Færsluflokkur: Umhverfismál

Hvalhnúkur (522 m)

Ekki grunaði mig að ég myndi hitta gamlan félaga þegar ég lagði af stað í ferð með Útivistarræktinni,  þeirri fyrstu á árinu hjá  mér. Ég hafði fyrir nokkrum árum gengið Selvogsgötu og mundi eftir fjalli og skarði kennt við hval.  Þetta var því óvænt ánægja.

Til að flækja málin, þá eru til Eystri Hvalhnúkur og Vestari Hvalhnúkur. Við gengum á þann vestari.

Hvalhnúkur er áberandi þegar að er komið, mjór og allhár (46 m). En hvað er Hvalnhúkur að gera uppi í miðju landi?

Þjóðsagan kveður á um nafngiftina að tröllkona norðan af fjalli hafi farið til fanga í Selvog og komið þar á hvalfjöru og haft þaðan með sér það, sem hún treysti sér til að komast með, en til hennar sást og hún elt. Varð henni allerfið undankoman, og náðist hún í skarði því, sem síðan er nefnt Hvalskarð og hnúkurinn þar suður af Hvalhnúkur.

Ágætis útsýni frá Heiðinni háu og Hvalhnúk yfir á Vörðufell, Brennisteinsfjöll, með Eldborg, Kistufell og Hvirfil. Fallegir Bollarnir sem geyma Grindarskörð og í bjarmanum á bak við þá sá í Snæfellsjökul og Snæfellsnesið. Þríhnúkagígar og Stóra Kóngsfell eru áberandi og Bláfjöll í norðri.

Dagsetning: 20. júní 2012 - sumarsólstöður
Hæð Hvalnhúks: 522 m  (477 m rætur hnúks, 45 m hækkun)
GPS hnit Hvalhnúks: (N:63.56.511 - W:21.42.237)
Hæsta gönguhæð: 545 m, hryggur á miðri leið (N:63.58.456 - W:21.39.552)
Hæð í göngubyrjun:  506 metrar við efsta bílastæði í Bláfjöllum, (N:63.58.810 - W:21.39.163)
Hækkun: 16 metrar         
Uppgöngutími: 120 mín (19:05 - 21:05) - 5,25 km
Heildargöngutími: 210 mínútur (19:05 - 22:35)
Erfiðleikastig: 1 skór
Vegalengd:  10,5 km
Veður kl. 21 Bláfjallaskáli: Skýjað, SSA 4 m/s, 5,8 °C. Raki 92% - Skúrir nýafstaðnar
Þátttakendur: Útivistarræktin, 40 þátttakendur
GSM samband:  Já, nokkrar hringingar

Gönguleiðalýsing: Létt ganga yfir mosavaxið helluhraun yfir Heiðina háu. Haldið frá bílastæði, framhjá Strompum og þaðan eftir heiðarhrygg sem hækkar og lækkar lítillega í suðurátt. Gróðursælli leið neðan hrygg um Stóra-Leirdal á bakaleið.

 Hvalhnúkur

Útivistarræktin með Hvalhnúk í sigtinu. Hann var sveipaður þoku mínútu áður en myndin var tekin. Selvogur er handan hnúksins. Hvalnhúkatagl er í nágrenni. Myndin er tekin hjá Eystri-Hvalhnúk.

Heimildir:
Ferlir - Selvogsgata - Kristjánsdalir - tóftir - Hlíðarvatn
Rammaáætlun - kort


Konéprusy hellarnir

Mér varð hugsað til Þríhnúkagígs þegar ég heimsótti óvænt Koneprusy hellana í Tékklandi, mestu hella landsins.

Koneprusy hellarnir fundust fyrir tilviljun árið 1950 er verið var að sprengja fyrir efni í "Lime-stone" námu en efnið er notað í byggingar. Árið 1959 var opnað fyrir aðgang ferðamanna.

Það var stanslaus straumur ferðamanna í hellana og ferðin tók klukkustund. Farið var um 620 skipulagða metra en hellakerfið er alls 2 km og 70 metra djúpt á þrem hæðum. Hellarnir eru frá Devon tímabilinu fyrir 400 milljón árum og gefa innsýn í sögu jarðarinnar sem á sér 1,5 milljón ára sögu.

Eitt sem er merkilegt við hellana eru bein af dýrum sem fundist hafa þar og eru 200 til 300 þúsund ára gömul. Það var áhrifaríkt að sjá afsteypur af beinunum og að sjá dropasteina sem hafa verið að myndast á sama tíma.

Búið var að lýsa upp hellana og steypa gólf og tröppur. Lýsing var góð og þegar svæði var yfirgefið slökknaði á ljósum. Á einum stað var slökkt á öllu og þá var maður í algleymi. Það var áhrifarík stund. Sjá mátti leðurblökur á veggjum og var það í fyrsta skipti sem ég hef barið batman augum.

Það eru til glæsileg áform um aðstöðu í Þríhjúkagígum og er ég á þeirri skoðun að opna eigi Þríhnúkagíga fyrir almenning. Gera þarf umhvefismat og finna þolmörk svæðisins en við verðum að passa upp á vatnið okkar sem sprettur upp skammt frá. Það er okkar dýrmætasta eign.

Tékkarnir í Bæheimi voru óhræddir að steypa í gólf og hlaða veggi nálægt stórbrotnum dropasteinum og steinamyndunum. Litadýrð var ekki mikil en formfögur voru drýlin sem myndast hafa á hundruð þúsundum árum.

Ferðafélagar mínir, miðaldra hjón frá Miami í Bandaríkjunum spurðu hvort við ættum svona flotta hella á Íslandi. Ég játti því og hvatti þá til að koma í hellaskoðunarferð til Íslands. Þeim leist mjög vel á hugmyndina. Ég náði tveim ferðamönnum til landsins en ég gat ekki lofað þeim ferð í Þríhnúkagíg en nú er það hægt.

Ferðin í Koneprusy hellana var þó mun ódýrari en upphafsferðirnar í Þríhnúkagíga, 910 krónur (130 CZK *7) en verðlag í Prag var á pari við Ísland. En svo þurfti að greiða 40 kórónur fyrir myndatöku eða 280 kall. Þeir voru mikið fyrir ljósmyndaskatt í Tékklandi.

Hér er þriggja mínútna heimildarmyndband sem sýnir innviði Koneprusy hellana. Kone þýðir hestar á tékknesku.

Koneprusy


 


Stíflisdalur

Stíflisdalur hýsir Stíflisdalsvatn og samnefndan bæ. Nokkur sumarhús útfrá bænum. Einnig er eyðibýlið Selkot innar í dalnum og var í alfaraleið fyrr á öldum. Kjölur (785 m) er í norðri en var ekki toppaður. Eitt Búrfellanna (783 m) í Bláskógabyggð er skammt hjá. Norðan við þau er Leggjabrjótur og tignarlegar Botnssúlur.

Laxá í Kjös á upptök í Stíflisdalsvatni og Skálafell er tignarlegt í vestri, Hengill í suðri. Mjóavatn er fyrir sunnan Stíflisdalsvatn.

Gekk upp Nónás að Brattafelli meðan aðrir félagar í GJÖRFÍ gengu á skíðum að Mjóavatni. Útsýni stórbrotið og telur maður ljóst af hverju vatnið og dalurinn hefur fengið nafn sitt og göngumaður heldur að hann kunni að lesa landið. Að hraun hafi runnið fyrir mynni dalsins sem er ekki dæmigerður. En hvernig er nafnið Stíflisdalur til komið? Í örnefnalýsingu yfir Selkot stendur einfaldlega að stífli merki stöðuvatn og má jafna því við Vatnsdal.   Þar fór jarðfræðispekin hjá manni.

Hægt er að sjá helstu örnefni á kortasjá Kjósarhrepps og er það til fyrirmyndar.

Dagsetning: 18. febrúar 2012
Þátttakendur: GJÖRFÍ, skíðagönguferð, 9 göngumenn

Stíflisdalsvatn

Upptök Laxár í Kjós. Skálafell (771 m) í vestri og viku síðar var opnað fyrir skíðafólk í fellinu.

Heimild:

Ferlir - Selkot - Kjálká - Selkotsvegur - Selfjall - Selgil


Grænavatnsganga - Aldarminning Sigurðar Þórarinssonar

Í dag, 8. janúar 2012 verða liðin 100 ár frá fæðingardegi Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings, eins ástsælasta vísindamanns þjóðarinnar á síðustu öld.

Í tiefni af deginum ætla félög og samtök sem tengjast náttúruvísindum, náttúruvernd og útiveru að efna til blysfarar kringum Grænavatn í Krýsuvík.

Ég mæti ef veður verður skaplegt. Málstaðurinn er svo góður.

Í Náttúrufræðingnum, í apríl 1950 er greinin birt sem Sigurður flutti á erindi Hins íslenska náttúrufræðifélags, 31. október 1949, er helgaður var 60 ára afmæli félagsins.

Hér er skjámynd af hluta greinarinnar sem fjallar um Grænavatn en dropinn sem fyllti mælinn var umgengi um Græanavatn sem notað væri sem ruslatunna vegna framkvæmda rétt hjá vatninu. Búið væri að fordjarfa þetta fallega og merkilega náttúrufyrirbæri.

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=290829&pageId=4267096&lang=is&q=Sigur%F0ur%20%DE%F3rarinsson


Smyrlu vantar vatn í sig

Sól, sól skín á mig
Ský, ský ekki burt með þig.
Smyrlu vantar vatn í sig.
Ský, ský rigndu á mig.

Einhvernvegin svona var textinn sem Hornfirsk ungmenni sungu um jólin 1973 og sneru úr vinsælu lagi, Sól skin á mig, sem Sólskinskórinn gerði vinsælt á því herrans ári.

En þá voru vötn Smyrlabjargaárvirkjunnar  vatnslítil og rafmagnsframleiðsla í lágmarki. Því þurfi að skammta rafmagn. Þorpinu var skipt í tvö svæði og fékk hvor hluti rafmagn tvo tíma í senn yfir háannatímann.

Myrkrið var svo þétt að fólk komst tæplega milli húsa, og næturnar svo dimmar að maður týndi hendinni ef hún var rétt út.  

Fyrir krakka var þessi tími skemmtilegur og ævintýraljómi yfir bænum en fullorðnir voru áhyggjufullir. Indælt var myrkrið, skjól til að hugsa í, hellir til að skríða inn í en myrkhræðslan var skammt undan.  Frystihúsið gekk fyrir og helstu iðnfyrirtæki.  Skólanum var stundum seinkað og man ég eftir að hafa mætt klukkan 8 einn morguninn og enginn annar. Ég hafði misst af tilkynningunni. Mér leið þá eins og nafna mínum sem var einn í heiminum. Það var eftirminnilegur morgunn. 

Svarthvíta sjónvarpið var það öflugt að hægt var að tengja það við rafgeymi úr bíl. En tveir bifvélavirkjar sem bjuggu á staðnum virkjuðu þessa tækni. Því var hægt að horfa á sjónvarpið í rafmagnsleysinu og man ég sérstaklega eftir þætti úr Stundinni okkar. Bjargaði þetta sunnudeginum hjá krökkunum á Fiskhólnum. Það mátti ekki missa af Glámi og Skrámi.

En svo kom skip til rafmagnslausa þorpsins. Ljósavélarnar á rannsóknarskipinu Bjarna Sæmundssyni gátu leyst vandann tímabundið. Það var mikil og stór stund þegar skipið sigldi inn Ósinn, flestir ef ekki allir bílar bæjarins mættir til að heiðra bjargvættinn. Mig minnir að bílaröðin hafi ná frá Óslandi, óslitið að Hvammi. Stemmingin var mikil.

Smyrla-Mbl30121973

Frétt úr Morgunblaðinu 30. desember 1973 um orkuskort á Höfn og í nágrannasveitum.

Smyrla-Thjodviljinn08011974

Frétt úr Þjóðviljanum, 8. janúar 1974 en þá var lífið orðið hefðbundið. Gastúrbína komin á hafnarbakkann og Smyrla farin að rokka.


Senn bryddir á Kötlu

BBC hefur áhyggjur af Kötlugosi. Fjölluðu þeir um komandi eldgos í grein í gær, "New Icelandic volcano eruption could have global impact". Eru þeir minnugir Eyjafjallagosinu í maí 2010 og áhrif þess á flugumferð.

Fjölmiðar víða um heim hafa vitnað í fréttina og endurómað áhyggjur sínar.

Jarðeðlisfræðingar eru hógværir og gefa yfirlitt loðin svör þegar þeir eru beðnir um að spá fyrir um næsta gos eða hve lengi gosið muni standa yfir sé það í gangi.  En ég man eftir einni undantekningu.

Spáir Kötlugosi innan fimm ára
Árið 2004 kom góður greinarflokkur í Morgunblaðinu um Kötlu og spáði Freysteinn Sigmundsson, jarðeðlisfræðingur og forstöðumaður á Norrænu eldfjallastöðinni, því að Katla myndi gjósa eftir 2-3 ár eða í mesta lagi eftir 5 ár. Hann segir þrjú merki benda til þess að Kötlugos verði á næstu árum.

"Viðvarandi landris, aukin jarðskjálftavirkni og aukinn jarðhiti á undanförnum árum. Þessi þrjú merki hafa verið viðvarandi frá árinu 1999 og það virðist ekki draga neitt úr atburðarásinni. Þess vegna tel ég að fjallið sé komið að þeim mörkum að það bresti á allra næstu árum," 

Nú er árið 2012 að og ekki bólar á gosi sem senn kemur en mikill órói hefur verið og í október mældust 512 skjálftar í Mýrdalsjökli.   Þrjú ár fram yfir gosspá eru heldur ekki langur tími þegar jarðsagan er undir.

Það er því gott að gefa ekki upp tíma í jarðvísindaspám. Dæmin sanna það.

Katla - Saga Kötluelda
Í bókinnk Katla - Saga Kötluelda eftir Svisslendinginn Werner Schutzbach er saga Kötluelda rakin frá landnámi. En eiga Kötlugos að koma okkur í opna skjöldu?  Um Kötlugos 12. október 1918 segir:

"Kötlugosið haustið 1918 telst til hinna meiri háttar gosa og það stóð yfir í rúmar þrjár vikur. Aska sem kom upp, dreifðist yfir stór svæði, en einkum til norðausturs."

Aðdragandi Kötluelda
"Þegar nokkru fyrir gosið veittu menn því athygli, að austurhluti Mýrdalsjökuls lyftist lítt eitt, en vesturhlutinn, sem sýr að Mýrdal, seig svo að klettar komu í ljós, sem áður voru huldir ís. Allt sumarið var Múlakvísl nær vatnslaus og af ám, sem falla til austurs, var óvenjuleg brennisteinslykt. Mönnum kom því ekki í hug, að Katla kynni að fara að gjósa.

Rúmri klukkustund eftir hádegi hinn 12. október 1918, það var laugardagur, fannst í Mýrdal stuttur og snarpur jarðskjálftakippur, svo að hrikti í húsum. Lausir smámunir duttu úr hillum og af veggjum. Voru svo í hálftíma sífelldar smáhræringar og titringur, og mönnum sýndist jörðin ganga í bylgjum. Skömmu síðar sást öskumökkur stíga upp yfir jöklinum. Hann var að sjá frá Vík rétt fyrir vestan fjallið Höttu. Hann var hvítur í fyrstu, en dökknaði fljótt. Um kvöldið var hann kolsvartur. Veður var rólegt og hægur vestanvindur, svo að öskumökkurinn hallaðist dálítið til austurs."

Um Kötluhlaup segir:
"Rétt eftir að öskustólpinn steig upp, ruddist jökulhlaup fram. Menn sem gengu á fjallið Höttu nálægt Vík, þegar gosið var nýbyrjað, sáu geysimikinn ljósbrúnan massa vella fram. Hann þyrlaði upp miklum sandi og ryki. Flóðið streymdi bæði í farveg Múlakvíslar og yfir Sandinn í átt til Sandvatns og ruddi með sér feiknum af grjóti, möl og ísblökkum. Þegar þessi flóðalda sjatnaði um fimmleytið, geystist enn meira flóð með ótrúlegum hraða yfir Mýrdalssand og kaffærði hann allan vestanverðan."

Kötlugosið 1918 koma því mönnum á óvart og flóðið æddi öflugt fram í byrjun hamfaranna. Því eru mælingar í dag nauðsynlegar og  stórfrlóðlegt lærdómsferli fyrir jarðvísindamenn okkar. Vonandi verða spárnar nákvæmari í kjölfarið.

Látum Kötlu húsráðskonu enda færsluna með sínum fleyga muldri er sýran fór að þrotna í kerinu í Þykkvabæjarklaustri: "Senn bryddir á Barða"

Laufskálavörður

Laufskálavörður á Mýrdalssandi með Kötlu í baksýn. Litlu vörðurar sem ferðamenn hafa hlaðið eiga að boða gæfu fyrir ferðalagið yfir sandinn. Í öflugu Kötluhlaupi gætu þessar vörður hofið í sandinn.


mbl.is Víða fjallað um Kötlu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skaflinn í Gunnlaugsskarði í Esjunni

Lifir hann sumarið af eða ekki?

Nú sér til Esjunnar. Nú er örlítill hvítur punktur efst í Gunnlaugsskarði og minnkar sífellt. Hann er eins og lítill hvítur títuprjónshaus í fjallinu. Næstu dagar skera úr um hvort hann hverfi alveg, síðasti skaflinn í suðurhlíðum Esjunnar.

Ég held að hann haldi velli. Spáð er úrkomu næstu daga og í næstu viku verður kalt í veðri. Kaldur júní hefur eflaust mikil áhrif á afkomu skaflsins. Sérlega kalt var norðausturlands.

Síðustu tíu ár hefur skaflinn horfið en fannir í Esjunni mæla lofthita. En Páll Bergþórsson hefur fylgst vel snjó í Esjunni. 

Sigurjón Einarsson flugmaður hefur fylgst  með fönnum í Gunnlaugsskarði og árið 2009 hvarf skaflinn 25. september en 15. júlí í fyrra.

Ég stefni að því að heimækja skaflinn á næstu dögum og ná af honum mynd.


Hólárjökull 2011

Jöklarannsóknir mínar halda áfram. Ávallt þegar ég keyri framhjá Hólárjökli sem var einn af tignarlegum skriðjöklum úr Öræfajökli, þá smelli ég ljósmynd af honum. Hólárjökull er rétt austan við Hnappavelli. Hólá kemur frá honum.

Fyrri myndin var tekin þann 16. júlí 2006 og sú nýjasta þann 24. ágúst 2011.  Það sést glöggt að jökultungan hefur styst og jökullin þynnst.  Rýrnun jöklanna er ein afleiðingin af hlýnun jarðar. Ég spái því að jökultungan verði horfin innan fimm ára. Hlutirnir gerast svo hratt.

   Hólárjökull06

   Hólárjökull, 16. júlí 2006. Jökulsporðurinn þykkur og teygir sig niður í gilið.

Hólarjökull 2011

 Hólárjökull, 24. ágúst 2011. Augljós rýrnun á 5 árum. Jökulsporðurinn hefur bæði styst og þynnst.

Sjá:
Hólárjökull 2007 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/259538/
Hólárjökull 2008 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/611572/
Hólárjökull 2009 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/911196/


Síldarmannagötur

Lúxussíld frá ORA smakkast hvergi betur en í Síldarmannabrekkum. Það get ég staðfest og ekki er verra að hafa síldina á nýbökuðu rúgbrauði. Þegar síldinni er rennt niður þá er gott að hugsa aftur í tímann og minnast ferða forfeðranna og lífsbaráttu þeirra við síldveiðar í Hvalfirði.

Síldarmannagötur er þjóðleið, vestri leiðin yfir Botnsheiði sem Borgfirðingar notuðu til að komast  í Hvalfjörð til að veiða og nytja síld, þegar síldarhlaup komu í Hvalfjörð.

Lagt var í ferðina á rútu frá Sæmundi sem er frá Borgarfirði. Gönguferðin um Síldarmannagötur hófst í Botnsvogi í Hvalfirði en búið er að hlaða glæsilega vörðu við upphaf eða enda leiðarinnar og voldugur vegvísir bendir á götuna.

Fyrst er farið upp Síldarmannabrekkur og hlykkjast gatan upp vel varðaða brekkuna. Eftir um klukkutíma göngu og 3,2 km að baki er komið í Reiðskarð sem er á brún fjallsins. Þá blasir við mikil útsýn. Hvalfell og Botnssúlur fanga augað í austri. Múlafjall og Hvalfjörður í suðri og miklar örnefnaríkar víðáttur í austri og norðri.

Við fylgjum Bláskeggsá hluta leiðarinnar en hún er vatnslítil og göngum framhjá Þyrilstjörn á leiðinni um Botnsheiði. 

Hæsti hluti leiðarinnar er við Tvívörðuhæðir en þá sér í aðeins Hvalvatn hið djúpa. Göngumenn eru þá komnir í 487 metra hæð en fjallahringurinn er stórbrotinn. Tvívörðuhæðir eru vatnaskil og gönguskil. Þá tekur að halla undan fæti og ný þekkt fjöll fanga augun.

Okið, Fanntófell, Þórisjökull, Litla og Stóra Björnsfell, Skjaldbreiður og Kvígindisfell raða sér upp í norðaustri og Þverfell er áberandi.  Einnig sést yfir til Englands með Englandsháls og Kúpu í framenda Skorradals.

Rafmagnslínur tvær birtast eins og steinrunnin tröll á heiðinni, Sultartangalína kallast hún og sér bræðslunum Grundartanga fyrir orku.

Mikil berjaspretta var í  grónni hlíð´fyrir ofan bæinn Vatnshorn. Í 266 metra hæð var varla hægt að setjast niður án þess að sprengja á sitjandanum krækiber og bláber.

Hefðbundin endir er við grjótgarð beint upp af eyðibýlinu Vatnshorni og sú leið 12,6 km en við förum yfir Fitjaá og enduðum við kirkjustaðinn Fitjar en þar er glæsileg gistiaðstaða og aðstaða fyrir listamenn.

Jónas Guðmundsson tók myndir af göngugörpum.

Hér er tæplega 5 mínútna myndband um Síldarmannagöngur og er það hýst á Youtube.

Dagsetning: 4. september 2011
Hæsta gönguhæð: 487 m, nálægt Tvívörðuhæð (N:64.26.095 - W:21.20.982)
Hæð Tvívörðuhæðar: 496 metrar
Hæð í göngubyrjun:  35 metrar við vörðu og vegvísi í Botnsvog í Hvalfirði, (N:64.23.252 - W:21.21.579)
Hækkun: Um 452 metrar          
Uppgöngutími Tvívörðuhæð: 170 mín (10:40 - 13:30) - 8,2 km
Heildargöngutími: 360 mínútur (10:40 - 16:40) endað við Fitjar
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd:  16,2 km
Veður kl. 12 Botnsheiði: Léttskýjað, NV 6 m/s, 7,2 °C. Raki 90%
Veður kl. 15 Botnsheiði: Léttskýjað, N 5 m/s, 8,5 °C. Raki 82%
Þátttakendur: Útivist, 40 þátttakendur í dagsferð, Fararstjóri Ingvi Stígsson 
GSM samband:  Já, en fékk á köflum aðeins neyðarnúmer

Gönguleiðalýsing: Vel vörðuð leið frá Hvalfirði yfir í Skorradal. Gatan er brött beggja vegna en létt undir fæti þegar upp er komið.

Facebook staða: Yndislegur dagur, get hakað við Síldarmannagötur. Dásamlegur dagur með Útivistarfólki, eintóm sól og sæla. Takk fyrir mig! Er afar þakklát fyrir þennan dýrðardag.

Facebook staða
: Frábær dagsferð með Útivist í dag um Síladarmannagötur. Góð fararstjórn, skemmtilegir ferðafélagar og ekki skemmdi nú veðrið fyrir alveg geggjað og útsýni til óteljandi fallegra tinda. Get sko mælt með þessari fallegu og þægilegu gönguleið.

Vatnshorn

Vatnshorn er merkilegur bær, þar er upphaf eða endir Síldarmannagötu. Bugðótt Fitjaá rennur í Skorradalsvatn. Góð berjaspretta sem tafði göngumenn.

Þótti mér betur farið en heima setið. Lýkur þar að segja frá Síldarmannagötu.

Heimildir:
Environice - http://www.environice.is/default.asp?sid_id=33463&tId=1
Ferlir - http://www.ferlir.is/?id=4277
Skorradalshreppur - http://www.skorradalur.is/um-skorradal/sildarmannagotur/


Brimbretti við Íslandsstrendur

Sá athyglisvert myndband "Á brimbrettum við Íslandsstrendur í maí" á eyjan.is.

Fjórir félagar frá Bandaríkjunum voru á ferð um Ísland í maí til þess að skoða landið og sinna áhugamáli sínu – brimbrettareið – við strendur landsins.

Þetta er vel gert 9 mínútna kynningarmyndband, góð myndataka og klipping með ágætum. Það er kuldi í myndinni enda var maí kaldur og hrásalagalegur mánuður en kapparnir frá Hawaii voru vel búnir. Hins vegar vantar niðurstöðu um ævintýraferðina á brimbrettum um Íslandsstrendur. Líklegt er að hún sé jákvæð úr því að myndbandið var framleitt og mynd fylgir í kjölfarið.

Ég hitti seint á síðasta ári, Íra sem var mikill brimbrettakappi. Hann var mjög hrifinn af öldunni við suðurströndina og taldi að þarna væru miklir möguleikar í íslenskri ferðaþjónustu. Hann hafði skoðað vel ströndina út af Eyjafjallajökli og fannst hún fullkomin fyrir þetta sport. Öldurnar væru betri en við Írland.

Ég benti honum á að úthafsaldan væri kröftug og hún hefði tekið mannslíf við Vík. Hann óttaðist ekki kraft öldunnar og sagði að brimbrettamenn væru vel búnir.

Fyrir um tíu árum voru brimbrettamenn á Írlandi teljandi á fingrum annarrar handar en nú væri svo mikill áhugi og vöxtur í greininni að hann þekkti varla nokkurn brimbrettamann.

Vonandi verður þetta myndband til þess að kveikja áhuga erlendra brimbrettamanna. Svo er næsta skref að innfæddir fái brimbrettaáhuga og nýti auðlindina og kraft sjávarins. 

Írinn sem ég hitti um áramótin ætlar allavegana að koma aftur til Íslands og þá með brimbrettið sitt.

Nokkrir tenglar um brimbretti og jaðarsport
http://www.arcticsurfers.is/
http://www.grindavik.is/v/7412
http://skemman.is/stream/get/1946/5284/15830/1/LOKA_BS.pdf


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.7.): 9
  • Sl. sólarhring: 15
  • Sl. viku: 312
  • Frá upphafi: 236792

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 245
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband