Boðið var upp á snittur og salurinn var vel skreyttur UEFA og Meistaradeildar-fánum. Flottur enskur bar var í enda samkomusalarins.

Englendingarnir í liði Arsenal komu og heilsuðu upp á samkomugesti en erlendu leikmennirnir fíluðu ekki þessa samkomu. Varnarmaðurinn Matthew Upson, sem kom inná í leiknum, var hinn viðkunnanlegasti og kenndi okkur hvernig áritanir eiga að líta úr. Einnig var hægri bakvörðurinn Lee Dixon viðræðugóður en hann átti ágóðaleik við Real Madrid í vændum. 

Sviðið átti David Seaman, hann mætti með nýja föngulega spúsu upp á arminn og gekk beint að barnum þegar inn í veislusalinn var komið og mælti með sinni djúpri röddu "one Bud", var ekki að svekkja sig mikið þó fjögur mörk hafi lekið inn. Lífið heldur áfram.

Martin Keown ræddi lengi við ættingja sinn en hann var slasaðist er víti var dæmt á Arsenal á 15. mínútu er Tony Adams var dæmdur brotlegur.  Verið var að hjúkra honum er miðjan var tekin og Barcelona náði boltanum og skorað, komst í 2-0 með mörkum á 20. sekúndna millibili. Já, hann hafði mikið um þetta að segja.

Tony Adams birtist seint og var hinn pirraðasti. Frammistaða hans í leiknum átti eftir vera fyrirsögn ensku dagblaðanna. "El for Adams and Gunners" var fyrirsögn The Mirror. Einnig stóð feitletrað á baksíðu blaðsins: "Arsenal's Champions League dreams was hanging by a thread last night after Tony Adams first-half horror show".

Einar Jóhannes var svo sniðugur að kaupa bókina "Addicted", og bað hann höfundinn um að árita hana. Tony gerði það en gretti sig mjög. Vildi gera allt annað en að skrifa nafn sitt á þessari stundu.  Ég ákvað að nýta tækifærið og bað fyrirliðann um áritun á leikskránna. Hann gretti sig enn meir og bað um penna. Ég var pennalaus en fékk lánaðan penna. Fyrirliðinn var snöggur að krota nafn sitt á leikskránna og afhenda mér. Já, það var ekki heppilegt að hitta fyrirliðann eftir "horror show".

Man eftir einum lávöxnum strákling sem lítið lét yfir sér. Hann var með veiðihúfu, en samkvæmt nýjustu tísku, á höfði og líktist menntaskólastrák. Skömmu síðar áttaði ég mig á að þetta var Freddi e Ljungberg en hann var að hefja ferilinn sem átti eftir að vera glæsilegur.

Patrik Vieira sást í lokin. Hann sveif í gengum veislusalinn í turninum fræga eins og draugur og mælti ekki orð við nokkur mann.

Aðrir leikmenn létu ekki sjá sig eða voru ekki minnisstæðir.

Forráðamenn Arsenal fengu þá flugu í höfuðið að spila heimaleiki sína á Wembley en Highbury tók aðeins 38.000 manns. Wembley tók 75.000 manns í sæti en liðinu gekk illa á leikvellinum og í sífelldu brasi með að komast upp úr riðlakeppninni.

Arsenal: Seaman, Dixon, Keown, Adams, Winterburn, Ljungberg, Parlour, Vieira, Overmars, Kanu, Bergkamp.

Barcelona: Arnau, Abelardo, Bogarde, Gardiola, Reiziger, Coco, Rivaldo, Figo, Sergei, Luis Enrique, Kluivert.

Það var vel skipað lið Barclelona og hver leikmaður öðrum betri.  Liðið féll að lokum út í undanúrslitum fyrir Valencia sem tapaði fyrir Real Madrid 3-0 í úrslitaleik.

Scan-110215-0002


mbl.is Messi 4 Arsenal 1 (myndband)
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Chapman-dagurinn

Arsenal - Huddersfield Town í dag í enska bikarnum. Það er því Chapman-dagur í dag hjá Arsenal-mönnum. En tengingin á milli þessara liða er hinn farsæli knattspyrnustjóri, Herbert Chapman (1878-1934).

Chapman byggði upp Hudderfield Town liðið og vann með þeim bikarinn árið 1922 og deildina 1924. En þá tók hann við Arsenal. Hudderfield vann ensku deildina næstu tvö ár. 

Það tók Chapman fimm ár að byggja upp óvígan her á Highbury. Árið 1930 vann liðið enska bikarinn og ensku deildina, 1931, 1933, 1934 og 1935.

Chapman var ekki bara góður í að þróa góð leikkerfi. Hann hafði einnig mikil áhrif á umgjörð leiksins. T.d. nýtti hann þjónustu læknaliðs, bætti aðgengi áhorfenda og nýtti flugvélar fyrir leikmenn í löngum ferðalögum. Einnig sá hann kosti flóðlýsingar á leikvöllum og númer á treyjum leikmanna voru fyrst kynntar til sögunnar á Highbury.

Hann var farsæll stjóri og gerði Arsenal að ríkasta félagi Englands. Því gátu menn leyft sér ýmislegt en margar af hugmyndum hans fengu ekki brautargengi á Englandi út af kostnaði fyrir félögin en síðar sáu menn ávinninginn.

Um aldamótin var Herbert Chapman valinn besti stjóri allra tíma af hinu virta dagblaði The Times.

115_1551

Mynd tekin í marmarahöllinni á Highbury, þann 1. apríl 2005 í hópferð Arsenal-klúbbsins á leik Arsenal við Norwich City sem endaði 4-1. Á myndinni er brjóstmynd af Herbert Chapman og bloggara.


ABBAABBAAB-kerfið

Ekki kom þessi niðurstaða á óvart. Liðið sem hefur keppni vinnur oftar. Í leik Paraguay og Japan í HM í sumar höfðu leikmenn Paraguay í vítaspyrnukeppni eftir daufan leik. Þeir hófu vítaspyrkukeppnina. Ég skrifaði bloggfærslu þá:

"Mér finnst það lið sem hefur vítaspyrnukeppni vinna oftar, það væri gaman að fá spekinga til að fara í gegnum tölfræðina.

Af hverju, ein skýring er sú að þegar mark kemur úr fyrstu vítaspyrnu þá er meiri pressa á næsta leikmanni."

ABBAABBAAB-kerfið er ekki galin útfærsla. Það þarf að prófa það. Eini gallin er að þetta virðist flókið, bæði fyrir leikmenn og áhorfendur en eflaust sanngjarnara.


Kópavogsliðin með yfirburði í yngri flokkum

Var að koma af úrslitaleik í Íslandsmótinu í 4. flokk á Kópavogsvelli. Það var hörku leikur milli nágrannana í Kópavogi, HK og Breiðabliks. Þeir grænklæddu uppskáru verðskuldaðan sigur í ágætis leik.

Í gær  sá ég leik sömu liða í undanúrslitum 3. flokks á Smárahvammsvelli. Þar snerust úrslitin við og komur HK menn í úrslitaleikinn. Þeir spila um helgina við Breiðablik 2 en þeir lögðu Víkinga í hinum undanúrslitaleiknum.

Í 5. flokki gekk Kópavogsliðum ágætlega. Einnig í flokkunum þar fyrir neðan. En hver skyldi ástæðan vera. Eflaust eru frábærar aðstæður til knattspyrnuiðkunar að skila sér í góðum árangri. Til eru tvær knattspyrnuhallir í Kópavogi, Fífan og Kórinn og einnig góð aðstaða fyrir félögin, HK og Breiðablik. Ekki má gleyma að þjálfarar eru færir í sínu fagi.

Gott dæmi um mun á aðstæðum er þegar Gylfi Þór Sigurðsson fór frá FH yfir til Breiðabliks þegar hann var táningur en hann stefndi hátt og aðstæður voru betri í Kópavogi en Hafnarfirði. Nú er Breiðablik að uppskera ríkulega fyrir knattspyrnumanninn. Þegar Gylfi fór fyrir mikinn pening frá Reading til Hoffenheim fékk Breiðablik yfir 100 milljónir á sinn reikning. FH og Breiðablik skiptu svo uppeldisupphæðinni á milli sín, 10 milljónum á félag.

Það er gott að spila fótbolta í Kópavogi.

 blikur.jpg

Blikur á lofti í úrslitaleik HK og Breiðabliks í 4. flokki við frábærar aðstæður á Kópavogsvelli.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 7
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 86
  • Frá upphafi: 226260

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 78
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband